Dagbók: júní 2003

Mánudagur, 30. 06. 03 - 30.6.2003 0:00

Fór síðdegis í heimsókn til ríkislögreglustjóra. Kynntist starfi í höfuðstöðvum hans og fór síðan í bifreiðamiðstöðina og fjarskiptamiðstöðina.

Föstudagur, 27. 06. 03. - 27.6.2003 0:00

Héldum frá Saltsjöbaden um klukkan 11.00 og flugum frá Arlanda klukkan 14.10 en lentum rétt um klukkan 15.00 að íslenskum tíma.

Fimmtudagur, 26. 06. 03. - 26.6.2003 0:00

Dómsmálaráðherrafundurinn hófst klukkan 09.00 og lauk með blaðamannafundi klukkan 13.00.

Síðdegis sigldum við á Maleren og fórum í Gripsholm-höll, þar sem snæddur var kvöldverður með miðaldarsniði.

Miðvikudagur, 25, 06. 03. - 25.6.2003 0:00

Héldum til Stokkhólms klukkan 07.40 og vorum komin þangað klukkan 12. 30 að staðartíma. Ókum rakleiðis til Saltsjöbaden um 60 km frá flugvellinum en leiðin liggur um hjarta Stokkhólms. Komum okkur fyrir í Vaar Gaard, sem er fræðslusetur sænsku samvinnuhreyfingarinnar. Höfðum stund til að ganga í góða veðrinu síðdegis og njóta þess að kynnast strandlífinu, áður en kvöldverður norrænu dómsmálaráðherranna og embættismanna þeirra hófst.

Þriðjudagur, 24. 06. 03. - 24.6.2003 0:00

Síðdegis var aðalfundur Kvoslækjar ehf. haldinn að Hótel Loftleiðum og var ég fundarstjóri.

Fór í Kastljósið að loknum aðalfundinum og ræddi þar um varnarmál við Ögmund Jónasson, þingmann vinstri/grænna.

Mánudagur, 23. 06. 03. - 23.6.2003 0:00

Heimsóttum Ríkharð Másson sýslumann og samstarfsfólk hans á Sauðárkróki klukkan 11.00 og skoðuðum skrifstofu, lögregluvarðstöð og fangaklefa. Ókum síðan í Hofsós, þar sem við skoðuðum sýningu um Norður-Dakóta í Vesturfarasafninu og snæddum hádegisverð, áður en við héldum að Lónkoti, þar sem Ólafur Jónsson kynnti okkur framkvæmdir sínar og staðhætti.

Klukkan 17.00 var prestastefna sett í Sauðárskrókskirkju og flutti ég þar ávarp að lokinni setningarræðu biskups.

Ókum heim að lokinni setningarathöfninni og vorum á leiðarenda um miðnætti.

Veðrið var einstaklega gott þessa ferðadaga okkar.

Sunnudagur, 22. 06. 03. - 22.6.2003 0:00

Héldum af stað klukkan 10.00 norður að Hólum í Hjaltadal með viðkomu á Hótel Tindastóli á Sauðárkróki, þar sem við bjuggum okkur undir þátttöku í biskupsvígslu á Hólum, sem hófst klukkan 16.00 en þar var séra Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígður vígslubiskup á Hólum. Var því síðan fagnað um kvöldið í veislu herra Karls Sigurbjörnssonar biskups og Kristínar Guðjónsdóttur, konu hans, í íþróttamiðstöðinni á Sauðárkróki.

Föstudagur, 20. 06. 03 - 20.6.2003 0:00

Leit síðdegis inn á sýninguna um sögu lögreglunnar í 200 ár í húsakynnum ríkislögreglustjóra og skoðaði hana mér til fórðleiks og ánægju undir góðri leiðsögn.

Fimmtudagur, 19. 06. 03 - 19.6.2003 0:00

Var síðdegis á síðasta fundi borgarstjórnar fyrir sumarleyfi. Þar var meðal annars tekist á um áberandi auglýsingar og kostun Og Vodafone á þjóðhátíðarhöldunum 17. júní. Framsóknarmenn vörðu kostunina, en eiga þeir formann þjóhátíðarnefndar, en aðrir voru gagnrýnir. Sérkennilegt var að heyra Steinunni Valdísi úr Samfylkingunni telja auglýsingar þennan dag sambærilegar við auglýsingar til að kosta veðurfréttir í sjónvarpi RÚV.

Fórum um kvöldið í fjölmennt 50 ára afmæli hjónanna Össurar Skarphéðinssonar og Árnýjar Sveinbjörnsdóttur að Kjarvalsstöðum. Sérkennilegt var að greina pólitíska undirstrauma í valdabaráttu innan Samfylkingarinnar í afmælisræðum.

Þriðjudagur, 17. 06. 03. - 17.6.2003 0:00

Fórum rúmlega 10.00 af stað í alþingishúsið, þar sem ríkisstjórn og fleiri komu saman, áður en gengið var fylktu liði út á Austurvöll og þaðan til Dómkirkju. Að lokinni messu héldum við austur að Goðalandi í Fljótshlíð og tókum þátt í þjóðhátíðarhöldum þar fram eftir degi.

Fimmtudagur, 12. 06. 03. - 12.6.2003 0:00

Fór síðdegis í fyrstu heimsókn mína í stofnun á vegum dómsmálaráðuneytisins og kynnti mér starfsemi Útlendingastofnunar. Hún starfar nú samkvæmt nýsamþykktum lögum og hafa umsvif hennar aukist mikið vegna sífellt vaxandi fjölda útlendinga, sem hingað koma.

Mánudagur, 09. 06. 03. - 9.6.2003 0:00

Fórum á lokatónleika Kirkjulistarhátíðar í Hallgrímskirkju að kvöldi annars í hvítasunnu, eftir að hafa verið að Kvoslæk um helgina og tekið til henni við jarðvinnu og slátt.

Fimmtudagur, 05. 06. 03. - 5.6.2003 0:00

Fór fyrir hádegi í EFTA-dómstólinn, sem hefur höfuðstöðvar í Lúxemborg og kynnti mér starfsaðstöðuna þar. Klukkan 15.00 var síðan fundur með dómsmálaráðherrum frá Schengen-ríkjunum. Hann var stuttur enda ekki um nein ágreiningsmál að ræða. Hélt af stað um klukkan 19.00 um París til Reykjavíkur og lenti þar um klukkan 23.30.

Miðvikudagur, 04. 06. 03 - 4.6.2003 0:00

Flaug um hádegisbilið um Kaupmannahöfn til Lúxemborgar og var kominn þangað um klukkan 22.00. Var gaman að koma að nýju á Findel-flugvöll eftir margra ára hlé. Þar hafði lítið breyst nema inngangurinn vegna Schengen-reglnanna. Hins vegar hefur mikið verið byggt fyrir Evrópu- og fjármálastofnanir í nágrenni vallarins.

Lesa meira