Dagbókin

Laugardagur 04. 07. 15

Der deutsche Finanzminister Wolfgang Schäuble ist das Feindbild Nummer 1 in Griechenland. Doch die Deutschen hasst niemand.

„Þýski fjármálaráðherra Wolfgang Schäuble er óvinur nr. 1 í Grikklandi. Enginn hatar þó Þjóðverja,“ segir í upphafi aðalfréttar á vefsíðu Frankfurter Allgemeine Zeitung síðdegis í dag, daginn fyrir afdrifaríka þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi.

L'avenir de l'Europe se joue à Athènes

L'issue du référendum grec de dimanche 5  juillet est totalement incertaine, selon les ultimes sondages. Les deux camps se sont mobilisés jusqu'au bout.

Franska blaðið Le Monde  gaf úr sérstakt blað í dag með ofangreinda fyrirsögn yfir þvera forsíðu: Framtíð Evrópu í húfi í Aþenu. Í upphafi forsíðufréttarinnar segir: „Úrslit grísku þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru algjörlega óljós ef marka má síðustu kannanir. Báðir aðilar berjast til þrautar.“  

Segi meirihluti Grikkja já er líklegt að hið sama gerist í Grikklandi og þegar George Papandreou hrökklaðist frá völdum að til verði kallaðir menn sem eru á sömu bylgjulengd og Brusselmenn, fyrrverandi embættismenn ESB, og þeim verði falið að festa Grikki í þeirri umgjörð (fjötrum?) sem ráðamönnum ESB þóknast.

Segi meirihluti Grikkja nei hefst lagaþræta um réttarstöðu þeirra og túlkun á ákvæðum sáttmála ESB um að ESB-ríki með evru sé evru-ríki til frambúðar og ekki sé unnt að breyta því. Fer Grikkland tímabundið úr ESB? Eða varanlega?

Could Greece become the European Venezuela? Getur Grikkland orðið evrópskt Venezúela? spyr breska blaðið The Daily Telegraph í fyrirsögn laugardaginn 4. júlí. Í frásögninni sem fylgir kemur fram að tengsl milli stjórnvalda í Aþenu og Caracas, höfuðborg Venezúela, hafi orðið náin eftir að róttæka vinstra bandalagið Syriza komst til valda í Grikklandi. Ráðamenn landanna sameinist í ástríðu í þágu sósíalisma og fyrirlitningu í garð „ný-frjálshyggjumanna“. Þegar Hugo Chavez, leiðtogi sósíalista, var borinn til grafar í Caracas var Alexis Tsipras þar og eftir að hann varð forsætisráðherra hefur hans verið beðið sem opinbers gests enda fögnuðu Chavistar sigri hans með þeim orðum að „ferskir pólitískir vindar“ blésu í Evrópu.

Hver sem úrslitin verða í Grikklandi stendur ESB á tímamótum. Einni aðildarþjóð er misboðið vegna miðstýringar sem sviptir hana úrræðum til að leysa eigin vanda á eigin forsendum. Leið hinna ráðandi afla innan ESB felst ekki í að losa um tökin heldur herða þau.

 

Senda grein

 

Föstudagur 03. 07. 15

Alþingi lauk störfum fyrir sumarleyfi í dag, við þinglok sagði Einar K. Guðfinnsson þingforseti: „Samþykkt hinna svokölluðu haftafrumvarpa fyrr í dag verð[ur] að teljast í senn mikilvægasta og merkasta löggjöf þessa þings og þótt lengra sé leitað. Í þeim skilningi er 3. júlí 2015 augljóslega sögulegur dagur“.  Lagasetningin væri einhver mikilvægasta varðan á leið þjóðarinnar til framtíðar út úr hinum miklu efnahagsáföllum. Nú gæti þing og þjóð horft til nýrra verkefna á komandi árum.

Þingforseti harmaði gang mála á þinginu. Hann gæti ekki leynt vonbrigðum sínum, persónulegum vonbrigðum, vegna þess að starfsáætlun þingsins hefði ekki staðist. Þá sagði hann:

„Það var rauður þráður í máli flestra ræðumanna í eldhúsdagsumræðunum í fyrrakvöld, jafnt stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, að endurskoða þyrfti vinnubrögðin hér á Alþingi. Þetta var einkar eftirtektarvert. Nú vil ég taka þingmenn á orðinu. Það er mikilvægt að bregðast við og vinna rösklega og markvisst að því að gera breytingar, sem ég veit að þingmenn í hjarta sínu óska eftir. Verði allir alþingismenn og ráðherrar tilbúnir að leggja sitt af mörkum til þeirrar endurskoðunar hef ég trú á því að góðir hlutir gerist. En þá dugar ekki að skyggnast bara eftir flísinni frægu í auga náungans. Við þurfum öll, undanbragðalaust, að líta okkur nær.“

Einar K. Guðfinnsson taldi sjálfstætt og óumflýjanlegt verkefni að breyta þeirri stjórnmálamenningu sem hvíldi eins og farg á þinginu. Það stæði engum nær en þingmönnum sjálfum. Varpaði hann fram þeirri hugmynd að forustumenn flokka eða fulltrúar þeirra færu yfir þennan þátt sérstaklega í því skyni að sammælast um leiðir til að vinna bót á honum.

Ekki er unnt að óska alþingi annars en vilji forseta þess rætist. Lengra verður tæplega gengið á braut upplausnar í þingstörfum en gerðist á þinginu sem nú er lokið. Mörg þúsund ræður voru fluttar undir dagskrárliðum um annað en efnislega úrlausn mála. Það er rétt hjá þingforseta að ræður á eldhúsdeginum báru vott yfirbótar. Hvort hún er meira en orðin tóm kemur í ljós. Í því efni er við enga aðra að sakast en þá sem sitja á alþingi án tillits til stjórnmálaflokks.

 

Senda grein

 

Fimmtudagur 02. 07. 15

Í Morgunblaðinu í morgun birtist frásögn af ferð blaðamanns á vinsæla ferðamannastaði á Gullna hringnum svonefnda, Þingvelli, Geysi og Gullfoss. Alls staðar var mikill mannfjöldi og ber frásögnin með sér að ýmsir ferðamannanna telja hvorki Ísland né Íslendinga búna undir að taka á móti hinum mikla fjölda fólks sem var á þessum stöðum.

Blaðamaðurinn Benedikt Bóas hitti Svisslendinginn Besel við Gullfoss. Frásögnin er eftirfarandi:

„Hann horfði gáttaður niður í fossinn og skildi ekki hvers vegna væru ekki meiri öryggiskröfur.

„Ísland er magnaður staður. Við vorum að koma frá Alaska og stoppum hér í nokkra daga áður en við förum heim til Sviss. Heima og í Alaska er öðruvísi farið með ferðamenn. Þar eru tollar víða, náttúran er gjaldskyld en hér er allt frítt og ekki mikið um öryggi.

Þegar ég gekk niður stíginn trúði ég ekki að það væri ekkert öryggisband, bara einn lítill spotti. Það fannst mér sérstakt. Ég er ekki búinn að vera hérna lengi en sé það strax að þið eruð ekki tilbúin að taka á móti svona mörgum ferðamönnum. Í Sviss eða öðrum ferðamannalöndum eru öryggisreglur mjög strangar en hér er engar. Kannski mun Ísland tapa sérstöðu sinni ef það verður bara hægt að skoða fossinn bak við glervegg eða eitthvað álíka. Hér er allt hrátt og ég kann ágætlega við það. Ég er hins vegar ekki viss um að þetta yrði leyft í Sviss.“

Svisslendingar eiga Rheinfall – Rínarfoss – við bæinn Neuhausen. Þeir kynna fossinn sem hinn stærsta í Evrópu – hvort þeir eiga við meginlandið eða álfuna er ekki ljóst. Öryggisráðstafanir við Rheinfall eru gífurlega miklar og mannvirkin gestum til varnar vekja jafnmikla athygli og fossinn sjálfur, að minnsta kosti í augum Íslendings. Gjaldtaka er við fossinn og ofurvakt.

Eitthvað má vera á milli þess sem Svisslendingar hafa gert og þess gjaldlausa frjálsræðis sem ríkir við íslenska fossa.

Óheppilegt var að tíma og kröftum skyldi varið í náttúrupassann sem var álíka dauðadæmdur frá upphafi og nýr flugvöllur í Hvassahrauni. Nú stefnir þó allt í að tíma og kröftum verði varið til að ræða hugmyndina um slíkan flugvöll enn á ný. 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason