Dagbókin

Fimmtudagur 28. 07. 16

Hér var vakið máls á því í gær að Birgitta Jónsdóttir (pírati), Oddný Harðardóttir (Samfylkingu) og Katrín Jakobsdóttir (VG) hefðu sameiginlega sagt að þær vildu ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn að loknum kosningum. Minnt var á að Birgitta vildi aðeins 9 mánaða kjörtímabil næst til að setja nýja stjórnarskrá og kollvarpa stjórnarráðinu.

Glöggur lesandi sendi mér bréf í tilefni af þessu þar sem segir:

„ Eitt skilyrðið sem Birgitta hefur oft nefnt er: Píratar setjast ekki í ríkisstjórn nema enginn þingmaður verði ráðherra, sama úr hvaða samstarfsflokki þingmaðurinn er. Enginn sé hvorutveggja þingmaður og ráðherra. Blaða/fréttamenn spyrja formenn væntanlegra samstarfsflokka aldrei útí þessi skilyrði Birgittu.“

Þetta er réttmæt ábending sem dregur enn athygli að hve innantómar spurningar fréttamanna til Birgittu og vegna hennar eru. Ef þeir telja ekkert að marka af því sem hún hefur áður sagt hvers vegna eyða þeir sínum tíma og annarra í samtöl við hana?

Í framhaldi af útilokunaryfirlýsingu flokksleiðtoganna þriggja skrifar Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks VG, grein i Fréttablaðið í dag þar sem segir meðal annars:

„Réttlátt skattkerfi er hornsteinn velferðarsamfélaga. Þeir sem nóg hafa og meira en nóg borga meira til samneyslunnar sem er hugsuð til þess að jafna kjör og tryggja velferð allra án tillits til efnahags. Núverandi stjórnvöld hafa ítrekað lýst afstöðu sinni gegn auðlegðarskatti og þrepaskiptu skattkerfi að norrænni fyrirmynd.“

Þarna er áréttað að komist þessir þrír vinstri flokkar til valda að loknum kosningum verði aftur tekið til við að fikta við skattkerfið í anda sósíalisma og stöðnunar. 

Í nýjasta hefti Þjóðmála er vitnað í Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, sem bendir á að skatttekjur hér séu nú háar bæði í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Skattbyrði sé nánast hvergi meiri meðal þróaðra ríkja. Aukin skattbyrði hafi að meginþunga lagst á fyrirtæki og sé nú verulega fyrir ofan meðaltal OECD-ríkja. Umskiptin hafi orðið mikil, skattbyrðin hafi verið einn lægst á Íslandi árið 2003. Þá segir í greininni eftir Óla Björn Kárason ritstjóra:

„Skattastefnan á Íslandi frá hruni gengur þvert á stefnu margra annarra þjóða sem á undanförnum árum hafa lagt áherslu á að bæta samkeppnisumhverfi atvinnulífsins og fremur leitast við að lækka skatta en að hækka þá.“

Þessa staðreynd hafa talsmenn sósíalisma á Íslandi að engu og vilja enn herða skattatökin.

Senda grein

 

Miðvikudagur 27. 07. 16

Það er upplýsandi fyrir kjósendur að þeir sem koma fram sem forystumenn Samfylkingar, VG og Pírata-flokksins segjast útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn að kosningum loknum. Í atkvæði sem greidd verða þessum flokkum felst ávísun á skattahækkanir, skuldasöfnun ríkissjóðs og ofstjórn á sviði atvinnumála. Ávísun á stöðvun og siðan afturför. Þessu kynntist þjóðin 2009 til 2013 og þessu hafa nágrannaþjóðir kynnst.

Úr því að flokkarnir þrír hafa ákveðið að stíga þetta skref hljóta fjölmiðlamenn næst að spyrja talsmenn þeirra hvort þeir ætli ekki að framkvæma það sem Birgitta Jónsdóttir, talsmaður stærsta flokksins, pírata, hefur boðað: að gera stjórnarsáttmála fyrir kosningar um breytingar á stjórnarskrá, uppstokkun á stjórnarráðinu og kosningar að nýju eftir níu mánuði.

Oft er talað um gullfiskaminni almennings það er þó enn meira áberandi hjá fjölmiðlamönnum sem eiga að reisa vörður svo að almenningur geti áttað sig á hvert stefnir. Hvers vegna spyrja þeir Birgittu Jónsdóttur til dæmis aldrei um samhengið í því sem hún segir? Er það vegna þess að þeir telja hana í raun marklausa? Eða vilja þeir hlífa henni við flóði eigin yfirlýsinga? Og hvað með Oddnýju og Katrínu Jakobs, ætla þær í samstarf við Birgittu um framkvæmd stefnu hennar?

Ákveði forsætisráðherrar annars staðar að rjúfa þing og efna til kosninga gera þeir það án þess að ráðgast fyrst við stjórnarandstöðuna. Nægir að líta til Danmerkur og Bretlands í því sambandi. 

Nú hefur verið ákveðið að boða til kosninga í haust. Vikum og mánuðum saman hefur stjórnarandstaðan hins vegar vælt yfir því að hún viti ekki hvaða dag í haust. Má skilja sjálfa Birgittu á þann veg að af fjölskylduástæðum þurfi hugsanlegir frambjóðendur að vita þetta! Haft er í hótunum um að rætt verði endalaust um fundarstjórn forseta alþingis eða störf þingsins fái píratar ekki að vita um kjördag. Ávallt viðbúin! er greinilega ekki eitt af slagorðum pírata.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson útilokar ekki að hann verði ráðherra að nýju, nú þegar hann hefur ákveðið að ganga til virkrar stjórnmálaþátttöku aftur. Á þá kapallinn innan Framsóknarflokksins frá 7. apríl 2016 að ganga til baka? Þegar Sigmundur Davíð boðaði þingrof 5. apríl 2016 sagði Karl Garðarsson, þingmaður framsóknar: „Staðan núna er mjög óljós og við þurfum að fá skýringar frá Sigmundi um hvað býr að baki hjá honum.“ Hvað skyldi Karl segja núna?

Senda grein

 

Þriðjudagur 26. 07. 16

Enn er óljóst hvernig samningsmarkmið Breta verða gagnvart ESB. Theresa May forsætisráðherra hefur verið í Berlín og París. Angela Merkel sýndi skilning á ósk hennar um að Bretar fengju nokkra mánuði til að móta afstöðu sína. Meiri óþolinmæði gætti hjá François Hollande. Hann vill að Bretar taki sem fyrst af skarið um hvaða leið þeir ætli úr ESB og hvernig þeir vilja haga samskiptunum eftir brottförina. Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 23. júní var töluvert um hræðslutal í þá veru að kæmi til úrsagnar yrði núverandi samningi um landmæravörslu Breta í Calais í Frakklandi rift. Nú er ljóst að það gerist ekki.

Eins og áður ber allt að þeim brunni að lokum að skynsamlegast sé fyrir Breta að gera EES-samning í einhverri mynd við ESB. Vandamálið er ákvæðið um frjálsa för yfir landamæri sem stangast á við yfirlýst markmið Breta að hafa stjórn á hve margir flytjast til Bretlands. Eftir ferð May til Merkel og Hollandes hafa birst fréttir um að hugsanlegt sé að Bretar fái sjö ára undanþágu frá reglunni um frjálsa för.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG), formaður Framsóknarflokksins, hefur verið meira og minna óvirkur í stjórnmálabaráttunni síðan 5. apríl þegar hann tilkynnti þingflokki sínum að hann segði af sér sem forsætisráðherra og vildi að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins, yrði forsætisráðherra í sinn stað.

Í gær, mánudaginn 25. júlí, sendi SDG flokksmönnum sínum bréf og boðaði virka endurkomu sína í stjórnmálalífið. Hann sagði meðal annars:

„Á næstunni mun ég því aftur hefja fulla þátttöku í stjórnmálabaráttunni. Það mun vekja viðbrögð. Látið það ekki slá ykkur út af laginu. [...] Á næstu dögum munu því flokksmenn fá sendar upplýsingar um öll þau álitamál sem upp kunna að koma.“

Í dag birtir SDG grein i Morgunblaðinu um störf ríkisstjórnarinnar og það sem eftir er af því sem lagt var upp með vorið 2013. Hann kýs að leggjast gegn ákvörðun Sigurðar Inga og Bjarna Benediktssonar að boðað verði til kosninga í haust þar sem enn séu óunnin verk. Þetta er næsta innantóm röksemdarfærsla þegar til þess er litið að 4. og 5. apríl undirbjó SDG þingrof og kosningar eftir illa útreið sem hann fékk í sjónvarpsþætti.

Viðbrögðin sem SDG boðar í bréfi sínu til framsóknarmanna snerta hvorki flokkinn né málefni hans heldur SDG sjálfan.

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason