27.4.2024 10:48

Blaðamannafélag og RÚV í kreppu

Það er dapurlegt að fyrrverandi trúnaðarmaður íslenskra blaðamanna sjái sig knúinn til að ganga fram fyrir skjöldu og lýsa áhyggjum í þessa veru.

Hjálmar Jónsson, fyrrverandi formaður og framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands, starfaði í 35 ár fyrir félagið þar til hann var rekinn í ársbyrjun. Að honum er nú vegið með skýrslu frá KPMG um bókhald. Hún var unnin og birt án þess að honum gæfist tækifæri til að koma að eigin sjónarmiðum.

Gamlir félagar Hjálmars segja af og frá að hann hafi óhreint mjöl í pokahorninu. Þeir ganga fram honum til varnar. Á skömmum tíma hefur friðsömu félagi sem hefur dafnað vel fjárhagslega undir forystu Hjálmars verið splundrað.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður á ríkisútvarpinu, tók við formennsku í blaðamannafélaginu af Hjálmari en hann hélt áfram sem framkvæmdastjóri þar til í byrjun þessa árs þegar hann var rekinn vegna þess að hann taldi óvarlegt að hætta og þegja um áhyggjur sínar vegna orðspors félagsins vegna frétta um skattaundanskot Sigríðar Daggar.

Screenshot-2024-04-27-at-10.46.27

Af mbl.is sagt frá samtalinu við Hjálmar Jónsson.

„Þegar þessi mál, sem snúa að núverandi formanni, komu upp fannst mér ég ekki geta þagað, heldur varð ég að setja hnefann í borðið og láta mína skoðun í ljósi. Það er að mér fyndist ekki samboðið virðingu félagsins að formaðurinn gerði ekki hreint fyrir sínum dyrum,“ segir Hjálmar í samtali sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag (27. apríl).

Hjálmar segir að blaðamenn verði að lágmarki að gera sömu kröfur til sín og þeir gera til annarra. Hlutverk þeirra sé að veita aðhald og það gildi einnig um þá sjálfa. Það sé lykilatriði. „Heiðarleiki er undirstaða trúverðugleika og hafi blaðamenn ekki trúverðugleika þá hafa þeir ekki neitt. Blaðamannafélagið á auðvitað að vera þar fremst í flokki. Það er ófrávíkjanlegt,“ segir hann.

Það er dapurlegt að fyrrverandi trúnaðarmaður íslenskra blaðamanna sjái sig knúinn til að ganga fram fyrir skjöldu og lýsa áhyggjum í þessa veru.

Íslensk fjölmiðlun má síst við því nú á tímum að Blaðamannafélagi Íslands sé stjórnað af klíku sem lítur á félagið sem varnarvirki fyrir mannorð sitt og það megi jafnvel bæta með verðlaunum í nafni félagsins.

Auðvelt er að færa fyrir því rök að upphaflegan valdagrunn þeirra sem nú ráða lögum og lofum í blaðamannafélaginu sé að finna á fréttastofu ríkisútvarpsins sem síðan splundraðist án þess að nokkur þar hafi sýnt sama kjark og Hjálmar Jónsson til að verja orðspor vinnustaðar sem þeim er kær.

Stjórnendur ríkisútvarpsins hafa ekki gert hreint fyrir sínum dyrum á sama hátt og Hjálmar Jónsson gerir í von um að geta bjargað virðingu blaðamanna og félags þeirra.

Nú síðast berast fréttir úr Efstaleiti um brottvísun Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur úr fréttamannateyminu í kringum sjónvarpsþáttinn Kveik sem kenndur er við rannsóknarblaðamennsku. Þegar mbl.is spurði Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóra ríkisútvarpsins, um þetta 26. apríl svaraði hann að sér væri „óheimilt að ræða starfsmannamál eða almennt um frammistöðu starfsmanna“. Þöggunin er enn helsta skjól ríkisútvarpsins. Hve lengi er unnt að sópa vandræðunum undir teppið í útvarpshúsinu? Vofir brottrekstur yfir þeim sem skýra frá gangi mála?