Dagbókin

Þriðjudagur 26. 05. 15

Viðtal mitt við Lindu Rós Michaelsdóttur menntaskólakennara á ÍNN 20. maí er komið á netið og má sjá það hér. Þarna ræðum við skaðvænleg áhrif þess að skylda alla framhaldsskóla til að bjóða aðeins þriggja ára nám til stúdentsprófs. Þá er undarlegt að Menntaskólanum í Reykjavík skuli bannað að taka við nemendum úr 9. bekk grunnskóla en það sé leyft í Menntaskólanum á Akureyri. Hvað veldur?

Verði litlir framhaldsskólar úti á landi gerðir að annexíum stærri skóla leiðir það til upprætingar á þeim. Sjálfstæð málsvörn þeirra hverfur. Af fréttum má ráða að barátta um þetta sé hafin á norðaustur-landi. Á sínum tíma sagði skólameistari á Húsavík skorinort við mig: Lokir þú framhaldsskólanum hér rýfur þú brjóstvörn gegn atgervis- og byggðaflótta!

David Cameron, forsætisráðherra Breta, leggur nú land undir fót til að kynna stefnu stjórnar sinnar gagnvart ESB og undirbúning vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB, í síðasta lagi fyrir árslok 2017. Að lokum lendir þetta mál á borðinu hjá Angelu Merkel Þýskalandskanslara sem leggur áherslu á þagmælsku og smáskref.

Hvað sem því líður hefur verið lekið til franska blaðsins Le Monde trúnaðargögnum sem sýna að Angela Merkel og François Hollande Frakklandsforseti hafa sammælst um að dýpka evru-samstarfið og auka miðstýringu á vettvangi þess. Þeim verður þetta auðveldara þegar Bretar fjarlægjast ESB og huga að eigin málum en ekki annarra. Þau vilja ekki neinar sáttmálabreytingar til að þóknast Bretum.

Í ljós kemur hverju verður klastrað saman í von um að David Cameron styðji áfram aðild Breta að ESB. Vegna forsetakosninga í Frakklandi vorið 2017 og þingkosninga í Þýskalandi  haustið 2017 er allra hagur að viðræðum við Breta verði flýtt á ESB-vettvangi í um von um að þeir greiði þjóðaratkvæðið fyrir árslok 2016.

Sigur íhaldsmanna í Bretlandi veldur verulegum titringi innan ESB þótt allt sé gert til að yfirbragð samstarfsins sé sem best. ESB-andstæðingar sækja hart að Cameron innan hans eigin flokks og knúðu hann meðal annars til að ákveða að 1,5 milljón manna frá ESB-löndum utan breska samveldisins fengi ekki að taka þátt í atkvæðagreiðslunni – það þýðir að Maltverjar og Kýpverjar í Bretlandi mega kjósa þrátt fyrir ESB-aðild.

 

Senda grein

 

Mánudagur 25. 05. 15

Á vefsíðu Samfylkingarinnar segir að Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, sé „framkvæmdastýra“ Samfylkingarinnar. Hún stjórnar því daglegu starfi flokksins sem gerir tilkall til að teljast helsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Sérkennilegt er að þessa sé ekki getið þegar Þórunn eys úr skálum reiði sinnar yfir Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í fjölmiðlum.

Þórunn sagði í samtali við ríkisútvarpið laust fyrir miðnætti á hvítasunnudag að svo virtist sem forsætisráðherra áliti að BHM hefði ekki „sjálfstæðan samningsrétt“. Þessi undarlega skoðun er flokkspólitísk en ekki fagleg. Henni er lýst til að gera lítið úr ráðherranum og espa fólk gegn ríkisstjórn hans.

Leikriti formanns BHM var haldið áfram mánudaginn 25. maí, annan í hvítasunnu, á fundi hjá sáttasemjara ríkisins. Eftir þann fund sendi BHM frá sér fréttatilkynningu þar sem m. a. segir:

„Þar [á fundinum] kom skýrt fram að ummæli forsætisráðherra hefðu sett viðkvæmar kjaraviðræður í uppnám. Því fór formaður samninganefndar ríkisins af fundinum með það verkefni að fá svör við því hvort samninganefndin hefði umboð til að gera sjálfstæðan kjarasamning við BHM.“

Engum nema flokkspólitískum andstæðingum ríkisstjórnarinnar dettur í hug að láta eins og þeir hafi sent formann samninganefndar ríkisins heim til föðurhúsanna með svo vitlausa spurningu.

Forystumenn BHM eru álíka ráðvilltir og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sem vonaði að árás á forsætisráðherra dygði til að blása forystumönnum innan ASÍ verkfallsvilja í brjóst. Annað kom í ljós í dag – verkföllum var frestað í fimm daga. Að óreyndur formaður Verslunamannafélags Reykjavíkur ætli að leiða félagsmenn sína í verkfall með aðeins 14% stuðningi þeirra jafngildir ávísun á vantraust og upplausn,

BHM-forystan hefur staðið fyrir skæruhernaði með verkfallsaðgerðum sínum. Þær bitna á þeim sem síst skyldi og valda forystunni sjálfri nú sívaxandi vandræðum.

Almannatengsl inn á fréttastofu ríkisútvarpsins og reiðilestur yfir forsætisráðherra leysa ekki kjaradeilu BHM. Skynsamlegt skref  til lausnar er að flytja stjórn verkfallsins af skrifstofu Samfylkingarinnar.

Senda grein

 

Sunnudagur 24. 05. 15

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, situr undir vaxandi ámæli innan eigin raða vegna þess hve sundurlyndi er þar mikið. Skortur er á samstöðu. Forystumenn einstakra félaga eða sambanda vilja leysa málin fyrir sinn hóp í stað þess að leiða hann út í verkfall. Innan Verslunarmannafélags Reykjavíkur vilja til dæmis aðeins 14% að stofnað sé til verkfalls til að knýja á um kjarasamninga. Þar situr óreyndur formaður sem sveiflast hefur í yfirlýsingum sínum um hvort stefni í rétta eða ranga átt í kjaraviðræðunum.

Hina sundruðu stöðu í baklandi ASÍ-forystunnar verður að hafa í huga þegar Gylfi sækir fram á völlinn í fréttum ríkisútvarpsins klukkan 18.00 sunnudaginn 24. maí og ræðst á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fyrir „að magna fram einhver mestu verkföll sem hér hafa verið í nær 40 ár“, hvorki meira né minna. Þá sýnist Gylfa „á öllu að honum [Sigmundi Davíð] takist að gera það ef hann heldur svona áfram“.

Hvað gerði Sigmundur Davíð? Hann kaus að hafa vaðið fyrir neðan sig og sagði í útvarpssamtali sunnudaginn 24. maí að leiddu kjarasamningar til aukins kostnaðar ríkissjóðs vegna verðbólgu þýddi það „einfaldlega“ að ríkið þyrfti meiri tekjur auk þess sem ríkið yrði að leitast við að slá á verðbólgu en ekki ýta undir hana.

Þetta var orðað á þann veg í fréttum ríkisútvarpsins að forsætisráðherra teldi koma til greina „að hækka skatta á almenning ef kjarasamningum lyki með miklum launahækkunum og verðbólga fylgdi í kjölfarið“. Allt eru þetta alkunn sannindi sem ættu síst af öllu að koma forseta ASÍ í opna skjöldu.  Hann sagði hins vegar „fáheyrt að forsætisráðherra hóti fólki skattahækkunum, fylgi það eftir sínum hagsmunum, tveimur dögum áður en víðtök verkföll hefjist“. Gylfi sagði orðrétt: „Ég held að þetta hafi ekki gerst hér á Íslandi í marga marga áratugi og ég skil ekki hvers vegna forsætisráðherra er að gera þetta.“

Vissulega er vandasamt fyrir forsætisráðherra, hver sem hann er, að sigla á milli skers og báru á tíma eins og nú ríkir. Líklega er skynsamlegast fyrir Sigmund Davíð að segja sem minnst opinberlega um kjaramál á þessum viðkvæma tíma. Að ráðast á ráðherrann á þann veg sem forseti ASÍ gerði er hins vegar út í hött og skýrist aðeins af veikri stöðu Gylfa Arnbjörnssonar.

 

 

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason