Dagbókin

Miðvikudagur 23. 04. 14

Í dag, á degi bókarinnar, ræddi ég við Jóhann Sigurðsson, útgefanda Íslendingasagna, í þætti mínum á ÍNN um útgáfustarf hans sem hefur í um tvo áratugi snúist um heildarútgáfu á 40 Íslendingasögum og 52 þáttum, fyrst á ensku, árið 2000, og nú á dönsku, norsku og sænsku. Þetta er ótrúlegt afrek sem einkennist af hugdirfsku og þrautseigju. Jóhann segir að safnbók Penguins á sögunum hafi selst í rúmlega 300.000 eintökum. Hún er söluhæsta bók til útlendinga hér á landi.

Næst má samtalið við Jóhann kl. 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

 

Senda grein

 

Þriðjudagur 22. 04. 14

Í hádeginu í dag flutti Livia Kohn fyrirlestur í Háskóla Íslands á vegum Konfúsiusarstofnunarinnar og hét hann á ensku Energy Healing: Daoist Cultivation in the Light of Modern Science.

Livia Kohn var prófessor í trúarbragðafræðum við Boston University, hún hefur doktorspróf frá háskólunum í Bonn og Göttingen í Þýskalandi, fæðingarlandi sínu. Hún vann við rannsóknir við Fairbank Center í Harvard-háskóla og hefur stundað rannsóknir á japönskum trúarbrögðum við rannsóknarstofnanir í Kyoto í Japan. Hún er höfundur nokkurra bóka um taóisma, hugleiðslu og tækni til að auka líkur á langlífi.

Fyrirlestur Kohn í dag snerist um tengslin milli taóisma og langlífis en þar kemur qi gong mjög við sögu. Var fróðlegt að fá úr þessari átt og í háskólafyrirlestri staðfestingu á því sem við höfum lært sem iðkum qi gong. Í raun kom ekkert fram sem hróflar við nokkru sem hér hefur verið kennt á vegum Aflsins, félags qigong iðkenda.

Nú eru rúm 40 ár síðan Richard Nixon Bandaríkjaforseti fór til Kína en í tengslum við heimsóknina heimilaði Maó að fjölmiðlamenn frá Bandaríkjunum kynntu sér hefðbundnar kínverskar lækningar, þar skipar nálastunguaðferðin heiðursess en qi gong er náskylt henni. Á þessum 40 árum hafa þessar aðferðir skotið rótum og hlotið mikla útbreiðslu á Vesturlöndum.

Senda grein

 

Mánudagur 21. 04. 14

Umræðurnar um framboðsmál Framsóknarflokksins í Reykjavík hafa svalað þörf fréttastofu ríkisútvarpsins fyrir pólitískum fréttum. Guðni Ágústsson heldur þannig á málum að álykta má að meiri spurn sé eftir honum en framboð. Framsóknarmennirnir í borginni bíða eftir svari hans milli vonar og ótta. Gefi Guðni ekki kost á sér blasir við algjör auðn því að haldið hefur verið á málum á þann eftir að Óskar Bergsson hvarf úr fyrsta sætinu vegna fylgisleysis að öðrum frambjóðendum er nóg boðið.

Í fréttum kvöldsins sagði:

„Kjördæmasamband Framsóknarflokksins í Reykjavík vill að Guðni Ágústsson leiði listann í borginni. Guðni hefur notað páskana til að taka ákvörðun og ætlar að tilkynna hana á sumardaginn fyrsta.“

Verði Guðni ekki í framboði er ólíklegt að Framsóknarflokkurinn komi saman lista í Reykjavík.

Það er eftir öðru að einhver álitsgjafi telur Framsóknarflokknum til framdráttar að yfir páskana hafi daglega verið sagt frá framboðsraunum hans í höfuðborginni. Fyrir kosningar til alþingis fyrir ári ákvað Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flokksformaður að hætta við framboð í Reykjavík af ótta við að ná ekki kjöri vegna fylgisleysis fokksins.

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason