Dagbókin

Sunnudagur 25. 01. 15

Allt benti til að Syriza, bandalag róttækra vinstrisinna, systurflokkur VG, ynni stórsigur í þingkosningunum í Grikklandi í dag, þegar fjórðungur atkvæði höfðu verið talin. Flokkurinn fengi 35,4% atkvæða en Nýi lýðræðisflokkurinn (mið-hægriflokkur) 29%, Antonis Samaras forsætisráðherra er formaður þess flokks.

Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza, hefur lofað að ná hagstæðum samningum við þríeykið, ESB, Seðlabanka evrunnar (SE) og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), neyðarlánveitanda Grikkja sem þeir skulda um 240 milljarða evra. Í upphafi var Tsipras andvígur aðild Grikkja að evru-samstarfinu en hefur stig af stigi mildað afstöðu sína til hennar enda telur meirihluti Grikkja of hættulegt að kasta evrunni fyrir róða.

Framvinda stefnu Syriza gagnvart evrunni og ESB minnir á hvernig VG hefur þróað stefnu sína gagnvart ESB. Af því að VG telur þann kost bestan fyrir sig að vera samstarfshæfur flokkur fyrir ESB-aðildarflokkinn, Samfylkinguna, hafa forystumenn VG valið svipaða stefnu í ESB-málum og Framsóknarflokkurinn gerði í varnarmálum fram til 1978: að vera opinn í báða enda.

Alexis Tsipras vill ekki verða hornreka innan ESB og þess vegna er ekki ólíklegt að hann hagi sér líkt og Steingrímur J. Sigfússon gerði að loknum kosningum í apríl 2009 þegar hann kúventi og gekk á bak orða sinna varðandi ESB-umsóknina. Þau brigð urðu síðan hluti af blekkingarleiknum um að unnt væri að fara í könnunarleiðangur til Brussel.

Undir stjórn Tsipras og Syriza verður stofnað til pólitískrar ESB-leiksýningar. Því verður til dæmis hampað að Grikkir fái ekki notið loforðs SE um kaup á ríkisskuldabréfum fari þeir ekki að skilmálum þríeykisins með t. d. lengri lánstíma.

Minnast má þess að Steingrímur J. var alfarið á móti AGS-samningum utan stjórnar en uppveðraðist við skjall AGS-manna og hældi sér af því að á fundi AGS í Washington hefðu menn sagt að senda ætti hann til að bjarga Grikkjum.

Senda grein

 

Laugardagur 24. 01. 15

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um álit umboðsmanns alþingis (UA) á samtölum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Stefáns Eiríkssonar, innanríkisráðherrans og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.  Hugleiðingu mína má lesa hér. UA seilist næsta langt til að komast að lögfræðilegri niðurstöðu um álitaefnið og auðveldaði Hanna Birna honum það með því að viðurkenna mistök í bréfi til hans.

Einkennilegt er ef Hönnu Birnu er nú talið það til lasts að hafa játað á sig mistök. Þetta er efnislega hið sama og hún sagði í bréfi til sjálfstæðismanna 8. janúar 2015, sama dag og hún sendi UA bréfið. Við sjálfstæðismenn sagði Hanna Birna:

„Ég vildi óska að ég hefði fyrr en ég gerði áttað mig á því hversu erfitt málið yrði; vildi óska að ég hefði gert minna af því að útskýra atburðarás og grípa til varna í máli sem ég gat ekki útskýrt; og vildi óska að ég hefði aldrei rætt málið eða átt nokkur samskipti við fyrrverandi lögreglustjóra vegna þess, þrátt fyrir skýringar hans um að hann færi ekki með stjórn málsins. Því hef ég þegar komið til umboðsmanns Alþingis með bréfi í dag.“

Í tíð minni sem ráðherra las ég mörg álit UA meðal annars um málefni sem varðaði embættisfærslu mína. Ég latti fólk aldrei til að leita álits UA enda er verkefni hans að lýsa inn í skúmaskot stjórnsýslunnar og benda á það sem má betur fara. Þetta tilvik sem hér um ræðir er svo sérstakt að vonandi á aldrei eftir að koma til þess aftur að ríkissaksóknari sjái ástæðu til að gefa fyrirmæli um rannsókn á ráðuneyti lögreglumála.

Ég var ekki alltaf sammála niðurstöðu UA. Hann gekk til dæmis lengra en góðu hófi gegndi þegar hann bjó til nýja reglu í áliti sínu vegna skipunar Ólafs Barkar Þorvaldssonar í embætti hæstaréttardómara og taldi mig hafa brotið hana! Þegar Ólafur Börkur sótti um dómaraembætti tóku þeir sem sátu fyrir í hæstarétti sig saman um reyna að binda hendur veitingarvaldsins með forgangsröðun í áliti sínu.

Vegna álits UA í því máli kröfðust margir afsagnar minnar sem ráðherra.

Senda grein

 

Föstudagur 23. 01. 15

Í dag eru liðin rétt 20 ár frá því að fyrsta færslan sem varðveitt er hér á vefsíðunni var sett á hana, það var hinn 23. janúar 1995 eins og sjá má hér. Í þessi 20 ár hefur síðan verið snar þáttur í daglegu lífi mínu. Hún geymir gífurlegt magn upplýsinga um það sem á daga mína hefur drifið í einkalífi og opinberu lífi. Þá er hér að finna viðhorf mitt til manna og málefna á líðandi stundu.

Þetta er þó aðeins brot af því sem ég hef skrifað á þessum árum. Í tæp fimm ár höfum við Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, haldið úti vefsíðunni Evrópuvaktinni og þar hef ég skrifað mikið um málefni líðandi stundar. Þá hef ég í 10 ár verið fastur dálkahöfundur hjá tímaritinu Þjóðmálum en enga af þeim greinum sem ég hef skrifað þar um stjórnmál eða bækur er að finna hér á síðunni.

Ég hef rætt við Borgarskjalasafnið um varðveislu síðunnar þegar fram líða stundir. Hún hefur frá síðla árs 2002 verið vistuð hjá Hugsmiðjunni sem hannaði hana í núverandi búning í tengslum við prófkjör vegna alþingiskosninganna vorið 2003. Samstarfið við Hugsmiðjuna hefur verið farsælt og snurðulaust í allan þann tíma sem síðan er liðinn. Ég átti einnig mikið undir öðrum kunnáttumönnum við gerð og varðveislu vefsíðu fyrir þann tíma og er sú saga rakinn hér á síðunni til dæmis hér, 

Miðvikudaginn 21. janúar kom fjöldi manna saman í Valhöll til að minnast þess að á gamlársdag voru liðin 50 ár frá andláti Ólafs Thors, hins mikla foringja flokksins. Hér má sjá myndband frá fundinum þar sem Davíð Oddsson, fyrrv. flokksformaður, flutti skemmtilega ræðu en Bjarni Benediktsson flokksformaður stjórnaði fundinum og minntist einnig forvera síns.

Ég var 20 ára þegar Ólafur Thors lést og kynntist nánu samstarfi og vináttu hans og föður míns. Er birta og gleði yfir þeirri minningu. Nú má kynnast skjölum þeirra beggja á Borgarskjalasafni og er ekki að efa að þegar fram líða stundir munu menn átta sig æ  betur á hve margar örlagaríkustu ákvarðanir um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna má rekja til samstarfs þeirra og baráttukjarks.

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason