Dagbók: maí 2010

Mánudagur, 31. 05. 10. - 31.5.2010

Síðdegis vorum við í Norræna húsinu, þar sem ég tók þátt í að afhenda verðlaun fyrir bestu lausnir í verkefnum undir merkjum samtakanna Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni (LBVRN), sem starfa undir forystu Fríðu Völu Ásbjörnsdóttur og fyrir dugnað hennar.

Viðurkenningu fyrir bestu lausnir hlutu grunnskólinn í Þorlákshöfn fyrir hjólastíg í Selvog, grunnskóli Reyðarfjarðar fyrir Reyðafjarðarhátíð tengda hernámsdeginu og grunnskóli Öndunarfjarðar fyrir hugmynd um fjölskyldugarð.

Ég átta mig ekki á því, hvernig prófessor í stjórnmálafræði getur komist að þeirri niðurstöðu, að leggja beri útkomu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í kosningunum á mánudag að jöfnu.

Styrmir Gunnarsson ræðir um úrslit sveitarstjórnakosninganna í ljósi ESB-umsóknarinnar í leiðara á Evrópuvaktinni í dag. Hann skoðar meðal annars fylgisþróun í Reykjavík hjá Sjálfstæðisflokki, vinstri-grænum og Samfylkingu í þingkosningum 25. apríl, 2009, og sveitarstjórnarkosningunum, 31. maí.

Samtals minnkar atkvæðafjöldi vinstri-grænna og Samfylkingar í Reykjavík um 24.000 atkvæði milli þessara kosninga, þar af Samfylkingar um 12.000 atkvæði (23.235 í 11.334) og vinstri grænna um 12.283 atkvæði (16.538 í 4.255). Á sama tima eykst fylgi Sjálfstæðisflokks um 4.289 atkvæði (15.717 í 20006). Hvaða fræðimaður, sem er annt um heiður sinn, getur sagt, að þessar tölur séu þess eðlis, að leggja beri útkomu Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að jöfnu?



Sunnudagur, 30. 05. 10. - 30.5.2010

Ég ritaði pistil um úrslit kosninganna.

Laugardagur, 29. 05. 10. - 29.5.2010

Kosningarúrslitin eru áfall fyrir ríkisstjórnina. Fólk kýs um stöðuna eins og hún er og framtíðina.  Vinstri-grænir splundruðust vegna deilna um orkumál á lokastigum kosningabaráttunnar og guldu þess. Hafi vinstri-grænir haldið, að hatursáróður þeirra í garð sjálfstæðismanna dygði þeim til vinsælda, hljóta þeir að hafa orðið fyrir tvöföldum vonbrigðum.

Að sjálfsögðu verður Sjálfstæðisflokkurinn að meta stöðu sína og þá sérstaklega á þeim stöðum, þar sem hann tapar fylgi.
 
Álitsgjafar ríghalda í þá skoðun, að kosningaúrslitin séu áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þegar fylgi hans á landsvísu styrkist verulega frá þingkosningunum fyrir ári. Spyrlar í sjónvarpi hafa myndað sér þá skoðun fyrirfram, að Sjálfstæðisflokkurinn sitji uppi með tap. Spurningarnar miðast síðan við að knýja fram samþykki við því.







Föstudagur, 28. 05. 10 - 28.5.2010

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, bar af í umræðum fulltrúa flokkanna í sjónvarpsumræðunum í kvöld. Hún er hin eina í hópnum með burði til að gegna embætti borgarastjóra. Hafi hún þurft enn að sanna það eftir  glæsilega forystu sína í borginni undanfarna mánuði, tókst henni það í kvöld.

Jón Gnarr hefði þurft að hafa betri handritshöfund en þann, sem samdi fyrir hann texta kvöldsins. Talið um hvítflibbafangelsi í Arnarholti var ekki fyndið og endurspeglaði þar að auki dæmalausa vanþekkingu á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Sóley Tómasdóttir, fulltrúi vinstri-grænna, fór með rolluna um illsku Sjálfstæðisflokksins vegna bankahrunsins. Engu er líkara en vinstri-grænir telji tímann standa í stað og enginn átti sig á því, að þeir bera ábyrgð á hruninu, sem við blasir eftir hrun með Icesave-fánann við hún.

Í dag hitti ég mann á förnum vegi. Átti ég við hann erindi, án þess að við hefðum hist áður eða þekktumst. Talið barst að kosningunum. Hann sagðist ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn að nýju á morgun. Hann hefði tekið hliðarspor og kosið framsókn í þingkosningunum, af því að Sigmundur Davíð lofaði 20% lækkun lána. Hann taldi, að sér mundi takast að fá sína nánustu ofan af því að kjósa Jón Gnarr. Ég er viss um, að sjónvarpsumræðurnar í kvöld auðvelda honum ætlunarverkið.

Fimmtudagur, 27. 05. 10. - 27.5.2010

Var í hádegi í Öskju, húsi Háskóla Íslands, þar sem efnt var til fundar á vegum viðskiptafræðideildar skólans og RSE um efnið: Ísland - næstu skref. Getur Ísland rekið bankakerfi? Er til króna án hafta? Hvernig náum við efnahagslegu jafnvægi?

Framsögumenn voru prófessor Charles Wyplosz , ráðgjafi ríkisstjórna m.a. Frakklands, Rússlands og Kýpur og í stýrihópi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í peninga- og efnahagsmálum, dr. Daniel Gros, framkvæmdastjóri Center for European Policy Studies og er stjórnarmaður í Seðlabanka Íslands og dr. Sigríður Benediktsdóttir kennari við hagfræðideild Yale Háskóla, átti sæti í rannsóknarnefnd Alþingis. Ragnar Árnarson prófessor setti fundinn en Ársæll Valfells stýrði honum.

Ísland getur rekið bankakerfi en ekki eins og það var fyrir hrun. Best væri að erlendur banki starfaði í landinu. Það er til króna án hafta en hún mun aldrei mega sín mikils og frekar þvælast fyrir en hitt. Við náum efnahagslegu jafnvægi með því að beita heilbrigðri skynsemi við hagstjórn.

Klukkan 17. 00 vorum við í Hönnunarsafninu í Garðabæ, sem var opnað í nýju og stærra húsnæði. Ég kom að því á sínum tíma að semja við Garðabæ um, að sveitarfélagið kæmi að rekstri safnsins. Hefur það vaxið stig af stigi og á aðeins bjarta framtíð fyrir sér.

Klukkan 18.30 vorum við í húsakynnum FÍH, þar sem Rut var gerð heiðurfélaga í Félagi íslenskra tónlistarmanna (FÍT), tuttugasti heiðursfélaginn í sögu félagsins.

Miðvikudagur, 26. 05. 10. - 26.5.2010

Kannanir benda til þess, að Besti flokkurinn verði sigurvegari borgarstjórnarkosninganna hér í Reykjavík.

Í alfræðiritinu Wikipedíu stendur:

Þórðargleði er er sú „gleði“ að hlakka yfir óförum annarra. Uppruni orðsins mun vera úr Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar  sem Þórbergur Þórðarson skráði. Séra Árni bjó til þetta orð út frá því að Þórður vinnumaður hans gladdist alltaf þegar rigndi í þurra töðuna á túninu hjá Þórði á Rauðkollstöðum, sem var nágranni þeirra.

Karen Blixen lýsir þórðargleði í bók sinni Jörð í Afríku  en kallar meinfýsi sem er samheiti, þ.e. fögnuður yfir óförum annarra:

 
„Í eðli allra svertingja er rótgróin, óbugandi tilhneiging til meinfýsi, ómenguð gleði yfir því að sjá eitthvað misheppnast, tilhneiging, sem hlýtur að koma ónotalega við Evrópumenn. -- Þennan eiginleika þroskaði Kamante [þ.e. kokkur Karenar og þjónn] hjá sér, svo að hann náði óvanalegri fullkomnun, hann þroskaði meira að segja hjá sér sérstaka tegund sjálfshæðni, svo að hann gat haft skemmtun af sínum eigin óhöppum og vonbrigðum rétt eins og í hlut ætti óviðkomandi fólk.““

Mér dettur þetta orð, þórðargleði, í hug, þegar ég heyri menn gleðjast yfir því, að Besti flokkurinn verði stærsti flokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur að loknum kosningunum næsta laugardag.

Reykvíkingar geta með atkvæði sínu komið í veg fyrir, að aðrir hafi ástæðu til að gleðjast yfir óförum þeirra í kosningunum. Þeir geta ekki skellt skuldinni á aðra, kjósi þeir Besta flokkinn yfir sig - og eru ekki sjálfskaparvítin verst?

Þriðjudagur, 25. 05. 10. - 25.5.2010


Hér má sjá þátt minn á ÍNN, þegar ég ræddi við Sigurð Kára Kristjánsson, alþingismann, um stöðu mála á alþingi.

Hér hefur verið Cristian Dan Preda, þingmaður af ESB-þinginu, Rúmeni, sem mun flytja þinginu skýrslu vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB. Hann hefur hitt fulltrúa stjórnvalda, þingmanna og ýmsa aðra. Átti ég kost á að ræða við hann í dag og lýsa skoðun minni á stöðu mála.

Ég fór ekki leynt með álit mitt. Nefndi ég þrjú meginatriði:

1. Umsóknin er til orðin vegna þrýstings frá Samfylkingu, ekki vegna hagsmuna þjóðarinnar. Ríkisstjórnin stendur ekki öll á bak við hana. Tilgangur umsóknarinnar er ekki síst sá að koma illu af stað á heimavelli og helst að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn. Engin pólitísk forysta er fyrir umsókninni, meira að segja utanríkisráðherra segist aðeins vera tæki alþingis í málinu.

2. Ég er hlynntur Evrópusambandinu en ekki aðild Íslands að því. Hagsmunum okkar best borgið með þeirri skipan sem nú er á samskiptum okkar og ESB. Grundvallarviðhorf og hagsmunir Íslands falla ekki saman. Atlantshafsþjóð á ekki jafnríka samleið með ríkjum innan ESB og evrópsk meginlandsþjóð.

3. Ríkisstjórnin og utanríkisráðuneytið hafa haldið þannig á aðildarmálinu með launung og ógagnsæi, að dregið hefur úr trausti á þeim, sem með stjórn málsins fara.

Lagði ég til við Cristian Dan Preda, að hann hvetti til þess, að umsókn Íslands yrði lögð í frysti og tekin þaðan eftir 10 til 20 ár, til að kanna, hvernig henni liði þá. Þar með yrði farið að fordæmi Svisslendinga. Að halda málinu áfram núna skaðaði aðeins samskipti Íslands og ESB og kynni að spilla þeim til langframa.

Mánudagur, 24. 05. 10 - 24.5.2010

Veðrið var einstaklega fallegt í Fljósthlíðinni í dag og hiti mikill. Ekki spillti fyrir, að engin merki voru um gos í Eyjafjallajökli. Þótt askan, sem borist hefur til okkar í Fljótshlíðinni, sé hvimleið og mér hafi verið sagt, að ég hefði átt að vera með rykAska á hlaðinugrímu, þegar ég var að slá og raka, veldur hún ekki neinu varanleAska á hlaðinugu tjóni.

Myndin er tekin á hlaðinu hjá okkur og má sjá ösku við húsvegginn. Hún er svört efst en undir því lagi er hún grá og mun fíngerðari.

Sunnudagur, 23. 05. 2010. - 23.5.2010

Undarlegt er að sjá Eyjafjallajökul gnæfa kolsvartan hér fyrir austan okkur í Fljótshlíðinni. Snemma í morgun mátti greina  bólstra upp af jöklinum en í Svartur jökullhádegisfréttum útvarps var sagt, að allt benti til þess, að gosinu væri lokið. Var það síðan staðfest í kvöldfréttum, þó með þeim fyrirvara, að það kynni að hefjast að nýju. Gufustrók lagði upp úr eldskálinni efst í jöklinum en þar var hitinn sagður um og undir 100 stigum.

Veðrið er mjög gott. Hélt ég áfram að slá og hirða. Nokkuð öskuryk kemur úr grasrótinni, þegar hróflað er við henni. Ég eltist við hest hér úti á túninu. Þegar hann hljóp við fót þyrlaðist grá aska upp úr hóffarinu.

Laugardagur, 22. 05. 10. - 22.5.2010

Héldum í Fljótshlíðina og jókst öskuryk eftir því sem við nálguðumst Eyjafjallajökul. Hjá okkur er aska greinileg á stéttum og hún lagðist á bílinn síðdegis. Ég sló. Er talsverð aska í grassverðinum.

Við ókum inn eftir hlíðinni og varð askan meiri eftir því sem austar dró. Fyrir austan fremst bæinn, Fljótsdal, hafði askan breytt veginum, þar sem áður var gróf braut var nú þétt svört, greiðfær leið. Dökkgrá eða svört slikja var yfir öllu og tré Öskugróðurvoru draugaleg.

Helst datt manni í hug, að þeir, sem vildu safna raunverulegum bútum til að nota í kvikmynd um heimsenda, gætu náð sér í gott efni þarna.

Föstudagur, 21. 05. 10. - 21.5.2010

Nú sýnir könnun Stöðvar 2, að Besti flokkurinn fái hreinan meirihluta í bogarstjórn Reykjavíkur, 44% og átta menn. Yrðu úrslitin þessi, væri um einstök og söguleg tímamót í íslenskum stjórnmálum og við stjórn Reykjavíkurborgar að ræða. Nú hlýtur sú krafa að verða gerð til frambjóðenda Besta flokksins síðustu daga fyrir kjördag, að þeir leggi spilin á borðið, svo að fyrir liggi, hvernig þeir hyggist taka á stjórn borgarmálefna.

Ég ritaði í dag pistil á www.evropuvaktin.is, sem ég setti einnig hér á síðuna. Heimsóknir á Evrópuvaktina aukast jafnt og þétt. Þar er meira sagt frá því, sem er að gerast varðandi evruna og pólitísk hitamál á vettvangi ESB en í nokkrum öðrum íslenskum fjölmiðli.

Fimmtudagur, 20. 05. 10. - 20.5.2010

Frá því var sagt í fréttum í gær, að Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði ákveðið að gefa kost á sér til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi flokksins, sem verður 25. og 26. júní. Ég ræddi við Ólöfu í þætti mínum á ÍNN miðvikudaginn 10. mars sl. Þáttinn má sjá hér.

Eins og í þættinum sést, er Ólöf óhrædd við að setja fram skoðanir sínar og rökræða þær. Einnig vekur athygli, þegar þátturinn er skoðaður, að ekkert hefur gerst af því, sem þá var talið, að ríkisstjórnin hefði á prjónunum til að bregðast við niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 6. mars. Sannar það enn, að undir forystu Jóhönnu og Steingríms J. ríkir algjör kyrrstaða í landstjórninni. Segja má, að eina lífsmarkið sé, þegar vinstri-grænir reyna að bregða fæti fyrir áform um að blása lífi í atvinnustarfsemi og framkvæmdir.

Á Hrafnaþingi Ingva Hrafns Jónssonar á ÍNN í kvöld sat fyrir svörum Eysteinn Helgason, forstjóri Kaupáss, fyrirtækisins, sem á og rekur Nótaúnsbúðirnar, Krónuverslanirnar og fleiri verslanir. Ekki fór á milli mála, að Eysteinn telur illa haldið á stjórn landsins. Hann sagði, að með hækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki væri stefnt að meiri stöðnun og atvinnuleysi. Eysteinn minnti á, að um 15.000 manns væru nú atvinnulausir og undraði sig á því, að svo til ekkert væri um það rætt, að jafn fjölmennur hópur fólks hefði ekki á höndum nein verkefni, sem stuðluðu að verðmætasköpun.


Miðvikudagur, 19. 05. 10. - 19.5.2010

Í kvöld ræði ég við Sigurð Kára Kristjánsson, alþingismann, í þætti mínum á ÍNN. Við ræðum stöðu mála á alþingi og dæmalaus svör Jóhönnu Sigurðardóttur um launamál Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra.

Ég ræði einnig lítillega um nýja bók Styrmis Gunnarssonar Hrunadans og horfið fé en útgáfuhóf vegna hennar var haldið í Eymundsson við Skólavörðustíg klukkan 17.00 í dag.

Í bók sinni bregður Styrmir skýru ljósi á þá kafla í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis um bankahrunið, sem honum finnst mestu skipta. Þar sannast enn, hve áherslur þeirra eru rangar, sem vilja draga úr ábyrgð bankamannanna sjálfra á því, hvernig fór fyrir fyrirtækjum þeirra.

Þegar bókin er lesin nú á tímum mikilla hremminga í fjármálum á evru-svæðinu, sést, að hinn mikli munur er á stöðu okkar Íslendinga haustið 2008 og stöðu evru-ríkjanna nú, að þá stóð ríkissjóður okkar vel og vandinn stafaði ekki af slakri stöðu ríkisfjármálanna eins og er í evru-löndunum.

Þriðjudagur, 18. 05. 10. - 18.5.2010

Icelandair-vélin, sem átti að fara frá Kaupmannahöfn síðdegis í gær, hóf sig ekki á loft frá Kastrup-flugvelli fyrr en rétt um sjö-leytið í morgun. Farþegarnir  komu til innritunar í flugstöðinni milli fjögur og hálf-fimm um morguninn. Innritun hófst með einum starfsmanni klukkan hálf-fimm en skriður komst ekki á hana fyrr en klukkan fimm. Við lentum á Kfelavíkurflugvelli klukkan rétt um átta í morgun á íslenskum tíma eftir þriggja tíma þægilegt flug.

Mánudagur, 17. 05. 10. - 17.5.2010

Þegar ég kom til Kaupmannahafnar frá Zürich blasti við, að vélin til Íslands færi ekki í dag vegna öskufalls. Ég gekk í að útvega mér hótel og fékk það úti á Amager, skammt frá flugvellinum. Brottför er boðuð klukkan 06.00 í fyrramálið.
Skrapp inn á Kongens Nytorv og gekk einn hring í miðborginni. Það var heldur svalt í skugganum en fólk sat úti sólarmegin, þó loguðu gaskyndlar víða á veitungastöðum til að hlýja þeim, sem úti sátu.


Ég notaði tímann á flugvellinum í Zürich og síðan hér úti á Amager til að skrifa pistil hér á síðuna. Það er alveg dæmalaust, hve langt er gengið í því að brjóta niður allt, sem hafa ber í heiðri í nafni góðra stjórnarhátta af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Það er til marks um ástandið, sem skapast hefur undir pólitískri forystu þeirra Jóhönnu og Steingríms J., að Besti flokkurinn mælist stærstur í skoðanakönnun, sem Stöð 2 birti í kvöld um úrslit borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík eftir tæpar tvær vikur.

Sunnudagur, 16. 05. 10. - 16.5.2010

Nú líður að lokum dvalar minnar í Zürich að þessu sinni. Við ókum í dag tæplega 50 km suður af borginni að Rheinfall, fossinum mikla í Rín. Fjöldi manns skoðaði þar þetta náttúruundur. Fossinn er sagður hinn stærsti á meginlandi Evrópu. Greitt er fyrir að fara inn í kastala við fossinn og þaðan inn á vandaðar göngubrautir svo nálægt honum að með ólíkindum er. Fyrir neðan vatnsfallið eru bátar, sem flytja gesti upp að fossinum auk þess, sem unnt er að klífa höfða í fljótinu handan við kastalann.

Okkur var hugsað til aðstöðunnar við Gullfoss, þegar við fórum þarna um með ung börn, sem nutu fullkomins öryggis eins og fullorðnir. Er í raun með ólíkindum, að ekki skuli hafa verið gengið betur frá aðgengi að Gullfossi eða Geysi, þar sem hundruð þúsunda ferðamanna fara um á hverju ári.

Svisslendingar almennt hafa ekki miklar áhyggjur af evru-krísu landanna við öll landamæra þeirra. Ríkisfjármálin eru í lagi hjá þeim og svissneski frankinn stendur fyrir sínu. Þegar ástandinu í Evrópu á liðandi stundu er líkt við stríðstíma á 20. öld, eru Svisslendingar jafnöruggir og á stríðsárunum. Land þeirra er eins og vin í eyðimörkinni. Þeir blönduðu sér aldrei á beinan hátt í heimsstyrjaldirnar. Á hinn bóginn veittu þeir mörgum skjól, sem til þeirra leituðu.

Svissneska ríkisstjórnin útilokar ekki, að hún rétti nágrönnum sínum fjárhagslega hjálparhönd, þótt hér heyrist raddir, að þegar sé nóg að gert í því efni. Svisslendingar fagna því, að hafa ekki gengið í Evrópusambandið og þar með gengist undir þá skyldu að falla frá eigin gjaldmiðli og taka upp evru.

Laugardagur, 15. 05. 10. - 15.5.2010

Á fyrsta degi hvers þingmanns í sal alþingis er lagt fyrir hann skjal til undirritunar, þar sem hann heitir því að virða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar er mælt fyrir um þrískiptingu valds milli löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds. Er þetta grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar. Í því felst, að hver þessara þriggja aðila hefur stjórnarskrárbundið sjálfstæði á sínu sviði. Í þessu tilliti telst ákæruvaldið til dómsvaldsins og svipar réttarstöðu ríkissaksóknara til þeirra lögkjara, sem hæstaréttardómarar njóta. Sjálfstæði hans ber löggjafaravaldinu að virða og síst af öllu á það að hlutast til um málefni, sem ríkissaksóknari hefur ákveðið að skjóta til úrskurðar dómara.

Björn Valur Gíslason, þingmaður vinstri-grænna, hefur heitið því að virða stjórnarskrána. Hann hefur engu að síður flutt tillögu til þingsályktunar um, að fallið skuli frá ákæru í máli níu manns, sem réðust á alþingi, trufluðu störf þess og ollu líkamstjóni á þingverði og lögreglu. Björn Valur brýtur gegn stjórnarskránni með tillögu sinni.

Alþingismenn ræða nú skýrslu rannsóknarnefndar alþingis á bankahruninu. Fylgst er náið með því, hvernig þeir taka á þeim ábendingum, sem í skýrslunni birtast og lúta að ábyrgð stjórnmálamanna og stjórnvalda. Atli Gíslason, þingmaður vinstri-grænna, veitir nefndinni formennsku. Hann er flokksbróðir Björns Vals, situr með honum í þingflokki og hefur þess vegna tekið þátt í umræðum um tillögu hans, áður en hún var lögð fyrir því. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, hefur lýst stuðningi sínum við tillögu Björns Vals.

Björn Valur Gíslason hefur verið eins og dúkka búktalara, þegar Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna, vill koma einhverju á framfæri, án þess að þora eða sjá sér hag af því að prédika það sjálfur.

Þingmönnum ber að beita sama kvarða, hvenær sem þeir meta, hvort stjórnarskráin sé í heiðri höfð. Hafi Atli Gíslason samþykkt, að Björn Valur flytti tillögu sína, er hann ekki hæfur til formennsku í nefnd alþingis vegna rannsóknarskýrslunnar.

Föstudagur, 14. 05. 10. - 14.5.2010

Það kom mér ekki á óvart, að ákveðið hefði verið að leggja ekki fram frumvarp til laga í vor um fækkun ráðuneyta, eins og Jóhanna Sigurðardóttir hafði boðað.  Þetta þótti þó helsta efnisatriðið í ræðu, sem hún flutti yfir flokksstjórn Samfylkingarinnar á dögunum. Skyggði meira að segja í fyrstu á ummæli hennar um smölun katta og kjaftinn á skötusel.
Það sýnir, hve mildilegum tökum fjölmiðlar taka Jóhönnu, að ekki skuli rifjað upp, hve mikla áherslu hún lagði á þetta óskamál sitt fyrir fáeinum dögum, mál, sem nú er að sjálfsögðu orðið að engu, því að það virðist frekar byggt á skemmdarfýsn en málefnalegum grunni.
Sú skoðun, að stækkun ráðuneyta, uppsögn ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra og að setja ólíka málaflokka í sama pott, bæti og styrki stjórnsýsluna er alröng. Hún er ekki byggð á faglegu mati á því verki, sem stjórnarráðsstarfsmenn hafa skilað. Að nota hrun fjármálakerfisins sem mælikvarða á allt stjórnarráðið eða stofnanir ríkisins er fráleitt.

Fimmtudagur, 13. 05. 10. - 13.5.2010

Erlendir sérfræðingar slitastjórnar Glitnis hafa vafalaust kynnt sér Baugsmálið, fjölmiðla og pólitíska moldviðrið vegna þess og ráðlagt, að Jón Ásgeir Jóhannesson yrði sóttur til saka í London og New York. Hvorki Hreinn Loftsson né aðrir Baugsvinir hafa þar vettvang til að spinna samsærisþráðinn. Jóhannes í Bónus verður ekki heldur í fjölmiðlum til að lýsa yfir því, að 98%  alþýðu manna standi með sér.  Þorvaldur Gylfason, Hallgrímur Helgason og Guðmundur Andri Thorsson skrifa ekki dálka í staðarblöðin. Egill Helgason stjórnar ekki umræðuþætti eða stundar blogg til að hafa áhrif á á almenningsálitið. Lögfræðingar á sömu lögmannsstofu tjá sig ekki opinberlega sem óhlutdrægir álitsgjafar til stuðnings málflutningi starfsfélaga sinna í réttarsalnum. Fyrrverandi prófessorar við lagadeild eins háskóla ráðast ekki á kennara við lagadeild annars háskóla fyrir að telja æskilegt, að ákæruvald leiti álits æðri réttar á lögfræðilegu vafamáli. Jón Ásgeir á ekki vísan aðgang að vinsælustu umræðuþáttum í sjónvarpi, þegar honum kemur best vegna tímasetninga í málaferlum. Öllum er sama, þótt hann klagi Davíð Oddsson og saki hann um samsæri.

Listinn yfir eignir Jóns Ásgeirs verður ekki túlkaður af spunaliðum hans á Íslandi. Á hann verður lagður alþjóðlegur kvarði. Baugur ætlaði jú að leggja undir sig heiminn að sögn vildarvina Jóns Ásgeirs í Baugsmiðli sumarið 2007 en þar var Jón Ásgeir einnig sagður „góðhjartaður milljarðamæringur sem lætur gott af sér leiða.“

Miðvikudagur, 12. 05. 10. - 12.5.2010

Stórfréttir skortir ekki þessa dagana. Þær skyggja hver á aðra. Ósannindi Jóhönnu Sigurðardóttur með stuðningi Steingríms J. Sigfússonar eru til marks um atvik, sem fellur í gleymskunnar dá, sé því ekki fylgt eftir. Ég hef enga samúð með Jóhönnu í þessu máli og furðu sætir, að fjölmiðlamenn skoði ekki þingræður hennar um ráðherra og kröfur hennar um afsögn þeirra vegna mála, sem voru mun veigaminni en framkoma hennar gagnvart alþingi og þjóðinni allri vegna launamála Más, seðlabankastjóra.

Jón Ásgeir Jóhannesson er í felum, eftir að leitað hefur verið til dómstóla í London og New York til að koma lögum yfir hann og kyrrsetja eignir hans. Hið furðulega er, að hann er enn haldinn þeirri þráhyggju, að Davíð Oddsson standi á bakvið málaferli gegn sér. Ætli Hreinn Loftsson riti ekki enn eina hatursgreinina til stuðnings Jóni? Hverja ætli Hreinn telji nú í náhirðinni?

Upptaka Íslendinga á evru hefur verið helsta baráttumál íslenskra ESB-aðildarsinna hin síðari misseri. Aðild að evru-svæðinu er líklega óvinsælasta pólitíska baráttumálið, sem nokkrum heilvita manni dytti í hug að hampa á líðandi stundu. Hvað verður næst talið okkur helst til heilla með ESB-aðild?

Að mest traust skuli borið til Steingríms J. Sigfússonar af íslenskum stjórnmálamönnum, sýnir, hve illa er komið fyrir íslenskum stjórnmálum. Enginn maður hefur svikið jafnmörg kosningaloforð og hann eða gætt hagsmuna þjóðarinnar jafnhraksmánarlega og hann með Icesave-samningunum.

Þriðjudagur, 11. 05. 10. - 11.5.2010

Flugum frá Keflavík til Kaupmannahafnar í morgun með Icelandair. Brottför seinkaði aðeins. þegar beðið var eftir fimm farþegum, sem töfðust við innritun, enda var óvenjulega mikið um að vera við innritun í brottfararsalnum. Að öðrum þræði stafaði töfin örugglega af því, að starfsfólk var ókomið frá Glasgow og Akureyri, þar sem það hafði verðl að sinna skyldum sínum vegna goslokunar í Keflavík. Á leiðinni yfir landið sáum við gosmökkinn í suðri og norður á Húnaflóa og í Skagafjörð. Frá Kaupmannahöfn flugum við til Zürich. Lentum þar klukkan 15.30 að íslenskum tíma.

Las á mbl.is:


„Áætlun ríkisstjórnarinnar um sameiningu ráðuneyta getur sparað allt að 350 milljónir króna að sögn Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra. Hann segir sparnaðinn fyrst og fremst liggja því að leggja niður dýr starfsgildi eins og ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og sambærileg störf. 

Einkum er rætt um að sameina Heilbrigðis- og Félagsmálaráðuneytið í Velferðarráðuneyti og loks Sjávarútvegs- landbúnaðar og iðnaðarráðuneytið í Atvinnuvegaráðuneyti.

Málið hefur verið viðkvæmt innan stjórnarheimilisins, einkum meðal Vinstri grænna sem hugnast ekki sameining, landbúnaðar- sjávarútvegs og iðnaðarráðuneytisins í eitt Atvinnuvegaráðuneyti.“

Þetta sannar mér aðeins, hve vitlaus áform ríkisstjórnarinnar  um breytingar á stjórnarráðinu eru. Auðvitað stangast algjörlega á við markmiðin um að styrkja innviði stjórnsýslunnar að fækka best launaða fólkinu innan hennar og svipta hana menntun og reynslu þess.

Styðjist þessi gjöreyðingarþörf stjórnarflokkanna við niðurstöðu rannsóknarnefndar alþingis á bankahruninu, sannar það aðeins alvarlega brotalöm í  skýrslunni og þekkingarleysi höfunda hennar á því góða starfi, sem unnið er innan stjórnarráðsins.

Þingmenn Samfylkingar og vinstri-grænna hafa árum saman býsnast yfir of miklum áhrifum stjórnarráðsins gagnvart alþingi. Sé tilgangurinn að nota hrunskýrsluna af hálfu stjórnarflokkanna til að rústa stjórnarráðið, er ástæða til rísa til varnar. Mig undrar, að starfsmenn stjórnarráðsins og þess félags, sem gætir hagsmuna starfsmanna ríkisins, skuli ekki rísa til varnar. Með því að vega að ráðuneytisstjórum og skrifstofustjórum kippa ráðherrar löppunum undan allri fagmennsku í störfum ráðuneyta.






Mánudagur, 10. 05. 10. - 10.5.2010

Hallgrímskirkja var þéttsetin og böðuð sólskini í dag, þegar Inga Þorgeirsdóttir, tengdamóðir mín, var borin til grafar. Séra Bernharður Guðmundsson jarðsöng.  Ég ritaði um hana minningarorð í Morgunblaðið.

Sunnudagur, 09. 05. 10. - 9.5.2010

Var við messu í Þingvallakirkju klukkan 14.00, þar sem séra Kristján Valur Ingólfsson, Þingvallaprestur, minntist Sigurðar K. Oddssonar, þjóðgarðsvarðar, sem lést á síðasta ári. Kirkjan var þéttsetin og athöfnin hátíðleg. Veðrið var einstaklega gott. Þegar ekið var yfir Mosfellsheiði mátti sjá mökkinn frá gosinu í Eyjafjallajökli stíga til himins.

Ríkisstjórnin er að berja saman fjárlögum fyrir árið 2011á aukafundi, sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum í dag.  Látið er í veðri vaka, að fjárlagagerðin ráðist af því, hvort frumvarp til laga um fækkun og stækkun ráðuneyta verði lagt fram og hljóti samþykki. Þetta er aðeins enn ein reykbomban, sem sprengd er í kringum ríkisstjórnina. Að sjálfsögðu ræðst afkoma ríkissjóðs ekki af fjölda ráðuneyta heldur hinu, hvort atvinnu- og efnahagslífið blómstrar eða ekki. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til skattafjötra, sem eru öruggasta úrræðið til að kæfa frumkvæði og framtak. Rikisstjórnin er á flótta undan veruleikanum, ef hún heldur að fjárlagavandinn ráðist af fjölda ráðuneyta. Eða eru það kannski bara grunnhyggnir fjölmiðlamenn, sem ýta undir þetta ráðuneytatal?

Stækkun ráðuneyta er alls ekki skynsamlegasta leiðin til að styrkja stjórnsýsluna. Hún batnar ekki við að fella saman undir einn hatt málefni, sem eru óskyld. Samhæfingu innan stjórnarráðsins er unnt að efla og styrkja á mun skynsamlegri hátt en með því að stækka ráðuneyti. Þá er einnig alröng stefna að auka hlut forsætisráðuneytisins með því að koma þar á fót lagaskrifstofu, sem á að verða með nefið ofan í lagasmíð annarra ráðuneyta. Með því er grafið undan metnaði innan fagráðuneyta og sérfræðingar þar gerðir ósjálfstæðari.


Laugardagur, 08. 05. 10. - 8.5.2010

Í dag skrifaði ég pistil um augljós ósannindi Jóhönnu Sigurðardóttur vegna launa Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra.

Föstudagur, 10. 05. 10. - 7.5.2010

Hér má nálgast síðasta þátt minn á ÍNN - viðtal við Hildi Sverrisdóttur, lögfræðing og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Skýrt var frá því, að nefnd Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors í stjórnmálafræði, sem Jóhanna Sigurðardóttir skipaði til að bregðast við stjórnsýsluþætti hrunskýrslunnar, hefði skilað áliti. Ég hef ekki haft tök á að kynna mér skýrsluna, sem er 63 bls. Mér þóttu ummæli Gunnars Helga um meginefni skýrslunnar ekki marka nein tímamót. Sjálfur treysti ég dómgreind samstarfsmanna minna og á ráð þeirra um, hverjir skyldu ráðnir eða skipaðir til starfa í ráðuneytum undir minni stjórn.

Sé það meginkjarni í tillögum nefndarinnar um umbætur í stjórnarráðinu, að embættismannakerfið sé eflt til að starfa, án þess að ráðherra komi að ákvörðunum um álitamál, hljóta að vakna umræður um vald framkvæmdavaldsins á kostnað stjórnmálavaldsins og þar með alþingis. Hin síðustu ár hefur þingmönnum þótt nóg um yfirgang framkvæmdavaldsins.

Þegar ég hlusta á Gunnar Helga tala um aðferðir við ráðningu manna til starfa í stjórnarráðinu, rifjast upp fyrir mér samtöl við þá, sem komu til mín sem menntamálaráðherra og kvörtuðu undan því, hvernig staðið var að vali kennara í Háskóla Íslands, eftir að skipunarvaldið var tekið úr höndum ráðherra.

Sérstaklega er mér minnisstætt, þegar ég heyrði orðið „hlöðukálfur“ í fyrsta sinn. Viðmælandi minn átti við, að innan háskólans veldu þeir kennarar, sem fyrir væru, einhvern, sem þeir vildu gjarnan fá til starfa í deild sinni og gæfu honum forskot með því að gera hann að hlöðukálfi og afla sér þannig reynslu og velvild umfram aðra.

Vissulega kann eitthvað svipað að gerast innan stjórnarráðsins og er líklegra til að gerast, sé dregið úr hinu pólitíska valdi. Augljóst er á umræðum, sem orðið hafa um skipan dómara á undanförnum árum, að dómarar vilja ráða því, hverjir starfa við dómstólana. Nýlegur héraðsdómur vegna skipunar dómara er enn frekari staðfesting á áhuga dómara á að svipta stjórnmálamenn áhrifum á val dómara.

Fimmtudagur, 06. 05. 10. - 6.5.2010

Útgönguspár í Bretlandi sýna, að breskir íhaldsmenn sigra í þingkosningunum þar í dag, þótt þeir fái ekki hreinan meirihluta í þinginu.

Af ummælum frjálslyndra, sem rætt er við í Sky News, má ráða, að þeir séu vonsviknir vegna spánna, sem sýna þá með færri þingmenn en skoðanakannanir sýndu.

Furðulegt var að heyra Jóhönnu Sigurðardóttur tala á þann veg í þingi, að einhver óvissa væri um inntak reglna um, hvernig fólk sé ráðið til starfa í stjórnarráðinu. Hún þyrfti ráð nefndar fólks utan stjórnsýslunnar til að lýsa fyrir sér inntaki reglnanna. Aumara svar forsætisráðherra um innri málefni stjórnarráðsins hef ég ekki heyrt.  Sannar enn, hve óhæf Jóhanna er til að gegna embætti forsætisráðherra.

Ekki tók betra við í þinginu, þegar Jóhanna var spurð um, hver hefði lofað Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, ákveðnum launakjörum, þegar hann kom til starfa. Ef það hefur ekki verið Jóhanna, hefur einhver komið fram fyrir hennar hönd og gefið Má loforðið - ef ekki, er Már staðinn að ósannindum. Segi Jóhanna alþingu ósatt, ber henni að segja af sér.

Engu er líkara en Jóhanna og Már telji sig komast upp með að gera Láru Júlíusdóttutr, hrl., að blóarböggli í launamáli Más. Stóra spurningin er: Samrýmist það skyldum Láru sem lögmanns að hylma yfir með forsætisráðherra og seðlabankastjóra í þessu máli? Lára hefur vissulega heiður að verja - ætlar hún að fórna honum í þessu máli?

Miðvikudagur, 05. 05. 10. - 5.5.2010

Í dag ræði ég við Hildi Sverrisdóttur, lögfræðing og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum. á ÍNN, útsending fyrst kl. 21.30 í kvöld.

Hér er viðtal mitt við Kristínu Þórðardóttur, staðgengil sýslumannsins á Hvolsvelli og frambjóðanda sjálfstæðismanna í Rangárþingi eystra.

Í dag kl. 16.00 í Norræna húsinu var í þriðja sinn úthlutað rannsóknarstyrkjum Bjarna Benediktssonar, það er úr sjóði, sem var stofnaður  30. apríl, 2008, á 100 ára afmæli Bjarna til að styrkja rannsóknir á sviði lögfræði og sagnfræði.

Björg Thorarensen, prófessor, var formaður úthlutunarnefndar á sviði lögfræði og í ár hlaut Kristín Benediktsdóttir, doktorsnemi við lagadeild Háskóla Íslands, eina milljón kr. til rannsóknar á réttarstöðu aldraðra.

Anna Agnarsdóttir, prófessor, er formaður úthlutunarnefndar á sviði sagnfræði og í ár hlutu styrki: dr. Þór Whitehead, prófessor, 500 þús. krónur til rannsókna á Íslandi í síðari heimsstyrjöldinni eftir hernám Breta og Sigríður Matthíasdóttir, hugvísindastofnun Háskóla Íslands hlaut 500 þús. kr. til að rannsaka hugmyndir og viðhorf í stjórnarstefnu viðreisnarstjórnarinnar á sviði velferðar- og menntamála.

Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur við lagastofnuin Háskóla Íslands, sem hlaut rannsóknarstyrk árið 2009, flutti erindi um rannsóknir á kvótakerfinu, doktorsverkefni sitt.

Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur, sem hlaut rannsóknarstyrk árið 2009 flutti erindi um heimastjórn, fullveldi og umheiminn.

Sjóðurinn er í vörslu Rannís og starfsmenn þar sjá um umsýslu hans gagnvart umsækjendum og við úthlutun styrkja.

 

 


Þriðjudagur, 04. 05. 10. - 4.5.2010

Augljóst er af fréttum úr borgarstjórn Reykjavíkur í dag, þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, kynnti ársreikning borgarinnar fyrir árið 2009, að ótrúlegum árangri hefur verið náð í rekstri borgarinnar undir forystu Hönnu Birnu. Borgarsjóður var rekinn hallalaus og veruleg umskipti urðu til hins betra í rekstri samstæðunnar, sem undir reikninginn fellur. Hvorki skattar né gjaldskrár fyrir grunnþjónustu hækkuðu á árinu í Reykjavík.

Rekstur borgarsjóðs var jákvæður um 3,2 milljarði króna árið 2009 (var 2,3 milljarðir árið 2008). Veruleg umskipti til hins betra urðu í rekstri samstæðunnar, borgarsjóðs og fyrirtækja á vegum borgarinna miðað við árið á undan. Rekstrarhalli á samstæðunn 2009 var um 1,7 milljarður króna. Hallinn var  hins vegar 71 milljarður árið 2008. Þarna varð því 70 milljarða króna viðsnúningur, hvorki meira né minna.

Hanna Birna sagði þessa góða niðurstöðu að þakka nýjum vinnubrögðum við fjármálastjórn hjá Reykjavíkurborg. Leiðarljós aðgerðaráætlunar til að ná tökum á fjármálum borgarinnar hefði verið að standa vörð um grunnþjónustu, störf og gjaldskrár. Við það hefði verið staðið en  Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður borgarráðs, leiddi starf aðgerðarhóps um fjárhagsmálefnin.

Hin góða fjármálastjórn hjá Reykjavíkurborg og samstaðan, sem um hana hefur náðst, er í hróplegri andstöðu við stjórn ríkisfjármála undir forystu þeirra Jóhönnu og Steingríms J.  Samanburðurinn sýnir best, hve miklu er kastað á glæ, að hafa svo duglitla leiðtoga á þjóðarskútunni - þeir ráða hvorki við verkefni sín né hafa burði til að laða fram samstarfsvilja af hálfu annarra. Ríkisstjórnina mynduðu þau líka af sameiginlegri heift í garð Sjálfstæðisflokkinn og eitrar heiftin enn allt starf á alþingi. Síðustu vikur hefur hún jafnframt beinst að Ólafi Ragnari Grímssyni, sem kallaði þessi ósköp í mynd ríkisstjórnar yfir þjóðina með því að fara á svig við þingræðisregluna.





Mánudagur, 03. 05. 10. - 3.5.2010

Fór í Karmel-klaustrið í Hafnarfirði, þar sem sr María Edith af Svörtu Madonnu vann lokaheit sitt sem Karmelnunna, þar sem hún, að fordæmi heilagrar Maríu meyjar, til að hún gæti lifað í algjörlegri helgun við Krist, lofaði í hendur móður priorinnunnar, Guði hlýðni, hreinlífi og fátækt til æviloka samkvæmt Karmelreglunni og Starfsreglum nunna Maríu meyjar frá Karmelfjalli. Athöfnin var hátíðleg og fjölmenn. Var ánægjulegt að sjá einlæga gleði sr. Maríu Edith og systra henna í klaustrinu. Roman, yfirmaður pólsku Karmelreglunnar, var við athöfina og prédikaði.

Svarta Madonna er einnig kölluð Drottning Póllands. Safnbæn við hið hátíðlega klausturheit í dag hófst á þessum orðum „Drottinn, sem Póllandi til varnar hefir gefið oss Maríu mey sem dásamlegan hjálpara, veit oss, að fyrir meðalgöngu hennar, megi óskipt heild trúarinnar og föðurlands halda áfram.“

Pílagrímaborgin Częstochowa er heimabær Svörtu Madonnu eða heilagrar Maríu Meyjar í Jasna Góra-klaustrinu í Częstochowa í Póllandi. Ég átti þess kost fyrir mörgum árum að heimsækja Jasna Góra og sjá mannfjöldann, sem lagði þangað leið sína til að sjá Svörtu Madonnu. Helgisagan segir, að Lúkas guðspjallamaður, hafi málað íkonan, svörtu madonnumyndina á borð hinnar heilögu fjölskyldu.


Sunnudagur, 02. 05. 10. - 2.5.2010

Snemma í morgun var Eyjafjallajökull hreinn af öðru en gufu- og öskumekkinum. Gufumökkurinn lagði norður og niður jökulinn. Öskuna lagðiGosmynd að morgni2. maí í suðaustur. Einkennilegt var að sjá sveiflurnar, einkum í gjóskunni, sem lagði stundum hátt til himins en hvarf síðan næstum. Þegar leið á morguninn lagðist skýja hula að jöklinum, eins og verið hefur lengst af, frá því að gosið hófst fyrir tæpum tveimur vikum.


Laugardagur, 01. 05. 10. - 1.5.2010

Ætli nokkur ríkisútvarpsstöð í Evrópu fyrir utan RÚV hafi það sem fastan dagskrárlið eftir hrun kommúnismans að leika „Nallann“ hinn 1. maí. Í hádegi í dag var það meira að segja gert bæði á undan hádegisfréttum og í fréttatímanum sjálfum. Þá fór einstaklega vel á því að ræða stjórnmálaástandið við Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, í sama fréttatíma. Það hefði mátt leika lagið undir boðskap Svans.

Síðdegis ók ég austur í Fljótshlíð og inn fyrir Þórólfsfell en þaðan sást vel til Gígjökuls og gufustrókanna efst í honum, þar sem hraunið úr Eyjafjallajökli bræðir sér leið niður. Hvítir bólstrarnir voru norðan í jöklinum en svartur strókurinn barst Gosmynd 1. maítil suðausturs. Þegar við dvöldumst þarna, hreinsaði jökullinn sig og við sáum bæði hvíta og svarta bólusturinn teygja sig til himins.

Við ókum suður með Markarfljóti og síðan í austur undir Eyjafjöllum að Þorvaldseyri en yfir bænum var svartur mökkurinn. Þar var dálítill hópur fólks, sem tók myndir af bænum og mekkinum.

Dálítil aska hefur greinilega fallið hér hjá okkur í Fljótshlíðinni ég sé það á stéttum við húsin.