Dagbókin

Mánudagur 27. 04. 15

Í dag var birt svarbréf frá Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, til Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra. Þar er um að ræða svar við bréfi Gunnars Braga til ráðherraráðs ESB frá 12. mars 2015 um að Ísland sé ekki ESB-umsóknarríki og beri að afmá það sem slíkt af listum ESB.

Rinkevics segir að ráð ESB ætli að „take note of“ - taka mið af afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar og síðan í ljósi bréfsins að skoða „certain further practical adjustments to the EU Council working procedures“ það er frekari praktískar breytingar á vinnureglum ESB-ráðsins.

Í þessu felst í fyrsta lagi viðurkenning á að Ísland sé ekki lengur ESB-umsóknarríki og í öðru lagi að breyta þurfi vinnureglum ESB af því að hér standi ráðherraráðið í fyrsta sinn frami fyrir slíkri ósk.

Síðan kemur þessi setning:

„We would like to confirm the importance that the EU attaches to relations with Iceland which continues to be an important partner for the EU through its participation in the European Economic Area agreement, its membership of the Schengen area as well as through co-operation on Arctic matters.“


Í setningunni felst að ráðherraráðið lítur þannig á að samstarfið við Ísland sé ekki við „candidate“, umsækjanda, heldur við EES- og Schengen-aðildarríki auk þess eigi ESB og Ísland samstarf um norðurslóðamál.

Er unnt að búast við skýrara svari í nafni 28 ríkja að fenginni umsögn framkvæmdastjórnar ESB? Varla.


Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur hefur um árabil skrifað dálk í Fréttablaðið á mánudögum. Í gær skilaði hann, að eigin sögn, dálki sem átti að birtast í dag. Ekki birtist neitt eftir Guðmundar Andra í Fréttablaðinu í dag en á stað hans í blaðinu á mánudögum hafði verið sett grein eftir Jón Ásgeir Jóhannesson, hæstráðanda Fréttablaðsins.

Efni greinarinnar er gamalkunnugt stef Jóns Ásgeirs um að hann sé ofsóttur af íslenska réttarkerfinu. Hann segir: „En af hverju gerist þetta aftur og aftur? Fyrir mér er svarið einfalt – kerfið sér jú um sína – og ver sig með kjafti og klóm.“  Það eru sem sagt kerfislægar ástæður fyrir að Jón Ásgeir er sóttur til saka.

Spurninginn er hvort Guðmundur Andri láti sér líka að duttlungar Jóns Ásgeirs ráði birtingu dálka hans. Skilur hann kannski átroðninginn sem brottrekstur?

 

Senda grein

 

Sunnudagur 26. 04. 15

George Stephanopoulos, fyrrverandi almannatengill fyrir Bill Clinton í Hvíta húsinu, núverandi stjórnandi hjá ABC-sjónvarpsstöðinni á þættinum ABC News´This Week átti í vök að verjast sunnudaginn 26. apríl þegar hann ræddi fjármál Clinton-sjóðsins og Clinton-hjónanna við repúblíkanann Newt Gringrich, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í forsetatíð Bills Clintons og tvo landsþekkta blaðamenn.

Kosningaskrifstofa Hillary Clinton neitaði að senda nokkurn fulltrúa sinn í umræðuþætti helgarinnar til að verja málstað forsetaframbjóðandans gegn þeim ásökunum sem blöð hafa birt úr væntanlegri bók eftir Peter Schweizer, Clinton Cash. Í þætti Stephanopoulos, sem var mjög brugðið við að hafa fengið höfnun frá kosningastjórn Hillary, var Donna Brazile málsvari Demókratasflokksins. Hún reyndi árangurslaust að gera lítið úr væntanlegri bók án þess að hún hefði lesið hana. Lét hún eins og nú væri verið að umskrifa hana vegna leiðréttinga sem birst hefðu í fjölmiðlum.

Newt Gingrich lá ekki á skoðun sinni. Hann telur að leggja eigi fram kæru vegna þess sem fram hefur komið, að minnsta kosti verði að hefja opinbera sakamálarannsókn. Hér sé ekki um pólitískt vandamál að ræða heldur virðingu fyrir bandarísku stjórnarskránni sem banni viðtöku fjár frá erlendum ríkisstjórnum án þess að fyrir liggi skýr heimild Bandaríkjaþings.

Nú liggi fyrir að í landinu hafi setið utanríkisráðherra sem hafi stórhækkað gjaldtöku sína fyrir að flytja ræður og þá megi sjá mörg merki um fólk sem gefið hafi milljónir dollara og hafi einnig í leiðinni þurft aðstoð utanríkisráðuneytisins. Þar sem hún hafi setið í Watergate-nefndinni hafi hún vitað nákvvæmlega hvað þurfti að gera. Hún hafi þurrkað út 33.000 tölvubréf. Richard Nixon hafi aðeins þurrkað út 18 mínútur á spólunum í Hvíta húsinu. Taldi Gingrich að yrði málið lagt fyrir kviðdóm mundi hann líta á það í heild og telja að um stjórnarskrárbrot væri að ræða.

Bloomberg-blaðamennirnir Mark Halperin og John Heilemann réttu Stephanopoulos og Brazile ekki hjálparhönd heldur áréttuðu alvarleika málsins fyrir Clinton-hjónin. Halperin sagði: „.. Þetta er stóralvarlegt. Ímyndið ykkur að aðstoðar-utanríkisráðherra hefði gert sem við vitum að Hillary Clinton – sem við vitum að þau [Clinton-hjónin] gerðu. Hann hefði verið rekinn úr utanríkisráðuneytinu.“

Senda grein

 

Laugardagur 25. 04. 15

Clinton-hjónin í Bandaríkjunum eru vön að vera á milli tanna fjölmiðlamanna í heimalandi sínu og annars staðar. Á það er bent að þau hafi á sínum snerum menn sem eru leiknir í að snúa umræðum um þau á þann veg að skaðinn verði sem minnstur fyrir þau. Það sé stundum gert með því einu að þeir koma fram í fjölmiðlum og segja: „Þetta er nú ekkert nýtt“ og við það eitt fari fjölmiðlamenn einfaldlega að tala um eitthvað annað.

Hillary Clinton stefnir nú í annað sinn að forsetaframboði fyrir Demókrataflokkinn. Hún tapaði árið 2008 prófkjöri fyrir Barack Obama. Prófkjörsbaráttan er hafin og er Hillary í raun eini frambjóðandinn innan flokks demókrata en orðspor hennar og Bills Clintons er kannski helsti andstæðingur hennar. Nú beinist athygli að Clinton-stofnuninni og sjóði á hennar vegum.

Venjulega eru blöð á borð við The New York Times (NYT) og The Washington Post demókrötum hliðholl. Fimmtudaginn 23. apríl reið NYT hins vegar á vaðið með gagnrýninni frásögn úr bók eftir Peter Schweizer sem væntanleg er á næstunni og heitir Clinton Cash og snýr að fjármálasviptingum í tengslum við Clinton-hjónin.

Fréttin í NYT snerist um Clinton-stofnunina, Clinton Foundation, og kaup Rússa á úraníumfyrirtæki. Seljendur gáfu stórfé til Clinton-stofnunarinnar án þess að hún gerði nægilega góða grein fyrir gjöfinni. Salan til Rússa gat ekki gengið eftir nema bandaríska utanríkisráðuneytið gæfi leyfi sitt. Það var gert formlega í nafni utanríkisráðherrans sem var Hillary Clinton á þeim tíma. Hillary segir að hún hafi ekki vitað um þetta málið hafi ekki komið beint til kasta hennar.

Ekki er í sjálfu sér dregið í efa að Hillary hafi ekki komið að afgreiðslu leyfisins í utanríkisráðuneytinu en hún bar pólitíska ábyrgð á henni. Fréttirnar og umræðurnar um þetta mál hafa ýtt undir þá skoðun sem er næsta almenn ef marka má kannanir að ekki sé unnt að treysta henni, hún sé ekki heiðarleg þótt litið sé á hana sem öflugan leiðtoga.

Bandarískir álitsgjafar segja að ekki sé unnt að afgreiða þetta mál með orðunum: „Þetta er nú ekkert nýtt.“

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason