Dagbókin

Þriðjudagur 24. 01. 17

Í raun er óskiljanlegt að bresku ríkisstjórninni skyldi hafa dottið í hug að hún gæti gengið til viðræðna um úrsögn úr ESB án þess að kynna þinginu á formlegan hátt samningsmarkmið sín. Deilan um þetta sem lauk með dómi hæstaréttar í dag ræðst meðal annars af því að Bretar hafa ekki skrifaða stjórnarskrá og hafa aldrei staðið í þessum sporum áður.

Ríkisstjórnin sagði að ráðherrar hefðu heimild til að gera alþjóðasamninga og ættu einnig að hafa heimild til að binda enda á aðild að þeim og þess vegna virkja úrsagnarákvæðin í 50. gr. sáttmála ESB. Á það var hins vegar bent að úrsögn úr ESB mundi leiða til umtalsverðra breytinga á breskum lögum og réttarstöðu íbúa Bretlands þess vegna yrði að taka ákvörðun um hana með lögum.

Kjarni málshöfðunarinnar var að breska þingið eitt gæti sett lög og því gæti þingið eitt ákveðið að ráðist skyldi í breytingar á þeim með úrsögn úr ESB. Meirihluti hæstaréttar (8:3) féllst á þetta.

Forseti hæstaréttar tók fram að málið snerist alls ekki um hvort rétt væri að fara úr ESB, hvernig það skyldi gert, tímasetningar í tengslum við úrsögnina eða hvernig framtíðarsamskiptum Breta við ESB skyldi háttað.

Beri menn þessi ágreiningsmál í Bretlandi saman við það sem deilt er um hér vegna afturköllunar ESB-umsóknarinnar sjá þeir hve fráleitt er að samþykki alþingis þurfi við bréfi Gunnars Braga Sveinssonar til ESB frá 12. mars 2015 um að ríkisstjórnin teldi Ísland ekki lengur í hópi umsóknarríkja og færi þess á leit við ESB að sambandið tæki hér eftir mið af því.

Engum hefur dottið í hug að leita til dómstóla hér til að hnekkja tilkynningu Gunnars Braga. Fréttir í DV  herma hins vegar að þrír alþingismenn Samfylkingarinnar íhugi alvarlega að flytja tillögu til ályktunar á þingi um að þjóðin samþykki að halda áfram ESB-viðræðum á grundvelli afturkölluðu umsóknarinnar frá 2009.

Samfylkingin hefur allt frá upphafi rekið ESB-málið öðrum þræði til að skapa vandræði innan annarra stjórnmálaflokka vegna þess. Að flytja tillögu í þessa veru nú yrði einmitt gert í þeim anda.

Þríeykið í Samfylkingunni ætti að minnast þess að flokkur þeirra hefur farið verst vegna ESB-málsins. Sjálfseyðingarhvötin er líklega takmarkalaus innan flokksins.

 

 

Senda grein

 

Mánudagur 23. 01. 17

 

Áður hefur verið vakið máls á því hér að stjórnmáladeilur í Bandaríkjunum vekja jafnvel heitari umræður hér á landi og kalla fram meiri dómhörku en menn beita gagnvart íslenskum stjórnmálamönnum. Hvort þetta er hluti af alþjóðavæðingunni eða stafar af sérstökum áhuga Íslendinga á því sem gerist í Bandaríkjunum hefur ef til vill verið rannsakað án þess að niðurstöður hafi verið kynntar á opinberum vettvangi.

Þessi áhugi á mönnum og málefnum í Bandaríkjunum er sérstaklega mikill núna þegar Donald Trump tekur við embætti forseta með bauki og bramli. Hann segir öllum ráðandi öflum stríð á hendur. Í sjónvarpsþætti í gær var leiðtogi repúblíkana í öldungadeild Bandaríkjaþings spurður hvernig honum hefði liðið að sitja á svölum þinghússins og hlusta á skammir Trumps um elítuna í Washington og að valdið yrði flutt frá henni til fólksins.

Þingmaðurinn sagði að sér hefði liðið vel. Hann hefði ekki tekið þetta til sín, hann hefði fengið endurnýjað umboð frá fólkinu í nýlegum kosningum. Hann væri með öðrum orðum fulltrúi þess en ekki hluti elítunnar þótt þingið sæti í Washington.

Daginn eftir harkalegu innsetningarræðuna gerði Trump harða hríð að fjölmiðlamönnum eins og minnst var á hér í gær. Talsmenn Trumps í sunnudags-umræðuþáttunum lentu í vandræðum þegar spurt var um hvernig sanna ætti að fleira fólk hefði verið á götum úti til að fagna innsetningu Trumps en Obama árið 2009.

Reine Priebus, liðsstjóri Trumps í Hvíta húsinu, varðist á þennan veg í þættinum Fox News Sunday: „Málið snýst ekki um mannfjöldann. Málið snýst um árásirnar og tilraunirnar til að grafa undan lögmæti forsetans strax á fyrsta degi – og við ætlum ekki að sitja undir þessu aðgerðalaus.“

Til marks um að standa yrði vörð um forsetann gagnvart fjölmiðlum nefndu málsvarar hans að hópi fjölmiðlamanna hefði verið hleypt inn í forsetaskrifstofuna til að mynda forsetann og verða vitni að honum við störf þar.

Þessi hópur miðlaði frásögnum til annarra fjölmiðlamanna. Fulltrúi Time vikuritsins í hópnum sagði ranglega að Trump hefði látið fjarlægja brjóstmynd af Martin Luther King jr. úr forsetaskrifstofunni. Síðar leiðrétti blaðamaðurinn frásögn sína með afsökun en þá hafði hún borist til 3.000 annarra miðla að sögn talsmanna Trumps.

Þetta atvik notuðu talsmenn Trumps sér til varnar. Hve þeir voru samstiga og einarðir sýnir að hart verður barist. Spurning er hvort báðar hliðar birtist  hér á landi, áhugamönnum um bandarísk stjórnmál til upplyftingar.


Senda grein

 

Sunnudagur 22. 01. 17

Í Washington er hafið kalt stríð milli Donalds Trumps og hans manna í Hvíta húsinu og fjölmiðlamanna. Trump segist raunar hafa átt í stöðugu stríði við fjölmiðlamenn en hann geti nú ekki orða bundist vegna ósanninda þeirra um fjölda fólks sem komið hafi til að hylla sig við innsetningarathöfnina 20. janúar.

Trump heimsótti höfuðstöðvar CIA laugardaginn 21. janúar. Í ræðu sem hann flutti þar sagði hann blaðamenn „meðal óheiðarlegustu manna í jarðríki“.  Um 1,5 milljón manna hefði verið við embættistöku sína föstudaginn 20. janúar þótt fjölmiðlar nefndu töluna 250.000. Þeir birtu falsaðar myndir.

Sean Spicer, blaðafulltrúi forsetans, sagði að fleiri hefðu komið til að fylgjast með innsetningu Trumps en nokkurri annarri í sögunni. NYT segir myndir sýna að þetta sé rangt. Spicer sagði að myndir sem teknar hefðu verið af mannfjöldanum við athöfnina hefðu af ásetningi verið birtar á þann veg að gera sem minnst úr mannfjöldanum fyrir framan þinghúsið í Washington.

Fyrir áhugamenn um íslensk stjórnmál er ekkert nýtt við deilur af þessu tagi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákvað eftir deilur í apríl 2016 um hve margir hefðu komið á Austurvöll til að mótmæla Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni eftir Panama-þáttinn í sjónvarpinu að hætta að segja tölur um mannfjölda í miðborg Reykjavíkur við mótmæli eða aðrar athafnir. Vildi lögreglan réttilega ekki dragast inn í þras um þetta en tölurnar eru notaðar til að upphefja einstaklinga og málstað eða niðurlægja.

Deilurnar um mannfjöldann í Washington og flutningur frétta af þeim til dæmis í The New York Times sýnir að hart verður barist á fjölmiðlavettvangi milli manna Trumps og andstæðinga hans. Í frétt NYT segir meðal annars:

„Yfirlýsingar nýja forsetans og talsmanns hans voru gefnar þegar hundruð þúsunda manna mótmæltu Trump, mannhaf sem virtist drekkja fjöldanum sem kom saman daginn áður þegar hann var settur í embætti. Þetta var skýrt dæmi um fúkyrðaflaum og gremju við upphaf nýs stjórnartímabils forseta, á degi sem starfsmenn í Hvíta húsinu nota venjulega til að gefa tón til þjóðarsamstöðu og trausts í garð nýs leiðtoga.“

Þarna er greinilega stigið yfir þau mörk sem venjulega skilja að fréttir og skoðanir blaða. Á ritstjórn NYT er mönnum mikið í mun að láta ekki forsetann og menn hans setja sér neinar skorður. Þá hefur verið tilkynnt að Washington-skrifstofa blaðsins verði efld til að veita forsetanum meira aðhald. Ballið er rétt að byrja!

Senda grein

 

Eldri dagbókarfærslur


Ágæti lesandi

Velkomin

Ég fagna því, að þú ert að skoða síðuna mína. Hér getur þú kynnst því, sem á daga mína hefur drifið síðan 19. febrúar 1995. Hér er dagbók, hér eru ræður og greinar og pistlar fyrir síðuna, sem ég skrifa að minnsta kosti vikulega. Þá er hér að finna æviágrip mitt og myndir úr lífi og starfi. Ef þú vilt skrá þig á póstlista minn gerir þú það hér eða afskráir þig, viljir þú ekki vera á listanum.

Björn Bjarnason

 

MyndasafnÁskrift

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.


RSS 2.0 yfirlit
 Björn Bjarnason