Dagbókin

Mánudagur 02. 03. 15

Úrskurður Persónuverndar vegna miðlunar á upplýsingum um hælisleitandann Tony Omos frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og Útlendingastofnunar til innanríkisráðuneytisins var birtur á vefsíðu stofnunarinnar í dag og má lesa hann hér.  Hvað sem líður hinni opinberu birtingu úrskurðarins hefur hann verið til umræðu síðan föstudaginn 27. febrúar þegar honum var lekið til vefblaðsins Kjarnans um svipað leyti og Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri fékk úrskurðinn í hendur. Kjarninn felldi tafarlaust þann dóm að Sigríður Björk hefði brotið lög en í dag klórar Þórður Snær Júlíusson ritstjóri af nokkrum vanmætti í bakkann til að verja þann dóm blaðsins.

Til fyrirmyndar er hvernig Ólöf Nordal innanríkisráðherra tekur á málinu. Enginn efast um traust hennar í garð Sigríðar Bjarkar og auk þess boðar ráðherrann umbætur að forskrift Persónuverndar.  Hér má heyra útvarpsviðtal við hana. 

Undarlegt var að heyra kynningu á viðtali við ráðherrann á rás 2 þar sem því var enn haldið fram að lögreglustjórinn hefði brotið lög við embættisfærslu sína. Hvergi er þetta orðað á þennan hátt heldur talað um skort á heimildum vegna umgjörðar málsins í ráðuneytinu og embætti lögreglustjórans.

Meðal þeirra mörgu sem hafa blandað sér í umræðurnar um færslur mínar um þetta efni á Facebook er Sigurjón Vigfússon sem sagði frá því að í október 2007 hefði Þórður Sveinsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd, lekið til Þórðar Snæs upplýsingum sem urðu að fréttaefni á mbl.is hinn 10. október 2007 og snertu Alcan og kosningar í Hafnarfirði vegna stækkunar þess.  Segir Sigurjón frá því að vegna þess sem hann bloggaði um málið hefði Þórður Sveinsson hringt í sig í öngum sínum af ótta við að missa starf sitt vegna vinargreiða við Þórð Snæ, félaga sinn.

Sigurjón Vigfússon birtir tengla á netinu máli sínu til stuðnings. Hvað sem gerðist 2007 er ljóst að nú, föstudaginn 27. febrúar 2015, hafa verið stuttar boðleiðir milli Persónuverndar og Kjarnans. Hér má lesa færslu á Facebook þar sem Sigurjón rifjar upp orðaskiptin frá 2007. 

 

 

Senda grein

 

Sunnudagur 01. 03. 15

Vefþjóðviljinn hefur í mörg ár haldið lesendum sínum upplýstum um hve fráleitt var hjá Evrópusambandinu að skylda bíleigendur til að nota endurnýjanlegt eldsneyti í ákveðnu hlutfalli (10%) sem eldsneyti á bíla sína. Á Vefþjóðviljanum í dag segir meðal annars:

„Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra leiddi þessa hörmulegu stefnu í íslensk lög vorið 2013 að frumkvæði fyrirtækisins Carbon Recycling International. Þetta óþarfa lagaboð kostaði Íslendinga um 700 milljónir króna í auknum gjaldeyrisútgjöldum á síðasta ári. Lífolíurnar sem fluttar eru til landsins til uppfyllingar laganna eru miklu dýrari en hefðbundið jarðefnaeldsneyti.“

Það er sérkennilegt að alþingi skuli ekki hafa afmáð lögin sem lýst er hér að ofan og eru hrópandi dæmi um pólitískan rétttrúnað og ofurhollustu við ESB. Birtist þetta gjarnan í því að einhverjir innlendir sérfræðingar nota ESB-löggjöf til að koma eigin gæluverkefnum í framkvæmd. Á það vissulega við í þessu tilviki.

Vefþjóðviljinn vekur athygli á því í dag að fyrir fáeinum dögum hafi umhverfisnefnd ESB-þingsins samþykkt að sett verði 6% þak á notkun matjurta í eldsneyti. Kemur nú fram tillaga um 6% hámark í stað 10% lágmarks eins og nú er í gildi. Í áliti nefndarinnar segir meðal annars:

Notkun akurlendis til ræktunar á lífeldsneyti skerðir það land sem er til ráðstöfunar undir matvælaframleiðslu. Það eykur því líkurnar á því að nýtt land sé brotið undir ræktun matjurta, til dæmis að skógar séu ruddir. Þetta hefur verið nefnt óbein breyting á landnýtingu. Skógareyðing eykur útblástur gróðurhúsalofttegunda og getur þar með vegið á móti þeim ávinningi sem er af notkun lífeldsneytis.“

Ekki eru allir á einu máli um þetta á ESB-þinginu því að þar sitja þingmenn frá landbúnaðarhéruðum þar sem menn tóku að nýta akurlendi sitt í samræmi við 10% regluna og telja sig missa spón úr aski sínum með 6% reglunni.

Það er oft vandlifað innan ESB, að Steingrímur J. hafi kallað aukinn kostnað yfir Íslendinga með því að elta ESB og reynast jafnvel kaþólskari en páfinn í kröfum um lífeldsneyti er í samræmi annað sem honum fór illa úr hendi sem ráðherra. Hið óskiljanlega er að dýrkeypt axarsköft hans skuli enn við lýði.

Senda grein

 

Laugardagur 28. 02. 15

Eftir að fjölmiðlamenn kynntu sér efni úrskurðar persónuverndar vegna sendingar frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum til innanríkisráðuneytisins vegna hælisleitendans Tonys Omos hafa stjórnendur þeirra áttað sig á að þeir fóru offari í gær þegar þeir fetuðu í fótspor Kjarnans með yfirlýsingum um að Sigríður Björk Guðjónsdóttir hefði gerst sek um lögbrot. Allt annar tónn er í fjölmiðlum um málið í dag enda dettur líklega engum í hug að víkja eigi lögreglustjóra úr embætti vegna þess að mál sem hann sinnti að ósk aðstoðarmanns ráðherra var ekki skráð í málaskrá innanríkisráðuneytisins.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins segir í dag:

„Íslensk Persónuvernd tók í undarlegheitum að skipta sér af málum, sem hún taldi, að uppsprottin nýtíska í furstadæmum eftirlitanna krefðist að hún gerði. Verndin hefur nú skilað áliti, sem engu breytir til eða frá, frekar en frumhlaup Umboðsmanns Alþingis, sem einnig álpaðist á þennan kattarstíg nýtískunnar fyrir skömmu.

Persónuvernd virðist byggja á þeirri túlkun að sé eitthvað ekki beinlínis leyft þá sé það þar með bannað. Það stendur þó hvergi í stjórnarskránni, sem ein gæti skipað fyrir um þvílíka reglu, svo gilt væri. Ef Persónuvernd hefur þetta leiðarljós upp í framtíðinni hefur hún tryggt sér ærin verkefni.

Það er sumt sem mælir með því, að embætti eins og Umboðsmaður Alþingis og Persónuvernd gætu stöku sinnum fremur verið til gagns en hitt. En verði sjálfhverf athyglisþrá, í bland við óskiljanlega feimni við heilbrigða skynsemi, helsti drifkrafturinn verður gagnsemin sjaldgæf.“

Við þetta er engu að bæta nema því að opinberar eftirlitsstofnanir sem telja sig þurfa að eyða viti, kröftum og fé til að rannsaka það mál sem hér um ræðir á þann hátt sem umboðsmaður og persónuvernd hafa gert geta ekki kvartað undan að biðlistar myndist vegna fjárskorts eða ónógs mannafla.

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason