3.5.2010

Mánudagur, 03. 05. 10.

Fór í Karmel-klaustrið í Hafnarfirði, þar sem sr María Edith af Svörtu Madonnu vann lokaheit sitt sem Karmelnunna, þar sem hún, að fordæmi heilagrar Maríu meyjar, til að hún gæti lifað í algjörlegri helgun við Krist, lofaði í hendur móður priorinnunnar, Guði hlýðni, hreinlífi og fátækt til æviloka samkvæmt Karmelreglunni og Starfsreglum nunna Maríu meyjar frá Karmelfjalli. Athöfnin var hátíðleg og fjölmenn. Var ánægjulegt að sjá einlæga gleði sr. Maríu Edith og systra henna í klaustrinu. Roman, yfirmaður pólsku Karmelreglunnar, var við athöfina og prédikaði.

Svarta Madonna er einnig kölluð Drottning Póllands. Safnbæn við hið hátíðlega klausturheit í dag hófst á þessum orðum „Drottinn, sem Póllandi til varnar hefir gefið oss Maríu mey sem dásamlegan hjálpara, veit oss, að fyrir meðalgöngu hennar, megi óskipt heild trúarinnar og föðurlands halda áfram.“

Pílagrímaborgin Częstochowa er heimabær Svörtu Madonnu eða heilagrar Maríu Meyjar í Jasna Góra-klaustrinu í Częstochowa í Póllandi. Ég átti þess kost fyrir mörgum árum að heimsækja Jasna Góra og sjá mannfjöldann, sem lagði þangað leið sína til að sjá Svörtu Madonnu. Helgisagan segir, að Lúkas guðspjallamaður, hafi málað íkonan, svörtu madonnumyndina á borð hinnar heilögu fjölskyldu.