Dagbókin

Föstudagur 27. 05. 16

Eitt af því sem nýlga hefur komið til sögunnar í Leipzig er safn um Jóhann Sebastian Bach. Er þar beitt allri nýjustu tækni við að miðla fróðleik um Jóhann Sebastian og aðra úr Bach fjölskyldunni. Safnið er í húsi andspænis Tómasarkirkjunni og kórskólahúsinu þar sem Jóhann Sebastian og barnmörg fjölskylda hans bjó. Í húsinu sem nú geymir safnið bjó vinafjölskylda Bachs.

Þarna má sjá hluta af orgeli sem Bach skoðaði og úrskurðaði nothæft og orgelbekk sem vitað er að hann notaði á sínum tíma. Þá má einnig sjá upprunaleg handrit verka hans en þau hafa verið að finnast allt fram á síðustu ár.

Tómasarkirkjan hefur verið endursmíðuð frá tíma Bachs en minning hans svífur þarna yfir öllu.

Í kirkjunni var í gær flutt verk fyrir orgel, stóran kór og hljómsveit eftir Max Reger, tónskáld frá Leipzig.  Minnst er 100 ára ártíðar hans í ár en hann reyndi á sinn hátt að feta í fótspor Bachs.

Verkið sem hljómaði í gær heitir 100. sálmurinn og tekur um 30 mínútur í flutningi. Stjórnandinn flutti skýringar (of langar) í upphafi flutningsins og lýsti hve mikið átak hefði verið fyrir háskólakórinn í Leipzig að takast á við verkið. Kór, organleikara og hljómsveit var fagnað innilega í lok tónleikanna.

Senda grein

 

Fimmtudagur 26. 05. 16

Leipzig fylltist af þátttakendum í kaþólskum dögum sem verða hér fram yfir helgi. Þessa daga sækja kaþólikkar alls staðar að úr Þýskalandi og einnig frá öðrum löndum. Á öllum torgum borgarinnar eru útisvið þar sem sungnar eru messur, hljómsveitir og kórar flytja tónlist og ræðumenn tala.

Tug þúsundir manna ganga um miðborgina og njóta þess sem er í boði. Hvarvetna eru sölu- eða kynningartjöld. Hátíðargestir eru auðþekktir á ljósgrænum klútum sem þeir bera um hálsinn. Ljósgrænn er einkennislitur þessarar hátíðar sem nú er haldin í 100. skipti en í fyrsta sinn hér í Leipzig sem er í grunninn mótmælendatrúar eftir að Marteinn Luther var uppi og flutti boðskap sinn í Tómasar-kirkjunni árið 1539.

Um 560.000 manns búa í Leipzig þar af eru um 26.000 kaþólskir eða 4%. Í söfnuðum mótmælenda eru um 70.000 manns eða um 13% íbúa borgarinnar. Að ferðast um austurhluta Þýskalands nú á tímum miðað við það sem áður var er að vegna nýlegrar endurreisnar hér er allt nýlegt eða nýtt og sniðið að nútímaþörfum, gististaðir, veitingahús og verslanir.

Að heimsækja Nikulásar-kirkjuna núna eðs snemma árs 1990 skapar minningu um gjörbreytinguna sem orðið hefur síðan kitkjan var miðstöð mánudags-mótmælanna í aðdraganda þess að múrinn hrundi og kommúnisminn með honum. Þá bar kirkjan merki þess að vera miðstöð fjöldahreyfingar mótmælenda nú var strengjasveit að æfa þar verk í samleik með orgelinu þegar við litum inn í hana í hádeginu í gær.

Gewandhaus-hljómsveitin á rætur aftur til 1743 þegar stofnað var til hljómleika í Gewandahaus, það er húsakynnum vefara í Leipzig. Enn er opið Gewandhaus í Leipzig, glæsilegt tónlistarhús frá 1981 við Agústusar-torg andspænis óperuhúsinu.

Við fórum þar á tónleika hljómsveitarinnar í gærkvöldi, svonefna kynningartónleika, þar sem Vorblótið eftir Stravinsky ar kynnt og flutt. Hinn heimsfrægi Andris Nelsons stjórnaði. Hann er nú að verða 21. Gewandhauskapellmeister, það er aðalstjórnandi samhliða því að vera aðalstjórnandi Boston Symphony Orcherster.

Við Ágústusar-torg stóð einnig háskólakirkjan, Páls-kirkjan, sem Walter Ulbricht kommúnistaleiðtogi lét sprengja í loft upp árið 1968 sjálfum sér og flokknum til eilífrar skammar. Í Leipzig er forvitnilegt safn um Stasi, austur-þýsku öryggislögregluna. Þar má kynnast aðferðunum sem kommúnistar beittu gegn þegnum sínum til að tryggja eigin völd.

Senda grein

 

Miðvikudagur 25. 05. 16

Deilurnar um hvort kjósa eigi í haust eða í lok kjörtímabilsins fáeinum mánuðum síðar sýna að ekki er tekist á um djúpstæð ágreiningsmál á stjórnmálavettvangi um þessar mundir. 

Einkennilegast er þegar látið er í veðri vaka að unnt verði á næsta vetri að samþykkja á alþingi lagafrumvörp sem ekki hefur tekist að leiða til lykta frá því að ríkisstjórnin settist að völdum í maí 2013. Í stjórnmálaskýringum af því tagi skauta menn alveg fram hjá þeirri staðreynd að stjórnarflokkana greinir á um mörg mikilvæg mál. Sum þeirra eru þess eðlis að borin von er að ná sameiginlegri niðurstöðu um þau á kosningavetri þegar stjórnmálamenn og flokkar leitast við að skapa sér sérstöðu.

Ríkisstjórnin hefur lokið meginverkefni sínu. Hún hefur mótað og framkvæmt stefnu um leið þjóðarinnar út úr fjármagnshöftunum. Að gera lítið úr þeim sögulega árangri með því að setja á deilur um hvort kjósa eigi nokkrum mánuðum fyrr en síðar er einkennilegt, sérstaklega þegar einn arkitekta hins sögulega árangurs, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, kýs að gera það.

Stjórnmálalífið ber svipmót upplausnar og brýnt er að jarðtengja það sem fyrst. Það verður best gert með kosningum. Um nokkurra missera skeið hefur flokkur pírata, minnsti þingflokkurinn, mælst með mest fylgi meðal kjósenda. Samfylkingin er á vonarvöl en ætlar að ná vopnum sínum undir nýjum formanni. Framtíð Bjartrar framtíðar er óviss. Nýr flokkur Viðreisn, rær á atkvæðamið Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Spurt er hvort Sigmundur Davíð njóti trausts sem formaður Framsóknarflokksins og hvort flokkurinn ætli að stíga til vinstri eða halda sig áfram á hinni hverfandi miðju.

Þegar stjórnmálaástandið er á þann veg sem það er núna er eðlilegt að kjósendur komi sem fyrst til sögunnar til að greiða úr flækjunni og ákveða hverjum þeir treysta til að fara með landstjórnina að kosningum loknum.

Sé litið til málefna er einnig eðlilegt að nú við söguleg þáttaskil í efnahagsmálum þjóðarinnar líti flokkarnir inn á við og móti sér afstöðu á grundvelli hins nýja efnahagslega umhverfis og leggi stefnu sína í dóm kjósenda. 

Meginspurningin hlýtur að vera hvort kjósendur vilji að áfram verði haldið í anda borgaralegs sjálfstæðis eða horfið verði til stjórnarháttanna sem einkenndu stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Að skýra og skilgreina þá kosti er verðugra og tímabærra viðfangsefni en naga sig í handarbökin vegna ákvarðana um kosningar fyrir lok október 2016.

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason