Dagbókin

Föstudagur 24. 02. 17

Á sínum tíma þótti ekki endilega eðlilegt að sjónvarpað yrði beint frá öllum fundum alþingis. Var meiri áhugi á því meðal þingmanna að tryggja að hlusta mætti á þá beint í útvarpi. Kannað var hvað það kostaði og óx mönnum kostnaðurinn í augum.

Nú er sérstök alþingisrás í sjónvarpi og á tölvum má hvenær sem er hlusta eða horfa á ræður auk þess sem texti þeirra er aðgengilegur á netinu innan skamms tíma frá því að þær eru fluttar.

Virðing alþingis hefur ekki aukist við þessa auknu miðlun og ætla má að sóknin eftir að fá orðið í „frjálsum tíma“ þingmanna sem ber fyrirsagnir eins og Störf þingsins eða Fundarstjórn forseta stafi að verulegu leyti af áhuga og þörf þingmanna fyrir að birtast í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þeir hafa að minnsta kosti ekki alltaf mikið til lands- eða þjóðmála að leggja, miklu frekar er um innbyrðis karp að ræða eins og á dögunum þegar fjöldi þingmanna tók til máls til þess eins að kvarta undan því að aðrir þingmenn hefðu ekki talað í umræðu daginn áður!

Margt bendir til þess að beinu útsendingarnar úr sjónvarpssal hafi ekki aðeins áhrif á hve margir vilja komast að í „frjálsu tímunum“ heldur einnig á hvernig menn haga máli sínu, meira að segja á forsetastóli alþingis.

Fimmtudaginn 23. febrúar tóku tveir þingmenn til máls undir liðnum Fundarstjórn forseta og báðu um að umræðum um næsta þingmál yrði hagað þannig að tekið yrði mið af fundartíma velferðarnefndar þingsins. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sat á forsetastóli. Um viðbrögð hans stendur þetta í þingtíðindum á vefsíðu alþingis:

„Til skýringar, svo alþjóð skilji, hafa þingmenn rætt undir liðnum um fundarstjórn forseta málefnalega gagnrýni á að það sé fundur í nefnd og slíkt og þar af leiðandi skuli ekki halda þingfund.“

Hafi þingsköpum verið breytt á þann veg að þingforseti eða þingmenn tali til alþjóðar er um nýmæli að ræða. Hafi þeim ekki verið breytt gerist forseti þingsins þarna sekur um brot á þingskapalögum með því að beina orðum sínum til alþjóðar.

 

 

Senda grein

 

Fimmtudagur 23. 02. 17

Í gær ræddi ég á ÍNN við Bryndísi Hagan Torfadóttur sem starfað hefur fyrir SAS frá 1. apríl 1970 og þekkir því vel þróun flugmála af eigin raun. Hér má sjá viðtalið.

Breytingarnar í flugumsvifum hér á landi eru svo miklar að í raun er ógjörningur að átta sig á þeim öllum. Árið 2016 fóru 6.821.358 farþegar um Keflavíkurflugvöll sem er 40,4% aukning frá árinu 2015. Í ár spáir Ísavía að farþegarnir verði 8,75 milljónir.

Eðlilegt er að þessi stórauknu umsvif samhliða sprengingu í komu ferðamanna til landsins valdi uppnámi og menn viti ekki til fullnustu hvernig við eigi að bregðast. Minnst er vitneskjan um það líklega innan stjórnkerfisins. Hún er mest hjá þeim sem við greinina starfa. Þeir þurfa að taka sig saman og leggja fram skynsamlega stefnu á borð við það sem gerðist snemma á níunda áratugnum þegar útgerðamenn, undir forystu Kristjáns Ragnarssonar, unnu að því að knýja fram kvótakerfið við fiskveiðar.

Róbert Guðfinnsson, útgerðarmaður, hótelrekandi og athafnamaður á Siglufirði, hefur miðlað af útgerðarreynslu sinni við kynningu á æskilegri framtíðarþróun ferðamála. Hljóta sjónarmið hans hljómgrunn, eða er hann á undan samtíð sinni?

Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og fyrrverandi leiðtogi Danska þjóðarflokksins (DF), er sjötug í dag. Hún stofnaði flokkinn árið 1995 en hafði áður verið í Framfaraflokki Mogens Glistrups. Árið 1999 sagði Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Dana, að Kjærsgaard og flokkur hennar yrði aldrei stueren. Orðið er notað um hunda sem haldið utan við stássstofuna eða jafnvel heimilið. Raunin hefur orðið önnur.

Kjærsgaard og flokkur hennar hafa aldrei átt ráðherra en haft líf margra ríkisstjórna í hendi sér enda hefur hún notið meiri vinsælda danskra kjósenda en flestir samtímamenn hennar í dönskum stjórnmálum. Það er talið til marks um virðinguna sem hún nýtur að enginn gerir athugasemd við að hún býður til afmælisveislu í Kristjánsborgarhöllinni þar sem þingið er.

Poul Nyrup Rasmussen lét skammaryrðið falla vegna stefnu Piu Kjærsgaard í útlendingamálum en einmitt hún hefur verið lykillinn að sterkri stöðu DF í dönskum stjórnmálum. Vilja nú margir innan og utan Danmerkur þá Lilju kveðið hafa. Hún er sögð hrein og bein, hörð af sér í samningum en orð hennar standi eins og stafur á bók. Sem þingforseti leggi hún áherslu á að þingmenn séu trúverðugir í augum almennings og þingmenn sýni hver öðrum virðingu.

 

 

Senda grein

 

Miðvikudagur 22. 02. 17

Í dag ræddi ég við Bryndísi Hagan Torfadóttur, framkvæmdastjóra fyrir SAS á Íslandi, í þætti mínum á ÍNN. Frumsýning kl. 20.00 í kvöld.

Hér var á dögunum minnst á niðurlægjandi skrif Smára McCarthys, þingmanns Pírata úr suðurkjödæmi, um alþingi. Eitt af því sem hann kvartaði undan var að hann gæti ekki sem þingmaður séð til þess að fé fengist til að gera við þakið á Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Eftir að birtur var kafli  úr skrifum mínum á Eyjunni upplýsti Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG úr suðurkjördæmi, þar að í fjárlagavinnu fyrir árið 2017 hefðu þingmenn Suðurkjördæmis raðað niður nokkrum brýnum úrlausnarefnum og beðið þrjá þingmenn í fjárlaganefnd að vinna þeim brautargengi, þar með framlagi til Garðyrkjuskólans og hefðu 70 milljón krónur fengist til brýnustu viðgerða á skólanum.

Segir svo í nefndaráliti 1. minnihluta fjárlaganefndar frá því í desember: „ Í fjórða lagi eru 70 millj. kr. til viðhalds og endurbóta á því húsnæði Landbúnaðarháskólans sem er á Reykjum í Ölfusi. Nefndin væntir þess að í kjölfar endurbótanna verði húsnæðið afhent Ríkiseignum sem innheimti leigu á móti reglulegu viðhaldi með sama hætti og almennt á við um annað húsnæði í eigu ríkisins."

Smári McCarthy er eins og áður sagði þingmaður suðurkjördæmis, megi marka orð Ara Trausta kom hann sem slíkur að því að raða „nokkrum brýnum úrlausnarefnum“ við gerð fjárlaga 2017, þar með viðgerð á Garðyrkjuskólanum sem varð að lögum. Skrif Smára til að rakka niður alþingi verða enn óskiljanlegri þegar þetta er upplýst. Veit hann ekkert hvað gerist á alþingi?

Björn Leví Gunnarsson sat fyrir Pírata í fjárlaganefnd í desember 2016. Lét hann undir höfuð leggjast að upplýsa þing- og flokksbróður sinn um örlög þessa sérstaka áhugamáls hans? Því verður varla trúað eftir að lesin er skammarræðan sem Björn Leví flutti yfir Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra þriðjudaginn 21. febrúar fyrir að hafa ekki sem fjármálaráðherra lagt skýrslu aflandsmál fyrir alþingi fyrir þingkosningar. Þar sagði Björn Leví meðal annars: „Þingmenn verða að krefjast agaðri vinnubragða Alþingis vegna og þjóðarinnar vegna.“

Krafan um öguð vinnubrögð á kannski ekki Björn Leví sjálfan. Í umræðum um aflandsskýrsluna barði Steingrímur J. Sigfússon fast í bjöllunni og hrópaði til Björns Levís: „mætti ég biðja hv. málshefjanda [Björn Leví] að … hætta að gjamma svona fram í alltaf“.

Ekki tók betra við þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Pírati, tók til máls um aflandsskýrsluna. Dylgjur og uppspuni einkenndi hennar mál.

 

 

 

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason