Dagbókin

Þriðjudagur 29. 07. 14

Eftir að hafa fylgst með Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, árum saman sem blaðamanni og grandskoðað aðferðir hans á Baugsmiðlunum í þjónustu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar er auðvelt að greina gamalkunna takta í skrifum Reynis og blaðamanna hans í „lekamálinu“ svonefnda sem þeir hafa haldið vakandi mánuðum saman. Þeir félagar fullyrða að Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hætti störfum vegna undirliggjandi hótana og ítrekaðra afskipta Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra af störfum lögreglunnar.

Þegar í ljós kemur að þessari fullyrðingu er hafnað segir Reynir Traustason við Eyjuna:

„Það er engu haggað. Það er bara orðaleikur hvort Stefán hafi hætt beinlínis út af þessu eða hvort annað hafi vegið þyngra. Það skiptir ekki máli í þessu samhengi.“

Þetta segir ritstjóri blaðsins sem snýr út úr orðum fólks til að sanna gælumál sín eða les á milli línanna til að fá efni í fréttir. Hann lærði einnig af Jóni Ásgeiri að hóta þeim málsókn sem hann vill að þegi.

Líkindin við blaðamennskuna í Baugsmálinu minnka ekki við að Illugi Jökulsson tekur að sér að sannfæra lesendur sína um að Reynir og hans menn hafi rétt fyrir sér með getsökum sínum.

Þeir félagar á DV taka sér einnig fyrir hendur að gera tortyggilegt að innanríkisráðherra skipaði Sigríði Björk Guðjónsdóttur til að taka við af Stefáni á höfuðborgarsvæðinu. Þeir láta í veðri vaka að ég sé á bakvið það af því að ég skipaði hana lögreglustjóra á Suðurnesjum þegar Jóhann Benediktsson ákvað að sækja ekki um stöðuna eftir að ég auglýsti hana við gjörbreytingu á embættinu árið 2008.

Það er ekkert lát á samsæriskenningunum hjá Reyni Traustasyni, nú frekar en fyrri daginn.

Senda grein

 

Mánudagur 28. 07. 14

Stjórnmálabaráttan liggur í láginni. Þeim mun meiri athygli beinist að köldu stríði Morgunblaðsins  og ríkisútvarpsins. Raunar er sérkennilegt að slíkt stríð skuli háð. Annars vegar er dagblað í einkaeign þar sem hluthafar eiga síðasta orð um stjórnendur, stefnu og markmið hins vegar er hlutafélag í ríkiseigu sem gengur að nefskatti vísum og hefur lögbundnar skyldur.

Árum saman hafa menn á þessum fjölmiðlum nálgast viðfangsefni fréttamiðlunar hver með sínum hætti. Bilið hefur hins vegar aukist hin síðari ár vegna þess að pólitísku rétttrúnaður hefur náð undirtökunum á ríkisútvarpinu í fréttum og þáttum um málefni líðandi stundar og menningarmál. Fréttir ríkisútvarpsins minna æ oftar á fundargerð neytenda- eða félagsmálasamtaka. Viðskiptafréttir eiga ekki upp á pallborðið í Efstaleiti, viðmótið í garð útgerðamanna er kuldalegt og oft gætir tortryggni í garð þeirra og annarra atvinnurekenda.

Nýjasta atvikið í köldu stríði miðlanna tveggja felst í viðleitni ríkisútvarpsins til að breyta orðinu múlatti í skammaryrði. Það var notaði innan sviga í Reykjavíkurbréfi í Morgunblaðinu laugardaginn 26. júlí til að skýra fyrir lesendum uppruna Baracks Obama Bandaríkjaforseta.

Sé flett í orðabók er ekkert sem bendir til að í því felist niðurlæging að nota orðið múlatti hvorki um Bandaríkjaforseta né nokkurn annan mann. Ríkisútvarpið greip til sama ráðs og oft áður að kalla á prófessor sér til aðstoðar en innan háskóla ræður víða pólitískur rétttrúnaður. Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, sagði hugtakið múlatti almennt ekki notað, sér þætti það niðrandi:

„Þegar ég sá þetta hugtak notað nú um helgina, þá fannst mér svolítið eins og ég væri að sjá draug úr fortíðinni. Og þetta hugtak, það gengur út frá þeirri hugmynd að við séum með tvo alveg hreina kynþætti, sem síðan blandast og þá verður úr manneskja sem kallast múlatti.“

Hugtakið sé reist á vafasamri hugmynd um að mannkyn flokkist í aðskilda kynþætti: „að við getum flokkað margbreytileikann niður í kynþætti - svartan og hvítan. Og einhvers konar blöndu af þessum tveimur kynþáttum,“ sagði prófessorinn í hádegisfréttum mánudaginn 28. júlí.

 

 

Senda grein

 

Sunnudagur 27. 07. 14

Reykholtshátíðinni lauk í dag með messu og tónleikum. Hátíðin heppnaðist vel og ánægjulegt var að Olemic Thommassen, forseti norska stórþingsins, og Einar K. Guðfinnsson, forseti alþingis, skyldu taka þátt í málþingi Snorrastofu innan ramma hátíðarinnar. Til málþingsins var efnt til að minnast áhrifa frá Snorra Sturlusyni á stjórnarskrá Noregs frá 1814. Stórþingsforsetinn er áhugamaður um norræna samvinnu og gerir sér glögga grein fyrir gildi hins sameiginlega menningararfs fyrir hana.

Í kvöld var sjónvarpsþáttur um Brynju Benediktsdóttur (1938 til 2008), leikstjóra og leikkonu. Var meðal annars drepið á deilurnar um breytinguna á sal Þjóðleikhússins undir lok níunda áratugarins. Ólíklegt er að nokkrum dytti í hug að bylta salnum á þann hátt nú á tímum. Brynja var meðal reyndra leikara sem gagnrýndu þessa aðför að salnum. Þeir voru í minnihluta og ráð þeirra því miður höfð að engu.

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason