Dagbókin

Laugardagur 25. 03. 17

Í Morgunblaðinuí gær birti ég grein um mikilvægi EES-samningsins og aðildar Íslands að honum, greinina má lesa hér. Þar segir meðal annars að vegna draumanna um aðild að ESB hafi ekki verið lögð nægileg rækt við samninginn. Talsmenn ESB-aðildar gerðu raunar lítið úr gildi samningsins. Meðal þeirra var Jón Steindór Valdimarsson, núv. þingmaður Viðreisnar. Hann hefur skipt um skoðun á gildi EES því að hann sagði í ræðu á alþingi miðvikudaginn 22. mars:

„Samningurinn um EES, þ.e. EES-samningurinn, er langmikilvægasti viðskipta- og samstarfssamningur okkar við önnur ríki. Með honum tengjumst við Evrópusambandinu sterkum böndum ásamt Noregi og Liechtenstein. Það er afar brýnt fyrir hagsmuni okkar að rækta þann samning og sinna af alúð. Sennilega hefur það aldrei verið jafn aðkallandi og einmitt um þessar mundir. Nægir að benda á þróunina í Bandaríkjunum með nýjum forseta og það að Bretland mun hefja viðræður um útgöngu sína úr Evrópusambandinu á næstu mánuðum.“

Það eru ánægjuleg sinnaskipti sem birtast í þessum orðum þingmannsins miðað við neikvæða áróðurinn um EES-samstarfið sem ESB-aðildarsinnar fluttu á svartasta kaflanum í sögu íslenskra utanríkismála.

Fulltrúar 27 ríkja koma saman í Róm í dag til að árétta hollustu sína við Rómarsáttmálann, stofnskrá Evrópusambandsins, sem var undirritaður af fulltrúrum stofnríkjanna sex fyrir réttum 60 árum, 25. mars 1957. Vegna mistaka við sendingu skjala frá Brussel þar sem samið hafði verið um texta sáttmálans voru fulltrúar stofnríkjanna aðeins með fyrstu og lokasíðu sáttmálans í höndunum, meginmálið var enn í Brussel.

Enginn fulltrúi frá Bretlandi er í Róm í dag til að taka þátt í hátíðarhöldunum frekar en enginn breskur fulltrúi var á stofnfundinum. Bretar eru á leið úr ESB og ætlar Theresa May forsætisráðherra að hefja ferlið formlega miðvikudaginn 29. mars.

Í yfirlýsingunni sem ESB-leiðtogarnir rita undir í dag er að finna formlega viðurkenningu á að ríki geta valið hve langt þau ganga á samrunabrautinni undir merkjum sambandsins. Á ensku er þetta kallað multi-speed stefna, það er að allir eru ekki á sama hraða. „Við munum starfa saman, með mismunandi skrefum og krafti sé það nauðsynlegt þótt haldið sé til sömu áttar,“ segir í yfirlýsingunni.

„Marghraða Evrópa er á alls ekki sama og sundruð Evrópa,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari.

 

 

Senda grein

 

Föstudagur 24. 03. 17

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, var gestur minn á ÍNN miðvikudaginn 22. mars eins og sjá má hér.

Fyrir þáttinn bað ég Ásdísi til að taka saman nokkrar skýringamyndir til að auðvelda áhorfendum að átta sig betur en ella á gífurlegum breytingum sem hafa orðið á stöðu íslenska þjóðarbúsins á ótrúlega skömmum tíma. Þessar myndir eru sýndar og ræddar í fyrri hluta þáttarins en í síðari hlutanum ræðum við það sem nú er efst á baugi eftir afnám haftanna og söluna á tæplega 30% hlut í Arion banka.

Ég sagði Ásdísi í samtali okkar fyrir þáttinn að miðað við það sem áður var snúist umræður um efnahagsmál mun minna en þá um almenna stöðu þjóðarbúsins. Sjónarhornið í umræðunum sé mun þrengra en þegar Jóhannes Nordal eða Jónas Haralz lýstu stóru mynd efnahagsmálanna og veltu fyrir sér straumum og stefnum í alþjóðaviðskiptum. Umræður stjórnmálamanna mótuðust einnig af þessari stóru mynd og hvað væri skynsamlegast að gera til að sigla þjóðarskútunni af sem mestu öryggi í gegnum brimskafla og milli skerja svo að notað sé orðalag sem setti svip sinn á ræður þess tíma.

Það er mun bjartara yfir stóru myndinni af þjóðarbúinu sem birtist í samtali okkar Ásdísar en ætla má af daglegum umræðum. Þær mótast mest af kröfugerð á hendur stjórnmálamönnum og opinberum aðilum auk tortryggni, einkum í garð bankakerfisins og ákveðins hóps fé- og kaupsýslumanna.

Undir tortryggnina er ýtt á ýmsan hátt og á stjórnmálavettvangi er leitast við að nýta hana til að sverta einstaka stjórnmálamenn. Vonandi tekst að breyta þessu andrúmslofti og skapa traust. Það er brýnt viðfangsefni.

Kröfugerðarhugarfarið er erfiðara viðfangs en trúnaðarbresturinn og tortryggnin því að kröfur um stórt og smátt eiga í raun jafnan aðgang að fjölmiðlum. Er engu líkara en ekkert umkvörtunarefni í garð opinberra aðila sé svo smátt að ekki þyki ástæða til að gera frétt um það, ekki síst í ríkisútvarpinu. Þetta verður til þess að fréttatímarnir breytast í einskonar kvörtunarvettvang neytenda sem telja sig eiga rétt á einhverju frá opinberum aðilum.

 

 

Senda grein

 

Fimmtudagur 23. 03. 17

Jón Þórisson, blaðamaður á Morgunblaðinu, gefur til kynna í grein í blaðinu í morgun að almannatenglar hafi afvegaleitt fjölmiðlamenn í aðdraganda sölu á hlutabréfunum í Arion banka sem kynnt var sunnudaginn 19. mars. Það hafi verið látið í veðri vaka að „sala til íslenskra lífeyrissjóða væri á lokametrunum. Búið væri að semja um helstu þætti, svo sem að miðað yrði við 80 aura á hverja krónu eigin fjár”.

Morgunblaðið hafi á hinn bóginn flutt aðrar fréttir: „Æ ofan í æ höfðu verið gerðar atlögur að því að draga lífeyrissjóði að samningaborðinu við takmarkaðan áhuga þeirra. Eins og Morgunblaðið hefur skýrt frá strönduðu þessar þreifingar jafnan.“

Veltir Jón fyrir sér hvort eigendur Kaupþings hafi „ákveðið að hrinda í framkvæmd atburðarás sem fallin sé til að auka líkur á og hraða því að bankinn seljist”. Í lok greinarinnar segir

„Eftir stendur spurningin, hvers vegna tóku fjölmiðlar þátt í að afflytja fréttir af sölu bankans til lífeyrissjóða á undanförnum mánuðum og vikum, þegar örfá símtöl hefðu getað leitt í ljós að fyrir þeim var ekki fótur?“

Telja má á hendi annarrar handar íslenska blaðamenn sem hafa burði til að segja viðskiptafréttir á þann veg að aðrir skilji. Þekking á því sviði er til dæmis engin innan ríkisútvarpsins þar sem aldrei eru fluttar viðskiptafréttir en stundum raktir einhverjir þræðir, einkum ýti þeir undir tortryggni í garð fé- og kaupsýslumanna. Jarðvegur fyrir slíkar fréttir er meiri og betri en nokkru sinni eftir hrun.

Þekkingarskortur á viðskiptaheiminum leiðir til þess að almannatenglar hafa meiri áhrif á fjölmiðlamenn en væri ef þeir hefðu sjálfstæða burði til að leggja mat á rás atburða eða lesa reikninga og skýrslur endurskoðenda.

Illa ígrundaðar frásagnir eða hreinar getsakir magnast í meðförum þingmanna sem vilja ganga í augun á fjölmiðlamönnunum með því að endurtaka hæpnar fullyrðingar í ræðustól alþingis. Þetta er vítahringur sem kallar á gagnrýni á þá sem reyna að rjúfa hann.

Regluverk íslenska fjármálakerfisins hefur verið endurnýjað með það fyrir augum að tryggja árangur af virku eftirliti. Nýlegir samningar eru í gildi um meðferð á eignarhlut í bönkum, til dæmis Arion banka. Að láta eins og þeir svindli á þjóðinni eða taki stöðu gegn þjóðarbúinu sem nýta sér reglurnar eða ákvæði samninga er til marks um afvegaleiðingu. 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason