Dagbókin

Fimmtudagur 20. 10. 16

Vegna þess hve augljóst var að Kastljósi gærkvöldsins var beint gegn Sjálfstæðisflokknum aðeins 10 dögum fyrir kosningar setti ég þennan texta inn á síðu mína á Facbook

„Kastljós safnaði í kosningasarpinn í von um að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og gerði tilraun til þess 10 dögum fyrir kosningar með því að birta átta ára gamla frétt um lánið fræga til Kaupþings. Það var veitt með öruggu veði í von um að einn banki lifði. Sagan um hvernig fór fyrir veðinu er athyglisverðari en ákvörðunin um lánið en það passar Kastljósmönnum ekki að segja þá sögu frekar en þeir vilja ekki segja söguna um leynilega einkavæðingu Steingríms J. á bönkunum til kröfuhafanna.“

Viðbrögðin voru mikil og þeim er ekki lokið. Jafnt þeir sem hrósa Kastljósmönnum og hinir sem gagnrýna þá eru sammála um að hér hafi verið um flokkspólitíska aðgerð gegn Sjálfstæðisflokknum að ræða.

Frásögnin og sérstaklega umgjörð hennar var tilefnislaus þegar litið er á efni málsins.

Í fyrsta lagi var upplýst fyrir löngu að Geir H. Haarde forsætisráðherra og Davíð Oddsson seðlabankastjóri ræddu saman í síma um hvort veita ætti Kaupþingi neyðarlán með veði í dönskum banka í von um að bjarga mætti einum íslenskum banka í hruninu. Vonin brást.

Í öðru lagi vaf vitað að Geir H. Haarde vissi ekki að símtal hans og Davíðs var hljóðritað. Hann hefur þess vegna neitað birtingu þess í krafti réttar síns í því efni. 

Í þriðja lagi var sagt frá því að starfsmaður seðlabankans hefði brotið trúnað með því að ræða við konu sína, lögfræðing hjá samtökum fjármálafyrirtækja, vinnu við gerð neyðarlaganna.

Allir þættir þessara mála hafa sætt rannsókn nefndar á vegum alþingis, sérstaks saksóknara og fyrir Landsdómi. Að málið var tekið upp í Kastljósi núna má auðveldlega flokka undir einhliða áróður á örlagastund fyrir kosningar. Dómgreindarleysi eða bíræfni þeirra sem standa að þessari beitingu opinbers fjölmiðlavalds er augljós. 

Í frásögninni var stuðst við gögn eftir skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara frá árinu 2012 yfir starfsmanni seðlabankans. Einhver hefur lekið þessu trúnaðarskjali og framið með því lögbrot. Þegar heimasömdu minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos var lekið úr innanríkisráðuneytinu fór allt á annan endann. Verður jafnræðisregla brotin með aðgerðarleysi opinberra yfirvalda vegna lekans nú?

 

Senda grein

 

Miðvikudagur 19. 10. 16

Í dag ræddi ég við Bryndísi Haraldsdóttur, formann bæjarráðs Mosfellsbæjar og frambjóðanda í 2. sæti Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld.

Össur Skarphéðinsson var fulltrúi Samfylkingarinnar í sjónvarpsumræðum fulltrúa stjórnmálaflokkanna um Ísland og umheiminn þriðjudaginn 18. október. Össur hætti ESB-viðræðunum í janúar 2013 af því að ekkert hafði miðað við afgreiðslu sjávarútvegskafla þeirra frá því í mars 2011. Það hafði meira að segja engin áhrif á ESB að Jón Bjarnason (VG) var rekinn úr ríkisstjórninni 31. desember 2011og sjálfur Steingrímur J. Sigfússon tók við af honum og brá sér til Brussel í ársbyrjun 2012. Nú vill Össur hefja viðræðurnar að nýju meðal annars með þessum rökum sem hann kynnti í sjónvarpsumræðunum. Össur sagði:

„Þá [snemma árs 2013] lá það fyrir nokkuð vel að við vorum að ná landi í nokkrum mikilvægum málaflokkum. Ég nefni sérstaklega þá sem voru erfiðastir það er í landbúnaði og sjávarútvegi.

Það var mjög merkilegt að sjá það undir lok kjörtímabilsins síðasta þegar staðgengill sendiherra ESB lýsti afstöðu ESB á opnum fundi og refererað var í fjölmiðlum og sagði það einfaldlega að Íslendingar hefðu meitlað það svo fast sín rök til dæmis í sjávarútvegsmálum að það væri augljóslega niðurstaðan að Íslendingar fengju hér sérstakt fiskveiði stjórnsvæði og það væri augljóslega niðurstaðan að ESB eða Brussel mundi ekki hafa áhrif á úthlutun aflaheimilda. Áður hafði þó komið skýrt fram að ESB hafði engan grundvöll til að fá hér einn sporð í aflaheimildir. Þetta skiptir máli að nota þetta færi á meðan það liggur svona. [...]

Ég tel að Brexit ef af því verður það auki líkurnar á því að okkur takist að ná enn betri samningi en menn hefðu getað vænst áður.“

Þetta eru raun furðuleg ummæli mannsins sem hóf og lauk ESB-aðildarviðræðunum. Hann skildi við málið uppi á skeri en hefur síðan talið sér trú um að best sé að láta eins og það hafi ekki gerst og skútan sé enn á floti. Viðræðurnar hófust á röngu stöðumati og ósannindum um eðli þeirra. Stöðumat Össurar á efni viðræðnanna er enn rangt og að Brexit auðveldi viðræður við staðfestir aðeins óraunsæið.

Senda grein

 

Þriðjudagur 18. 10. 16

 

Hér var í gær vísað til túlkunar Baldurs Þórhallssonar prófessors á útspili Pírata um helgina. Hann taldi það marka merkileg þáttaskil þótt Pírötum mistækist að gera „stjórnarsáttmála“ fyrir kosningar. Frá því að þessi orð prófessorsins og annarra féllu um stjórnarmyndun Pírata fyrir kosningar hefur komið í ljós að eitthvað annað vakir fyrir Pírötum. Smári McCarthy, umboðsmaður Pírata ásamt Birgittu, sagði í samtali við Eyjuna í gær:

„Við erum ekki að tala um kosningabandalag, við erum að tala um að ákveðnir flokkar sameinist um ákveðið samstarf. Það þýðir ekki að þessi flokkar fari saman í stjórn eða eitthvað svoleiðis, það verður síðan að koma í ljós.“

Hér sannast enn að leiðtogar Pírata kjósa að tala út og suður og velja síðan þá skoðun sem þeim finnst henta best hverju sinni. Óvíst er að prófessor Baldur eða aðrir sem tóku að ræða um væntanlegan stjórnarsáttmála Pírata hafi lesið bréfið sem umboðsmenn Pírata sendu öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sunnudaginn 16. október. Þar segir í upphafi:

„Fyrir hönd Pírata óskum við eftir formlegum fundi við þig á næstu dögum til að ræða hugsanlega samvinnufleti fyrir næsta kjörtímabil. Markmið fundarins verður að átta sig á því hvar okkar flokkar geta unnið saman til að greiða leið þingsins strax að loknum kosningum, óháð niðurstöðum kosninga.“

Fyrir utan klaufalegt orðalag er illskiljanlegt við hvað er átt með samstarfi „til að greiða leið þingsins strax að loknum kosningum“.  Hvað gera stjórnmálamenn til að „greiða leið þingsins“?  Getur einhver prófessor skýrt það? Þýðir þetta að gerður skuli stjórnarsáttmáli fyrir kosningar?

Það verður enginn stjórnarsáttmáli gerður fyrir kosningar eins og Birgitta lofaði. Upphlaupið á sunnudag var hrein sýndarmennska eins og annað sem frá henni kemur. Nú dröslast Píratar með þá yfirlýsingu hennar að næsta kjörtímabil verði aðeins níu mánuðir. Um það segir Smári umboðsmaður á Eyjunni:

„Það hefur verið reynt að hengja okkur í tali um að þetta eigi að vera níu mánuðir, það er ekki endilega markmiðið út af fyrir sig. Níu mánuðir væri kannski fínt, kannski væri átján fínt, ég veit það ekki. Bara á meðan við gerum þetta á réttum tíma.“

Þetta er köld kveðja Smára til Birgittu – það hefur enginn reynt að hengja Pírata í tali um níu mánuðina nema sjálf Birgitta. 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason