Dagbókin

Sunnudagur 29. 11. 15

Í dag birtust sjónvarpsmyndir af átökum á Place de la République í París milli lögreglu og aðgerðasinna sem vildu draga athygli að málstað sínum vegna loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem er að hefjast í borginni með þátttöku um 40.000 manna. Aðgerðaganga var einnig í London og vafalaust víða annars staðar í heiminum.

Þegar ráðstefna var haldin um þetta mál í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum náðist enginn árangur. Nú segir í útvarpsfréttum að árangursleysið megi ef til vill rekja til þess að leiðtogar ráðstefnuríkjanna sátu hana á lokastigum hennar. Nú komi þeir til fundar í upphafi ráðstefnunnar og lofi það góðu um að niðurstaða hennar verði önnur en í Kaupmannahöfn. Þá kunni hryðjuverkin í París hinn 13. nóvember að stuðla að samkomulagi um loftslagsmál.

Þetta er undarlegur spuni í tilefni af ráðstefnu um mál þar sem til þessa hefur ekki náðst að sameinast um neitt sem skiptir sköpum varðandi viðfangsefnið. Grunur vaknar um að verið sé að búa í haginn fyrir enn eina málamyndarsniðurstöðuna.

Héðan fara til þessa fundar 15 manna nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, þrír framsóknarráðherrar eru í hópnum: forsætisráðherra, utanríkisráðherra og umhverfisráðherra. Reykjavíkurborg sendir tólf fulltrúa á ráðstefnuna, þá verða sex þingmenn í París, fulltrúar frá Akureyrarbæ, Háskóla Íslands, HS Orku, Landsvirkjun, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Orku náttúrunnar ef marka má það sem segir í dag á ruv.is. Þar er ekki minnst á forseta Íslands en einhvers staðar var sagt að hann yrði einnig í París.

Miðað við það sem tíundað er hér að ofan verða að minnsta kosti 40 fulltrúar frá Íslandi á ráðstefnunni í París. Þegar heim kemur verður öllum kappsmál að færa jákvæð rök fyrir þátttöku sinni og mun það setja þann svip á frásögnina af ráðstefnunni að hún hafi skilað góðum árangri. Þannig var til dæmis talað um niðurstöðu Kyoto-ráðstefnunnar um loftslagsmál 1997. Nú sjá menn að Kyoto-ráðstefnan skilaði ekki neinu sem máli skiptir í stóra samhengi hlutanna.

Þeir sem halda að tímasetning þátttöku fyrirmenna í ráðstefnu eða hryðjuverk unnin skömmu fyrir hana skipti sköpum um inntak niðurstöðu sem ætlað að skuldbinda ríki lagalega til að gera ráðstafanir sem tryggja að hlýnun jarðar verði innan við 2° telja greinilega að allt annað ráði afstöðu manna til efnis ráðstefnunnar en málefnaleg afstaða til þess. Til hvers að kalla 40.000 manns til Parísar ef svo er?

 

Senda grein

 

Laugardagur 28. 11. 15

Í dag efndum við til bókakynningar í Hlöðunni að Kvoslæk í samvinnu við bókaútgáfuna Sæmund á Selfossi. Var hún vel sótt og heppnuð.

Tölvuárás var gerð á vef stjórnarráðsins og sendi forsætisráðuneytið frá sér tilkynningu um málið í dag. Þar segir:

„Vefsíðum Stjórnarráðs Íslands var lokað í gærkvöldi í kjölfar álagsárásar sem virðist hafa verið skipulögð erlendis frá. […]

Umrædd árás beindist að netþjónum vefja ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands en engin gögn voru í hættu. Vefirnir innihalda gögn og upplýsingar sem eru þegar aðgengileg almenningi. Vefirnir voru hafðir lokaðir þar til ljóst var að ástandið var komi aftur í eðlilegt horf á tíunda tímanum í morgun. Upplýsingasíður Stjórnarráðsins eru nú komnar aftur í eðlilegt horf og aðgengilegar notendum.“ 

Á ruv.is segir í dag að vefsíðurnar hafi legið niðri í 13 klukkustundir vegna árása á vegum Anonymous. Í yfirlýsingu sem birtist á Youtube í nafni Anonymous 25. nóvember hafi hvalveiðar Íslendinga verið fordæmdar.

Ragnheiður M. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar, sem annast kerfisstjórn fyrir stjórnarráðið sagði að netöryggissveit Póst-og fjarskiptastofnunar hefði verið virkjuð.

Innanríkisráðuneytið hefur kynnt tillögur að lagabreytingum um að efla netöryggissveitina með því meðal annars að færa hana undir ríkislögreglustjóra og þar verði sólarhringsvakt sem nái ekki aðeins til fjarskiptafyrirtækja og stjórnkerfisins heldur að auki til fjármála-, orku- og flugumferðarfyrirtækja. Til þess að mæta kostnaði vegna meiri varna og  tækja verður innheimt sérstakt netöryggisgjald af þeim sem mestan hag hafa að bættum vörnum.

Innan Europol, NATO og annarra alþjóðastofnana er lögð sífellt meiri áhersla á varnir gegn tölvuárásum og hafa ríki vaxandi samstarf á því sviði. Framkvæmd varnanna er þó í höndum einstakra ríkja. Þessi síða mín er vistuð hjá Hugmsiðjunni og þaðan fékk þessa tilkynningu föstudaginn 13. nóvember:

„Töluvert hefur verið um nettruflanir í þessari viku. Upplýsingum hefur verið deilt á internetinu þess efnis að um sé að ræða skipulagðar árásir „Anonymous" hópsins vegna stuðnings Íslands við hvalveiðar. Tæknimenn eru að vinna í því að verjast þessu ástandi og vinna að lausn. Flókið getur verið að verjast svona árásum og erfitt er að vita hversu lengi ástandið varir. Búast má við þjónustutruflunum eða þjónusturofi hjá notendum erlendis. Tilkynningar munu berast um stöðuna eftir atvikum. Við þökkum fyrir sýnda biðlund.“

 Af þessu sést að tölvuárásirnar á Ísland hafa staðið í nokkrar vikur.

 

 

 

 

Senda grein

 

Föstudagur 27. 11. 15

Það er furðulegt að lesa eða heyra allar auglýsingarnar hér á landi sem kenndar eru við Black Friday. Þetta er föstudagurinn eftir Thanksgiving, þakkargjörðardaginn í Bandaríkjunum. Að þessi dagur skuli kalla á útsölur eða verðlækkanir hér á landi er til marks um að alþjóðavæðingin mótast mjög af menningararfi í Bandaríkjunum og hnattrænum áhrifum hans.

Engin ein skýring er á því hvers vegna menn tala um Black Friday. Bent er á að hugtakið hafi fyrst verið notað í Fíladelfíu í Pennsylvaníuríki um umferðaröngþveitið og örtröðina í verslunum eftir frídaginn vegna þakkargjörðarinnar, hafi kaupmenn þá viljað rýma fyrir jólavörunum. Önnur skýring er að verslanir hafi verið reknar með tapi fram að þessum degi en skilað hagnaði komist in the black eftir þakkargjörðina vegna þess að þá hafi jólaverslunin hafist. Hitt er sagt alrangt að þennan dag hafi menn notað til uppboða á svörtum þrælum á tíma þrælahalds í Bandaríkjunum.

Hér skal ekki tekin nein afstaða til þessara skýringa en áréttað hve einkennilegt er að þessi dagur verði dagur mikilla umsvifa í verslun hér undir þessu bandaríska heiti.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fær nýjar bifreiðar með öruggum geymslum fyrir skotvopn og ákveðið er í samræmi við gildandi reglur að nota þessar geymslur til að auka slagkraft lögreglunnar og þar með öryggi borgaranna. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, krefst sérstakrar umræðu um málið á alþingi og segist hafa verið að eltast við innanríkisráðherra á Facebook vegna þess að kvöldi fimmtudags 26. nóvember. Upphlaup Árna Páls sýnir hve langt er seilst til að vekja tortryggni í garð lögreglu og úlfúð um eðlilegar öryggisráðstafanir.

Í fréttum ríkisútvarpsins var skýrt frá því í kvöld að doktor í vinnusálfræði  teldi að fá þyrfti óhlutdrægan aðila til að stuðla að lausn samskiptavanda innan embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Vandinn stafar af því að háttsettir menn innan embættisins sættu sig ekki við að Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð lögreglustjóri. Að þeir gangi fram á þennan hátt er vissulega áhyggjuefni og vonandi tekst þeim sem valinn verður að fá þá til að sætta sig við orðinn hlut. Alkunna er að vanda af þessum toga er oft ekki auðvelt að leysa.

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason