Dagbókin

Fimmtudagur 25. 08. 16

Samtal mitt við Árna Heimi Ingólfsson tónlistarfræðing er komið á netið og má sjá það hér. Við ræðum bók hans Sögu tónlistarinnar sem er sannkallað stórvirki.

Í hádeginu í dag var opinn fundur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands þar sem Janne Haaland Matlary, prófessor við stjórnmálafræðideild Oslóarháskóla og ráðgjafi norsku ríkisstjórnarinnar í öryggismálum, ræddi um öryggis- og utanríkismál líðandi stundar.

Það er mikill fengur að því að fá fyrirlesara frá Norðurlöndunum hingað til að ræða þessi mál vegna þess hve lítil fræðileg umræða er um þau af hálfu innlendra manna. Þá eru forsendur til slíkra umræðna af innlendri hálfu allt aðrar en norrænna fræðimanna vegna skorts á rannsóknum hér sem unnar eru með aðgang að þekkingu og reynslu herfræðinga eða hermanna.

Matlary prófessor sat í hópi sérfræðinga utan norska stjórnkerfisins sem hafði aðgang að leynilegum trúnaðargögnum hersins og samdi skýrsluna Sameiginlegt átak sem kom út í apríl og snerist um stöðu Noregs í öryggismálum og leiðir til að treysta öryggi lands og þjóðar. Hér má sjá hvað ég sagði um þessa skýrslu í maí 2015. 

Yfirmaður norska heraflans gaf út skýrslu með mati hersins á stöðu öryggismála í október 2015. Norska ríkisstjórnin lagði síðan fram tillögur sínar um varnar- og öryggismálastefnu Noregs 2017 til 2020 17. júní 2016. Eru tillögurnar nú til umræðu og afgreiðslu í norska stórþinginu.

Alþingi samþykkti 24. ágúst frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð. Miklu skipti að samstaða náðist um ályktun alþingis um þjóðaröryggi þar sem viðurkennt er að aðildin að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin eru hornsteinar.

Nú skal skipa þjóðaröryggisráð sem meðal annars skal meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum; stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og beita sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál og eflingu fræðslu og upplýsingagjöf um þau mál.

Forsætisráðuneytið fer með málefni þjóðaröryggisráðs. Nú er þess beðið að það leggi fram áætlun um hvernig unnið skuli að matinu á ástandi og horfum í öryggis- og varnarmálum og öðrum þáttum nýju laganna. Miklu skiptir að traustið sem myndast hefur við afgreiðslu ályktunar og laga um þjóðaröryggismál á alþingi rofni ekki þegar kemur að sjálfri framkvæmdinni.

 

 

 

 

Senda grein

 

Miðvikudagur 24. 08. 16

 

Í dag ræddi ég við Árna Heimi Ingólfsson tónlistarfræðing á ÍNN um bók hans Sögu tónlistarinnar sem kom út sl. vor, mikið og fróðlegt verk. Þátturinn verður frumsýndur kl. 20.00 á rás 20.

Vafalaust er unnt að stunda hluta lögreglu-háskólanáms í fjarnámi. Grunnfærnin til að sinna starfinu af öryggi fyrir sjálfan sig og aðra felst í námi og þjálfun þar sem fjarnám dugar ekki.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að þennan þátt námsins sé best að stunda í aðstöðu sem er á Keflavíkurflugvelli. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að skólinn hafi ráðgert að nýta aðstöðuna þar í tilboði sínu til Ríkiskaupa vegna námsins. Tilboðið fækk hæstu einkunn 9,5 af 10. Menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson valdi hins vegar Háskólann á Akureyri og er gefið til kynna að það hafi verið vegna fjarkennslu.

Hafi byggðasjónarmið að lokum ráðið ákvörðun ráðherrans vó það þyngra en öryggissjónarmið. Ýmis ummæli vegna ákvörðunarinnar má skilja á þann hátt að hún leiði til fjölgunar lögreglumanna á landsbyggðinni. Ekki skal gert lítið úr mikilvægi þess. Öryggisþátturinn vegur líklega þyngra en búseta þegar tekin er ákvörðun um hvort hefja eigi lögreglunám. Sé dregið úr mikilvægi hans minnkar almennur áhugi á að stunda námið.

Ég skrifaði grein í Morgunblaðið föstudaginn 19. ágúst (sjá hér) þar sem ég taldi EFTA/EES-aðild henta Bretum best á leið þeirra út úr ESB. Um svipað leyti og greinin birtist var sagt frá áhuga breskra fésýslumanna á að Bretar gerðu tvíhliða samning við ESB eins og Svisslendingar hefðu gert. Tvíhliða samningar Svisslendinga hafa kallað á slíkan texta-frumskóg að líklega ratar enginn um hann enda skiptist hann í svo mörg hólf að ESB hefur lagt hart að Svisslendingum að taka upp aðra skipan. Þeir neita og komast upp með það vegna þess að land þeirra er eins og tappi sem unnt er að nota til að stífla lífæðar ESB. Eitt er að hluti Breta vilji semja um þetta við ESB annað að ESB taki þetta í mál. – Hafa Bretar sterkari samningsstöðu gagnvart ESB en Svisslendingar?

 

Senda grein

 

Þriðjudagur 23. 08. 16

Spurning er hvort Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra stefnir að formannsframboði í Framsóknarflokknum í krafti þess að hún styðji ekki langtímastefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og boði að leggja fram frumvarp um almannatryggingar og fá það samþykkt á síðustu dögunum fyrir þingrof þótt það hafi ekki enn verið samið að fullu og því síður samþykkt í ríkisstjórn.

Sagt var í hádegisfréttum ríkisútvarpsins að ósamda frumvarpið fæli í sér „verulegar breytingar og hækkanir á lífeyrisgreiðslum ekki síst gagnvart konum sem ekki hafi verið lengi á vinnumarkaði og körlum í láglaunastörfum“. Af orðum Eyglóar í fréttatímanum má ráða að ráðuneyti hennar hafi ekki lokið vinnu sinni við frumvarpið og þá sé hvorki vitað um umsögn forsætisráðuneytisins né fjármálaráðuneytisins. Mátti jafnvel skilja Eygló á þann veg að hún væri ekki viss um hvort umsagnir þessara ráðuneyta bærust. Fjármálaráðuneytinu er þó skylt að leggja fram kostnaðarmat á stjórnarfrumvörpum.

Af efni fréttarinnar má ráða að tilgangur Eyglóar með að ræða þetta mál á þann veg sem hún gerði hafi fyrst og síðast verið að skapa sér áróðursstöðu innan Framsóknarflokksins og gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Sýnir staðan í Framsóknarflokknum hve brýnt er að ganga sem fyrst til kosninga svo að nýtt umboð fáist fyrir nýja ríkisstjórn. Við mat á stöðu ríkisstjórnarinnar verður að leggja mat á vilja beggja stjórnarflokkanna til að standa saman að lausn mála.

Ágreiningur innan Framsóknarflokksins setur svip á þingflokk hans, fundi kjördæmaráða hans og teygir sig nú inn í ríkisstjórnina. Kalt mat á þessari stöðu leiðir til þeirrar niðurstöðu að boða verði til kosninga þar sem flokkunum er veitt nýtt umboð í ljósi þess sem þeir hafa fram að bjóða.

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason