Dagbók: ágúst 2015

Mánudagur 31. 08. 15 - 31.8.2015 18:40

Blaðið La Nuova í Feneyjum birti föstudaginn 28. ágúst frétt þess efnis að héraðs-stjórnsýsludómstóll hefði komist að þeirri niðurstöðu að borgarstjórn Feneyja hefði haft fullan rétt til að loka íslenska skálanum á Feneyja-tvíæringnum hinn 22. maí sl. Þar var að finna frá 8. maí verkið Moskuna eftir Christian Büchel, í afhelgaðri kirkju.  Segir í dóminum að hér hafi ekki verið um sýningaverk ræða heldur stað til trúariðkana. Dómstóllinn sagði að áfram mætti nota hina afhelguðu kirkju, Santa Maria della Misericordia, til að sýna listaverk enda verði farið að fyrirmælum borgaryfirvalda.

Lögmaður borgaryfirvalda, Maurizio Ballarin, fagnar niðurstöðu dómstólsins. Gefið hafi verið leyfi fyrir listaverk en í stað þess hafi komið bænahús, þess vegna hafi verið lögmætt að loka skálanum.

Björg Stefánsdóttir, forstöðumaður Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar sagði í júlí að fyrir dóminn yrðu lögð álit frá listfræðingum og farið yrði fram á skaðabætur frá borgaryfirvöldum í Feneyjum enda væri þetta mikið tjón. Framlag ríkisins til verkefnisins næmi 24 milljónum kr. , afganginn yrði kynningarnmiðstöðin að finna hjá einkaaðilum.

Í rökstuðningi fagráðs kynningarmiðstöðvarinnar sem valdi verkið segir: 

„Christoph Büchel er afar áhugaverður myndlistarmaður, sem hefur skýra afstöðu gagnvart samfélaginu og spyr áleitinna spurninga er varða samsetningu þjóðfélagsins og hlutverk stjórnvalda. Verk hans eru afdráttarlaus og eiga erindi jafnt í íslensku sem alþjóðlegu samhengi. Í verkum sínum sýnir hann fram á mátt listarinnar til að hreyfa við og vekja fólk til umhugsunar um stöðu og þróun samfélaga, skilgreiningar og sjálfsmynd. Með vali á framlagi Christoph Büchel og Nínu Magnúsdóttur lætur Ísland sig alþjóðleg málefni varða með framlagi sínu.”

Mikilli og undarlegri raunasögu er lokið með útskúfun verks á tvíæringnum. Því var greinilega var ætlað að storka heimamönnum. Það tókst og þeir létu ekki bjóða sér það heldur lokuðu íslenska skálanum án þess að brjóta lög þar sem til varð bænahús múslíma í afhelgaðri kaþólskri kirkju.

 

Sunnudagur 30. 08. 15 - 30.8.2015 18:30

Flokksfundi Pírata lauk í dag. Við setningu fundarins laugardaginn 29. ágúst flutti Birgitta Jónsdóttir, þingmaður og samnefnari flokksins, ræðu og kynnti það sem henni væri efst í huga. Setti hún framgang stefnu sinnar um að kollvarpa núgildandi stjórnkerfi sem skilyrði fyrir að hún byði sig fram að nýju.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sem hverfur nú af þingi, trúr fyrirheiti sem hann gaf kjósendum, sagði í samtali við DV 30. maí 2014: Ekkert okkar ætlar að fara fram aftur. Birgitta er búin að margsegja að hún verði ekki á þingi í fleiri en tvö kjörtímabil.“

Birgitta vill að fyrir næstu þingkosningar geri hugsanlegir samstarfsaðilar í ríkisstjórn að kosningunum loknum með sér bindandi samkomulag. Í því felist að á sex mánuðum verði annars vegna lögfest ný stjórnarskrá og hins vegar boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ræða eigi áfram um aðild við ESB. Öll önnur mál verði látin sitja á hakanum þessa sex mánuði en tíminn notaður til agaðrar úttektar á allri stjórnsýslunni. Ráðherra ráði til sín „bestu mögulegu stjórnsýslufræðinga og sérfræðinga í opinni og nútímalegri stjórnsýslu bæði hérlenda sem erlenda og verkstýra þeim í þessari úttekt,“ sagði Birgitta.

Hún vill endurskoða stjórnarráðslögin og „hvort að núverandi ráðuneytakerfi [séu] gagnleg“  Telur Birgitta mikið um „að ráðuneyti séu í opinni samkeppni um fjárlög“. Heildræn stjórnsýsla þar sem heildarvelferð þjóðar og þjóðarbús sé ekki á oddinum „heldur smákónga slagir sem oft bitna á þeim sem kerfið á að þjóna“. Lítur hún helst á Finnland sem fyrirmynd. Næsta kjörtímabil verði aðeins 9 mánuðir.

 „Mér finnst þetta vera verkefni sem ég er til í að leggja allt í sölurnar fyrir og það eina sem gæti orðið til þess að ég treysti mér aftur í framboð. Tilhugsunin um hefðbundið stjórnarfar er mér óbærileg. Ég hef séð hvernig þetta virkar þarna inni í kerfinu og þessi hugmynd er það eina sem mér dettur í hug til að nota þá stjórnmálakrísu sem er nú ríkjandi til að laga grunninn til frambúðar í samræmi við það sem kallað var svo afgerandi eftir í kjölfar hrunsins,“ sagði Birgitta.

Ólíklegt er að aðrir flokkar taki undir þessa stefnu Birgittu og því líklegt að hún verði ekki oftar í framboði fyrir Pírata, megi marka orð hennar.

Laugardagur 29. 08. 15 - 29.8.2015 19:00

Í morgun klukkan átta var sálumessa yfir Árna Gunnlaugssyni lögfræðingi í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Árni var hollur vinur klaustursins í marga áratugi. Systir Agnes sagði í stuttu ávarpi að þegar nunnurnar sem nú eiga klaustrið komu þangað að næturlagi í mars 1984 hefði Árni ásamt fleira fólki tekið á móti þeim með söng. Í morgun kvöddu nunnurnar hann með söng, þær sungu meðal annars lög eftir Árna.

Við veltum fyrir okkur hvað erlendum ferðamönnum þyki merkilegast að skoða í landi okkar. Um það má meðal annars fræðast með því að kynna sér alls kyns lista sem viðurkenndir ferðafrömuðir birta lesendum sínum hvort heldur á prenti eða netinu.

Nýlega birti Lonely Planet lista yfir 500 staði í heiminum sem væri þess sérstakt virði að skoða. Þar voru fimm staðir á Íslandi: Borgarfjörður eystri/Seyðisfjörður, Gullfoss, Jökulsárlón, Snæfellsnes og Vatnajökulsþjóðgarður, sjá hér 

Þá hefur birst í blaðinu The Daily Telegraph listi yfir 30 staði sem menn eigi að skoða áður þeir hverfa yfir móðuna miklu. Þeirra á meðal eru svartar sandstrendur Íslands og norðurljósin, sjá hér. 

Víða um lönd ræða menn á stjórnmálavettvangi hvernig best verði tekið á farand- og flóttamannavandamálinu í Evrópu. Þetta er mikið alvörumál og engin leið auðveld. Nú er hafin söfnun undirskrifta þar sem þess er krafist að tekið verði á móti 5.000 flóttamönnum hér á landi. Þetta sýnir í hvílíkt óefni getur stefnt sé ekki gaumgæfilega íhugað um hvað málið snýst. Um 4 milljónir manna eru í flóttamannabúðum vegna stríðsins í Sýrlandi. Að skapa þessu fólki bærilegan aðbúnað þar í biðinni eftir að stríðinu ljúki er mun líklegra til að létta raunir margra, fleiri en 5.000, en að velja fólk úr þessum hópi til flutnings til annarra landa.

Nýlega voru lögð fram drög að frumvarpi til nýrra útlendingalaga. Stjórnmálamenn ættu frekar á brjóta þau til mergjar og skýra fyrir umbjóðendum sínum hvað í þeim felst en að hefja kapphlaup og hrópa tölur um fjölda fólks sem taka eigi á móti hér á landi sem flóttamönnum. Hvarvetna blasir við að fari stjórnmálamenn of hratt á þessari braut kallar það á vanda sem vex þeim yfir höfuð.

Föstudagur 28. 08. 15 - 28.8.2015 17:10

Ástæða er til að staldra við í umræðum og ákvörðunum um menntamál. Ekki er heppilegt að ný stofnun, Menntamálastofnun, stigi fyrstu skref sín í hörðum ágreiningi um grunnþátt allrar kennslu, lestrarkennslu. Fleira hvetur til aðgátar.

Lárus H. Bjarnason, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, segir í Morgunblaðinu mánudaginn 24. ágúst, að skólinn hafi í haust boðið bæði þriggja og fjögurra ára nám til stúdentsprófs en aðeins 20 (7%) af 260 nýnemum hafi valið þrjú árin. Sannar þetta ekki hve fráleitt er að gefa nemendum ekki áfram val á milli þriggja og fjögurra ára náms í stað þess að setja þriggja ára reglu? „Þorri nemenda stefnir á háskólanám eftir stúdentsprófið og það liggur í loftinu að þriggja ára námið byggist m.a. á því að minnka námið. Það gæti hafa haft áhrif á þetta val,“ segir rektor.

Í Verslunarskóla Íslands stóðu stjórnendur frammi fyrir umsóknum 500 nemenda sem allir voru með yfir 9 í einkunn úr 10. bekk grunnskólans og var 60 þeirra hafna. Í Morgunblaðinu 28. ágúst segir að „prósentubrot“ hafi skilið milli þess hvort nemandi kæmist í skólann eða ekki. Er þetta ekki til marks um óeðlilega einkunnabólgu?

Þá er greint frá því í blaðinu að Menntamálastofnun vilji hæfniseinkunnir gefnar í bókstöfum en að baki þeim „standi lýsingar á hæfni nemenda í aðalnámskrá“.  Ingi Ólafsson, skólastjóri Verslunarskólans, spyr réttilega. „Hvernig eigum við að velja á milli 500 umsókna, þar sem allir eru með einkunnina A?,“ og bætir við: „Satt best að segja vitum við ekki hvernig við ætlum að gera það. Við gælum við þann möguleika að halda inntökupróf og erum að skoða málið.“

Hér stefnir í óefni. Að baki vandræðunum er einföld skýring. Marktæk próf í grunnskólum hafa horfið. Sú skoðun hefur verið viðurkennd að í prófum felist of mikil stýring! Ef mælikvarðar eru á reiki veit enginn hvar hann stendur. Markvisst hefur verið unnið að því að gera foreldrum ókleift að fá upplýsingar um stöðu skóla innbyrðis og þar með hæfni kennara. Samræmd próf eru íþyngjandi fyrir kennara en ekki nemendur. Fyrir hvorn hópinn eru skólarnir?

Fimmtudagur 27. 08. 15 - 27.8.2015 18:15

Viðtal mitt við Kristrúnu Heimisdóttur lögfræðing á ÍNN í gær er komið á netið og má sjá það hér.

Á vefsíðu The Daily Telegraph segir að franska leyniþjónustan hafi sent út viðvörun um að í september kunni hryðjuverkamenn að reyna að granda farþegavél með flugskeyti. Þá hafi franski herinn gert áætlun um hvernig ná megi aftur valdi á hverfi í franskri borg eftir að íbúarnir hafi lagt það undir sig vegna andstöðu við öryggislögregluna og aðgerðir hennar. Haft er eftir heimildarmanni blaðsins að í Frakklandi megi finna svo marga af fjórðu kynslóð innflytjenda sem hafi hrifist af öfgahyggju að við öllu megi búast af þeirra hálfu.

Umræður um öryggismál í þessa veru magnast í Frakklandi eftir atburðinn í hraðlestinni frá Amsterdam til Parísar föstudaginn 21. ágúst þegar vopnaður hryðjuverkamaður var yfirbugaður af þremur Bandaríkjamönnum í hópi lestarfarþega. Sérfræðingar segja óhugsandi að maðurinn hafi verið einn af verki, að baki honum hljóti að hafa staðið skipulegur hópur íslamista sem hafi hafið ofbeldisherferð og muni aðeins herða hana.

Haft er eftir starfsmönnum DGSI, innri öryggislögreglu Frakklands, að þeim sé um megn að auka eftirlit með islömskum ofbeldismönnum sem séu fúsir að fórna lífi sínu til að valda sem mestum skaða. Þeir telja í raun heppni að ekki hafi tekist að vinna mannskæð hryðjuverk í Frakklandi eftir árásina á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París í janúar 2015.

 

Miðvikudagur 26. 08. 15 - 26.8.2015 17:40

Í dag ræddi ég við Kristrúnu Heimisdóttur lögfræðing í þætti mínum á ÍNN. Þáttur verður frumsýndur klukkan 20.00 kvöld.

Hér hefur undanfarna tvo daga verið gagnrýnt að lagt skuli til að fella orðin hælisleitandi og hæli úr íslensku lagamáli eins og gert er í drögum að frumvarpi að nýjum útlendingalögum sem nú eru til kynningar á vefsíðu innanríkisráðuneytisins. 

Í Frakklandi og annars staðar er rætt um hvort nota eigi orðin migrants eða refugiés – það er farandmenneða flóttamenn. Í Le Monde segir að  Al-Jazirasjónvarpsstöðin í Qatar hafi tilkynnt hinn 20. ágúst að framvegis yrði aðeins notað orðið refugié þegar fjallað væri um fólksstrauminn yfir Miðjarðarhaf. Í skýringu stöðvarinnar sagði:

„Safnheitið „farandmenn“ dugar ekki lengur þegar fjallað er um hina hörmulegu atburði á Miðjarðarhafi. Það hefur ekki lengur sömu merkingu og lýst er í orðabókum, í því felast nú fordómar sem draga úr mannúð og stuðla að fjarlægð. […] Orðið kæfir rödd þeirra sem þjást.“

Í Le Monde er bent á að í alþjóðalögum og Genfarsáttmála frá 1951 um flóttamenn sem 145 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna (SÞ) hafa fullgilt sé hugtakið „flóttamaður“ skilgreint, þar sé um að ræða einstakling sem hafi fengið hæli í þriðja ríki. Einstaklingurinn verði að sanna fyrir yfirvöldum móttökuríkisins að sér sé ógnað í heimaríki hans. Flóttamannastofnun SÞ telur ekki nauðsynlegt að hver og einn sanni eigin hættu þegar lífshætta í heimalandinu sé öllum augljós.

 Allir flóttamenn eru farandmenn en allir farandmenn eru ekki flóttamenn. Þeir sem leggja af stað til annarra landa í leit að betri lífskjörum ganga undir heitinu „efnahagslegir farandmenn“. Þessi síðastnefndi hópur veldur einkum pólitískum deilum í mörgum löndum.  Flóttamannastofnun SÞ notar hugtökin „farandmenn“ og „flóttamenn“ saman þegar svo ber undir og sama má segja um Amnesty International og Human Rights Watch. Í samræmi við þetta er sagt að „þar til í dag hafa 292.000 flóttamenn og farandmenn komið sjóleiðis til Evrópu á árinu 2015“.

Hælisleitandi er farandmaður sem hefur lagt fram beiðni um hæli í þriðja landi. Hann breytist í flóttamann þegar hælisvist er samþykkt. Að fella hæli úr lagamálinu er reist á viðleitni til að skapa grátt svæði – slíkt kallar ávallt á vandræði.

 

Þriðjudagur 25. 08. 15 - 25.8.2015 18:40

Í gær var birt niðurstaða nefndar á vegum innanríkisráðuneytisins sem hefur unnið að endurskoðun á útlendingalögunum og meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að það beri að fella niður orðið hælisleitandi úr íslensku lagamáli. Því er meðal annars borið við að þetta sé gert að erlendri fyrirmynd. Hér skal dregið í efa að erlendis eða í ESB-rétti séu áform um að þurrka út hið gamalgróna orð asyl sem er hæli eða griðastaður á íslensku. Hvers vegna í ósköpunum skyldi orðið þurrkað út úr lögum? Fyrir því eru einfaldlega engin efnisleg rök.

Útlendingalög hér á landi taka mið af alþjóðasamningum. Vegna aðildarinnar að Schengen-samstarfinu og EES-samningnum móta þessir samningar inntak löggjafarinnar hér. Útlendingamál, farandfólk og stórfjölgun hælisleitenda setja mjög mark sitt á umræður innan allra Schengen- og EES-ríkja um þessar mundir.

Þýskaland hefur komist í brennidepil umræðnanna undanfarna sólarhringa vegna vaxandi spennu innan lands þar sem mótmælaalda rís gegn hinum mikla fjölda fólks sem streymir skilríkja- og réttindalaus til landsins – talið er að alls verði þetta milli 800 og 900 þúsund manns í ár. „Þýskaland er segull fyrir flóttamenn,“ segir í Frankfurter Allgemeine Zeitung og að þetta megi meðal annars rekja til galla á útlendinga- og hælislöggjöfinni þar sem skilin milli þeirra sem beri að veita aðstoð og hinna sem hafa ekki þörf fyrir hana hafi horfið.

Innan ráðandi ríkja í ESB Þýskalands, Bretlands og Frakklands vex þeirri skoðun fylgi dag frá degi að herða beri reglur til að sporna við straumi ólöglegra innflytjenda. Augljóst er að þetta mun einnig hafa áhrif á Schengen-samstarfið þar sem ríki vilja herða eftirlit á landamærum sínum og skerpa reglur um heimild til þess.

Í ljósi þessara umræðna má segja að niðurstaða útlendingalaganefndarinnar hafi varla getað komið fram á óheppilegri tíma hér á landi ef í henni felst að slaka á kröfum og gera skilyrði vegna hælisleitenda og afgreiðslu umsókna þeirra óljósari.

Mánudagur 24. 08. 15 - 24.8.2015 17:40

Þingmannanefnd sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáv. innanríkisráðherra, skipaði til að endurskoða löggjöf um útlendinga hefur skilað tillögum sínum og hafa frumvarpsdrögin verið kynnt til umsagnar á vefsíðu innanríkisráðuneytisins.

Lagt er til í frumvarpsdrögunum að í stað þess að nota orðin hæli og hælisleitandi verði notuð hugtökin alþjóðleg vernd og umsækjandi um alþjóðlega vernd. Um þetta segir meðal annars í greinargerð:

„Í núgildandi lögum er talað um að veita einstaklingum, sem hingað leita og uppfylla skilyrði þess að teljast flóttamenn, hæli. Meðan mál þeirra er til meðferðar eru þeir kallaðir hælisleitendur. Hér er lagt til að nota heldur hugtakið alþjóðleg vernd og vísa þá til þeirra sem hennar óska sem umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þykir þetta ná betur utan um réttarstöðu þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og er í samræmi við þróun í hugtakanotkun á alþjóðavettvangi.“

Ef til vill er þessi breyting á notkun orða eða hugtaka skýrð betur annars staðar í greinargerð nefndarinnar með frumvarpinu. Skýringin hér að ofan en rýr svo að ekki sé meira sagt. Það er nokkurt nýmæli að orðin asylum og asylum seeker víki fyrir öðrum hugtökum á alþjóðavettvangi. Hvaða hugtök koma þar í staðinn? Í umræðum um þessi mál sem sífellt verða brýnna viðfangsefni á stjórnmálavettvangi er óþjált að tala á íslensku um „umsækjanda um alþjóðlega vernd“ hvernig sem menn orða þetta á erlendum málum.

Á vefsíðunni flóttafólk.is er vísað til heimasíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þar sem segir:

„Oft er orðunum „hælisleitandi” og „flóttamaður” ruglað saman. Hælisleitandi er sá sem segist vera flóttamaður en hefur enn ekki fengið endanlega skorið úr um hvort sú fullyrðing sé á rökum reist.

Í hverju landi fyrir sig hafa stjórnvöld komið á fót kerfi til að ákvarða hvaða hælisleitendur geti öðlast alþjóðlega vernd. Ef, í kjölfar viðeigandi málsmeðferðar, úrskurðað hefur verið að einstaklingur sé hvorki flóttamaður né þurfi á annarri alþjóðlegri vernd að halda, getur hann verið sendur til baka til heimalands síns.“

 

Að afnema muninn á hælisleitanda annars vegar og flóttamanni hins vegar úr íslensku máli er í senn óþarft og óskynsamlegt. Bæði orðin eru gagnsæ og hafa skýra merkingu. Með því að afmá hælisleitanda úr málinu er ekki neinn vandi leystur heldur ýtt undir óskýra hugsun, hún á alls ekki við hér.

 

 

Sunnudagur 23. 08. 15 - 23.8.2015 21:44

Augljóst er að Hillary Clinton á verulega undir högg að sækja vegna rannsóknar á hvernig hún hagaði tölvusamskiptum sínum sem utanríkisráðherra. Málið hefur elt hana frá því í mars og nú um helgina setti það til dæmis mikinn svip á umræður í sjónvarpsþættinum Meet the Press. Þar birtust brot úr ræðum Hillary til að sýna að hvernig þrengt hefur að henni í málinu. Þá var rætt við málsvara hennar meðal demókrata sem töldu hana komast frá tölvubréfunum aðrir voru annarrar skoðunar. Talið er Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, búi sig undir að hlaupa í skarðið ef Hillary neyðist til að draga sig í hlé eða jafnvel fara í prófkjörið hvort sem er.

Innan flokks repúblíkana eykur Donald Trump, auðmaður og fasteignaeigandi, forskot sitt. Athygli beinist ekki síst að honum vegna harðrar andstöðu hans við innflytjendur. Hann vill að reistur verði múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó til að stöðva ólöglega för fólks milli landanna auk þess sem hann vill flytja ólöglega innflytjendur úr landi. Þeim sem finnst hugmyndin um múrinn góð, hafna margir brottvísun og brottflutningi ólöglegu innflytjendanna sem eru um 11 milljónir.

Þetta baráttumál Trumps rímar við það sem ber sífellt hærra í stjórnmálaumræðum í Evrópu. Angela Merkel Þýsklandskanslari sagði á dögunum að hún mundi einbeita sér að vandanum vegna ólöglegra innflytjenda eftir að Grikkir væru komnir á beinu efnahagsbrautina. Um 900.000 innflytjenda leita skjóls í Þýskalandi í ár og til átaka kemur í þýskum bæjum og borgum vegna útgjalda við móttöku þeirra.

 

 

 

 

 

 

Laugardagur 22. 08. 15 - 22.8.2015 17:00

Björt framtíð er furðuleg uppákoma í íslenskum stjórnmálum. Guðmundur Steingrímsson úr Framsóknarflokki stofnaði flokkinn með fólki úr Besta flokki Jóns Gnarrs hinn 5. febrúar 2012. Í fréttatillkynningu frá flokknum sagði þá:: „Á meðal nýbreytni í skipu­lagi má nefna, að flokk­ur­inn mun reka mál­efn­astarf sitt á net­síðu, all­an sól­ar­hring­inn, all­an árs­ins hring, og í for­ystu flokks­ins eru tveir for­menn, sem skulu starfa sam­an og vera sam­mála um stór­ar ákv­arðanir.“

Formaður var kjör­inn Guðmund­ur Stein­gríms­son alþingismaður. Stjórn­ar­formaður var hins veg­ar kjör­in Heiða Krist­ín Helga­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri.

Guðmund­ur var kjör­inn á þing árið 2009 fyrir Framsóknarflokkinn í NV-kjör­dæmi. Árið 2007 bauð hann sig fram fyrir Samfylkinguna í SV-kjör­dæmi og tók sæti á Alþingi sem varaþingmaður nokkrum sinnum. Hann sagði sig úr Fram­sókn­ar­flokkn­um árið 2011 og starfaði sem þingmaður utan flokka þar til hann stofnaði Bjarta framtíð.

Stjórn Bjartr­ar framtíðar skipa 80 manns.  Í hópnum er Andrés Pét­urs­son, formaður Evrópusamtak­anna, hann er titlaður sendiherra flokksins á vefsíðu hans ásamt öðrum ESB-aðildarsinna, Elvari Erni Arasyni.

Heiða Kristín Helgadóttir birti yfirlýsingu á vefsíðu sinni 15. desember 2014 um að hún ætlaði að „sleppa takinu, hleypa öðrum að og freista þess að hafa áhrif á samfélagið með öðrum hætti […] og hvíla dagleg afskipti af stjórnmálum um sinn“.  Var kynnt að hún mundi blása nýju lífi í þjóðfélagsumræður á Stöð 2. Þau áform urðu að engu. Þá kom að því að Heiða Kristín þurfti að taka afstöðu til þess hvort hún tæki sæti á alþingi í haust sem varaþingmaður vegna fæðingarorlofs eins af þingmönnum Bjartrar framtíðar.

Heiða Kristín sagðist ekki setjast á þing nema Guðmundur Steingrímsson hætti sem flokksformaður. Hann varð við ósk hennar og verður nýr formaður kjörinn á flokksfundi 5. september. Guðmundur vill að formannskeflið gangi milli manna í flokknum á sex mánaða fresti enda sé slík skipan í ráðherraráði Evrópusambandsins, þar skiptist ríki á að hafa formennsku. Verður tekist á um þessa aðferð við formennsku í Bjartri framtíð á flokksfundinum.

Á ruv.is er haft eftir Guðmundi að hann verði „helvíti flottur óbreyttur þingmaður“ og hann telur „að þrátt fyrir gagnrýni Heiðu Kristínar muni starf þingflokksins ganga vel og segir að allir séu í stuði“. 

Heiða Kristín íhugar formannsframboð. Um er að ræða valdabaráttu Gnarrista við aðra í flokknum.

 

Föstudagur 21. 08. 15 - 21.8.2015 19:00

Viðtal mitt við Kristján Daníelsson, forstjóra Kynnisferða, á ÍNN má sjá hér.

Á liðnum vetri var tekist á um frumvarp sjávarútvegsráðherra um kvótasetningu á makríl. Þar var gert ráð fyrir að til sögunnar kæmi viðbótarveiðigjald á makríl sem næmi 10 kr. á hvert kíló. Þessu andmæltu útflytjendur á makríl meðal annars með þeim rökum að erfiðlega hefði gengið að fá greitt fyrir makríl í Rússlandi. Mætti rekja það til erfiðs efnahagsástands í landinu, gengishruns rúblunnar, lækkandi olíuverðs, átakanna í Úkraínu og viðskiptaþvingana vegna þeirra. Frumvarpið náði ekki fram að ganga.

Á vefsíðunni Eyjunni birtist hinn 31. mars 2015 viðtal við Hermann Stefánsson, framkvæmdastjóra Icelandic Pelagic dótturfyrirtækis Skinneyjar Þinganess. Hann sagði vissulega rétt að erfiðleikar hefðu verið í Rússlandi. „Það kemur örugglega niður á öllum sem eru að vinna á Rússlandsmarkaði, þeir erfiðleikar. Þeir eru að glíma við sömu vandamál og við 2008, hrun gjaldmiðilsins og þeir sem eru að flytja út þangað hafa fundið fyrir því.“

Hermann taldi einhverja milljarða hafa verið útistandandi vegna makríls haustið 2014 en það hefði gengið verulega á þær upphæðir. „Markaðslega“ væri næsta makrílvertíð „í fullkominni óvissu“. Mögulega þyrfti því að leita nýrra markaða, í Afríku eða Kína, svo dæmi væri tekin. „Rússland er hins vegar sá markaður sem hefur dregið vagninn í verði, þeir hafa alltaf borgað hæst verð fyrir makríl. Ef að Rússland verður ekki stór „player“ í makríl mun það hafa áhrif á öðrum mörkuðum. Það er ekki ólíklegt að verð fari lækkandi ef staðan verður þá eins og hún er í dag,“ sagði hann.

Í viðtali sem birtist á kvotinn.is hinn 12. júní 2015 sagði Hermann að „ágætir möguleikar“ væru á útflutningi til landa í Afríku, eins og verið hefði síðustu ár, og þá einkum til Nígeríu. Hinn 10. ágúst 2015 sagði Hermann við Morgunblaðið að þrátt fyrir að ekki hefði verið selt út til Rússlands í vikunni þar á undan hefði sala verið góð í júlí. Fyrirtækið yrði vart við aukinn áhuga viðskiptavina sinna og vilja þeirra til þess að kaupa eins mikið og hægt væri sem fyrst ef til viðskiptabanns kæmi.

Er þetta ekki hið raunsæja mat? Er ekki skynsamlegt að það ráði för í þessu máli í stað upphrópana?

 

 

Fimmtudagur 20. 08. 15 - 20.8.2015 18:00

Í grein í Morgunblaðinu í dag segir Guðmundur Ingason, eigandi og framkvæmdastjóri söluskrifstofu með sjávarafurðir til útflutnings, G. Ingason hf., síðan 1987:

„Þú [svo!] verðum við bara að vona að Pútín eða rússneska þingið hafi vit fyrir okkur, fyrst við getum það ekki með þessa nýju íslensku „pólitíkusa“. Ekki gott að blanda saman viðskiptum og stjórnmálum, sérstaklega þegar það bitnar svona alvarlega á okkur sjálfur og þjóðarhag.“

Þetta er sérkennilegt viðhorf í ljósi framkomu Valdimírs Pútíns og félaga við nágrannaþjóðir sínar og raunar okkur Íslendinga líka með því að setja innflutningsbannið á makríl og aðrar fiskafurðir. 

Greinarhöfundur lætur ekki við það eitt sitja að krefjast þess af lesendum blaðsins að þeir líti á mál frá sjónarhóli Pútíns heldur taki þeir einnig á sig skömm vegna verka hans og leiti síðan ásjár hjá honum. Þetta ber okkur að gera í von um það dugi til að fá Pútín ofan af ákvörðun hans um að banna innflutning á matvælum frá Vesturlöndum. Hann hefur þó ekki bannað munaðarvörurnar sem rússneska yfirstéttin vill njóta áfram.

Forseti neðri deildar rússneska þingsins, Dúmunnar, gekk nýlega fram fyrir skjöldu með magnaðri árás á Bandaríkjamenn og sakaði þá um að vilja gera Rússland gjaldþrota, sjá hér. Þennan mann og þingbræður hans á einnig að kalla á Íslendingum til bjargar.

Af hinum tilvitnuðu orðum verður helst ályktað að höfundur þeirra hafi ekki minnstu hugmynd um hvað þessi ágreiningur við Rússa snýst. Viti hann það en láti samt þessi orð falla á hann sér fátt til málsbóta.

Nú hefur verið tilkynnt að Marriott-hótelkeðjan hafi ákveðið að taka að sér rekstur hótelsins sem rís við hafnarbakkann hjá Hörpu. Þarna rísi fyrsta fimm stjörnu hótel landsins undir lúxusmerki Marriott-keðjunnar – Marriott Edition hótel. Þar verða 250 her­bergi auk veislu og fund­ar­sala, fjölda veitingastaða og heilsu­lindar.

Það verður dýrt að gista á þessum stað enda varla annað í spilunum miðað við kostnað við að byggja þarna og gjöld og álögur á hótelstarfsemi í landinu. Sé farið inn á vefsíðu Marriott Edition má sjá að glæsileikinn er ekki falinn og áform eru um að hótelum í þessum gæðaflokki fjölgi nokkuð á næstu árum. Verði Reykjavík skotið inn í framkvæmdaröðina á síðunni má segja að ekki sé leiðum að líkjast – eða hvað?

 

 

Miðvikudagur 19. 08. 15 - 19.8.2015 18:15

Í dag ræddi ég við Kristján Daníelsson, forstjóra Kynnisferða, í þætti mínum á ÍNN. Kynnisferðir eru stórfyrirtæki á íslenskum ferðamarkaði. Við Kristján ræddum starfsemi fyrirtækisins og þróunina í ferðamálum.

Síðdegis í dag var tilkynnt að SÍA II, fram­taks­sjóður í rekstri Stefn­is, hef­ði gengið frá kaup­um á 35% hlut í Kynn­is­ferðum. Selj­and­inn væri fjár­fest­inga­fyr­ir­tækið Alfa ehf. Í tilkynningu Kynnisferða sagði Kristján Daníelsson að rekstur fyrirtækisins hefði „tekið mikl­um breyt­ing­um á liðnum árum“, haldið yrði áfram að „stækka og efla fé­lagið á kom­andi árum“ með þátttöku hinna nýju fjárfesta.

Þeir sem horfa á samtal okkar Kristjáns munu fræðast um starfsemi Kynnisferða. Þátturinn verður sýndur á ÍNN í kvöld klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun. Þeir sem nota myndlykil sem gerir tímaflakk kleift geta séð þáttinn hvenær þeir kjósa eftir kl. 20.00.

Síldarvinnslan ehf. á Neskaupstað hélt aðalfund í dag. Í tilkynningu félagsins um fundinn segir að á honum hafi verið samþykkt að fresta afgreiðslu um ráðstöfun hagnaðar.  Ástæða þess sé hætta á að innflutningsbann til Rússlands á afurðum félagsins hafi áhrif á fjárstreymi þess til skamms tíma.  Verkfall dýralækna í 9 vikur í vor og innflutningsbann Rússa skapi óvenju háa  birgðastöðu félagsins.  Óvissa sé um útistandandi kröfur á stóra viðskiptavini í Rússlandi vegna innflutningsbannsins, 40% af framleiðslu uppsjávarvinnslunnar hafi farið á Rússlandsmarkað.  Í ljósi þessa hafi verið tekin ákvörðun um að fresta ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar vegna ársins 2014. Ekki verður grípið til uppsagna vegna innflutningsbannsins.  Starfsfólk fyrirtækisins geri sér hins vegar grein fyrir því að vinnan geti dregist saman einkum vegna tapaðra loðnumarkaða. 

Ákvörðun um frestun aðgreiðslunnar er tekin nokkrum sólarhringum eftir að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra svaraði gagnrýni forstjóra Síldarvinnslunnar á stuðning við viðskiptabann á Rússa vegna yfirgangsins í Úkraínu meðal annars á þann veg að eigendur Síldarvinnslunnar ættu að bíða með að greiða sér út arð á næsta aðalfundi fyrirtækisins svo að nota mætti þá fjármuni til að dempa höggið vegna ákvörðunar Rússa um að setja innflutningsbann á íslenskar sjávarafurðir. 

Þriðjudagur 18. 08. 15 - 18.8.2015 18:30

Hér er forvitnilegt innlegg í umræðurnar um makríl og Rússa sem birtist á visir.is í dag (18. ágúst):

„„Við erum í ágætum málum. Þetta er mikill skaði fyrir okkur en við erum ekkert að drepast.“ Þetta segir Guðmundur Kristjánsson, sem kenndur er við Brim, um stöðuna vegna viðskiptabanns Rússlands. Brim hefur nú selt mest af sínum makríl til Afríkulanda á borð við Egyptaland og Gana og eiga ekki miklar birgðir eftir.

„Auðvitað fengum við lægra verð, en við fengum samt miklu hærra verð en ef við hefðum þurft að bræða þetta.“

Guðmundur segir bannið vera mikið högg fyrir útgerðir en það hefði mátt vera fyrirséð að svo myndi fara þar sem Rússar hafi sett viðlíka bönn á önnur lönd í fyrra. Þá telur hann að ekkert fyrirtæki muni fara á hausinn vegna bannsins. Þau sé vön verri höggum.

Hann segir að viðskiptabann Rússlands sé pínulítið áfall miðað við veiðigjöldin 2012 og 2013. Nú framleiðir Brim makríl fyrir einn milljarð, en hefði hann verið seldur til Rússlands hefðu fengist 1.200 milljónir fyrir hann. Þá segir hann að fyrirtækið hafi greitt um einn og hálfan milljarð í veiðigjöld árin 2012 og 13.“

Að ofan birtist sjónarmið sem er í andstöðu við það sem áður hefur birst hér á síðunni, haft eftir nafngreindum mönnum sem sögðu makríl svo sérstakan í íslenskri lögsögu að ekki væri unnt að selja hann annað en til Rússlands. Þær fullyrðingar eru greinilega ekki réttar – það er unnt að finna aðra markaði.

Í fréttum segir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi kallað rússneska sendiherrann til fundar við sig í von um að geta fengið Rússa ofan af innflutningsbanni sínu. Ólafur Ragnar gat minnt sendiherrann á að 19. mars 2014 hafi hann í Bodö í Norður-Noregi á ráðstefnu i Nordland-háskóla sett ofan í við aðstoðarráðherra í norska utanríkisráðuneytinu fyrir að fara gagnrýnisorðum um yfirgang Pútíns og félaga á Krím-skaga og gagnvart Úkraínu. Taldi Ólafur Ragnar að með slíku tali væri unnt að eyðileggja 10 ára viðleitni til að efla samstarf norðurskautsríkjanna á einni klukkustund.

Mánudagur 17. 08. 15 - 17.8.2015 20:45

Af umræðum hér á landi um viðskiptabannið á Rússa mætti ætla að menn teldu að í því fælist að bannað sé að selja matvæli til Rússlands. Málum er ekki þannig háttað heldur hafa Pútín og félagar ákveðið að setja matvæli frá ríkjunum sem standa að viðskiptabanninu á heimatilbúinn bannlista til að koma höggi á matvælaframleiðendur í þessum löndum.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki skuldbundið sig til að banna útflutning á matvælum til Rússa – það er Pútín sem vill ekki sjá makríl eða önnur matvæli frá Íslandi. Það er því hann sem hefur rofið 70 ára viðskiptatengsl Íslendinga og Rússa. Hann sættir sig ekki við að því sé mótmælt að hann braut alþjóðalög með innlimun Krímskaga í Rússland.

Þegar listinn yfir bannaðgerðir í nafni EES-ríkjanna gagnvart Rússlandi er lesinn er erfitt að sjá að nokkuð af þeim snerti Íslendinga eða íslensk fyrirtæki beint. Að Pútín mundi svara aðgerðum sem snerta þátttöku í starfi G8 ríkjahópsins, ferðafrelsi nokkurra tuga Rússa, fjármálasamskipti við sérgreind rússnesk fyrirtæki, sölu vopna og hátæknibúnaðar með því að skrúfa fyrir fiskinnflutning frá Íslandi er harla langsótt svo að ekki sé meira sagt.

Á tíma Sovétríkjanna gilti bann við sölu hátæknibúnaðar frá Vesturlöndum til þeirra. Árið 1987 lentu norsku Kongsberg-vopnasmiðjurnar til dæmis í miklum vandræðum þegar Bandaríkjamenn ákváðu að refsa þeim fyrir að selja hátæknibúnað til japanska fyrirtækisins Toshiba sem sagt var að hefði síðan selt hann til Sovétríkjanna sem búnað til að gera kafbáta hljóðlátari. Gro Harlem Brundtland, þáv. forsætisráðherra Noregs, ritaði Ronald Reagan Bandaríkjaforseta afsökunarbréf og baðst vægðar fyrir ríkisfyrirtækið Kongsberg,

Enginn hefur haldbæra skýringu á hvers vegna Pútín grípur til þess óheillaráðs að banna innflutning á matvælum frá Vesturlöndum og kallar yfir sig reiði heimafyrir. Bent er á að hann vilji ef til vill ýta undir þá tilfinningu meðal Rússa að þeir séu umkringdir óvinum og efla þannig stuðning við sjálfan sig, hetjuna sem allir óttist. Ekki er þó allt sem sýnist í Kremleins sjá má hér.

Sunnudagur 16. 08. 15 - 16.8.2015 22:00

Sannkallaðir hátíðartónleikar voru í Hallgrímskirkju í dag (og í gær) þegar oratorían Salómon  eftir Händel var flutt þar í fyrsta sinn á Íslandi undir stjórn Harðar Áskelssonar af Mótettukór Hallgrímskirkju, Alþjóðlegu barokksveitinni í Den Haag og frábærum einsöngvurum. Þetta er mikið verk í þremur þáttum og tók flutningurinn alls 3 stundir og 45 mínútur (með tveimur hléum). Í dag var kirkjan þéttsetin og fögnuðu tónleikagestir flytjendum innilega eins og við átti eftir hinn glæsilega flutning.

Kirkjulistarhátíð hófst í Hallgrímskirkju sl. föstudag og er flutningur Salómons mesta stórvirki hátíðarinnar. Listaverk eftir Helga Þorgils Friðjónsson prýða kirkjuna, þar á meðal fimm málverk sem sýna krossfestinguna að baki altari hennar. Niður úr lofti kirkjunnar hangir stórt málverk eftir Helga Þorgils sem upphaflega var til sýnis skammt frá Öxarárfossi á Þingvöllum árið 2000 þegar minnst var 1000 ára afmælis kristni á Íslandi. Þar málar Helgi Þorgils ský á bláum himni.

Að þetta stóra málverk hangi þarna yfir kirkjugestum um miðbik kirkjunnar hefur að sjálfsögðu áhrif á hljómburð. Var greinilegt á tónleikunum í dag að málverkið þéttir og skerpir hljóminn, bætir hann með öðrum orðum. Hljómur Mótettukórsins var einstaklega magnþrunginn.

Í gær sagði ég hér frá vandræðum mínum vegna þess að ég fór að hvatningu Microsoft og uppfærði stýriforrit tölvu minnar úr Windows 7 í Windows 10. Í dag leysti ég vandann með því að fara aftur í Windows 7. Microsoft ætti að fullhanna þessi forrit sín áður en þau eru sett í loftið. Að nota viðskiptavini sína sem tilraunadýr er ekki til fyrirmyndar.

Laugardagur 15. 08. 15 - 15.8.2015 19:30

Reynsla mín af uppfærslu nýjunga frá Microsoft er ekki góð en þó læt ég ekki eftir mér að skipta við Apple nema með kaupum á iPhone og iPad. Nú hef ég uppfært úr Windows 7 stýrikerfi í Windows 10. Það tekur um það bil 45 mínútur og er í sjálfu sér ekki flókið. Þeir sjá um það allt hjá Microsoft, segja manni bara að taka því rólega.

Eftir uppfærsluna þarf að tryggja að forrit í tölvunni falli að stýrikerfinu. Allt virtist ætla að smella ljúflega saman þar til ég opnaði Word-forritið sem er hluti af Office 365 frá Microsoft. Á Word-síðunni birtist tilkynning um villu og var boðist til að laga hana. Þótt boðinu væri tekið gerðist ekkert.

Næsta skref var að leita hjálpar hjá Microsoft. Á vefsíðu fyrirtækisins birtist nafn Bryans. Hann svarar spurningum um þetta vandamál. Það snertir ekki aðeins Word. Aðrir glíma við að Excel eða Power Point verða óvirk eftir uppfærsluna. Bryan segir að þeir hjá Microsoft viti um þennan vanda og séu að „vinna í“ að leysa hann. Hann gefur ráð og fullyrðir að annað þeirra eða bæði eigi að gulltryggja farsæla lausn. Það er ekki reynsla mín. Eftir tilraunir í nokkra klukkutíma eftir forsögn Bryans er ég enn með lokað Word-forrit.

Af langri tölvureynslu á ég varadekk. Fyrir nokkrum árum hóf ég líka viðskipti við Dropbox og hef því aðgang að öllum skjölum „í loftinu“ án tillits til þess hvaða tölvu ég nota.

Í samskiptum við Microsoft undrast ég ekki vandræði af einhverju tagi. Þeir hefðu til dæmis mátt afmá þennan ágalla áður en þeir buðu mér að uppfæra í Windows 10. Vandræði mín eru þó smáræði miðað við það sem lesa má í bréfum til Bryans frá fólki sem á afkomu sína eða árangur í skóla undir því að geta lokið tölvuverkefni sínu fyrir ákveðinn tíma. Bryan lofar engu um hvenær hann leysir vandann.

Vafalaust líkar mér vel við Windows 10 ef ég kemst inn í Word. Án Word-aðgangs er stýrikerfið hins vegar stórgallað. Microsoft heldur að vísu að mér Bing-leitarforritinu sínu og eigin vafra. Þar ætla ég að halda mig áfram við Google og einnig Chrome fái ég að gera það í friði.

Föstudagur 14. 08. 15 - 14.8.2015 19:15

Furðulegt er að lesa ummæli ýmissa í netheimum eftir að Rússar ákváðu að beita okkur því óvinabragði að setja bann á innflutning á fisk. Bitnar ákvörðun þeirra um að beita ríki utan ESB ofríki líklega þyngst á okkur og brýtur í bága við allt sem viðgengist hefur í viðskiptum þjóðanna í tæpa sjö áratugi. Sovétmenn voru beittir viðskiptaþvingunum með banni á sölu hátæknivarnings til þeirra. Á þeim tíma seldu Kremlverjar Íslendingum á hinn bóginn olíu og keyptu af okkur ýmsan varning. 

Nú lætur Pútín eyða matvælum frá Vesturlöndum í beinni útsendingu og veldur þjóð sinni skaða með því að loka fyrir innflutning á sjávarafurðir (fyrir utan kavíar frá Ítalíu) þá rísa hér upp menn hver um annan þveran og skamma íslensk stjórnvöld og kalla Pútín „Íslandsvin“ eins og lesa mátti hjá einhverjum. Hvílíkur málflutningur.

Skömmu eftir að Pútín innlimaði Krím í mars 2014 í trássi við alþjóðalög kynnti Gunnar Bragi Sveinsson hörð mótmæli íslenskra stjórnvalda, lýsti þjóðaratkvæðagreiðslu á Krím marklausa og sagði að sem EES-ríki mundi Ísland taka þátt í viðskiptaþvingunum með öðrum EES-ríkjum, það er Noregi og Liechtenstein auk ESB-ríkjanna. Ekkert af þessu fór leynt eins og sjá má í fjölmiðlum þess tíma. Að Íslendingar hefðu sagt skilið við þennan ríkjahóp á þessum örlagatíma var fráleitt.

Frá því að þetta gerðist hefur Pútín ekki haldið að sér höndum á hernaðarsviðinu. Eins og sjá má hér segja sérfróðir menn að heræfingar Rússa annars vegar og NATO hins vegar sýni að aðilar búi sig undir átök. Pútín hefur stóreflt rússneska herinn á norðurslóðum og nú er boðað stóraukið sóknarafl hersins við landamæri Finnlands, Eystrasaltsríkjanna og Póllands.

Við þessar aðstæður keppast hinir ólíklegustu menn við að búa til einhvern séríslenskan veruleika þar sem talað er um íslensk stjórnvöld eins og örlagavald þegar allt ofríkið er í boði Pútíns og félaga. Ríkisstjórn og utanríkismálanefnd alþingis standa fast við ákvörðunina sem var tekin strax í mars/apríl 2014. Að hopa frá henni er óðs manns æði.

Í fréttum í dag segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi rætt málið í síma við rússneskan starfsbróður sinn Dmitríj Medvedev. Takist íslenskum stjórnvöldum að fá Kremlverja til að láta af ofstæki sínu ber að fagna því. 

Fimmtudagur 13. 08. 15 - 13.8.2015 19:30

Viðtal mitt við Hörð Áskelsson, organista í Hallgrímskirkju, á ÍNN í gær má sjá hér.

BHM tapaði að sjálfsögðu málinu sem það höfðaði gegn ríkinu vegna laganna sem alþingi samþykkti til að stöðva verkfall félagsins og verkfall hjúkrunarfræðinga. Hæstiréttur hafnaði kröfu BHM í dag. Fyrir setningu laganna voru skýr efnisrök sem er á valdi alþingismanna að meta, formlega var staðið rétt að setningu laganna. Hefði hæstiréttur orðið við kröfu BHM hefði hann einfaldlega farið inn á verksvið löggjafans.

Niðurstaðan fellur að þeirri skoðun að Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, sé einfaldlega í pólitískri herferð gegn ríkisstjórninni með því að beita sér fyrir þessum málaferlum. Henni og Páli Halldórssyni, formanni samninganefndarinnar, er um megn að semja fyrir umbjóðendur sína af flokkspólitískum ástæðum og þess vegna kemur í hlut gerðardóms að ákvarða laun félaga í BHM.

Í dómi hæstaréttar segir:

„Þegar takmarkanir voru settar á framangreind réttindi [verkfalls- og samningsréttindi] með lögum nr. 31/2015 má telja að fullreynt hafi verið að kjaradeilunni yrði lokið með samningum, en stefndi [ríkið] mátti í ljósi þess, sem fyrr greinir, telja sér bera að gæta að almannaheill af efnahagslegum ástæðum með því að ganga ekki til samninga við aðildarfélög áfrýjanda, sem hefðu getað stefnt víðtækum kjarasamningum annarra í uppnám. Verður að þessu virtu að líta svo á að stefndi hafi með réttu mátt telja nauðsynlegt að grípa til lagasetningar til að ljúka þessari kjaradeilu, sem fól samkvæmt áðursögðu í sér ógn við almannaheill og skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum annarra, enda verður ekki séð að önnur úrræði hafi staðið til boða.“

Þegar dómurinn liggur fyrir kýs formaður BHM að túlka hann á þann sérkennilega hátt að hæstiréttur boði breytingar í samskiptum á vinnumarkaði, samflot þar sé ekki eins sjálfsagt og áður.

Hæstiréttur hefur einfaldlega ekkert um það að segja hvort aðilar vinnumarkaðarins kjósa að eiga samflot eða ekki enda mæla lög ekki fyrir um slíkt. Túlkun formanns BHM snýst um eitthvað annað en þennan dóm.

Hafi það verið pólitískt markmið með aðgerðum BHM undir forystu Þórunnar Sveinbjarnardóttur að auka fylgi Samfylkingarinnar hefur einnig mistekist að ná því ef marka má skoðanakannanir.

 

Miðvikudagur 12. 08. 15 - 12.8.2015 21:15

Í dag ræddi ég við Hörð Áskelsson, organista í Hallgrímskirkju, í þætti mínum á ÍNN og má næst sjá hann kl. 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.  Á tímaflakki Símans sést þátturinn fram á helgi. Við ræðum liststarfsemi í Hallgrímskirkju og sérstaklega Kirkjulistarhátíðina sem hefst nk. föstudag og um helgina verður óratorían Salómón eftir Händel flutt í kirkjunni – frumflutningur á henni á Íslandi.

Þegar rætt er um viðskiptabann Vesturlanda á Rússland vegna yfirgangs Rússa í Úkraínu er látið eins og ekkert bann hafi verið á viðskiptum við Sovétríkin. Vissulega var slíkt bann í gildi varðandi ýmsar hátæknivörur, einkum þær sem nota mátti til hernaðar. Sovéskir ráðamenn stjórnuðu viðskiptum við Vesturlönd á annan hátt en Pútín gerir. Þeir hefðu ekki gripið til sama ráðs og Pútín þegar hann birtir sjónvarpsmyndir af jarðýtum eyðileggja vestræn matvæli eða af brennsluofnum sem notaðir eru til að granda þeim örugglega á varanlegan hátt.

Í erlendum fjölmiðlum má lesa að eitt muni Pútín aldrei banna, það er innflutning á kavíar frá Ítalíu – hann komi nú helst í stað illfáanlegs rússnesks kavíars. Át á kavíar er stöðutákn Pútíns og félaga, án hans geta þeir ekki verið Í fjölmiðlum tengdum forsetanum er hins vegar hneykslast á ásókn almennings í parmesan-ost frá Ítalíu og spurt hvaða lífsnauðsyn kalli á að neysla hans sé leyfð í Rússlandi.

Forvitnilegt væri að vita hvort hin nýja rússneska yfirstétt neytti makríls. Það ætti að létta íslenskum fiskverkendum róðurinn. Hefur utanríkisráðuneyti Íslands kannað neysluvenjur háttsettra rússneskra ráðamanna á makríl? 

Þriðjudagur 11. 08. 15 - 11.8.2015 17:00

Gerjunin á vinstri kanti stjórnmálanna nær ekki aðeins til Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar þar sem formenn eiga um sárt að binda heldur einnig til Pírata þar sem nýr þingmaður tekur sæti þegar þing kemur saman að nýju. Hún heitir Ásta Guðrún Helgadóttir, sagnfræðingur að mennt og yfirlýstur feministi sem meðal annars hefur unnið á ESB-þinginu og nú síðast hjá The Democratic Society. Samtökin eiga heimavöll í Bretlandi. Markmið þeirra er að stofna til samskipta milli einstaklinga sem hafa áhuga á njóta réttar síns til að hafa áhrif á stjórnmál, ræða þau og breyta þeim.

Ásta Guðrún skrifar í dag grein í Kvennablaðið sem lesa má hér . Þar ræðir hún um svonefnt deilihagkerfi og beinir sjónum sínum sérstaklega að vefsíðunni AirBnB og segir meðal annars:

„AirBnB virðist því vera draumur fjárfestisins og frelsi fyrir ferðamanninn – en martröð fyrir fólk sem vill búa á þessu svæði án þess að þurfa að lifa á núðlusúpum einum saman.“

Hún tekur upp hanskann fyrir þá sem hún vill ekki að þurfi „að lifa á núðlusúpum einum saman“ og lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Markaðurinn er mannanna verk og við þurfum að taka meðvitaðar ákvarðanir um hvernig við viljum að hann virki svo að hann endi ekki í hruni. Það má alveg íhuga það hvort setja eigi sérstakar reglur um heimagistingu með hugmyndafræði deilihagkerfsisins að leiðarljósi og setja þannig skýr mörk á milli þess að deila sín á milli og að vera með íbúð til leigu á kapítalískum forsendum.“

Í þessum orðum birtist gamalkunn hugmyndafræði þeirra sem vilja sem mest opinber afskipti og stjórn. Píratar sigla undir fölsku flaggi, viðurkenni þeir ekki að hér er um vinstristefnu að ræða. Ofstjórn hennar stangast á við nafn flokksins svo að ekki sé meira sagt.

Í þingflokki Pírata eru þrír þingmenn. Aðhyllast þeir allir þessa stefnu nýja þingmannsins í hópnum? Hefur verið samþykkt innan flokksins að hefja sókn gegn AirBnB undir merkjum hans?

Í París eru um 50.000 íbúðir á vefsíðunni. Þar ræða menn ekki um „núðlusúpur“ þegar talað er um röskun á markaðnum vegna hennar heldur að lúxushótelin missi spón úr aski sínum. 

Mánudagur 10. 08. 15 - 10.8.2015 17:00

París er ein mesta ferðamannaborg heims, kannski sú mesta. Árið 2014 sóttu 22 milljónir manna hana heim. Þarf því engan að undra þótt mannmergð sé mikil á stöðum með mest aðdráttarafl. Reyndin er einnig sú að stundum er erfitt að komast leiðar sinnar í mannhafinu. Í neðanjarðarlestum eru fluttar tilkynningar um aðgæslu vegna vasaþjófa. Í maí lögðu starfsmenn í Eiffel-turninum niður störf í 6 tíma til að mótmæla skorti á vernd fyrir gesti sína gegn vasaþjófum. Þeir hefðu allt að 4.000 evrum á dag við iðju sína í kringum turninn. Þá var skýrt frá því að í sumar mundu 26.000 lögreglumenn og verðir á vegum borgarinnar gæta öryggis í París.

Undanfarin ár hefur tíðkast að létta á innheimtu í stöðumælum í borginni í ágúst. Nú hafa andmælendur einkabílsins í borgarstjórninni knúið fram afnám þessarar ívilnunar.

Á bökkum Signu hefur enn á ný verið mynduð baðströnd í miðri borg. Þar á næstu daga að efna til Tel-Aviv-dags. Mótmæla andstæðingar Ísraels og vinir Palestínu því. Borgarstjórnin segist ekki ætla að láta undan þessum þrýstingi – það jafngilti uppgjöf fyrir öfgahyggju. Eftir að gíslar voru teknir í gyðingaverslun í París á liðnum vetri fjölgaði gyðingum sem töldu öryggi sínu ógnað í Frakklandi og fluttu til Ísraels.

Atburðir vetrarins, árásin á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo og almenn andúð á hryðjuverkamönnunum hefur fækkað heimsóknum ferðamanna frá Mið-Austurlöndum. Margir þeirra hafa árum saman lagt leið sína á dýrustu hótel borgarinnar, dýrustu veitingahús og verslanir.

Hagur þessara fyrirtækja hefur þrengst fyrir bragðið auk þess keppa lúxus-hótelin nú við Airbnb. Árið 2012 bauð Airbnb 7.000 íbúðir í öllu Frakklandi en nú eru þær 50.000 í París einni. Í boði eru íbúðir sem keppa við það besta sem hótelin bjóða, 380 til 400 íbúðir fyrir meira en 500 evrur á nóttu, þar af um 40 fyrir meira en 1.000 evrur og unnt er að leigja fyrir 1.700 evrur næturgistingu í íbúð sem sagt er að Brigitte Bardot hafi átt með 140 fermetra svölum og útsýni yfir alla borgina.

Hvarvetna þar sem keppt er um hylli ferðamanna þarf að hafa augun opin, bæta aðstöðu og standast keppinautunum snúning. Meðal þeirra ráða sem gripið er til í París er að heimila að hafa stórverslanir opnar á sunnudögum. Gestir frá fjarlægum löndum kusu London frekar en París til að geta verslað á sunnudögum. 

 

Sunnudagur 09. 08. 15 - 9.8.2015 17:00

Í dag læt ég lokið umræðum hér á síðunni – í bili að minnsta kosti – um sölu á makríl eða réttara sagt um vandræðin við sölu á makríl vegna þess að æ erfiðara verður að átta sig á hinu rétta í málinu – það er hvort Rússar hafi yfirleitt sett nokkurt innflutningsbann á íslenskan makríl eða hvers vegna.

Á vefsíðunni ruv.is má í dag lesa endursögn á viðtali við kunnáttumann um Rússlandsmarkað fyrir makríl, Teit Gylfason sölustjóra hjá Iceland Seafood. Hann segir að fréttatilkynning frá ESB hinn 27. júlí hafi „komið málinu af stað“. Þar sé Ísland talið með ríkjum sem hafi framlengt viðskiptabann gagnvart Rússum til loka janúar 2016. Minnt er á að í fyrra hafi Rússar ekki sett innflutningsbann á vörur frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Nú hafi Ísland hins vegar orðið „áberandi“ í umræðunni um viðskiptabannið. Þá segir á ruv.is:

„Teitur segir Rússa túlka það sem aukinn þrýsting af hálfu Íslands að landið sé sérstaklega nefnt í fréttatilkynningunni, þó að engin breyting á afstöðu íslenskra stjórnvalda felist í henni.

Viðskiptaþvinganirnar gegn Rússum beinast aðallega gegn fjármálastofnunum tengdum ríkisstjórninni og sölu hergagna. Þetta snertir Ísland lítið. Íslendingar sluppu við innflutningsbann Rússa í fyrra en það gæti breyst.

Ríkisstjórn Rússlands hefur skipað nefnd, sem forsætisráðherrann Dmitry Medvedev stýrir, sem fer yfir löndin sem birtust í umræddri fréttatilkynningu. Þýðir þetta að Rússar taki málið alvarlegar en áður?

Teitur segir það allavega gagnvart þeim löndum sem birst hafi í fréttatilkynningunni og þeir hefðu ekki veitt athygli áður.“

Er þetta rétt skýring hjá Teiti? Að Rússar átti sig fyrst núna á að Íslendingar eigi aðild að viðskiptabanni vegna fréttatilkynningar frá ESB? Hefur nafn Íslands aldrei fyrr birst í slíkri tilkynningu? Var það gert nú með samþykki íslenska utanríkisráðuneytisins? Vildi ráðuneytið auka þrýsting á Rússa?

Íslendingar eiga samleið með þeim sem fordæma yfirgang Rússa í Úkraínu. Hins vegar er óþarft að láta ESB hampa þeirri andstöðu sérstaklega. ESB tekur varla ákvarðanir um það efni einhliða heldur í samráði við viðkomandi ríki – eða hvað? Því ber utanríkisráðuneytinu að svara afdráttarlaust sé tilkynning ESB jafn örlagarík og lýst er hér að ofan.

 

Laugardagur 08. 08. 15 - 8.8.2015 19:50

Fyrstu færslu mína hér í dagbókinni um makrílinn setti ég inn á Facebook og síðan vakti ég máls á því sem fram kom á síðunni hér í gær þar sem ég vitnaði í kunnáttumann um vinnslu á markríl. Ýmsir hafa orðið til að draga orð hans í efa. Þar á meðal Sighvatur Bjarnason sem sagði:

Viðskiptabann Rússa á okkur yrði mikið áfall. Makríll sem veiðist við Ísland er ekki vara í hæsta gæðaflokki vegna þess að hann kemur horaður hingað og fitnar skart. Sú vara gengur ekki inn á Japan nema í undantekningum. Okkar makríll hentar inn á þessa markaði í austrinu og Afríku. Engin frekari vinnsla leysir það mál. Hugsanlega mætti framleiða makríl sem þróunaraðstoð fyrir lönd sem vantar gæða prótein. Mikil neysla er á makríl og hestamakríl í Afríku og mið Austurlöndum, enda gríðarlegt framboð. Rússlandsmarkaður er okkur gríðarlega mikilvægur, hann er vaxandi og sérstaklega fyrir dýrari afurðir. Rússar greiða svipað verð fyrir þorsk núna og Evrópuþjóðirnar. Þetta er alls ekki vanþróaður markaður.
Þá sagði Ívar Pálsson:
 
Þessi skoðun þín að þróun veiða, vinnslu og sölu á makríl héðan sé ábótavant á ekki við rök að styðjast. Virðið á magn var tvöfaldað á nokkrum árum og Sighvatur hér að ofan er sérhæfður í þessu, enda með góð rök. Asíumarkaðir vilja makrílinn þegar hann er orðinn nógu feitur, en það er bara rétt í lokin. Nú eru bókstaflega allar geymslur fullar, sem veldur kostnaði og vandræðum fyrir aðra vinnslu í landi, t.d. rækju. Allt er gert í nafni diplómatískrar samstöðu, en við vitum öll að viðskiptaþvinganir stríða gegn frelsi fólks og valda því að vörur og þjónusta fara í aðrar og óheppilegri leiðir en frjáls markaður leiðir til. Við lokum okkur sjálf úti með þessari fulgispekt við ESB/USA refskákina.

Ég þakka þessar ábendingar kunnáttumanna.

Föstudagur 07. 08. 15 - 7.8.2015 20:10

Í gær sagði ég álit mitt á þeim makrílveiðimönnum sem kvarta undan að geta ekki selt það sem þeir fá að veiða til Rússlands vegna þess að ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að standa með bandalagsríkjum sínum og Úkraínumönnum gegn yfirgangi Rússa. Vegna þessara orða minna fékk ég bréf þar sem sagði:

„Það er skrýtið hversu lítil umræða hefur farið fram undanfarin ár [um] hversu lítið púður hefur [verið sett] í að markaðssetja og selja uppsjávarafurðir eins og t.d. síld og makríl. Hef aðeins skoðað þessi mál í nágrannalöndum. Þar er mikil hefð fyrir neyslu á uppsjávarfiski, sérstaklega makríl og síld. Á engan er hallað þegar talað er um Finna og Svía sem meistara í að framleiða gæða afurðir úr þessum tegundum. Því miður hefur Íslendingum ekki tekist að framleiða neitt af viti. [...] Kaupfélagið á Fáskrúðsfirði [náði]í fyrra að losa alla síld um leið og MSC merking fékkst á vöruna. … [L]íklega eru ekki mikið fleiri en 6-7 menn sem kunna í dag að verka síld svo vel sé, það sést best á að í vöruhillum er mest af síld innflutt. Frekar er það dapurt að ekki skuli vera gert meira úr þessu? Nú er tækifærið að þróa þennan iðnað, læra hvernig samspil á kælingu, fituinnihaldi, kryddblöndum og slíku er púslað saman.“

Ég treysti að bréfritari viti um hvað hann er að tala. Í orðum hans felst hörð gagnrýni á þá sem veiða og vinna makríl. Þeir hafa greinilega valið „auðveldasta“ markaðinn, hinn rússneska, þar sem kröfur til gæða eru í samræmi við hæfni þeirra til að vinna úr aflanum. 

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) leggja mikla áherslu á virðiskeðjuna eins og fram kom á aðalfundi þeirra. Að hrópa á kúvendingu í utanríkisstefnu þjóðarinnar í stað þess að laga sölu afurða að pólitískum staðreyndum ræðst örugglega ekki af áherslu á virðiskeðjuna.

Þegar íslensk skip hófu makrílveiðar að einhverju ráði árið 2006 og næstu ár á eftir var gagnrýnt erlendis að aflinn væri ekki unninn til manneldis. Úr því var bætt en ekki meira en svo að fyrirtækin segjast eiga allt undir Rússlandsmarkaði. Þau verða einfaldlega að gera betur.

 

 

Fimmtudagur 06. 08. 15 - 6.8.2015 20:20

Merkilegt er að sjá að þeir sem hafa beina hagsmuni af því að veiða og selja makríl láta mun meira til sín heyra núna um utanríkismál en þegar tekist var á um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í aðildarmálinu hékk á spýtunni hvort Íslendingar gætu veitt þann makríl sem þeir hafa aflað síðan 2006 og talinn er um 120 milljarða króna virði til og með vertíðarinnar árið 2014. Ef aðild að ESB hefði komið til sögunnar hefði afli Íslendinga verið skorinn niður um að minnsta kosti 80%.  Aflaverðmætið væri um 20 milljarðar króna.

Á árum ESB-viðræðnanna heyrðist lítið sem ekkert í talsmönnum útgerðarmanna og fiskverkenda um hættuna af ESB-aðild. Nú er hins vegar krafist umpólunnar á utanríkisstefnunni af því að óvíst er um sölu afurða eftir eina makríl-vertíð vegna hótana Kremlverja. Þess er krafist að „lúffað“ sé fyrir þeim þrátt fyrir yfirgang þeirra gagnvart Úkraínumönnum og hótanir í garð Finna og Eystrasaltsþjóðanna.

Rússar eru ekki einu neytendur makríls – Úkraínumenn hafa einnig neytt hans. Í heimi sem þarfnast próteins er makríll gulls ígildi utan Rússlands sem innan. Hvers vegna skyldu þeir sem hafa heimild til að veiða makríl ekki geta fundið aðra markaði en í Rússlandi? Á að láta aðra fá veiðiheimildarnar?

Á sínum tíma barðist SÍS harkalega fyrir viðskiptum við Sovétríkin. Framsóknarflokkurinn brást illa við á stjórnmálavettvangi væri vegið að þessum viðskiptum. Gagnrýni á Sovétmenn átti að vera hófstillt – á þeim árum innlimuðu þeir þó ekki hluta annarra ríkja eða herjuðu innan landamæra þeirra eins og Rússar gera núna.

Íslendingar eiga samleið með þjóðunum sem hafa brugðist við yfirgangi rússneskra stjórnvalda með refsiaðgerðum. Ætli Rússar að bæta gráu ofan á svart með því að setja innflutningsbann á Ísland og sex önnur ríki utan ESB er við rússnesk yfirvöld að sakast en ekki íslensk. Þeir sem sætta sig ekki við bannið eiga að beina spjótum að ráðamönnum í Moskvu en ekki Reykjavík – nema þeir styðji málstað Rússa.

Miðvikudagur 05. 08. 15 - 5.8.2015 19:40

Hið sama gildir um fargjöld með frönskum járnbrautarlestum og flugfélögum að því fyrr sem menn panta farið því minna borgar þeir. Þannig má komast frá Nice til Parísar á um 6 tímum með TGV-hraðlestinni fyrir um 6.500 kr. í því sem þeir kalla Zen- fyrsta farrýmið. Þar er óskað eftir að farþegar tali lágum hljóðum, láti síma sína ekki hringja og tali alls ekki í þá. Hlátrasköll eru ekki heldur leyfð eða hvaðeina annað sem truflað getur aðra farþega. Lestirnar þjóta áfram á mörg hundruð kílómetra hraða eftir að þær hætta að safna saman farþegum. Í dag tafðist ferðin um 20 mínútur vegna þess að loftkæling í einum vagnanna bilaði. Við það var hitinn illþolanlegur.

Þriðjudagur 04. 08. 15 - 4.8.2015 21:00

Héldum áfram förinni í hlíðunum fyrir ofan Heiðbláu ströndina. Gistum í Vence.  Fyrir utan gömlu borgarmúrana stendur askur sem Frans 1. gaf íbúum Vence árið 1538. Sumir hlutar borgarinnar eru frá því fyrir Krist. Hér er því rótgróin menning. ESB-fáninn blaktir ekki heldur við hlið hins franska á ráðhúsbyggingunni. Hann sést varla hér um slóðir. Skyldi það vera tilviljun?

Mánudagur 03. 08. 15 - 3.8.2015 17:00

Í dag var haldið frá Heiðbláu ströndinni upp í hlíðarnar fyrir ofan Cannes. Nú fer brátt að kvölda í smáþorpinu Cabris. Þaðan sést vítt yfir og segir í bæklingi að á björtum morgni megi sjá til Miðjarðarhafseyjarinnar Korsíku af kirkjutorginu hérna. Við búum við torgið og þar vinna menn í rúmlega 30° hita við að setja upp leiksvið fyrir kvöldið. Líklega getum við fylgst með sýningunni úr glugga gistihússins. Hér um slóðir drekka menn helst kælt, létt rósavín í hitanum. Það er selt fyrir fimm evrur flaskan úr kæli í bakaríinu í Cabris. 

Sunnudagur 02. 08. 15 - 2.8.2015 17:00

Kom í fyrsta sinn til Cannes og gekk um götur og torg þar sem kvikmyndastjörnunar spranga á hátíðinni miklu. Elsti hluti þessarar 73.000 manna borgar hefur yfir sér nokkurn sjarma.

Járnbrautarteinarnir eru við ströndina, stundum alveg í orðsins fyllstu merkingu. Á sandinum og í sjónum flatmagaði  fjöldi fólks. Ströndin er opin almenningi að langstærstum hluta. Fjölskyldur koma með sólhlíf, handklæði og nesti, helga sér blett fyrir daginn og njóta sólar og sjávar. Eftir að hafa séð þetta frjálsræði skilur maður enn betur en áður reiði almennings yfir að kónginum af Sádí-Arabíu var ráðstafaður strandskiki til einkaráðstöfunar á meðan hann dvelst hér um slóðir með 1.000 manna fylgdarliði, flestir í því búa einmitt í Cannes, megi marka fréttir.

Hér heitir héraðið Côte d´Azur, eða Heiðbláa ströndin. Ber það nafn með rentu. Sjórinn við ströndina er víða heiðblár vegna þess að hvítur botninn skín í gegnum hafið.

Það er mikill misskilningur að Íslendingar eigi ekki almennt góð samskipti við Rússa. Með innlimun Krímskaga í Rússland í trássi við alþjóðalög og hernaði í austurhluta Úkraínu sem leiddi meðal annars til þess að farþegavél með tæplega 300 manns var grandað með rússneskri eldflaug hafa Rússar kallað yfir sig aðgerðir til staðfestingar á fordæmingu. Að sjálfsögðu eiga íslensk stjórnvöld að standa að refsiaðgerðum með öðrum ríkjum.

Þeir sem stunda viðskipti með fisk og aðrar vörur verða að taka mið af pólitískum staðreyndum og laga sig að þeim. Slíkt er auðveldara nú en fyrir 60 árum og ræðst af útsjónarsemi og dugnaði.

 

Laugardagur 01. 08. 15 - 1.8.2015 21:20

Það tók 20 mínútur og kostaði 1,50 evrur að fara með strætó frá Beaulieu-sur-mer til Monte Carlo í Mónakó, jafnlangt og frá þessum litla strandbæ til Nice, sami vagninn nr. 100 tengir bæinn annars vegar við smáríkið og hins vegar fimmtu stærstu borg Frakklands á eftir París, Lyon, Marseille og Toulouse.

Eftir rúma þrjá tíma á göngu um Mónakó höfðum við skoðað þær byggingar sem vöktu áhuga okkar og tókum þá troðfullan vagninn til baka.

Nú hef ég heimsótt smáríkin þrjú Andorra, Mónakó og San Marínó í Evrópu sem nota auk Vatíkansins öll evru sem lögeyri án þess að vera í ESB.

Ríkin þrjú eiga öll tilveru sína undir sérstakri löggjöf em auðveldar fjármálamönnum að halda í eignir sínar með því að eiga viðskipti innan þeirra. Ef marka má ríkidæmi eftir glæsilegum bílum eða snekkjum er greinilega mikinn auð að finna í Mónakó.

Furstahöllinn minnti helst á hús í Disney-landi. Við gangbraut skammt fyrir neðan hana er nýleg stytta af Rainer fursta sem lést árið 2005.