15.11.2012 21:10

Fimmtudagur 15. 11. 12

Ræddi klukkan 17.00 við Pál Vilhjálmsson á Útvarpi Sögu um fullveldismál og snerust umræðurnar um stöðuna innan ESB og í aðildarviðræðunum. Auk þess var einnig minnst á stjórnmálastöðuna.

Við erum sammála um að VG hafi farið verst vegna ESB-málsins á kjörtímabilinu og raunar alveg ótrúlega illa þegar litið sé á málstaðinn. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að yfir-markmið VG hafi verið að halda Sjálfstæðisflokknum frá ríkisstjórn og tryggja Steingrími J. völd, þessi tilgangur hefur helgað meðalið sem er að brjóta allar brýr að baki sér í ESB-málum.

Líklega hafa VG-menn trúað boðskap sérfræðinga Samfylkingarinnar um að ESB-aðildarmálinu yrði lokið á kjörtímabilinu og þess vegna þyrftu þeir ekki að standa í þeim sporum núna að ræða um ESB-mál hálfköruð við kjósendur.