Dagbók

Mánudagur 31. 12. 12 - gamlársdagur - 31.12.2012 16:50

Í dag setti ég pistil hér inn á síðuna í tilefni af ávarpi sem Úlfar Þormóðsson flutti þegar hann tók við rithöfundaverðlaunum ríkisútvarpsins.

Í marga áratugi hef ég lesið áramótahugleiðingu forsætisráðherra Íslands. Aldrei fyrr hefur hún verið rituð af jafnmikilli heift og grein Jóhönnu Sigurðardóttur í Morgunblaðinu í dag. Jóhanna sannar í grein sinni allt sem ég hef sagt um hana sem forsætisráðherra. Hún ráði ekki við að gegna embættinu vegna áráttu hennar til að efna til sundurlyndis og deilna. Jóhanna var kjörin til forystu í Samfylkingunni af því að annars yrði hún ekki þar til friðs. Ein ástæða þess að ríkisstjórn Jóhönnu situr kjörtímabilið á enda er að Jóhanna getur ekki sprengt eigin ríkisstjórn með því að ráðast að þeim sem stjórnar henni. Hún losaði sig hins vegar fyrir ári við tvo ráðherra.

Sérkennilegast er þó að Jóhanna ritar af alkunnri heift í garð Sjálfstæðisflokksins þótt hún sé sjálf að hætta á þingi og fari á hliðarlínuna eftir nokkrar vikur þegar nýr formaður hefur verið kjörinn í Samfylkingunni. Það verður friðsamlegra á alþingi þegar Jóhanna hverfur þaðan. Ekki tekst að afgreiða stjórnarskrárbreytingar á dögunum 27 sem alþingi á eftir að starfa fram að kosningum vegna þvermóðsku Jóhönnu Sigurðardóttur. Hafi einhver haldið að hún vildi ná samkomulagi við sjálfstæðismenn um þetta mál eða eitthvað annað hlýtur sá hinn sami að sjá að sér eftir lestur áramótagreinarinnar í Morgunblaðinu.

Ég þakka samfylgdina á árinu 2012.

Sunnudagur 30. 12. 12. - 30.12.2012 23:20

Conrad Black átti á sínum tíma The Daily Telegraph í London og blöð um allan heim en var sakaður um að halda ekki rétt á fjármálum hlutafélaga sinna. Hann var dæmdur í fangelsi í Bandaríkjunum en hefur nú tekið út dóm sinn og hafið baráttu til að rétta hlut sinn á opinberum vettvangi. Hann telur sig aldrei hafa gerst sekan um neitt ólögmætt.

Fall hans var mikið eins og sést af nýrri bók hans Matter of Principle. Ég kynntist Black lítillega á sínum tíma og þótti hann ekki allskostar viðfelldinn. Hann var harðskeyttur blaðakóngur og lifði og hræðrist meðal fólks á æðstu stigum í stjórnmálum og fjármálum í Kanada, Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem hann var aðlaður.

Þegar skýrt var frá að Black hefði verið sviptur forystu í fyrirtækjum sínum hófu fjölmiðlar að fjalla um hann á þann hátt sem honum þótti með öllu ósæmilegur. Hann velti fyrir sér að höfða meiðyrðamál en hætti við og segir: „As I was almost instantly without reputation I was practically unable to sue anyone.“ – Þar sem virðing mín hvarf svo til samstundis var í raun ógerlegt fyrir mig að stefna nokkrum.

Hér á landi telur fésýslumaður, dæmdur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot og ákærður fyrir önnur brot, sig hafa æru að verja vegna prentvillu og dómari tekur undir með honum. Á næsta ári kemur í ljós hvort hæstiréttur sé sömu skoðunar.

Laugardagur 29. 12. 12. - 29.12.2012 19:36

Nú er viðtalsþáttur minn á ÍNN við Helgu Birgisdóttur um  bókina Nonna komin á netið og má sjá hann hér. 

Nýjasta hefti af Þjóðmálum kom út skömmu fyrir jól. Þar er að venju mikið af fróðlegu efni um stjórnmál auk þess sem umsagnir eru birtar um nokkrar jólabækur.

François Hollande ætlaði að slá sér upp á 75% skatti á auðmenn yrði hann forseti í Frakklandi. Hann hlut kjör í embættið og síðan fengu flokksbræður hans úr flokki sósíalista hreinan meirihluta á þingi í júní. Forsetinn og þingmenn brettu upp ermarnar og tóku til við að breyta sköttum. Áformin um 75% skattin voru lögfest. Stjórnarandstaðan ákvað að biðja stjórnlagaráð Frakklands  „hina vitru“ eins og Frakkar segja um álit á skattinum á auðmenn. Ráðið gaf út úrskurð sinn í dag og ógilti lögin um 75% skattinn, hann bryti gegn jafnræðisreglum.

Tilgangur skattsins var að ná til einstaklinga sem hefðu 1 milljón evra eða meira í árstekjur. Skatturinn sneri að einstaklingum en ekki sameiginlegum tekjum hjóna eða sambúðarfólks. Hjón með 900 þús. evrur í tekjur hvort sluppu, væri einn á öðru heimili með 1,2 milljón evrur í árstekjur yrði hann að greiða skattinn án tillits til tekjuöflunar maka.

Þessi niðurstaða er enn eitt áfallið fyrir Hollande en álit Frakka á honum hefur minnkað jafnt og þétt. Sósíalistar geta þakkað sínu sæla fyrir vandræðin í stóra stjórnarandstöðuflokknum, UMP, mið-hægriflokknum þar sem tekist er á um leiðtogasætið eftir brotthvarf Nicolas Sarkozys af ótrúlegri hörku. Kosningin verður endurekin haustið 2013.

Er í raun ótrúlegt að franskir sósíalistar hafi ekki búið þannig um lögfestingu á einu helsta kosningamáli sínu að það stæðist stjórnarskrána. Vandræði vinstri stjórnarinnar í Frakklandi eru í ætt við vandræðaganginn hjá vinstri stjórninni á Íslandi.

 

 


Föstudagur 28. 12. 12. - 28.12.2012 22:55

Fréttastofa ríkisútvarpsins nálgaðist stjórnmálafréttir á nýstárlegan hátt í kvöld þegar sagt var frá því  sem aðalefni fréttar að tæplega 22 prósent landsmanna væru ánægð með störf stjórnarandstöðunnar, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Um 49 prósent segðust hins vegar vera óánægð með störf hennar.

Rúmlega 1.400 manns voru í úrtakinu og var svarhlutfall 60,1 prósent. Óánægja með stjórnarandstöðuna hefur aðeins minnkað frá fyrri mælingum.

Í fréttinni sagði einnig að fleiri teldu að stjórnarandstaðan myndi standa sig betur en ríkisstjórnin þegar kæmi að efnahagsmálum, heilbrigðismálum og menntamálum. Fréttastofan tók fram að það væri lítil breyting frá síðustu mælingu. Þegar kæmi að velferðarmálum teldu álíka margir að stjórnarandstaðan myndi standa sig betur en ríkisstjórnin og að hún myndi standa sig verr.

Ef fleiri töldu að almennt mundi stjórnarandstaðan taka betur á mikilvægum málum en ríkisstjórnin hefði verið forvitnilegt að vita hvað margir eru nú ánægðir með ríkisstjórnina í þessum nýja þjóðarpúlsi.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur hins vegar ekki áhuga á neikvæðum fréttum um ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. – hún hefur aldrei haft það og áhuginn á því eykst ekki þegar dregur að kosningum.

 

Fimmtudagur 27. 12. 12. - 27.12.2012 22:00

Í Morgunblaðinu í dag birtist frásögn um útgáfu Skagfirðingabókar árið 2012. Ég var beðinn að skrifa í hana um dvöl mína í sveit að Reynistað á sjötta áratugnum og var mér það ljúft og er minnst á þessa grein mína í Morgunblaðinu eins og sjá má hér.

Eftir að ég skrifaði frásögnina minnist ég hluta sem ég hefði átt að láta getið eins og hve við biðum spennt eftir að hlusta á Gunnar G. Schram lesa söguna Hver er Gregory? eða þegar póstpokinn var opnaður og blöð og bréf birtust.

Miðvikudagur 26. 12. 12. - 26.12.2012 16:30

Það er skrýtið af ríkissjónvarpinu að halda þannig á sýningum á Downton Abbey að tvær vikur líði frá því að lokaþætti í 2. hluta raðarinnar er sjónvarpað í Bretlandi og annars staðar þar til hann sést hér á landi. Í blöðum erlendis birtast nú viðtöl við einn aðalleikara þáttanna sem hefur sagt skilið við þá til að leita á önnur mið og þarf því að hverfa úr sögunni á dramatískan hátt. Vitneskjan um það er „spoiler“ svo að vitnað sé til enska orðsins sem oft birtist til að vara fólk við að skoða efni vilji það forðast að vita um framvindu sjónvarpsþátta eða kvikmynda áður en það sér þáttinn eða myndina sjálfa.

Mér skilst að Stöð 2 hafi sýnt síðasta þáttinn af Homeland 2 daginn eftir að hann var frumsýndur erlendis og þannig leitast við að koma til móts við áskrifendur sína með góðri þjónustu. Ríkisútvarpið telur sig ekki þurfa að sinna þjónustu við áhorfendur sína á sama hátt. Þjónusta ríkisútvarpsins minnir dálítið á virðulegu herramennina í Downton Abbey sem vilja ekki horfast í augu við samtíma sinn heldur lifa í gamla tímanum.

Þriðjudagur 25. 12. 12. - jóladagur - 25.12.2012 18:50

Átök innan Samfylkingarinnar vegna formannskjörs snúast nú um hvort krefjast skuli félagssgjald af samfylkingarfélögum í Reykjavík til að þeir geti kosið formann. Fréttastofa ríkisútvarpsins talar enn um „kjörgengi“ þegar rætt er um kosningarétt. Þetta er undarlega þrálát villa hjá starfsmönnum fréttastofunnar. Í kosningum eru þeir kjörgengir sem hafa rétt til að vera í framboði, kjósendur hafa kosningarétt. Deilan innan Samfylkingarinnar snýst um hvort réttmætt sé að þrengja að kosningarétti þeirra sem skráðir eru í flokksfélagið í Reykjavík.

Ég skrifaði um þetta á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.

Í dag er sagt frá orðinu ugsome á vefsíðunni A.Word.A.Day. Orðið er skýrt með orðunum dreadful, loathsome, hroðalegur, fyrirlitlegur. Uppruni orðsins er rakinn til old norse og íslenska sagnorðsins ugga - að óttast. Af sögninni er enska orðið ugly, ljótur, meðal annars dregið. Lýsingarorðið ugsome er sjaldan notað ólíkt ugly en fyrst sést það skráð um 1425.

Mánudagur 24. 12. 12. - aðfangadagur - 24.12.2012 17:10

Ég óska lesendum síðu minnar gleðilegra jóla.

Í tilefni jólanna skrifaði ég pistil um uppgjöf strokufangans Matthíasar Mána og má lesa hann hér.

Sunnudagur 23. 12. 12. - 23.12.2012 23:00

Sunnudagur hæfir Þorláksmessu vel. Aðdragandi jólanna er almennt ofsafenginn, Þorláksmessa á sunnudegi dregur úr spennunni þótt verslanir séu opnar og margir vinni langan dag. Látið er sem verslun gangi vel fyrir jól að þessu sinni en þeir sem standa í eldlínunni segja að þess sjáist greinileg merki að fólk haldi meira að sér höndum en áður.

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, tók að láta að sér kveða í netheimum fyrir nokkrum mánuðum og gerðist baráttumaður í þágu ríkisstjórnar Samfylkingar og vinstri-grænna. Hann segist þó hvorki vera í Samfylkingunni né vinstri sinnaður.

Af mörgu undarlegu sem Stefán hefur skrifað tel ég að pistill sem hann birti í dag á Eyjunni í dag um Hörpuna og ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. sé sá skrýtnasti.

Stefán segir frá för sinni á klassíska jólatónleika Frostrósa í Hörpu og þótti honum húsið sjálft „ævintýri“ þar sem kristallaðist „saga þjóðarinnar frá ræningjatíma frjálshyggjunnar til upprisunnar eftir hrunið“.  Hann segir að „leiðtogar víxlaranna“ hafi viljað „byggja monthús fyrir sig og hyski sitt, fyrir lánsfé eins og allt annað sem þeir komu nálægt“. Almenningur hafi kallað á „Jóskubusku og Steinbrjót til forystu í endurreisnarstjórn“. Þau hafi ekki viljað láta húsið standa „sem minnisvarða um hégóma, græðgi og heimsku“  heldur „ákveðið að klára höllina sem menningarhús íslenskrar tónlistar [...] Harpan reynist vera eitt dýrasta djásnið í krúnu ríkisstjórnarinnar.“

Þessi sögufölsun er með ólíkindum en því miður í samræmi við annað sem Stefán skrifar þegar hann tekur sér fyrir hendur að verja Jóhönnu Sigurðardóttur og hyski hennar. Þau Jóhanna og Steingrímur J. áttu alls engan þátt í að ráðist var í smíði Hörpunnar. Það voru allt aðrir sem tóku ákvarðanir um það og alls ekki hefði verið ákveðið að ljúka við að reisa húsið eftir hrun ef Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, hefði ekki átt hlut að máli.

Nú undir lok stjórnartíma „Jóskubusku og Steinbrjóts“ taka málsvarar þeirra og spunaliðar að skreyta þau með stolnum fjöðrum af því að ekkert af því sem þau hafa sjálf lagt af mörkum er þess eðlis að unnt sé að flagga því sem tákni um markverðan, varanlegan árangur.

Fyrir þá sem sækja tónleika í Eldborg skiptir mestu að frá því á fyrsta stigi ákvarðana um Hörpu var krafist 100% hljómgæða og þau heilla alla sem koma í salinn sem flytjendur eða áheyrendur. Jóhanna og Steingrímur J. áttu engan hlut að neinu sem gerir Hörpu að einstöku tónlistarhúsi.

 

Laugardagur 22. 12. 12. - 22.12.2012 18:50


Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, baðst lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína í dag. Stjórnin situr sem starfsstjórn undir forsæti hans fram að kosningum. Monti baðst lausnar af því að hann naut ekki lengur stuðnings meirihluta ítalska þingsins. Fréttastofa ríkisútvarpsins sagði réttilega frá lausnarbeiðninni og að við tæki starfsstjórn í fréttatímum fram eftir degi en undir kvöld rugluðust menn í ríminu á fréttastofunni og sögðu að Monti hefði beðist lausnar fyrir sig og „starfsstjórn“ sína. Þetta minnir á þegar fréttamenn ríkisútvarpsins rugluðust á kjörgengi manns og töluðu um það í staðinn fyrir kosningarétt mannsins, kjörgengi þýðir að menn séu hæfir til að bjóða sig fram, kosningaréttur að þeir hafi rétt til að kjósa. Starfsstjórn er stjórn sem beðist hefur lausnar en situr áfram að ósk forseta eins og nú á Ítalíu. Starfsstjórn fer frá völdum eftir að ný stjórn með pólitískt umboð kemur til sögunnar.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, sagði í kvöldfréttum ríkisútvarpsins að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði oft hangið á horriminni en í gærkvöldi hefði hún breyst í minnihlutastjórn þegar hún gat ekki tryggt stjórnarfrumvörpum framgang á þingi.

Þessi kenning prófessorsins rennir enn stoðum undir þá kröfu að alþingi verði rofið strax og gengið til kosninga. Ríkisstjórn sem stendur jafnilla og þessi stjórn Jóhönnu verður skaðlegri með hverjum degi sem líður og óhjákvæmilegt er að því fylgi að tekið sé af skarið um að ganga strax til kosninga.

Furðulegt er að allir flokkar skuli standa að framlengingu gjaldeyrishafta og að framkvæmd þeirra verði í höndum seðlabankans. Hver eru rökin? Að seðlabankinn hafi staðið sig ofurvel við framkvæmdina? Höftin áttu að vera í 10 mánuði, nú stefnir í að ekki verði einu sinni tekist á um þau og afnám þeirra í komandi kosningabaráttu. Samtrygging stjórnmálamanna í þágu hafta og einræðislegrar framkvæmdar þeirra lofar ekki góðu.

 

tdráttur

Föstudagur 21. 12. 12. - 21.12.2012 22:55

Viðtal mitt við Helgu Birgisdóttur um ævisögu Nonna var ekki á ÍNN í gærkvöldi heldur í kvöld og verður næst klukkan 23.00, síðan 01.00 og á tveggja tíma fresti til 19.00 á morgun, áhugavert efni um merkilega bók.

Þá er lokið útsendingu á fjórum bókaþáttum mínum á ÍNN og eru þrír þeirra komnir inn á netið. Ég birti krækju á hinn fjórða þegar hann birtist á INNTV.IS.

Í vikunni kom út nýtt hefti af tímaritinu Þjóðmálum þar legg ég til að þing verði rofið strax og gengið til kosninga, stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi runnið sitt skeið og hafi ekki lengur nein tök á málum á alþingi. Þetta sannaðist enn einu sinni í atkvæðagreiðslum á þingi í dag þar sem ríkisstjórnin hafði ekki styrk til að knýja fram mál á þann veg sem ráðherrar og stjórnarþingmenn vildu.

Þetta ástand mun ekki batna þegar nær dregur kosningum og eftir að Jóhanna hættir sem formaður Samfylkingarinnar verður hún endanlega úr sögunni sem pólitísk áhrifakona.

Þorvaldur Gylfason prófessor skrifar dæmalausan samsetning um stjórnarskrármálið í dag á dv.is. Tilgangurinn virðist sá að sanna að sjálfstæðismenn styðji tillögur stjórnlagaráðs. Miðað við skrif Þorvalds fyrir og einkum eftir hrun er ekkert mál gott sem sjálfstæðismenn styðja. Nú er annað uppi á teningnum að hans mati, hið versta fyrir prófessorinn er að hann hefur enn einu sinni rangt fyrir sér. Sjálfstæðismenn styðja ekki tillögur stjórnlagaráðs.

Að hann leyfi sér að halda því fram að þeir sem vildu standa vörð um lýðveldisstjórnarskrána hefðu lagt lið samsuðunni frá stjórnlagaráði sem er reist á óvild í garð stjórnarskrár lýðveldisins sýnir aðeins hve langt Þorvaldur telur sér sæma að ganga í von um að blekkja fólk til stuðnings við hið einstaklega misheppnaða skjal sem kom frá hinu umboðslausa stjórnlagaráði sem kom saman þrátt fyrir að hæstiréttur hefði ógilt kosninguna til þess.


Fimmtudagur 20. 12. 12. - 20.12.2012 16:20

Í kvöld klukkan 21.30 er síðasti bókaþáttur minn á ÍNN að sinni. Þar ræði ég við Helgu Birgisdóttur doktorsnema um bókina um Nonna eftir Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðing.

Viðtal mitt við Sigurjón Magnússon rithöfund um bók hans Endimörk heimsins er komið á netið og má sjá það hér.

Rúmum sólarhring eftir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Ŝtefan Füle, stækkunarstjóri ESB, hreyktu sér af því á ríkjaráðstefnunni í Brussel hve allt hefði gengið vel og hratt fyrir sig í aðildarviðræðunum við Ísland leyfir Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, sér að segja við fréttastofu ríkisútvarpsins að hann sé „vonsvikinn með hversu langan tíma aðildarviðræður Evrópusambandsins við Ísland hafi tekið“.

Fróðlegt verður að sjá hvernig Össur bregst við þessari yfirlýsingu ráðherrans sem hefur verið utanríkisráðherra  lands síns síðan 2005, árið eftir að Eistland gekk í ESB. Vorið 2005 fórum við Össur saman í Evrópunefnd til Brussel og hittum þá Ollie Rehn, þáverandi stækkunarstjóra ESB. Hann sagði við okkur nefndarmenn að það þyrfti ekki nema nokkra menn til að ræða við Íslendinga í nokkra mánuði til að ganga frá aðild Íslands að ESB. Það yrði mun minna mál en til dæmis að ganga frá aðild Eistlands að ESB.

Við upphaf aðildarferlisins hélt Össur örugglega að orð Rehns um hinn skamma tíma mundu standa. Annað hefur komið í ljós. Össur hefur hins vegar jafnan látið eins og allt gengi eins og best yrði á kosið enda vill hann ekki styggja Füle eða aðra Brusselmenn. Hinn gamalreyndi utanríkisráðherra Eistlands blæs á allt slíkt og lýsir hlutunum eins og hann sér þá.

Urmas Paet gagnrýnir ESB en sér ekkert athugavert við að Íslendingar skoði hug sinn til viðræðnanna og málið sé borið undir þjóðaratkvæði. Á ruv.is segir:

„Paet á ekki von á hörðum viðbrögðum frá Evrópusambandinu ef samþykkt verði að leggja áframhaldandi aðildarviðræður í þjóðaratkvæði eins og meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis vilji. Öll aðildarríki hafi skilning á því hvernig ákvarðanir eru teknar á Íslandi og beri virðingu fyrir því.“

 

 


Miðvikudagur 19. 12. 12. - 19.12.2012 15:25

Í morgun klukkan 07.00 leiddi ég qi gong í Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði.

Nýjasti þáttur minn á ÍNN er kominn inn á vefinn og má sjá hann hér. Þar ræði ég við Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing. Í kvöld verður sýnt samtal mitt við Sigurjón Magnússon rithöfund og hefst það klukkan 20.00.


Þriðjudagur 18. 12. 12. - 18.12.2012 21:25

Fór síðdegis i heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og flutti þar fróðleik um qi gong á kyrrðardögum sem eru í boði samhliða almennri starfsemi í stofnuninni þessa síðustu viku fyrir jól. Kyrrðardagar og qi gong falla vel saman eins og ég hef margreynt í Skálholti. Hjá NLFÍ í Hveragerði er aðstaða ekki síðri til að nýta sér æfingarnar og hugmyndafræðina á bakvið qi gong.

Æfingarnar hafa náð flugi á Vesturlöndum og ekki síst í Bandaríkjunum þar sem litið er á qi gong sem hluta af heilbrigðiskerfinu, bæði forvarnarhluta en einnig sem lið í lækningum. Eftir að qi gong læknar í Kína kynntust áhuga Bandaríkjamanna á að nýta sér kínverska læknislist hafa margir læknar frá Kína flust til Bandaríkjanna. Þar hafa einnig margir lagt mikið af mörkum til að kynna qi gong meðal vestrænna lækna og má þar nefna Bandaríkjamanninn Kenneth Cohen sem hefur komið þrisvar sinnum hingað til lands og er væntanlegur í fjórða sinn í 23. til 25. ágúst 2013 í samvinnu við Aflinn, félag qi gong iðkenda. Koma Cohens verður kynnt nánar síðar en þeir sem vilja forvitnast um komu hans og hvernig námskeiðum í tengslum við hana verður háttað geta hæglega sent mér fyrirspurn á bjorn@bjorn.is eða með því að nota fyrirspurnakerfið hér á síðunni.

Mánudagur 17. 12. 12. - 17.12.2012 21:40

Í kvöld klukkan 20.30 var sýnt  á ÍNN viðtal mitt við Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing í tilefni af bók hennar um rannsóknirnar á klaustrinu að Skriðu. Viðtalið verður sýnt 22.30 og síðan á tveggja tíma fresti til 18.30 á morgun. Þetta er annar bókaþáttur minn á ÍNN. Hinn þriðji verður miðvikudaginn 19. klukkan 20.00 og þá ræði ég við Sigurjón Magnússon rithöfund um bók hans Endimörk heimsins.

Hvarvetna á Norðurlöndunum sýna ríkissjónvörp bandaríska þáttinn Homeland sem keppir við Downton Abbey sem einn vinsælasti sjónvarpsþáttur heims um þessar mundir.  Hvers vegna skyldi ríkisútvarpið hafa farið á mis við þennan þátt? Söguþráðurinn er listlega spunninn og samtöl betri en almennt gerist í slíkum þáttum.

Lokaþáttur 2. hluta myndaflokks Homeland var frumsýndur að kvöldi síðasta sunnudags og hann birtist á næstunni í norrænu stöðvunum en þær eru ekki allar á sama staða í þáttaröðinni ef þannig má orða það.

Sunnudagur 16. 12. 12. - 16.12.2012 18:50

Fyrir þá sem til þekkja var furðulegt að heyra Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra kasta allri ábyrgð á vatnasviði og lífríki Þingvallavatns á herðar Þingvallanefndar og forsætisráðuneytisins í samtali við fréttamann ríkisútvarpsins að kvöldi sunnudags 16. desember. Málum er alls ekki háttað eins og umhverfisráðherra heldur.

Hinn 13. júlí 2006 gaf forveri Svandísar, Jónína Bjartmarz, út reglugerð 650/2006 um framkvæmd verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns. Þar segir: „Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 1. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2005, um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Reglugerðin er jafnframt sett með stoð í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.“ Allt er þetta á verksviði umhverfisráðherra.

Hafi flokkssysturnar Álfheiður Ingadóttir, formaður Þingvallanefndar, og Svandís Svavarsdóttir komið sér saman um annað en í lögum og reglum um verndun Þingvallavatns segir fara þær einfaldlega á svig við landslög.

Ábyrgð Þingvallanefndar nær til þess hluta strandar vatnsins sem er innan þjóðgarðsins og þess hluta vatnsins sem er innan hans. Forsætisráðuneytið á ekki beina aðild að þessu máli. Umhverfisráðuneytið ber hina stjórnsýslulegu ábyrgð vegna Þingvallavatns og verndunar þess.

Hvers vegna vill Svandís Svavarsdóttir ekki kannast við pólitíska ábyrgð sína í þessu máli?

Hitt er síðan í samræmi við annað að fréttamenn ríkisútvarpsins trúa því eins og nýju neti sem ráðherrar segja við þá og hafa ekki fyrir að kanna hvort farið sé með rétt mál.

Laugardagur 15. 12. 12. - 15.12.2012 23:10

Fyrsta frétt ríkisútvarpsins klukkan 18.00 var að Steingrímur J. Sigfússon hefði fengið 199 af 261 atkvæði í forvali VG í NA-kjördæmi og hlotið fyrsta sæti þar sem hann var einn í kjöri. Fréttin var í norður-kóreustíl. hið eina sem skorti voru lofsamleg ummæli um leiðtogann mikla.

Ég skrifaði um kosningasigur Steingríms J. á Evrópuvaktina eins og má lesa hér.

Svavar Gestsson, fyrrverandi sendiherra og ráðherra Alþýðubandalagsins, segir í Morgunblaðinu í dag að sjálfstæðismenn séu ergilegir og fúlir af því að þeir sitji ekki í ríkisstjórn. Fúllyndi vegna stjórnarinnar er meira annars staðar en í Sjálfstæðisflokknum. Nægir í því sambandi að minna á rifrildi Steingríms J. og Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, í Speglinum og Kastljósi á fimmtudaginn. Steingrímur J. hefur öskrað á marga og sakað þá um virðingarleysi við sig sem ráðherra en ekki á neinn eins og Gylfa.

Menn hafa gleymt því að á sínum tíma töldu sjálfstæðismenn það þjóna flokkslegum hagsmunum sínum að öðru hverju kynntist þjóðin vinstri stjórn og fengi tækifæri til að átta sig á hve illa hún stæði að stjórn mála þjóðarinnar. Vinstri stjórnin sem nú situr, hin hreina og tæra, er líklega verst af þeim öllum og helsti gallinn fyrir hana er að lafa svona lengi. Arfleifðin verður verri því lengur sem hún situr. Það verður auðveldara fyrir sjálfstæðismenn til að benda vinstri vítin til að varast eftir að þessi vandræðastjórn hefur setið í fjögur ár.

Við því var aldrei að búast að Jóhanna Sigurðardóttir mundi segja af sér. Hún virðist enn lifa í þeirri trú að henni takist að ljúka við að eyðileggja stjórnkerfi fiskveiða, tækifæri til frekari virkjana, stjórnarskrána og fullveldi þjóðarinnar. Jóhönnu er sama, hún ætlar að hætta. Hið óskiljanlega er að þingmenn Samfylkingarinnar taki þátt í skemmdarverkunum. Hvað ætla þeir að bjóða í komandi kosningabaráttu? VG býður Steingrím J. sem fékk 199 atkvæði í forvali, var einn í kjöri og segist hafa unnið „afgerandi“ sigur.

 

 

Föstudagur 14. 12. 12. - 14.12.2012 23:50

Framkoma Steingríms J. Sigfússonar í garð Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, í Spegli og Kastljósi ríkisútvarpsins í gær var ofsafengin. Hún minnti mig á atvikið sem lýst er hér og gerðist fyrir fjórum árum.

Þá kom upp í hugann að hinn 11. desember hvatti Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks framsóknarmanna, Steingrím J. til að mótmæla aðdróttunum Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, í garð Íslendinga vegna makríldeilunnar. Gunnar Bragi benti á að Damanaki færi með rangt mál.

Steingrímur J. birtist þá í ræðustól alþingis sem prúður friðarins maður. Hann sagði að Damanaki hefði stundað „hefðbundinn umkenningarleik“ en mestu skipti fyrir Íslendinga að „standa fast í fæturna“ við samningaborðið og það væri mikilvægara en að grípa til „hreystiyfirlýsinga og munnbrúks“.

Þannig talaði Steingrímur J. þegar hann var hvattur til að standa á rétti Íslendinga gagnvart ESB í makrílmálinu. Þegar hann greip til varna gegn Gylfa Arnbjörnssyni sparaði Steingrímur J. hvorki „hreystiyfirlýsingar né munnbrúk“ hann lýsti Gylfa sem ósannindamanni og að hann kynni ekki mannasiði eins og lesa má hér hjá Óla Birni Kárasyni. 

Óvildin í garð Gylfa og ASÍ undir hans forystu leyndi sér ekki. Allt annað viðmót var í garð Damanaki og ESB sem sannar aðeins að Steingrímur J. er ESB-sinni inn við beinið.

 

Fimmtudagur 13. 12. 12. - 13.12.2012 17:55


Deilur stjórnmálafræðinga vegna stjórnlagatillagnanna magnast. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands, gagnrýnir alla þætti stjórnarskrármálsins harðlega í Morgunblaðinu í dag. Eiríkur Bergmann Einarsson, háskólanum á Bifröst og stjórnlagaráðsmaður, snýst til varnar á vefsíðunni Eyjunni og segir meðal annars:

„Nú heldur virðulegur stjórnmálafræðiprófessor því fram að Stjórnlagaráð hafi verið umboðslaus kaffisamkoma fræga fólksins þegar hið rétta er að það væri bæði þjóðkjörið og svo þingskipað í kjölfar inngrips hæstaréttardómaranna. Satt að segja er leitun að þeim opinbera hópi sem hefur haft viðameira lýðræðislegt umboð – sem svo var stimplað af sjálfri þjóðinni í einu allsherjaratkvæðagreiðslunni sem Alþingi efnir til á lýðveldistímanum.“

Þetta er ótrúleg samsuða hjá Eiríki Bergmann og í ætt við sumt annað sem frá stjórnlagaráðsmönnum hefur komið.  Hann segir að ráðið hafi bæði verið „þjóðkjörið og þingskipað í kjölfar inngrips hæstaréttardómaranna“. Að maður sem sýslar við stjórnlögin tali á þennan veg sannar aðeins algjört virðingarleysi hans fyrir lögum og rétti þegar hann á sjálfur í hlut. Hæstiréttur ákvað að kjör Eiríks Bergmanns og annarra væri ógilt – aldrei fyrr hafa kosningar af þessu tagi verið ógiltar vegna þess hve illa var að framkvæmdinni staðið. Kosningarnar voru ekki endurteknar heldur tók fólkið að sér að setjast umboðslaust frá almenningi í stjórnlagaráð í umboði alþingis.  Engu er líkara en Eiríkur Bergmann telji sig hafa tvöfalt lýðræðislegt umboð. Hvílík fásinna! Síðan túlkar hann skoðanakönnunina sem alþíngi ákvað að verja 250 til 300 milljónum til sem gæðastimpil á pakkann sem varð til í bögglauppboði innan stjórnlagaráðs. Þegar innihald þessa pakka er skoðað kemur í ljós að það er almennt ónothæft.

Miðvikudagur 12. 12. 12. - 12.12.2012 18:50

Fyrsti bókaþáttur minn á ÍNN er kominn á netið og má sjá hann hér. Ég ræði við Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing um bók hans Upp með fánann!

Á fésbókarsíðu Jóns Magnússonar hrl. má lesa:

„Ég sá í fréttum að starfrækt hefur verið spilavíti í gamla skrifstofuhúsnæðinu mínu í Skeifunni. Spilavítið kom raunar ekki beint á eftir heldur var Rannsóknarnefnd Alþingis með aðstöðu þarna í millitíðinni.

Í fréttum sjónvarpsstöðvanna var sérstaklega tekið fram að þrír lásar væru á hurðinni. Væntanlega til að sýna hversu útpæld þessi meinta glæpastarfsemi væri. Þetta kom mér á óvart. Ég setti þessa þrjá lása upp til að það væri erfiða„ra að brjótast inn. Áttaði mig ekki á því fyrr en í kvöld hvað þetta var útpælt og andstyggilegt eins og sjónvarpsfréttamennirnir virðast telja.“

Ábending Jóns um lásana minnir á að unnt er grípa til ýmissa ráða, ekki síst í sjónvarpsfréttum, til að gera sjálfsagða hluti tortryggilega. Í þingfréttum ríkisfréttastofunnar er til dæmis ýtt undir að eitthvað óeðlilegt sé að gerast á alþingi þegar sagt er frá hve þingfundir hafi staðið lengi og hve margir talað og síðan minnt á að starfsáætlun alþingis geri ráð fyrir að þingmenn fari í jólaleyfi á ákveðnum degi. Verður það svo sérstakt fréttaefni ef ekki tekst að standa við áætlunina og látið í veðri vaka að þar hafi gerst einhver pólitísk stórtíðindi.

Allt þetta tal um lengd þingfunda, fjölda óafgreiddra mála, margar ræður og yfirvofandi jólaleyfi þingmanna miðað við starfsáætlun er í ætt við ábendinguna um lásana þrjá sem áttu að sýna að um harðsvíraða menn væri að ræða en reyndist ekki annað en lélegur spuni þegar að er gáð. Starfsáætlun alþingis er ekki annað en skjal til viðmiðunar, það bindur engan og breytir engu um ákvarðanir þingmanna hvort við áætlunina er staðið eða ekki.  Ræðustóll alþingis er til þess að menn geti talað þar, þingsköpin mæla fyrir um skipulag umræðnanna. Þingmenn hafa frelsi til að nýta sér ræðustólin og rétt sinn í þingsköpum. Það er sérkennilegt ef fréttir af því sem gerist á alþingi snúist einkum um hvernig þingmenn nýta sér þennan rétt en ekki til hvers, það er hvað þeir segja.


 


Þriðjudagur 11. 12. 12. - 11.12.2012 23:00

Ég sagði frá því hér í dagbókinni í gær að mér hefði komið á óvart að á fundi með mönnum úr utanríkismálanefnd alþingis þann sama dag hefði ég komist að raun um að fyrir lægi greinargerð frá Björgu Thorarensen lagaprófessor um hvaða ráð væru til að breyta stjórnarskránni til að framselja fullveldi þjóðarinnar. Ég hafði vænst þess að sjá þessa greinargerð á vefsíðu laganefndar ESB-viðræðunefndarinnar en þar er sagt frá því að hinn 9. janúar 2012 hafi verið ákveðið að Björg semdi greinargerðina.

Í dag sá ég greinargerðina síðan á vefsíðu utanríkisráðuneytisins um viðræður Íslands og ESB, ekki undir laganefndinni heldur á forsíðu viðræðu-vefsíðunnar og er greinargerðin dags. 22. október 2012, tveimur dögum eftir könnunina á skoðun þjóðarinnar á tillögum stjórnlagaráðs. Hér má nálgast greinargerðina. 

Að þessu sinni verður ekki fjallað um efni greinargerðarinnar. Það vekur hins vegar enn undrun mína að athygli okkar sem utanríkismálanefnd kallaði á fund sinn til að ræða framsalsákvæðið í 111. gr, stjórnlagaráðstillagnanna skuli ekki hafa verið vakin á því að þetta skjal (12 bls.) hafi verið birt – eða var það ekki birt fyrr en núna?

Allt ber þetta vott um hve ruglingslega er staðið að vinnunni við þinglegan frágang á þessum stjórnlagaráðstillögum.  Margt bendir til að vilji ESB-aðildarsinna hnigi að breytingu á einmitt þessu ákvæði stjórnarskrárinnar til að ryðja hindrunum fyrir aðild úr vegi. Þetta ákvæði eitt kallar á miklu meiri og skipulegri umræður um en orðið hafa til þessa. Hvers vegna er staðið að málatilbúnaði á þann hátt sem hér er lýst? Að mörg opinber skjöl liggi fyrir um sama málið.

Flest bendir til að Björg Thorarensen hafi dregið að dagsetja greinargerð sína þar til eftir skoðanakönnunina um stjórnlagaráðstillögurnar. Þar var ekki leitað sérstaklega álits á framsalsmálinu sem er einkennilegt miðað við mikilvægi þess.

Mánudagur 10. 12. 12. - 10.12.2012 19:20

Í kvöld klukkan 20.30 er fyrsti bókaþáttur minn á ÍNN. Ég ræði við Gunnar Þór Bjarnason um bók hans Upp með fánann!  Hún fjallar um uppkastið 1908 og hin hörðu átök vegna þess. Fróðleg og vönduð bók.

Undir kvöld fór ég á fund manna í utanríkismálanefnd alþingis. Þangað hafði ég verið boðaður til að segja álit mitt á 111. gr. í tillögum stjórnlagaráðs um framsal ríkisvalds eða fullveldis til alþjóðastofnana. Ein helsta efnislega ástæðan fyrir að uppkastið 1908 náði ekki fram að ganga var að þar var ekki vikið að fullveldinu, það kom ekki til sögunnar fyrr en með sambandslögunum 1918.

Nú er svo komið að almennt er talið nauðsynlegt að setja ákvæði í stjórnarskrána sem taka mið af nýrri stöðu í alþjóðasamstarfi. Vegna aðildar að EES og Schengen-samstarfinu mátu sérfræðingar hvort brotið yrði gegn stjórnarskránni með aðildinni. Niðurstaðan varð í báðum tilvikum að svo væri ekki. Síðan hefur samstarfið innan EES þróast á þann veg að sérfræðingar telja óhjákvæmilegt að huga að stjórnarskrárheimildum vegna aðildar að nýjum stofnunum undir EES-hattinum.

Ég er sammála því mati að huga eigi að breytingum á stjórnarskránni vegna alþjóðasamstarfs. Tillagan í 111. gr. stjórnlagaráðsins er ekki boðleg í þessu efni. Ég tel að huga beri að því að setja ákvæði í stjórnarskrána sem heimili aðild að EES og Schengen enda sé ákvæðið rökstutt á þann veg að ekki fari á milli mála við hvað er átt.

Ég vék að því á fundinum í utanríkismálanefnd að ég vildi ekki segja endanlegt álit mitt á þessu efni fyrr en ég sæi greinargerð sem boðað var 9. janúar 2012 að Björg Thorarensen prófessor mundi semja fyrir þá sem ræða við ESB um aðild. Mér þætti undarlegt að þetta álit lægi ekki fyrir við meðferð þessa máls. Þá kom í ljós að nefndin hafði álit Bjargar í fórum sínum. Hvers vegna er það ekki birt? Hvers vegna eru þeir sem boðaðir eru á fund nefndarinnar til að fjalla um þetta mál ekki upplýstir um lykilskjal af þessu tagi?

Sunnudagur 09. 12. 12. - 9.12.2012 21:50

Birt hefur verið umsögn um Lohengrin í La Scala, frumsýninguna á föstudaginn. Tómas Tómasson má vel við dóminn una, hann má lesa hér.

Fjórir 30 mínútna bókaþættir verða á dagskrá ÍNN fram að jólum þar sem ég ræði við þrjá höfunda um bækur þeirra og lesanda hinnar fjórðu.

Fyrsti þátturinn verður að kvöldi mánudags 10. desember klukkan 20.30. Þar ræði ég við Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing um bók hans Upp með fánann! um uppkastið 1908. Þátturinn verður endurtekinn á tveggja tíma fresti til 18.30.

Fimmtudag 13. desember kl 21.30 ræði ég við Steinunni Kristjánsdóttur um bók hennar Sagan af klaustrinu á Skriðu mánudag 17. desember kl. 20.30 ræði ég við Sigurjón Magnússon um skáldsögu hans Endimörk heimsins og föstudag 21. desember kl 21.00 ræði ég við Helgu Birgisdóttur um Nonna sögu Paters Jóns Sveinssonar eftir Gunnar F. Guðmundsson.

Bækurnar hafa allar verið tilnefndar til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

 

Laugardagur 08. 12. 12. - 8.12.2012 22:41

Nýjasti þáttur minn á ÍNN er kominn á netið, viðtal við Pál Harðarson, forstjóra Kauphallarinnar, og má sjá það hér.

Kyoto-samningurinn var í dag framlengdur til 2020 og látið er eins og í því fælist markverður árangur í loftslagsmálum. Doha-ráðstefnu um aðgerðir gegn hlýnun jarðar lauk á þennan hátt í dag en þar var hver höndin upp á móti annarri. Stórveldi eins og Bandaríkin, Kína og Indland hafa ekki skuldbundið sig til að hlíta Kyoto-samningnum. Hann er því mun minna virði en af er látið, samningurinn var samþykktur 11. desember 1997 í japönsku borginni Kyoto.

Áhugi á umhverfismálum hefur minnkað undanfarin ár. Stjórnmálamenn eru með hugann við annað. Þau settu hvorki svip á forsetakosningar í Bandaríkjunum né Frakklandi á þessu ári. Hér á landi hafa vinstri-grænir notað umhverfismál til að tefja fyrir ákvörðunum um ýmsar framkvæmdir. Þeir munu þó ekki tala mikið um það skemmdarstarf í komandi kosningabaráttu frekar en framlag sitt til ESB-aðildar.

Í dag skrifaði ég leiðara á Evrópuvaktina um grein sem sr. Örn Bárður Jónsson birti í Fréttablaðinu í dag þar sem hann hóf sjálfan sig og aðra stjórnlagaráðsliða til hæstu hæða vegna framlags þeirra til Íslandssögunnar. Hann telur afrekið og afreksmennina ekki metna að verðleikum og er reiður. Honum er sérstaklega í nöp við fræðimenn sem hafa gert athugasemdir við afraksturinn frá stjórnlagaráði.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafði það til málanna að leggja í dag að stjórnarskrármálið yrði fyrsta mál á dagskrá alþingis eftir jólaleyfi! Hún vildi samkomulag en þó ekki um lægsta samnefnara. Þetta er furðutal hjá ráðherra sem hefur ekkert vald lengur á stjórnarskrármálinu og hefur aldrei lýst neinni skoðun á því hvað hún vill að standi í nýrri stjórnarskrá. Hver er samnefnarinn í málinu að mati Jóhönnu?  Ef hann er að kasta lýðveldisstjórnarskránni er málið jafn dauðadæmt núna í höndum Jóhönnu og þegar hún vildi fyrir tæpum fjórum árum svipta alþingi rétti til að breyta stjórnarskránni.

Föstudagur 07. 12. 12 - 7.12.2012 23:40

Eitthvað óraunverulegt og því í anda Lohengrins var að sitja í Fljótshlíðinni og horfa á óperu Richards Wagners Lohengrin í beinni útsendingu frá La Scala í Mílanó í Arte. Tómas Tómasson baritónn syngur eitt aðalhlutverkið sem Friedrich von Telramund. Jonas Kaufman er Lohengrin. Anja Harteros átti að syngja hlutverk Elsu von Brabant en hún er með flensu og einnig Ann Petersen sem æfði hlutverkið til vara. Til að bjarga málum var kallað í Annette Dasch sem hefur sungið Elsu í Bayreuth síðan 2010, hún kom ekki til Mílanó fyrr en í gærkvöldi. Þýska söngkonan Evelyn Herlitzius  fer með hluverk Ortrud. Þjóðverjinn René Pape er Heinrich konungur. Daniel Barenboim stjórnar hljómsveitinni.

Að Tómas Tómasson skuli syngja eitt aðalhlutverka í þessari uppfærslu Scala staðfestir aðeins hve langt hann hefur náð í list sinni. Hann stóð þarna jafnfætis hinum fremstu.

Rætt var við Barenboim í hléi. Hann sagði að við flutning verksins yrðu menn að hafa  í huga sem Wilhelm Furtwängler hefði sagt að líta þyrfti á samhengið milli fyrsta tóns verksins og hins síðasta, það væri hin eina rétta strategíska sýn, ekki mætti gleyma sér í taktískum atriðum sem hvert og eitt væru hluti heildarmyndarinnar en ekki atriði fyrir sig. Sýningin er í þessum anda og áhorfendur rjúfa hana aldrei með því að klappa eftir arírur. Verkið flýtur áfram eins og svanur á lygnu fljóti.

Með frumsýningunni á Lohengrin hefst starfsár Scala-óperunnar 2012-2013. Á árinu verður minnst 200 ára afmælis Þjóðverjans Wagners annars vegar og Ítalans Giuseppe Verdis hins vegar. Hneykslast margir á að Wagner skuli vera á undan Verdi. Barenboim sagði að þetta tal væri tóm vitleysa. Afmælisárið væri 2013 og nú væri 2012, Verdi yrði minnst að verðleikum.

Girorgio Napolitano, forseti Ítalíu, var dreginn inn í deiluna um Wagner eða Verdi þegar látið var að því liggja að hann sækti ekki frumsýninguna til að mótmæla verkefnavalinu. Forsetinn sagði þetta rangt. Hann þyrfti að sinna skyldustörfum í Róm, sér væri misboðið með hinni ómaklegu gagnrýni á Scala. Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, sást meðal óperugesta og lét ekki trufla sig þótt flokkur Berlusconis hefði horfið frá stuðningi við ríkisstjórnina í gær. José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, komst ekki til Milanó vegna snjókomu í Brussel.

Hinn 15. janúar verður Falstaff eftir Verdi frumsýnd. Á árinu 2013 verða sjö óperur Verdis fluttar og sex eftir Wagner.

Fylgjast mátti með sýningunni í sjónvarpi og 600 kvikmyndahúsum um heim allan auk þess var skjám komið fyrir utan dyra víða í Mílanó. Undir klukkan 22.00 að íslenskum tíma varð tæknileg bilun í nokkrar mínútur. Þá rofnaði sendingin einnig þegar listamönnunum var fagnað í lokin.

 

 

 

Fimmtudagur 06. 12. 12. - 6.12.2012 21:10

Varnaðarorðin sem látin eru falla vegna þess hvernig haldið er á stjórnarskrármálinu á alþingi eru þess eðlis að væri um venjulegt lagafrumvarp að ræða hefði það verið afturkallað. Þetta er hins vegar sjálf stjórnarskráin samt er látið eins og ekkert sé sjálfsagðara en að böðlast áfram. Ég ræddi þetta í pistli sem ég birti hér á síðunni í dag.

Merkilegt var að heyra Árna Þór Sigurðsson (VG), formann utanríkismálanefndar alþingis, lýsa yfir í Spegli fréttastofu ríkisútvarpsins í kvöld að hann teldi koma til greina að gera „formlegt hlé“ á ESB-viðræðunum vegna komandi þingkosningana. Taldi hann að annir stjórnmálamanna yrðu svo miklar að ekki gæfist neitt tóm til að sinna ESB-málinu í aðdraganda kosninganna.

Hingað til hafa menn eins og Árni Þór talað eins og alls ekki ætti að huga að neinu hléi á viðræðunum, þeir hafa að minnsta kosti lagst á móti stefnu Sjálfstæðisflokksins um það. Hún felur jafnframt í sér að viðræðuþráðurinn verði ekki tekinn upp að nýju fyrr en þjóðin hefur veitt umboð til þess í atkvæðagreiðslu.

Árni Þór er með þessu að leitast við að tala sig í mjúkinn hjá þeim kjósendum sem hafa sagt skilið við VG vegna svika flokksins í ESB-málinu. Nú á að bregða upp nýrri grímu fyrir kosningar. Hentistefnustjórnmálamaður eins og Árni Þór notar þá grímu hverju sinni sem hann telur best fallna til að ná settu marki. Hann mun ekki hika við að kaupa völd að kosningum loknum með stuðningi við ESB-aðildarviðræður.


Miðvikudagur 05. 12. 12. - 5.12.2012 23:20

Í dag ræddi ég við Pál Harðarson, forstjóra Kauphallarinnar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um leið úr gjaldeyrishöftum. Páll hefur vel ígrundaða skoðun á vandanum. Hann telur að of mikið sé gert úr hættu á útstreymi fjár verði höftunum aflétt, mesta hættan sé kannski að Íslendingar ákveði sjálfir að flytja fé úr landi. Besta leiðin til að afnema höftin á skynsamlegan hátt sé að góð efnahagsstjórn sé hér á landi. Því fari víðsfjarri að svo sé núna. Þáttinn má næst sjá á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Í kvöld hlustaði ég á Messías í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, kórs Áskirkju og fjögurra einsöngvara í Eldborg undir stjórn Nicholas Kraemers. Flutningnum var mjög vel tekið. Að þessu sinni flytur þessi hópur listamanna Messías á tvennum tónleikum í Eldborg, Verkið var flutt þar á einum tónleikum í fyrra og var þá ekki unnt að koma til móts við alla sem vildu fá miða.

Framboðið á tónleikum í Reykjavík fyrir og um jólin jafnast á við það sem er í boði í milljónaborgum.

Þriðjudagur 04. 12. 12 - 4.12.2012 19:20

Í dag efndi Varðberg til fundar í Odda, Háskóla Íslands, um voðaverk gegn þjóðaröryggi. Þar flutti Sture Vang frá embætti ríkislögreglustjórans í Noregi erindi um voðaverkið 22. 07. 11 þegar Anders Breivik lagði bíl með sprengju í anddyri forsætisráðuneytisins í Osló og olli gífurlegu tjóni. Síðan hélt hann í Útey og réðist þar með skotvopnum á ungt fólk. Hann felldi 77 manns.  Hér má lesa frásögn af erindi Vangs. Þegar hann hafði lokið máli sínu ræddi Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, málið frá sjónarhóli íslenskra lögregluyfirvalda. Hér má lesa frásögn af ræðu Jóns.

Sture Vang sagði að gagnrýni á viðbrögð norsku lögreglunnar vegna voðaverkanna ætti við rök að styðjast og unnið væri að endurbótum, hvítbók um nauðsynlegar úrbætur væri væntanleg í febrúar. Það mundi kosta nokkur hundruð milljónir norskra króna að hrinda þeim í framkvæmd. Í Noregi réð lögreglan til dæmis ekki yfir nægilega góðu fjarskiptakerfi til að takast á við atburð af þessu tagi.

Hér á landi er fjarskiptakerfi lögreglunnar öflugra en í Noregi. Á hinn bóginn þarf að taka risaskref við að styrkja lögregluna til að hún geti tekist á við ný viðfangsefni sem við blasa ef mark er tekið á mati greiningardeildar lögreglunnar. Fyrsta verkefnið er þó að tryggja  sjálfan grunn löggæslu í landinu en að honum er nú vegið vegna fjárskorts.

Síðan er sérstakt umhugsunarefni að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga sem þrengir rannsóknarheimildir lögreglu auk þess sem hann leggst alfarið gegn heimild til að stunda forvirkar rannsóknir. Í skýrslu um voðaverkin í Osló er lögð áhersla á gildi slíkra rannsókna. Allt bendir til að markvisst sé unnið að því að veikja lögregluna og starfsgrundvöll hennar.

Mánudagur 03. 12. 12 - 3.12.2012 21:00

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S), einn varaforseta alþingis, tók af skarið í dag um að ekki hefði verið gert neitt samkomulag um hvernig standa ætti að 2. umræðu fjárlagafumvarpsins á þingi. Björn Valur Gíslason (VG) og Lúðvík Geirsson (SF) báru fyrir sig slíkt samkomulag og þeir hefðu verið að framfylgja því með forkastanlegri framgöngu og spjöldum með áletruninni MÁLÞÓF að kvöldi föstudags 30. nóvember fyrir framan sjónvarpsmyndavélina í þingsalnum. Þetta gerir hlut þeirra Björns Vals og Lúðvíks enn verri en áður.

Nú er ljóst að eftir að Huang Nubo misheppnaðist að beita sveitarstjórnarmönnum á Norðausturlandi fyrir sig að hann hefur rekið enn einn fleyginn milli Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar eins og lýst er hér á Evrópuvaktinni. VG má ekki við frekari klofningi en honum er þröngvað upp á flokkinn vegna undirlægjuháttar Steingríms J. gagnvart Samfylkingunni sem er á góðri leið til að gera flokkinn minni en Bjarta framtíð Guðmunds Steingrímssonar.

Stjórnarhættir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eru á þann veg að eina leiðin til að losna undan okinu sem hún leggur á þjóðina er að rjúfa þing og efna til kosninga strax á nýju ári.

Sunnudagur 02. 12. 12. - 2.12.2012 23:55

Wagner-félagið sýndi í Norræna húsinu mynd sem breski leikarinn og þáttargerðarmaðurinn Stephen Fry hefur gert um aðdáun sína á Richard Wagner og ferð á sumarhátíðina í Bayreuth. Fry er gyðingur og varð að gera upp við misnotkun Adolfs Hitlers og nasista á Wagner áður en hann settist í hinn einstaka sal á Grænu hæðinni í Bayreuth og naut verka Wagners.

Myndin er vel gerð eins og aðrar heimildarmyndir Frys. Mat hans er að list Wagners eigi ekki að gjalda þess að Hitler hreyfst af henni og því síður að ýmsir úr fjölskyldu Wagners hrifust af nasisma. Athyglisvert að breskir makar afkomenda Wagners  gengu lengst í aðdáun á Hitler og boðun þjóðernisstefnu.

Athygli mín var vakin á því af öryggissérfræðingum í Stokkhólmi að á Íslandi gilti enn regla við öryggisskoðun vegna flugferða sem ekki gilti annars staðar í Evrópu, að menn þyrftu að fara úr skónum. Á Arlandaflugvelli er þess ekki krafist og ekki heldur að maður taki af sér beltið. Hvað veldur þessum mun? Maður sem flaug um London frá Toronto sagðist hafa orðið að fara úr skónum á Heathrow-flugvelli. Hvers vegna þar en ekki á Arlanda?

 

Laugardagur 01. 12. 12 - 1.12.2012 21:21

Flugum heim frá Stokkhólmi í dag með Icelandair og allt var á áætlun. Á leiðinni út til Arlanda-flugvallar var snjór yfir öllu en auð jörð frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur.

Málþing SIPRI um þróun mála innan Norðurskautsráðsins og á norðurslóðum var eitt af ótalmörgum  alþjóðlegum fundum sem efnt er til um þessar mundir um málefni norðurslóða. Þarna var sérstaklega rætt um Norðurskaustráðið á þeim tímamótum þegar formennska í ráðherraráði þess færist frá Norðurlöndunum til Norður-Ameríku.

Augljóst er að mikilvæg þáttaskil verða í starfsemi ráðsins með ráðningu Magnúsar Jóhannessonar sem forstjóra skrifstofu ráðsins í Tromsö. Magnús er með reynslu af sviði umhverfismála og siglingaröryggis. Það fellur að hefðbundnum verkefnum Norðurskautsráðsins. Á málþingi SIPRI kom hins vegar fram að þróa yrði ráðið á þann veg að það yrði vettvangur til að skapa traust á milli þjóðanna á sviði hernaðarlegra samskipta (Confidence Building Measures, CBMs).

Þessi áhersla á CBMs bendir til að umræðurnar um að ekki þurfi að hafa áhyggjur af hernaðarlegum umsvifum á svæðinu séu að taka nýja stefnu, það sé þrátt fyrir allt ástæða til að huga að þeim þætti eins og öðrum í samskiptum þjóðanna.

Föstudagur 30. 11. 12 - 30.11.2012 21:10

Það snjóaði í Stokkhólmi í dag. Margt fólk var þó á ferli á verslunargötum.

Í Hallwylska Museet sem er í Hallwylska palatset (Hallwylska-höllinni) í miðborg Stokkhólms má nú sjá sýningu á kjólum sem frúrnar klæðast í sjónvarpsþáttunum Downton Abbey. Höllin var reist á árunum 1893 til 98 sem vetrarheimili fyrir Walther og Wilhelminu von Hallwyl. Hjónin gáfu sænska ríkinu húsið árið 1920 til að þar yrði safn og var það opnað árið 1938.

Í Nóbelsafninu við Stortorget, Gamla Stan, er nú sérstök sýning tileinkuð Hertu Müller (f. 1953) sem hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2009. Þar má sjá við hve mikið ofríki hún bjó í Rúmeníu á stjórnarárum Ceausescu-hjónanna. Hún hóf feril sinn sem rithöfundur til að brjótast undan því oki öllu og kommúnismanum.

Í Nóbelsafninu er margt til sýnis sem tengist Nóbelsverðlaunahöfum í áranna rás, þar á meðal viðtöl við þá sem hafa fengið þau hin síðari ár og myndskreyttar frásagnir af eldri verðlaunahöfum.

Ummæli þeirra eiga það sammerkt að enginn stefndi að uppgötvun eða afreki sem leiddi til Nóbelsverðlauna. Þeir hlutu þau fyrir eitthvað sem varð til vegna mikillar menntunar, þjálfunar, vinnu og þrautseigju. Að lokum réð oft tilviljun eða hugmynd sem vaknaði annars staðar en við skrifborðið eða rannsóknartækin að rambað var á eitthvað sem leiddi til verðlaunanna.

 

Fimmtudagur 29. 11. 12 - 29.11.2012 19:55

Sat í dag málþing SIPRI hér í Stokkhólmi þar sem rætt var um breytingar á Norðurskautsráðinu þegar formennska í því flyst frá Norðurlöndunum til Norður-Ameríku í maí 2013 og verður þar til 2017, fyrst í höndum Kanadamanna og síðan Bandaríkjamanna. Merkilegt var að hlusta á útlistanir á óskum Kína og ESB um fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsáðinu og hve mikill samhljómur er í rökum þeirra. Ég lét undir höfuð leggjast að benda á, að bæði Kína og ESB sækjast eftir auknum ítökum á Íslandi til að styrkja stöðu sína á norðurslóðum. Ég er ekki sannfærður um að aðild Íslands að ESB mundi á nokkurn hátt styrkja stöðu Íslendinga gagnvart ásókn Kínverja. Sumir aðildarsinnar á Íslandi sýnast þeirrar skoðunar.

Fréttir af frumvarpi Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að takmarka rannsóknarheimildir lögreglunnar eru í samræmi við stefnu VG um að gera lögreglu eins máttlitla og frekast er unnt. Þá samrýmast þessar tillögur Ögmundar einnig vel þvermóðsku Samfylkingarinnar þegar ég vildi styrkja lögregluna á sínum tíma og þingflokkurinn Samfylkingarinnar brá fæti fyrir alla marktæka viðleitni til að skapa lögreglu betri skilyrði en áður til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi.

Hvert frumvarpið eftir annað sem miðaði að vernd almennra borgara var tekið í gíslingu af andstæðingum Sjálfstæðisflokksins eða stefnu minni, meðal annars innan Framsóknarflokksins, til að ganga í augun á einhverjum þrýstihópum sem reistu skoðanir sínar á misskilinni umhyggju fyrir minnihlutahópum eða jafnvel femínisma.

Ég skil ekki að nokkrum hafi dottið í hug að Ögmundur Jónasson mundi skila af sér sem innanríkisráðherra með þann vitnisburð að hann hefði eflt og styrkt lögregluna í landinu með því að auka öryggi lögreglumanna eða auðvelda þeim að takast á við sífellt hættulegri brotastarfsemi með auknum rannsóknarheimildum. Ekkert slíkt vakir fyrir honum enda mundi hann með því brjóta á bága við stefnu VG. Þetta telja ráðherrar VG sér skylt að framkvæma með vísan til stefnu flokks síns á sama tíma og þeir svíkja allt sem þeir hafa sagt um ESB-aðild og andstöðu sína við hana.

Miðvikudagur 28. 11. 12 - 28.11.2012 15:40

Flugum með Icelandair frá Keflavík til Stokkhólms, vél stundvísasta flugfélags í Evrópu komst ekki af stað á mínútunni af því að dráttarbíll startaði ekki og því tafðist að draga hana frá rananum á Leifsstöð.

Við lentum þó á áætlun á Arlanda-flugvelli. Ég hef ekki áður farið með Arlanda Express á 20 mínútum frá flugvellinum inn í hjarta borgarinnar. Mikil og góð breyting á tenginu flugvallar og miðborgar.

Það rignir í Stokkhólmi og er heldur drungalegt yfir öllu þótt jólaljósin séu tekin að lýsa upp skammdegið.

Þriðjudagur 27. 11. 12 - 27.11.2012 22:00

Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, kom hingað til lands í annað sinn frá hruni bankanna haustið 2008 og gaf okkur góð ráð í hátíðarsal Háskóla Íslands. Sagt er að salurinn hafi verið þéttsetinn. Persson er góður ræðumaður og reyndist þjóð sinni ágætur forsætisráðherra. Hann reyndist hins vegar hafa rangt fyrir sér um afstöðu hennar til evrunnar. Persson barðist eindregið fyrir upptöku evru í Svíþjóð.

Hann tapaði í þjóðaratkvæðagreiðslu sem efnt var til um miðjan september 2003. Þá greiddu 56,1% atkvæði gegn upptöku evru en 41,8% studdu evruna, þátttaka í atkvæðagreiðslunni var mikil, 81,2%. Í ræðum Perssons fyrir kjördag fór hann mikinn og hafði uppi stór orð um hættuna sem steðjaði að Svíum segðu þeir nei. Hann talaði á svipaðan hátt og þeir gerðu hér sem sögðu að allt mundi fara til fjandans ef Íslendingar höfnuðu Icesave-samningunum.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna sat Persson fyrir svörum fréttamanna á fundi. Þá spurði einn: Forsætisráðherra, fyrir kjördag boðaðir þú að hér yrði allt í kalda koli ef menn segðu nei við evrunni. Hvenær hefjast þær hörmungar? Persson svaraði: Nú, á ég að hafa sagt það, ég man bara ekki eftir því.

Eitt af því sem Persson sagði þegar hann kom hér í fyrra skiptið til að stappa stálinu í okkur Íslendinga var að hið vitlausasta sem menn gerðu á stundu sem þessari væri að rjúfa þing og ganga til kosninga. Að þessu leyti reyndist hann sannspár. Hvernig sem á málið er litið getur enginn sagt að það hafi verið heppilegast fyrir Íslendinga að Ólafur Ragnar  leyfði Jóhönnu og Steingrími J. að mynda minnihlutastjórn og hefja síðan þá sundrungariðju sem þau hafa stundað og ekki er enn lokið. Sundrungin er svo mikil að Ólafur Ragnar taldi sig ekki eiga annarra kosta völ en bjóða sig fram í fimmta sinn sem forseti. Þjóðin yrði þó að eiga eitthvert sameiningartákn!

Göran Persson segir að Íslendingar eigi að ljúka viðræðum við ESB með niðurstöðu. Þetta bendir til að hann viti ekki um hvað málið snýst í viðræðum Íslands og ESB. Þá sé hann álíka mikið úti að aka um afstöðu Íslendinga og um afstöðu Svía árið 2003 þegar hann taldi að þeir mundu samþykkja upptöku evru. Enn þann dag í dag neitar sænska ríkisstjórnin að taka þátt í ERM II sem er fyrsta skref til upptöku evru. Að reglum ESB er Svíum skylt að nota evru, aðeins Bretar og Danir hafa frelsi frá Brussel til að nota eigin mynt.

 

Mánudagur 26. 11. 12 - 26.11.2012 21:50

Það er ótrúlegt að lesa nöldrið í óvildarmönnum Sjálfstæðisflokksins þegar þeir fjalla um hið velheppnaða prófkjör flokksins í Reykjavík laugardaginn 24. nóvember.

Óli Björn Kárason vakti athygli á rangfærslum stjórnmálafræðings við Háskólann á Akureyri um þátttöku í prófkjörinu. Hún er síst verri en áður. Yfirlýsingar Grétars Þórs Eyþórssonar kennara við HA um prófkjör sjálfstæðismanna og forval VG virðast hafa verið gefnar að óathuguðu máli. Hér má sjá grein Óla Björns.

Það er ekkert einstakt við að þingmaður færi sig af lista utan af landi til Reykjavíkur. Að Björn Valur Gíslason skuli hafa gert það skýrir ekki afhroð hans í forvali VG í Reykjavík eins og Grétar Þór vildi gera.

Skoðanir Björns Vals eða framganga höfða einfaldlega ekki til kjósenda. Eftir að hann varð formaður fjárlaganefndar alþingis lætur hann eins og ekkert sé honum og stórkallalegum yfirlýsingum hans óviðkomandi. Þá snerist hann á sínum tíma öndverður við skoðunum Katrínar Jakobsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur um að eðlilegt væri að endurskoða forsendur ESB-viðræðnanna vegna þess hve þær hefðu dregist á langinn og ástandið innan ESB væri allt annað nú en 2009. Meira að segja Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, var mildari í garð ESB-sjónarmiða VG-ráðherranna tveggja en Björn Valur. Í forvalinu fékk Árni Þór mun meira fylgi en Björn Valur.

Ókum norðan úr Húnavatnssýslu í dag í fegursta veðri. Íbúar fyrir norðan sögðu að við hefðum verið heppin um helgina því að undanfarandi helgar hefðu einkennst af vondu veðri og ófærð.

Sunnudaginn 25. 11. 12 - 25.11.2012 23:55

Í dag klukkan 15.00 hélt Rut stofutónleika í hinu glæsilega Heimilisiðnaðarsafni á Blönduósi. Hún lék þar einleiksverk á fiðlu.

Ég skrifaði pistil um úrslit prófkjara.

Laugardagur 24. 11. 12 - 24.11.2012 23:10

Sjálfstæðisflokkurinn kemur sterkur frá prófkjörinu í Reykjavík í dag undir nýrri forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem hlaut glæsilega kosningu. Þá styrkti flokkurinn sig verulega á landsbyggðinni þegar kjördæmisþing flokksins í NV-kjördæmi ákvað á fundi í Borgarnesi að velja Harald Benediktsson í 2. sæti á lista flokksins þar. Hanna Birna og Haraldur eru bæði með mikla reynslu af starfi í almannaþágu hvor á sínum vettvangi og hafa áunnið sér traust samstarfsfólks langt út fyrir raðir sjálfstæðismanna.

Þá var einnig ánægjulegt að Brynjar Níelsson hrl. hlaut gott brautargengi í prófkjörinu í Reykjavík. Brynjar hefur verið ódeigur við að lýsa skoðunum sínum og segir óhikað hinni pólitísku rétthugsun stríð á hendur. Það er mikil þörf fyrir menn með hugrekki til þess á hinum pólitíska vettvangi.

Allt annað yfirbragð er á ákvörðunum sjálfstæðismanna um skipan á lista en VG þar sem efnt var til forvals í SV-kjördæmi og Reykjavík í dag. Ég tel að Steingrímur J. komi laskaður frá átökunum í forvalinu því að útsendarar hans náðu ekki settu marki eins og ég lýsi hér.

Þáttur minn á ÍNN frá 21. nóvember þar sem ég ræði við Hafstein Þór Hauksson, lektor við lagadeild HÍ, um stjórnarskrármálið er kominn á netið  og má sjá hann hér.

Í dag ókum við norður í Húnavatnssýslu í ágætri færð en töluverðri hálku, krapi var í Norðurárdalnum. Umferð var ekki mikil.

Föstudagur 23. 11. 12 - 23.11.2012 23:40

Það er frábært framtak hjá Elínu Hirst, Kjartani Gunnarssyni og þeim sem unnu með þeim að heimildarmyndinni um stofnfrumurnar að kynna þær og mikið gildi þeirra fyrir almenningi á þann hátt sem gert er í myndinni. Hún er í senn fræðandi og áhrifamikil.

Íslendingar eru fordómalausir í samanburði við aðrar þjóðir í þessu efni. Íslensk mynd um stofnfrumur á erindi til fleiri en áhorfenda hér til að opna augu sem flestra fyrir gildi þess að nýta þessa tækni til að sigrast á sjúkdómum sem til þessa hafa verið taldir ólæknandi. Myndin sýnir að það er unnt og fékk Elín hugrakka einstaklinga til að segja sögu sína og lýsa eigin reynslu.

Á morgun er prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ég hef á öðrum vettvangi lýst skoðun minni á nauðsyn endurnýjunar. Tækifæri til hennar gefst í þessu prófkjöri. Dugnað stjórnmálamanna má mæla á ýmsan hátt. Ég tel mestu skipta að enginn efist um meginskoðanir þeirra og hvaða aðferðum þeir beita við úrlausn mála.

Lítið hald reynist í mönnum sem haga sér eins og vindurinn blæs og hengja sig á það sem þeir telja helst til þess fallið að vekja athygli á hverjum tíma án þess að því sé fylgt eftir með öðru en upphrópunum. Jóhanna Sigurðardóttir starfaði þannig í stjórnarandstöðu.Hún var aldrei til friðs innan eigin flokks og þegar hún komst á toppinn hlaut íslenska þjóðin forsætisráðherra án annars markmiðs en að gera stjórnarandstöðunni lífið leitt. Jóhanna breytti í raun ekki um takt.

Rætt er um það sem dugnað að elta stjórnarherra með sífelldum fyrirspurnum. Vissulega er góðra gjalda vert að afhjúpa það sem miður fer og hér skiptir atbeini stjórnmálamanna meiru í því efni en víða annars staðar vegna þess hvernig fjölmiðlun er háttað.  Að lokum skiptir þó miklu meira máli að vekja athygli á brotalömum í stefnu andstæðinga í stjórnmálum og leggja fram heildstæða stefnu sem vekur meiri tiltrú en til dæmis stjórnarherrarnir fylgja. Ná að setja fram skoðanir sínar á þann hátt að vitað sé fyrir hvað menn standa og höfða með því til almennings.

Í framboði í prófkjöri sjálfstæðismanna er fólk sem ég tel fært um að móta og fylgja fram stefnu flokksins af meiri þunga en gert hefur verið. Ég vona að það nái allt kjöri.

 

 

 

Fimmtudagur 22. 11. 12 - 22.11.2012 22:20

Aðalfundur Varðbergs var haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns í dag og var stjórn félagsins endurkjörin. Ég flutti skýrslu stjórnar og má lesa hana hér.

Morgunblaðið birtir í dag frétt um að Gunnar Þ. Andersen, fyrrv. forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hafi kært „alþingismanninn Guðlaug Þór Þórðarson, Ágústu Johnson, eiginkonu Guðlaugs, og Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, til embættis sérstaks saksóknara. Kæran lýtur að meintum brotum á lögum um mútur og umboðssvik og hlutdeild í málum tengdum Bogmanninum, félagi í eigu Guðlaugs Þórs og Ágústu,“ segir í blaðinu.

Guðlaugur Þór segir „ekkert athugavert við þessi viðskipti sem voru fyrir áratug og menn mega skoða það eins og þeir vilja“. Þingmaðurinn segir kæruna þátt „í leikriti Gunnars Andersen og Inga Freys [blaðamanns] á DV“ og hann „efast ekki um að þeir verða örugglega fleiri“ leikþættirnir.

Stuðningsmenn Guðlaugs Þórs setja fréttir af einvígi Gunnars Þ. og Guðlaugs Þórs í samband við prófkjör sjálfstæðismanna  í Reykjavík nk. laugardag þar sem Guðlaugur Þór sækist eftir 2. sæti. Halldór Jónsson í Kópavogi, eindreginn stuðningsmaður Guðlaugs Þórs, segir á vefsíðu sinni í dag:

„Auðvitað skaðar þetta Guðlaug Þór í prófkjörinu, þar sem einhverjir kjósa hann ekki vegna þessa máls sem annars hefðu kosið hann og kjósa þar með aðra. Forstjórinn og DV geta vel við unað. Spurningin er hversu mikinn skaða Guðlaugur ber af þessu máli hvað sem svo líður útkomu þess í fyllingu tímans. Sýkna eða sakfelling breytir þar engu um og skiptir ekki máli, því skaðinn er skeður. Fáir munu taka eftir málalyktum þegar þær verða.“

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og laganemi við HR, segir Gunnar Þ. í  „ófrægingarherferð gegn Guðlaugi Þór og eiginkonu hans. Svo virðist sem siðferðisbrestur Gunnars Þ. Andersen sé algjör,“ segir Björn Jón.

Prófkjör bindur ekki enda á þetta mál. Hætta er á að því verði að ósekju klínt á Sjálfstæðisflokkinn.  Hér er meira í húfi en hagsmunir eins frambjóðanda þótt alls ekki beri að gera lítið úr þeim.  Málum af þessu tagi ber að ljúka fyrir dómstólum en ekki á pólitískum vettvangi.

 

 

Miðvikudagur 21. 11. 12 - 21.11.2012 21:40

Ræddi í dag við Hafstein Þór Hauksson, lektor í lagadeild Háskóla Íslands, um stjórnarskrármálið í þætti mínum á ÍNN. Hann sat í sérfræðinganefndinni sem skipuð var að tilhlutan stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar alþingis til að skoða tillögur stjórnlagaráðs.

Því meira sem menn rýna í þetta stjórnarskrármál hljóta þeir að sjá hve fráleitt er að það verði afgreitt með nokkru viti á fjórum mánuðum fram að þingkosningum. Spurningarnar sem ekki hefur verið svarað eru svo margar að það er skiljanlegt að þeir sem vilja hespa af nýrri stjórnarskrá forðist að velta þeim fyrir sér. Aðrir hafa hins vegar gert það eins og sérfræðinganefndin.

Það er ábyrgðarleysi að láta eins og athugasemdir sérfræðinganna snerti aðeins lagatæknileg atriði. Miklu meira er í húfi en látið er í veðri vaka með því að nota orðið „lagatækni“ eins og um jafnvel léttvæga hluti sé að ræða. Þetta blasir við öllum sem hlusta á Hafstein Þór í þætti mínum. Hann er sýndur klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.

Þriðjudagur 20. 11. 12 - 20.11.2012 22:55

Þegar lagt var á ráðin um kröfur til hljómburðar í tónleikasalnum sem nú heitir Eldborg í Hörpu leitaði ég til Vladimirs Ashkenazys og ræddum við málið í hádegisverði í Lækjarbrekku. Ég spurði hann ráða vegna þess hve víða hann hafði komið fram. Við þekktumst frá því snemma á áttunda áratugnum þegar ég vann að því með Matthíasi Johannessen og fleirum að fá leyfi fyrir föður Ashkenazys til að ferðast frá Sovétríkjunum og heimsækja son sinn og fjölskyldu hans hér á landi. Það gekk eftir og minnist ég kvöldverðar með foreldrum Ashkenazys á heimili þeirra Þórunnar og Vladimirs við Brekkugerði.

Þegar við ræddum hljómburðinn um miðjan 10. áratuginn benti Ashkenazy á hljómburðarsérfræðinga hjá fyrirtækinu Arctec í New York og sali sem þeir hefðu hannað meðal annars í Birmingham þar sem Simon Rattle var þá aðalstjórnandi. Haft var samband við Arctec og þeir höfðu áhuga á verkefninu og fylgdu tónlistarhúsinu  þar til það reis. Aldrei var slegið af kröfunni um hinn besta hljómburð. 

Nú í kvöld kom Sir Simon Rattle og stjórnaði Berliner Philharmoniker, einni af þremur bestu hljómsveitum heims, í Eldborg af því að hann vildi fá tækifæri til að kynnast hljómburði salarins, hann hefði heyrt mikið af honum látið. Þegar þetta er skrifað hefur Sir Simon Rattle ekki sagt neitt opinberlega um hvernig honum þótti að stjórna í Eldborg. Hann stjórnaði hins vegar frábærlega hinni margfrægðu og rómuðu hljómsveit. Hún stóð vissulega undir væntingum.

Mánudagur 19. 11. 12 - 19.11.2012 22:55

Enn einu sinni skiptast Ísraelar og Hamas-hryðjuverkamenn á eldflaugaárásum. Eldlaugum sem Hamas hefur fengið frá Íran er skotið frá Gaza inn í Ísrael, því lengra sem þær draga þeim mun þyngri vopnum beita Ísraelar. Þá hefur her Ísraels verið settur í viðbragðsstöðu og varalið virkjað. Innrás á Gaza-svæðið er hótað.

Átökin nú eru við allt aðrar aðstæður en áður. Nýir stjórnarherrar eru í Egyptalandi. Í Kairó leita menn samkomulags um vopnahlé. Í Reykjavík efna ráðherrar til mótmæla við bandaríska sendiráðið og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flytur ræðu um að ástæða sé til að mótmæla þar af því að Bandaríkjamenn leggi Ísraelum lið.

Fyrir norðan Ísrael í Sýrlandi hefur forseti landsins beitt hervaldi gegn borgurum eigin lands og ástandið er miklu verra en á Gaza-svæðinu . Sýrlenskir borgarar eru ekki óhultir gagnvart eigin yfirvöldum. Hvað eftir annað hefur verið reynt að ná samkomulagi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um róttækar alþjóðlegar ráðstafanir til að stöðva hina grimmu ráðamenn í Damaskus. Rússar og Kínverjar beita neitunarvaldi í ráðinu til að hindra framgang mála sem þeir telja að þrengi um of af Sýrlandsforseta. Hefur nokkur íslenskur ráðherra séð ástæðu til að taka til máls fyrir utan sendiráð Rússlands eða Kína í Reykjavík til að mótmæla stuðningi stjórnvalda þessara ríkja við Sýrlandsforseta?

Óvildin í garð Ísraels fer á einkennilegan hátt út fyrir skynsamleg mörk hjá þeim innan Samfylkingarinnar og meðal vinstri grænna sem keppa um fylgi þeirra hópa hér á landi sem berjast fyrir rétti Palestínumanna. Að mótmæla við sendiráð Bandaríkjanna til að láta í ljós óvild í garð Ísraela er einskonar kjækur. Vildi Bandaríkjastjórn koma í veg fyrir pólitískan þrýsting á Ísraela á alþjóðavettvangi hefði hún beitt neitunarvaldi gegn þátttöku aðalritara Sameinuðu þjóðanna í vopnahlésfundum í Kairó.

Eðlilegt er að skoða andstöðu Ögmundar innanríkisráðherra við forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu í ljósi þátttöku hans í mótmælaaðgerðum við bandaríska sendiráðið.

Lesa meira

Sunnudagur 18. 11. 12 - 18.11.2012 22:00

Ánægjulegt er að þáttaröðin  Downton Abbey skuli hafa verið tekin til sýningar að nýju hjá ríkisútvarpinu. Þættirnir eru á dagskrá alls staðar í nágrannalöndunum. Það þykir BBC ekki til framdráttar að einkastöðin ITV sýni þættina í Bretlandi (fyrst í september 2010) en í Bandaríkjunum sýnir PBS sjónvarpsstöðin þá (fyrst í janúar 2011). Þriðja þáttaröðin hófst í ITV  16. september í ár. Sýningar á henni hefjast í PBS í Bandaríkjunum 6. janúar 2013.

Fréttir bárust um að Michelle Obama, forsetafrú í Bandaríkjunum, væri svo einlægur aðdáandi þáttanna að hún gæti ekki beðið eftir þeim þar til í janúar og hefði því fengið þá frá ITV á mynddiskum. Varð orðið við ósk hennar með því skilyrði að hún upplýsti engan um lyktir þáttanna. Þegar David Cameron, forsætisráðherra Breta, sat kvöldverðarboð í Hvíta húsinu í mars á þessu ári staðfesti Barack Obama ánægju sína með Downton Abbey með því að bjóða leikurunum Hugh Bonneville og Elizabeth McGovern – jarlinum og konu hans – til veislunnar.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur í dag boðað að Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra,  sé líklegur formannsframbjóðandi í Samfylkingunni. Þegar fréttastofan tekur stjórnmálamann í Samfylkingunni upp á arma sína á þennan hátt býr mikið að baki. Augljóst er að í Efstaleitinu líst mönnum ekki á Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem formannsefni gegn Árna Páli Árnasyni.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur ekki leitað álits áfallafræðings á 38% fylgi Össurar Skarphéðinssonar í flokksvali Samylkingarinnar í Reykjavík. Áfalla- og skrímslafræðingur fréttastofunnar, Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, úrskurðaði að réttmætt hefði verið hjá fréttastofunni að úrskurða sem áfall fyrir Bjarna Benediktsson að fá 54% atkvæða í prófkjöri sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi.

Laugardagur 17. 11. 12 - 17.11.2012 22:41

Í dag skrifaði ég pistil um nauðasamninga við kröfuhafa á hendur þrotabúum Kaupþings og Glitnis og má lesa hann hér. Þá setti ég einnig inn á síðuna fimm greinar sem ég skrifaði á Evrópuvaktina um ríkisfjármál og ESB.

Samfylkingin valdi frambjóðendur í þremur kjördæmum í dag: Suðurkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.

Í Suðurkjördæmi fór Oddný Harðardóttir upp fyrir Björgvin G. Sigurðsson – það er sitjandi þingmenn skiptu um sæti. Róbert Marshall sem var í þriðja sæti síðast fór í Bjarta framtíð og því kom nýr í hans stað: Arna Ír Gunnarsdóttir. Björgvin G. fjarlægist forystuhlutverk í Samfylkingunni.

Í Reykjavík röðuðu sitjandi þingmenn sér í fimm efstu sætin: Össur Skarphéðinsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir og Skúli Helgason. Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi komst ofar á listann en Mörður Árnason og Anna Margreit Guðjónsdóttir, eldheitur ESB-aðildarsinni, hlaut 8. sæti.

Ríkisútvarpið segir að litlu hafi munað á fylgi Össurar og Sigríðar Ingibjargar. Össur hlaut 972 atkvæði - 6.669 voru á kjörskrá en  2514 kusu, 38%. Össur hlaut því 39% atkvæða þeirra sem kusu. Telst það ekki mikið fylgi á mælikvarða Össurar og ekki neinn óskabyr vilji hann stefna að formennsku í Samfylkingunni. Líklegra er að úrslitin verði til þess að ýta undir stuðning við Sigríði Ingibjörgu sem formannsframbjóðanda, hún hlaut 1322 atkvæði í 1.-2. sæti.

Teitur Atlason fór mikinn á netinu sem frambjóðandi. Hann kemst hins vegar ekki á blað þegar úrslitin eru kynnt og hefur greinilega goldið afhroð miðað við eigin væntingar. Framboð hans er næsta dapurleg uppákoma miðað við yfirlæti hans í garð annarra. Sömu sögu er að segja um fylgisleysi Marðar Árnasonar. Verður forvitnilegt að fylgjast með því á hverju hann skeytir skapi sínu eftir að hafa fallið sæti neðar en aðrir sitjandi þingmenn Samfylkingarinnar.

Heildarmyndin af Samfylkingunni hefur skýrst eftir að listar hafa verið valdir í þessum fjórum kjördæmum i dag: engin marktæk endurnýjun og léleg niðurstaða fyrir sjálfskipaðan leiðtoga flokksins í stjórnarmyndunarviðræðum, Össur. Líkur eru á formannskosningu milli Árna Páls Árnasonar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur.

Í fimmta kjördæminu, NA-kjördæmi, var flokksval hjá Samfylkingunni fyrir viku. Þar féll Sigmundur Ernir Rúnarsson langt niður eftir listanum en Erna Indriðadóttir náið kjöri í hans stað í 2. sæti á eftir Kristjáni L. Möller þingmanni.

 

Föstudagur 16. 11. 12 - 16.11.2012 23:55

Vilji menn kynnast því hvernig kínversk stjórnvöld leita alls staðar fyrir sér þar sem tómarúm skapast ættu þeir að lesa þessa frétt á Evrópuvaktinni.

Það var meiri snjór í Fljótshlíðinni en ég vænti. Ég komst heimreiðina hjálparlaust en hefði þurft aðstoð í blautum snjó. Það var lausamjöll sem gaf strax undan.

Fimmtudagur 15. 11. 12 - 15.11.2012 21:10

Ræddi klukkan 17.00 við Pál Vilhjálmsson á Útvarpi Sögu um fullveldismál og snerust umræðurnar um stöðuna innan ESB og í aðildarviðræðunum. Auk þess var einnig minnst á stjórnmálastöðuna.

Við erum sammála um að VG hafi farið verst vegna ESB-málsins á kjörtímabilinu og raunar alveg ótrúlega illa þegar litið sé á málstaðinn. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að yfir-markmið VG hafi verið að halda Sjálfstæðisflokknum frá ríkisstjórn og tryggja Steingrími J. völd, þessi tilgangur hefur helgað meðalið sem er að brjóta allar brýr að baki sér í ESB-málum.

Líklega hafa VG-menn trúað boðskap sérfræðinga Samfylkingarinnar um að ESB-aðildarmálinu yrði lokið á kjörtímabilinu og þess vegna þyrftu þeir ekki að standa í þeim sporum núna að ræða um ESB-mál hálfköruð við kjósendur.

Miðvikudagur 14. 11. 12 - 14.11.2012 22:10

Bloggarar eru ólíkir en sækjast sér um líkir.  Hilmar Jónsson (gæti verið dulnefni) bloggari er með okkur Davíð Oddsson á heilanum. Ýmislegt verra getur að vísu komið fyrir menn og eitt af því er til dæmis að trúa Sandkorni sem Reynir Traustason, ritstjóri DV, ritar á vefsíðuna  dv.is og kannski í blaðið sjálft sem ég sé aldrei. Reynir var einn af handlöngurum Baugsmanna á sínum tíma og hefur lagt fæð á okkur Davíð síðan. Hann birti til dæmis brot úr fundargerðum stjórnar Baugs í Fréttablaðinu í byrjun mars 2003 og vildi ekki segja hvar hann hefði fengið þau, þá mátti ekki heldur skýra frá eignarhaldi Baugsmanna á blaðinu af því að það féll ekki að samspili þeirra með Samfylkingunni til að koma Davíð frá völdum.

Hér í dagbókinni var sagt frá því sunnudaginn 11. nóvember að fréttastofa ríkisútvarpsins hefði kallað í Gunnar Helga Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor í HÍ, til að sanna kenningu fréttamanns um að úrslit prófkjörs í SV-kjördæmi hefðu verið „áfall“ fyrir Bjarna Benediktsson. Bjarni hafði hafnað kenningunni þegar fréttamaðurinn kynnti hana en Gunnar Helgi tók undir með fréttamanninum og bætti við að Bjarni stæði frammi fyrir „erfiðu verkefni“ og síðan orðrétt: „Flokkurinn er með ákveðinn aftursætisbílstjóra uppi á Morgunblaði sem ennþá setur mjög mark sitt á flokkinn og gerir hverjum þeim sem ætlar að leiða flokkinn mjög erfitt fyrir.“

Af þessu tilefni sagði ég: „…kallaði fréttastofan í áfalla- og skrímslafræðing sinn, Gunnar Helga. Hann taldi Bjarna hafa orðið fyrir áfalli og minnti á skrímslið í Hádegismóum sem gerði formanni Sjálfstæðisflokksins lífið leitt.“ Reynir komst að því af alkunnu hyggjuviti sínu að með þessum orðum réðist ég illa að Davíð Oddssyni og kallaði hann „skrímsli“ og Hilmar (líklega dulnefni, ólíklegt að nokkur skrifi það sem birtist á síðu hans undir réttu nafni) apar þetta upp eftir snillingnum Reyni.

Hinn 19. ágúst 2009 birtist hér á síðunni  tilvitnun í Gunnar Helga Kristinsson prófessor þar sem hann talaði um „skrímsladeildina“ innan Sjálfstæðisflokksins. Hann telur greinilega Davíð Oddsson í henni auk mín og vafalaust nokkurra fleiri. Ég geri ekki kröfu til þess að Reynir og Hilmar, sé hann til, viti forsögu þess að ég kallaði Gunnar Helga „skrímslafræðing“. Hitt er í samræmi við annan ritsóðaskap þeirra að þeir skuli velta sér upp úr því sem þeir sjálfir skapa vegna þessa.

 

  

 

Þriðjudagur 13. 11. 12 - 13.11.2012 20:30

Íslensk málnefnd efndi til þings í dag í Þjóðmenningarhúsinu um íslensku í tölvuheiminum. Augljóst er að gera verður átak til að treysta stöðu tungunnar á stafrænni öld. Á þinginu voru hins vegar kynnt tvö ný verkefni sem eru til þessa fallin: Nýr íslenskur talgervill sem Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins, kynnti en félagið hefur staðið að gerð hans fyrir 85 m. kr. með samningi við pólska félagið Ivona. Þá kynntu Jón Guðnason, lektor við HR, og Trausti Kristjánsson, frumkvöðull og aðjunkt í HR, talgreini fyrir íslensku en þeir hafa unnið að gerð hans í samvinnu við Google.

Íslensk málnefnd heiðraði ofangreinda menn fyrir framlag þeirra í þágu máltækni og var fróðlegt að kynnast þeim í lýsingu þeirra. Bæði snúast um að tengja tölvur eða snjallsíma og talað mál. Verkefni Blindrafélagsins snýst um að breyta rituðu máli í talað mál. Talgreini verkefnið snýst um að unnt sé að tala við snjallsíma eða tölvu. Á þinginu talaði Trausti við Google í símanum og sagði: Þjóðmenningarhúsið, Google leitaði og kom með rétta niðurstöðu.

Á þinginu var kynnt ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2012. Þar er sagt frá Evrópuverkefninu META-NET frá árinu 2011 sem Eiríkur Rögnvaldsson kom að fyrir Íslands hönd en það var viðamikil könnun á 30 tungumálum og niðurstaðan sýnir að 21 þeirra eiga „stafrænan dauða“ á hættu. „Íslenska er eitt þessara tungumála – stendur raunar næstverst að af vígi af málunum 30,“ segir í ályktuninni en þar er jafnframt bent á að síðan hafi staða íslenskunnar „skánað aðeins“ vegna talgervils Blindrafélagsins og talgreiningarinnar í samvinnu við Google.

Mér kom á óvart að Apple leggur ekki lengur sömu rækt við íslensku og áður. Á sínum tíma þegar ég kom að þessum málum sem menntamálaráðherra beitti ég þeim rökum gagnvart Microsoft að þar á bæ yrðu menn að íslenska forrit til að halda í við Apple. Nú er Apple-kerfið lokað fyrir talgervli Blindrafélagsins! Þá er ekki síður undarlegt að í nýlegri könnun kom fram að 70 skólastjórar af 170 í skólum landsins sögðu „það ekki vera opinbera stefnu skóla síns að íslenskt notendaviðmót væir á tölvum sem nemendur hefur aðgang að.“

Vissulega er nauðsynlegt að leggja fé af mörkum til að forða íslenskri tungu frá „stafrænum dauða“, hitt er þó ekki síður brýnt að unnið sé að því að styrkja stöðu tungunnar í þessum heimi með úrræðum sem eru ókeypis hafi menn áhuga á að nýta þau.

Í dag opnaði Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og ritstjóri Þjóðmála, prófkjörsskrifstofu sína en hann óskar eftir 5. sæti á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík og er vel að því kominn.

Mánudagur 12. 11. 12 - 12.11.2012 21:40

Mats Persson, forstöðumaður hugveitunnar Open Europe, flutti erindi í Háskóla Íslands á vegum Evrópuvaktarinnar, Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt og Alþjóðamálastofnunar um samrunaþróun og samkeppnihæfni evru-svæðisins. Hann taldi engan áhrifamann innan ESB með hugann við aðildarviðræður við Íslendinga. Mun stærri mál væru á dagskrá og þetta væri alls ekki rétti tíminn fyrir smáríki til að ganga í sambandið.

Sama dag og birt er niðurstaða í skoðanakönnun sem sýnir að 53,7% aðspurðra vilja draga ESB-umsóknina til baka birtist viðtal á vegum fréttastofu ríkisins við Michael Leigh sem var forstöðumaður stækkunarskrifstofu ESB. Hann lætur eins og um „samning“ ESB sé að ræða við umsóknarríki þegar málið snýst um að fara að reglum ESB um aðlögun. Að líta á Leigh sem hlutlægan eða hlutlausan aðila þessa máls er fráleitt. Embættismenn stækkunardeildar ESB eru það ekki. Þeir líta á það sem hlutverk sitt að ná markmiðinu sem ESB setur sér þegar umsóknarríki er samþykkt: að ríkið gangi í klúbbinn á forsendum klúbbsins.

Á ruv.is er vitnað í Michael Leigh á þennan hátt:  „Hann er á því að þegar nánar sé að gáð verði fiskveiðimálin ekki sá þröskuldur sem margir Íslendingar kunna að halda. Ástæðan er sú að Íslendingar deila ekki lögsögu við önnur ríki og deilistofnar eru fáir.“ Þessa rullu hafa menn gjarnan farið með þegar þeir halda að nauðsynlegt sé að milda afstöðu Íslendinga til aðildarviðræðnanna. Vandinn nú er hins vegar sá að engar viðræður hefjast um sjávarútvegsmál milli fulltrúa Íslands og ESB nema makríldeilan verði leyst.  Ekki verður séð að rætt hafi verið við Leigh um það mál í ríkisútvarpinu.

Sunnudagur 11. 11. 12 - 11.11.2012 18:20

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um prófkjör sjálfstæðismanna í suðvesturkjördæmi.

Í gær sagði ég hér á síðunni að Jóhönnuarmurinn í Samfylkingunni hefði tapað í prófkjöri flokksins í suðvesturkjördæmi þar sem Árni Páll Árnason sigraði Katrínu Júlíusdóttur fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Á mbl.is í dag segir:

„Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra segist ekki hafa tekið ákvörðun um það hvort hún muni bjóða sig fram til formanns í Samfylkingunni. Hún hafi hins vegar verið hvött til þess að íhuga það bæði í aðdraganda og eftir prófkjörið í gær þar sem Katrín beið lægri hlut fyrir Árna Páli Árnasyni í slag um 1. sæti í SV-kjördæmi. […]

 „Það hefur verið gert, bæði í aðdraganda prófkjörsins og eftir það. En á þessari stundu finnst mér ekki tímabært að taka þessa ákvörðun. Öll prófkjörin þurfa að klárast og þegar úrslitin liggja fyrir úr þeim, þá er fyrst tímabært að skoða stöðuna,“ segir Katrín.“

Hafi Katrín gefið formennskuframboði áður undir fótinn á þennan hátt hefur það farið fram hjá mér. Hefði hún talað svona skýrt fyrir prófkjörið hefði niðurstaðan kannski orðið önnur. Hvers vegna talaði Katrín ekki svona skýrt fyrir prófkjörið? Ástæðan er vafalaust sú að stuðningsmenn hennar hafa talið líklegt að Árni Páll hefði betur og því ekki viljað gera prófkjörið að augljósri baráttu milli tveggja formannsefna. Nú á að bíða eftir niðurstöðunni annars staðar.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor og ráðgjafi Jóhönnu Sigurðardóttur, var í kvöld kallaður til af fréttastofu ríkisútvarpsins til að leggja mat á hvort úrslit prófkjörs sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi hefðu verið „áfall“ fyrir Bjarna Benediktsson. Þar sem Bjarni tók ekki undir þá skoðun fréttamanns ríkisins í hádegisfréttum að hann hefði orðið fyrir „áfalli“ kallaði fréttastofan í áfalla- og skrímslafræðing sinn, Gunnar Helga. Hann taldi Bjarna hafa orðið fyrir áfalli og minnti á skrímslið í Hádegismóum sem gerði formanni Sjálfstæðisflokksins lífið leitt.  

 

 

Laugardagur 10. 11. 12 - 10.11.2012 23:50

Stóru tíðindin í stjórnmálunum á fyrsta degi prófkjörs og forvals vegna þingkosninganna vorið 2013 eru að Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir kemst í væntanlegan þingflokk sjálfstæðismanna í 4. sæti í suðvesturkjördæmi, Elín Hirst stendur í dyragættinni og hugsanlega Óli Björn Kárason. Það fer eftir sóknarhug í komandi kosningabaráttu hvort sex sjálfstæðismenn verða fulltrúar þessa stóra kjördæmis.

Sigmundur Ernir fær skell hjá Samfylkingunni í norðausturkjördæmi og verður ekki á þingi fyrir hana. Kannski gerist hann pólitískur flóttamaður og eygir bjarta framtíð annars staðar. Erna Indriðadóttir er spútnik hjá Samfylkingunni á Austfjörðum og sest í annað sæti listans.

Árni Páll Árnason hlýtur 1. sæti Samfylkingar í suðvesturkjördæmi. Hann sigrar Katrínu Júlíusdóttur fjármálaráðherra, fulltrúa Jóhönnu-arms Samfylkingarinnar sem vill ekki samstarf nema til vinstri. Ætli þessi armur að halda völdum innan Samfylkingarinnar verður hann að finna öflugan frambjóðanda á móti Árna Páli í væntanlegum formannsslag.

Mikið fjölmenni var á kosningaskrifstofu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í dag þegar hún var opnuð. Er greinilega mikill hugur í sjálfstæðismönnum í Reykjavík að veita henni öflugan stuðning.

Föstudagur 09. 11. 12 - 9.11.2012 21:40

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), skóf ekki utan af hlutunum á blaðamannafundi í morgun þegar hann kynnti nýja skýrslu SA um skattamál á blaðamannafundi. Hann sagði um stefnu ríkisstjórnarinnar:

 „Margar breytingarnar [sem ríkisstjórnin hefur gert] eru þess efnis að þær eru að breyta landafræðinni í huga erlendra fjárfesta. Ísland er ekki lengur hluti af Evrópu þar sem treysta má á orð manna og stöðugleika í starfsskilyrðum, Ísland er orðið nyrsta Afríkuríkið. Um þetta er talað meðal erlendra fjárfesta og þetta er staður sem við viljum ekki vera á.“

Þetta kemur heim og saman við greiningu á þjóðum sem lenda í greipum á ábyrgðarlausum vinstristjórnum á borð við stjórn Jóhönnu og Steingríms J. Orð Vilhjálms stangast á við öll fögru orð ríkisstjórnarinnar um hve allt gangi þjóðinni í hag.

Óhætt er að fullyrða að meira mark sé tekið á Vilhjálmi þegar hann lýsir ástandinu hér en Jóhanni Haukssyni, upplýsingafulltrúa Jóhönnu og Steingríms J. Lesi útlendingar það sem Jóhann hefur fram að færa við upplýsingamiðlun í blöðum eða á netinu sannfærast þeir endanlega um að lýsing Vilhjálms sé rétt. Skrif Jóhanns eru í anda blaðafulltrúa óhæfra ríkisstjórna  og því eitt sjúkdómseinkennanna.

Fimmtudagur 08. 11. 12 - 8.11.2012 22:50

Hér má sjá nýjasta þátt minn á ÍNN viðtal við Ingibjörgu Jónsdóttur, dósent í landafræði við Háskóla Íslands, sem fór með kínverska ísbrjótnum Snædrekanum um Norður-Íshaf til Kína í ágúst og september.

Augljósara dæmi um auglýsingamennsku í krafti opinberra embætta er varla unnt að hugsa sér en blaðamannafundinn í morgun þar sem varaformenn stjórnarflokkanna sátu með Katrínu Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, og kynntu einhverja loftkastala um fjárfestingu á næstu þremur árum (ríkisstjórnin á eftir að lifa í sex mánuði).

Þessi misnotkun á opinberri aðstöðu til að bæta stöðu Katrínar Júlíusdóttur í prófkjörsbaráttu við Árna Pál Árnason er til marks um mikla afturför í stjórnmálastarfi og stangast á við allar heitstrengingar stjórnarflokkanna um bætt siðferði og meiri virðingu fyrir meðferð á opinberu fé.

Ný kynslóð stjórnmálamanna birtist þarna og tíundar verkefni sem eru óumdeild í sjálfu sér en þeir lofuðu upp í ermina á öðrum. Ómerkilegri pólitískan leik er ekki unnt að leika. Að þetta skuli talið gott og gilt er til marks um pólitíska hnignun ef ekki lýðskrum.

Hið sama gerist eftir þingkosningar hér og birtist eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum að menn munu standa frammi fyrir miklu meiri vanda við rekstur þjóðarbúsins en almennt er viðurkennt í stjórnmálaumræðum líðandi stundar. Í Bandaríkjunum ræða menn nú um „fiscal cliff“, hrikalegan fjárlagavanda sem er óviðráðanlegur nema báðir flokkar taki höndum saman. Obama ræður ekki við vandann einn.

Ríkisstjórn að loknum kosningum á Íslandi mun sitja uppi með yfirlýsingar Katrínar Júlíusdóttur og varaformannanna án þess að vera skuldbundin af þeim. Þetta eru í raun innan tóm orð sem taka ekkert mið af raunverulegri stöðu þjóðarbús sem skuldar um 1600 milljarða, 100% af vergri landsframleiðslu og þar sem allar áætlanir um þróun skuldamála hafa farið úr böndum.

Miðvikudagur 07. 11. 12 - 7.11.2012 19:52

Í dag ræði ég við Ingibjörgu Jónsdóttur, dósent í landafræði við Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN um ferð hennar með kínverska ísbrjótnum Snædrekanum norðurleiðina frá Íslandi til Shangai í Kína 20. ágúst til 27. september í ár. Þátturinn er sýndur klukkan 20.00, 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun. Þetta var einstæð ferð og forvitnilegt að heyra sögu hennar.

Þriðjudagur 06. 11. 12 - 6.11.2012 21:00

Þegar ég datt inn í Kastljós kvöldsins hélt ég að gestir Sigmars Guðmundssonar væru að ræða einhver tölvuvandamál en heyrði svo að umræðurnar áttu að snúast um bandarísku forsetakosningarnar. Afdalahátturinn í umræðum í ríkisútvarpinu um bandarísk stjórnmál tekur á sig ýmsar myndir. Það er fagnaðarefni að eiga aðgang að fjölmörgum erlendum stöðvum.

Kosningarnar í Bandaríkjunum eru spennandi. Matið á úrslitum ræðst af skoðun þess sem spáir. Tölur í könnunum sýna svo lítinn mun. Sú staðreynd sýnir að Mitt Romney hefur unnið kosningabaráttuna. Hvort sá sigur dugar til að hann sigri í sjálfum kosningunum er óljóst.

Þegar andstaða er jafnmikil við frambjóðanda og hér á landi þar sem könnun sýndi að 98% vilja Obama áfram sem forseta er borin von að andstæðingur hans njóti sannmælis. Á sínum tíma var til þess tekið að Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri Tímans, málgagns Framsóknarflokksins, eignaði sér og Framsóknarflokknum sigur í bandarískum forsetakosningum. Að þessu sinni hefur Framsóknarflokkurinn lýst yfir stuðningi við Barack Obama.

Helgi Hjörvar, samfylkingarmaður á alþingi, flutti þingræðu í dag um að Sjálfstæðisflokkurinn væri í einhverjum tengslum við flokk repúblíkana. Helgi gerði þetta örugglega til að minna á að hann væri Obama-maður.  Könnunin á fylgi Obama hér á landi sýnir að tal um stuðning sjálfstæðismanna við Romney er út í hött eins og svo margt sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins segja um skoðanir og stefnu hans.

Allt er þetta skrýtilegt, en þó ekki. Íslendingar lifa sig miklu meira á sinn sérkennilega hátt inn í kosningaátök í Bandaríkjunum en í Evrópu. Stjórnmálafræðingar (sálfræðingar ?) ættu að kanna af hverju þetta stafar og hvort þetta bendi ekki frekar til að auka eigi tengsl vestur yfir Atlantshaf en austur.

Mánudagur 05. 11. 12 - 5.11.2012 22:20

Nokkrar umræður urðu um miðlun upplýsinga um gang ESB-viðræðnanna á alþingi í dag eins og sjá má hér. Þetta kom illa við Gísla Baldvinsson, bloggara Samfylkingarinnar, sem sagði á vefsíðu sinni:

„Á í hvert sinn þegar samningaviðræður eru enn á trúnaðarstigi að veikja stöðu okkar í alþjóðasamskiptum með því að aflétta trúnaði?

Hver er eiginlega tilgangurinn? Ætti þá það að vera fordæmisgefandi.

Eru frambjóðendur Framsóknar í NV og NA ekki með réttu ráði?
Leitt að sjá Ragnheiði E. Árnadóttur í þessu gjammliði.

Eru engin mörk á vitleysunni?“

Þetta eru ótrúleg stóryrði þegar um er að ræða sjálfsagða ósk þingmanna um að trúnaði sé aflétt og málfrelsi þeirra njóti sín þegar ráðherra talar á þingi en þeim er bannað að gera athugasemd vegna afstöðu formanns utanríkismálanefndar þingsins. Raunar er eins ólýðræðislegt og frekast má vera að afhenda formanni þingnefndar vald til að hindra þingmenn annarra flokka í að segja skoðun sína. Sætir furðu að þingmenn láti bjóða sér slíka vitleysu. Um trúnaðarskyldu eiga að gilda hlutlægar reglur og meirihluti þingnefndar á að ráða en ekki formaður hennar.

Þegar orð ESB-sinnans Gísla Baldvinssonar eru lesin má spyrja: Hvar hefur maðurinn verið undanfarin misseri? Hvernig heldur hann að ástandið væri innan ESB ef stjórnmálamenn þar fylgdu reglu Árna Þórs Sigurðssonar að ekki megi segja frá stefnu gagnvart ESB-úrlausnarefnum á undirbúningsstigi? „Samningaviðræður“ Íslendinga við ESB um bann við viðskiptum með lifandi dýr er ekki á neinu „trúnaðarstigi“. Þær eru ekki hafnar, spurningin snýst um afstöðu Íslands í viðræðunum og orðalag á henni. Hvers vegna má ekki ræða málið fyrir opnum tjöldum?

Sunnudagur 04. 11. 12 - 4.11.2012 21:40

Eftir hávaðarok undanfarna tvo sólarhringa var logn og heiðskírt í Fljótshlíðinni í dag, einstaklega fallegt veður og gott til að átta sig á kröftum náttúrunnar. Nú hefur verið auglýst að á döfinni sé að leita eftir heitu vatni með borun við Goðaland í nóvember. Sveitarfélagið stendur að þessari leit en einstaklingum er boðið að hafa samband við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem kemur með borinn. Sjálfsagt er að velta fyrir sér hvort taka eigi boðinu.

Fljótshlíðin er umlukin eldfjöllum og er einkennilegt sé hún kalt svæði eins og sumir hafa sagt.

Við hús mitt er flaggstöng, rammlega fest. Ég tók eftir því í rokinu að stöngin lá á jörðinni og taldi víst að hugulsamur nágranni hefði komið á vettvang, losað boltann á naglanum sem heldur stönginni í festingunni og lagt hana niður svo að hún brotnaði ekki í veðurofsanum. Mér til undrunar hafði engin mannshendi átt þar hlut að máli heldur var hristingurinn í rokinu svo mikill að róin losnaði og stöngin féll. Hún er óbrotin.

Laugardagur 03. 11. 12 - 3.11.2012 20:55

Fréttir hafa ekki borist af afgreiðslu utanríkismálanefndar alþingis á afstöðu viðræðunefndar Íslands til 12. kafla í ESB-viðræðunum sem snýst um matvælaöryggi, heilbrigði dýra og plantna. Ætlunin var að koma afstöðunni á framfæri við ESB á meðan Danir fóru með formennsku í ráðherraráði ESB eða fyrir 1. júlí 2012. Lagt var hart að umsagnaraðilum til að það tækist.

Nú eru fjórir mánuðir liðnir og enn er málið til meðferðar í utanríkismálanefnd alþingis. Hið einkennilega er að hinar langvinnu umræður um málið í nefndinni vekja ekki áhuga fjölmiðla. Þær hljóta að stafa af ágreiningi. Á Evrópuvaktinni hef ég vakið máls á að ágreiningurinn snúist um hvort í afstöðu Íslands skuli sett krafa um varanlega undanþágu frá viðskiptum með lifandi dýr.

Um mál af þessum toga á ekki að ræða á bakvið luktar dyr utanríkismálanefndar heldur skal greina opinberlega frá um hvað ágreiningurinn snýst. Hvers vegna hvílir leynd yfir því? Telja menn að það veiki málstað Íslands gagnvart ESB? Það getur ekki verið nema fulltrúar stjórnvalda vilji ganga skemur en meirihluti nefndarinnar. Er hugsanlegt að málum sé þannig háttað?

Föstudagur 02. 11. 12 - 2.11.2012 23:55

Í hádeginu hlustaði ég á Hannes Hólmstein Gissurarson flytja fróðlegan fyrirlestur um þróun mála í Kína undir harðstjórn Maós formanns í Kína með vísan til bókarinnar Mao sagan sem aldrei var sögð eftir Jung Chang og Jon Halliday. Ólafur Teitur Guðnason þýddi bókina sem kom út hjá Forlaginu árið 2007. Hannes ræddi meðal annars gagnrýni Geirs Sigurðssonar og Sverris Jakobssonar á bókina og þótti hún ekki makleg. Konfúsíarstofnunin stóð að fyrirlestri Hannesar og var fundarsalurinn full setinn þrátt fyrir að veðurofsinn væri svo mikill að ekki væri unnt að opna aðaldyr háskólans heldur urðu áheyrendur að fara inn um bakdyr inn í aðalbyggingu skólans

Skyfall heitir nýja James Bond myndin sem fer nú sigurför um heim allan og stendur undir væntingum aðdáanda 007. Skyfall er heiti á húsi eða býli á Skotlandi, Skýfall á íslensku. Þegar leitað er í bæjarnafnaskrá hér á landi finnst ekkert býli með þessu nafni. Heiti Bond-myndarinnar sem nú er kynnt á skiltum alls staðar á byggðu bóli er af norrænu bergi brotið eins og svo mörg örnefni í Skotlandi og raunar á Bretlandseyjum öllum.

Ekki fer fram hjá neinum að svonefnd Airwaves hátíð fer fram í Reykjavík 31. október til 4. nóvember. Sagt er að áhugasamir verði að kaupa miða á allt sem þar er í boði fyrir 16.000 krónur og stundum sé tónlistin flutt í svo litlum sal að borin von sé að eigendur aðgöngumiða rúmist þar allir. Þetta er frumleg aðferð við öflun fjár og væntanlega til marks um að áhuginn á hátíðinni sé mikill.

Fimmtudagur 01. 11. 12 - 1.11.2012

Sama sagan er hafin í héraðsdómi og flutt var í Baugsmálinu um að ákæruvaldið kunni ekki til verka þegar það ákærir fjármálamenn. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs í Baugsmálinu,  hefur Sigurð Einarsson sem skjólstæðing í máli á hendur stjórnendum Kaupþings. Gestur kann til verka þegar að því kemur að beina árásum á ákæruvaldið og vekja grunsemdir um vinnubrögð þess. Í Baugsmálinu var vinkillinn pólitískur og talið að stjórnmálamenn stæðu að baki ákærunni á hendur Jóni Ásgeiri og félögum. Nú eru einhver önnur annarleg sjónarmið sögð ráða ferðinni.

Hinn mikli munur er þó á þessum málaferlum og Baugsmálinu að hinir ákærðu eiga ekki fjölmiðla til að búa í haginn fyrir sig gagnvart almenningi eins og Fréttablaðið gerði þegar ákærur á hendur Jóni Ásgeiri og Jóhannesi, föður hans, voru birtar. Þá var gefinn út sérstakur kálfur með blaðinu þar sem lögmenn þeirra gerðu athugasemdir við einstaka ákæruliði og feðgarnir gerðu grein fyrir málinu frá sínum sjónarhóli. Útgáfa kálfsins var geymd þar til birst hafði grein um ákæruna hafi birst í The Guardian í London en þar var leitast við að gera lítið úr henni.

Ekkert af þessu tagi gerist núna og álitsgjafar sem drógu taum Baugsmanna eru nú alfarið andvígir hinum ákærðu. Sumir þeirra láta að vísu eins og einhverju öðru hafi gegnt um Baugsmálið en til dæmis Kaupþingsmálið núna þótt þeir skýri ekki hvað þetta „annað“ er, líklega var það frekar í huga þeirra sjálfra en réttarsalnum.

Miðvikudagur 31. 10. 12 - 31.10.2012 23:50

Fréttin um að ríkisstjórn Davids Camerons hafi tapað atkvæðagreiðslu um fjárlög ESB í breska þinginu í dag vegna uppreisnar innan þingflokks íhaldsmanna sýnir að ESB-málefni valda enn og aftur að stórpólitískum vandræðum í Bretlandi. Angela Merkel reyndi að koma Cameron til hjálpar á dögunum með yfirlýsingum um hve aðild Breta að ESB skipti. Hjálpin bar ekki þann árangur sem að var stefnt.

Atkvæðagreiðslan er ekki aðeins til marks um að ESB nýtur vaxandi óvinsælda í Bretlandi. Hún kann einnig að vera til marks um að Cameron sé að missa stjórn á Íhaldsflokknum. Hann kemst ekki upp með það sem æ fleiri flokksmenn kalla tvöfeldni í afstöðunni til ESB.

Hér á landi ættu forystumenn í stjórnmálaflokkum að fylgjast náið með þróuninni í Bretlandi. Þeir geta lært af henni að tvískinnungur í málefnum sem snerta þjóðarhagsmuni kemur mönnum ávallt í koll.

Utanríkismálanefnd alþingis situr nú og ræðir afstöðuna til orðalags á kröfu um bann með viðskipti með lifandi dýr sem er lifandi viðfangsefni í ESB-aðildarviðræðunum vegna ákvæða í ESB-regluverkinu sem alþingi verður að gleypa með húð og hári að kröfu Brusselmanna. Utanríkisráðuneyti Íslands vill ekki að krafist sé varanlegrar undanþágu frá þessum viðskiptum af því að það þrengi svigrúm viðræðunefndarinnar. Að þingmenn skuli sitja dögum saman og þrefa um hvort fara eigi að þessari kröfu utanríkisráðuneytisins sýnir tvískinnung eins og þann sem meirihluti breska þingsins vildi forðast í viðræðum innan ESB um fjárlög sambandsins árin 2014 til 2020,

Þriðjudagur 30. 10. 12 - 30.10.2012 22:00

Rúmum 20 árum eftir lyktir kalda stríðsins stíga Svíar og Finnar til samstarfs við NATO á norðurslóðum. Þeir gera það með lofrýmiseftirliti sem hafið var af NATO að ósk Íslendinga eftir brottför bandaríska varnarliðsins héðan í september 2006. Í júlí 2007 kynnti NATO ákvörðun sína um að verða við óskum íslenskra stjórnvalda um að hér yrðu reglulega orrustuþotur undir merki NATO. Frakkar sendu fyrstu flugsveitina vorið 2008. Um svipað leyti fólu utanríkisráðherrar  Norðurlanda Thorvald Stoltenberg, fyrrv. utanríkisráðherra Noregs, að semja skýrslu um framtíðarsamstarf Norðurlanda í öryggismálum. Hann skilaði tillögum í febrúar 2009 og vakti þar meðal annars máls á að Finnar og Svíar tækju að sér það verkefni sem þeir hafa nú ákveðið að sinna.

Ég hef sótt nokkra fundi síðustu misseri þar sem Norðurlandamenn hafa rætt öryggismál sín. Í fyrstu virtist mörgum tillaga Stoltenbergs um að Svíar og Finnar tækju að sér NATO-verkefni á Íslandi fjarlæg ef ekki fjarstæðukennd. Ég er sannfærður um að ákvörðunin sem kynnt var í dag hefði ekki verið tekin nema vegna þess að hægrisinnaðir forsætisráðherrar sitja í Finnlandi og Svíþjóð en innan flokka þeirra eru margir áhugasamir um aðild þjóðanna að NATO. Þær kunna að fara inn í bandalagið um Ísland.

Hið hlálega við þessa atburðarás er að á Íslandi situr ríkisstjórn þar sem að minnsta kosti helmingur ráðherranna, vinstri-grænir, hafa horn í síðu loftrýmiseftirlitsins eða eru beinlínis andvígir því. Þeir vita hins vegar sem er að kæmi málið til kasta alþingis yrði meirihluti þingmanna til að styðja þennan þátt í gæslu öryggis þjóðarinnar.

Þá ber að hafa í huga að Svíar og Finnar eru aðilar að Norðurskautsráðinu. Með flugi héðan öðlast flugmenn þeirra þjálfun í samstarfi við vestrænar þjóðir innan ráðsins sem hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta á Norður-Íshafi. Ekki kæmi á óvart að Rússar lýstu ólund vegna áformanna um að sænskar og finnskar orrustuþotur athafni sig frá Íslandi.

Mánudagur 29. 10. 12 - 29.10.2012 21:50

Eftir að Páll Magnússon útvarpsstjóri hafði ráðist af miklu dómgreindarleysi á Davíð Oddsson fyrir að leggja til að skattgreiðendur fengju að velja hvort þeir létu nefskattinn renna til ríkisútvarpsins eða eitthvað annað sneri Páll sér að Baugsmiðlunum, eignarhaldi þeirra og fjármögnun og spurði hvort þingmenn ættu Jóni Ásgeiri Jóhannessyni einhverja skuld að gjalda. Viðbrögðin létu ekki á sér standa úr ranni Baugsmanna. Ari Edwald, forstjóri Baugsmiðlanna gömlu, svaraði af miklum þunga og hneykslan. Hann sakaði Pál um karlrembu og kvenfyrirlitningu – Jón Ásgeir ætti ekki miðlana heldur Ingibjörg, eiginkona hans!

Dansi fjölmiðlarnir sem þessir tveir menn stjórna eftir höfðinu er ekki von á góðu.

Jóhanna Sigurðardóttir skammaði Sjálfstæðisflokkinn blóðugum skömmum á laugardaginn fyrir að berjast fyrir niðurskurðarstefnu í ríkisfjármálum. Í dag sat hún fund í Helsinki með ráðherrum frá Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum þar sem lýst var stuðningi við niðurskurðarstefnu ESB og skilningi á kröfum Angelu Merkel Þýskalandskanslara á hendur Grikkjum í nafni þýskra skattgreiðenda. Sjá hér.

Enn vakna spurningar um samhengið í ræðum Jóhönnu eða málflutningi hennar almennt. Þar er ekki heil brú þegar grannt er skoðað hvort sem rætt er um efnahagsmál, stjórnarskrármál eða ESB-aðildarumsókn.

 

Sunnudagur 28. 10. 12 - 28.10.2012 20:45

Jóhanna Sigurðardóttir ræðst á Sjálfstæðisflokkinn fyrir árás á velferðarkerfið vegna hvatninga hans um aðhald í ríkisútgjöldum. Í sömu ræðu ákallar hún Evrópusambandið og telur Íslendingum helst til bjargar að ganga í það. Hér er um þverstæðu að ræða. Hvergi er lögð eins mikil áhersla á niðurskurð ríkisútgjalda og innan Evrópusambandsins. Í dag bárust fréttir um að Grikkir yrðu enn að grípa til 150 sparnaðarráða til að fullnægja kröfum ESB. Efnt er til mótmæla víða innan evru-svæðisins gegn aðhaldskröfum ESB og nú er atvinnuleysi meira en 25% á Spáni.

Stundum má ætla að ræðusmiðir Jóhönnu lesi ekki ræðutextann í heild heldur skrifi hver sinn kafla og hún lesi síðan það sem að henni er rétt. Skuldir Íslands eru um 100% af landsframleiðslu ef ekki hærri. Um þetta ríkir leynd eins og svo margt annað í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ríki með svo háar skuldir eru tekin í gjörgæslu Brusselmanna sem krefja ríkisstjórnir um aðhald og hóta sektum sé ekki farið að kröfum þeirra. Innan ESB er á döfinni að skipa sérstakan ríkisfjármálatilsjónarmann í framkvæmdastjórn ESB til að sauma að ríkisstjórnum á borð við þá sem Jóhanna leiðir.

Þegar grannt er skoðað er ekki heil brú í gagnrýni Jóhönnu á þá hér innan lands sem vilja sýna meiri aðgæslu en hún og stjórn hennar í ríkisfjármálum. Hún hefur alls ekki nein efni á að ráðast á sjálfstæðismenn fyrir ríkisfjármálastefnu þeirra og hrópa síðan á ESB sér til hjálpar. Sjálfstæðismenn hafa ekki boðað neitt í líkingu við það sem krafist er af Brusselmönnum. Jóhanna ætti að lesa ræðuna sína aftur og taka í hnappadrambið á þeim sem sömdu hana.

 

Laugardagur 27. 10. 12 - 27.10.2012 17:15

Hér hefur oftar en einu sinni verið vikið að augljósri hlutdrægni Egils Helgasonar sem stjórnar tveimur umræðuþáttum á ríkisútvarpinu annars vegar um stjórnmál og hins vegar bókmenntir. Hvorugur þátturinn kemst á blað þegar greint er frá 10 þáttum sem vekja mestan áhuga áhorfenda. Hefur verið bent á að í því felist virðingarleysi við lög ríkisútvarpsins að láta jafnhlutdrægan mann annast þætti af þessum toga.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag er vakið máls á hlutdrægni ríkisútvarpsins og varpað fram hugmynd um að fólk fái að ákveða með því að haka í box hvort það vilji kaupa þjónustu þessarar opinberu stofnunar sem kostuð er með nefskatti eða beina skattinum annað.

Egill Helgason bregst illa við þessu og ræðst að Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins. Viðbrögð Egils sýnast þó mildileg þegar leitað er álits Páls Magnússonar útvarpsstjóra og hann segir á Eyjunni:

„Það er ekki lengur hægt að svara því sem frussast út um samanbitna kjálkana á Davíð þegar hann fjallar um RÚV. Þetta er eins og það skrýtnasta í kveðskap Æra-Tobba – eitthvað illskiljanlegt og samhengislítið garg út í loftið. En Tobbi verður að njóta sannmælis. Flest það sem hann samdi er auðvitað miklu gáfulegra en heiftarþruglið í Reykjavíkurbréfum Davíðs.“

Heilbrigð dómgreind er mikill kostur við öll störf og ætti að vera skilyrði við ráðningu ríkisútvarpsstjóra. Dómgreindarskorturinn í toppnum á Efstaleitinu skýrir þaulsetu Egils við þáttastjórn og að vinsælasta efni sjónvarpsins er það sem er endursýnt frá fyrri áratugum. Hvað skyldi gert við nefskattinn?

Þess skal getið að stjórnlagaráðsliðinn Illugi Jökulsson kemur Agli og Páli til hjálpar á hinn mannúðlega hátt að heimta að fyrrverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins verði sviptir málfrelsi og bannað að segja álit sitt á málefnum líðandi stundar. Skyldi hann að nýju fá frjálsar hendur í Efstaleiti? Þaðan hvarf hann á sínum tíma til starfa hjá Baugsmönnum þegar þeir unnu gegn Sjálfstæðisflokknum með Samfylkingunni.

 

Föstudagur 26. 10. 12 - 26.10.2012 21:30

Heppilegt að ég lét setja nagladekkin undir í dag. Þegar komið var austur að Hvolsvelli var snjóföl á jörðu og hálka inn Fljótshlíðina.

Í dag birtist á SpiegelOnline löng frásögn um fjárfestingar Kínverja erlendis og raunar einnig heima fyrir í Kína. Frásögnin hefst á heimsókn til góðkunningja Íslendinga, Huangs Nubos. Hann lýsir enn einu sinni vonbrigðum sínum yfir að fá ekki að kaupa Grímsstaði á Fjöllum og þýsku blaðamennirnir segja hann hafa glatað upphaflegum áhuga sínum á Grímsstöðum og Íslandi. Ekki er minnst einu orði á að Huang hafi ætlað að skrifa undir leigusamning um hluta Grímsstaðalandsins um miðjan október. Þýðir það að hann hafi ekki lengur áhuga á að koma sér fyrir á Íslandi? Á Evrópuvaktinni má lesa þýðingu af frásögninni í SpiegelOnline.

Sama dag og þessi frásögn birtist í þýsku blaði má í The New York Times lesa langa frásögn um ótrúlega auðsöfnun fjölskyldu Wen Jiabaos, forsætisráðherra Kína. Þar kemur fram hið sama og alls staðar má lesa þegar rætt er um kínverska auðmenn að enginn í landinu getur skapað sér sambærilega aðstöðu og Huang Nubo hefur tekist nema hann njóti velvildar kommúnistaflokksins eða hafi náin tengsl við æðstu menn hans og þjóðarinnar. Að annað gildi um Huang Nubo er fráleitt enda er kommúnistaflokkurinn hinn ósýnilegi bakhjarl allra kínverskra fyrirtækja.

Vaki ekki fyrir kínverskum ráðamönnum að skapa aðstöðu í þágu Kína með fjárfestingum Huangs Nubos hangir hitt á spýtunni að einhver innan flokksins hafi fjárhagslegan hag af viðskiptum Huangs við Íslendinga. Huang kom hingað sem skáld og Íslandsvinur með tengsl inn í valdastétt Samfylkingarinnar. Hann var talinn hafa einstaka aðstöðu til að búa um sig á Íslandi, forráðamenn Samfylkingarinnar tóku honum fagnandi og lögðu honum meira að segja til lögfræðing, Lúðvík Bergvinsson, fyrrverandi formann þingflokks Samfylkingarinnar.

Kínverska valdastéttin leit á valdastöðu Samfylkingarinnar og taldi sig horfa í spegil. Rauði dregillinn var dreginn fram í sendiráði Íslands í Peking og Huang gat vitnað til tengsla við forseta Íslands. Allt kom fyrir ekki, íslensk lög var ekki unnt að teygja á þann veg að þau rúmuðu Huang á Grímsstöðum á Fjöllum. Þá var breytt um taktík og gengið á eftir sveitarstjórnarmönnum á norðausturlandi með grasið í skónum. Nú hefur Huang Nubo misst upphaflega áhugann á Íslandi og situr á síðkvöldum við ljóðagerð með héra og dverg-hákarla sér við hlið.

Fimmtudagur 25. 10. 12 - 25.10.2012 21:40

Nú má sjá samtal okkar sr. Halldórs Gunnarsssonar í Holti á ÍNN hér á netinu.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um hættuna af hrægammasjóðunum sem sækja á þrotabú bankanna. Leyndin í kringum þetta mál er óþolandi. Í stað þess að bankaleynd minnkaði eftir hrunið hefur hún aukist. Stjórnvöld eru nú á kafi í samskiptum við leynilega eigendur bankanna. Þegar eitthvað fréttist vegna flutnings frumvarpa á alþingi blasir við að stjórnarþingmenn eru í vasanum á erlendum kröfuhöfum.
Miðvikudagur 24. 10. 12 - 24.10.2012 21:45

Í dag ræddi ég við sr. Halldór Gunnarsson í Holti í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um skoðanakönnunina vegna stjórnarskrárinnar. Hann fagnaði ákvæðinu um þjóðkirkjuna. Þá ræddum við einnig um stjórnmálaástandið en sr. Halldór býður sig fram í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Þáttinn má sjá næst kl. 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpunnar, flutti erindi í Rótarý-klúbbi Reykjavíkur í dag um Hörpuna, stöðu nú og framtíð. Frá því að húsið var opnað hafa 1,6 milljónir manna komið í það, verðlaunin og viðurkenningarnar sem húsið hefur hlotið eru margar. Bókun ráðstefnuþjónustu á árinu 2013 er margföld miðað við það sem verið hefur. Við starfsemi hússins blasir ekkert annað en vöxtur. Vegna óheyrilegra fasteignagjalda verður leitað til til dómstóla. Þegar ég kom að undirbúningi að smíði hússins kom mér aldrei til hugar að skattar til Reykjavíkurborgar mundu standa rekstri hússins fyrir þrifum enda eru borg og ríki bakhjarlar hússins.

Nýlega ræddi Charlie Rose, frægi bandaríski sjónvarpsmaðurinn, við hljómsveitarstjórann Riccardo Muti, aðalstjórnanda Chicago Symphony Orchestra. Muti sagði þrjár sinfóníuhljómsveitir bestar í heimi, tvær við hliðina á hljómsveitinni í Chicago: Berliner Philharmoniker og Wiener Philharmoniker. Ein þessara hljómsveita, sú í Berlín sem Simon Rattle stjórnar verður hér á landi 20. nóvember. Hún hefði aldrei ákveðið að leggja leið sína til landsins nema vegna Eldborgar – tónlistarsalarins í Hörpu sem tímaritið Grammophone telur meðal 10 bestu tónlistasalar í veröldinni á nýrri öld.

Við blasir að ný vídd hefur bæst við íslenskt samfélag með Hörpu og gert þeim sem hér búa að njóta hluta sem aldrei hafa verið í boði áður.

Þriðjudagur 23. 10. 12 - 23.10.2012 21:25

Í umræðum um breytingar á stjórnarskránni er talað á þann veg að þingmenn hafi í tæp sjötíu ár skort vilja til að endurskoða hana. Þetta er að sjálfsögðu rangt eins og svo margt sem talsmenn stjórnlagaráðs og Jóhönnu Sigurðardóttur segja um þetta mál. Þess má til dæmis geta að Gunnar Thoroddsen hóf þátttöku í stjórnmálum að nýju á áttunda áratugnum með það sem baráttumál að breyta stjórnarskránni. Hann samdi frumvarp að nýrri stjórnarskrá, muni ég rétt. Málið hlaut ekki framgang.

Vandinn er ekki sá að margir hafi ekki haft skoðanir á efni í nýja stjórnarskrá. Vandinn hefur verið að skapa nógu víðtæka samstöðu um haldgóðan texta til að þingmenn samþykktu hann. Vinnubrögðin í stjórnlagaráði stangast á við vönduð vinnubrögð í stjórnlaganefndum fyrri ára. Þar hefði aldrei neinum komið til hugar að efna til einskonar bögglauppboðs við smíði stjórnarskrár og setja afurðina síðan í gám, flytja hann til alþingis og síðan þaðan út á víðavang, nefna nokkur atriði sem talið væri að félli að skoðun flestra og efna til skoðanakönnunar á kostnað skattgreiðenda fyrir 250 til 300 milljónir króna og láta síðan rýna í innihaldið.

Eftir að skoðanakönnunni lauk beindist athygli að nefnd fjögurra lögfræðinga sem vinnur með leynd að skoðun á tillögunum sem spurt var um í könnuninni. Kynnt var í sama mund og niðurstöður könnunarinnar voru kynntar að lögfræðingarnir myndu leggja fram skýrslu eftir tvær vikur. Í dag var sagt að þeir þyrftu lengri tíma. Þessa vinnu hafa menn hingað til unnið samhliða smíði tillagna að texta í stjórnarskrá. Þeir hafa ekki stofnað til rýnivinnu eftir að tillögur að nýrri stjórnarskrá hafa verið kynntar. Rýnivinnan hefur verið unnin samhliða smíði textans og hann ekki kynntur fyrr en frumkröfum um góð vinnubrögð hefur verið fullnægt.

Að þessu sinni er öllu snúið á hvolf og síðan ætlast til að þingmenn gleypi það sem að þeim er rétt. Í samræmi við öfugmælin í þessu öllu saman segir síðan Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að eina leiðin fyrir alþingi til að auka virðingu sína sé að samþykkja textann á mettíma.

Mánudagur 22. 10. 12 - 22.10.2012 23:05

Lokakappræðurnar milli bandarísku forsetaefnanna er í kvöld eða nótt á íslenskan tíma. Nú verð ég fjarri góðu gamni enda kominn heim frá Boston. Það er bót í máli að auðvelt er að nálgast efnið á netinu hvenær sem er. Þjónustan sem felst í aðgangi að sjónvarpsefni þegar manni sjálfum hentar er til mikilla bóta. Ég gat til dæmis skoðað tvo síðustu þættina af Brúnni eftir heimkomu sem áskrifandi að sjónvarpsefni hjá Skjánum. Mér er því ekkert að vanbúnaði að horfa á síðasta þáttinn annað kvöld.

Allt fram að annarri lotu kappræðnanna hafði Barack Obama yfirburði gagnvart Mitt Romney þegar spurt var um getu þeirra á sviði utanríkismála. Eftir aðra lotuna tók Romney að saxa á forskot Obama þar. Ræður mestu hve illa Bandaríkjastjórn hefur haldið á málum vegna hryðjuverkaárásinnar á bandarísku ræðismannsskrifstofuna í Benghazi í Líbíu. Embættismenn hafa orðið margsaga og það varð Obama ekki til bjargar að stjórnandinn í annarri lotunni rétti honum hjálparhönd.

Því fer víðs fjarri að nokkur mynd sé gefin af andrúmsloftinu í bandarísku kosningunum í íslenskum fjölmiðlum. Erlendar fréttir sjónvarpsstöðvanna eru hvorki fugl né fiskur og þar virðist enginn áhugi á að dýpka skilning áhorfenda á málefnum líðandi stundar. Er raunar óskiljanlegt hve erlendar fréttir eru á miklu undanhaldi í fjölmiðlum landsins.  Fyrir því er hefð allt frá því á 19. öld að erlendir viðburðir settu sterkan svip á þá miðla sem fluttu landsmönnum fréttir, nægir þar að benda á Skírni og Almanak Þjóðvinafélagsins.

Áhugaleysi fjölmiðla á erlendum fréttum leiðir til þess að þekking fjölmiðlamanna á því sem gerist í umheiminum minnkar, þeir glata hæfni til að leita uppi fréttir, leggja mat á hvaða atburðir erlendis hafa skírskotun til þess sem gerist hér á landi eða snerta íslenska hagsmuni og aldarlöng hefð verður að engu. Dapurleg þróun.

Sunnudagur 21. 10. 12 - 21.10.2012 21:21

Furðulegt er nú að sjá fulltrúa stjórnlagaráðs tala um „atkvæðagreiðslu af þessu tagi“ þegar rætt er um skoðanakönnunina 20. október til að skýra að eðlilegt sé að ekki nema tæplega 50% kjósenda hafi farið að kjörstað og tekið þátt í skoðanakönnuninni. Hefði „atkvæðagreiðslan“ verið nefnd skoðanakönnun og ekki nema tæp 50% tekið þátt hefðu menn varla talið hana marktæka. Við fagnaðaryfirlýsingar um þátttökuna er síðan bætt að þingmenn hafi ekki heimild til að breyta neinu í tillögum stjórnlagaráðs. Þetta er sagt við alþingismenn sem höfðu þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave að engu og gerðu nýjan Icesave-samning sem síðan var enn á ný felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að greidd séu atkvæði um efni í stjórnarskrá er sjaldgæft. Það var gert hér á landi vegna stofnun lýðveldis og þá var þátttakan nærri 100%. Hans Haraldsson vekur athygli á því á vefsíðu sinni að í Frakklandi hafi þátttaka verið um 80% þegar kosið var um stjórnarskrá V. lýðveldisins á sjötta áratugnum.

Líklegt er að fögnuður stjórnlagaráðsliða stafi af því að þeir höfðu búið sig undir enn verri útkomu. Hitt er síðan einbert ofríki að setja alþingismönnum skorður, stjórnarskrá lýðveldisins segir að þeim beri að fara eftir eigin sannfæringu. Þeir eru ekki bundnir af skilyrðum kjósenda eða annarra ráðgjafa. Skoðanakönnunin var ráðgefandi. Alþingismenn hafa stjórnarskrárvaldið og hafa ráðið sérfræðinga til að veita sér ráðgjöf um textasmíði stjórnarskrárinnar.

Ég skrifaði pistil um úrslitin í skoðanakönnunina hér á síðuna. Nú fyrst hefst hin raunverulega vinna við að smíða stjórnarskrártextann. Unnið hefur verið að verkinu á bakvið luktar dyr undanfarið á vegum stjórnarflokkanna. Tími er til þess kominn að upplýsa almenning um hvað málið snýst svo að unnt sé að hefja almennar umræður um texta sem máli skipta en ekki málamiðlunartexta stjórnlagaráðs sem reynist marklítill þegar í hann er rýnt.

Laugardagur 20. 10. 12 - 20.10.2012 23:40

Fróðlegt var að fylgjast með því hvernig viðmið fréttastofu ríkisútvarpsins og annarra vegna kjörsóknar í skoðanakönnunni um tillögur stjórnlagaráðs breyttust eftir því sem á daginn leið og í ljós kom að hún yrði mjög dræm. Undir lokin var tekið til við að bera kjörsóknina saman við stjórnlagaþingskosningarnar 27. nóvember 2010 sem hæstiréttur ógilti með ákvörðun 25. janúar 2011.Þá var hún aðeins 36,77% og því lægsta tala sem fréttamenn gátu fundið til að hlustendum þætti þátttakan í könnuninni ekki gjörsamlega ömurleg.

Stefán Ólafsson prófessor fann annað viðmið: þjóðaratkvæðagreiðslur í Sviss. Þar er þátttakan oft milli 30% og 40%. Hefur verið spurt um nýja stjórnarskrá í Sviss? Er Stefán þeirrar skoðunar að andlag kannana af þessu tagi skipti ekki máli? Þá er alveg óþarfi að leita til Sviss til samanburðar. Hvers vegna nefnir Stefán ekki þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave þar sem kosningaþátttakan var mun meiri en núna - eða er Stefán komin á þá skoðun að ekki hafi verið þjóðaratkvæðagreiðslu að ræða heldur skoðanakönnun?

Hluti af spuna stjórnlagaráðsliða undanfarið hefur verið að ekki skipti neinu máli hve margir taki þátt í kosningunni. Þetta er fráleit skoðun en svo sem í samræmi við annað sem frá þessu fólki hefur komið. Stjórnarskrárbrölt Jóhönnu Sigurðardóttur og félaga hefur nú kostað skattgreiðendur 1,3 milljarða króna. Fráleitt er að halda fram að minni en 50% þátttaka í skoðanakönnun sem stofnað er til með slíkum tilkostnaði skipti ekki neinu. Þá er látið í veðri vaka að dræma þátttöku megi rekja til þess að stjórnmálaflokkarnir hafi ekki skipt sér af könnuninni. Þessi skoðun stenst ekki gagnrýni frekar en annað frá talsmönnum stjórnlagaráðsliða. Flokksformenn hafa hvatt fólk í þessu máli og Samfylkingin bauð upp á kaffi í tilefni dagsins til að ýta undir kjörsókn.

Hin dræma þátttaka segir aðeins eitt: Spuni stjórnlagaráðs og alþingismanna sem stóðu að þessari marklausu aðgerð höfðaði einfaldlega ekki almennt til fólks.

 

Föstudagur 19. 10. 12 - 19.10.2012 23:05

Hið einkennilega við málstað þeirra sem hvetja fólk til að greiða atkvæði með tillögu stjórnlagaráðs í skoðanakönnuninni á morgun er að þeir líta á tillöguna sem leið til að ná sér niðri á hluta þjóðarinnar, pólitískum óvinum sínum. Þetta er veikasti  þátturinn í málflutningi talsmanna stjórnlagaráðstillagnanna af því að hann sannar að tillögurnar verða aldrei að veruleika, jafnvel þótt meirihluti manna lýsi stuðningi við þær í skoðanakönnuninni.

Í lýðræðisríki hefur aldrei gerst að sett sé stjórnaraskrá til höfuðs hluta þess fólks sem á að búa við hana. Alls staðar þar sem stjórnmálaréttindi eru í heiðri höfð leitast menn við að ná víðtækri samstöðu efni grunnreglna samfélags síns.

Einfaldasta leiðin til að stöðva þetta feigðarflan í nafni stjórnarskrárinnar er að segja nei við fyrstu spurningunni í skoðanakönnuninni á morgun.

Fimmtudagur 18. 10. 12 - 18.10.2012 23:55

Lokadaginn í Boston notuðum við til að skoða stærsta listasafn borgarinnar Museum of Fine Arts. Glæsilegt safn. Þar er sérstök deild helguð frelsishetjunum frá Boston og listmálaranum Copley sem borgin heiðrar á þann veg að eitt virðulegasta torg hennar er nefnt eftir honum.

Þetta er skrifað á flugvellinum í bið eftir að Icelandair vélin leggi af stað heim á leið. Hið einkennilega gerðist þegar við komum á völlinn að bókun okkar á sætum sem gerð hafði verið við kaup miðanna var sögð ógild og urðum við að sætta okkur við sæti í andstöðu við óskir okkar. Til hvers býður Icelandair farþegum að bóka sæti ef bókunin reynist marklaus þegar á hólminn er komið? Engin viðvörun gefin og raunar engin skýring því að við innritunina sagði stúlkan að hún réði engu um þetta. Hún gæti ekki gert annað en það sem tölvan segði henni að gera.

Miðvikudagur 17. 10. 12 - 17.10.2012 23:55

Það var hressandi að fara um Boston og Harvard í dag og fræðast enn meira um byltingarsögu Bandaríkjanna og stofnun þeirra. Hugmyndafræðin var reist á að gera annað og betra en í gömlu Evrópu. Í Evrópu hefur verið reynt að gera eitthvað nýtt eftir tvennar heimsstyrjaldir, skilin við hið gamla eru þó ekki nógu skýr og verða það ekki vegna sögulegra róta sem ekki þvældust fyrir mönnum í Bandaríkjunum. Þar tókust menn á um hugsjónir en ekki sögulega arfleifð. Evrópusambandið verður aldrei að Bandaríkjum Evrópu, þess í stað gliðnar það.

Össur Skarphéðinsson hætti að halda úti vefsíðu þegar hann varð utanríkisráðherra. Þess í stað skrifar hann hól um sjálfan sig á Eyjuna/Pressuna. Ég hef birt furðusögur um Össur á Evrópuvaktinni eins og lesa má hér og hér.

Össur segir þessi skrif „skapvonskukast Björns Bjarnasonar“. Ekkert er fjær mér á skemmtilegu ferðalagi í Boston og nágrenni. Furðusögurnar um Össur eru öllum gleðiauki.  Össur segir til dæmis í Eyjupistli í dag sem birtur er nafnlaus á ábyrgð Björns Inga Hrafnssonar, hann var einu sinni í Framsóknarflokknum:

 „Staðreyndin er sú, að maður verður að viðurkenna það hvort sem maður styður Össur eða ekki, að hann kemur hlutunum í verk, og enginn maður á Íslandi fer eins létt með að teikna hringi í kringum íhaldið, sem nær engu taki á honum. Og Björn er að sjá það teiknast upp að Össur mun verða langefstur í Reykjavík, getur hirt formennsku í Samfylkingunni ef hann vill, og gæti farið langt með að tryggja að Engeyjarættin verði önnur fjögur ár, ef ekki átta, utan ríkisstjórnar.“

Enginn skrifar af svo mikilli aðdáun á sjálfum sér en einmitt Össur. Spurningin er þessi: Ætla kjósendur Samfylkingarinnar að fá slíkan oflátung til forystu í stað eintrjáningsins Jóhönnu? Það er annað hvort í ökkla eða eyra.

 

Þriðjudagur 16. 10. 12 - 16.10.2012 23:55

Nú hafa þættir mínir á ÍNN í september verið settir á netið. Hér má sjá viðtal við Jón Helga Guðmundsson í Byko og hér við Jakob F. Ásgeirsson, ritstjóra Þjóðmála.

Ég fræddist enn um bandarísku byltingarsöguna hér í Boston í dag. Nýlega hefur safn um Tea Party þáttinn í henni verið opnað. Kjarni þess máls er að nýlendubúarnir í Boston vildu ekki sætta sig við að breska þingið legði á þá skatta. Fólkið sjálft ætti að kjósa þá sem legðu á það skatta.

Sagt er frá því á netinu að Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, hafi flutt ræðu í dag í Valhöll um reynslu sína af mótmælunum fyrir og eftir áramót 2008/2009. Hann hefur ritað frásögn um málið fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Skýrslan hefur hvergi verið birt og enginn utan lögreglustöðvarinnar hefur fengið að sjá hana.

Geir Jón rifjar upp þegar Álfheiður Ingadóttir, núv. þingflokksformaður VG, stóð fyrir fram lögreglustöðina við Hlemm og öskraði hvatningarorð til þeirra sem gerðu árás á lögreglustöðina. Geir Jón segir að mest hætta hafi steðjað að alþingi þegar mótmælendur ruddust þar inn í byrjun desember 2008. Þá stóð Álfheiður með farsímann við gluggann í Kringlu þinghússins.

Eva Hauksdóttir sem varð sér til skammar með gjörningi í gervi nornar fyrir framan Stjórnarráðshúsið fór í fylgd Geir Jóns í hús Seðlabanka Íslands og gekk á fund Davíðs Oddssonar. Eva vill fá aðgang að skýrslu Geir Jóns. Skyldi hann segja frá Evu fyrir og eftir fundinn með Davíð?

Mánudagur 15. 10. 12 - 15.10.2012 23:55

Í dag gafst tími til fara um miðborg Boston og sigla um höfnina. Þegar farið er um Boston blasa alls staðar við sögufrægir staðir úr byltingunni sem leiddi til þess að Bandaríkin voru stofnuð. Hér var til dæmis hið upphaflega Tea Party og fræðast má um sögu þess.

Hér geta menn farið um götur og falla í stafi við að sjá rúmlega 200 ára gamlar byggingar. Evrópumönnum finnst þetta ekki mjög merkilegt miðað við enn eldri glæsihallir sínar og kirkjur. Sagan sem gerðist í Boston og á austurströnd Bandaríkjanna markaði hins vegar meiri þáttaskil í mannkynssögunni en flest af því sem gerst hefur í Evrópu.

Sunnudagur 14. 10. 12 - 14.10.2012 23:55

Sunnudagur 15. 10. 12

Lokatónleikar Skálholtskvartettsins í þessari ferð til Boston og New Haven voru í gærkvöldi, laugardag, í Gasson Hall í Boston College. Húsið er í stíl Oxford og Cambridge í Bretlandi, var reist fyrir um 100 árum og nýlega endurgert með stuðningi samtaka Bandaríkjamanna af írskum uppruna. Við fengum okkur kvöldverð fyrir tónleikana í stórri kantínu háskólans sem var þéttsetin nemendum.

Á tónleikunum fluttu þau kvartetta eftir Boccherini og Haydn fyrir hlé og síðan klarinettukvintett eftir Mozart eftir hlé en þá bættist Owen Watkins, Ástrali búsettur í Bandaríkjunum, í hópinn og lék á basset-klarinett sem hann hafði smíðað sjálfur enda hljóðfærasmiður auk þess að leika á blásturhljóðfæri. Um 200 manns sóttu tónleikana og fögnuðu listamönnunum innilega.

Um hádegisbilið í dag fórum við í Skinner-uppboðshúsið í hjarta Boston og fylgdumst með uppboði á strengjahljóðfærum og bogum fyrir þau. Síðan héldum við í Symphony Hall, tónleikahús Boston. Það var reist árið 1900 og var árið 1999 skráð sem sögulegt mannvirki Bandaríkjanna, U.S. National Historic Landmark, með þeirri umsögn að með vísan til hljómburðar sé húsið talið meðal hinna þriggja bestu í heimi og hið besta í Bandaríkjunum.

Handel and Haydn Society í Boston stóð fyrir tónleikunum í Symphony Hall í dag og hóf félagið 198. starfsár sitt með þeim. Flutt voru verk eftir Bach, svíta, kantötur og loks Magnificat. Húsið er glæsilegt, salurinn „skókassalaga“ og hljómburður með miklum ágætum.

Smíði þessa húss fyrir 112 árum og tæplega 200 ára starfsemi félags til heiðurs Händel og Haydn sýnir að í Boston hefur menning og áhugi á henni snemma fæst rætur hjá þeim sem hér numu land á sínum tíma, listhneigðin er einnig til marks um ríkidæmi. Háskólar eru hér fleiri og betri en á nokkrum stað á jarðarkringlunni.

Nú hefur þáttur minn með Ágústi Þór Árnasyni á ÍNN 10. október verið settur á netið og má sjá hann hér.

Því miður hafa þeir á ÍNN ekki fært inn þætti mína í september á netið. Geri þeir það vek ég athygli á því.

Laugardagur 13. 10. 12 - 13.10.2012 15:40

Við skruppum inn til Boston með lest úr úthverfinu þar sem við búum. Það er auðvelt að ferðast héðan inn í hjarta borgarinnar. 

Síðdegis æfði Skálholtskvartettinn og nú hefur kvikmyndagerðarmaður slegist í hópinn, Brendan, frá Portland í Oregon-ríki sem flaug hingað til að halda áfram við gerð heimildarmyndar um Jaap Schröder, fiðluleikara og frumkvöðuls Skálholtskvartettsins.

Klukkan 18.30 hófst Master Class í kammermúsik í Boston College Music Department. Nemendur við skólann léku og Jaap leiðbeindi þeim. Var mjög fróðlegt að hlusta á hann skýra fyrir nemendunum hvað mætti betur fara. Félagar í Skálholtskvartettinum, Rut, Svava Bernharðsdóttir og Sigurður Halldórsson tóku einnig þátt í kennslunni með Jaap.

Um klukkan 20.00 lék síðan Skálholtskvartettinn brot úr tveimur kvartettum eftir Purcell og Schübert fyrir nemendur og kennara tónlistardeildarinnar.

Jaap sagði frá hvernig áhugi hans á flutningi kvartetta kom til sögunnar með kynnum sínum af tónlist 17., 18. og 19. aldar. Hann stofnaði á sinum tíma Qudrao Amsterdam til að flytja kvartetta frá þessum tíma og færa flutninginn sem næst upprunalegri mynd í ljósi tónlistarsögunnar með athygli á að tónskáld hefðu aldrei heyrt tónlist seinni tíma manna þegar þeir sömdu tónverk sín og þess vegna verði að líta til baka þegar menn reyni að átta sig á hvernig tónskáldið hafi litið á eigin verk og flutning þeirra. Þá leiddi Jaap Quartetto Estetrhazy og síðan Smithsonian String Quartet. Ef farið er inn á Amazon má sjá hve mikið hefur verið hljóðritað af flutningi þessara kvartetta. Hann stofnaði einnig Concerto Amsterdam sem var brautryðjandi í flutningi verka með barokk-hljóðfærum.

Þau sem mynda Skálholtskvartettinn léku fyrst saman 1997. Jaap hefur verið fastur gestur á Skálholtstónleiknum síðan 1993 og hann gaf árið 2006 stóran hluta tónlistarbókasafns síns til Skálholts. Safninu hefur því miður ekki enn verið búinn sá samastaður sem hæfir.

Föstudagur 12. 10. 12 - 12.10.2012 20:45


Við komum aftur til Boston frá New Haven í gær og horfðum á kappræður bandarísku varaforsetaefnanna á heimili gamalla hjóna sem eru stuðningsmenn Obama. Greinilegt var að Joe Biden varaforseti talaði stundum beint til þeirra en þeim þótti ekki allt merkilegt sem Paul Ryan sagði. Yfirlæti Bidens í garð keppinautar síns og fliss hans eða hlátur spillti mjög fyrir honum.

Ég renndi í gegnum Morgunblaðið á netinu og sé að Sveinn Skúlason tekur að sér að bera í bætifláka fyrir Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann vegna greinar sem ég skrifaði um Sjálfstæðisflokkinn og komandi prófkjör í tímaritið Þjóðmál.

Sveinn grípur til útúrsnúninga eins og menn gera gjarnan til varnar vondum málstað. Sveinn lætur eins og ég vegi að grasrót Sjálfstæðisflokksins í grein minni. Þetta er algjör umsnúningur. Ég veg að þeim sem gengu leynt og ljóst erinda Baugsmanna innan Sjálfstæðisflokksins á árinu 2006. Það átti ekkert skylt við framboð mitt til borgarstjórnar árið 2002 heldur var gert vegna starfa minna sem dómsmálaráðherra og málaferlanna gegn Baugi á þessum árum. Ætlunin var að ryðja dómsmálaráðherra úr vegi af því að Baugsmenn töldu sig ekki hafa tök á honum.

Á meðan áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins viðurkenna ekki staðreyndir sem þessar og láta sem þeir átti sig ekki á hvernig leitast var við að grafa undan einstaklingum innan flokksins með hagsmuni fésýslumanna að leiðarljósi og kjósa þess í stað að tala um grasrót flokksins sýnist þörf á að ræða þessi mál frekar og ítarlegar í tengslum við ákveðna frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins en ég hef kosið að gera til þessa.

Fréttir af nýbirtri skýrslu um málefni Orkuveitu Reykjavíkur sýna nauðsyn þess að fara betur ofan í þau mál öll. Ég vék lítillega að REI-málinu í grein minni í Þjóðmálum. Skora ég á áhugamenn um Sjálfstæðisflokkinn og stöðu hans á líðandi stundu að lesa þetta hefti tímaritsins.

Fimmtudagur 11. 10. 12 - 11.10.2012 23:55

Kenningin um að stjórnarskráin 1944 hafi verið sett til bráðabirgða er fráleit og stenst enga skoðun. Þá eins og oft síðan voru stjórnmálamenn hins vegar sammála um að huga að endurbótum á stjórnarskránni og settu á laggirnar nefnd og síðan nefndir í því skyni. Áhersla var á að endurskoðunin yrði í sátt og náðist það markmið ekki fyrr en 1995 undir formennsku Geirs H. Haarde í tíð Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra. Þá var samþykktur nýr mannréttindakafli stjórnarskrárinnar.

Aðferðin sem Jóhanna Sigurðardóttir og Þorvaldur Gylfason hafa beitt við endurskoðun stjórnarskrárinnar er eins fjarri því sem menn vildu árið 1944 og unnt er að ímynda sér. Þau gangast bæði upp í að skapa ágreining og raunar ófrið um stjórnarskrána með þá blekkingu að leiðarljósi að slíkt sé nauðsynlegt vegna hruns bankanna haustið 2008. Atburðirnir þá snertu ekki stjórnarskrána á neinn hátt. Er raunar óskiljanlegt að þremenningarinnar sem sátu í rannsóknarnefnd alþingis skuli sitja þegjandi undir áróðri um að þau hafi hvatt til þess óskapnaðar sem liggur fyrir frá stjórnlagaráði.

Í gær ræddi ég við Ágúst Þór Árnason frá lagadeild Háskólans á Akureyri í þætti mínum á ÍNN. Ágúst Þór sat í stjórnlaganefnd sem vann úr tillögum þjóðfundarins 2010. Hann og Skúli Magnússon, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, sem einnig sat í stjórnlaganefnd eru eindregið á móti aðferðinni sem stjórnlagaráð og meirihluti alþingis hefur valið í stjórnarskrármálinu. Samtal okkar Ágústs Þórs verður endursýnt um helgina.

Eina leiðin til að koma í veg fyrir að 250 milljóna króna skoðanakönnunin 20. október 2012 leiði til enn meiri óþarfa útgjalda skattgreiðenda er að segja nei við fyrstu spurningunni í könnuninni og láta hjá líða að svara öðrum spurningum.

Stjórnlagaráðstillögurnar eru svo gallaðar að alþingismenn treystu sér ekki til að taka afstöðu til þeirra. Jóhanna hefur falið fjórum lögfræðingum á kostnað forsætisráðuneytisins að reyna að finna einhvern botn í tillögum stjórnlagaráðs. Þetta er gert á bakvið tjöldin og unnið er að tillögugerð hvað sem líður niðurstöðu 250 milljón króna könnunarinnar. Jóhanna efnir aðeins til hennar til að kaupa sér frið gagnvart stjórnlagaráðsliðum. Friðkaup við þá eru stunduð á kostnað skattgreiðenda en markmiðið er hins vegar ekki að skapa frið um málið á alþingi sem á síðasta orðið. Þetta er dýrt spaug vegna stjórnarskrár sem dugar vel og verður aldrei breytt nema um það takist breið samstaða í anda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 1944.

Miðvikudagur 10. 10. 12 - 10.10.2012 23:50


Tókum daginn rólega hjá gestgjöfum okkar í Hamden útborg New Haven þar sem þau hafa innréttað gamla hlöðu sem gestahús. Var ævintýri líkast að fá að gista þar. Síðdegis héldum við í Marchand Chapel sem er hluti guðfræðideildar Yale-háskóla. Rut æfði þar með kvartettinum og um kvöldið voru tónleikar í kapellunni.

Skálholtskvartettinn flutti verk eftir Boccherini, Haydn og Purcell og siðan lék Jaap Schröder einleik með American Baroque Orchestra í 3. Brandenborgarkonsert Bachs.

Var gerður góður rómur að tónleikunum og boðið upp á kaffi, kökur og ávexti að þeim loknum í „common room“ garðsins sem er aðeins fyrir utan Yale-háskólahverfið í hjarta New Haven.

Nemendur leggja hart að sér til að fá skólavist í Yale eins og öllum háskólum og þó sérstaklega þeim sem taldir eru meðal hinna bestu í heimi. Það kostar einnig sitt, skólagjöld í Yale eru 52.000 dollarar á ári, margir fá hins vegar styrki eða lækkun á þessum gjöldum vegna hæfileika sinna. Hlýtur að reyna mjög á margan nemandann í hinni miklu samkeppni innan skólans.

Við settumst í stofu í húsi gestgjafa okkar þegar heim var komið eftir tónleikana. Tvær vinkonur höfðu komið frá nágrannaríkinu Rhode Island til að hlusta á tónleikana og gistu um nóttina. Önnur hafði ferðast um Ísland, hin þekkti Harald Sigurðsson eldfjallafræðing frá því að hann bjó í Jamestown Rhode Island og dætur hans Áshildi og Bergljótu.

Þriðjudagur 09. 10. 12. - 9.10.2012 23:05


Við tókum lest frá Boston til New Haven í Connecticut-ríki. Ferðin átti að taka tvo og hálfan tíma en varð klukkutíma lengri vegna bilunar í lest á undan okkur. Lestin fór með ströndinni og þar voru þúsundir báta í höfnum, þeim hefur verið lagt fyrir veturinn. Hauslitur í trjám en veitingastaðir og mannvirki við brautarteinana gefa vísbendingu um mikið sumarlíf við ströndina.

Í New Haven fórum við í Davenport-garð Yale-háskóla þar sem Jaap Schröder er gesta-prófessor til nokkurra áratuga og fær þar inni sem slíkur, Sigurður og Svava gista í garðinum og Piers-garði en við Rut hittum vini Jaaps sem hýsa okkur í glæsilegu gestahúsi sínu utan við borgina.

Áður en við ókum til gestgjafa okkar sýndi Magnús Þorkell Bernharðsson, bróðir Svövu, okkur það helsta í háskólahverfinu í Yale. Hann stundaði þar nám á sínum tíma og er því öllum hnútum kunnugur. Nú kennir hann í Williams College í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum og kom þaðan að hitta okkur. Án leiðsagnar hans hefðum við farið á mis við margt meðal annars hin gluggalausu hús leynifélaganna sem starfa við Yale-háskóla.

Mánudagur 08. 10. 12 - 8.10.2012 16:10

Á dögunum vakti ég máls á því á Evrópuvaktinni að stuðningur Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við lögregluna í baráttu hennar við sífellt bíræfnari og skipulagðri glæpahópa væri næsta innan tómur af því að hann vildi ekki tryggja lögregluyfirvöldum nægilega víðtækar rannsóknarheimildir. Þegar ég beitti mér fyrir setningu laga um slíkar heimildir mætti það andstöðu Ögmundar og einnig þingmanna Samfylkingarinnar.

Vissulega eru víti til að varast í þessum efnum eins og öðrum en menn verða að hafa þrek til að vega og meta stöðuna fordómalaust. Ögmundur er ekki í þeirri stöðu. Hann telur sig hafa hlutverki að gegna við varðstöðu vegna þeirra sem stunda lögbrot í þágu einhvers pólitísks málstaðar.

Anders Berhing Breivik, fjöldamorðingi í Noregi, birti 1.500 bls. pólitískt skjal á netinu til skýringar á ódæðinu sem hann framdi 22. júlí 2011. Hann taldi sig vinna í þágu málstaðar sem í hans augum var og er til þess fallinn að skapa Evrópu bjarta framtíð og halda óvinum hennar víðs fjarri.

Norska öryggislögreglan, PST, hafði nasasjón af óeðlilegri háttsemi Breiviks en rakti málið ekki til enda. Árið 2007 var kynnt áætlun um öryggi stjórnarbygginga í Osló sem gerði ráð fyrir lokuðu svæði þar sem Breivik lagði bíl hlöðnum sprengiefni. Eftir á eru norsk yfirvöld harðlega ávítt fyrir að hafa ekki sýnt nægilega aðgæslu, hvorki PST né þeir sem áttu að tryggja öryggi stjórnarbygginga.

Skipti pólitískir fordómar meira máli en kaldar staðreyndir taka menn ekki mark á ábendingum um það sem gera þarf ef það brýtur í bága við fordómana. Þetta sannast á tali Ögmundar Jónassonar um að hann þurfi ekki að huga að staðreyndum eða reynslu annarra þjóða þegar hugað er að öryggi borgaranna og lögreglunnar.

Sunnudagur 07. 10. 12 - 7.10.2012 14:20

Í færslu í dagbókina í gær gat ég þess að í Peets-kaffihúsi í Newton Centre, útborg Boston, hefði ég séð sérbakað vínarbrauð kallað Icelandic-Danish. Það kom mér á óvart því að til þessa hafði ég aðeins séð slík vínarbrauð nefnd Danish í Bandaríkjunum. Velti ég fyrir mér hvort íslenskur bakari væri á næstu grösum. Mér þætti brauðið líkt og ég fengi í Bakarameistaranum í nágrenni mínu í Suðurveri í Hlíðunum.

Glöggur lesandi síðu minnar sendi mér þennan tengil. Þarna kemur fram að fyrir tæpum 20 árum hafi íslenskur bakari, Ágúst Felix Gunnarsson, lærður í Bakarameistaranum, stofnað bakarí í Cambridge hér við Boston. Tæpum tveimur árum eftir að fréttin um nýja bakaríið birtist í Morgunblaðinu hitti Karl Blöndal, nú aðstoðarritstjóri blaðsins, sem þá var við nám í Boston Ágúst Felix og birti við hann viðtal í blaðinu sem sýndi að bakarinn hafði slegið í gegn sjá hér.

Ég þarf ekki frekari sannanir. Áhrif Ágústs Felix birtast í kynningu Peets-kaffihússins á sérbökuðum vínarbrauðum.

 

Laugardagur 06. 10. 12 - 6.10.2012 17:30

Ávallt tekur nokkurn tíma að venjast nýjum stað og í dag gengum við um Newton, 75.000 manna úthverfi eða útborg Boston í björtu. Þetta er vinalegur bær og ég fann Peets-kaffistað þar sem ég félkk gott Earl Grey-te og nettengingu, ekki spillti að þar er selt vínarbrauð með gulum glassúr sem heitir Icelandic-Danish í kynningu Peets. Ég hef til þessa aðeins séð  Danish í kynningu á þessu vínarbrauði. Freistinguna stóðst ég ekki og framleiðslan gæti eins verið úr Bakarameistaranum í nágrenni mínu í Suðurveri eins og hér í Newton Centre. Kannski starfar íslenskur bakari hér á næstu grösum?

Föstudagur 05. 10. 12 - 5.10.2012 23:50

Flugum klukkan 17.00 frá Keflavíkurflugvelli með Icelandair til Logan-vallar við Boston og lentum nákvæmlega á áætlun kl. 18.30 að staðartíma. Skálholtskvartettinn (Rut, Svava Bernharðsdóttir (víóla), Sigurður Halldórsson (selló) og Jaap Schröder (fiðla)) efnir til tónleika í Boston og New Haven næstu daga auk þess sem þau fara i upptökur. Ég fylgi með eins og svo oft áður. Jaap flaug daginn áður frá Amsterdam til Boston.

Við tókum stóran leigubíl frá flugvellinum, sellóið þarf sæti eins og maður bæði í flugvélum og bílum, og ókum í Newton, kyrrlátt úthverfi Boston, í „bed og breakfast“ gistiheimili sem gömul hjón reka í stóru húsi. Hann er fyrrverandi prófessor í þjóðhagfræði við Boston College sem er í um 25 mínútna göngufæri héðan, hún er fyrrverandi listdansmær og kennari. Við sjáum í herberginu þar sem við gistum, líklega gamla hjónaherberginu þeirra, að þau hafa verið gift í 61 ár.

Jaap hafði fundið gistingu hjá þeim að tilstuðlan vina sinna. Nú á eftir að reyna á hvernig samgöngum er háttað við aðra borgarhluta. Þau eru nettengd en bæði með kapli. Þau vissu ekki hvað vakti fyrir mér þegar ég spuði um númer á routernum (beininum) svo að ég gæti tengst honum þráðlaust. Ég fór með gamla prófessornum að beininum. Vinnustofa hans er í kjallara þessa stóra húss og þar sefur hann líka. Þarna ægir öllu saman en eftir að prófessorinn hætti að kenna og skrifa fræðibækur lagði hann sig fram sem myndhöggvari og listmálari auk þess notar hann tölvuforrit kennt við Sibelíus til að semja tónverk, nýlega (9. september) var óratóría eftir hann frumflutt.

Ég fann routerinn eða beininn og gat tengt ipadinn en gekk ekki eins vel með tölvuna.

Fimmtudagur 04. 10. 12 - 4.10.2012 22:50

Fyrstu mínúturnar af kappræðum Mitts Romneys og Baracks Obama að kvöldi miðvikudags 3. október í Denver, Kólóradóríki, duga til að sjá yfirburði Romneys. Dómarnir um framgöngu Obama í bandarískum fjölmiðlum eru harðir. Einn reyndur álitsgjafi segist ekki hafa séð nokkurn mann bursta forsetann í sjónvarpseinvígi eins og Romney gerði síðan Ronald Reagan tók Jimmy Carter í bakaríið árið 1980, fyrir 32 árum, og raunar sé Carter gert rangt til með samanburðinum við Obama.

Skýringarnar á óförum Obama eru jafnmargar og mennirnir sem gefa þær. Þrjár skulu nefndar: (a) Obama hafði ekki texta á skjá (telepromter) fyrir framan sig. Án slíks hjálpartækis verður hann eins og fiskur á þurru landi. (b) Romney hefur háð svo mörg sjónvarpseinvígi á leið sinni á framboðstoppinn hjá repúblíkönum að þau eru honum leikur einn. (c) Obama forðast fundi með fréttamönnum eins og heitan eldinn, hann leyfir aðeins drottningarviðtöl við vinveitta spyrjendur eins og David Letterman, honum hefur því verið hlíft við gagnrýni á borð við þá sem Romney flutti.

Egill Helgason umræðustjóri ríkissjónvarpsins og King Kong bókaheimsins að mati markaðsstjóra ríkisútvarpsins brást illa við kappræðum Romneys og Obama. Hann greip til þess frumlega ráðs á vefsíðu sinni að lýsa frati á kappræðurnar almennt, þær væru markleysa og líktust búktali! Fyrir nokkrum árum var Egill óánægður með eitthvað sem stóð í vikuritinu The Economist og sagði þá hreina tímasóun að lesa svo afdankað, uppskrúfað blað. Ambrose Evans-Pritchard, alþjóðlegur viðskiptaritstjóri The Daily Telegraph í London, er einn þeirra sem Egill hefur bannfært.

Útskúfun af þessu tagi með opinberum yfirlýsingum er almennt undarleg. Af þessu þrennu er þó reiðin yfir sjónvarpseinvígi forsetaframbjóðendanna undarlegust og raunar óskiljanleg hjá reyndum sjónvarpsmanni. Áhorfið á kappræðurnar er gífurlegt, umtalið enn meira og áhrifin marktæk. Er unnt að biðja um meira vegna sjónvarpsþáttar?

Miðvikudagur 03. 10. 12 - 3.10.2012 21:40

Í grunnskólalögum frá 2008 segir að ráðherra sé heimilt að viðurkenna grunnskóla eða hluta grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi, enda liggi fyrir samþykki sveitarfélags um stofnun skólans. Heimilt er að binda samþykki sveitarfélags við ákveðinn hámarksfjölda nemenda. Um slíka grunnskóla gilda sömu lög og reglur og um grunnskóla skv. 1. gr., eftir því sem við á. Þar á meðal skal af hálfu viðkomandi skóla fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga við töku ákvarðana sem kæranlegar eru skv. 47. gr. Það á þó ekki við um ákvarðanir um gjaldtöku.

Enginn efast um að menntamálaráðherra hafi viðurkennt Hjallastefnuna sem rekstraraðila sjálfstæðra grunnskóla. Starfsemi hennar eykst jafnt og þétt eins og til dæmis má sjá á framkvæmdum í jaðri Öskjuhlíðar fyrir norðan Háskólann í Reykjavík.

Nú kemst ráðuneytið að því að sveitarfélag verði sjálft að reka grunnskóla og þess vegna megi það ekki semja við þá sem reka Hjallaskóla um að annast grunnskólastarfsemi í Tálknafirði. Túlkun ráðuneytisins er sem sagt sú að Hjallasstefnan geti aðeins starfað í sveitarfélagi þar sem annar grunnskóli sé rekinn af sveitarfélaginu. Á vefsíðu VG Smugunni segir í dag:

„Í bréfi menntamálaráðuneytisins kemur fram að hvert sveitarfélag þurfi að reka eigin grunnskóla, samkvæmt lögum. Þá hafi Hjallastefnan ekki hlotið viðurkenningu ráðuneytisins.“

Síðari málsliðurinn er rangur. Hjallastefnan hefur fengið viðurkenningu ráðuneytisins. Hvar stendur í lögum að ráðuneytið verði að samþykkja hvern skóla sem rekinn er af Hjallastefnunni? Segir ekki einmitt í ofannefndri lagagrein að samþykki sveitarfélags sé skilyrði fyrir stofnun sjálfstæðs skóla á vegum viðurkennds einkaaðila?

Allt bendir til að pólitísk sjónarmið ráði túlkun ráðuneytisins á grunnskólalögunum, andstaða við grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum. Enginn efast um að sveitarstjórn Tálknafjarðar hafi samþykkt að fela Hjallastefnunni undir forystu Margrétar Pálu að reka grunnskóla sveitarfélagsins. 

 

Þriðjudagur 02. 10. 12 - 2.10.2012 21:54

Margt bendir til að hér átti menn sig ekki á hve ömurlegt er fyrir Ísland og íslenska stjórnarhætti að koma til athugunar á vegum laganefndar Evrópuráðsþingsins vegna ólýðræðislegra stjórnarhátta og misnotkunar á dómskerfinu í þágu flokkspólitískra hagsmuna. Þetta ætti ekki síst að vera áhyggjuefni fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur slegið um sig heima og erlendis sem fyrirmynd á öllum sviðum – gerði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra það ekki síðast á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna? Við mikla hrifningu konunnar sem varð sér að athlægi og raunar stórskammar þegar hún birtist í gervi nornar fyrir framan Stjórnarráðshúsið haustið 2008.

Í framvinduskýrslu hollensks þingmanns um landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde sem lögð var fram í laganefnd Evrópuráðsþingsins 25. september er lýst nornaveiðum á Íslandi af hálfu meirihluta þingmanna eins og ég segi frá í pistli hér á síðunni í dag. Þrír fulltrúar Íslands á Evrópuráðsþinginu, Birkir Jón Jónsson (F), Mörður Árnason (SF) og Þuríður Backman (VG) greiddu öll atkvæði með ákærunni á hendur Geir. Þau hljóta nú að reyna að hnekkja áliti hollenska þingmannsins á þeim óheillagjörningi. Mörður hefur þegar hafið spuna um framvinduskýrsluna á heimavelli með útúrsnúningum og rangfærslum.

Sama dag og sagt er frá þessari alvarlegu gagnrýni á stjórnarhætti meirihlutans að baki Jóhönnu Sigurðardóttur skrifar Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, eitthvert rugl um STASI og Sjálfstæðisflokkinn. Fellur það að siðareglum stjórnarráðsins að menn þar stundi slík ritstörf á kostnað skattgreiðenda? Jóhann er starfsmaður forsætisráðuneytisins, miðstöðvar siðsemi í stjórnarráðinu. Líta menn þar aðeins langt yfir skammt?

 

 

Mánudagur 01. 10. 12 - 1.10.2012 23:30

Umræðustjóri hins óhlutdræga ríkisútvarps, Egill Helgason, hefur hafið deilur við stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna um hvaða ríkisstjórn sé hin versta sem þjóðin hefur kynnst. Hann reisir skoðun sína á pólitísku tilfinningalífi og þrá til að hlut ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar sem bestan. Egill mun vega að Sjálfstæðisflokknum á kosningavetri og er tekinn til við að kalla fulltrúa minnihlutasjónarmiða, eins og aðildar Íslands að ESB, í þáttinn til sín undir þeim formerkjum að þeir kynni þar sjónarmið sjálfstæðismanna. Iðja af þessu tagi er einn svartasti bletturinn á pólitískri fréttamennsku ríkisútvarpsins. Við henni verður ekkert annað gert en vekja athygli á henni og benda þeim sem enn horfa á Silfur Egils á að átta sig á fyrirvörunum sem nauðsynlegt er að hafa við áhorfið.

Í Kastljósi kvöldsins sást vel hve veikan málstað Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar og handlangari Steingríms J. Sigfússonar, hefur að verja þegar að því kemur að rökstyðja ofsóknir hans í garð Sveins Arasonar ríkisendurskoðanda og starfsmanna ríkisendurskoðunar. Björn Valur sagði að ríkisendurskoðun hefði ekki vakið máls á því við fjárlaganefnd að í fjárlögum væri veitt fé til fjársýslunnar vegna gallaðs tölvukerfis.

Hafi moldviðri undanfarinna daga leitt eitthvað í ljós er það að ríkisendurskoðun lauk ekki vinnu við skýrslu sem leiddi að hennar mati til endanlegrar niðurstöðu. Vill Björn Valur reka ríkisendurskoðanda fyrir segja eitthvað með vísan til verks sem ekki er að fullu lokið?

Þetta er dæmalaus krafa um brottrekstur háttsetts embættismann sem starfar í umboði alþingis. Krafan er reist á öðru en málinu sem er átylla hennar. Innan ríkisendurskoðunar hljóta menn að velta fyrir sér hvað raunverulega býr að baki hjá Birni Vali. Þeim ber skylda til að kanna það og upplýsa almenning um niðurstöðuna.

Kastljósið  heldur áfram að kasta rýrð á þetta tölvukerfi ríkisins, nú með tilvitnun í skýrslu frá PwC frá 2010, öryggisúttekt á kerfinu. Rætt var við sérfróðan mann sem taldi víst að skýrslan hefði leitt til umbóta á kerfinu. Þetta voru sem sagt engin tíðindi, málið þjónaði hins vegar tilgangi Kastljóss og þá halda engin bönd almennrar skynsemi.

Sunnudagur 30. 09. 12 - 30.9.2012 21:40

Í dag lauk qi gong námskeiðinu hjá dr. Yang, það stóð að nýju í sex tíma í dag eins og í gær. Þriggja daga törn með 15 tíma fræðslu um qi gong er dágóður skammtur en við sem tókum þátt eru margs vísari, ekki aðeins um qi gong heldur margt sem snertir kínverska menningu og áhrif hennar.

Það verður spennandi að sjá hvaða áhrif koma dr. Yangs mun hafa innan hóps okkar sem stundum qi gong undir merkjum Aflsins, félags qi gong iðkenda. Við höfum reist æfingakerfi okkar á grunni frá Gunnari Eyjólfssyni leikara. Líklegt er að áhrifa frá dr. Yang muni gæta í útfærslu á þeim grunni. Innan qi gong skipta æfingarnar þúsundum. Meginatriði er að tryggja orkuflæði og jafnvægi í líkamanum þar sem litið er til fimm höfuðlíffæra: Nýrna, lifrar, milta, hjarta og lungna.

Laugardagur 29. 09. 12 - 29.9.2012 19:15

Í dag var ég í sex klukkustundir á qi gong námkeiði hjá Dr. Yang hér í Reykjavík.

Dr. Yang Jwing-Ming er fæddur á Tævan árið 1946. Fimmtán ára að aldri tók hann að æfa Kung Fu bardagalist og stundaði hana í 13 ár (1961 til 1974) undir leiðsögn meistara Cheng. Hann varð sérfróður í þeirri tegund bardagalistarinnar sem kennd er við hvíta trönu, það er fuglinn trönu. Bæði er barist með berum höndum og með alls konar vopnum. Hann lærði einnig qi gong undir leiðsögn sama meistara.

Þegar hann var 16 ára tók hann að læra Tajiquan undir leiðsögn meistarans Kao Tao, og síðan með öðrum meisturum.

Hann stundaði nám í eðlisfræði í háskóla frá 18 ára aldri og lagði einnig stund á Shaolin-bardagalistina og varð að lokum aðstoðarkennari meistara síns Lí. Hann útskrifaðist með meistaragráðu í eðlisfræði frá háskóla á Tævan 1971 og hóf að kenna eðlisfræði í flughernum á Tævan á meðan hann gegndi þar herþjónustu.

Dr. Yang fluttist til Bandaríkjanna árið 1974 og hóf nám í vélaverkfræði við Purdue-háskóla og þar hóf hann jafnframt að kenna Kung Fu. Hann lauk doktorsprófi í vélaverkfræði frá Purdue-háskóla árið 1978.

Árið 1980 hóf hann störf hjá Texas Instruments í Houston í Bandaríkjunum. Þar stofnaði hann Shaolin Kung Fu skóla Yangs en fluttist síðan til Boston árið 1982 og stofnaði þar Yang‘s Martial Arts Academy (YMAA) 1. október 1982 eða fyrir réttum 30 árum. Frá 1984 hefur hann helgað sig bardagalistinni og síðan qi gong.

Hann hefur nú flust frá Boston til Kaliforníu þar sem hann hefur komið á fót miðstöð til að kenna Kung Fu sem hann segir að taki mörg ár að læra og allt lífið að fullkomna. Hann býður nú 10 ára nám í miðstöð sinni í fjöllum Kaliforníu sem tók til starfa árið 2008.

Dr. Yang hefur ritað fjölda bóka og gefið út mikið magn mynddiska. Hann hefur lagt sig fram um að kynna Vesturlandabúum gömul kínversk rit um bardagalistir og qi gong.

Föstudagur 28. 09. 12 - 28.9.2012 22:25

Í dag hófst hér í Reykjavík þriggja daga námskeið í qi gong með dr. Yang, fæddum í Tævan 1946, búsettum í Bandaríkjunum frá 1974. Hann stofnaði eigin miðstöð kínverskra bardagalista í Boston 1982 en heldur nú úti námskeiðum í fjöllum Kaliforníu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tilkynnti í dag að hún gefi ekki kost á sér í komandi þingkosningum. Það eru veruleg pólitísk tíðindi. Hún hefur notið mikils trúnaðar innan Sjálfstæðisflokksins og vinsælda sem ná út fyrir hin hefðbundnu flokksbönd. Þá lagði hún sig fram um að túlka sjónarmið þeirra sem vilja leiða ESB-aðildarviðræðurnar til lykta. Skarð hennar verður vandfyllt.

Þegar Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að hún yrði ekki í framboði að nýju tók fréttastofa ríkisútvarpsins mikla syrpu um að konur ættu undir högg að sækja í Sjálfstæðisflokknum. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnir brottför sína úr pólitíkinni verður ekkert sambærilegt uppnám í Efstaleiti vegna hlutar kvenna í Samfylkingunni. Hvað veldur? Neikvæða frétta-talið um Sjálfstæðisflokkinn mátti öðrum þræði rekja til viðleitni fréttastofu ríkisins til að draga úr gagnrýni á ráðherra vegna brota þeirra á jafnréttislöggjöfinni.

Ég skrifaði um nýjustu árásir Björns Vals Gíslasonar, formanns fjárlaganefndar, á ríkisendurskoðanda og ríkisendurskoðun á Evrópuvaktina eins og lesa má hér. Þetta upphlaup þingmannsins er með miklum ólíkindum. Meira hlýtur að búa að baki en deila um birtingu á skýrslu sem breytir í raun engu til eða frá og á rætur að rekja til ársins 2004 og reiðikastanna sem Jóhanna Sigurðardóttir tók þegar hún sat í stjórnarandstöðu. Árið 2004 gat hún ekki á heilli sér tekið vegna fjölmiðlamálsins. Hefði hugur fylgt máli hefði Jóhanna átt að beita sér fyrir frágangi þessarar skýrslu eftir að hún varð ráðherra 2007, þremur árum eftir að beiðni um skýrsluna var send ríkisendurskoðun. Hún gerði það ekki og ekki heldur eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009.

Margt bendir til að um samantekin ráð hafi verið hjá Birni Vali og Kastljósi að bregða upp svartri mynd af skýrslunni, ekki til þess í raun að fjalla um efni hennar heldur að koma höggi á ríkisendurskoðanda. Vinnubrögðin bera keim af einræðistilburðum í anda Steingríms J. Sigfússonar.

Fimmtudagur 27. 09. 12 - 27.9.2012 20:45

Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnti í dag að hún ætlaði að hætta sem forsætisráðherra og mundi ekki bjóða sig fram oftar. Í fréttatíma ríkisútvarpsins ræddi Jóhanna Vigdís við forsætisráðherra, þær nöfnur gátu ekki setið á sér heldur þótti nauðsynlegt að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn. Var til marks um einstakt pólitískt smekkleysi Jóhönnu að hún skyldi ekki halda aftur af sér, að vísu sat fréttamaðurinn ekki heldur á sér. Hvaða tilgangi þjónaði að blanda Sjálfstæðisflokknum í þetta kveðjusamtal við Jóhönnu?

Svarið við spurningunni er einfalt: Það er fastur liður hjá fréttastofu ríkisins að sparka til Sjálfstæðisflokksins hvenær sem tækifæri gefst sama hvert tilefnið er eins og þarna birtist.

Það er mikill munur á illmælgi Jóhönnu og því sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við samfylkingarvefsíðuna Eyjuna í dag. Þar má meðal annars lesa þetta:

„Þótt ég hafi ekki verið fylgjandi Jóhönnu í skoðunum eða stutt hennar áherslur, þá hefur hún verið heil í þeim samskiptum sínum við aðra flokka á þinginu. Hennar stærstu mistök á þessu kjörtímabili var að setja of mörg átakamál á dagskrá sem leiddi til þess að mál sem hefðu átt að vera í forgangi og urðu undir. Mér finnst eins og hún hafi of oft valið átök í stað sáttar.“

Ég er þeirrar skoðunar að andrúmsloftið í íslenskum stjórnmálum muni breytast til batnaðar við að Jóhanna Sigurðardóttir snýr sér að öðru en pólitíkinni. Megi henni vegna sem best!

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna þar sem Jóhanna kemur við sögu eins og hér má lesa.

Miðvikudagur 26. 09. 12 - 26.9.2012 22:50

Í morgun ræddi ég þróunina á norðurslóðum og áhrifin á Ísland á fundi með þingmönnum í nefnd á vegum NATO-þingsins. Nefndarmenn kynna sér norðurslóðir í því skyni að semja skýrslu um efnahagslegar breytingar.

Gestur minn í ÍNN í dag er Jakob F. Ásgeirsson, ritstjóri Þjóðmála. Tímaritið hefur nú komið út í rúm 8 ár, fjórum sinnum á ári. Nýjasta heftið 3. hefti 2012 kom út í dag. Þar er meðal annars að finna greinar um stöðu Sjálfstæðisflokksins, Gnarrinn, NATO og frjálshyggjuna.

Þegar menn lesa gagnrýni á frjálshyggjuna í bókum eins og þeim sem fjallað er um í Þjóðmálum að þessu sinni eftir Einar Már Jónsson annars vegar og Stefán Snævarr hins vegar sést vel hve þessi gagnrýni ristir í raun grunnt. Hún er í raun um einskonar neyðaróp vegna þess þjóðfélagsskipulags sem hefur náð undirtökunum, ekki aðeins hér á landi heldur meðal allra þjóða sem nokkurs mega sín.

Þriðjudagur 25. 09. 12. - 25.9.2012 22:20

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði frá því í Kastljósi kvöldsins að Björn Valur Gíslason (VG), formaður fjárlaganefndar alþingis og nánasti samstarfsmaður Steingríms J. Sigfússonar, hefði setið með skýrsludrög ríkisendurskoðunar um umdeilt tölvukerfi ríkisins frá Skýrr á fundi fjárlaganefndar þingsins í dag þar sem saumað var að Sveini Arasyni ríkisendurskoðanda vegna skýrslunnar. Sveinn hafði hins vegar sagt að ríkisendurskoðun hefði aðeins afhent Gunnar Hall, fjársýslustjóra ríkisins, skýrsluna á óformlegan hátt. Þá ætlaði stofnunin að leita til lögreglu til að upplýsa leka á skýrslunni til Kastljóss.

Hvenær fékk Björn Valur skýrsluna í hendur?

Í þessu máli er eitt að upplýsa þingmenn um skýrsluna sem greinilega hefur verið gert með því að afhenda Birni Vali eintak af henni, annað er að bregðast við ábendingum í skýrslunni og athugasemdum um það sem betur má fara. Hafi niðurstaða um það legið fyrir í nóvember 2009 er spurning hvers vegna fjármálaráðuneytið fékk ekki vitneskju um málið til að bregðast við því sem ríkisendurskoðun varð áskynja.

Miðað við framgöngu Björns Vals Gíslasonar í fjölda mála sem hátt ber í stjórnmálunum er full ástæða til að taka öllu sem hann segir um ríkisendurskoðun og skýrslu hennar með fyrirvara. Hann hefur meiri vitneskju í þessu máli en hann vill vera láta í viðræðum við fréttastofu ríkisins og notar vitneskju sína til að beina umræðum í þann farveg sem hann telur sér og flokki sínum hagkvæmastan. Hvers vegna skyldu fréttamenn ekki velta fyrir sér hvernig Steingrímur J. Sigfússon stóð að þessum málum sem fjármálaráðherra?

Mánudagur 24. 09. 12 - 24.9.2012 22:20

Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland, flutti fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í hádeginu í dag. Hún gerði grein fyrir efnisöflun sinni og sagði álit á starfsaðferðum Stasi, austur-þýsku öryggislögreglunnar. Það koma fram hjá henni að Stasi-böndin hafi ekki rofnað meðal þeirra sem gengu þjónustunni á hönd þótt þeir sinni öðrum störfum núna en að njósna um vinnufélaga eða eigin fjölskyldu.

Stasiland er mögnuð bók og þar sem lýst er hinu ógnvekjandi ástandi sem ríkti í A-Þýskalandi undir stjórn kommúnista. Það er merkilegt að jafnaðarmenn á borð Stefán Ólafsson prófessor hafa hvorki þrek né þolinmæði til að hlusta á þá segja skoðanir sínar sem lýsa stjórnarháttum sósíalista og kommúnista.

Fréttastofa ríkisútvarpsins segir „ekki gott að átta sig á“ stöðu atvinnuleysisins hér á landi þótti hagstofan og forseti ASÍ segi að það aukist en minnki ekki. Hvers vegna á fréttastofan erfitt með að fóta sig? Af því að Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, neitar að viðurkenna staðreyndir í þessu máli eins og öðrum sem sýna og sanna hve honum eru mislagðar hendur.

Ráðherrar og spunaliðar þeirra hafa dregið upp falska mynd af stöðunni í atvinnumálum undanfarna mánuði. Þeir hafa komist upp með þetta af því að fréttastofa ríkisins leikur undir með þeim. Þegar hagstofan og forseti ASÍ sem ekki hefur verið andvígur Samfylkingunni, stóra stjórnarflokknum, segja ríkisstjórn og spunaliðana hafa rangt fyrir sér á fréttastofa ríkisins erfitt með að „átta sig“. Harðari verður gagnrýnin á stjórnarherrana ekki þar á bæ!

Farið var að landslögum og alþjóðasamningi við brottvísun íraks hælisleitanda héðan til Noregs. Fréttastofa ríkisins tekur afstöðu með þeim sem telja að manninum hafi verið vísað í dauðann með endursendingu til Noregs. Fréttastofan á ekki erfitt með að „átta sig“ þegar málefni hælisleitenda er á döfinni.

Sunnudagur 23. 09. 12 - 23.9.2012 23:55

Í dag voru réttir Fljótshlíðinni í mildu veðri.

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir á vefsíðu sinni 23. september:

„En hvers vegna skyldu róttækir frjálshyggjumenn, eins og Þór Whitehead og Hannes Hólmsteinn, vera að skrifa sagnfræði- og myndabækur um löngu dauða hugmyndafræði? Eða halda ráðstefnur og teboð til að ræða glæpi sem kommarnir frömdu fyrir 70 til 100 árum?

Þetta segir Stefán vegna þess að RNH-stofnunin efndi laugardaginn 22. september til ráðstefnu þar franski sagnfræðiprófessorinn Stéphane Courtois, sem var ritstjóri og einn af höfundum Svartbókar kommúnismans, en hún kom út hjá Háskólaútgáfunni 2009 var meðal ræðumanna og auk þess Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland, sem kom út í ár á íslensku hjá Uglu og hefur hlotið góða dóma. Þór Whitehead prófessor flutti samantekt um niðurstöður ráðstefnunnar í lok hennar. Hannes Hólmsteinn og Þór eru í forustu fyrir RNH.

Að prófessorar í stjórnmálafræði og sagnfræði standi að ráðstefnu með erlendum fræðimönnum og höfundum um kommúnismann og áhrif hans ætti ekki að þykja undrunarefni. Þessi stjórnmálahugsjón hafði verulega mikið að segja hér á landi og þeir sem henni héldu á loft höfðu festst í alþjóðlegu neti sem enn er verið að kortleggja. Þetta net tengdi anga sína hingað og er þess vegna hluti íslenskrar sögu,

Helst mætti ætla að öfund byggi að baki skrifum Stefáns Ólafssonar um framtak starfsbræðra sinna við Háskóla Íslands, hann sjái ofsjónum yfir að þeir nái slíkum höfundum hingað til lands á málþing. Varla verður því trúað að Stefán sé andvígur umræðum um hlut kommúnismans í stjórnmála- og mannkynssögunni? Maður með slíkt viðhorf á heima annars staðar en í háskóla.