Dagbókin

Fimmtudagur 29. 09. 16

Samtal mitt við Hildi Sverrisdóttur, borgarfulltrúa og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, er komið á netið og má sjá það hér

Á vefsíðu Andríkis, Vef-Þjóðviljanum, birtist 27. september mynd af níu körlum þeir eru: Jónas Kristjánsson, fyrrv. ritstjóri, Gunnar Smári Egilsson ritstjóri, Illugi Jökulsson rithöfundur, Egill Helgason útvarpsmaður, Þorvaldur Gylfason prófessor, Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, Hallgrímur Helgason rithöfundur og Stefán Ólafsson prófessor. Pistill fyrir neðan þessar andlitsmyndir hefst á þessum orðum:

„Hópur svonefndra álitsgjafa og pistlahöfunda hefur í áratugi reynt að telja Íslendingum trú um að lýðveldið Ísland sé aumt framtak, nánast allt sem gert er hér á landi beri vott um heimsku landsmanna, stjórnarskráin sé ónýt, níðst sé á náttúrunni, auðlindum sé rænt, ójöfnuður sé agalegur, kynjamisrétti ógurlegt, stjórnmálastéttin sé gjörspillt og þeir sem kjósi hana til valda séu fábjánar, allt sé betra í útlöndum, ekki sé því um annað að ræða en ganga í Evrópusambandið eða gera Ísland að útnárafylki í Noregi.“

Framhald pistils Andríkis má lesa hér.

„A, fangi í fangelsinu Litla-Hrauni, leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir framkomu X, starfsmanns fangelsisins, í sinn garð og viðbrögðum stjórnvalda við kvörtunum hans vegna þeirrar framkomu. Af gögnum málsins varð ráðið að X hefði sagt A vera „helvítis“ eða „andskotans“ „asna“. Jafnframt hefði því fylgt að A ætti að „snauta áfram“ eða „snáfa sér í burtu“. Í samtali milli þeirra, skömmu eftir að A leitaði til forstöðumanns fangelsisins vegna málsins, endurtók X ummæli sín með óbeinum hætti og þá í viðurvist annars fanga,“ þannig hefst 22 bls. (7930 orða) langt álit umboðsmanns alþingis vegna kvörtunar fangans A.

Í lok álitsins segir:

„Í þessu máli leitaði fangi til yfirstjórnar fangelsisins Litla-Hrauni, fangelsismálastofnunar og innanríkisráðuneytisins og kvartaði m.a. yfir því að [starfsmaður] við fangelsið hefði í samtali þeirra sagt hann vera „asna“ en aðilum ber ekki saman um hvort með hafi fylgt orðið „helvítis“ eða „andskotans“. Með fylgdi líka að fanginn ætti að „snauta áfram“ eða „snáfa sér í burtu“. Ekki verður séð að í umfjöllun framangreindra yfirvalda, að því leyti sem hún beindist að A, hafi birst skýr afstaða til þess hvort háttsemi [starfsmannsins] eða ummæli hans hefðu verið í samræmi við þær lagareglur og starfshætti sem starfsmanni fangelsisins hefði borið að fylgja.“

Umboðsmaður telur stjórnsýsluhætti ekki hafa verið nægilega vandaða og vill að yfirvöldin taki málið upp að nýju.

 

 

Senda grein

 

Miðvikudagur 28. 09. 16

Í dag ræddi ég við Hildi Sverrisdóttur, borgarfulltrúa og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins til alþingis í Reykjavík suður, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn fer fyrstmí loftið kl. 20.00 kvöld.

Fjölþjóðlegur hópur rannsakenda birti í dag þá niðurstöðu að MH17 Boeing 777 farþegavélin á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur í Malasíu 17. júlí 2014 hafi verið skotin niður yfir austurhluta Úkraínu með BUK-skotflaug á hreyfanlegum skotpalli sem ekið var frá Rússlandi inn á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna í Úkraínu og þaðan aftur til Rússlands eftir árásina sem varð 298 manns að bana.

Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöðu í sakamálarannsókn í Hollandi. Stjórnvöld í Moskvu neita því staðfastlega að aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum eigi hér hlut að máli. Rússar segjast hafa undir höndum ratsjárgögn sem staðfesti þessa fullyrðingu sína. Bráðabirgðaniðurstaðan sem nú hefur verið kynnt af saksóknara í Hollandi er samhljóða niðurstöðu tæknilegrar rannsóknar sem kynnt var í Hollandi í október 2015.

Þessar fréttir berast á sama tíma og Rússar neita að kannast við ábyrgð sína á árásum á birgðalestir og sjúkrahús í Aleppo í Sýrlandi og fulltrúar þeirra hér á landi bregðast dólgslega við fréttum um háskaflug rússneskra hervéla á flugleiðum farþegavéla til og frá Íslandi.

Erfitt er að átta sig á hvað fyrir rússneskum yfirvöldum vakir með þessari hryssingslegu framkomu, hvað þau telji sig hafa upp úr henni. Vegur þeirra vex ekki almennt á alþjóðavettvangi með henni en ef til vill er þeim sama um það og vilja einmitt sýna að þau fari sínu fram á eigin forsendum en ekki annarra.

Eitt er hvernig Pútín og félagar telja sér sæma að ganga fram gagnvart öðrum hitt er hvernig stuðningsmenn hans hér og annars staðar reyna að bera blak af honum.

Alexeij Shadiskij, ráðunautur í rússneska sendiráðinu í Reykjavík, sagði að menn reyndu að vekja Rússagrýluna til lífs með frásögnum af háskaflugi rússnesku hervélanna 22. september. Ummæli hans og annarra rússneskra embættismanna vegna atviksins sýna að þeir eru einfærir um að blása lífi í grýlu og þurfa ekki aðstoð annarra til þess.

 

 

Senda grein

 

Þriðjudagur 27. 09. 16

Þrisvar sinnum munu þau etja kappi saman í sjónvarpi fram að forsetakosningunum 8. nóvember, Hillary Clinton og Donald Trump. Þegar horft er á fyrstu kappræður þeirra í dag, daginn eftir að þær fóru fram og eftir að hafa heyrt og lesið að Hillary sé sigurvegari fyrstu lotunnar er ekki unnt annað en að fallast á það mat sé rétt.

Hillary hélt sig við málefni og rökstuddi vel allar árásirnar sem hún gerði á Trump. Þær drógu vel fram hve mikill gerviheimur hefur verið reistur í kringum hann, heimur sem honum líkar og hann hampar öllum öðrum til fyrirmyndar. Það er sama hvar borið er niður hvergi er allt sem sýnist þegar Trump á í hlut. Hjá honum er allt í meira en himnalagi, loksins bjóðist bandarísku þjóðinni að velja hann sér til leiðsagnar og velsældar án þess að flækjast í skuldbindingum gagnvart öðrum þjóðum.

Trump tókst ekki að slá Hillary út af laginu þótt hann reyndi það með ýmsum ráðum. Þegar í ljós kom að meirihluti áhorfenda taldi Hillary hafa sigrað fyrstu lotuna gagnrýndu Trump og hans menn stjórnanda umræðnanna, Lester Holt frá NBC-sjónvarpsstöðinni, fyrir að hafa hlíft Hillary, ekki lagt fyrir hana erfiðar spurningar enda væri hann langt til vinstri sagði Trump að viðræðunum loknum.

Trump hélt aftur af sér þegar litið er til þess hvernig hann hefur ausið úr skálum reiði sinnar yfir þá sem veittu honum andstöðu í forkosningunum meðal repúblíkana eða Hillary að henni fjarverandi. Að þessu sinni missti hann ekki stjórn á sér á sama hátt og sjá hefur mátt oftar en einu sinni. Hann skorti öryggi og málefnalega festu Hillary.

Sumt af því sem Hillary sagði um Trump er þess eðlis að með ólíkindum er hve langt hann hefur náð og að hann telji sér til tekna sumt af því sem hún sagði, ekki síst varðandi fjármál hans og hve oft hann hefði komist hjá að greiða alríkisskatta.

Kappræðurnar drógu að sér mikla athygli langt út fyrir Bandaríkin því að víða um lönd vildu menn sjá milliliðalaust fordóma sína í garð Trumps rætast á sjónvarpsskjánum. Það gerðist.

 

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason