Dagbókin

Fimmtudagur 23. 10. 14

Unnt er að reyna á innviði þjóðríkja á ýmsan hátt.

Þung rök hníga að því að Huang Nubo hafi fengið leyfi kínverskra stjórnvalda til að láta á það reyna hve langt hann kæmist með ósk um að eignast 300 ferkílómetra land Grímsstaða á Fjöllum. Þegar ríkisvaldið sagði nei reyndi hann að vefja sveitarstjórnum á norðausturlandi um fingur sér. Þau stofnuðu hlutafélagið GáF til að þjóna Huang og situr það nú uppi með 10 milljóna króna skuld en Huang hefur fest sér 100 ha land skammt frá Tromsö í Noregi þótt kaupin séu ekki formlega um garð gengin.

Kínverjum hefur tekist að kortleggja ýmislegt um innviði íslenska stjórnkerfisins og átta sig betur en áður á hvar helst sé að leita stuðnings við óskir þeirra.

Skömmu eftir að vinstri stjórn tók við völdum í Svíþjóð bárust fréttir um að rússneskur kafbátur væri á sveimi í sænskri lögsögu úti fyrir Stokkhólmi. Hans hefur nú verið leitað án árangurs í eina viku. Hvort sem kafbátur hefur verið eða er þarna á ferð eða ekki hefur Rússum tekist að kalla fram viðbrögð sænskra stjórnvalda sem sýnir styrk þeirra og veikleika.

Einhver lak frétt í DV um að nýjar byssur hefðu verið kynntar til sögunnar hjá ríkislögreglustjóra. Upphaflega fréttin var röng og reist á getgátum. Að íslenska lögreglan hafi aðgang að vopnum er ekki nýtt. Miðað við fjölda lögreglumanna eru vopnin líklega hlutfallslega færri nú en nokkru sinni fyrr. Að sjálfsögðu á að stuðla að því að lögreglan ráði yfir sem bestum tækjabúnaði og geti notað hann innan lögmætra marka.

Framvinda umræðnanna um þetta vopnamál leiðir í ljós fávisku margra fjölmiðla- og þingmanna auk algjörs skilningsleysis á hlutverki og ábyrgð þeirra sem láta að sér kveða í umræðum um öryggismál. Þá kemur einnig í ljós, eins og vitað var, að innan stjórnsýslunnar er grátt svæði þegar kemur að öryggis- og varnarmálum þar sem annars vegar eiga í hlut stofnanir á vegum innanríkisráðuneytisins og hins vegar utanríkisráðuneytið sem fer með varnarmál og hefur samskipti við stjórnvöld annarra ríkja á því sviði.

Var tilgangur þess sem lak fréttinni í DV að draga fram þennan veikleika innan stjórnsýslunnar eða að leggja stein í götu þess að lögreglumenn hefðu aðgang að viðunandi vopnum? Skyldi einhver kæra þennan leka til ríkissaksóknara?

 

 

Senda grein

 

Miðvikudagur 22. 10. 14

Í dag ræddi ég við Aðalheiði Héðinsdóttur, forstjóra Kaffitárs, í þætti mínum á ÍNN. Kaffitár var stofnað fyrir 24 árum og hefur áunnið sér góðan sess á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur rekið tvær kaffistofur í flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) á Keflavíkurflugvelli en hefur nú verið gert að loka þeim án þess að fylgt hafi verið viðunandi leikreglum að mati Aðalheiðar.

ISAVIA er rekstraraðili Keflavíkurflugvallar og annarra flugvalla í landinu og reksturinn í FLE er undir handarjaðri ISAVIA, opinbers hlutafélags. Hið einkennilega við ákvarðanir um nýja leigutaka í FLE er leyndarhyggjan sem einkennir viðhorf stjórnenda ISAVIA. Lýsingar á henni minna mig á viðhorf stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur fyrir einum áratug.

Vegna þess hve stjórnendur opinberra fyrirtækja hafa verið tregir til að skýra frá einstökum þáttum varðandi rekstur þeirra var lögum breytt fyrir fáeinum árum til að auka upplýsingaskyldu þeirra. ISAVIA vildi þá sérstöðu sem ekki var samþykkt. Nú neitar fyrirtækið að upplýsa þá sem vildu fá að starfa í FLE og ætlar ekki að verða að óskum þeirra nema hæstiréttur gefi fyrirmæli um það.

Þátturinn með Aðalheiði verður næst á dagskrá klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Hér má sjá þátt minn á ÍNN sem sýndur var í síðustu viku þar sem ég ræddi við Árna Larsson skáld.

Senda grein

 

Þriðjudagur 21. 10. 14

Ramakveinið sem heyrist þegar minnst er á vopnabúnað lögreglunnar er almennt viðbúnað til að tryggja öryggis landsmanna er með nokkrum ólíkindum. Látið er eins og einhver nýlunda felist í því að íslenska lögreglan hafi aðgang að skotvopnum. Svo er auðvitað ekki eins og sagan segir þeim sem vilja kynna sér hana.

Um langt árabil hafði lögreglan til dæmis aðstöðu til æfinga í húsi úti á Seltjarnarnesi þar sem nú er hús golfklúbbsins á nesinu. Á stríðsárunum var efnt til vopnaðra æfinga lögreglumanna á Laugarvatni undir stjórn Agnars Kofoed-Hansens lögreglustjóra.

Fyrir um áratug var ákveðið að breyta skipulagi sérsveitar lögreglunnar til að tryggja að liðsmenn hennar yrðu ávallt til taks með vopn sín á höfuborgarsvæðinu og á Akureyri. Þetta var ekki síst gert til að tryggja öryggi hins almenna lögreglumanns og auka svigrúm hans til að takast á við erfið og hættuleg viðfangsefni. Öryggisleysi lögreglumanna minnkar öryggi hins almenna borgara.

Jón H. Bjartmarz vitnar á mbl.is í dag í skýrslur um stöðu lögreglunnar frá 2012, í ráðherratíð Ögmundar Jónassonar, um að öll embætti lögreglunnar hafi skammbyssur til umráða, nokkur þeirra rifla og haglabyssur. Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hafi haft 28 skamm­byss­ur til umráða á ár­inu 2012 og fimm hagla­byss­ur. Lög­regl­an á Suður­nesj­um hafi einnig haft yfir sjálf­virk­um vopn­um að ráða.

Í illa unnum fréttum og upphrópunum á alþingi og vefsíðum er látið eins og vopn verði látin í alla lögreglubíla. Þetta er ekki rétt. Vopn verða áfram geymd í lögreglustöðvum. Jón H. Bjartmarz segir að ein­stak­ir lög­reglu­stjór­ar  í stórum umdæmum á lands­byggðinni hafi á undan­förn­um árum tekið sjálf­stæða ákvörðun um að hafa vopn í bíl­um. Til skoðunar sé hjá um­rædd­um lög­reglu­stjór­um hvort þeir setji MP5 byss­ur í bíl­ana til viðbót­ar við skamm­byss­ur. Þar sé um að ræða einstaka bíla við sérstakar aðstæður.

Þegar rykið fellur til jarðar núna kemur í ljós að um það er að ræða hvort vopn lögreglunnar falli að eðlilegum nútímakröfum eða ekki.

Þegar varðskipið Óðinn kom hingað nýsmíðað til landsins árið 1960 var um borð í því fallbyssa með þessari áletrun: „Artillerimaterielværkstæderne Köbenhavn 1896“. Engum datt í hug að setja slíkt vopn um borð í Þór árið 2011. Fallbyssan í Þór er af gerðinni Bofors 40 MM L60 MK 3, sömu tegundar og fallbyssan um borð í Ægi.

Upphrópanir einstakra álitsgjafa og þingmanna í dag sannar aðeins enn hve frumstæðar umræður þessir menn telja sér sæma að stunda um öryggismál þjóðarinnar. Er tilvijun að þetta upphlaup eigi upptök í DV?

 

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason