Dagbókin

Fimmtudagur 03. 09. 15

Viðtal mitt við Reyni Ingibjartsson gönguleiðafræðing á ÍNN í gær er komið á netið og má sjá það hér 

Fyrir mörgum mánuðum var ákveðið að Kenneth Cohen, qi gong meistari, flytti fyrirlestur í kvöld milli 19.00 og 21.00 og misstum við áheyrendur hans af knattspyrnuleik Íslands og Hollands fyrir bragðið en af lýsingum að dæma vann íslenska liðið einstakt afrek. Cohen tók fram að hann væri stundum fenginn til að þjálfa íþróttamenn með qi gong aðferðum sem duga vel þar eins og hvarvetna þar sem þeim er beitt.

Augljóst var af fyrirlestri hans að áhugi lækna á qi gong eykst ár frá ári því að hvers kyns klínískar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum þess að qi gong aðferðum er beitt. Í meginatriðum má skipta aðferðunum í tvennt: (1) það sem hver einstaklingur gerir sjálfur fyrir sjálfan sig með því að læra og stunda æfingarnar; (2) það qi gong meistari gerir með því að beina orku úr höndum sér á skjólstæðing sinn. Allt er nú mælanlegt og augljóst að áhrif eru jákvæð í báðum tilvikum.

Merkilegar eru niðurstöður tilrauna á dýrum þar sem qi gong aðferðum er beitt, jákvæð áhrif þess að beina orku að dýrunum eru mælanleg, oft er mikill munur. Þessar tilraunir skipta miklu því að dýrin átta sig ekki á að orku sé beint að þeim úr lófa eða fingrum manna. Lyfleysur geta haft góð áhrif á mannfólkið séu þær gefnar af læknum sem segja að þeim fylgi lækningamáttur. Þann leik er ekki unnt að leika við mýs eða rottur.

Senda grein

 

Miðvikudagur 02. 09. 15

Í dag ræddi ég við Reyni Ingibjartsson, höfund sex göngubóka, í þætti mínum á ÍNN. Síðasta bók Reynis í þessum flokki kom út snemma sumars, 25 gönguleiðir á Þingvallasvæðinu. Í upphafi samtals okkar gat ég þess að á dögunum birti The Daily Telegraph frétt um að rannsóknir sýndu að 25 mínútna ganga á dag gæti lengt líf manna um allt að sjö árum.

Reynir velur gönguleiðir sínar af kostgæfni og fer síður en svo alltaf troðnar slóðir. Hann kýs einnig frekar að fara eftir örnefnum en gps-hnitum. Samtal okkar má sjá klukkan 20.00 í kvöld á ÍNN og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun, þeir sem hafa flakk Símans geta ákveðið sjálfir hvenær þeir horfa á þáttinn eftir klukkan 20.00.

Í morgun var ég í Morgunútgáfu ríkisútvarpsins kl. 07.30 ásamt Kenneth Cohen, qi gong meistara, og ræddum við um qi gong og fyrirlestur Cohens á morgun kl. 19.00 til 21.00 í húsi SÁÁ Efstaleiti 7. Cohen verður einnig með qi gong námskeið á Kvoslæk í Fljótshlíðinni um helgina, sjá hér. 

Senda grein

 

Þriðjudagur 01. 09. 15

Í morgun klukkan 08.15 ók ég suður í Hafnarfjörð eftir Kringlumýrarbrautinni og var samfelld bílaröð á móti mér, bílar á leið til borgarinnar, allt að gatnamótunum í Engidal, það er í Hafnarfirði. Stundum hef ég farið þessa leið áður um svipað leyti en aldrei séð eins mikla umferð og nú. Forvitnilegt væri að vita hvað menn ætla sér langan tíma til að komast í skóla eða vinnu þegar farin er þess leið uppúr kl. 08.00 á morgnana.

Niðurstaða skoðanakönnunar um fylgi flokkanna var birt í dag á ruv.is:

„Kjörtímabilið er hálfnað og enn má sjá miklar breytingar í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Píratar, sem bætt hafa stöðugt við fylgi sitt frá ársbyrjun, bæta við sig um fjórum prósentustigum frá síðasta mánuði og mælast nú með 36 prósenta fylgi. Það er mesta fylgi sem Píratar hafa mælst með og enginn annar flokkur hefur mælst með viðlíka stuðning á kjörtímabilinu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðeins einu sinni mælst með minna fylgi. Hann mælist nú með 21,6 prósent. Það er um tveimur prósentustigum minna en í síðasta mánuði og minnsti stuðningur sem flokkurinn hefur mælst með síðan í nóvember 2008. Þá mældist hann með einu prósentustigi minna en nú.

Vinstri hreyfingin grænt framboð bætir við sig og mælist með tæplega 12 prósenta fylgi og Framsóknarflokkurinn með um 11 prósent. Samfylkingin tapar þremur prósentustigum og mælist með níu prósent.

Fylgi flokksins hefur ekki mælst minna í 17 ár eða síðan í maí 1998 - ári áður en flokkurinn bauð fyrst fram til Alþingis. Flokkurinn mældist með 9,3 prósent fylgi í könnun sem MMR gerði í byrjun júlí.

Björt framtíð mælist með 4,4 prósent. Það er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með á kjörtímabilinu.

34 prósent kjósenda styðja ríkisstjórnina - það er tveimur prósentustigum minni stuðningur en í síðasta mánuði.“

Þessar tölur sýna fyrst og síðast skort á pólitískri sannfæringu og að stjórnmálamenn skortir skírskotun til kjósenda. Allir flokkar þurfa að gera betur. Þeir feykjast úr einu í annað hvort sem um er að ræða viðskipti við Rússa eða móttaka flóttamanna. Hvar er fasti punkturinn? Ekki hjá Pírötum, samnefnara óvissunnar.

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason