22.11.2008 19:16

Laugardagur, 22. 11. 08.

Í dag milli fjögur og fimm var ráðist á lögreglustöðina við Hlemm eins og lýst er hér og hér. Tilefni handtöku þess, sem mannfjöldinn vildi frelsa, var ekki, að hann hefði dregið Bónusfána að húni alþingishússins. Á síðunni www.aftaka.is segir: „En ástæða handtökunnar virðist ekki vera fánagjörningurinn, heldur gamall dómur sem Haukur [hinn handtekni] hefur ekki enn setið af sér.

Sumarið 2006 tók Haukur þátt í aðgerðum á vegum umhverfishreyfingarinnar Saving Iceland og var dæmt að greiða 200 þúsund króna sekt í ríkissjóð. Í stað þess að borga ákvað hann að sitja dóminn af sér í fangelsi.“

Hauki var sleppt úr prísundinni við Hlemm, eftir að ónafngreindur velgjörðarmaður greiddi sektina í ríkissjóð.

Katrín Oddsdóttir, laganemi, flutti ræðu á Austurvelli og hvatti til meiri hörku í mótmælum og sagði þjóðina ekki ætla að láta kúga sig. Félagi í svonefndri neyðarstjórn kvenna, Margrét Pétursdóttir, sveipaði styttu Jóns Sigurðssonar bleikum dúki í tilefni útifundarins og myndir birtust í sjónvarpi af konum, sem köstuðu eggjum í þinghúsið.

Femínistar hafa af þunga risið gegn því, sem þær telja hatur í sinn garð og má þar nefna þessa frásögn af síðunni feministinn.is:

„Karlahópur Femínistafélagsins hélt Hitt undir yfirskriftinni „Er í lagi að hata femínista?“ á Grand Rokk þriðjudagskvöldið 18. mars 2008. Erindi fluttu Katrín Oddsdóttir sérfræðingur í mannréttindum, Atli Gíslason alþingismaður og Sóley Tómasdóttir varaborgarfulltrúi. Fundarstýra var Magga Pé.

Öll gerðu þau Katrín, Atli og Sóley neikvæða umræðu um femínisma að umfjöllunarefni, ekki síst á netinu, og hvernig eigi að bregðast við. Katrín sagði að slíkt ofbeldistal, eða „hate speech“, væri ólöglegt samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðalögum og ætti aldrei rétt á sér. Hún sagði að ofbeldistalið virkaði, það hefði áhrif og mælti með því að það væri rakið og kært. Ef látið er óáreitt að fordæma femínista opnar það gluggann til að fordæma aðra hópa, sagði Katrín. Það var skondin tilviljun að sá fjandskapur sem var til umræðu minnti á sig í bókstaflegri merkingu á fundinum því Katrin var nokkrum sinnum trufluð í ræðu sinni af snyrtilegum og velklæddum herramanni, nokkuð við skál, sem var uppsigað við málflutning hennar. Hann hvarf fljótlega af vettvangi.“