24.11.2012 23:10

Laugardagur 24. 11. 12

Sjálfstæðisflokkurinn kemur sterkur frá prófkjörinu í Reykjavík í dag undir nýrri forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem hlaut glæsilega kosningu. Þá styrkti flokkurinn sig verulega á landsbyggðinni þegar kjördæmisþing flokksins í NV-kjördæmi ákvað á fundi í Borgarnesi að velja Harald Benediktsson í 2. sæti á lista flokksins þar. Hanna Birna og Haraldur eru bæði með mikla reynslu af starfi í almannaþágu hvor á sínum vettvangi og hafa áunnið sér traust samstarfsfólks langt út fyrir raðir sjálfstæðismanna.

Þá var einnig ánægjulegt að Brynjar Níelsson hrl. hlaut gott brautargengi í prófkjörinu í Reykjavík. Brynjar hefur verið ódeigur við að lýsa skoðunum sínum og segir óhikað hinni pólitísku rétthugsun stríð á hendur. Það er mikil þörf fyrir menn með hugrekki til þess á hinum pólitíska vettvangi.

Allt annað yfirbragð er á ákvörðunum sjálfstæðismanna um skipan á lista en VG þar sem efnt var til forvals í SV-kjördæmi og Reykjavík í dag. Ég tel að Steingrímur J. komi laskaður frá átökunum í forvalinu því að útsendarar hans náðu ekki settu marki eins og ég lýsi hér.

Þáttur minn á ÍNN frá 21. nóvember þar sem ég ræði við Hafstein Þór Hauksson, lektor við lagadeild HÍ, um stjórnarskrármálið er kominn á netið  og má sjá hann hér.

Í dag ókum við norður í Húnavatnssýslu í ágætri færð en töluverðri hálku, krapi var í Norðurárdalnum. Umferð var ekki mikil.