Dagbókin

Miðvikudagur 23. 07. 14

Árið 1967 þegar ég varð fyrst ráðinn sem blaðamaður á Morgunblaðið var sex daga stríðið háð (5. til 10. júní) milli Ísraela og nágranna þeirra. Þá urðu margir á meginlandi Evrópu hræddir um að ný heimsstyrjöld kynni að hefjast. Rúm 20 ár voru liðin frá lyktum síðari heimsstyrjaldarinnar og vöruskortinum sem henni fylgdi. Fólk tók að hamstra nauðsynjavörur til að vera við öllu búið.

Í tæpa hálfa öld hef ég fylgst náið með gangi alþjóðamála og ekki síst öryggismála. Margt hef ég leitast við að kynna mig til nokkurrar hlítar. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem reglulega kemur til átaka er jafnsorglegt og illskiljanlegt nú og fyrir hálfri öld. Ekki síst miðað við allan tímann sem varið hefur verið til friðarviðræðna.

Það sem helst hefur breyst er afstaða almennings og stjórnvalda á Vesturlöndum í garð Ísraela. Þeir eru úthrópaðir og sakaðir um að beita ofurefli gegn almennum borgurum og látið er eins og hermenn Hamas-samtakanna beiti leikfangavopnum svo að vitnað sé í kynni í tónlistarþætti í ríkisútvarpinu í dag – meira að segja í slíkum þáttum nota menn málfrelsið til árása á Ísraela.

Beita verður öllum ráðum til að stöðva átökin. Að samið verði um frið er þó ekki í augsýn nú frekar en fyrri daginn. Það er sagður markverður árangur fyrir Hamas að flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum og annars staðar telja Ben Gurion-flugvöll við Tel Aviv of hættulegan fyrir millilandaflugvélar. Við það skapast annars konar þrýstingur á Ísraelsstjórn en áður. Lokun vallarins sýnir að Hamas ræður yfir öðru en leikfangavopnum.

Í átökunum nú hafa Ísraelar fundið mikil göng og bækistöðvar Hamas undir yfirborði jarðar. Þar hafast liðsmenn samtakanna við þegar Ísraelar gera árásir á berskjaldaða almenna borgara ofan jarðar. Um göngin má laumast inn í Ísrael, meðal annars til mannrána. Fyrir einn ísraelskan hermann er unnt að semja um frelsi fyrir hundruð ef ekki þúsund Palestínumenn í haldi Ísraela.

 

 

 

 

Senda grein

 

Þriðjudagur 22. 07. 14

Í grein í Fréttablaðinu í dag tekur ESB-aðildarsinni sér fyrir hendur að rægja EES-samninginn. Að þetta gerist kemur ekki á óvart.  ESB-aðildarsinnar vilja veg EES-samningsins sem minnstan af því að þeir telja hann þröskuld á leið Íslands inn í ESB.

Þeir gleyma þeirri staðreynd að enginn meirihluti var fyrir aðild að ESB þegar Íslandi bauðst hún sem EFTA-ríki. Hefði verið þrýst á aðild að ESB hefði EES-samningurinn ekki verið gerður. Málið er ekki flóknara en það.

Ég skrifaði um áróðurinn gegn EES-samningnum á Evrópuvaktina í dag eins og lesa má hér. Engu er líkara en ESB-aðildarsinnar telji sig geta rakkað EES-samninginn niður af því að engum hér á landi detti í hug að rifta honum. Þessi afstaða er reist á misskilningi eins og svo margt hjá aðildarsinnum. Að sjálfsögðu kann stöðugur neikvæður áróður þeirra að grafa svo undan samningnum að krafa um uppsögn hans verði að pólitísku umræðuefni.

ESB-aðildarsinnar, gagnrýnendur EES-samningsins úr þeirri átt, verða að svara hve langt þeir vilja ganga gegn þessum samstarfssamningi Íslendinga við ESB. Leggja þeir til að EES-samningnum verði rift? Telja þeir með öllu vonlaust að unnt verði að draga úr lýðræðishallanum vegna samningsins?

Senda grein

 

Mánudagur 21. 07. 14

Atburðir gerast sem gjörbreyta þróun mála eða afstöðu fólks. Að Rússavinir og aðskilnaðarsinnar í Úkraínu skuli hafa skotið niður farþegaþotu frá Malasíu fimmtudaginn 17. júlí með tæplega 300 manns innanborðs er slíkur atburður. Ekki bætir úr skák að aðskilnaðarsinnarnir sýndu upphaflega tregðu til að hleypa hlutlausum, alþjóðlegum rannsóknarmönnum á vettvang.

Vladimír Pútin Rússlandsforseti situr uppi með endanlega skömm vegna þessa atburðar. Hann hefur leikið mörgum skjöldum vegna þróunar mála í Úkraínu. Hann lék leiki og lét sem rússneski herinn héldi sig frá átökum við Úkraínuher. Pútín sá hins vegar aðskilnaðarsinnum fyrir vopnum og þar á meðal skotflauginni sem send var á loft til að granda flugvél Kænugarðsmanna en lenti á þotunni á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur.

Án hvatningar og að minnsta kosti óbeins stuðnings frá Pútín berjast aðskilnaðarsinnar ekki við hermenn Kænugarðs. Rússlandsforseti er ábyrgðarmaður aðgerða aðskilnaðarsinna . Á meðan hann skiptar þeim ekki að leggja niður vopn berjast þeir áfram og skömm Pútíns vex.

Rúmum sólarhring áður en flugvélin fórst gerðist annar atburður sem markar þáttaskil. Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynnti þriðjudaginn 15. júlí stefu sína til ársins 2019 og þar á meðal að ESB stækkaði ekki á þeim tíma þótt rætt yrði áfram við ríki sem hefðu átt í aðlögunarviðræðum við ESB.

Viðræðum fulltrúa Íslands og ESB var hætt í janúar 2013 og haustið 2013 afmunstraði utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson viðræðunefnd Íslands og einstaka viðræðuhópa. Íslendingar eiga ekki í neinum viðræðum við ESB. Það verður því ekki rætt við þá næstu fimm árin.

Ný framkvæmdastjórn ESB tekur við í Brussel 31. október 2014. Vikurnar þangað til á ríkisstjórn Íslands að nota til að móta skýra afstöðu um lyktir stöðu Íslands sem umsóknarríkis sem kynnt verði fyrir nýrri framkvæmdastjórn ESB undir forsæti Junckers. Engin rök eru fyrir að skipa sess umsóknarríkis án viðræðna við ESB. Slík staða er í raun svo fráleit að óþarft ætti að vera að deila um að afmá hana.

Á fimm árum mun ESB breytast. Vilji Íslendingar nálgast það í breyttri mynd ber að gera það á grundvelli nýrrar umsóknar sem samþykkt yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en gengið yrði til viðræðna við ráðamenn í Brussel.

 

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason