Dagbókin

Þriðjudagur 28. 06. 16

 

Paul Hayward, aðal-íþróttafréttamaður The Daily Telegraph, var í Nice að kvöldi mánudagsins 27. júní og fylgdist með karlalandsliði Íslands sigra landslið Englands 2:1 og binda þar með enda á þátttöku Englendinga í EM 2016. Hann skrifar grein í blað sitt í dag og hefst hún á þessum orðum:

„England: a country where governments crumble, markets collapse and the nation's football team loses a European Championship game to Iceland.

In the event of England's exit from Euro 2016, an obvious headline had been laid out: ‘Go in the name of cod, go' – aimed at Roy Hodgson. But there is no need to run it. Hodgson's reign as England manager was beyond untenable from the moment Iceland erupted in celebration and he quit without taking questions.

Iceland deserved every second, every laugh and kiss of the post-match cavorting. But their amazing achievement in earning a quarter-final against France cannot disguise the reality that this was England's most humiliating night in international football: far worse than the 1950 World Cup defeat to the USA in Belo Horizonte.“

Amy Lawrence, íþróttafréttamaður The Guardian,  hefur grein sína um örlög enska liðsins á þessum orðum:

 „Takk fyrir Island. Thank you Iceland. Thank you for Gudmundur Benediktsson's epic falsetto commentary, for bringing one-tenth of the population to France to take part in this odyssey, for making Cristiano Ronaldo uppity and reminding the rest of us of the essential valour of the little guy's right to his aspirations, for competing so fearlessly to defeat England, for blowing our minds. Thank you for your co-manager's other job in dentistry, your class and determination in searching for a first win at a major finals, your exemplary coaching system, your comradeship within the team, your inspired hothousing of young talent in a weather-beaten place. Thank you for showing us imaginative ways of doing things can bring extraordinary achievements.“

Ég geri enga tilraun til að snara þessum lofsamlegu ummælum á íslensku. Líklega hafa aldrei fleiri lesið um Ísland í enskum blöðum en núna. Ógjörningur er að átta sig á endanlegum áhrifum hinnar glæsilegu frammistöðu strákanna okkar.

 

.

Senda grein

 

Mánudagur 27. 06. 16

Tvískinnungurinn innan borgarstjórnar Reykjavíkur undir forsæti Sóleyjar Tómasdóttur (VG) er yfirþyrmandi. Sóley er að vísu á leið úr borgarstjórn af persónulegum aðstæðum. Hún hverfur þaðan í skugga álits umboðsmanns borgarbúa frá 3. júní 2016 um ráðstöfun hennar á fjármunum Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar til samtakanna Miðborgarinnar okkar.

Jakob Frímann Magnússon er framkvæmdastjóri samtakanna sem kynna sig á þann veg að þau séu samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni. Samstarfsaðilarnir séu m.a. Reykjavíkurborg, Bílastæðasjóður, Leigufélag Íslands og fjölmargir aðilar sem vilji stuðla að eflingu miðborgarinnar sem miðstöðvar verslunar, þjónustu og menningar.

Sóley Tómasdóttir og Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi pírata, sátu  í stjórn Bílastæðasjóðs þegar hún tók ákvörðun um stuðning við Miðborgina okkar á þann hátt sem umboðsmaður borgarbúa telur óheimilan, hafi ákvörðun þeirra verið „verulega ámælisverð“ og þau hafi verið „grandsöm um ólögmæti“ þess sem þau gerðu, það er þeim hafi átt að vita að þau brutu gegn lögum með ákvörðun sinni.

Sóley Tómasdóttir og Halldór Auðar Svansson sitja í forsætisnefnd borgarstjórnar og bókuðu á fundi hennar 16. júní 2016:

 „Ekki er [...] hægt að fallast á að þeir kjörnu fulltrúar sem áttu hlut að ákvarðanatökunni, sem er tímabundin ráðstöfun sem ætlað er að draga úr óvissu í málaflokknum, hafi á nokkurn hátt átt þátt í því að misnota almannafé né hafi farið á svig við siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.“

Að kjörnir fulltrúar álykti á þennan hátt um eigið sakleysi þegar álit umboðsmanns á í hlut er einsdæmi og er aðeins til marks um spillta stjórnarhætti.

Á þessum sama forsætisnefndarfundi var lagt fram svar siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa í framhaldi af birtingu Panama-skjalanna. Þeir sem það mál varðar hafa brugðist við með brottför úr borgarstjórn. Borgarfulltrúar sem ráðstafa fé Bílastæðasjóðs á ólögmætan hátt að mati umboðsmanns borgarbúa sitja hins vegar sem fastast og dæma auk þess um eigin sök!

Vegna komu Halldórs Auðar Svanssonar í borgarstjórn var búið til sérstakt stjórnkerfis- og lýðræðisráð svo að honum yrði tryggð formennska í einu af ráðum borgarstjórnar. Ráðið á einfalda stjórnkerfi borgarinnar, efla lýðræði, vanda samráð, auka aðgang að upplýsingum og efla þjónustu við borgarbúa. Að hafa álit umboðsmanns borgarbúa að engu fellur greinilega einnig undir hlutverk formanns stjórnkerfis- og lýðræðisráðs.

 

Senda grein

 

Sunnudagur 26. 06. 16

Forsetakosningar eru sérkennileg lýðræðisleg æfing sem ég hef jafnan leitt hjá mér fyrir utan að fara á kjörstað. Aldrei hefur sá sem ég kaus náð kjöri en alla forsetana hef ég hitt, allt frá Sveini Björnssyni fram á þennan dag. Ég man eftir forsetaskrifstofunni í Alþingishúsinu, þar varð síðar mötuneyti þingsins og loks fundarherbergi forsætisnefndar og ríkisstjórnar kæmi hún saman til fundar í þinghúsinu eins og gerðist á óróatímanum veturinn 2008 til 2009.

Um nokkurt árabil (1974 til 1979) starfaði ég í sama húsi og Kristján Eldjárn, Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Forsetaskrifstofan var þá þar og sameiginleg kaffistofa okkar embættismanna forsætisráðuneytisins og forsetaskrifstofunnar. Þá mynduðust vináttubönd sem enn halda. Minningar mínar um Kristján eru góðar, virðing hans fyrir embættinu og ábyrgðarkennd var mikil og trúverðug.

Frú Vigdís var forseti þegar ég settist á þing og í ríkisstjórn. Síðan hef ég kynnst henni á öðrum vettvangi og met einstaka ræktarsemi hennar og hollustu við land og þjóð auk einlægs áhuga hennar á að leggja sitt af mörkum til betra samfélags. Ég dáist af orku hennar og úthaldi og veit hve mikillar virðingar og vinsemdar hún nýtur langt út fyrir landsteinana.

Um langt árabil sátum við Ólafur Ragnar saman í öryggismálanefnd forsætisráðherra undir formennsku Björgvins heitins Vilmundarsonar bankastjóra. Fundirnir þar voru oft stormasamir en jafnframt skemmtilegir. Björgvin hafði einstakt lag á að halda þráðunum saman á þann veg að nefndin sendi frá sér fjölmargar skýrslur og breytti umræðunum um öryggismál. Samstarfið í öryggismálanefndinni auðveldaði mér að glíma við Ólaf Ragnar sem andstæðing í utanríkismálanefnd alþingis í hörðum átökum um aðildina að EES.

Eftir að Ólafur Ragnar varð forseti 1996 hitti ég hann oft við opinberar athafnir og á ríkisráðsfundum en við áttum aldrei óformleg samskipti og hef ég verið gagnrýninn á ýmis embættisverk hans. Ólafur Ragnar gegndi mikilvægu og jákvæðu pólitísku hlutverki eftir óheillaskrefið sem hann steig með minnihlutastjórn Jóhönnu og Steingríms J. 1. febrúar 2009. Axarsköft stjórnarinnar urðu til þess að Ólafi Ragnari tókst að ávinna sér traust þjóðarinnar að nýju.

Ég óska Guðna Th. Jóhannessyni til hamingju og velfarnaðar í embætti forseta Íslands. Embættið sjálft skapar þeim sem gegnir því myndugleika. Sagan sannar þó að það þarf mun meira til svo að vel fari.

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason