Dagbók: nóvember 2012

Föstudagur 30. 11. 12 - 30.11.2012 21:10

Það snjóaði í Stokkhólmi í dag. Margt fólk var þó á ferli á verslunargötum.

Í Hallwylska Museet sem er í Hallwylska palatset (Hallwylska-höllinni) í miðborg Stokkhólms má nú sjá sýningu á kjólum sem frúrnar klæðast í sjónvarpsþáttunum Downton Abbey. Höllin var reist á árunum 1893 til 98 sem vetrarheimili fyrir Walther og Wilhelminu von Hallwyl. Hjónin gáfu sænska ríkinu húsið árið 1920 til að þar yrði safn og var það opnað árið 1938.

Í Nóbelsafninu við Stortorget, Gamla Stan, er nú sérstök sýning tileinkuð Hertu Müller (f. 1953) sem hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2009. Þar má sjá við hve mikið ofríki hún bjó í Rúmeníu á stjórnarárum Ceausescu-hjónanna. Hún hóf feril sinn sem rithöfundur til að brjótast undan því oki öllu og kommúnismanum.

Í Nóbelsafninu er margt til sýnis sem tengist Nóbelsverðlaunahöfum í áranna rás, þar á meðal viðtöl við þá sem hafa fengið þau hin síðari ár og myndskreyttar frásagnir af eldri verðlaunahöfum.

Ummæli þeirra eiga það sammerkt að enginn stefndi að uppgötvun eða afreki sem leiddi til Nóbelsverðlauna. Þeir hlutu þau fyrir eitthvað sem varð til vegna mikillar menntunar, þjálfunar, vinnu og þrautseigju. Að lokum réð oft tilviljun eða hugmynd sem vaknaði annars staðar en við skrifborðið eða rannsóknartækin að rambað var á eitthvað sem leiddi til verðlaunanna.

 

Fimmtudagur 29. 11. 12 - 29.11.2012 19:55

Sat í dag málþing SIPRI hér í Stokkhólmi þar sem rætt var um breytingar á Norðurskautsráðinu þegar formennska í því flyst frá Norðurlöndunum til Norður-Ameríku í maí 2013 og verður þar til 2017, fyrst í höndum Kanadamanna og síðan Bandaríkjamanna. Merkilegt var að hlusta á útlistanir á óskum Kína og ESB um fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsáðinu og hve mikill samhljómur er í rökum þeirra. Ég lét undir höfuð leggjast að benda á, að bæði Kína og ESB sækjast eftir auknum ítökum á Íslandi til að styrkja stöðu sína á norðurslóðum. Ég er ekki sannfærður um að aðild Íslands að ESB mundi á nokkurn hátt styrkja stöðu Íslendinga gagnvart ásókn Kínverja. Sumir aðildarsinnar á Íslandi sýnast þeirrar skoðunar.

Fréttir af frumvarpi Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að takmarka rannsóknarheimildir lögreglunnar eru í samræmi við stefnu VG um að gera lögreglu eins máttlitla og frekast er unnt. Þá samrýmast þessar tillögur Ögmundar einnig vel þvermóðsku Samfylkingarinnar þegar ég vildi styrkja lögregluna á sínum tíma og þingflokkurinn Samfylkingarinnar brá fæti fyrir alla marktæka viðleitni til að skapa lögreglu betri skilyrði en áður til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi.

Hvert frumvarpið eftir annað sem miðaði að vernd almennra borgara var tekið í gíslingu af andstæðingum Sjálfstæðisflokksins eða stefnu minni, meðal annars innan Framsóknarflokksins, til að ganga í augun á einhverjum þrýstihópum sem reistu skoðanir sínar á misskilinni umhyggju fyrir minnihlutahópum eða jafnvel femínisma.

Ég skil ekki að nokkrum hafi dottið í hug að Ögmundur Jónasson mundi skila af sér sem innanríkisráðherra með þann vitnisburð að hann hefði eflt og styrkt lögregluna í landinu með því að auka öryggi lögreglumanna eða auðvelda þeim að takast á við sífellt hættulegri brotastarfsemi með auknum rannsóknarheimildum. Ekkert slíkt vakir fyrir honum enda mundi hann með því brjóta á bága við stefnu VG. Þetta telja ráðherrar VG sér skylt að framkvæma með vísan til stefnu flokks síns á sama tíma og þeir svíkja allt sem þeir hafa sagt um ESB-aðild og andstöðu sína við hana.

Miðvikudagur 28. 11. 12 - 28.11.2012 15:40

Flugum með Icelandair frá Keflavík til Stokkhólms, vél stundvísasta flugfélags í Evrópu komst ekki af stað á mínútunni af því að dráttarbíll startaði ekki og því tafðist að draga hana frá rananum á Leifsstöð.

Við lentum þó á áætlun á Arlanda-flugvelli. Ég hef ekki áður farið með Arlanda Express á 20 mínútum frá flugvellinum inn í hjarta borgarinnar. Mikil og góð breyting á tenginu flugvallar og miðborgar.

Það rignir í Stokkhólmi og er heldur drungalegt yfir öllu þótt jólaljósin séu tekin að lýsa upp skammdegið.

Þriðjudagur 27. 11. 12 - 27.11.2012 22:00

Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, kom hingað til lands í annað sinn frá hruni bankanna haustið 2008 og gaf okkur góð ráð í hátíðarsal Háskóla Íslands. Sagt er að salurinn hafi verið þéttsetinn. Persson er góður ræðumaður og reyndist þjóð sinni ágætur forsætisráðherra. Hann reyndist hins vegar hafa rangt fyrir sér um afstöðu hennar til evrunnar. Persson barðist eindregið fyrir upptöku evru í Svíþjóð.

Hann tapaði í þjóðaratkvæðagreiðslu sem efnt var til um miðjan september 2003. Þá greiddu 56,1% atkvæði gegn upptöku evru en 41,8% studdu evruna, þátttaka í atkvæðagreiðslunni var mikil, 81,2%. Í ræðum Perssons fyrir kjördag fór hann mikinn og hafði uppi stór orð um hættuna sem steðjaði að Svíum segðu þeir nei. Hann talaði á svipaðan hátt og þeir gerðu hér sem sögðu að allt mundi fara til fjandans ef Íslendingar höfnuðu Icesave-samningunum.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna sat Persson fyrir svörum fréttamanna á fundi. Þá spurði einn: Forsætisráðherra, fyrir kjördag boðaðir þú að hér yrði allt í kalda koli ef menn segðu nei við evrunni. Hvenær hefjast þær hörmungar? Persson svaraði: Nú, á ég að hafa sagt það, ég man bara ekki eftir því.

Eitt af því sem Persson sagði þegar hann kom hér í fyrra skiptið til að stappa stálinu í okkur Íslendinga var að hið vitlausasta sem menn gerðu á stundu sem þessari væri að rjúfa þing og ganga til kosninga. Að þessu leyti reyndist hann sannspár. Hvernig sem á málið er litið getur enginn sagt að það hafi verið heppilegast fyrir Íslendinga að Ólafur Ragnar  leyfði Jóhönnu og Steingrími J. að mynda minnihlutastjórn og hefja síðan þá sundrungariðju sem þau hafa stundað og ekki er enn lokið. Sundrungin er svo mikil að Ólafur Ragnar taldi sig ekki eiga annarra kosta völ en bjóða sig fram í fimmta sinn sem forseti. Þjóðin yrði þó að eiga eitthvert sameiningartákn!

Göran Persson segir að Íslendingar eigi að ljúka viðræðum við ESB með niðurstöðu. Þetta bendir til að hann viti ekki um hvað málið snýst í viðræðum Íslands og ESB. Þá sé hann álíka mikið úti að aka um afstöðu Íslendinga og um afstöðu Svía árið 2003 þegar hann taldi að þeir mundu samþykkja upptöku evru. Enn þann dag í dag neitar sænska ríkisstjórnin að taka þátt í ERM II sem er fyrsta skref til upptöku evru. Að reglum ESB er Svíum skylt að nota evru, aðeins Bretar og Danir hafa frelsi frá Brussel til að nota eigin mynt.

 

Mánudagur 26. 11. 12 - 26.11.2012 21:50

Það er ótrúlegt að lesa nöldrið í óvildarmönnum Sjálfstæðisflokksins þegar þeir fjalla um hið velheppnaða prófkjör flokksins í Reykjavík laugardaginn 24. nóvember.

Óli Björn Kárason vakti athygli á rangfærslum stjórnmálafræðings við Háskólann á Akureyri um þátttöku í prófkjörinu. Hún er síst verri en áður. Yfirlýsingar Grétars Þórs Eyþórssonar kennara við HA um prófkjör sjálfstæðismanna og forval VG virðast hafa verið gefnar að óathuguðu máli. Hér má sjá grein Óla Björns.

Það er ekkert einstakt við að þingmaður færi sig af lista utan af landi til Reykjavíkur. Að Björn Valur Gíslason skuli hafa gert það skýrir ekki afhroð hans í forvali VG í Reykjavík eins og Grétar Þór vildi gera.

Skoðanir Björns Vals eða framganga höfða einfaldlega ekki til kjósenda. Eftir að hann varð formaður fjárlaganefndar alþingis lætur hann eins og ekkert sé honum og stórkallalegum yfirlýsingum hans óviðkomandi. Þá snerist hann á sínum tíma öndverður við skoðunum Katrínar Jakobsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur um að eðlilegt væri að endurskoða forsendur ESB-viðræðnanna vegna þess hve þær hefðu dregist á langinn og ástandið innan ESB væri allt annað nú en 2009. Meira að segja Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, var mildari í garð ESB-sjónarmiða VG-ráðherranna tveggja en Björn Valur. Í forvalinu fékk Árni Þór mun meira fylgi en Björn Valur.

Ókum norðan úr Húnavatnssýslu í dag í fegursta veðri. Íbúar fyrir norðan sögðu að við hefðum verið heppin um helgina því að undanfarandi helgar hefðu einkennst af vondu veðri og ófærð.

Sunnudaginn 25. 11. 12 - 25.11.2012 23:55

Í dag klukkan 15.00 hélt Rut stofutónleika í hinu glæsilega Heimilisiðnaðarsafni á Blönduósi. Hún lék þar einleiksverk á fiðlu.

Ég skrifaði pistil um úrslit prófkjara.

Laugardagur 24. 11. 12 - 24.11.2012 23:10

Sjálfstæðisflokkurinn kemur sterkur frá prófkjörinu í Reykjavík í dag undir nýrri forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem hlaut glæsilega kosningu. Þá styrkti flokkurinn sig verulega á landsbyggðinni þegar kjördæmisþing flokksins í NV-kjördæmi ákvað á fundi í Borgarnesi að velja Harald Benediktsson í 2. sæti á lista flokksins þar. Hanna Birna og Haraldur eru bæði með mikla reynslu af starfi í almannaþágu hvor á sínum vettvangi og hafa áunnið sér traust samstarfsfólks langt út fyrir raðir sjálfstæðismanna.

Þá var einnig ánægjulegt að Brynjar Níelsson hrl. hlaut gott brautargengi í prófkjörinu í Reykjavík. Brynjar hefur verið ódeigur við að lýsa skoðunum sínum og segir óhikað hinni pólitísku rétthugsun stríð á hendur. Það er mikil þörf fyrir menn með hugrekki til þess á hinum pólitíska vettvangi.

Allt annað yfirbragð er á ákvörðunum sjálfstæðismanna um skipan á lista en VG þar sem efnt var til forvals í SV-kjördæmi og Reykjavík í dag. Ég tel að Steingrímur J. komi laskaður frá átökunum í forvalinu því að útsendarar hans náðu ekki settu marki eins og ég lýsi hér.

Þáttur minn á ÍNN frá 21. nóvember þar sem ég ræði við Hafstein Þór Hauksson, lektor við lagadeild HÍ, um stjórnarskrármálið er kominn á netið  og má sjá hann hér.

Í dag ókum við norður í Húnavatnssýslu í ágætri færð en töluverðri hálku, krapi var í Norðurárdalnum. Umferð var ekki mikil.

Föstudagur 23. 11. 12 - 23.11.2012 23:40

Það er frábært framtak hjá Elínu Hirst, Kjartani Gunnarssyni og þeim sem unnu með þeim að heimildarmyndinni um stofnfrumurnar að kynna þær og mikið gildi þeirra fyrir almenningi á þann hátt sem gert er í myndinni. Hún er í senn fræðandi og áhrifamikil.

Íslendingar eru fordómalausir í samanburði við aðrar þjóðir í þessu efni. Íslensk mynd um stofnfrumur á erindi til fleiri en áhorfenda hér til að opna augu sem flestra fyrir gildi þess að nýta þessa tækni til að sigrast á sjúkdómum sem til þessa hafa verið taldir ólæknandi. Myndin sýnir að það er unnt og fékk Elín hugrakka einstaklinga til að segja sögu sína og lýsa eigin reynslu.

Á morgun er prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ég hef á öðrum vettvangi lýst skoðun minni á nauðsyn endurnýjunar. Tækifæri til hennar gefst í þessu prófkjöri. Dugnað stjórnmálamanna má mæla á ýmsan hátt. Ég tel mestu skipta að enginn efist um meginskoðanir þeirra og hvaða aðferðum þeir beita við úrlausn mála.

Lítið hald reynist í mönnum sem haga sér eins og vindurinn blæs og hengja sig á það sem þeir telja helst til þess fallið að vekja athygli á hverjum tíma án þess að því sé fylgt eftir með öðru en upphrópunum. Jóhanna Sigurðardóttir starfaði þannig í stjórnarandstöðu.Hún var aldrei til friðs innan eigin flokks og þegar hún komst á toppinn hlaut íslenska þjóðin forsætisráðherra án annars markmiðs en að gera stjórnarandstöðunni lífið leitt. Jóhanna breytti í raun ekki um takt.

Rætt er um það sem dugnað að elta stjórnarherra með sífelldum fyrirspurnum. Vissulega er góðra gjalda vert að afhjúpa það sem miður fer og hér skiptir atbeini stjórnmálamanna meiru í því efni en víða annars staðar vegna þess hvernig fjölmiðlun er háttað.  Að lokum skiptir þó miklu meira máli að vekja athygli á brotalömum í stefnu andstæðinga í stjórnmálum og leggja fram heildstæða stefnu sem vekur meiri tiltrú en til dæmis stjórnarherrarnir fylgja. Ná að setja fram skoðanir sínar á þann hátt að vitað sé fyrir hvað menn standa og höfða með því til almennings.

Í framboði í prófkjöri sjálfstæðismanna er fólk sem ég tel fært um að móta og fylgja fram stefnu flokksins af meiri þunga en gert hefur verið. Ég vona að það nái allt kjöri.

 

 

 

Fimmtudagur 22. 11. 12 - 22.11.2012 22:20

Aðalfundur Varðbergs var haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns í dag og var stjórn félagsins endurkjörin. Ég flutti skýrslu stjórnar og má lesa hana hér.

Morgunblaðið birtir í dag frétt um að Gunnar Þ. Andersen, fyrrv. forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hafi kært „alþingismanninn Guðlaug Þór Þórðarson, Ágústu Johnson, eiginkonu Guðlaugs, og Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, til embættis sérstaks saksóknara. Kæran lýtur að meintum brotum á lögum um mútur og umboðssvik og hlutdeild í málum tengdum Bogmanninum, félagi í eigu Guðlaugs Þórs og Ágústu,“ segir í blaðinu.

Guðlaugur Þór segir „ekkert athugavert við þessi viðskipti sem voru fyrir áratug og menn mega skoða það eins og þeir vilja“. Þingmaðurinn segir kæruna þátt „í leikriti Gunnars Andersen og Inga Freys [blaðamanns] á DV“ og hann „efast ekki um að þeir verða örugglega fleiri“ leikþættirnir.

Stuðningsmenn Guðlaugs Þórs setja fréttir af einvígi Gunnars Þ. og Guðlaugs Þórs í samband við prófkjör sjálfstæðismanna  í Reykjavík nk. laugardag þar sem Guðlaugur Þór sækist eftir 2. sæti. Halldór Jónsson í Kópavogi, eindreginn stuðningsmaður Guðlaugs Þórs, segir á vefsíðu sinni í dag:

„Auðvitað skaðar þetta Guðlaug Þór í prófkjörinu, þar sem einhverjir kjósa hann ekki vegna þessa máls sem annars hefðu kosið hann og kjósa þar með aðra. Forstjórinn og DV geta vel við unað. Spurningin er hversu mikinn skaða Guðlaugur ber af þessu máli hvað sem svo líður útkomu þess í fyllingu tímans. Sýkna eða sakfelling breytir þar engu um og skiptir ekki máli, því skaðinn er skeður. Fáir munu taka eftir málalyktum þegar þær verða.“

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og laganemi við HR, segir Gunnar Þ. í  „ófrægingarherferð gegn Guðlaugi Þór og eiginkonu hans. Svo virðist sem siðferðisbrestur Gunnars Þ. Andersen sé algjör,“ segir Björn Jón.

Prófkjör bindur ekki enda á þetta mál. Hætta er á að því verði að ósekju klínt á Sjálfstæðisflokkinn.  Hér er meira í húfi en hagsmunir eins frambjóðanda þótt alls ekki beri að gera lítið úr þeim.  Málum af þessu tagi ber að ljúka fyrir dómstólum en ekki á pólitískum vettvangi.

 

 

Miðvikudagur 21. 11. 12 - 21.11.2012 21:40

Ræddi í dag við Hafstein Þór Hauksson, lektor í lagadeild Háskóla Íslands, um stjórnarskrármálið í þætti mínum á ÍNN. Hann sat í sérfræðinganefndinni sem skipuð var að tilhlutan stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar alþingis til að skoða tillögur stjórnlagaráðs.

Því meira sem menn rýna í þetta stjórnarskrármál hljóta þeir að sjá hve fráleitt er að það verði afgreitt með nokkru viti á fjórum mánuðum fram að þingkosningum. Spurningarnar sem ekki hefur verið svarað eru svo margar að það er skiljanlegt að þeir sem vilja hespa af nýrri stjórnarskrá forðist að velta þeim fyrir sér. Aðrir hafa hins vegar gert það eins og sérfræðinganefndin.

Það er ábyrgðarleysi að láta eins og athugasemdir sérfræðinganna snerti aðeins lagatæknileg atriði. Miklu meira er í húfi en látið er í veðri vaka með því að nota orðið „lagatækni“ eins og um jafnvel léttvæga hluti sé að ræða. Þetta blasir við öllum sem hlusta á Hafstein Þór í þætti mínum. Hann er sýndur klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.

Þriðjudagur 20. 11. 12 - 20.11.2012 22:55

Þegar lagt var á ráðin um kröfur til hljómburðar í tónleikasalnum sem nú heitir Eldborg í Hörpu leitaði ég til Vladimirs Ashkenazys og ræddum við málið í hádegisverði í Lækjarbrekku. Ég spurði hann ráða vegna þess hve víða hann hafði komið fram. Við þekktumst frá því snemma á áttunda áratugnum þegar ég vann að því með Matthíasi Johannessen og fleirum að fá leyfi fyrir föður Ashkenazys til að ferðast frá Sovétríkjunum og heimsækja son sinn og fjölskyldu hans hér á landi. Það gekk eftir og minnist ég kvöldverðar með foreldrum Ashkenazys á heimili þeirra Þórunnar og Vladimirs við Brekkugerði.

Þegar við ræddum hljómburðinn um miðjan 10. áratuginn benti Ashkenazy á hljómburðarsérfræðinga hjá fyrirtækinu Arctec í New York og sali sem þeir hefðu hannað meðal annars í Birmingham þar sem Simon Rattle var þá aðalstjórnandi. Haft var samband við Arctec og þeir höfðu áhuga á verkefninu og fylgdu tónlistarhúsinu  þar til það reis. Aldrei var slegið af kröfunni um hinn besta hljómburð. 

Nú í kvöld kom Sir Simon Rattle og stjórnaði Berliner Philharmoniker, einni af þremur bestu hljómsveitum heims, í Eldborg af því að hann vildi fá tækifæri til að kynnast hljómburði salarins, hann hefði heyrt mikið af honum látið. Þegar þetta er skrifað hefur Sir Simon Rattle ekki sagt neitt opinberlega um hvernig honum þótti að stjórna í Eldborg. Hann stjórnaði hins vegar frábærlega hinni margfrægðu og rómuðu hljómsveit. Hún stóð vissulega undir væntingum.

Mánudagur 19. 11. 12 - 19.11.2012 22:55

Enn einu sinni skiptast Ísraelar og Hamas-hryðjuverkamenn á eldflaugaárásum. Eldlaugum sem Hamas hefur fengið frá Íran er skotið frá Gaza inn í Ísrael, því lengra sem þær draga þeim mun þyngri vopnum beita Ísraelar. Þá hefur her Ísraels verið settur í viðbragðsstöðu og varalið virkjað. Innrás á Gaza-svæðið er hótað.

Átökin nú eru við allt aðrar aðstæður en áður. Nýir stjórnarherrar eru í Egyptalandi. Í Kairó leita menn samkomulags um vopnahlé. Í Reykjavík efna ráðherrar til mótmæla við bandaríska sendiráðið og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flytur ræðu um að ástæða sé til að mótmæla þar af því að Bandaríkjamenn leggi Ísraelum lið.

Fyrir norðan Ísrael í Sýrlandi hefur forseti landsins beitt hervaldi gegn borgurum eigin lands og ástandið er miklu verra en á Gaza-svæðinu . Sýrlenskir borgarar eru ekki óhultir gagnvart eigin yfirvöldum. Hvað eftir annað hefur verið reynt að ná samkomulagi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um róttækar alþjóðlegar ráðstafanir til að stöðva hina grimmu ráðamenn í Damaskus. Rússar og Kínverjar beita neitunarvaldi í ráðinu til að hindra framgang mála sem þeir telja að þrengi um of af Sýrlandsforseta. Hefur nokkur íslenskur ráðherra séð ástæðu til að taka til máls fyrir utan sendiráð Rússlands eða Kína í Reykjavík til að mótmæla stuðningi stjórnvalda þessara ríkja við Sýrlandsforseta?

Óvildin í garð Ísraels fer á einkennilegan hátt út fyrir skynsamleg mörk hjá þeim innan Samfylkingarinnar og meðal vinstri grænna sem keppa um fylgi þeirra hópa hér á landi sem berjast fyrir rétti Palestínumanna. Að mótmæla við sendiráð Bandaríkjanna til að láta í ljós óvild í garð Ísraela er einskonar kjækur. Vildi Bandaríkjastjórn koma í veg fyrir pólitískan þrýsting á Ísraela á alþjóðavettvangi hefði hún beitt neitunarvaldi gegn þátttöku aðalritara Sameinuðu þjóðanna í vopnahlésfundum í Kairó.

Eðlilegt er að skoða andstöðu Ögmundar innanríkisráðherra við forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu í ljósi þátttöku hans í mótmælaaðgerðum við bandaríska sendiráðið.

Lesa meira

Sunnudagur 18. 11. 12 - 18.11.2012 22:00

Ánægjulegt er að þáttaröðin  Downton Abbey skuli hafa verið tekin til sýningar að nýju hjá ríkisútvarpinu. Þættirnir eru á dagskrá alls staðar í nágrannalöndunum. Það þykir BBC ekki til framdráttar að einkastöðin ITV sýni þættina í Bretlandi (fyrst í september 2010) en í Bandaríkjunum sýnir PBS sjónvarpsstöðin þá (fyrst í janúar 2011). Þriðja þáttaröðin hófst í ITV  16. september í ár. Sýningar á henni hefjast í PBS í Bandaríkjunum 6. janúar 2013.

Fréttir bárust um að Michelle Obama, forsetafrú í Bandaríkjunum, væri svo einlægur aðdáandi þáttanna að hún gæti ekki beðið eftir þeim þar til í janúar og hefði því fengið þá frá ITV á mynddiskum. Varð orðið við ósk hennar með því skilyrði að hún upplýsti engan um lyktir þáttanna. Þegar David Cameron, forsætisráðherra Breta, sat kvöldverðarboð í Hvíta húsinu í mars á þessu ári staðfesti Barack Obama ánægju sína með Downton Abbey með því að bjóða leikurunum Hugh Bonneville og Elizabeth McGovern – jarlinum og konu hans – til veislunnar.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur í dag boðað að Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra,  sé líklegur formannsframbjóðandi í Samfylkingunni. Þegar fréttastofan tekur stjórnmálamann í Samfylkingunni upp á arma sína á þennan hátt býr mikið að baki. Augljóst er að í Efstaleitinu líst mönnum ekki á Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem formannsefni gegn Árna Páli Árnasyni.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur ekki leitað álits áfallafræðings á 38% fylgi Össurar Skarphéðinssonar í flokksvali Samylkingarinnar í Reykjavík. Áfalla- og skrímslafræðingur fréttastofunnar, Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, úrskurðaði að réttmætt hefði verið hjá fréttastofunni að úrskurða sem áfall fyrir Bjarna Benediktsson að fá 54% atkvæða í prófkjöri sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi.

Laugardagur 17. 11. 12 - 17.11.2012 22:41

Í dag skrifaði ég pistil um nauðasamninga við kröfuhafa á hendur þrotabúum Kaupþings og Glitnis og má lesa hann hér. Þá setti ég einnig inn á síðuna fimm greinar sem ég skrifaði á Evrópuvaktina um ríkisfjármál og ESB.

Samfylkingin valdi frambjóðendur í þremur kjördæmum í dag: Suðurkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.

Í Suðurkjördæmi fór Oddný Harðardóttir upp fyrir Björgvin G. Sigurðsson – það er sitjandi þingmenn skiptu um sæti. Róbert Marshall sem var í þriðja sæti síðast fór í Bjarta framtíð og því kom nýr í hans stað: Arna Ír Gunnarsdóttir. Björgvin G. fjarlægist forystuhlutverk í Samfylkingunni.

Í Reykjavík röðuðu sitjandi þingmenn sér í fimm efstu sætin: Össur Skarphéðinsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir og Skúli Helgason. Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi komst ofar á listann en Mörður Árnason og Anna Margreit Guðjónsdóttir, eldheitur ESB-aðildarsinni, hlaut 8. sæti.

Ríkisútvarpið segir að litlu hafi munað á fylgi Össurar og Sigríðar Ingibjargar. Össur hlaut 972 atkvæði - 6.669 voru á kjörskrá en  2514 kusu, 38%. Össur hlaut því 39% atkvæða þeirra sem kusu. Telst það ekki mikið fylgi á mælikvarða Össurar og ekki neinn óskabyr vilji hann stefna að formennsku í Samfylkingunni. Líklegra er að úrslitin verði til þess að ýta undir stuðning við Sigríði Ingibjörgu sem formannsframbjóðanda, hún hlaut 1322 atkvæði í 1.-2. sæti.

Teitur Atlason fór mikinn á netinu sem frambjóðandi. Hann kemst hins vegar ekki á blað þegar úrslitin eru kynnt og hefur greinilega goldið afhroð miðað við eigin væntingar. Framboð hans er næsta dapurleg uppákoma miðað við yfirlæti hans í garð annarra. Sömu sögu er að segja um fylgisleysi Marðar Árnasonar. Verður forvitnilegt að fylgjast með því á hverju hann skeytir skapi sínu eftir að hafa fallið sæti neðar en aðrir sitjandi þingmenn Samfylkingarinnar.

Heildarmyndin af Samfylkingunni hefur skýrst eftir að listar hafa verið valdir í þessum fjórum kjördæmum i dag: engin marktæk endurnýjun og léleg niðurstaða fyrir sjálfskipaðan leiðtoga flokksins í stjórnarmyndunarviðræðum, Össur. Líkur eru á formannskosningu milli Árna Páls Árnasonar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur.

Í fimmta kjördæminu, NA-kjördæmi, var flokksval hjá Samfylkingunni fyrir viku. Þar féll Sigmundur Ernir Rúnarsson langt niður eftir listanum en Erna Indriðadóttir náið kjöri í hans stað í 2. sæti á eftir Kristjáni L. Möller þingmanni.

 

Föstudagur 16. 11. 12 - 16.11.2012 23:55

Vilji menn kynnast því hvernig kínversk stjórnvöld leita alls staðar fyrir sér þar sem tómarúm skapast ættu þeir að lesa þessa frétt á Evrópuvaktinni.

Það var meiri snjór í Fljótshlíðinni en ég vænti. Ég komst heimreiðina hjálparlaust en hefði þurft aðstoð í blautum snjó. Það var lausamjöll sem gaf strax undan.

Fimmtudagur 15. 11. 12 - 15.11.2012 21:10

Ræddi klukkan 17.00 við Pál Vilhjálmsson á Útvarpi Sögu um fullveldismál og snerust umræðurnar um stöðuna innan ESB og í aðildarviðræðunum. Auk þess var einnig minnst á stjórnmálastöðuna.

Við erum sammála um að VG hafi farið verst vegna ESB-málsins á kjörtímabilinu og raunar alveg ótrúlega illa þegar litið sé á málstaðinn. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að yfir-markmið VG hafi verið að halda Sjálfstæðisflokknum frá ríkisstjórn og tryggja Steingrími J. völd, þessi tilgangur hefur helgað meðalið sem er að brjóta allar brýr að baki sér í ESB-málum.

Líklega hafa VG-menn trúað boðskap sérfræðinga Samfylkingarinnar um að ESB-aðildarmálinu yrði lokið á kjörtímabilinu og þess vegna þyrftu þeir ekki að standa í þeim sporum núna að ræða um ESB-mál hálfköruð við kjósendur.

Miðvikudagur 14. 11. 12 - 14.11.2012 22:10

Bloggarar eru ólíkir en sækjast sér um líkir.  Hilmar Jónsson (gæti verið dulnefni) bloggari er með okkur Davíð Oddsson á heilanum. Ýmislegt verra getur að vísu komið fyrir menn og eitt af því er til dæmis að trúa Sandkorni sem Reynir Traustason, ritstjóri DV, ritar á vefsíðuna  dv.is og kannski í blaðið sjálft sem ég sé aldrei. Reynir var einn af handlöngurum Baugsmanna á sínum tíma og hefur lagt fæð á okkur Davíð síðan. Hann birti til dæmis brot úr fundargerðum stjórnar Baugs í Fréttablaðinu í byrjun mars 2003 og vildi ekki segja hvar hann hefði fengið þau, þá mátti ekki heldur skýra frá eignarhaldi Baugsmanna á blaðinu af því að það féll ekki að samspili þeirra með Samfylkingunni til að koma Davíð frá völdum.

Hér í dagbókinni var sagt frá því sunnudaginn 11. nóvember að fréttastofa ríkisútvarpsins hefði kallað í Gunnar Helga Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor í HÍ, til að sanna kenningu fréttamanns um að úrslit prófkjörs í SV-kjördæmi hefðu verið „áfall“ fyrir Bjarna Benediktsson. Bjarni hafði hafnað kenningunni þegar fréttamaðurinn kynnti hana en Gunnar Helgi tók undir með fréttamanninum og bætti við að Bjarni stæði frammi fyrir „erfiðu verkefni“ og síðan orðrétt: „Flokkurinn er með ákveðinn aftursætisbílstjóra uppi á Morgunblaði sem ennþá setur mjög mark sitt á flokkinn og gerir hverjum þeim sem ætlar að leiða flokkinn mjög erfitt fyrir.“

Af þessu tilefni sagði ég: „…kallaði fréttastofan í áfalla- og skrímslafræðing sinn, Gunnar Helga. Hann taldi Bjarna hafa orðið fyrir áfalli og minnti á skrímslið í Hádegismóum sem gerði formanni Sjálfstæðisflokksins lífið leitt.“ Reynir komst að því af alkunnu hyggjuviti sínu að með þessum orðum réðist ég illa að Davíð Oddssyni og kallaði hann „skrímsli“ og Hilmar (líklega dulnefni, ólíklegt að nokkur skrifi það sem birtist á síðu hans undir réttu nafni) apar þetta upp eftir snillingnum Reyni.

Hinn 19. ágúst 2009 birtist hér á síðunni  tilvitnun í Gunnar Helga Kristinsson prófessor þar sem hann talaði um „skrímsladeildina“ innan Sjálfstæðisflokksins. Hann telur greinilega Davíð Oddsson í henni auk mín og vafalaust nokkurra fleiri. Ég geri ekki kröfu til þess að Reynir og Hilmar, sé hann til, viti forsögu þess að ég kallaði Gunnar Helga „skrímslafræðing“. Hitt er í samræmi við annan ritsóðaskap þeirra að þeir skuli velta sér upp úr því sem þeir sjálfir skapa vegna þessa.

 

  

 

Þriðjudagur 13. 11. 12 - 13.11.2012 20:30

Íslensk málnefnd efndi til þings í dag í Þjóðmenningarhúsinu um íslensku í tölvuheiminum. Augljóst er að gera verður átak til að treysta stöðu tungunnar á stafrænni öld. Á þinginu voru hins vegar kynnt tvö ný verkefni sem eru til þessa fallin: Nýr íslenskur talgervill sem Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins, kynnti en félagið hefur staðið að gerð hans fyrir 85 m. kr. með samningi við pólska félagið Ivona. Þá kynntu Jón Guðnason, lektor við HR, og Trausti Kristjánsson, frumkvöðull og aðjunkt í HR, talgreini fyrir íslensku en þeir hafa unnið að gerð hans í samvinnu við Google.

Íslensk málnefnd heiðraði ofangreinda menn fyrir framlag þeirra í þágu máltækni og var fróðlegt að kynnast þeim í lýsingu þeirra. Bæði snúast um að tengja tölvur eða snjallsíma og talað mál. Verkefni Blindrafélagsins snýst um að breyta rituðu máli í talað mál. Talgreini verkefnið snýst um að unnt sé að tala við snjallsíma eða tölvu. Á þinginu talaði Trausti við Google í símanum og sagði: Þjóðmenningarhúsið, Google leitaði og kom með rétta niðurstöðu.

Á þinginu var kynnt ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2012. Þar er sagt frá Evrópuverkefninu META-NET frá árinu 2011 sem Eiríkur Rögnvaldsson kom að fyrir Íslands hönd en það var viðamikil könnun á 30 tungumálum og niðurstaðan sýnir að 21 þeirra eiga „stafrænan dauða“ á hættu. „Íslenska er eitt þessara tungumála – stendur raunar næstverst að af vígi af málunum 30,“ segir í ályktuninni en þar er jafnframt bent á að síðan hafi staða íslenskunnar „skánað aðeins“ vegna talgervils Blindrafélagsins og talgreiningarinnar í samvinnu við Google.

Mér kom á óvart að Apple leggur ekki lengur sömu rækt við íslensku og áður. Á sínum tíma þegar ég kom að þessum málum sem menntamálaráðherra beitti ég þeim rökum gagnvart Microsoft að þar á bæ yrðu menn að íslenska forrit til að halda í við Apple. Nú er Apple-kerfið lokað fyrir talgervli Blindrafélagsins! Þá er ekki síður undarlegt að í nýlegri könnun kom fram að 70 skólastjórar af 170 í skólum landsins sögðu „það ekki vera opinbera stefnu skóla síns að íslenskt notendaviðmót væir á tölvum sem nemendur hefur aðgang að.“

Vissulega er nauðsynlegt að leggja fé af mörkum til að forða íslenskri tungu frá „stafrænum dauða“, hitt er þó ekki síður brýnt að unnið sé að því að styrkja stöðu tungunnar í þessum heimi með úrræðum sem eru ókeypis hafi menn áhuga á að nýta þau.

Í dag opnaði Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og ritstjóri Þjóðmála, prófkjörsskrifstofu sína en hann óskar eftir 5. sæti á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík og er vel að því kominn.

Mánudagur 12. 11. 12 - 12.11.2012 21:40

Mats Persson, forstöðumaður hugveitunnar Open Europe, flutti erindi í Háskóla Íslands á vegum Evrópuvaktarinnar, Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt og Alþjóðamálastofnunar um samrunaþróun og samkeppnihæfni evru-svæðisins. Hann taldi engan áhrifamann innan ESB með hugann við aðildarviðræður við Íslendinga. Mun stærri mál væru á dagskrá og þetta væri alls ekki rétti tíminn fyrir smáríki til að ganga í sambandið.

Sama dag og birt er niðurstaða í skoðanakönnun sem sýnir að 53,7% aðspurðra vilja draga ESB-umsóknina til baka birtist viðtal á vegum fréttastofu ríkisins við Michael Leigh sem var forstöðumaður stækkunarskrifstofu ESB. Hann lætur eins og um „samning“ ESB sé að ræða við umsóknarríki þegar málið snýst um að fara að reglum ESB um aðlögun. Að líta á Leigh sem hlutlægan eða hlutlausan aðila þessa máls er fráleitt. Embættismenn stækkunardeildar ESB eru það ekki. Þeir líta á það sem hlutverk sitt að ná markmiðinu sem ESB setur sér þegar umsóknarríki er samþykkt: að ríkið gangi í klúbbinn á forsendum klúbbsins.

Á ruv.is er vitnað í Michael Leigh á þennan hátt:  „Hann er á því að þegar nánar sé að gáð verði fiskveiðimálin ekki sá þröskuldur sem margir Íslendingar kunna að halda. Ástæðan er sú að Íslendingar deila ekki lögsögu við önnur ríki og deilistofnar eru fáir.“ Þessa rullu hafa menn gjarnan farið með þegar þeir halda að nauðsynlegt sé að milda afstöðu Íslendinga til aðildarviðræðnanna. Vandinn nú er hins vegar sá að engar viðræður hefjast um sjávarútvegsmál milli fulltrúa Íslands og ESB nema makríldeilan verði leyst.  Ekki verður séð að rætt hafi verið við Leigh um það mál í ríkisútvarpinu.

Sunnudagur 11. 11. 12 - 11.11.2012 18:20

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um prófkjör sjálfstæðismanna í suðvesturkjördæmi.

Í gær sagði ég hér á síðunni að Jóhönnuarmurinn í Samfylkingunni hefði tapað í prófkjöri flokksins í suðvesturkjördæmi þar sem Árni Páll Árnason sigraði Katrínu Júlíusdóttur fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Á mbl.is í dag segir:

„Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra segist ekki hafa tekið ákvörðun um það hvort hún muni bjóða sig fram til formanns í Samfylkingunni. Hún hafi hins vegar verið hvött til þess að íhuga það bæði í aðdraganda og eftir prófkjörið í gær þar sem Katrín beið lægri hlut fyrir Árna Páli Árnasyni í slag um 1. sæti í SV-kjördæmi. […]

 „Það hefur verið gert, bæði í aðdraganda prófkjörsins og eftir það. En á þessari stundu finnst mér ekki tímabært að taka þessa ákvörðun. Öll prófkjörin þurfa að klárast og þegar úrslitin liggja fyrir úr þeim, þá er fyrst tímabært að skoða stöðuna,“ segir Katrín.“

Hafi Katrín gefið formennskuframboði áður undir fótinn á þennan hátt hefur það farið fram hjá mér. Hefði hún talað svona skýrt fyrir prófkjörið hefði niðurstaðan kannski orðið önnur. Hvers vegna talaði Katrín ekki svona skýrt fyrir prófkjörið? Ástæðan er vafalaust sú að stuðningsmenn hennar hafa talið líklegt að Árni Páll hefði betur og því ekki viljað gera prófkjörið að augljósri baráttu milli tveggja formannsefna. Nú á að bíða eftir niðurstöðunni annars staðar.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor og ráðgjafi Jóhönnu Sigurðardóttur, var í kvöld kallaður til af fréttastofu ríkisútvarpsins til að leggja mat á hvort úrslit prófkjörs sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi hefðu verið „áfall“ fyrir Bjarna Benediktsson. Þar sem Bjarni tók ekki undir þá skoðun fréttamanns ríkisins í hádegisfréttum að hann hefði orðið fyrir „áfalli“ kallaði fréttastofan í áfalla- og skrímslafræðing sinn, Gunnar Helga. Hann taldi Bjarna hafa orðið fyrir áfalli og minnti á skrímslið í Hádegismóum sem gerði formanni Sjálfstæðisflokksins lífið leitt.  

 

 

Laugardagur 10. 11. 12 - 10.11.2012 23:50

Stóru tíðindin í stjórnmálunum á fyrsta degi prófkjörs og forvals vegna þingkosninganna vorið 2013 eru að Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir kemst í væntanlegan þingflokk sjálfstæðismanna í 4. sæti í suðvesturkjördæmi, Elín Hirst stendur í dyragættinni og hugsanlega Óli Björn Kárason. Það fer eftir sóknarhug í komandi kosningabaráttu hvort sex sjálfstæðismenn verða fulltrúar þessa stóra kjördæmis.

Sigmundur Ernir fær skell hjá Samfylkingunni í norðausturkjördæmi og verður ekki á þingi fyrir hana. Kannski gerist hann pólitískur flóttamaður og eygir bjarta framtíð annars staðar. Erna Indriðadóttir er spútnik hjá Samfylkingunni á Austfjörðum og sest í annað sæti listans.

Árni Páll Árnason hlýtur 1. sæti Samfylkingar í suðvesturkjördæmi. Hann sigrar Katrínu Júlíusdóttur fjármálaráðherra, fulltrúa Jóhönnu-arms Samfylkingarinnar sem vill ekki samstarf nema til vinstri. Ætli þessi armur að halda völdum innan Samfylkingarinnar verður hann að finna öflugan frambjóðanda á móti Árna Páli í væntanlegum formannsslag.

Mikið fjölmenni var á kosningaskrifstofu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í dag þegar hún var opnuð. Er greinilega mikill hugur í sjálfstæðismönnum í Reykjavík að veita henni öflugan stuðning.

Föstudagur 09. 11. 12 - 9.11.2012 21:40

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), skóf ekki utan af hlutunum á blaðamannafundi í morgun þegar hann kynnti nýja skýrslu SA um skattamál á blaðamannafundi. Hann sagði um stefnu ríkisstjórnarinnar:

 „Margar breytingarnar [sem ríkisstjórnin hefur gert] eru þess efnis að þær eru að breyta landafræðinni í huga erlendra fjárfesta. Ísland er ekki lengur hluti af Evrópu þar sem treysta má á orð manna og stöðugleika í starfsskilyrðum, Ísland er orðið nyrsta Afríkuríkið. Um þetta er talað meðal erlendra fjárfesta og þetta er staður sem við viljum ekki vera á.“

Þetta kemur heim og saman við greiningu á þjóðum sem lenda í greipum á ábyrgðarlausum vinstristjórnum á borð við stjórn Jóhönnu og Steingríms J. Orð Vilhjálms stangast á við öll fögru orð ríkisstjórnarinnar um hve allt gangi þjóðinni í hag.

Óhætt er að fullyrða að meira mark sé tekið á Vilhjálmi þegar hann lýsir ástandinu hér en Jóhanni Haukssyni, upplýsingafulltrúa Jóhönnu og Steingríms J. Lesi útlendingar það sem Jóhann hefur fram að færa við upplýsingamiðlun í blöðum eða á netinu sannfærast þeir endanlega um að lýsing Vilhjálms sé rétt. Skrif Jóhanns eru í anda blaðafulltrúa óhæfra ríkisstjórna  og því eitt sjúkdómseinkennanna.

Fimmtudagur 08. 11. 12 - 8.11.2012 22:50

Hér má sjá nýjasta þátt minn á ÍNN viðtal við Ingibjörgu Jónsdóttur, dósent í landafræði við Háskóla Íslands, sem fór með kínverska ísbrjótnum Snædrekanum um Norður-Íshaf til Kína í ágúst og september.

Augljósara dæmi um auglýsingamennsku í krafti opinberra embætta er varla unnt að hugsa sér en blaðamannafundinn í morgun þar sem varaformenn stjórnarflokkanna sátu með Katrínu Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, og kynntu einhverja loftkastala um fjárfestingu á næstu þremur árum (ríkisstjórnin á eftir að lifa í sex mánuði).

Þessi misnotkun á opinberri aðstöðu til að bæta stöðu Katrínar Júlíusdóttur í prófkjörsbaráttu við Árna Pál Árnason er til marks um mikla afturför í stjórnmálastarfi og stangast á við allar heitstrengingar stjórnarflokkanna um bætt siðferði og meiri virðingu fyrir meðferð á opinberu fé.

Ný kynslóð stjórnmálamanna birtist þarna og tíundar verkefni sem eru óumdeild í sjálfu sér en þeir lofuðu upp í ermina á öðrum. Ómerkilegri pólitískan leik er ekki unnt að leika. Að þetta skuli talið gott og gilt er til marks um pólitíska hnignun ef ekki lýðskrum.

Hið sama gerist eftir þingkosningar hér og birtist eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum að menn munu standa frammi fyrir miklu meiri vanda við rekstur þjóðarbúsins en almennt er viðurkennt í stjórnmálaumræðum líðandi stundar. Í Bandaríkjunum ræða menn nú um „fiscal cliff“, hrikalegan fjárlagavanda sem er óviðráðanlegur nema báðir flokkar taki höndum saman. Obama ræður ekki við vandann einn.

Ríkisstjórn að loknum kosningum á Íslandi mun sitja uppi með yfirlýsingar Katrínar Júlíusdóttur og varaformannanna án þess að vera skuldbundin af þeim. Þetta eru í raun innan tóm orð sem taka ekkert mið af raunverulegri stöðu þjóðarbús sem skuldar um 1600 milljarða, 100% af vergri landsframleiðslu og þar sem allar áætlanir um þróun skuldamála hafa farið úr böndum.

Miðvikudagur 07. 11. 12 - 7.11.2012 19:52

Í dag ræði ég við Ingibjörgu Jónsdóttur, dósent í landafræði við Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN um ferð hennar með kínverska ísbrjótnum Snædrekanum norðurleiðina frá Íslandi til Shangai í Kína 20. ágúst til 27. september í ár. Þátturinn er sýndur klukkan 20.00, 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun. Þetta var einstæð ferð og forvitnilegt að heyra sögu hennar.

Þriðjudagur 06. 11. 12 - 6.11.2012 21:00

Þegar ég datt inn í Kastljós kvöldsins hélt ég að gestir Sigmars Guðmundssonar væru að ræða einhver tölvuvandamál en heyrði svo að umræðurnar áttu að snúast um bandarísku forsetakosningarnar. Afdalahátturinn í umræðum í ríkisútvarpinu um bandarísk stjórnmál tekur á sig ýmsar myndir. Það er fagnaðarefni að eiga aðgang að fjölmörgum erlendum stöðvum.

Kosningarnar í Bandaríkjunum eru spennandi. Matið á úrslitum ræðst af skoðun þess sem spáir. Tölur í könnunum sýna svo lítinn mun. Sú staðreynd sýnir að Mitt Romney hefur unnið kosningabaráttuna. Hvort sá sigur dugar til að hann sigri í sjálfum kosningunum er óljóst.

Þegar andstaða er jafnmikil við frambjóðanda og hér á landi þar sem könnun sýndi að 98% vilja Obama áfram sem forseta er borin von að andstæðingur hans njóti sannmælis. Á sínum tíma var til þess tekið að Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri Tímans, málgagns Framsóknarflokksins, eignaði sér og Framsóknarflokknum sigur í bandarískum forsetakosningum. Að þessu sinni hefur Framsóknarflokkurinn lýst yfir stuðningi við Barack Obama.

Helgi Hjörvar, samfylkingarmaður á alþingi, flutti þingræðu í dag um að Sjálfstæðisflokkurinn væri í einhverjum tengslum við flokk repúblíkana. Helgi gerði þetta örugglega til að minna á að hann væri Obama-maður.  Könnunin á fylgi Obama hér á landi sýnir að tal um stuðning sjálfstæðismanna við Romney er út í hött eins og svo margt sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins segja um skoðanir og stefnu hans.

Allt er þetta skrýtilegt, en þó ekki. Íslendingar lifa sig miklu meira á sinn sérkennilega hátt inn í kosningaátök í Bandaríkjunum en í Evrópu. Stjórnmálafræðingar (sálfræðingar ?) ættu að kanna af hverju þetta stafar og hvort þetta bendi ekki frekar til að auka eigi tengsl vestur yfir Atlantshaf en austur.

Mánudagur 05. 11. 12 - 5.11.2012 22:20

Nokkrar umræður urðu um miðlun upplýsinga um gang ESB-viðræðnanna á alþingi í dag eins og sjá má hér. Þetta kom illa við Gísla Baldvinsson, bloggara Samfylkingarinnar, sem sagði á vefsíðu sinni:

„Á í hvert sinn þegar samningaviðræður eru enn á trúnaðarstigi að veikja stöðu okkar í alþjóðasamskiptum með því að aflétta trúnaði?

Hver er eiginlega tilgangurinn? Ætti þá það að vera fordæmisgefandi.

Eru frambjóðendur Framsóknar í NV og NA ekki með réttu ráði?
Leitt að sjá Ragnheiði E. Árnadóttur í þessu gjammliði.

Eru engin mörk á vitleysunni?“

Þetta eru ótrúleg stóryrði þegar um er að ræða sjálfsagða ósk þingmanna um að trúnaði sé aflétt og málfrelsi þeirra njóti sín þegar ráðherra talar á þingi en þeim er bannað að gera athugasemd vegna afstöðu formanns utanríkismálanefndar þingsins. Raunar er eins ólýðræðislegt og frekast má vera að afhenda formanni þingnefndar vald til að hindra þingmenn annarra flokka í að segja skoðun sína. Sætir furðu að þingmenn láti bjóða sér slíka vitleysu. Um trúnaðarskyldu eiga að gilda hlutlægar reglur og meirihluti þingnefndar á að ráða en ekki formaður hennar.

Þegar orð ESB-sinnans Gísla Baldvinssonar eru lesin má spyrja: Hvar hefur maðurinn verið undanfarin misseri? Hvernig heldur hann að ástandið væri innan ESB ef stjórnmálamenn þar fylgdu reglu Árna Þórs Sigurðssonar að ekki megi segja frá stefnu gagnvart ESB-úrlausnarefnum á undirbúningsstigi? „Samningaviðræður“ Íslendinga við ESB um bann við viðskiptum með lifandi dýr er ekki á neinu „trúnaðarstigi“. Þær eru ekki hafnar, spurningin snýst um afstöðu Íslands í viðræðunum og orðalag á henni. Hvers vegna má ekki ræða málið fyrir opnum tjöldum?

Sunnudagur 04. 11. 12 - 4.11.2012 21:40

Eftir hávaðarok undanfarna tvo sólarhringa var logn og heiðskírt í Fljótshlíðinni í dag, einstaklega fallegt veður og gott til að átta sig á kröftum náttúrunnar. Nú hefur verið auglýst að á döfinni sé að leita eftir heitu vatni með borun við Goðaland í nóvember. Sveitarfélagið stendur að þessari leit en einstaklingum er boðið að hafa samband við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem kemur með borinn. Sjálfsagt er að velta fyrir sér hvort taka eigi boðinu.

Fljótshlíðin er umlukin eldfjöllum og er einkennilegt sé hún kalt svæði eins og sumir hafa sagt.

Við hús mitt er flaggstöng, rammlega fest. Ég tók eftir því í rokinu að stöngin lá á jörðinni og taldi víst að hugulsamur nágranni hefði komið á vettvang, losað boltann á naglanum sem heldur stönginni í festingunni og lagt hana niður svo að hún brotnaði ekki í veðurofsanum. Mér til undrunar hafði engin mannshendi átt þar hlut að máli heldur var hristingurinn í rokinu svo mikill að róin losnaði og stöngin féll. Hún er óbrotin.

Laugardagur 03. 11. 12 - 3.11.2012 20:55

Fréttir hafa ekki borist af afgreiðslu utanríkismálanefndar alþingis á afstöðu viðræðunefndar Íslands til 12. kafla í ESB-viðræðunum sem snýst um matvælaöryggi, heilbrigði dýra og plantna. Ætlunin var að koma afstöðunni á framfæri við ESB á meðan Danir fóru með formennsku í ráðherraráði ESB eða fyrir 1. júlí 2012. Lagt var hart að umsagnaraðilum til að það tækist.

Nú eru fjórir mánuðir liðnir og enn er málið til meðferðar í utanríkismálanefnd alþingis. Hið einkennilega er að hinar langvinnu umræður um málið í nefndinni vekja ekki áhuga fjölmiðla. Þær hljóta að stafa af ágreiningi. Á Evrópuvaktinni hef ég vakið máls á að ágreiningurinn snúist um hvort í afstöðu Íslands skuli sett krafa um varanlega undanþágu frá viðskiptum með lifandi dýr.

Um mál af þessum toga á ekki að ræða á bakvið luktar dyr utanríkismálanefndar heldur skal greina opinberlega frá um hvað ágreiningurinn snýst. Hvers vegna hvílir leynd yfir því? Telja menn að það veiki málstað Íslands gagnvart ESB? Það getur ekki verið nema fulltrúar stjórnvalda vilji ganga skemur en meirihluti nefndarinnar. Er hugsanlegt að málum sé þannig háttað?

Föstudagur 02. 11. 12 - 2.11.2012 23:55

Í hádeginu hlustaði ég á Hannes Hólmstein Gissurarson flytja fróðlegan fyrirlestur um þróun mála í Kína undir harðstjórn Maós formanns í Kína með vísan til bókarinnar Mao sagan sem aldrei var sögð eftir Jung Chang og Jon Halliday. Ólafur Teitur Guðnason þýddi bókina sem kom út hjá Forlaginu árið 2007. Hannes ræddi meðal annars gagnrýni Geirs Sigurðssonar og Sverris Jakobssonar á bókina og þótti hún ekki makleg. Konfúsíarstofnunin stóð að fyrirlestri Hannesar og var fundarsalurinn full setinn þrátt fyrir að veðurofsinn væri svo mikill að ekki væri unnt að opna aðaldyr háskólans heldur urðu áheyrendur að fara inn um bakdyr inn í aðalbyggingu skólans

Skyfall heitir nýja James Bond myndin sem fer nú sigurför um heim allan og stendur undir væntingum aðdáanda 007. Skyfall er heiti á húsi eða býli á Skotlandi, Skýfall á íslensku. Þegar leitað er í bæjarnafnaskrá hér á landi finnst ekkert býli með þessu nafni. Heiti Bond-myndarinnar sem nú er kynnt á skiltum alls staðar á byggðu bóli er af norrænu bergi brotið eins og svo mörg örnefni í Skotlandi og raunar á Bretlandseyjum öllum.

Ekki fer fram hjá neinum að svonefnd Airwaves hátíð fer fram í Reykjavík 31. október til 4. nóvember. Sagt er að áhugasamir verði að kaupa miða á allt sem þar er í boði fyrir 16.000 krónur og stundum sé tónlistin flutt í svo litlum sal að borin von sé að eigendur aðgöngumiða rúmist þar allir. Þetta er frumleg aðferð við öflun fjár og væntanlega til marks um að áhuginn á hátíðinni sé mikill.

Fimmtudagur 01. 11. 12 - 1.11.2012

Sama sagan er hafin í héraðsdómi og flutt var í Baugsmálinu um að ákæruvaldið kunni ekki til verka þegar það ákærir fjármálamenn. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs í Baugsmálinu,  hefur Sigurð Einarsson sem skjólstæðing í máli á hendur stjórnendum Kaupþings. Gestur kann til verka þegar að því kemur að beina árásum á ákæruvaldið og vekja grunsemdir um vinnubrögð þess. Í Baugsmálinu var vinkillinn pólitískur og talið að stjórnmálamenn stæðu að baki ákærunni á hendur Jóni Ásgeiri og félögum. Nú eru einhver önnur annarleg sjónarmið sögð ráða ferðinni.

Hinn mikli munur er þó á þessum málaferlum og Baugsmálinu að hinir ákærðu eiga ekki fjölmiðla til að búa í haginn fyrir sig gagnvart almenningi eins og Fréttablaðið gerði þegar ákærur á hendur Jóni Ásgeiri og Jóhannesi, föður hans, voru birtar. Þá var gefinn út sérstakur kálfur með blaðinu þar sem lögmenn þeirra gerðu athugasemdir við einstaka ákæruliði og feðgarnir gerðu grein fyrir málinu frá sínum sjónarhóli. Útgáfa kálfsins var geymd þar til birst hafði grein um ákæruna hafi birst í The Guardian í London en þar var leitast við að gera lítið úr henni.

Ekkert af þessu tagi gerist núna og álitsgjafar sem drógu taum Baugsmanna eru nú alfarið andvígir hinum ákærðu. Sumir þeirra láta að vísu eins og einhverju öðru hafi gegnt um Baugsmálið en til dæmis Kaupþingsmálið núna þótt þeir skýri ekki hvað þetta „annað“ er, líklega var það frekar í huga þeirra sjálfra en réttarsalnum.