17.2.2008

Evruumræður - Pólverjar á heimleið - hafnsögumaður sóttur.

Viðskiptaþing var haldið 13. febrúar. Þann dag var ég á Ísafirði að ræða við sýslumann og bæjaryfirvöld þar og gat því ekki sótt þingið. Það var að þessu sinni einkum helgað umræðum um krónuna og evruna. Hvorki umræðuefnið né niðurstaða voru frumleg. Enn stangast á sömu sjónarmið og áður.

Á vefsíðu Viðskiptaráðs segir:

Jürgen Stark, stjórnarmaður í evrópska seðlabankanum, segir bankann ekki styðja einhliða upptöku evru. Þá sagði Jürgen: „Ríki sem taka evruna upp einhliða, gera það á eigin ábyrgð og eigin hættu, án þess að skuldbinda sig gagnvart Evrópusambandinu eða evrópska seðlabankanum.“ Jürgen sagði hins vegar að einhliða upptaka evrunnar gæti falið í sér tiltekna kosti. Með upptöku evrunnar og þarf af leiðandi innleiðingu trúverðugleika evrópska seðlabankans gæti verðbólga sem og vextir í viðkomandi ríki lækkað. Slíkt væri þó háð því að efnahagslegur stöðugleiki ríkti í því ríki fyrir einhliða upptöku. Jürgen sagði hins vegar að slík upptaka gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og lagði hann áherslu á að einhliða upptaka væri ekki skjót lausn á vandamálum ríkja.

Hvað varðar þá þróun að evran myndi taka sig upp sjálfkrafa sagði Jürgen: „evruvæðing að hluta felur í sér alvarlega áhættu fyrir þegna, viðskipti, bankanna sem og hið opinbera.“ Að endingu minnti Jürgen á að myntbandalagið tæki ávallt vel á móti nýliðum, en sagði jafnframt að nýliðarnir yrðu að koma inn aðaldyrnar, ekki bakdyrnar.

Richard Portes, prófessor við London Business School, sem talaði á viðskiptaþinginu var annarrar skoðunar en málsvari seðlabanka Evrópu, útilokaði ekki einhliða upptöku evru og varaði við lausatökum í málefnum krónunnar.

Gjarnan er sagt, að sveiflur á markaði séu að verulegu leyti sprottnar af hugarástandi, afstöðu, umræðum og því, sem menn ímynda sér um samtíð og framtíð. Oft sé erfitt að festa hönd á því, sem ræður ferð, og þá sé nærtækast að líta til þess, hvernig talað er um hluti. Best sé að segja sem minnst opinberlega og vinna að markmiðum sínum í kyrrþey í stað þess að kasta sér út í öldurótið, þar sem allt getur gerst.

Krónan hefur verið í slíku ölduróti og meira rætt um framtíð eða framtíðarleysi hennar heldur en að taka af skarið. Þverstæðan í umræðunum kom til dæmis fram í könnun, sem gerð var meðal hátt í 300 aðildarfélaga í Viðskiptaráði og ríflega 7ö% þeirra svöruðu.

Það er afdráttarlaus skoðun aðildarfélaga að evran komi helst til greina ef íslensk stjórnvöld ákveða að taka upp annan opinberan gjaldmiðil. Þrátt fyrir það er ríflega helmingur félaga andvígur umsókn um aðild að Evrópusambandinu en einungis þriðjungur félaga er fylgjandi henni.

Fleiri aðildarfélög eru andvíg en hlynnt núverandi fyrirkomulagi gjaldeyris- og peningamála og almennt líta þau svo á fjármálastjórn hins opinbera hafi verið óábyrg og að þar sé frekar að leita skýringa á núverandi stöðu en í hagstjórn Seðlabanka Íslands.

Forsætisráðherra Geir H. Haarde ræddi evruna á viðskiptaþingi og sagði:

„Þetta mál snýst um að finna hagkvæmasta fyrirkomulag fyrir gjaldmiðil í okkar litla, opna hagkerfi sem varðveitir jafnframt efnahags­pólitískt sjálfstæði þjóðar­innar og gerir okkur kleift að kljást við hagsveiflur hér á landi sem reynslan sýnir að eru yfirleitt ekki í takt við sveiflur í öðrum og stærri hagkerfum. Engin betri skipan er á boðstólum í dag en sú að viðhalda íslensku krónunni, hvað sem síðar kann að verða. Seðlabankanum er með verðbólgumarkmiði sínu ætlað að standa vörð um verðgildi hennar. Evran gerir engin kraftaverk fyrir hagstjórnina. Það sem skiptir meginmáli er að hagstjórnin sjálf sé skynsamleg.“

Hann hafnaði einhliða upptöku evru og sagði: „Ég tel að línurnar séu farnar að skýrast verulega þar sem nú virðast flestir hafa áttað sig á því að hér eru aðeins tveir kostir í boði: Að halda íslensku krónunni eða taka upp evru sem jafnframt þýðir inngöngu í Evrópusambandið. Það er einfaldlega ekki kostur að taka einhliða upp evru. Slíkt er ekki trúverðugt og því fylgir margs konar óhagræði og aukakostnaður.“

Þar sem aðild að ESB er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar og kjörtímabilið er til 2011 er afstaða Bjarna Benediktssonar, formanns utanríkismálanefndar alþingis, rökrétt, en henni er lýst þannig á eyjan.is. 16. febrúar:

„Bjarni Benediktsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, telur að menn eigi að einbeita sér að þeim brýnu verkefnum í hagstjórn sem blasa við næstu 1-2 árin á forsendum íslensku krónunnar en að því loknu geti menn tekið umræðuna um aðild Íslands að ESB í alvöru.

Hann sagði að á Viðskiptaþingi í vikunni hefði umræða um einhliða upptöku evru verið afgreidd endanlega út af borðinu, að sínu mati. „Það er engin skynsemi í því að einangra einn þátt í Evrópusambandsaðild,“ sagði Bjarni. „Við eigum að taka allt með í reikninginn.“

Þessi ummæli lét Bjarni falla í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun.“

Í Silfri Egils hinn. 3. febrúar sl. urðu þessi orðaskipti milli okkar Egils Helgasonar um evruna og Evrópusambandið:

Egill: En þér finnst það vera, er möguleiki að sem sagt breyta þessari stefnu í gjaldmiðilsmálum með þennan fljótandi, þessa fljótandi ...?

Björn Bjarnason: Ég skrifaði grein í Þjóðmál um þetta og get nú vísað til hennar þar sem rek ég þetta fram og til baka og ég hef verið þeirrar skoðunar að við þyrftum að fara inn í Evrópusambandið ef við ætlum að taka upp Evruna. Það hafa komið menn hér sem segja að það sé hægt [að taka hana upp utan ESB]. Hér var einhver sérfræðingur á vegum seðlabanka Evrópu fyrir einu eða tveimur árum og flutti erindi og sagði, það er brot á EES-samningnum ef þið takið einhliða upp evruna. Og þá spyr maður sig ef það er brot á EES-samningnum að taka upp einhliða evru er þá unnt með einhverju samkomulagi á grundvelli EES-samningsins að ná einhverri niðurstöðu um tengingu við evruna ef samningurinn gerir ráð fyrir því að við þurfum að taka eitthvað tillit til evrópskra stofnana í því efni. Þetta verða menn að skoða og menn verða að komast einhvern veginn í gegnum umræðurnar. Og svo veltir maður fyrir sér, hafa umræðurnar í raun og veru snúist um evru, snerust þær um evru af því að menn voru að beina athygli frá umræðum um þennan stóra hollenska banka sem reyndist of stór fyrir okkur? Hvað er raunveruleiki og hvað er svona umræða bara umræðunnar vegna?

Egill: Jæja. Það er nú samt sagt að menn séu farnir að trúa því í Brussel að við séum á leiðinni inn í Evrópusambandið.

Björn Bjarnason: Ég held að það ...

Egill: Þetta segir frændi þinn Bjarni Benediktsson að skilaboðin frá utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra sem hafa með þessi mál að gera, eru svo sterk.

Björn Bjarnason: Það finnst mér mjög óráðlegt að koma því inn því að við yrðum ekkert aðilar að Evrópusambandinu fyrr en eftir mörg ár og eins og Ólafur Stephensen sagði hér[þá þarf að breyta stjórnarskránni], ég hef aldrei setið í stjórnarskrárnefnd en ef að menn ætla að fara í gegnum þetta þá verða þeir að breyta stjórnarskránni fyrst og þeir verða að ganga skref fyrir skref og gera einhverja áætlun og koma sér saman um hana og ég á eftir að sjá það gerast hér. Ég sé ekki neina stjórnmálalega forsendu fyrir því að þetta sé aktúelt mál fyrir stjórnmálamenn og ef það á að setja það á oddinn þá munu stjórnmálaflokkarnir klofna hver á eftir öðrum. Og þurfum við á því að halda hér í þessu landi miðað við hvað við höfum góða stöðu gagnvart Evrópusambandinu? Hvaða tal er þetta?

Egill: Þú telur að stjórnmálaflokkarnir munu klofna.

Björn Bjarnason: Já, já.

Egill: Sjálfstæðisflokkur og Samfylking.

Björn Bjarnason: Já, já. Ég tel að það verði og heldur þú að stjórnmálamenn sem hafa ekki einhverja raunverulega skýra hagsmuni að verja til þess að fara inn í Evrópusambandið muni stíga þessi skref vitandi það að baklandið þeirra muni bara splundrast ef þeir fara af stað?

Komi menn sér ekki saman um, hvað felst í evruumræðunum, skila umræðurnar engu. Er hún um evru? Eða aðra mynt? Er hún um niðurlagningu krónunnar? Er hún um stjórn peningamála? Er hún dulmálsumræða um hlutverk Seðlabanka Íslands? Eða um vanda banka og fjármálafyrirtækja?

 

Pólverjar á heimleið.

Forsíðufrétt í The Times í London laugardaginn 16. febrúar er um, að Pólverjar í Bretlandi séu að hverfa aftur til ættlandsins, Pólverjar, sem komu til Bretlands í atvinnuleit og hafa flestir starfað við byggingarvinnu. Fréttin hefst á þeim orðum, að innflytjendabylgjan, sem kynti undir hagvaxtarskotið í Bretlandi í upphafi 21. aldarinnar, sé að hjaðna, þegar pólski píparinn og þúsundir með honum snúi aftur heim.

Blaðið hefur eftir pólskum sendiráðsstarfsmanni í London, að straumur Pólverja til Bretlands hafi náð hámarki í lok síðasta árs. Frá því að Pólland gekk í Evrópusambandið (ESB) 1. janúar 2004 hafa 274.065 Pólverjar fengið atvinnuleyfi í Bretlandi, sem er 66% af öllum Austur-Evrópubúum með slíkt leyfi. Nú hafa minnkandi efnahagsumsvif í Bretlandi, tiltölulega veikt pund og óvenjumikill efnahagsbati í Póllandi dregið úr áhuga Pólverja að vera áfram á breskum vinnumarkaði. Þeir kjósa þess í stað að snúa heim.

Alþjóðamálastofnun í Varsjá telur, að helmingur einnar milljónar Pólverja í Bretlandi snúi heim. The Times ræðir Chris Zietkowski, 34 ára gamlan húsamálara, sem segist á heimleið. Fyrir tveimur árum hefði hann getað fengið fimmfalt hærri tekjur fyrir störf sín í Bretlandi en í Póllandi. Nú séu launin svipuð en miklu dýrara sé að lifa í Bretlandi en Póllandi. Þá sé líklega meira um laus störf í Póllandi en Bretlandi um þessar mundir.

Þegar þessi frétt í The Times er lesin, vakna spurningar um þróun þessara mála hjá okkur á Íslandi. Hvers vegna fer enginn fjölmiðill í saumana á því?

Hafnsögumaður sóttur.

Á vefsíðu Landhelgisgæslu Íslands má lesa, að þyrla hennar, TF-Líf,  hafi nýlega flogið á haf út, undan Meðallandsbugt, til móts við gasflutningaskipið Arctic Discoverer, sem var á leið vestur um haf frá norsku eyjunni Melköya. Þyrlan sótti norskan hafnsögumanna, sem hafði aðstoðað skipið við brottför þess en tókst ekki að komast í land aftur vegna veðurs. Aðstæður voru góðar og var maðurinn hífður af skipinu og um borð í þyrluna.

Þetta atvik er til marks um breytingarnar, sem eru að verða  á skipaumferð um landið vegna olíu- og gasnýtingar í Barentshafi og ég ræddi meðal annars í erindi, sem ég flutti í Rótarýklúbbi Reykjavíkur hinn 6. febrúar, þar sem ég sagði meðal annars:

Árið 2007 voru 2,2 milljónir tonna af olíu flutt frá Múrmansk með 212 olíuskipum og fóru 47 þessara skipa vestur um haf, í nágrenni Íslands. Áætlað er, að árið 2015 verði 80 til 100 milljónir tonna af olíu flutt frá Múrmansk og er talið, að 17 til 22 milljónir tonna fari um íslenska lögsögu með 370 til 480 skipum.

Hinn 20. október 2007 hélt gasflutningaskipið Arctic Princess með fyrsta farm sinn, 145 þúsund rúmmetra af gasi, sem hafði verið kælt niður í 163 gráður á Celsíus, frá Melköya við Hammerfest í Noregi. Skipið er 288 metra langt og sérbúið sem gasflutningaskip. Farmur þess dugar sem orka fyrir 45.000 manna byggð í eitt ár. Ætlunin er að 73 gasskip sigli fullfermd frá Melköya ár hvert, annaðhvort til Spánar eða Bandaríkjanna.

Í Boston og nágrenni byggist orkunotkun á gasi, sem skip koma með á fimm daga fresti frá Trinidad og Tobago. Verði rof á reglubundum siglingum þessara skipa, er vá fyrir dyrum í borginni. Skipin frá Melköya eiga einmitt að leggja úr höfn fimmta hvern dag og er reiknað með að um 50 þeirra sigli vestur um haf um lögsögu Íslands.

Á Mjallhvítarsvæði Norðmanna í Barentshafi fannst gas fyrir 24 árum en nýting þess  hófst fyrst í fyrra. Talið er, að þar sé unnt að vinna 5,7 milljarða rúmmetra af gasi á ári í þrjá áratugi. Austan norsku lögsögunnar er rússneska Stokhman-gassvæðið og er áætlað, að það sé 15 sinnum gjöfulla en Mjallhvít. Norðmenn og Frakkar munu aðstoða Rússa við nýtingu á Stokhman, en reiknað er með að hún geti hafist árið 2014.“

Ferð Arctic Discoverer staðfestir, að gasflutningaskipin frá Melköya eru tekin að sigla í nágrenni Íslands á leið sinni til N-Ameríku og atvikið vegna hafnsögumannsins sýnir, að margvísleg verkefni geta rekið á fjörur Landhelgisgæslu Íslands vegna þeirra.