Dagbókin

Þriðjudagur 09. 02. 16

Ekki fer fram hjá neinum að Kári Stefánsson stendur fyrir söfnun undirskrifta til að knýja á um „endurreisn heilbrigðiskerfisins“ eins og það er orðað. Hafi eitthvert kerfi hrunið hér á undanförnum árum er það bankakerfið. Þrátt fyrir þung áföll fyrir það og samfélagskerfið má segja að nú horfi þar til réttrar áttar. Augljóst er af öllum yfirlýsingum stjórnmálamanna að forgangsraðað verður í þágu heilbrigðiskerfisins.

Á vefsíðunni andriki.is, Vef-Þjóðviljanum, er í dag fjallað um söfnun Kára eins og sjá má hér. Þar er vakin athygli á fréttum ríkisútvarpsins um söfnunina. Áhugamenn um aðferðir fréttastofunnar til að halda lífi í málum af þessu tagi hafa fyrir löngu áttað sig á að Kári eða almannatenglar á hans vegum hafa greiðan aðgang að fréttastofunni og eyrum hlustenda í gegnum hana. Stundum er reynt að réttlæta fréttirnar með því að stilla málum upp á þann veg að Kári keppi við aðra sem staðið hafa að söfnun undirskrifta málstað sínum til stuðnings.

Þar er söfnun undirskriftanna til stuðnings Reykjavíkurflugvelli jafnan nefnd til samanburðar. Fréttahaukar ríkisins láta þess hins vegar ógetið að Jón Gnarr, þáv. borgarstjóri, lét þær undirskriftir sem vind um eyru þjóta með þeim orðum að hann undraðist að ekki hefðu fleiri lagt málstaðnum lið með nafni sínu. Hafi þau ummæli þótt sjálfsögð þegar um flugvöll var að ræða eiga þau jafnvel enn betur við þegar rætt er um heilbrigðiskerfið. Fullyrða má að ekki finnist neinn sem vilji ekki að íslenska heilbrigðiskerfið sé í fremstu röð.

Í fréttum kemur fram að Kári sættir sig ekki við 60.000 nöfn heldur vill hann fá 75.000. Á ruv.is er haft eftir Kára mánudaginn 8. febrúar:

„Ég held að við þurfum töluvert meira til þess að skjóta stjórnvöldum skelk í bringu. Mér sýnist að í gegnum tíðina sé hræðsla sú tilfinning sem er líklegust til að hvetja stjórnmálamenn til dáða. Þannig að ég reikna með að við þurfum að bæta dálitlu við. Ég hugsa að 75 þúsund myndi nægja.“

Hér skal því haldið fram að ekki sé skynsamlegt að taka á málum heilbrigðisþjónustunnar í einhverju hræðslukasti heldur beri að gera það á skipulegan og ígrundaðan hátt. Fréttir af heilbrigðismálum einkennast því miður um of af því sem úrskeiðis fer eða kann að fara. Allt hið góða sem íslenska heilbrigðiskerfið skilar fellur því miður um of í skuggann. Að halda því á loft skilar að lokum betri árangri en hræðsluáróður. Hann verður fljótt innan tómur.

 

 

Senda grein

 

Mánudagur 08. 02. 16

Kosið var til Stúdentaráðs Háskóla Íslands 2016 miðvikudaginn 3. og fimmtudaginn 4. febrúar. Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, hélt áfram sigurgöngu sinni fékk 17 fulltrúa kjörna og Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, fékk 10 fulltrúa kjörna af 27 stúdentaráðsfulltrúum. Vaka sigraði á öllum sviðum nema einu. Á

félagsvísindasviði var kjörsókn 40,19% og fékk Vaka 5 menn kjörna og Röskva 2.

menntavísindasviði var kjörsókn 33,87% og fékk Vaka 4 menn kjörna og Röskva 1. 

heilbrigðisvísindasviði var kjörsókn 52,90% og fékk Vaka 3 menn kjörna og Röskva 2. 

verkfræði- og náttúruvísindasviði var kjörsókn 52,31% fékk Vaka 3 menn kjörna og Röskva 2  

hugvísindasviði var kjörsókn 34,15% og fékk Vaka 2 menn kjörna, Röskva 3 menn kjörna.

Vegna þess að Vaka sigraði hefur lítið verið sagt frá úrslitunum í fjölmiðlum.

Enn einu sinni er ástæða til að halda gullmolum Birgittu Jónsdóttur pírataþingmanns til haga. Hún tilkynnti að morgni mánudags 8. febrúar í samtali við Óðin Jónsson á Morgunvakt rásar 1 ríkisútvarpsins að hún ætlaði enn einu sinni að bjóða sig fram til þings, það er í þriðja sinn. Rökin voru þessi:

„Ég tók ákvörðun að ef að þetta verður þannig að okkur takist að standa við það sem aðalfundur Pírata samþykkti á síðasta fundi að fara í þessa vegferð, sem við höfum verið að ræða hérna núna, að þá vil ég taka þann slag. Mig langar ekkert rosalega mikið að halda áfram bara til að vera fullkomlega heiðarleg en mér finnst líka óábyrgt að ef við erum í miðri aðgerð og í algerlega allt öðrum aðstæðum en við höfum nokkurn tíma staðið frammi fyrir að þá finnst mér óábyrgt að stökkva frá borði.“ 

Þú vilt fylgja stjórnarskrármálinu til loka? spurði Óðinn.

„Já mér finnst líka, ef að það er mjög mikið af nýju fólki, nauðsynlegt að það sé einhver sem skilur. Það hefur enginn sem ég sé, sem hefur til dæmis eitthvað verið í samskiptum eða unnið með ráðuneytunum. Þegar maður kemur með algerlega nýtt fólk sem að veit ekkert hvernig innri kerfin fúnkera að þá er hætt við að það verði ekki mjög effektift.“

Birgitta lítur á sig sem nauðsynlegan leiðtoga og leiðbeinanda í hópi óreyndra af því að hún á ekki von á að neinn frambjóðandi pírata skáki henni að reynslu og þekkingu.

Senda grein

 

Sunnudagur 07. 02. 16

Á mbl.is segir sunnudaginn 7. febrúar að Birgitta Jónsdóttir, þingmaður pírata, hafi þann dag rætt við Björn Inga Hrafnsson í sjónvarpsþættinum Eyjunni. Þar hafi hún boðað framhald á þátttöku í stjórnmálum.

Haft er eftir Birgittu á mbl.is:

„Við höf­um alltaf haft það þannig hjá pír­öt­um að það er í lagi skipta um skoðun. Í jóla­frí­inu langaði mig ekki að halda áfram og son­ur minn langþráir að ég hafi meiri tíma fyr­ir hann. Hins veg­ar höf­um við ekki marga reynslu­bolta í Pír­öt­um sem vita hvernig stjórn­mál virka.

Stjórn­mál eru yf­ir­leitt mun ljót­ari en menn halda, þetta er mik­il valda­bar­átta á milli flokka, og á milli þeirra sem vilja stjórna flokk­un­um. Ég steig fram þegar flokk­ur­inn komst upp í 20% og lagði til ákveðna veg­ferð. Fylgið hef­ur haldið áfram að aukast og mér finnst pínu­lítið óá­byrgt að fara frá borði þá. Ef við leggj­um til stutt kjör­tíma­bil þá finnst mér ekki mik­ill mun­ur á að sitja á þingi í átta eða tíu ár.

Ég hef prófað það að vera í litl­um þing­flokki og það er flókið. En það er mik­il­vægt að halda utan um stór­an flokk, og hjálpa fólki að kom­ast inn í þetta. Þeir í hinum flokk­un­um eru ekki mikið fyr­ir að kenna manni hlut­ina.

Þetta er ekki eins og að koma á nýj­an vinnustað, held­ur er maður strax kom­inn í valda­bar­áttu. Það er kannski rangt hjá mér, en mér finnst svo­lítið óá­byrgt að leggja fram til­lög­ur til að koma í veg fyr­ir að fólk verði svikið eft­ir kosn­ing­ar. Við vilj­um að það sé þannig að það sé ákveðið fyr­ir­fram hvernig stjórn­arsátt­mál­inn verður og jafn­vel vil ég sjá fjár­lög­in líka liggja fyr­ir.

Ég sé ekki fyr­ir mér kosn­inga­banda­lag held­ur bind­andi sam­komu­lag með þeim sem vilja fara í veg­ferð með okk­ur. Við leggj­um ekki upp með að fella rík­is­stjórn­ina. Þeir sem eru nú við völd eru að sjá um það sjálf­ir.

Ef fólk vill ekki vinna að þessu með okk­ur, þá þætti mér óráð að fara að gera það sem all­ir flokk­ar gera alltaf. Þá mynd­um við frek­ar vilja vera í minni­hluta eða vera í minni­hluta­stjórn.“

Af þessu má ráða að Birgitta sér sjálfa sig sem kennara í stórum þingflokki, kannski í 2 ár, eftir kosningar þar sem ekki verði um kosningabandalag að ræða heldur verði bindandi málefnasamkomulag, helst um efni fjárlaga. Hver hoppar um borð í pírataskipið?

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason