Dagbókin

Mánudagur 27. 03. 17

Breska blaðið The Sunday Times sagði 26. mars að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði afhent Angelu Merkel Þýskalandskanslara meira en 374 milljarða dollara reikning til að sanna hve mikið Þjóðverjar „skulduðu“ NATO fyrir að verja sig. Bar blaðið ónafngreindan þýskan ráðherra fyrir fréttinni. Hann sagði að Merkel hefði ekkert sagt um reikninginn. Michael Short, talsmaður bandaríska forsetaembættisins, sagði við CNBC-fréttastofuna, að þetta væri „falsfrétt“.

Hvað sem hæft er í þessari frétt sýnir hún aðeins hve Trump gengur langt til að árétta skoðun sína.  NATO er ekki eins og klúbbur þar sem félagarnir stofna til skuldar greiði þeir ekki „aðildargjald“. Innan NATO er ekkert slíkt gjald innheimt. Á fundi sínu í Wales árið 2014 settu ríkisoddvitar NATO-landanna sér það mark að á árinu 2024 yrðu útgjöld þeirra til varnarmála 2% af vergri landsframleiðslu þeirra. Trump breytir þessu ekki hvaða brögðum sem hann beitir.

Spuni Bandaríkjaforseta hefur áhrif á suma álitsgjafa eins og sannaðist í forystugrein Fréttablaðsinsmánudaginn 27. mars sem skrifuð er af Magnúsi Guðmundssyni sem segir að „þessi gjörningur Bandaríkjaforseta“ að afhenda Merkel „reikninginn“ hljóti að „vera íslenskum ráðamönnum umhugsunarefni þar sem við erum aðildarþjóð NATO“. Magnús telur einnig „meira en tímabært að við tökum aðild okkar að umræddu hernaðarbandalagi til endurskoðunar“ af því að rúm 10 ár séu liðin frá brottför bandaríska varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli. Þá hafi heimurinn breyst „á þeim áratugum sem hafa liðið frá stofnun NATO er heimurinn gjörbreyttur. Þar með hafa líka gjörbreyst möguleikar smáríkis á borð við Ísland til að hafa áhrif til góðs og til þess getum við horft. Ágætt dæmi er framganga Íslands á kvennaþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir skömmu sem sýndi heiminum að litlar þjóðir geta líka verið stórar fyrirmyndir. En það þarf hugrekki til að vera herlaus þjóð sem mælir fyrir friði í heiminum.“

Þegar þetta er lesið má spyrja hvort höfundurinn telji virkilega meira máli skipta að friðsamar, herlausar þjóðir tali fyrir friði á kvennaþingi SÞ en innan NATO.

Jafnframt er augljóst að höfundurinn gerir sér ekki grein fyrir breytingunum í öryggismálum sem orðið hafa undanfarin þrjú ár og áhrifum þeirra á þróun mála í nágrenni Íslands.

Nauðsynlegt er að ræða öryggi Íslands á allt öðrum forsendum en þeim sem Donald Trump gerir með því að tala um málefni NATO eins og hann sé að fjalla um reikningsuppgjör fyrirtækis eða félags.

Senda grein

 

Sunnudagur 26. 03. 17

Á vefsíðunni vardberg.is birtist í dag grein úr vefblaði NATO þar sem norskur ofursti segir frá þróun mála fyrir 50 árum þegar ráðamenn innan NATO viðurkenndu að nauðsynlegt væri að huga að flotaumsvifum Sovétmanna á norðurslóðum. Þeir höfðu breytt Norðurflota sínum í miðlægan hluta sovéska heraflans. Þar voru langdrægu kjarnorkukafbátarnir, þungamiðjan í endurgjaldsgetu Rússa yrði á þá ráðist.

Orðið endurgjaldsgeta er þýðing á ensku orðunum second strike capability. Í þessari getu felst að sé ráðist á ríki hafi það mátt til að svara með því að gjöreyða andstæðingi sínum. Þess vegna er talað um mutual assured destruction (MAD), gagnkvæma gjöreyðingu. Þetta er þungamiðja fælingarkenningarinnar deterrence concept: vitundin um yfirvofandi gjöreyðingu haldi aftur af þeim sem ráða yfir langdrægum eldflaugum búnum kjarnaoddum sem eru faldar í risakafbátum í hafdjúpunum.

Gjert Lage Dyndal ofursti lýsir í grein sinni, sem má lesa hér, hvernig rannsóknir og skýrslur opnuðu augu manna fyrir 50 árum og þeir áttuðu sig á nauðsyn þess að NATO mótaði sjálfstæða varnarstefnu vegna þróunarinnar á norðurslóðum.

Tilgangur greinarinnar er augljóslega einnig að vekja ráðamenn innan NATO á árinu 2017 svo að gerðar séu ráðstafanir vegna endurnýjunar Rússa á flota kjarnorkukafbáta sinna og sóknar þeirra frá heimahöfnum á Kóla-skaga með Barents-hafið sem helsta athafnasvæði sitt og brjóstvörn. Til að tryggja öryggi þessara báta sem standa að baki tilkalli rússneskra ráðamanna til að litið sé á þá sem forystumenn risaveldis hafa Rússar sent árásarkafbáta, flugvélar og herskip út á Norður-Atlantshaf og nær sá varnarbaugur til Íslands.

Tækninni hefur fleygt fram undanfarin ár og Rússar ráða nú til dæmis yfir langdrægum stýriflaugum til árása á skotmörk á jörðu sem þeir áttu ekki í kalda stríðinu. Þessum flaugum var til dæmis beitt frá herskipum til árása á skotmörk í Sýrlandi.

Andstaða Rússa við eldflaugavarnir NATO og Bandaríkjamanna ræðst af ótta þeirra við að grafið verði undan endurgjaldsgetu þeirra og þar með stöðunni sem risaveldi.

Hvort sem okkur Íslendingum líkar betur eða verr verðum við að taka afstöðu og við höfum gert það með aðildinni að NATO.

Senda grein

 

Laugardagur 25. 03. 17

Í Morgunblaðinuí gær birti ég grein um mikilvægi EES-samningsins og aðildar Íslands að honum, greinina má lesa hér. Þar segir meðal annars að vegna draumanna um aðild að ESB hafi ekki verið lögð nægileg rækt við samninginn. Talsmenn ESB-aðildar gerðu raunar lítið úr gildi samningsins. Meðal þeirra var Jón Steindór Valdimarsson, núv. þingmaður Viðreisnar. Hann hefur skipt um skoðun á gildi EES því að hann sagði í ræðu á alþingi miðvikudaginn 22. mars:

„Samningurinn um EES, þ.e. EES-samningurinn, er langmikilvægasti viðskipta- og samstarfssamningur okkar við önnur ríki. Með honum tengjumst við Evrópusambandinu sterkum böndum ásamt Noregi og Liechtenstein. Það er afar brýnt fyrir hagsmuni okkar að rækta þann samning og sinna af alúð. Sennilega hefur það aldrei verið jafn aðkallandi og einmitt um þessar mundir. Nægir að benda á þróunina í Bandaríkjunum með nýjum forseta og það að Bretland mun hefja viðræður um útgöngu sína úr Evrópusambandinu á næstu mánuðum.“

Það eru ánægjuleg sinnaskipti sem birtast í þessum orðum þingmannsins miðað við neikvæða áróðurinn um EES-samstarfið sem ESB-aðildarsinnar fluttu á svartasta kaflanum í sögu íslenskra utanríkismála.

Fulltrúar 27 ríkja koma saman í Róm í dag til að árétta hollustu sína við Rómarsáttmálann, stofnskrá Evrópusambandsins, sem var undirritaður af fulltrúrum stofnríkjanna sex fyrir réttum 60 árum, 25. mars 1957. Vegna mistaka við sendingu skjala frá Brussel þar sem samið hafði verið um texta sáttmálans voru fulltrúar stofnríkjanna aðeins með fyrstu og lokasíðu sáttmálans í höndunum, meginmálið var enn í Brussel.

Enginn fulltrúi frá Bretlandi er í Róm í dag til að taka þátt í hátíðarhöldunum frekar en enginn breskur fulltrúi var á stofnfundinum. Bretar eru á leið úr ESB og ætlar Theresa May forsætisráðherra að hefja ferlið formlega miðvikudaginn 29. mars.

Í yfirlýsingunni sem ESB-leiðtogarnir rita undir í dag er að finna formlega viðurkenningu á að ríki geta valið hve langt þau ganga á samrunabrautinni undir merkjum sambandsins. Á ensku er þetta kallað multi-speed stefna, það er að allir eru ekki á sama hraða. „Við munum starfa saman, með mismunandi skrefum og krafti sé það nauðsynlegt þótt haldið sé til sömu áttar,“ segir í yfirlýsingunni.

„Marghraða Evrópa er á alls ekki sama og sundruð Evrópa,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari.

 

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason