Dagbókin

Mánudagur 12. 10. 15

Nýtt hefti Þjóðmála kemur út um þessar mundir, haustheftið 2015. Við þetta verða þau tímamót að Jakob F. Ásgeirsson, stofnandi Þjóðmála, lætur af ritstjórn. Óli Björn Kárason tekur við tímaritinu af Jakobi.

Við Jakob höfum verið samstarfsmenn við Þjóðmál  í 10 ár, megi ég orða það svo. Ég hef skrifað í öll heftin sem Jakob ritstýrði. Fastur dálkur minn heitir Af vettvangi stjórnmálanna. Auk þess hef ég skrifað umsagnir um bækur.

Jakob hélt Þjóðmálum úti af forsjálni, umhyggju og metnaði.

Óli Björn hefur mikla reynslu af blaðamennsku og skrifar nú reglulega greinar í Morgunblaðið. Þær eru með því athyglisverðasta sem birtist í fjölmiðlum um stjórnmál á líðandi stundu.

Senda grein

 

Sunnudagur 11. 10. 15

Á vefsíðunni Kjarnanum segir í dag:

„Ólafur Ragnar segir [á Bylgjunni] að hann muni ræða það við eiginkonu sína og dætur hvort hann eigi að bjóða sig fram á ný [til forseta] og að sú ákvörðun verði kynnt í nýársávarpi hans. Ástæðan fyrir því hann ákvað að bjóða sig aftur fram árið 2012 hafi verið vegna óska fjölda fólks um að gera það. „Þá var þjóðin að heyja margar örlagaglímur á mörgum sviðum. Þessum glímum er að mörgu leyti lokið. Ég hef aldrei talið mig ómissandi og ef ég tek þá ákvörðun um að hætta vona ég að því verði sýndur fullur skilningur.““

Ólafur Ragnar styðst við allt annað bakland eftir að hafa verið forseti í tæp 20 ár en þegar hann var kjörinn. Vilji hann gleðja upphaflega stuðningsmenn sína í upphafi árs 2016 tilkynnir hann að sumarið 2016 hverfi hann frá Bessastöðum. Vilji hann gleðja þá sem stöðu að baki honum árið 2012 situr hann áfram. Ólíklegt er að nokkur „alvöru“ frambjóðandi taki við hann slaginn ákveði Ólafur Ragnar að sitja áfram.

Skynsamlegast er að sem lengst ríki friður um forsetaembættið. Líklegt er að Ólafur Ragnar hafi nú þegar skapað allan þann ófrið um embættið sem er á hans færi. Hann sitji því á friðarstóli og njóti efri áranna á Bessastöðum til 2020, velji hann þann kost.

Á visir.is er vitnað í sama samtal og sagt:

„Okkur er að takast að gera Ísland að Sviss Norðurslóða,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson forseti um mikilvægi Arctic Circle ráðstefnunnar fyrir Ísland. Með ráðstefnunni hafi tekist að gera Ísland að umræðuvettvangi um málefni Norðurslóða.

Í þessum orðum vísar Ólafur Ragnar vafalaust til World Economic Forum og hinna árlegu funda í svissneska fjallabænum Davos. Langt er í land að umræður um Norður-Íshafið skírskoti til jafnmargra þjóða og fundirnir í Davos en hingað kemur líklega breiðari hópur fólks en til Davos. Spyrja má hvort áhugi á umræðum um norðurslóðir minnki hægi á umsvifum þar eins og gerst hefur undanfarin misseri. Íslandi, aðila að NATO með varnarsamning við Bandaríkin, verður þó seint líkt við Sviss í umræðum um alþjóðastjórnmál.

 

Senda grein

 

Laugardagur 10. 10. 15

Gerð hefur verið heimildarmynd um síðasta mánuð Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra. Stikla til kynningar á myndinni hefur að sögn að geyma gagnrýni Jóhönnu á eftirmann hennar á formannsstóli Samfylkingarinnar, Árna Pál Árnason. Kennir hún honum um að hafa komið í veg fyrir að stjórnarskrármálið hlyti afgreiðslu á þingi fyrir kosningar 2013. Þá mun Jóhanna einnig skella skuld á þingflokk samstarfsmanna sinna í VG.

Ögmundur Jónasson sat í ríkisstjórn Jóhönnu og vísar ummælum hennar um VG til föðurhúsanna, henni væri nær að líta í eigin barm. Verkstjórn hennar hafi brugðist. Árás hennar á Árna Pál sé ómakleg,

Í raun hefði verið stílbrot hjá Jóhönnu að skella ekki skuldinni á aðra í stjórnarskrármálinu. Frá upphafi ferils síns sem forsætisráðherra hélt hún hins vegar svo klunnalega og frekjulega á málinu að það hlaut að fara illa. Frá 1. febrúar til kosninga vorið 2009 hafði Jóhanna framsóknarmenn í stjórnarskrárliðinu með sér. Gekk Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, erinda Jóhönnu sem formaður þingnefndar um málið. Öll málsmeðferðin var á þann veg að hún bar dauðann í sér.

Stjórnarskrármálið var aðeins eitt af hjartans málum Jóhönnu sem forsætisráðherra. Hún ætlaði einnig að umbylta sjávarútvegsmálunum og kippa löppunum undan kvótakerfinu. Loks átti að semja um aðild að ESB á hennar vakt. Allt rann þetta út í sandinn. Hverjum skyldi hún kenna um það í heimildarmyndinni?

Í þætti Gísla Marteins Baldurssonar, Vikunni, sem var frumsýndur föstudaginn 2. október 2015 var birt niðurstaða í skoðanakönnun þar sem spurt var: „Hver af eftirtöldum forsætisráðherrum telur þú að hafi staðið sig best í embætti?“ Flestir,  43,1%, töldu Jóhönnu hafa staðið sig best. Það er ekki öll vitleysan eins!

Kjarninn segir frá því í dag að SkjárEinn hafi frumsýnt þáttinn Voice Ísland sama kvöldið og þáttur Gísla Marteins var frumsýndur. Gallup hafi mælt meðaláhorf  á Voice Ísland hjá Íslendingum á aldrinum 12 til 80 ára 20,1 prósent og uppsafnað áhorf 28,7 prósent. Þáttur Gísla Marteins hafi ekki komist inn á topp tíu lista fyrstu vikuna sem hann var í loftinu, sem þýði að meðaláhorf á hann hafi að minnsta kosti verið minna en á breska þáttinn Poldark, sem var með 18,7 prósent meðaláhorf og 26,8 prósent uppsafnað áhorf.

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason