25.12.2008 17:37

Fimmtudagur, 25. 12. 08.

Á sínum tíma kannaði ég að hvatningu föður míns, hvort ekki væri rétt, að Jón Vigfússon, Bauka-Jón, væri sá í hópi forfeðra okkar, sem síðast hefði orðið biskup. Það reyndist svo. Í nýrri bók Jóns Þ. Þór. sagnfræðings, Bauka-Jón - saga frá sautjándu öld er haft eftir Oddi F. Helgasyni, ættfræðingi, að skráðir afkomendur Jóns og Guðríðar Þórðardóttur, konu hans, lífs og liðnir, séu liðlega 130.000 og þar af segir Jón Þ. Þór, að um 30.000 séu nú á lífi.

Jón Þ. Þór hefur ekki miklar heimildir um Jón að styðjast við en honum tekst að gera efni sínu góð skil með vísan til þess litla, sem til er um Bauka-Jón, og flétta það inn í aldarfarslýsingu og lýsingu á þeim breytingum, sem urðu á stjórn Danaveldis, þegar einveldi konungs og arfríkið kom til sögunnar árið 1661. Aðallinn missti vald sitt til að setja konungsefni skilyrði og nýr valdahópur embættismanna kom til sögunnar. Bauka-Jón hlaut upphefð sína og embætti frá þeim hópi, sem vildi einnig storka fulltrúum gamla kerfisins á Íslandi. Skýrt dæmi um það er, að konungur gerði Jón Vigfússon að biskupi á Hólum - en Jón var ekki prestlærður. Var þetta svar konungs og embættismanna hans við því, að Jón lét af sýslumannsembætti á Mýrum og í Borgarfirði vegna ásakana um að hafa stundað launverslun með tóbak auk þess að hafa móðgað embættismann konungs á þingi á Þingvöllum.

Af bókinni má ráða, að Bauka-Jón hafi verið virkur þátttakandi í einskonar uppreisn að ofan gegn ríkjandi kerfi, þar sem menn handgengir konungi gripu tækifæri á miklu breytingaskeiði til að umbylta stjórnarháttum, sem staðið höfðu um aldir. Byltingin tókst hins vegar ekki nema að hluta og bæði í Danmörku og á Íslandi át hún að nokkru leyti börnin sín. Jón Vigfússon andaðist á Hólum árið 1690 rétt í þann mund, sem hann var dæmdur frá biskupsembætti og eignum sínum á alþingi. Hæstiréttur hnekkti þeim dómi, þar sem ekki væri unnt að veitast að eignum hans látnum eða láta verk hans bitna á ekkju hans og börnum.

Sumir töldu Bauka-Jón göldróttan. Er það tímanna tákn, að orð Jóns Þ. Þór um galdra á sautjándu öld eigi erindi inn í þjóðmálaumræðu líðandi stundar, þegar Eva Hauksdóttir, eigandi Nornabúðarinnar, efnir til svartagaldurs á túninu fyrir framan stjórnarráðshúsið. Jón Þ. Þór segir: „Hvítagaldur var bannaður með lögum og lágu þungar refsingar við því að fara með hann, þótt ekki væru menn líflátnir fyrir þær sakir. Enn verra þótti þó að stunda svartagaldur, en hann var notaður í því skyni að valda öðrum tjóni. Ásakanir um að fólk stundaði svartagaldur tóku að skjóta upp kollinum þegar nokkuð var liðið á sautjándu öldina og frá 1654 til 1685 voru alls tuttugu Íslendingar brenndir á báli fyrir galdur og einn hafði verið brenndur áður, árið 1625.“