Dagbókin

Laugardagur 20. o9. 14

Viðtal mitt við Daða Kolbeinsson óbóleikara um sjálfstæðisatkvæðagreiðsluna í Skotlandi sem birtist á ÍNN miðvikudaginn 17. september er komið á netið og má sjá það hér.

Sjötta og lokagrein mín um skosku atkvæðagreiðsluna birtist í Morgunblaðinu í dag. Spá þeirra sem sögðu að í Westminster mundu menn taka að deila um hvernig færa ætti meiri völd til Skota hefur ræst. David Cameron, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, vill hraðferð við gerð lagafrumvarps sem kynnt verði í janúar. Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, vill fara sér hægar. Hann á þó mikilla hagsmuna í gæta í Skotlandi og þar líta menn á allan hægagang við gerð tillagna um aukna heimastjórn Skota sem svik.

Gordon Brown er þingmaður fyrir Skota og hann segir að tafarlaust verði að kynna tillögur um aukna heimastjórn. Greinilegur ágreiningur er í áherslum forystumanna Verkamannaflokksins. Íhaldsmenn telja sér í hag að ýta undir hann. Stjórnmálabaráttan hefur tekið á sig hefðbundinn svip í Bretlandi.

Í dag var Doors Open Day í Glasgow. Þá er almenningi frjálst að skoða ýmsar byggingar sem annars eru lokaðar. Við fórum á nokkra slíka staði. Til dæmis í höfuðstöðvar Clydeport sem eru við ána Clyde en höfnin í Glasgow má muna sinn fífil fegri. Hún var áður lífæð borgarinnar og fyrir kol og járngrýti auk þess miklar skipasmíðastöðvar voru við Clyde. Um allt þetta mátti fræðast í hinum gömlu höfuðstöðvum Clydeport sem nú hafa verið friðaðar og hafa að geyma minjar um glæsileika og mikið ríkidæmi.

Dómhúsið Glasgow sem hýsir High Court var einnig opið og var almenningi frjálst að ganga um nokkra dómsali en þeir eru fjölmargir í húsinu. Þar skammt frá er gamli fiskmarkaður borgarinnar sem kallast nú The Briggait og hýsir listasmiðjur. Kirkjunni St. Andrews in the Square hefur verið breytt í menningar- og veitingahús. Í stað kirkjubekkja innan dyra var  slegið upp borðum fyrir brúðkaupsveislu.

Gamla dómkirkjan The Cathedral á rætur allt aftur til 1197 og hún hefur verið miðstöð kristinnar tilbeiðslu í borginni allt frá dögum St. Kentigern sem talinn er hafa lagt grunn að Glasgow. Sagt er að hún sé glæsilegasta bygging í Skotlandi frá 13. öld.

Senda grein

 

Föstudagur 19. 09. 14

Skotar ákváðu að verða áfram í Sameinaða konungdæminu í atkvæðagreiðslunni í gær. Ég spáði þessu í fimmtu grein minni um kosningarnar sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hinn þögli meirihluti vildi ekki breytingu. Bretland mun engu að síður breytast. Á morgun birtist lokagrein mín um kosningarnar í blaðinu.

Það hefur verið ánægjuleg reynsla að vera svona nálægt þessum sögulegu kosningum í Skotlandi og fá tækifæri til að rifja upp störf blaðamannsins. Gjörbylting hefur orðið í þessum störfum með innleiðingu byltingarinnar með upplýsingatækninni. Það er eins og að bera saman dag og nótt að safna efni og koma því frá sér nú á tímum miðað við það sem áður var.

Ég hef fylgst með sjónvarpsstöðinni BBC News og dáist að framsetningu hennar á þessum stórviðburði og samskiptum fréttamanna og stjórnmálamanna. Stjórnmálamenn gefa yfirlýsingar sínar án þess að vera síðan hundeltir af fréttamönnum með hljóðnemana á lofti. Þeir svara spurningum á blaðamannafundum eða koma í undirbúin viðtöl.

Reynslumiklir fréttamenn BBC tala síðan beint til áhorfenda og draga heildarmynd af því gerst hefur. Þá hefur Brian Cox leikari verið viðmælandi BBC fyrir hönd já-manna í Edinborg í allan dag. Hann er frá Dundee, einu af fjórum kjördæmum af 32 þar sem já-menn sigruðu í gær og hagar orðum sínum á þann veg að rói skoðanasystkini sín. Hann telur að Alex Salmond segi af sér sem forsætisráðherra Skotlands og leiðtogi þjóðernissinna til að leiða samningaviðræður við ráðamenn í Westminster í London um meiri heimastjórn Skota.

Hjá BBC hefur örugglega verið efnt til sérstaks fundar og jafnvel æfingar með öllum lykilfréttamönnum um hver umgjörð frásagna þeirra yrði, sérstaklega hefðu Skotar slitið tengslin við Sameinaða konungdæmið. Þeir yrðu að gæta þess að láta ekki eigin tilfinngar ná tökum á sér!

 

 

Senda grein

 

Fimmtudagur 18. 09. 14

Nú er þáttur minn á ÍNN frá 10. september þar sem ég ræði við Þóru Halldórsdóttur um qi gong kominn á netið og má sjá hann hér. 

Í dag birtist fjórða grein mín um sjálfstæðiskosningarnar í Skotlandi í Morgunblaðinu. Í dag ráðast úrslitin um framtíð Skotlands.

Í bresku blöðunum í dag má sjá ægifagra mynd frá Íslandi þar sem norðurljós speglast á einstæðan hátt í jökullóni. Myndin er birt vegna þess að James Woodend sem tók hana var tilnefndur Astronomy Photographer of the Year fyrir myndina og er hún nú til sýnis ásamt öðrum myndum í keppninni í Royal Observatory í Greenwich í London.

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason