Dagbókin

Mánudagur 01. 09. 14

Miðað við heiftina í umræðunum um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins, hafa vafalaust ýmsir talið víst að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi í ágúst. Í ríkisútvarpinu var í kvöld upplýst að hið gagnstæða hefði gerst. Fylgi flokksins hefði þvert á móti aukist lítillega, það er um 0,5 stig í 28%.

Í umræðunum um lekamálið hefur markvisst verið unnið að því að draga fjöður yfir tilefnið sem að baki því býr. Til að rifja það upp má meðal annars benda á þessa frét í ríkisútvarpinu frá 20. nóvember 2013: http://www.ruv.is/frett/haelisleitandi-grunadur-um-mansal. Hún hefst á þessum orðum:

„Lögreglan leitar enn hælisleitanda sem senda átti úr landi í gær. Útlendingastofnun synjaði manninum um hæli en hann hefur dvalist hér á landi í um tvö ár. Maðurinn er grunaður um aðild að mansali.

Lögmaður mannsins fullyrðir að umbjóðandi sinni, Tony Omos eigi von á barni með nígerískri konu hér á landi og því ætti ekki að stía þeim í sundur. Konan er ein af níu nígerískum konum sem hingað komu fyrir um einu og hálfu ári. Nokkrar þeirra voru vanfærar og 7 þeirra dvöldust í Kristínarhúsi, athvarfi fyrir fórnarlömb mansals og fæddust þar þrjú börn.“

Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af leiðtogafundi NATO nú í vikunni og má lesa hann hér.

Senda grein

 

Sunnudagur 31. 08. 14

Þegar Reynir Traustason var blaðamaður á Fréttablaðinu í ársbyrjun 2003 tók hann að sér að birta brot úr fundargerðum stjórnar Baugs sem áttu að sanna þá kenningu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forkólfs Baugs, að Davíð Oddsson, þáv. forsætisráðherra, hefði snemma árs 2002 ætlað að splundra viðskiptaveldi Jóns Ásgeirs og síðan sigað lögreglunni á Jón Ásgeir.  Tilgangur birtingarinnar var tvíþættur: (1) að sanna að Jón Ásgeir væri saklaus en ofsóttur af lögreglu vegna óvildar forsætisráðherra og (2) að leggja Samfylkingunni lið í baráttu hennar gegn Davíð Oddssyni vegna þingkosninga nokkrum vikum eftir birtingu fundargerðarbrotanna.

Ýmsum þótti forvitnilegt að vita hvernig rannsóknarblaðamaðurinn og fréttahaukurinn Reynir Traustson hefði komist yfir þessar fundargerðir eða hver hefði lekið þeim í hann. Reynir var þögull sem gröfin og sagðist standa vörð um heimildarmenn sína í þessu máli sem öðrum.

Síðar fengust svör við öllum spurningum um þetta: Í ljós kom að Jón Ásgeir átti Fréttablaðið en kaus að halda því leyndu. Rannsóknarblaðamaðurinn var ekki annað en handlangari fyrir eiganda blaðsins og lagði sig fram um að rétta hlut hans á kostnað forsætisráðherra.

Nú situr Reynir Traustason undir ámæli fyrir hvernig hann aflaði fjár sem eigandi og ritstjóri DV til að halda blaðinu úti þrátt fyrir stöðugan taprekstur árum saman. Hann segir á Facebook-síðu sinni 31. ágúst:

„Á undanförnum árum hef ég lagt undir allt sem ég gat til að halda DV á floti […] er rétt að taka fram að blaðamenn DV hafa ekki haft hugmynd um persónuleg fjármál mín. Ég hef reyndar talið æskilegt að svo væri ekki.“

Eitt er að blaðamenn DV vissu ekki fyrir hverja þeir unnu frekar en blaðamenn Fréttablaðsins í tæpt ár þegar eignarhaldi Jóns Ásgeirs var haldið leyndu. Annað er að í ljós hefur komið að Reynir hélt fjármálasviptingum sínum einnig leyndum fyrir öðrum eigendum DV ehf.

Þegar einn stjórnarmanna í DV ehf. óskar með yfirlýsingu 31. ágúst á Eyjunni eftir óháðri úttekt á fjárreiðum og rekstri félagsins stígur Jón Trausti Reynisson, sonur ritstjórans og framkvæmdastjóri DV ehf., fram með athugasemd á Eyjunni og segir stjórnarmanninn „grípa til þess ráðs að gera fyrirtækið og starfsmenn þess tortryggilega til að rétta eigin hlut í umræðunni“.

Ljúki þessum dapurlega farsa á þann veg að þeir feðgar stjórni DV ehf. áfram er lágmarkskrafa að þeir upplýsi hver fjármagni þá á framhaldsaðalfundinum föstudaginn 5. september 2014.

Senda grein

 

Laugardagur 30. 08. 14

Þegar DV er í lamasessi vegna hjaðningavíga í eigendahópi blaðsins og frétta af ótrúlegri framgöngu Reynis Traustasonar ritstjóra tekur fréttastofa ríkisútvarpsins að sér að halda lífi í lekamálinu. Í kvöldfréttum sjónvarps var sagt að einhverjir ónafngreindir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu fyllst efasemdum um framtíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í ráðherrastóli og á þingi vegna frásagna í bréfi umboðsmanns alþingis af samtali hans við Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um tvo fundi lögreglustjórans með Hönnu Birnu þar sem lögreglurannsókn vegna lekamálsins bar á góma.

Bréf umboðsmanns er 23 bls. að lengd og er þetta þriðja bréf hans til innanríkisráðherra eftir að umboðsmaður ákvað að eigin frumkvæði að kanna samskipti þeirra Hönnu Birnu og Stefáns Eiríkssonar. Umboðsmaður hóf athugun sína eftir að samskiptin voru komin í hámæli vegna leka um þau úr stjórnkerfinu. Ekki kemur fram að umboðsmaður sé að kanna þann leka heldur hvort farið hafi verið að reglum, lögbundnum og óskráðum, í samskiptum ráðherrans og lögreglustjórans í máli sem var hvorki formlega til úrlausnar í innanríkisráðuneytinu né á forræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Af hinu langa bréfi umboðsmanns má ráða að hann leggur lykkju á leið sína til að rökstyðja aðkomu sína að málinu. Fyrir hefur komið að umboðsmaður smíðar reglu sem öðrum var áður ókunn til að koma með aðfinnslur við ráðherra. Hér sýnist hann ætla að teygja sig langt vaki fyrir honum að skrifa skýrslu til alþingis um þetta mál og hlut Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í því. Stjórnarandstaðan býst greinilega við að hún fái þar efnivið til að magna andstöðu við Hönnu Birnu. Píratar hafa frestað eða fallið frá áformum um vantraust á Hönnu Birnu og Ögmundur Jónasson, formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar, ætlar ekki að setja málið á dagskrá nefndarinnar fyrr en að fenginni niðurstöðu umboðsmanns. Spurning er hvort þingmennirnir hafi á bakvið tjöldin fengið ábendingu frá umboðsmanni um að bíða.

Í hinu langa bréfi umboðsmanns kemur fram að ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins hafði samband við ríkissaksóknara til að forvitnast um gang rannsóknarinnar. Ríkissaksóknari sagði ráðuneytisstjóranum að honum kæmi þetta ekkert við og skyldi ekki spyrja sig neins. Segir umboðsmaður að hann sjái ekki ástæðu til að fjalla frekar um þessi samskipti. Spurning vaknar hvers vegna Stefán Eiríksson sagði ekki hið sama við Hönnu Birnu. – Hún spurði hvort honum þætti óþægilegt að hún forvitnaðist um gang málsins eða léti í ljós álit sitt á því. Lögreglustjórinn hefði getað sagt já, hún ætti ekki að ræða málið við sig. Hann gerði það ekki enda leit hann réttilega þannig á að málið væri ekki á sínu forræði heldur ríkissaksóknara.

 

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason