Dagbókin

Föstudagur 09. 12. 16

Starfsstjórn hefur setið frá 30. október þegar Sigurður Ingi Jóhannsson baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Í fréttatíma ríkisútvarpsins í hádeginu 8. desember veltu fréttamenn fyrir sér hvort Sigurður Ingi flytti áramótaávarpið 31. desember 2016 vegna þess að ekki hefði tekist að mynda stjórn.

Ríkisstjórnin lagði fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 þriðjudaginn 6. desember. Með hliðsjón af stöðu stjórnmála um þessar mundir er enn undarlegra en ella að forstöðumenn ríkisstofnana eða annarra stofnana sem eiga allt sitt undir ákvörðunum fjárveitingarvaldsins skuli reka upp ramakvein vegna fjárlagafrumvarpsins. Það er flutt til að halda í horfinu. Efni þess er aðhaldssamt eins og eðllegt er á pólitískum óvissutímum.

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, gagnrýndi réttilega stóryrði rikissforstjóra í fjölmiðlum vegna fjárlagafrumvarpsins. Þeir ættu að ræða málið við þingið og fjárlaganefnd eftir framlagningu frumvarpsins.

Fríða Björk Ingvadóttir, rektor Listaháskóla Íslands, sér orð ráðherrans sem tilefni til gagnrýni á hann á Facebook, hún hafi ekki náð eyrum stjórnvalda með þeim aðferðum sem hann nefni. Hún nái ekki fundi fjárlaganefndar. Hún lætur eins og það séu ekki forstöðumenn stofnana sem hefji opinberar umræður um fjárhag stofnana sinna heldur fjölmiðlar. Hún segir:

„Þetta liggur í samfélagsumræðunni, og það er skylda fjölmiðla að mínu mati að segja frá þessum ágreiningi milli stofnana og fjárveitingarvaldsins, vegna þess að það er almenningur sem á þessar stofnanir og þær eru reknar fyrir skattfé. Og í þessum tilvikum, bæði hvað varðar háskólastigið og heilbrigðiskerfið, er verið að vega mjög alvarlega að innviðum samfélagsins, og þetta eru innviðir sem samfélagið þarf að reiða sig á til framtíðar.“

Þetta er einkennileg röksemdafærsls. Við öllum blasir að forstöðumenn stofnana telja sig hafa hag af því gagnvart fjárveitingarvaldinu að barma sér opinberlega. Að tala um það sem eðlislægan þátt samfélagsumræðunnar að hrópað sé á aukna hlutdeild í skattfé almennings með aðferðunum sem fjármálaráðherra gagnrýndi er blekking. Notaði ekki rektor listaháskólans skólaslitaræðu sína sl. vor til að kvarta undan fjárskorti?

Á sínum tíma þegar ég var aðili að ákvörðunum um fjárveitingar til stofnana og hinn samningsaðilinn kaus að bera raunir sínar á torg sagði ég gjarnan að greinilega væri ekki vilji til að ræða málið frekar við mig eða ráðuneytið. Menn skyldu þá leita annarra leiða en að lokum þyrfti þó samþykki mitt.

 

Senda grein

 

Fimmtudagur 08. 12. 16

Þegar alþingismenn samþykktu fyrir ári að breyta frumvarpi til laga um ríkisborgararétt einstaklinga til að hnekkja ákvörðun útlendingastofnunar um brottvísun fjölskyldu frá Afganistan var fullyrt að það hefði ekki fordæmisgildi. Á forsíðu Morgunblaðsins í dag birtist þessi frétt:

„Um það bil 820 einstaklingar eru í dag hælisleitendur á Íslandi, en vegna skorts á húsnæði hefur Útlendingastofnun neyðst til að hýsa hluta þessa fólks á hótelum í Reykjanesbæ og á höfuðborgarsvæðinu.

Í skriflegu svari Útlendingastofnunar til Morgunblaðsins kemur m.a. fram að fjöldi hælisleitenda sem nú gista á hótelum sé um 240 og er kostnaður fyrir hvert hótelherbergi um 15.000 krónur nóttin. Í sumum tilfellum gista fleiri en einn einstaklingur í hverju herbergi, t.a.m. þegar um er að ræða barnafjölskyldur. „Þessi fjöldi sem nú gistir á hótelum hefur aldrei verið meiri, en við höfum þó séð svipaðan fjölda áður,“ segir Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, í samtali í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta eru dýrustu úrræðin sem við höfum og um leið og pláss losnar annars staðar tökum við fólk út af hótelum. Álagið er hins vegar mjög mikið og það hafa komið dagar þar sem um 40 manns óska eftir hæli, en undanfarna þrjá mánuði hefur það verið þannig að fleira fólk kemur inn í kerfið en fer út úr því,“ segir hún.

Þeir hælisleitendur sem ekki gista á hótelum eru vistaðir í húsnæði í Reykjavík, Hafnarfirði og á Kjalarnesi. Alls leigir Útlendingastofnun húsnæði á 13 stöðum á höfuðborgarsvæðinu og er leigukostnaður, samkvæmt skriflegu svari stofnunarinnar, um 36 milljónir á mánuði. Við þessa upphæð bætist hótelkostnaður sem skiptir mörgum tugum milljóna á mánuði.“

Langfjölmennasti hópurinn af þessum 820 sem hér eru nefndir eru frá Albaníu og Makedóníu. Fólkið á engan rétt til að setjast hér að í krafti laga og reglna um flóttamenn þótt það krefjist inngöngu í flugstöð Leifs Eiríkssonar sem hælisleitendur. Með því setur það lögreglu afarkosti. Fólkið dvelst hér síðan á kostnað skattgreiðenda á meðan umsóknir eru til meðferðar í kerfinu. Margir stunda svarta vinnu, aðrir njóta heilbrigðisþjónustunnar. Ekki hefur verið upplýst hverjir standa að því að skipuleggja ferðir fólksins hingað eða hvað þeir fá í sinn hlut.

Það er til marks um ótrúlega vanþekkingu eða blekkingarviðleitni að segja að ákvörðun þingmanna fyrir ári hafi ekki haft nein áhrif í heimalöndum þessa fólks.

Senda grein

 

Miðvikudagur 07. 12. 16

Þess var minnst í gær, 6. desember, að 100 ár voru liðin frá fæðingu Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta íslenska lýðveldisins. Að því tilefni skrifaði ég grein um hann í Morgunblaðið að ósk ritstjóra þess og má lesa hana hér.

Á forsíðu Fréttablaðsinsbirtist í dag mynd af fjórum hæstaréttardómurum: Markúsi Sigurbjörnssyni, Viðari Má Matthíassyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni og Eiríki Tómassyni á leið úr Dómkirkjunni í Alþingishúsið við þingsetningu í gær. Texti undir myndinni snýst um að þeir tengist Glitni banka á einn eða annan hátt. Myndin er liður ófrægingarherferð blaðsins á hendur hæstaréttardómurum. Aðalritstjóri blaðsins er mágkona verjanda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem enn ræður hvað birtist á forsíðu blaðsins þegar sakamál tengd honum eru til meðferðar fyrir dómstólum.

Í Morgunblaðinu segir í morgun:

„Formaður Dómarafélags Íslands, Skúli Magnússon, segir óhjákvæmilegt að draga þá ályktun að gögn um hæstaréttardómara sem Kastljós og fréttastofa 365 hafa fjallað um komi frá Glitni. Í gögnunum kemur fram að fjórir hæstaréttardómarar, sem síðar hafi dæmt í málum tengd bankanum, hafi átt samanlagt 487 þúsund hluti í Glitni á árunum 2007-2008 sem hafi á þeim tíma verið um 14 milljóna króna virði.

„Þeir sem hafa lekið upplýsingunum vilja hafa áhrif á störf dómara og skapa tortryggni um störf þeirra,“ sagði Skúli við mbl.is í gær og bætti við að forsíða Fréttablaðsins [þriðjudaginn 6. desember], þar sem afrit af ökuskírteini Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta Hæstaréttar, var meðal annars birt, væri vitnisburður um upplýsingaleka. Þeir sem stæðu að lekanum hlytu að ætla sér eitthvað meira með hann og væntanlega að hafa áhrif á meðferð mála.

„Þetta eru væntanlega einhver mál sem tengjast Glitni. Þetta eru upplýsingar sem stafa frá Glitni. Ég held að sú ályktun sé því miður óhjákvæmileg að þeir sem standa að þessum upplýsingaleka vilji hafa einhvers kona áhrif á störf dómstóla eða þá að skapa tortryggni um þeirra störf,“ segir Skúli.“

Í dag ræddi á ÍNN ég við Davíð Loga Sigurðsson um bók hans Ljósin á Dettifossi. Verður þátturinn frumsýndur á rás 20 kl. 20.00 í kvöld.

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason