Dagbókin

Mánudagur 03. 08. 15

Í dag var haldið frá Heiðbláu ströndinni upp í hlíðarnar fyrir ofan Cannes. Nú fer brátt að kvölda í smáþorpinu Cabris. Þaðan sést vítt yfir og segir í bæklingi að á björtum morgni megi sjá til Miðjarðarhafseyjarinnar Korsíku af kirkjutorginu hérna. Við búum við torgið og þar vinna menn í rúmlega 30° hita við að setja upp leiksvið fyrir kvöldið. Líklega getum við fylgst með sýningunni úr glugga gistihússins. Hér um slóðir drekka menn helst kælt, létt rósavín í hitanum. Það er selt fyrir fimm evrur flaskan úr kæli í bakaríinu í Cabris. 

Senda grein

 

Sunnudagur 02. 08. 15

Kom í fyrsta sinn til Cannes og gekk um götur og torg þar sem kvikmyndastjörnunar spranga á hátíðinni miklu. Elsti hluti þessarar 73.000 manna borgar hefur yfir sér nokkurn sjarma.

Járnbrautarteinarnir eru við ströndina, stundum alveg í orðsins fyllstu merkingu. Á sandinum og í sjónum flatmagaði  fjöldi fólks. Ströndin er opin almenningi að langstærstum hluta. Fjölskyldur koma með sólhlíf, handklæði og nesti, helga sér blett fyrir daginn og njóta sólar og sjávar. Eftir að hafa séð þetta frjálsræði skilur maður enn betur en áður reiði almennings yfir að kónginum af Sádí-Arabíu var ráðstafaður strandskiki til einkaráðstöfunar á meðan hann dvelst hér um slóðir með 1.000 manna fylgdarliði, flestir í því búa einmitt í Cannes, megi marka fréttir.

Hér heitir héraðið Côte d´Azur, eða Heiðbláa ströndin. Ber það nafn með rentu. Sjórinn við ströndina er víða heiðblár vegna þess að hvítur botninn skín í gegnum hafið.

Það er mikill misskilningur að Íslendingar eigi ekki almennt góð samskipti við Rússa. Með innlimun Krímskaga í Rússland í trássi við alþjóðalög og hernaði í austurhluta Úkraínu sem leiddi meðal annars til þess að farþegavél með tæplega 300 manns var grandað með rússneskri eldflaug hafa Rússar kallað yfir sig aðgerðir til staðfestingar á fordæmingu. Að sjálfsögðu eiga íslensk stjórnvöld að standa að refsiaðgerðum með öðrum ríkjum.

Þeir sem stunda viðskipti með fisk og aðrar vörur verða að taka mið af pólitískum staðreyndum og laga sig að þeim. Slíkt er auðveldara nú en fyrir 60 árum og ræðst af útsjónarsemi og dugnaði.

 

Senda grein

 

Laugardagur 01. 08. 15

Það tók 20 mínútur og kostaði 1,50 evrur að fara með strætó frá Beaulieu-sur-mer til Monte Carlo í Mónakó, jafnlangt og frá þessum litla strandbæ til Nice, sami vagninn nr. 100 tengir bæinn annars vegar við smáríkið og hins vegar fimmtu stærstu borg Frakklands á eftir París, Lyon, Marseille og Toulouse.

Eftir rúma þrjá tíma á göngu um Mónakó höfðum við skoðað þær byggingar sem vöktu áhuga okkar og tókum þá troðfullan vagninn til baka.

Nú hef ég heimsótt smáríkin þrjú Andorra, Mónakó og San Marínó í Evrópu sem nota auk Vatíkansins öll evru sem lögeyri án þess að vera í ESB.

Ríkin þrjú eiga öll tilveru sína undir sérstakri löggjöf em auðveldar fjármálamönnum að halda í eignir sínar með því að eiga viðskipti innan þeirra. Ef marka má ríkidæmi eftir glæsilegum bílum eða snekkjum er greinilega mikinn auð að finna í Mónakó.

Furstahöllinn minnti helst á hús í Disney-landi. Við gangbraut skammt fyrir neðan hana er nýleg stytta af Rainer fursta sem lést árið 2005.

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason