Dagbókin

Miðvikudagur 22. 10. 14

Í dag ræddi ég við Aðalheiði Héðinsdóttur, forstjóra Kaffitárs, í þætti mínum á ÍNN. Kaffitár var stofnað fyrir 24 árum og hefur áunnið sér góðan sess á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur rekið tvær kaffistofur í flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) á Keflavíkurflugvelli en hefur nú verið gert að loka þeim án þess að fylgt hafi verið viðunandi leikreglum að mati Aðalheiðar.

ISAVIA er rekstraraðili Keflavíkurflugvallar og annarra flugvalla í landinu og reksturinn í FLE er undir handarjaðri ISAVIA, opinbers hlutafélags. Hið einkennilega við ákvarðanir um nýja leigutaka í FLE er leyndarhyggjan sem einkennir viðhorf stjórnenda ISAVIA. Lýsingar á henni minna mig á viðhorf stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur fyrir einum áratug.

Vegna þess hve stjórnendur opinberra fyrirtækja hafa verið tregir til að skýra frá einstökum þáttum varðandi rekstur þeirra var lögum breytt fyrir fáeinum árum til að auka upplýsingaskyldu þeirra. ISAVIA vildi þá sérstöðu sem ekki var samþykkt. Nú neitar fyrirtækið að upplýsa þá sem vildu fá að starfa í FLE og ætlar ekki að verða að óskum þeirra nema hæstiréttur gefi fyrirmæli um það.

Þátturinn með Aðalheiði verður næst á dagskrá klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Hér má sjá þátt minn á ÍNN sem sýndur var í síðustu viku þar sem ég ræddi við Árna Larsson skáld.

Senda grein

 

Þriðjudagur 21. 10. 14

Ramakveinið sem heyrist þegar minnst er á vopnabúnað lögreglunnar er almennt viðbúnað til að tryggja öryggis landsmanna er með nokkrum ólíkindum. Látið er eins og einhver nýlunda felist í því að íslenska lögreglan hafi aðgang að skotvopnum. Svo er auðvitað ekki eins og sagan segir þeim sem vilja kynna sér hana.

Um langt árabil hafði lögreglan til dæmis aðstöðu til æfinga í húsi úti á Seltjarnarnesi þar sem nú er hús golfklúbbsins á nesinu. Á stríðsárunum var efnt til vopnaðra æfinga lögreglumanna á Laugarvatni undir stjórn Agnars Kofoed-Hansens lögreglustjóra.

Fyrir um áratug var ákveðið að breyta skipulagi sérsveitar lögreglunnar til að tryggja að liðsmenn hennar yrðu ávallt til taks með vopn sín á höfuborgarsvæðinu og á Akureyri. Þetta var ekki síst gert til að tryggja öryggi hins almenna lögreglumanns og auka svigrúm hans til að takast á við erfið og hættuleg viðfangsefni. Öryggisleysi lögreglumanna minnkar öryggi hins almenna borgara.

Jón H. Bjartmarz vitnar á mbl.is í dag í skýrslur um stöðu lögreglunnar frá 2012, í ráðherratíð Ögmundar Jónassonar, um að öll embætti lögreglunnar hafi skammbyssur til umráða, nokkur þeirra rifla og haglabyssur. Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hafi haft 28 skamm­byss­ur til umráða á ár­inu 2012 og fimm hagla­byss­ur. Lög­regl­an á Suður­nesj­um hafi einnig haft yfir sjálf­virk­um vopn­um að ráða.

Í illa unnum fréttum og upphrópunum á alþingi og vefsíðum er látið eins og vopn verði látin í alla lögreglubíla. Þetta er ekki rétt. Vopn verða áfram geymd í lögreglustöðvum. Jón H. Bjartmarz segir að ein­stak­ir lög­reglu­stjór­ar  í stórum umdæmum á lands­byggðinni hafi á undan­förn­um árum tekið sjálf­stæða ákvörðun um að hafa vopn í bíl­um. Til skoðunar sé hjá um­rædd­um lög­reglu­stjór­um hvort þeir setji MP5 byss­ur í bíl­ana til viðbót­ar við skamm­byss­ur. Þar sé um að ræða einstaka bíla við sérstakar aðstæður.

Þegar rykið fellur til jarðar núna kemur í ljós að um það er að ræða hvort vopn lögreglunnar falli að eðlilegum nútímakröfum eða ekki.

Þegar varðskipið Óðinn kom hingað nýsmíðað til landsins árið 1960 var um borð í því fallbyssa með þessari áletrun: „Artillerimaterielværkstæderne Köbenhavn 1896“. Engum datt í hug að setja slíkt vopn um borð í Þór árið 2011. Fallbyssan í Þór er af gerðinni Bofors 40 MM L60 MK 3, sömu tegundar og fallbyssan um borð í Ægi.

Upphrópanir einstakra álitsgjafa og þingmanna í dag sannar aðeins enn hve frumstæðar umræður þessir menn telja sér sæma að stunda um öryggismál þjóðarinnar. Er tilvijun að þetta upphlaup eigi upptök í DV?

 

 

Senda grein

 

Mánudagur 20. 10. 14

Margar kenningar eru um hvers vegna eitthvað sé á sveimi í sænska skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm. Sænsk yfirvöld leita þar að einhverju neðansjávar, flestir telja að um rússneskan kafbát sé að ræða. Hafi Rússar ákveðið að ögra Svíum á þennan hátt svo skömmu eftir að ný ríkisstjórn vinstri flokkanna var mynduð í landinu má ætla að þeir vilji reyna á þolrif hennar og sjá hvernig hún bregst við vegna þess sem líkja má við pólitískt/hernaðarlegt hættuástand.

Á Evrópuvaktinni er birt viðtal (sjá hér) við sænskan herfræðing, Peter Mattsson, sem bendir á að þessum kafbáti sé ekki beint gegn hernaðarlegu skotmarki heldur borgaralegu og pólitísku. Það sé í samræmi við stefnu í hermálum sem rússnesk stjórnvöld hafi mótað síðan 2008.

Stefnan sé meðal annars reist á að nýta allar leiðir til að koma alls kyns upplýsingum á framfæri í gegnum hraðvirka netmiðla til að skilgreina viðbrögð við þeim. Netmiðlar leggi meiri áherslu á tafarlausa birtingu en ígrundun og könnun heimilda. Fréttin sem barst frá Rússlandi í dag um að Hollendingar ættu kafbát í felum í sænska skerjagarðinum er dæmi um nýtingu á fjölmiðlum til að rugla fólk í ríminu.

Dramatískust er sú skoðun annars herfræðings í Svíþjóð, Finnans Tomasar Ries, að sé kafbáturinn rússneskur og komist hann ekki undan sænska hernum bíði aðeins dauðinn áhafnarinnar, henni beri að sökkva eða sprengja kafbátinn til að hann hafni ekki í höndum Svía.

Furðulegust er kenningin um að með því að senda kafbátinn vilji Rússar ögra Svíum á þann veg að þeir þori ekki að halda áfram vangaveltum um aðild að NATO. Auðveldara er að rökstyðja að einmitt grár leikur af þessu tagi auki fylgi við NATO-aðild Svía. Í krafti hennar gætu þeir kallað bandamenn til samstarfs við sig í leitinni að kafbátnum.

Frá Danmörku og Noregi berast fréttir um að þar í landi ráði menn ekki yfir sambærilegum búnaði og Svíar eiga til kafbátaleitar. Danir hafi raunar afskrifað þátttöku sína í öllum kafbátahernaði með því að leggja sínum kafbátum fyrir fullt og allt.

Norðmenn eiga sex kafbáta og hafa mikla reynslu í leit af kafbátum í norskum fjörðum á tíma kalda stríðsins. Á árunum 1960 til 1994 eru skráð 154 tilvik aðeins í Norður-Noregi þar sem talið var að ókunnir kafbátar væru á ferð. Það tókst aldrei að slá því föstu hvaðan þeir komu. Undanfarin ár hafa norskar F-16 orrustuþotur flogið um 40 sinnum ár hvert í veg fyrir rússneskar hervélar.

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason