Dagbókin

Þriðjudagur 15. 04. 14

Dr. Richard North var nýlega hér á landi og flutti meðal annars fyrirlestur í Háskóla Íslands á vegum Evrópuvaktarinnar, RNH og Alþjóðamálastofnundar þar sem hann lýsti hugmynd sinni um að Bretar segðu sig úr ESB og yrðu aðilar að evrópska svæðinu. Rökstuðningur hans var skýr og sannfærandi. Hann lagði tillögu sína síðan fram í keppni á vegum IEA í London um Brexit, það er úrsögn Breta úr ESB.

Dr. North sigraði ekki í keppninni og komst ekki í hóp hinna sex sem valið stóð á milli að lokum. Hann hefur hins vegar tekið sér fyrir hendur að skilgreina tillögur þeirra sem hlutu náð fyrir augum dómnefndarinnar og bendir á að enginn þeirra hafi mælt með aðild að evrópska efnahagssvæðinu þótt allir leggi til að EFTA-aðild komi í stað ESB-aðildar en Bretar eigi jafnframt aðild að hinum sameiginlega markaði ESB. Þrjú EFTA-ríki: Ísland, Liechtenstein og Noregur eiga aðild að þessum markaði í gegnum EES-samninginn. Sviss, fjórða EFTA-ríkið, hefur samið beint við ESB án þess að EFTA komi þar nokkuð við sögu en það gegnir veigamiklu hlutverki við framkvæmd EES-samningsins.

North veltir því réttilega fyrir sér hvernig framkvæma eigi tillögur verðlaunahafans og annarra sem vilja Breta inn í EFTA með aðgangi að sameiginlega markaðnum. Ef þeir eigi að fara sömu leið og Svisslendingar þurfi þeir ekki að fara inn í EFTA og fari þeir í EFTA hljóti leið þeirra að sameiginlega markaðnum að vera um EES.

Hér má lesa hugleiðingar Richards Norths um þetta efni.

 


Senda grein

 

Mánudagur 14. 04. 14

Undir lok mars 2008 var ég í Valparaíso í Síle þaðan sem fréttir berast nú mikið tjón vegna skógarelda. Fréttirnar herma að eldurinn hafi ekki borist í þann hluta borgarinnar sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Bærinn stendur í hlíðum hæða eða fjalla sem umlykja höfnina við Kyrrahafið. Hún var þar til Panama-skurðurinn kom til sögunnar (1914) fyrsta stórhöfn sem sæfarendur heimsóttu eftir að hafa siglt suður fyrir Suður-Ameríku. Herfloti Sílemanna hefur þarna mikla bækistöð.

Gamli bærinn er einstakur og hefur verið valinn á heimsminjaskrána. Marglituð timburhús teygja sig upp brattar hlíðarnar. Það er hörmulegt að hlusta á hinar dapurlegu fréttir frá þessari fögru borg.

Senda grein

 

Sunnudagur 13. 04. 14

Undanfarið hefur páskadagskrá ríkissjónvarpsins verið kynnt á svo ruglaðan hátt að ógjörningur er að átta sig á hvernig þáttum og myndum er raðað á útsendingardaga. Þetta er undarleg aðferð við að kynna dagskrá sem hefur það ekki síst sér til gildis að áhorfendur séu upplýstir um um dag og tíma.

Nú hefur tæknin að vísu leitt til þess að unnt er að horfa á efni sumra sjónvarpsstöðva þegar áhorfandanum hentar innan sólarhrings frá því að efnið er fyrst sett í loftið. Á vefsíðu Símans er þessi þjónusta, tímaflakkið, kynnt á þennan hátt:

„Tímaflakkið gerir þér kleift að horfa á dagskrá sjónvarpsstöðvanna á þeim tíma sem þér hentar. Þú ýtir á i-takkann á fjarstýringunni og getur valið þér dagskrálið allt að sólarhring aftur í tímann, sem eru merktir með grænu spilamerki. Tímaflakkið er í boði fyrir flestar íslensku stöðvarnar og allar þær erlendu sem fylgja grunnáskrift að Sjónvarpi Símans.“

Þar sem viðskiptavinir Símans greiða sérstaklega fyrir aðgang að stöðvum utan grunnáskriftarinnar er einkennilegt að tímaflakkið nái ekki til þeirra.

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason