Dagbókin

Föstudagur 31. 10. 14

Sat í dag nokkra fundi á ráðstefnunni Arctic Circle – Hringborð norðursins – í Hörpu meðal annars til að sjá hvernig húsið er notað til ráðstefnuhalds og auðvitað til að fræðast af ræðumönnum. Skrifaði ég um sumt af því á Evrópuvaktina eins og sjá má hér og hér.

Þetta er mjög viðamikil ráðstefna og hefur kostað mikla yfirlegu að ná öllum þráðum saman og síðan skipuleggja fundina með tilliti til tíma og húsnæðis. Salurinn í Silfurbergi er vel tækjum búinn og sviðið rúmar ræðumenn og stjórnanda umræðna vel. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sat á fremsta bekk og hlaut lof ræðumanna fyrir framtak sitt að baki ráðstefnunni. Eitt sinn þegar ræðumaður kvartaði undan að myndirnar sem hann var með birtust ekki á skjánum stóð forsetinn upp og hnippti í tæknimanninn.

Það var eins gott að myndirnar birtust því að erindið snerist um notkun gervitungla við töku ljósmynda og hefur sú tæknist þróast mjög á undanförnum árum. Undrun vekur hve tunglin eru lítil sem notuð eru.

Eins og áður sagði er þetta fyrsta ráðstefnan sem ég sæki í Hörpu enda hefur áhugi minn á þátttöku í slíkum mannamótum minnkað ár frá ári. Líklega hef ég setið of margar ráðstefnur á starfsferli mínum.

Ég rifjaði einmitt upp í huganum í dag að nú um þessar mundir eru 25 ár liðin frá því að Berlínarmúrinn hrundi en á tíma kalda stríðsins sat ég ófáa alþjóðafundina með helstu sérfræðingum Vesturlanda í málefnum Sovétríkjanna og varnar- og öryggismálum. Að einhver þeirra segði fyrir um hrun Sovétríkjanna er af og frá. Skömmu fyrir hrun múrsins sat ég meira að segja ráðstefnu þar sem menn töldu ekki óhugsandi að austur-þýsk stjórnvöld myndu festa sig í sessi.

Vissulega var erfitt að ráða í það sem gerðist á bakvið tjöldin í einræðisríkjum kommúnista. Spurning er hvort nokkuð auðveldara er að geta sér til um hvernig ís og veðurfar þróast á Norður-Íshafi. Á þeim fundum sem ég sat í Hörpu í dag voru menn frekar að leita að svörum en slá einhverju föstu. Áhuginn á að setjast að hringborð norðursins hér sýnir einmitt að margir telja að eitthvað spennandi kunni að finnast við leitina.

Ég var undrandi þegar ég heyrði þingmann Íhaldsflokksins sem á sæti í varnarmálanefnd breska þingsins segja að hann teldi lausn öryggismála á Norður-Íshafi felast í friðlýsingu þess – ætli fréttir af hervæðingu Rússa í íshafinu hafi ekki borist til Westminster? Skyldi talið um kjarnorkuvopnalaus svæði nú hefjast að nýju?

 

 

Senda grein

 

Fimmtudagur 30. 10. 14

Miðaldastofa boðaði í dag til fyrirlestrar um leitina að klaustrunum og flutti dr. Steinunn J. Kristjánsdóttir prófessor hann. Eftir að hún gróf upp Skriðuklaustur í Fljótsdal hefur hún fengið styrk til að leita að hinum klaustrunum 13. Leitin hófst í sumar og skýrði Steinunn frá því sem fundist hefur. Hún telur að vitað sé um rústir nunnuklaustursins á Reynistað (1295-1551). Þrátt fyrir fjölda ferða að Helgafelli (1172-1550) hafa hún og samstarfsmenn hennar ekki fundið neinar minjar um klaustur þar.

Lengst var klaustur á Þingeyrum í Húnaþingi, 1106 til 1551. Í máli Steinunnar kom fram að henni er bannað að stunda þar rannsóknir vegna friðlýsinga á svonefndum dómhring í nágrenni núverandi bæjarstæðis á Þingeyrum og einnig á Trumbsvölum sem standa í nokkurri fjarlægð norðvestur af bæjarhúsunum.

Undir eftirliti fulltrúa Minjastofnunar fékk hún þó leyfi til að grafa tvo rannsóknarskurði á Trumbsvölum og sagði hún að þar hefðu fundist minjar sem gætu bent til þess að klaustrið hefði staðið þar.

Tvennt vekur sérstaka undrun eftir að hafa hlýtt á hið fróðlega erindi Steinunnar:

  1. Að hvergi skuli hafa fundist nein rituð samtímaheimild um húsakipan og skipulag klausturstaða: Hvort klaustrið hafi staðið sér og híbýli klausturbónda á öðrum stað, hvort tvær kirkjur hafi verið á staðnum o. s. frv. Slík skjöl hafa örugglega verið til en skemmdaræðið við siðaskiptin orðið til þess að allt var eyðilagt sem haldið gat lífi í minningu um klaustrin eða stuðlað að endurreisn þeirra eftir að vargar fóru um þau höndum. Fréttir úr samtímanum af framgöngu IS-manna í Sýrlandi og Írak minna á tryllinginn við uppgjör trúarlegs eðlis.
  2. Að Minjastofnun skuli banna fornleifarannsókn á Þingeyrum með vísan til friðlýsingar þótt í reglum sé heimild til undanþágu. Að heimildin nái ekki til vísindalegrar rannsóknar á borð við þessa er óskiljanlegt. Að túlka friðlýsingu á þann veg að ekki sé unnt að rannsaka hvort hún eigi við rök að styðjast og þá við hvaða rök, stangast á við það sem skynsamlegt getur talist. Varla hefur löggjafinn litið svo að banna skyldi rannsóknir í þágu friðlýsingarinnar?

Fyrirlestrarsalur 101 í Odda var þéttskipaður þegar Steinunn flutti erindi sitt og komust líklega færri að en vildu.

 

Senda grein

 

Miðvikudagur 29. 10. 14

Í dag ræddi ég við Þórhall Ólafsson, forstjóra Neyðarlínunnar, í þætti mínum á ÍNN og snýst samtal okkar um Tetra-kerfið, það er sérstakt fjarskiptakerfi sem ákveðið var að næði til landsins alls á árinu 2004 og er nú undirstaðan í samskiptum allra viðbragðsaðila á landinu með alls um 6.700 skráða notendur. Næst má sjá samtal okkar Þórhalls klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Í þætti mínum fyrir viku ræddi ég við Aðalheiði Héðinsdóttur, forstjóra Kaffitárs, um þróun fyrirtækisins og þá ákvörðun ISAVIA að úthýsa því úr flugstöð Leifs Eiríkssonar án viðhlítandi skýringar. Hér má sjá samtal okkar Aðalheiðar.

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason