Dagbókin

Mánudagur 02. 05. 16

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er hætt að skýra opinberlega frá því hvað margir mótmælendur safnast saman á Austurvelli sagði í Morgunblaðinu laugardaginn 30. apríl. Þar stóð í grein eftir Benedikt Bóas:

„Talning á bak við áætlaðan fjölda er þó vísindaleg og þegar lögreglan hefur handtalið eftir að mótmælin eru yfirstaðin er hún yfirleitt nærri lagi. Lögreglan ætlar þó að hætta að telja mótmælendur á Austurvelli, en hún varð fyrir töluverðri gagnrýni eftir að hafa gefið upp allt aðra tölu en skipuleggjendur mótmælanna. Lögreglan áætlaði að í kringum 10 þúsund manns hefðu mætt á Austurvöll þann 4. apríl sl. en mótmælendur sögðu að allt að 25 þúsund manns hefðu mætt. Eftir að hafa rýnt í vísindin á bak við talninguna er ljóst að tölur lögreglunnar eru mun nákvæmari.“

Mótmæli geta auðveldlega leitt til annarrar niðurstöðu en að er stefnt. Það mátti að minnsta kosti ætla að varla hefði vakað fyrir þeim sem margfölduðu fjöldann á Austurvelli 4. apríl að hvetja Ólaf Ragnar Grímsson til að bjóða sig fram til setu á Bessastöðum sjötta kjörtímabilið. Hann vitnaði hins vegar til mótmælanna þegar hann sagðist hættur við að hætta á blaðamannafundinum mánudaginn 18. apríl. Taldi hann þau til marks um að hann mætti ekki yfirgefa hið háa embætti sitt.

Í leiðara The Wall Street Journal í dag er vakið máls á því hvort ekki beri að líta á mótmælendurna sem reyna að eyðileggja prófkjörsfundi Donalds Trumps sem laumu-stuðningsmenn hans. Þeir gætu ekki lagt meira af mörkum til að sannfæra milljónir repúblíkana um að greiða Trump atkvæði. Kjósendur fengju að minnsta kosti þá afsökun að gera það ekki til annars en verja mál- og fundafrelsi.

Blaðið segir að vegna prófkjörsins í Kalforníu 7. júní færist mótmælin í aukana. Aðgerðasinnar láti að sér kveða við fundarstaði, trufli umferð, beiti bíla bareflum og kalli ókvæðisorð til stuðningsmanna Trumps. Þeir saki Trump ekki síst um að kynda undir hatri.

Blaðið segir að orðbragð aðgerðasinnanna vekja spurningar um hver ýti í raun undir hatur. Trump og menn hans viti hvaða áhrif ofbeldi mótmælenda hafi á hinn venjulega sjónvarpsáhorfanda. Brot gegn lögum eða ákall til stuðnings ólöglegum innflytjendum kalli á atkvæði fyrir Trump.

 

 

 

Senda grein

 

Sunnudagur 01. 05. 16

Merkilegt er að fylgjast með því hve margir umturnast enn þann dag í dag þegar rætt er um forsætisráðherraferil Davíðs Oddssonar sem hófst 30. apríl 1991 og lauk 15. september 2004. Í tilefni af því að 25 ár voru liðin frá 30. apríl 1991 í gær ritaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor grein í Morgunblaðið þar sem hann lýsti stjórnmálastarfi Davíðs frá sínum sjónarhóli.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, sem af mestu innsæi skýrir hug Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann ræðir óljósum orðum um eigin framtíð gekk svo langt í tilefni af grein Hannesar Hólmsteins að segja á FB-síðu sinni: „Mitt mat (skoðun en ekki vísindi): DO er mesti ógæfumaður Íslandssögunnar í pólitík, Sturla Sighvatsson included ..“

Þessi lýsing á Sturlu birtist í grein eftir Aðalgeir Kristjánsson í Lesbók Morgunblaðsins 12. ágúst árið 2000:

„Sturla Sighvatsson er að sumu leyti persónugervingur Sturlungaaldar. Hann var glæsimenni, en valdagráðugur og yfirgangssamur við aðra höfðingja og hikaði ekki við að ganga á orð og eiða. Saga hans er flétta hagsmunasamninga, vinslita og undirmála eftir því hvernig vindurinn blés.“

Að nefna Davíð Oddsson og telja hann verri en mann sem „hikaði ekki við að ganga á orð og eiða“ eða hagaði seglum eftir vindi til „vinslita og undirmála“ ber vott um heift og vanþekkingu. Margt má segja um Davíð og störf hans, þau eru ekki hafin yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk, að vega að honum sem sviksömum ósannindamanni er hins vegar með öllu ómaklegt.

Til orðaskipta hefur komið í netheimum vegna þessara ummæla Ólafs Þ. Harðarsonar. Hann er nú staddur í Harvard-háskóla. Páll Bragi Kristjónsson segir til dæmis á FB-síðu Ólafs Þ.: „Hvað sem öðru kann að líða, getur sennilega komið til álita, Ólafur Þ. Harðarson, að telja þessi ummæli þín, frá Cambridge MA um fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, vera fyrir neðan þína virðingu og til vansæmdar.“ Ólafur Þ. svarar að bragði: „Soldill stráksskapur. Játa það strax. En má maður það ekki á sjötugsaldri?“

Er það ekki dæmigert að reyna að afgreiða mál sem „stráksskap“ þegar menn verða sér til skammar?  Dugar það fyrir prófessor og virðulegan álitsgjafa ríkisútvarpsins um stjórnmál og kosningar jafnvel þótt hann sé kominn á sjötugsaldur? Annað: Hvers eiga menn á sjötugsaldri eða eldri að gjalda?

Senda grein

 

Laugardagur 30. 04. 16

 

Finnar hafa tengst NATO á ýmsan hátt undanfarin ár og þar hafa verið umræður um aðild að bandalaginu. Til að meta áhrif hugsanlegrar aðildar kallaði finnska  ríkisstjórnin til hóp fjögurra manna, tveggja Finna og tveggja útlendinga. Hann skilaði skýrslu í gær og má lesa hana hér. Einnig er frétt um hana hér.

Í niðurstöðum hópsins er í fáum orðum minnt á hve mjög þarf að vanda umsóknar- og aðildarferli þegar um er að ræða ákvarðanir sem hafa áhrif á framtíðarstöðu þjóða á alþjóðavettvangi. Ekki beri að hrapa að slíkum ákvörðunum. Sé aðildarferli hafið verði tvíhliða skilningur að ríkja um að þar sé um langtíma skuldbindingu að ræða og að ákvörðun um aðildarumsókn kynni að verða erfið vegna ágreinings um málið.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra hennar, hefðu tekið mark á slíkum ráðum og farið eftir þeim þegar ákveðið var að sækja um aðild að Evrópusambandinu á vormánuðum 2009. Þeim gefið þetta ráð af landsfundi sjálfstæðismanna í mars 2009 þar sem samþykkt var að ekki skyldi sótt um aðild að ESB nema fyrst hefði verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Á þetta ráð var ekki hlustað heldur hrapað að umsókn með stuðningi VG sem sagðist andvígt aðild! Aðildarferlið hófst án tvíhliða skilnings ríkisstjórnarinnar og ESB á eðli þess. Logið var til um eðli ferlisins og jafnvel látið eins og um formsatriði væri að ræða sem tæki skamman tíma að kasta aftur fyrir sig. Hvorki fyrr né síðar hefur verið vegið jafnskipulega að trúverðugleika Íslands í alþjóðasamstarfi.

Það er grátbroslegt þegar þeir sem stóðu að sneypuförinni til Brussel og töldu sig geta bæði blekkt Íslendinga og Brusselmenn þykjast nú sérstakir málsvarar orðspors Íslands á alþjóðavettvangi. Þetta eru að meginstofni sömu mennirnir sem töldu að orðsporið mundi glatast ef ekki yrði gengið að Icesave-afarkostum Breta og Hollendinga.

Í gær birti ég grein í Morgunblaðinu þar sem ég ræddi um orðsporið. Má lesa hana hér.

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

Myndasafn



Áskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 



Björn Bjarnason