Dagbók: febrúar 2008

Föstudagur, 29. 02. 08. - 29.2.2008 15:57

Sat síðustu fundi mína hér í Brussel að þessu sinni fram yfir hádegi. Hélt síðan út á flugvöll og bíð nú eftir vél, sem á að leggja af stað til Kaupmannahafnar klukkan 17.30 og lenda þar klukkan 19.00.

Fundirnir í Brussel hafa skilað því, sem að var stefnt. Enn hefur sannast, að alltof þröngt er að skilgreina þátttöku okkar í Schengen-samstarfinu á þann veg, að það snúist um það eitt, að ekki þurfi að framvísa vegabréfum á innri landamærum Schengen-ríkjanna. Utan Schengen stæðum við einnig utan hins mikla samstarfs ESB-ríkjanna í borgaralegum öryggismálum.

Fimmtudagur, 28. 02. 08. - 28.2.2008 22:30

Klukkan 10.00 hitti ég Petras Baguska, dómsmálaráðherra Litháens, í sendiráði Íslands í Brussel, þar sem við ræddum um flutning Litháa úr íslenskum fangelsum til afplánunar í Litháen. Urðum við sammála um, að þetta gengi eftir á grundvelli samnings Evrópuráðsins um fangaflutninga.

Klukkan 11.00 hófst Schengen-ráðherrafundur og snerist hann einkum um reglur um brottvísanir.

Klukkan 13.00 tók ég þátt í vinnuhádegisverði ráðherranna, þar sem einkum var rætt um vísareglur gagnvart Bandaríkjunum en Tékkar hafa tekið einhliða skref, sem sæta gagnrýni innan Evrópusambandsins.

Síðdegis fór ég í Bozart og kynnti mér listsýningar Íslendinga þar, en mikil lista- og menningarhátið var sett hér sl. þriðjudag af Geir H. Haarde forsætisráðherra. Við litum einnig inn í leiklistarsal, þar sem verið var að undirbúa sýningu á Pétri Gaut í leikstjórn Baltasar Kormáks annað kvöld. Er uppselt á sýninguna, en 900 manns tóku þátt í hátíðinni, þegar hún var formlega sett.

Klukkan 18.30 hitti ég Franco Frattini, dómsmálastjóra Evrópusambandsins, og fórum við yfir sameiginleg málefni, þar á meðal tilmæli mín um, að Ísland tengist Prüm-lögreglusamstarfssamningum. Frattini hefur tvisvar komið til Íslands sem ferðamaður og hreifst af landi og þjóð.

Af spurningum fréttamanna skilst mér, að Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstarréttardómari, hafi veist að mér fyrir veitingu dómaraembætta á málþingi Orators miðvikudaginn 27. febrúar. Ég veit ekki hvað Hrafn hefur fyrir sér. Gagnrýni hans stenst einfaldlega ekki gagnrýni.

Í skriflegu svari mínu við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðarsonar, þingmanns vinstri/grænna, kemur fram, hvernig ég hef staðið að skipunum í embætti héraðsdómara síðan ég varð dómsmálaráðherra í maí 2003.

Að óreyndu hefði ég talið Hrafn Bragason vandaðri í málflutningi sínum. Er áhyggjuefni, hvernig þeir, sem vilja svipta ráðherra valdi til að veita dómaraembætti, kjósa að rökstyðja mál sitt. Rök draga að vísu oft dám af málstaðnum.

Miðvikudagur, 27. 02. 08. - 27.2.2008 21:39

Flaug klukkan 08.00 til Kaupmannahafnar og þaðan til Brussel, þar sem lent var klukkan 17.00 að staðartíma. Það gekk á með éljum á leiðinni til Keflavíkur, rok í Kaupmannahofn en íslenskt vorveður í Brussel - fólk sat úti við kaffihús, hlýlega klætt. 

Fylgi hrynur hratt af hinum nýja forseta Frakklands, Nicolas Sarkozy. Nýjustu vandræði hans eru rakin til þess, að mynd  náðist með hljóði, þegar gestur á landbúnaðarsýningu sagðist ekki vilja skíta sig út á að heilsa forsetanum. Sarkozy brást við með að segja manngreyinu að fara til fjandans. Þetta þótti ekki forsetalegt. Milljónir hafa skoðað atvikið á vefnum.

Erfitt er að átta sig á reiði þeirra, sem telja misráðið, að unnt sé að kalla netverja til ábyrgðar á orðum sínum. Hvers vegna er það talin skerðing á frelsi í netheimum að gera kröfu um að mál sé flutt, án þess að vega að persónu eða æru annarra?

 

Þriðjudagur, 26. 02. 08. - 26.2.2008 22:00

Í dag féll sögulegur dómur í héraðsdómi Reykjavíkur, þegar Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari dæmdi bloggara miskabætur vegna ummæla annars bloggara. Ég hef lengi talið, að höfundar væru ekki síður ábyrgir orða sinna í netheimum en annars staðar. Dómarinn er sama sinnis. Nú ætti einhver að láta reyna á ábyrgð þeirra, sem halda úti vefsíðum, þar sem nafnleysingjar vega að samborgurum sínum með dónaskap og óhróðri.

Ný jafnréttislög voru samþykkt á alþingi í dag. Skyldi það ekki endanlega staðfesta, að hin eldri voru barns síns tíma?

Árni Páll Árnason, varaformaður utanríkismálanefndar alþingis, flutti þau varnaðarorð í hljóðvarpi ríkisins í morgun, að varasamt væri að viðurkenna sjálfstæði Kósóvó, nema hugað yrði að minnihluta Serba. Ef þessi rök hefðu verið notuð til varnar minnihluta Rússa í Eystrasaltsríkjunum, hefði Ísland ekki verið í fremstu röð við viðurkenningu þeirra.

Mánudagur, 25. 02. 08. - 25.2.2008 19:05

Í dag svaraði ég fyrirspurn á alþingi frá Ellert B. Schram, þingmanni Samfylkingar, um pókerspil. Sagðist ég vilja tryggja að íslensk lög kæmu til móts við mikinn og alþjóðlegan áhuga á póker, hefði ég beint óskum þess efnis til nefndar á vegum dómsmálaráðuneytisins undir formennsku Páls Hreinssonar hæstaréttardómara, en hún mun gera tillögur um breytingar á happdrættislöggjöfinni.

Á mbl.is má lesa þetta: „Olíuflutningar um íslenska lögsögu frá norðvesturhluta Rússlands til Vesturlanda hafa ekki aukist undanfarin ár þvert á væntingar. Siglingamálastofnun segir, að varla sé útlit fyrir mikla eða skyndilega aukningu í útskipun á olíu frá Barentshafi nema stefnubreyting verði hjá stjórnvöldum í Rússlandi.

Stofnunin segir, að væntingar um aukna olíuflutninga hafi aðallega byggt á áætlunum rússneska olíufélagsins Yukos og fleiri aðila um að leggja flutningslögn frá olíuríkum svæðum Síberíu vestur og norður á bóginn til Murmansk. Forsvarsmaður Yukos hafi síðan lent í fangelsi og þessar áætlanir urðu að engu.“

Hvað sem líður þessum vangaveltum siglingamálastofnunar kemur fram í fréttinni, að fleiri olíuskip frá Barentshafi hafi farið vestur um haf 2007 (43) en árið 2006 (36).

Nýlega sagði ég frá því hér á síðunni, að þyrla landhelgisgæslunnar hefði sótt norskan hafnsögumann í gasflutningaskipið Arctic Discoverer, sem var á leið vestur um haf frá Mjallhvítarsvæðinu fyrir norðan Noreg. Koma skipsins til Cove Point í Maryland í Bandaríkjunum vakti athygli, því að þetta var í fyrsta sinn, sem gas var flutt þessa leið yfir N-Atlantshaf.

Sunnudagur, 24. 02. 08. - 24.2.2008 21:41

Á ruv.is birtist þetta í dag:

„Niðurstaða Vilhjálms um að hann haldi áfram sem oddiviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna en að óákveðið sé hver verður borgarstjóri á næsta ári hefur engin áhrif á meirihlutasamstarfið í borginni, segir Ólafur F. Magnússon.

Hann segir engu máli skipta hvaða borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks taki við embætti borgarstjóra. Meirihlutasamstarfið byggi á traustum málefnasamningi.“

Hér er vísað til þess, að borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna hittist klukkan 11.00 í morgun með Geir H. Haarde, formanni flokksins, og ræddi stöðuna innan flokksins. Niðurstaðan varð, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson héldi áfram sem oddviti og formaður bogarráðs en skilið var eftir óákveðið, hvaða sjálfstæðismaður tæki við af Ólafi F. sem borgarstjóri.

Í þættinum Mannamáli hjá Sigmundi Erni á Stöð 2 í kvöld minnti Geir H. Haarde á, að við myndun meirihluta sjálfstæðismanna og Ólafs F. í borgarstjórn hefði í yfirlýsingu verið talað um, að Vilhjálmur Þ. tæki við af Ólafi F. Nú væri þetta opið.

Þegar Davíð Oddsson samdi við Halldór Ásgrímsson um, að Halldór tæki við embætti forsætisráðherra af sér, var samkomulagið bundið við Halldór - Geir H. Haarde varð forsætisráðherra en ekki framsóknarmaður, þegar Halldór hætti. Nú verður sjálfstæðismaður borgarstjóri, þegar Ólafur F. hættir, þótt það verði annar en Vilhjálmur Þ.

Á ruv.is mátti einnig lesa, að Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sæktist eftir því að verða borgarstjóri á næsta ári.

Yfirlýsing Hönnu Birnu í þessa veru er eðlileg og vel ráðin í ljósi þess, sem ákveðið var í borgarstjórnarflokknum í morgun.

Laugardagur, 23. 02. 08. - 23.2.2008 23:19

Í dag skrifaði ég vettvang í næsta hefti Þjóðmála, sem Jakob F. Ásgeirsson, ritstjóri, er að búa til prentunar. Ég fer yfir gang OR/REI málsins og dreg höfuðþætti þess saman á einn stað.

Sagan er með ólíkindum og í raun stórundarlegt, að tekist hafi að haga umræðum, eins og um sérstakan vanda sjálfstæðismanna í borgarstjórn sé að ræða - sex borgarfulltrúar sjálfstæðismanna stöðvuðu framgang málsins í byrjun október og réttmæti málstaðar þeirra var síðan staðfest með skýrslu stýrihóps allra flokka 7. febrúar.

Brýnt er fyrir Sjálfstæðisflokkinn að komast úr þessari stöðu í borgarstjórn og sjá til þess, að umræður fari að snúast um annað en innri mál borgarstjórnarflokksins eða Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, oddvita hans. Vilhjálmur Þ. ræður þar greinilega mestu sjálfur og samkvæmt fréttum er hann enn og aftur að ræða framtíð sína við trúnaðarmenn og félaga í borgarstjórnarflokknum um þessa helgi.  

 

Föstudagur, 22. 02. 08. - 22.2.2008 20:43

Vart hafði ég hitt vini mína eftir heimkomu frá Englandi en þeir fóru að ræða um bloggfærslu eftir Össur Skarphéðinsson um Gísla Martein Baldursson.

Össur hafði fjargviðrast yfir því, að ég birti hér á síðunni tilvitnun í Dag B. Eggertsson til stuðnings samstarfi Orkuveitu Reykjavíkur við Geysi Green Energy um að stofna REI.

Eftir að ég birti þessa tilvitnun í Dag sagði Össur:

„Nú sé ég að kollegi minn í ríkisstjórn skrifar um lítið annað á sinni heimasíðu en Dag B. Eggertsson. Það fer samt enginn á taugum í Samfylkingunni við það.“

Þegar ég las skammir Össurar um Gísla Martein, sá ég, að Össur hafði líklega farið á taugum við að lesa tilvitnuna í Dag og síðan leitast við að skrifa sig í svefn með því að ná sér ómaklega niður á Gísla Marteini.

Af 13 ára vefsíðureynslu og um 12 ára reynslu af ríkisstjórnarsetu tek ég heilshugar undir heilræði Geirs H. Haarde, að fyrir ráðherra sé best að vinna og skrifa á daginn en sofa á nóttunni.

Fimmtudagur, 21. 02. 08. - 21.2.2008 18:23

Ókum til Dover frá London og heimsóttum þar Dover Maritime Rescue Co-ordination Centre og fræddumst um leit og björgun auk þess sem því var lýst fyrir okkur, hvernig umferð um Ermarsund er stjórnað. Það sást ekki yfir til Frakklands vegna misturs, en þeir sögðu okkur, að úr vakthúsinu væri unnt með öflugum sjónauka að sjá vísana á franskri kirkjuklukku handan við sundið, ef veður og birta leyfði.

Ferjuumferð um Dover-höfn er mikil og hún hefur ekkert minnkað, þótt göngin séu komin undir Ermarsund, þvert á móti hefur hún aukist um Dover.

Frá Dover ókum við á Heathrow-flugvöll og er þetta skrifað þar í bið eftir flugvélinni til Íslands.

Af hálfu breskra stjórnvalda hefur verið einstaklega vel tekið á móti okkur, sem höfum tekið þátt í þessum fundum undanfarna daga. Ég tel brynt, að treysta og efla samstarf við Breta á sviði löggæslu og við leit og björgun.

Þegar við vorum í stjórnstöðinni í Dover bárust þær fréttir til yfirmanna landhelgisgæslunnar, sem voru með í för, að lítil flugvél hefði farið í hafið suðaustur af Íslandi og kallað hefði verið eftir aðstoð Nimrod-eftlrlitsþotu frá Kinloss í Skotlandi. Nimrod-þotur eru þar til taks með tveggja tíma fyrirvara og eru öflugustu eftilitsvélar í næsta nágrenni Íslands.

Miðvikudagur 20. 02. 08. - 20.2.2008 18:02

Fundir hófust í London klukkan 08.45 hjá Metropolitan Police. Fyrsti viðmælandi var Anthony Steen, þingmaður úr Íhaldsflokknum, sem sagði okkur frá reynslu sinni af því að taka þátt í starfi lögreglunnar samkvæmt sérstökum samningi við breska þingið um að gefa þingmönnum tækifæri til þess. Hann einbeitir sér nú að því að berjast gegn mansali.

Síðan komu foringjar í lögreglunni og gerðu okkur grein fyrir einstökum þáttum í starfi hennar.

Síðdegis fórum við að nýju í breska þingið og hittum þar Jim Fitzpatrick, þingmann og ráðherra, sem fer meðal annars með leit og björgun. Ræddum við nýjar aðstæður á N-Atlantshafi vegna siglinga með gas og olíu frá Barentshafi auk ferða skemmtiferðaskipa í norðurhöfum.

 

Þriðjudagur, 19. 02. 08. - 19.2.2008 19:54

13 ára afmælisdagur síðunnar minnar er í dag.

Daginn hélt ég hátíðlegan með því að sitja fundi með breskum ráðherrum og þingmönnum og ræða við þá um fangelsismál, lögreglumál og Schengen-málefni.

Viscount Craigavon, ritari bresk-íslensku þingmannanefndarinnar, og þingmaður í lávarðadeildinni sýndi okkur þann heiður og vináttu að fara með okkur um þinghúsið og segja sögu þess, áður en við hittum þingnefndarmennina Austin Mitchell, Verkamannaflokknum, formann bresk-íslensku þingmannanefndarinnar, og  Alain Beith, frjáslynda flokknum, og snæddum hádegisverð.

Þá hittum við Mariu Eagle, ráðherra fangelsismála, Keith Vaz, formann þingnefndar um ínnanríkismál, og  Tony McNulty, ráðherra lögreglumála, og lauk fundinum með honum ekki fyrr en klukkan 19.00.

 

Mánudagur, 18. 02. 08. - 18.2.2008 22:41

Var í hádeginu í Northwood, í útjaðri London, þar sem eru höfuðstöðvar flotastjórnar NATO og breska flotans. Með í för voru meðal annars Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, og Ásgrímur Ásgrímsson, yfirmaður vaktstöðvar siglinga.

Pim Bedet, aðmíráll í hollenska flotanum, og varaflotastjóri NATO, hafði orð fyrir gestgjöfum, sem kynntu okkur starfsemina undir merkjum NATO. Eftirlit á vegum NATO með siglingum á heimshöfunum er að stóraukast og kom fram mikill áhugi á samstarfi við landhelgisgæsluna. Ég gerði grein fyrir þeim breytingum, sem eru að verða undan Íslands ströndum vegna tíðari ferða olíu- og gasflutningaskipa og skemmtiferðaskipa.

Breski flotinn hefur tekið forystu við þróun samhæfðs eftirlits- og greiningarkerfis í Bretlandi vegna skipaumferðar og einnig þar er áhugi á tvíhliða samstarfi við landhelgisgæsluna.

Þegar hugað er að öryggiskerfi vegna flugferða annars vegar og skipaferða hins vegar, er um ótrúlega mikinn mun að ræða, þar sem kröfurnar vegna skipa eru mun minni en flugvéla. Alþjóðaflugmálastofnunin hefur verið mjög kröfuhörð á sínu sviði en svo virðist sem Alþjóðasiglingamálastofnunin fylgi málum ekki eftir á jafnmarkvissan hátt.

Sunnudagur, 17. 02. 08. - 17.2.2008 22:06

Almennir kjarasamniingar voru undirritaðir í dag eftir kjaraviðræður, sem báru með sér, að vilji beggja stóð til þess að ná skynsamlegri niðustöðu með tilliti til allra efnahagslegra aðstæðna.

Á föstudag og í dag gengu fulltrúar samningsaðila á fund ríkisstjórnarinnar. Framlag hennar til að stuðla að friði á vinnumarkaði er birt í sérstakri yfirlýsingu og byggist á því að hækka persónuafslátt umfram það sem gert er ráð fyrir í nýlegum lögum, hækka barnabætur, hækka viðmiðunarfjárhæðir vegna vaxtabóta og hækka húsaleigubætur. Tekjuskattur fyrirtækja lækkar úr 18% í 15%. Einnig er um að ræða aðgerðir í húsnæðismálum svo sem niðurfelling stimpilgjalda við kaup á fyrstu íbúð og aðgerðir á sviði starfsmenntamála og  gert er ráð fyrir nýjum áfallatryggingasjóði, eða endurhæfingarsjóði. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru taldar auka útgjöld ríkissjóðs um 20 milljarða króna næstu fjögur ár.

Við, sem kynntumst störfum Vilhjálms Egilssonar á alþingi og hve lipurlega hann hélt á stjórn efnahags- og viðskiptanefndar þingsins undrumst ekki, að honum hafi tekist að leiða þessa samninga farsællega og spennulaust til lykta sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Með þessu er ég siður en svo að gera lítið úr hlut annarra, enda takast samningar ekki nema með vilja allra.

Miðað við framgang þessara viðræðna ætti að hætta að kenna húsakynni Ásmundar Stefánssonar, sáttasemjara ríkisins, við karp.

Gekk í dag upp á Primrose hæð hér í London og horfði yfir borgina í kaldri og bjartri sólarbirtunni. Var fjöldi fólks að viðra sig og hundana sína á þessari góðu útsýnishæð rétt við Regent Park og dýragarðinn.

Ritaði í dag pistil um evruurmræðurnar, brottflutning Pólverja frá Bretalndi og norskan hafnsögumann, sem sóttur var af TF-Líf undan Meðallalandsgbugt.

Laugardagur 16. 02. 08. - 16.2.2008 17:43

Flugum til London í morgun en ég verð hér á fundum með breskum stjórnmálamönnum og embættismönnum fram á fimmtudag. Hér er bjart en frekar kalt og vindasamt.

Sigurður Líndal heldur áfram að rita um skipun dómara í Fréttablaðið í dag og dregur okkur nokkra í dilk, sem hann kennir við „sannleikssniðgöngu“, af því að við erum ekki sammála honum. Er með nokkrum ólíkindum að vera sakaður um að slíta „texta úr samhengi til að hagræða umræðu“ fyrir að draga ályktun af orðum Sigurðar, sem er honum óþægileg. Engar tilraunir Sigurðar til að skrifa sig frá þessum orðum breyta efni þeirra. 

Neikvæðar alhæfingar Sigurðar Líndals um stjórnmálastörf og stjórnmálaumræður einkennast fyrst og síðast af yfirlæti prófessorsins, sem talar niður til alls og allra. Þar skilur á milli hans og okkar hinna, sem hann ætlar að reyna að siða eða gera ómerka með skrifum sínum.

Málum er hins vegar einfaldlega þannig háttað, að við höfum fullan rétt til skoðana okkar og til að láta þær í ljós, hvað sem umvöndunum Sigurðar líður. Hann hefur ekki neinn einkarétt á útleggingum í þessu ágreiningsmáli um aðferð við skipan dómara frekar en í öðrum málum.

 

Föstudagur, 15. 02. 08. - 15.2.2008 22:17

Klukkan 18.00 var ég í Grafarvogskirkju og flutti 8. passíusálm við stutta en hátíðlega athöfn undir forystu séra Vigfúsar Þórs Árnasonar.

Nú dregur að 13 ára afmæli þessarar vefsíðu. Engri síðu einstaklings hefur líklega verið haldið úti samfellt jafnlengi og þessari hér á landi og þótt víðar væri leitað. Ég lít ekki á þetta sem bloggsíðu, enda var bloggið ekki komið til sögunnar, þegar ég hóf þessa iðju mína. Á hinn bóginn tengist síðan mbl.is samkvæmt sérstöku samkomulagi við þá, sem sjá um bloggið á þeirri síðu.

Mér finnst miður, að sjá dagblöð færast nær blogginu frekar en skerpa sérstöðu sína gagnvart því, þegar æ fleiri hafa tekið til við að blogga. Eitt er að dagblöð haldi úti eigin vef- og bloggsíðum, hitt að dagblöðin séu full af tilvísunum í blogg, svo að ekki sé talað um, að farið sé að skrifa þau eins og um bloggsíðu sé að ræða.

 

Fimmtudagur, 14. 02. 08. - 14.2.2008 21:01

Undarlegt er að fylgjast með hröðum flótta Dags B. Eggertssonar frá eigin afstöðu í OR/REI málinu sl. haust. Þá taldi hann regnihneyksli, að sex sjálfstæðismenn skyldu bregða fæti fyrir, að hið nýja REI kæmi til sögunnar. Í fréttum hljóðvarps ríkisins 12. október 2007 sagði:

„Dagur segir ekkert athugavert við það að mynda nú meirihluta með Birni Inga Hrafnssyni þótt hann hafi átt virkan þátt í því að samþykkja samruna REI og Geysis Green Energy og heimila kaup einstaklinga á stórum hlutum í REI. Dagur B. Eggertsson: Ég held að Björn Ingi sé eini maðurinn í þessu máli sem hafi beðist afsökunar á þessum hlutum og hann er tilbúinn í þennan leiðangur með okkur sem að við höldum allra hluta vegna sé mjög brýnn og í þágu almannahagsmuna. Það er einmitt það sem að mér finnst þessi meirihluti snúast um.

Nú hefur allt gengið eftir, sem sexmenningarnir í Sjálfstæðisflokknum vildu og fyrir liggur sameiginleg skýrsla frá borgarfulltrúum allra flokka, sem sýnir, hve fráleitur allur málatilbúnaður var á bakvið REI-fyrirtækið, sem Dagur B. taldi í Morgunblaðs-grein, að væri heilladrjúgt framtíðarskref. Þá lætur Dagur B. eins og hann hafi ekkert af þessu viljað, þar sem hann hafi ekki vitað um 20 ára einkaréttarsamning OR við REI!

Fréttir berast um, að FL-group hafi selt hlut sinn í Geysi Green Energy, sem átti að sameinast REI í eigu OR og mynda nýtt REI, en hið nýja fyrirtæki átti að græða tugi milljarða á örskömmum tíma. FL-group tapaði um 70 milljörðum króna á síðasta ári - Íslandsmet. Enn er ekki séð fyrir endann á því, hvernig fyrirtækið verður, þegar fram líða stundir. Allt bendir til, að það hafi átt að bæta stöðu þess með fjárhagslegri tengingu við OR í gegnum REI og einmitt þess vegna hafi verðmæti REI verið talað upp á þann veg, sem gert var í lok september og byrjun október í síðasta ári.

Í fréttum Stöðvar 2 hinn 13. október sagði:

„Eignir Reykjavík Energy Invest verða á bilinu 180 til 300 milljarðar króna þegar félagið fer á markað árið 2009 ef áætlanir fyrirtækisins standast. Þetta kom fram á kynningarfundi sem Bjarni Ármannsson og Hannes Smárason héldu fyrir hugsanlega fjárfesta í Lundúnum á dögunum. Á fundinum var fyrirtækið kynnt af FL Group sem leiðandi fjárfestingafyrirtæki í jarðvarmaverkefnum.“

Miðvikudagur, 13. 02. 08. - 13.2.2008 20:37

Flaug kl. 08.45 til Ísafjarðar ásamt með Þorsteini Geirssyni ráðuneytisstjóra og Þórunni J. Hafstein skrifstofustjóra. Halldór Halldórsson bæjarstjóri, sem var hvatamaður heimsóknar okkar, og Kristín Völundardóttir sýslumaður tóku á móti okkur á flugvellinum.

Við heimsóttum Edinborgarhúsið, tónlistarskólann, Safnahúsið og kirkjuna fyrir hádegi. Alls staðar var vel á móti okkur tekið og hvarvetna hrifumst við af því, hve vel er að öllu búið og glæsilega.

Á sínum tíma kom ég að ákvörðunum um, að Edinborgarhúsið, Húsmæðraskólahúsið, sem nú hýsir tónlistarskólann, og gamla sjúkrahúsið, þar sem nú er bóka- skjala- og byggðasafn, skyldu falla undir skilgreiningu á menningarhúsum, þannig að ríkissjóður hefur komið að því með bæjarsjóði að búa húsin undir þessi nýju verkefni. Hefur verið einstaklega vel staðið að framkvæmd þessara ákvarðana. Kirkjan sómir sér einnig vel og altaristafla Ólafar Nordal er einstakt listaverk.

Í hádeginu hélt ég fund með trúnaðarmönnum Sjálfstæðisflokksins. Síðan hitti ég lögreglumenn og hélt fund með sýslumanni um málefni embættisins og eflingu þess. Loks var efnt til fundar með bæjarstjórn og fleirum undir forsæti Birnu Lárusdóttur, forseta bæjarstjórnar, og ræddum við sameiginleg viðfangsefni, þar til tímabært var að halda aftur út á flugvöll en þaðan hélt vél Flugfélags Íslands á áætlun klukkan 17.30.

Þriðjudagur, 12. 02. 08. - 12.2.2008 19:14

Þeir Kristófer Helgason og Þorgeir Ástvaldsson í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni ræddu við mig í dag, en við þá ræði ég oftast allra fjölmiðlamanna, enda er hlustun á þátt þeirra mikil.

Að þessu sinni sagði ég þeim frá því, að embættismenn mínir hér og í Brussel hefðu verið í sambandi við málsvara innanríkisráðuneytis Litháens um, að dæmdir Litháar hér á landi tækju út refsingu sína í fangelsum í Litháen. Þætti mér líklegt, að þetta næði fram að ganga.

Þá sagði ég þeim frá því, að ég teldi að nýta ætti það, sem kallað hefur verið „rafræn öklabönd“ með GPS-staðsetningarbúnaði sem refsiúrræði hér á landi. Til dæmis væri unnt að búa þannig um hnúta, að tækið sendi frá sér viðvörunarmerki, ef maður í farbanni væri á ferð í nágrenni flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Hefur verið hafinn nauðsynlegur undirbúningur til að unnt verði að nýta þessa tækni.

Undrun vakti fyrir skömmu, þegar hér komu fram málsvarar þess sjónarmiðs, að Jyllands-posten hefði misnotað málfrelsi með birtingu Múhameð- skopmynda. Nú hefur verið sagt frá því, að í morgun hafi danska lögreglan handtekið nokkra menn í Árósum, sem höfðu á prjónunum að myrða Kurt Westeraard, teiknara Jyllands-postens. Teiknarinn hefur verið undir lögregluvernd undanfarna þrjá mánuði vegna grunsemda leyniþjónustu dönsku lögreglunnar, PET, um að verið væri að undirbúa aðför að honum.

Mánudagur, 11. 02. 08. - 11.2.2008 22:14

112 dagurinn var haldinn hátíðlegur í dag og boðaði Neyðarlínan til athafnar við Skógarhlíð. Lögreglukórinn söng, ég flutti ávarp, fulltrúi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna afhenti verðlaun til barna fyrir þátttöku í eldvarnagetraun. Rauði kross Íslands heiðraði feðgana Sveinbjörn Grétarsson og Tómas Sveinbjörnsson sem skyndihjálparmenn ársins 2007 fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu.

Kona Sveinbjörns, Guðrún Hauksdóttir, hafði fundið fyrir slappleika en ekkert óeðlilegt greinst við læknisskoðun. Seint að kvöldi 26. september var hún að horfa á sjónvarpið þegar Sveinbjörn verður þess var að hún er eins og í krampakasti og hryglir í henni. Hann gerði sér umsvifalaust grein fyrir að hún var meðvitundarlaus, hringdi í Neyðarlínuna og hóf endurlífgun. Sveinbjörn vissi, að það getur tekið langan tíma fyrir sjúkrabíl að aka upp á Kjalarnes þar sem þau búa, og sendi hann Tómas 6 ára son sinn til að sækja nágranna þeirra, Þórð Bogason, sem unnið hefur í slökkviliði og sjúkraflutningum í fjöldamörg ár. Tilviljun ein réði því að Þórður var heima, og aðstoðaði hann Sveinbjörn við endurlífgunina. Þórður kallaði einnig til björgunarsveitina Kjöl, sem kom með súrefni á staðinn áður en sjúkrabíllinn kom og læknishjálp barst. Guðrún hefur náð sér ótrúlega vel af veikindunum og tók þátt í athöfninni í dag.

Eftir athöfnina fór ég í beina útsendingu í Íslandi í dag á Stöð 2 og höfðu spyrjendur mestan áhuga á að vita, hvað mér þætti um atburði dagsins í brogarstjórnarflokki sjálfstæðismanna. Svaraði ég eftir bestu getu og lauk samtali okkar á því, að kannski hefði verið gott fyrir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson að geta hringt í 112 til að fá pólitíska ráðgjöf eða hjálp. Minnti ég, að helsti boðskapur dagsins að þessu sinni væri einmitt að hringja strax í stað þess að eyða tíma í að velta fyrir sér, hvort maður ætti að hringja.

Sunnudagur, 10. 02. 08. - 10.2.2008 18:24

Gekk út við Gróttu í morgun og í kringum golfvöllinn á Nesinu. Það blés töluvert og brotnuðu miklar öldur úti á Flóanum. Eiðsgrandinn var ófær og verið að hreinsa af honum grjót og sjávargróður. Á torginu framan við Jóns Loftssonar-húsið var svo mikill vatnselgur, að varasamt var fyrir venjulega fólksbíla.

Ég sá á einhverri vefsíðu fyrirsögn um, að ég hefði sagt ósatt í pistli mínum með endursögn af orðaskiptum okkar Egils Helgasonar um stjórnmálaskoðanir þeirra Sigurðar Líndals og Péturs Kr. Hafsteins - en í pistlinum sagðist ég hafa samsinnt orðum Egils um þetta. Sá, sem telur mig segja ósatt með þessum orðum, hefur greinilega aldrei heyrt, að þögn sé sama og samþykki.

Ekki er unnt að kalla það orðhengilshátt, þegar menn taka til við að rífast um, hvað þögn þýðir. Það er hins vegar nokkur bífræfni að taka sér fyrir hendur, að kalla mig ósannindamann fyrir að túlka eigin þögn á þann veg. að ég hafi samsinnt Agli Helgasyni - útskrift af samtali okkar má sjá hér á síðunni.

Laugardagur, 09. 02. 08. - 9.2.2008 15:20

Fórum klukkan 17.00 í Grafarvogskirkju og hlýddum á Shlomo Mintz, fiðluleikara, leika 24 Kaprísur Op. 1 eftir Niccoló Paganini. Orð duga ekki til að lýsa þessum einstaka viðburði og þakka ég Hjörleifi Valssyni, fiðluleikara, fyrir hið góða framtak hans að fá Shlomo Mintz til landsins. Leikur og framkoma Mintz var í anda hins hógværa snillings.

Ég hef sett inn á síðuna útskrift af samtali okkar Egils Helgasonar í Silfri Egils sunnudaginn 3. febrúar.

Í grein í Fréttablaðinu í dag leitast Sigurður Líndal við að skrifa sig frá nasista-áburði sínum á Árna Mathiesen en staðfestir jafnframt markmið sitt um að vega að löggjafar- og framkvæmdarvaldinu í þágu dómsvaldsins. Sigurður telur málum svo komið, að fulltrúalýðræðið og þar með þingræðið eigi að lúta dómsvaldinu - og þá eigi dómarar að sjálfsögðu einnig að ráða dómara en ekki framkvæmdavaldið.

Enn hefur sannast síðasta sólarhring, hve björgunarsveitir vinna ómetanlegt starf í þágu allra landsmanna, þegar hættu ber að höndum. 300 björgunarsveitarmenn voru við störf um land allt og sinntu hundruð útkalla í óveðrinu.

Um klukkan 22.00 í gærkvöldi var lokið var við að koma farþegum og áhöfnum , alls um 450 manns, frá borði þriggja flugvéla Icelandair og inn í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mjög hvasst var og lemjandi rigning. Var ekki unnt að aka flugvélum að flugstöðinni. Farþegar biðu í um fimm klukkustundir eftir því að komast frá borði.

Í fréttum sagði, að flugvallarstarfsmenn, flugöryggisverðir, slökkvilið og lögregla hefðu myndað óslitna röð frá dyrum flugvélanna og aðstoðað farþega við að komast að langferðabifreiðum sem flutti þá að flugstöðinni.

 

Föstudagur, 08. 02. 08. - 8.2.2008 19:08

Þegar ég les skýrsluna um OR/REI undrast, að hún sé kennd við „stýrihóp“. Í raun hefði átt að kenna hópinn við endurmat eða rannsókn á þeim ákvörðunum, sem leiddu til uppnámsins 3. október 2007 en ég hef lýst því hér á síðunni.

Þess hefði mátt vænta í skýrslu hópsins, að hann gerði grein fyrir heiti sínu og hverju honum hafi verið ætlað að „stýra“ - er það kannski umræðan um málið, sem menn höfðu í huga, þegar þeir völdu hópnum nafn, það er að ná stjórn á umræðum um málið á vettvangi borgarstjórnar.

Í skýrslunni segir, að umboð stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur og valdmörk þeirra séu óljós og áleitnar spurningar vakni um ýmsar ákvarðanir þeirra. Þannig hafi hluthafasamkomulag í REI við innkomu nýs hluthafa verið undirritað af starfandi forstjóra OR fyrir hönd fyrirtækisins, án þess að fyrir hefði legið samþykki stjórnar um umboð hans.

Þá segir, að FL-group, sem hafði verulega fjárhagslega hagsmuni af því, hvernig þjónustusamningur OR og REI yrði, hafi haft bein áhrif á samningsgerðina. FL-group var þannig með puttana í innri samskiptum OR og REI til að hafa áhrif á samning þeirra á milli. Í skýrslunni segir:„Þannig telur hópurinn að hagsmunum OR hafi ekki verið gætt nægilega vel við samningsgerðina.“

Í skýrslunni segir, að ekki hafi verið einróma „skilningur“ innan stýrihópsins á því, hvers vegna umboð stjórnarmanna, fulltrúa eigenda eða stjórnenda til að taka „stórar ákvarðanir“ sé ekki skýrt. Þessi skortur á einróma skilningi undirstriki „enn frekar mikilvægi þess að þessir verkferlar séu skýrir í stjórnsýslunni á milli kjörinna fulltrúa og stofnana sem þeir eiga sæti (svo!) og gagnvart kjörnum fulltrúum.“

Þetta orðalag skýrslunnar er loðið en ég skil það á þann veg, að um það sé að ræða, að hópurinn vilji tryggja opna stjórnsýslu milli kjörinna fulltrúa og þeirra, sem starfa í umboði þeirra. Skortur á þessum opnu stjórnarháttum hefur verið helsta gagnrýnisefni mitt frá því að umræður um OR/REI hófust. Þessi „kúltur“ hefur þróast meðal stjórnenda OR á undanförnum árum og eitt brýnasta viðfangsefnið í málefnum fyrirtækisins er að eyða honum.

Fimmtudagur, 07. 02. 08. - 7.2.2008 21:08

Fór síðdegis með embættismönnum í heimsókn til Valtýs Sigurðssonar, nýs ríkissaksóknara, og samstarfsfólks hans að Hverfisgötu 6.

Þegar OR/REI málið bar sem hæst í byrjum október gagnrýndi ég stjórnsýsluna í málinu. Í dag var kynnt skýrsla stýrihóps undir formennsku Svandísar Svavarsdóttur um málið og þar er staðfest, að gagnrýni á stjórnsýsluna var svo sannarlega að rökum reist.

Í frásögn af skýrslunni segir á mbl.is:

„Þá leggur stýrihópurinn til, að stjórn Orkuveitunnar skoði sérstaklega umboð stjórnarmanna, hvert sé valdsvið stjórnenda, embættismanna og umboð og jafnframt hvert hlutverk kjörinna fulltrúa sé og með hvaða hætti sé hægt að sinna því og halda því til haga gagnvart kjósendum. Aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum verði jafnframt bættur, bæði fulltrúa minnihluta og meirihluta.“

Allt kemur þetta heim og saman við gagnrýni mína á stjórnarhætti innan Orkuveitu Reykjavíkur. Verður fróðlegt að fylgjast með því, hvernig núverandi stjórn OR og stjórnendur OR taka þessum ábendingum.

Miðvikudagur, 06. 02. 08. - 6.2.2008 19:40

Í hádeginu flutti ég erindi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur um öryggi til sjós og lands. Að því loknu svaraði ég spurningum félaga minna í klúbbum.

Síðdegis svaraði ég fyrirspurn um heimsóknir til fanga á alþingi og flutti framsögu fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kirkjugarða, greftranir og fleira.

Ómaklegt er, að fundið sé að því og talað um móðgun við sjómenn, þótt þyrla landhelgisgæslunnar hafi á æfingaflugi 5. febrúar aðstoðað bændur í Fljótshlíð við að ná hrossum, sem fældust og hlupu í sjálfheldu á Þríhyrningi. Þyrlan dró úr hættu, sem steðjaði að mönnum við að fara upp á fjallið við erfiðar aðstæður.

Ef sjómenn hefðu kallað á aðstoð á þessari sömu stundu, hefði þyrlunni að sjálfsögðu verið snúið til hjálpar þeim eða hverjum öðrum í neyð.

Þriðjudagur, 05. 02. 08. - 5.2.2008 17:33

Í dag 5. febrúar er rétt ár liðið frá því, að læknar greindu mig með samfallið hægra lunga og ég var lagður inn á deild 12 E á Landspítalanum. Sjúkrasöguna má lesa hér á síðunni. Af heilsu minni er það að frétta, að ég reyndist sannspár, þegar ég taldi mig verða betri eftir en áður, enda er ég viss um, að samfallið átti sér nokkurn aðdraganda. Mér hefur ekki orðið misdægurt, frá því að ég var útskrifaður.

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar ljúflega um framgöngu mína í Silfri Egils í 24 stundir í dag og færi ég henni þakkir fyrir. Hún segir, að blíða mín í garð RÚV hafi ekki enst út sunnudaginn og hafi ég breyst að nýju í „vígamann“, þegar á daginn leið. Vísar hún þar til athugasemdar minnar hér á síðunni við það, hvernig orð mín voru afflutt á vefsíðunni ruv.is. Reynsla mín er, að spuni af þessu tagi verður ekki stöðvaður nema sótt sé gegn honum af þunga, annars teygir hann sig um allt, og hann hafði náð inn á mbl.is úr hljóðvarpinu, áður en varði. mbl.is sýndi þann manndóm að leiðrétta rangfærsluna. Ég hef ekki orðið var við neina leiðréttingu á ruv.is .

Hin ranga útlegging á ruv.is varð ekki til þess eins, að ég gripi til vopna minna, því að hún hefur valdið hræðslukasti hjá bréfritara á vefsíðu Ögmundar Jónassonar, sem segir:

„Er ríkisstjórnin að verða galin? Heyrði ég það rétt að dómsmálaráherrann vilji gera björgunarsveitirnar að einhverjum baksveitum fyrir lögreglu til að berja niður óeirðir? Það var gott að heyra í talsmanni Landsbjargar sem vísaði þessu út í hafsauga og sagði að sveitirnar væru til að bjarga og hjálpa fólki en ekki til að berja á því. Hvers vegna er ríkisstjórnin farin að óttast óeirðir? Er það vegna þess að hún er farin að trúa því að gerð verði uppreisn gegn kjaramisréttinu í landinu sem fer vaxandi af hennar völdum? Er þá ekki verkefnið að draga úr misréttinu í stað þess að berja á þeim sem vilja réttlátt samfélag? Hvað segir Samfylkingin? Alltaf þegir hún þegar talið berst að félagslegu misrétti.“

Spyrja má: Var tilgangur spunans á ruv.is að valda slíku uppnámi? Ekkert í þeim orðum, sem ég lét falla í vinsamlegu spjalli okkar Egils Helgasonar gaf tilefni til þess. Ég vona, að Kolbrún Bergþórsdóttir fyrirgefi, að ég skyldi bregðast hart við til að kveða niður ósannindi, sem kveikja hræðslu hjá fólki, af því að það heldur að ríkisstjórnin sé að verða „galin“.

Mánudagur, 04. 02. 08. - 4.2.2008 18:41

Þetta mátti lesa á fréttavef lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu klukkan 16.05 í dag:

„Þrír menn hafa verið handteknir vegna ránsins sem var framið í útibúi Glitnis við Lækjargötu í Reykjavík klukkan rúmlega níu í morgun. Þar ógnaði maður starfsfólki bankans með exi og hafði síðan eitthvað af fjármunum á brott með sér. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér lýsingu á ræningjanum og fljótlega var maður handtekinn í Aðalstræti en sá var talinn búa yfir upplýsingum um ránið. Öxin, sem fyrr var getið, fannst ekki löngu síðar í herbergi á nálægu gistiheimili og í framhaldinu voru tveir menn til viðbótar handteknir í Garðabæ. Þeir höfðu áður yfirgefið gistiheimilið og haldið þaðan í bíl en annar mannanna reyndist vera með ránsfenginn í fórum sínum þegar til hans náðist. Lögreglan leitar nú fjórða mannsins í tengslum við rannsókn málsins og veit þegar hver hann er.“

Textinn er ekki hlaðinn lýsingaorðum og mætti halda, að það hefði verið sjálfsagt og eðlilegt, að lögreglunni tækist að upplýsa þetta vopnaða bankarán á fáeinum klukkustundum.

Þessi skjóta niðurstaða var auðvitað ekki sjálfsögð. Hana má rekja til snerpu lögreglunnar og góðrar samvinnu þess hóps lögreglumanna, sem kom að því að upplýsa málið. Ég færi þeim þakkir og heillaóskir.

Sunnudagur, 03. 02. 08. - 3.2.2008 17:34

Eftir langa fjarveru var ég í Silfri Egils í dag og ræddum við Egil Helgason þau mál, sem hann telur efst á baugi. Ég hafði ánægju af þátttöku í þættinum og skil vel, að Egill skuli kjósa þetta starfsumhverfi frekar en það, sem var í boði síðast þegar ég heimsótti hann, sem er fyrir svo löngu, að ég man ekki, hvenær það var.

Ég sé, að fréttastofa hljóðvarps ríkisins er tekin til við að snúa út úr orðum mínum. Aldrei hefur vakað fyrir mér, að lögfesta neina skyldu fyrir björgunarsveitir til að breytast í varalið. Hugmyndin um liðið byggist á því, að lögregluyfirvöldum sé heimilt að kalla menn til starfa við sérstakar aðstæður, en mönnum sé að sjálfsögðu í sjálfsvald sett, hvort þeir gangi í liðið eða ekki.

Þessi útúrsnúninga-árátta fréttamanna veldur áhugaleysi mínu á að ræða við þá. Hvers vegna spurði fréttamaðurinn mig ekki að því, hvort ætlunin væri að lögbinda skyldu björgunarsveita til að verða varalið lögreglu? Hvers vegna hlustar fréttamaðurinn ekki á það, sem ég sagði í Silfri Egils?

Í fréttinni á ruv.is segir undir lokin: „Formaður Landsbjargar segir að tækju félagar í björgunarsveitum þátt í varaliðinu gætu þeir gert það sem einstaklingar þó ekki væri undir merkjum björgunarsveitanna.“ Þetta er kjarni málsins en ekki hitt, að lögskylda eigi björgunarsveitarmenn til að fara í óeirðavörslu, enda sagði ég í Silfri Egils, að fastalið lögreglu yrði látið sinna hinum erfiðu verkefnum en varaliðið ætti að manna hin daglegu varðstörf.

Í ávarpi í 80 ára afmæli Slysavarnafélags Íslands sagði ég: „Björgunarsveitir eru boðnar og búnar til að aðstoða lögreglu, þegar til þeirra er leitað. Ég tel brýnt, að hið góða samstarf þessara aðila fái viðurkenningu alþingis með ákvæði í lögum um varalið lögreglu.“

Á visir.is má lesa þetta í dag, feitletrun er mín:

„Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Glitni banka, segir að heimilin ættu að öllu jöfnu að ráða við þessa skuldsetningu. Jón telur þó útlit fyrir að verulega muni hægja á einkaneyslu á þessu ári og mælir með því að fólk herði sultarólina og eyði frekari í sparnað.“

Nú leggja menn ekki lengur fyrir heldur eyða í sparnað! Ég hef sannreynt, að málsmekkur fréttamanns ræður þessu sérkennilega orðavali um sultarólina og sparnaðareyðsluna, Jón Bjarki lét þessi orð ekki falla í samtali þeirra.

Klukkan var 20.00 sótti ég tónleika Kammersveitar Reykjavíkur á Myrkum músikdögum í Listasafni Íslands.


Laugardagur, 02. 02. 08. - 2.2.2008 11:46

Mælirinn í bílnum sýndi 14 stiga frost í morgun um það leyti sem Laugaradalslaugin var opnuð og við morgunhressir fastagestir tókum okkar daglega sundsprett. Vatnið var nóg og vel heitt. Faðir drengs fylgdi honum að sturtunni og spurði baðvörð, hvers vegna ekki væru blöndundartæki til að hafa hemil á vatnshitanum. „Það þarf kannski einhver að brenna sig?“ spurði hann.

Morgungangan var einnig hressandi og dag frá degi sjást þess skýrari merki, hvernig Háskólinn í Reykjavík mun skera á tengslin milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar í Vatnsmýrinni. Á eyjan.is má lesa þetta:

„Byggingarframkvæmdir eru hafnar við nýbyggingu Háskólans í Reykjavík við rætur Öskjuhlíðar. Byggingin verður um 40000 fermetrar og ein sú stærsta í Reykjavík. Í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík segir að hún sé „hönnuð með það að leiðarljósi að bjóða upp á aðstöðu á heimsmælikvarða fyrir nemendur, kennara og vísindamenn. Skólinn verður einn best búni háskóli í Evrópu og mun nýja húsið gjörbylta aðstöðu til kennslu og vísindastarfa hér á landi.“ Fyrsti hluti byggingarinnar lýkur haustið 2009 og hefst kennsla þar í ágúst það ár. Öll starfsemi HR verður sameinuð í nýja húsinu á árinu 2010.“

Halla Gunnarsdóttir, þingfréttaritari Morgunblaðsins, kallar dóms- og kirkjumálaráðuneytið tölvupóstráðuneyti í vikupistli um störf alþingis (já alþingis) í blaðinu í dag. Ástæðan er pirringur hennar yfir því að hafa verið beðin um að senda spurningu til ráðuneytisins í tölvupósti. Að blaðamenn pirrist yfir því á öld tölvusamskipta að þurfa að nota þau til að afla sér upplýsinga er furðulegt. Þau gera að vísu þá kröfu, að spyrjandinn viti um, hvað hann ætlar að spyrja.

Morgunblaðið fagnar í dag 10 ára afmæli mbl.is. Ég óska blaðinu til hamgingju með hve vel hefur til tekist með vefsíðuna. Henni hefði ekki vegnað jafnvel og raun sýnir, ef lesendur hefðu brugðist við nýbreytni blaðsins með sömu ólund og Halla við óskinni um, að hún orði spurningar sínar í tölvupósti.

Síðan mín er þremur árum eldri en mbl.is. Guðrún Helgadóttir, þingmaður Alþýðubandalagsins, taldi mig vera stíga skref frá almenningi með síðunni. Mér sýnist Halla Gunnarsdóttir sama sinnis, að tölvusamskipti séu einhver hindrun í vegi upplýsingamiðlunar. Hvað er að því að segja, að upplýsinga hafi verið aflað með tölvupósti en ekki í símtali? Plus ça change, plus c’est la même chose.

Föstudagur, 01. 02. 08. - 1.2.2008 21:22

Nú eru nær því 13 ár síðan ég hóf að halda þessari síðu úti. Eitt af því, sem ég hef lært á þessum árum, er, að leggja helst ekki út af skoðanakönnunum en láta þær frekar fram hjá mér fara. Enn hefur gildi þessarar vinnureglu sannast, þegar Fréttablaðið birtir skoðankönnun í gær, sem segir fylgi Sjálfstæðisflokksins dala og Samfylkinguna vera að ná honum, en í RÚV birtist Gallup-könnun í dag, sem sýnir fylgi Sjálfstæðisflokksins vaxa í 41% miðað við síðustu Gallup-könnun og hefur ekkert sérstakt um Samfylkingu að segja.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, stillt upp við vegg vegna niðurstöðu Fréttablaðsins. Staksteinahöfundur telur hana höfund stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks við Samfylkingar og spyr, hvernig Þorgerður Katrín ætli að bregðast við verði Samfylking stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Gallup auðveldar Þorgerði Katrínu svarið.

Framsóknarflokkurinn kemur að þessu sinni verst út úr flokkakönnuninni hjá Gallup. Augljóst er, að meirihlutaskiptin í borgarstjórn koma illa við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Er það enn og aftur til staðfestingar á því, hve misráðið var hjá Birni Inga Hrafnssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, að hverfa frá samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í október sl.

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, skrifar grein í Morgunblaðið í dag og telur mig hafa farið ómaklegum orðum um flokk sinn hér á síðunni, þegar ég lýsti skoðun minni á fatavanda framsóknarmanna. Í greininni er þessi gullvæga setning: „Fyrr hélt ég að fiskar gengju á land en ég sæi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason skipa sér í þennan flokk með umræðu um fatamál Framsóknarflokksins.“

Eftir að hafa setið með framsóknarmönnum í ríkisstjórn í 12 ár og unnið að framgangi margra góðra mála, vil ég síður en svo gera á hlut þeirra. Svik Björns Inga við sjálfstæðismenn voru hins vegar á þann veg, að þau eru ekki hafin yfir gagnrýni. Í fatamálinu hafa framsóknarmenn  verið sér sjálfum sér verstir - sjálfskaparvítin eru alltaf verst. Ég er viss um, að Bjarni Harðarson samsinnir því.

Þegar Alfreð Þorsteinsson, framsóknarmaður, leiddi Orkuveitu Reykjavíkur (OR), dró úr notkun heita vatnsins vegna hlýnunar. Þá var gjaldskráin hækkuð til að bæta OR tapið. Nú er vatnsskortur vegna kulda - skyldi gjaldskráin lækka?