Dagbókin

Laugardagur 30. 08. 14

Þegar DV er í lamasessi vegna hjaðningavíga í eigendahópi blaðsins og frétta af ótrúlegri framgöngu Reynis Traustasonar ritstjóra tekur fréttastofa ríkisútvarpsins að sér að halda lífi í lekamálinu. Í kvöldfréttum sjónvarps var sagt að einhverjir ónafngreindir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu fyllst efasemdum um framtíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í ráðherrastóli og á þingi vegna frásagna í bréfi umboðsmanns alþingis af samtali hans við Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um tvo fundi lögreglustjórans með Hönnu Birnu þar sem lögreglurannsókn vegna lekamálsins bar á góma.

Bréf umboðsmanns er 23 bls. að lengd og er þetta þriðja bréf hans til innanríkisráðherra eftir að umboðsmaður ákvað að eigin frumkvæði að kanna samskipti þeirra Hönnu Birnu og Stefáns Eiríkssonar. Umboðsmaður hóf athugun sína eftir að samskiptin voru komin í hámæli vegna leka um þau úr stjórnkerfinu. Ekki kemur fram að umboðsmaður sé að kanna þann leka heldur hvort farið hafi verið að reglum, lögbundnum og óskráðum, í samskiptum ráðherrans og lögreglustjórans í máli sem var hvorki formlega til úrlausnar í innanríkisráðuneytinu né á forræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Af hinu langa bréfi umboðsmanns má ráða að hann leggur lykkju á leið sína til að rökstyðja aðkomu sína að málinu. Fyrir hefur komið að umboðsmaður smíðar reglu sem öðrum var áður ókunn til að koma með aðfinnslur við ráðherra. Hér sýnist hann ætla að teygja sig langt vaki fyrir honum að skrifa skýrslu til alþingis um þetta mál og hlut Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í því. Stjórnarandstaðan býst greinilega við að hún fái þar efnivið til að magna andstöðu við Hönnu Birnu. Píratar hafa frestað eða fallið frá áformum um vantraust á Hönnu Birnu og Ögmundur Jónasson, formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar, ætlar ekki að setja málið á dagskrá nefndarinnar fyrr en að fenginni niðurstöðu umboðsmanns. Spurning er hvort þingmennirnir hafi á bakvið tjöldin fengið ábendingu frá umboðsmanni um að bíða.

Í hinu langa bréfi umboðsmanns kemur fram að ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins hafði samband við ríkissaksóknara til að forvitnast um gang rannsóknarinnar. Ríkissaksóknari sagði ráðuneytisstjóranum að honum kæmi þetta ekkert við og skyldi ekki spyrja sig neins. Segir umboðsmaður að hann sjái ekki ástæðu til að fjalla frekar um þessi samskipti. Spurning vaknar hvers vegna Stefán Eiríksson sagði ekki hið sama við Hönnu Birnu. – Hún spurði hvort honum þætti óþægilegt að hún forvitnaðist um gang málsins eða léti í ljós álit sitt á því. Lögreglustjórinn hefði getað sagt já, hún ætti ekki að ræða málið við sig. Hann gerði það ekki enda leit hann réttilega þannig á að málið væri ekki á sínu forræði heldur ríkissaksóknara.

 

 

Senda grein

 

Föstudagur 29. 08. 14

Ástandið í Úkraínu versnar þegar Rússar færa sig stöðugt meira upp á skaftið. Að láta eins og Kremlverjar eigi einhvern rétt til íhlutunar í austurhluta Úkraínu er fráleitt. Margir undrast langlundargeð Angelu Merkel Þýskalandskanslara í garð Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Hún hefur hringt þrisvar í hann í þessum mánuði 15. 22. og 27. ágúst. Hún segist oft ræða við Pútín í síma og vill gera sem minnst úr þessum samtölum en frá símhringingum Merkel er sagt á vefsíðu rússneska forsetaembættisins.

Þau Pútín og Merkel þekkjast vel. Þau eiga auðvelt með að skiptast á skoðunum, hann talar góða þýsku enda gegndi hann stöðu KGB-foringja í Austur-Þýskalandi og Merkel lærði rússnesku þegar hún gekk í skóla í DDR, þýska alþýðulýðveldinu. Blaðamaður Le Monde segir hins vegar að ekki sé kært með þeim. Pútín viti að Merkel sé illa við hunda og einmitt þess vegna hafi hann gjarnan stóra hunda sína við hlið sér þegar þau hittist. Það þjóni þeim eina tilgangi að koma henni úr jafnvægi.

Merkel undrast ekki háttalag Pútíns og hefur sagt:

„Hann endurtekur alltaf setningu sem ég er algjörlega ósammála en lýsir sannfæringu hans […]: að hrun Sovétríkjanna hafi verið mesti harmleikur 20. aldarinnar. […] Þessi setning höfðar alls ekki til okkar.“

Blaðamaður Le Monde veltir fyrir sér hvort Merkel óttist að Pútín vilji endurreisa Sovétríkin, Hún hafi að sjálfsögðu aldrei gefið það til kynna. Þegar hún heimsótti Lettland hinn 18. ágúst flutti hún ræðu og áréttaði að ákvæðið í „5. grein sáttmála NATO um gagnkvæma aðstoð“ kæmi til árásar á eitt aðildarríki NATO væri „ekki aðeins orð á blaði heldur [lýsti] raunverulegum ásetningi“.

Senda grein

 

Fimmtudagur 28. 08. 14

Nú er upplýst að frá 16. ágúst hefur mikil gliðnun orðið neðanjarðar út frá Bárðarbungu. Segir á vefsíðunni ruv.is í dag að GPS mælar norðvestan við bunguna séu nú um 40 sentimetrum frá þeim stað sem þeir voru áður. Sprungan, eða kvikugangurinn, hafi teygt sig í austur og síðan í norður frá Bárðarbungu í átt að Öskju og sé nú orðin yfir 40 kílómetrar að lengd. Kvikumagnið er um 400 milljón rúmmetrar, sem jafngildir því að allt vatnsmagn Þjórsár eða Ölfusár á einum sólarhring hafi bæst við á hverjum degi. 

Veðurstofa Íslands segir að sigdældir suðaustan Bárðarbungu liggi í stefnu suðsuðaustur út frá suðausturhorni Bungunnar. Þær eru um 4,5 km á lengd og um 1 km á breidd. Þær eru um 15-20 m djúpar og markaðar hringsprungum. Lauslega áætlað hafa 30-40 milljónir rúmmetrar íss bráðnað á þessum stað.

Þannig er staðan eftir að jarðhræringarnar hefur borið hæst í fréttum í 12 daga. Um tíma var hættustigið rautt eða „litakóðinn“ eins og það er svo einkennilega orðað í sumum fjölmiðlum. Á því stigi urðu fréttir af gosinu heimsfréttir. Margir óttuðust að truflun yrði á flugi eins og þegar Eyjafjallajökull gaus.

Enginn getur sagt hvort þessari umbrotahrinu sé lokið. Hún sannar aðeins kenninguna um að Ísland er lifandi. Tími án umbrota er í raun aðeins biðtími þar til þau hefjast einhvers staðar að nýju.

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason