Dagbókin

Miðvikudagur 01. 04. 15

Í dag ræði ég á ÍNN við Véstein Ólason, prófessor emeritus og fyrrverandi forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, um  tveggja binda verk, Eddukvæði, sem hið Íslenska fornritafélag gaf út á síðasta ári. Vésteinn og Jónas heitinn Kristjánsson sem einnig var forstöðumaður Árnastofununar önnuðust útgáfuna, Vésteinn ritaði um 400 bls. formála en Jónas annaðist frágang á kvæðum og orðskýringar. Næst má sjá þáttinn klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur skilað skýrslu á ensku sem samin er að fyrirlagi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hún snýst um að þrengt skuli að heimild viðskiptabanka til að auka peningamagn í umferð, það er stemma stigu við því sem á íslensku er nefnt brotaforðakerfi, á ensku heitir þetta fractional reserve banking  og er skammstafað FRB.

Hugtakið er til umræðu um þessar mundir vegna bankakreppunnar í Andorra. Þar eru bankar 17 til 20 sinnum stærri en verg landsframleiða (VLF) en voru 10 sinnum stærri hér árið 2008.

Á vefsíðu tímaritsins Forbes er grein eftir Tim Worstall  þar sem hann segir að áhugamenn um brotaforðakerfi ættu að fylgjast náið með framvindu mála í Andorra til að átta sig á afleiðingum brotaforðakerfsins og hvernig tekið er á hruni banka í landi án seðlabanka – sjá hér.

Senda grein

 

Þriðjudagur 31. 03. 15

Í tæp fimm ár hef ég varið nokkrum tíma dag hvern við að afla efnis og skrifa um það á vefsíðuna Evrópuvaktina sem við Styrmir Gunnarsson höfum haldið úti í samvinnu við Friðbjörn Orra Ketilsson frá 27. apríl 2010. Í kvöld tilkynntum við að hlé hefði verið gert á útgáfu síðunnar og má lesa um það hér.

Meðal rakanna sem nefnd eru í tilkynningunni um þáttaskilin varðandi Evrópuvaktina er sú staðreynd að hugsanleg aðild Íslands að ESB sé fjarlægari nú en fyrir 16. júlí 2009 þegar alþingi samþykkti umsóknarályktunina. Umræður liðinna ára hafi leitt í ljós að allur málatilbúnaður aðildarsinna sé hruninn til grunna.

Hvað sem segja má um aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem fékk skýrt umboð í þingkosningunum í apríl 2013 til að hverfa frá umsóknarferlinu hafa árin tvö sem liðin eru nýst til að afhjúpa blekkingarleikinn í samskiptum stjórnvalda Íslands og ESB þegar látið var eins og allt léki í lyndi en í raun strandaði allt í mars 2011 eins og Össur Skarphéðinsson staðfesti í janúar 2013 þegar hann hætti viðræðunum með þeim orðum að hann væri að „hægja á“ þeim.

Eftir að ljóst var að ekki yrði unnt að ræða áfram við ESB án þess að breyta samningsmarkmiðum Íslands í sjávarútvegsmálum breyttu umsóknarflokkarnir, nú í stjórnarandstöðu, um stefnu og í stað kröfunnar um að halda viðræðunum áfram (kíkja í pakkann) hafa þeir kúvent og vilja nú það sem þeir höfnuðu 16. júlí 2009, að ekki verði rætt meira við ESB nema þjóðin samþykki það í atkvæðagreiðslu.

Hið einkennilega við umræðurnar á þessum punkti er að stjórnarandstaðan sætir ekki gagnrýni fyrir að kúvenda og taka upp allt aðra stefnu en hún boðaði fyrir kosningar heldur beinast spjótin að stjórnarflokkunum fyrir að fylgja stefnu sinni – án þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég er þeirrar skoðunar að ESB-aðildarmálið sé svo stórt í sniðum að hvorki stjórnmála- né stjórnkerfið ráði við það. Það er skýr vísbending um hvernig færi fyrir innviðum ríkisins yrði Ísland hluti af Evrópusambandinu.

 

 

Senda grein

 

Mánudagur 30. 03. 15

Í Kastljósi kvöldsins lýsti Sigmar Guðmundsson fjarstöddum manni sem rasista vegna skoðana sem hann hefði kynnt í blaðagrein. Samrýmist þetta lögum um ríkisútvarpið? Framganga Sigmars í þættinum einkenndist af pólitískri rétthugsun og tilraun til að gera lítið úr viðmælanda sínum, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita lista Framsóknarflokksins og flugvallarvina, í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er einkennileg árátta hjá stjórnendum Kastljóss að nauða í fólki til að fá það í þáttinn til þess eins að sýna því í tvo heimana – hitt er þó jafnvel enn einkennilegra að fólk skuli láta sig hafa það að fara í samtal í sjónvarpssal á þessum forsendum.

Þegar ég benti á það fyrir nokkrum árum að hafa mætti evru sem lögeyri án þess að ganga í Evrópusambandið risu ESB-aðildarsinnar til mótmæla og Percy Westerlund, þáv. sendiherra ESB gagnvart Íslandi, blandaði sér í þingkosningabaráttuna árið 2009 og sagði talsmenn Sjálfstæðisflokksins fara með rangt mál þegar þeir kynntu þessa skoðun. Ekkert ríki gæti notað evru á lögmætan hátt nema sem aðili að ESB.

Nú berast fréttir af yfirvofandi bankahruni í smáríkinu Andorra, sjá hér. Meðal þess sem rætt er í þessu sambandi er sú staðreynd að í Andorra er evra lögeyrir án þess að landið sé í ESB. Þetta er ekki í óþökk ESB heldur með samþykki framkvæmdastjórnarinnar með vísan til ákvæða í Lissabon-sáttmálanum. Ákvæðið heimilar þessa skipan – afstaðan til Íslands er pólitísk af hálfu framkvæmdastjórnarinnar. Að lokum eru það hins vegar ákvæðisáttmála ESB sem setja stjórnendum þess skorður. Vilji þeir heimila Íslendingum að nota evru án þess að vera í ESB geta þeir það.

Hér er þetta ekki nefnt til að mæla með einhliða upptöku evru í stað íslensku krónunnar heldur til að vekja athygli á enn einni blekkingunni sem ESB-aðildarsinnar hafa beitt í umræðunum hér landi. Sama er hvar drepið er niður í ESB-málflutningi aðildarsinnar, alls staðar er að finna ríka viðleitni til að beita blekkingum í þágu málstaðarins.

 

 

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason