Dagbók: febrúar 2017

Þriðjudagur - 28.2.2017 15:30

 Í fréttum dagsins segir:

„Velta flugfélagsins WOW air fyrir síðasta ár nam 36,7 milljörðum króna. Það er 111% aukning miðað við árið á undan en þá nam veltan 17 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air.

Þar segir að rekstrarhagnaður fyrir félagsins afskriftir, fjármagnsgjöld og tekjuskatt (EBITDA) hafi verið 5,6 milljarðar króna og hafi þannig aukist um 3,2 milljarða milli ára. Rekstrarhagnaður félagsins árið 2016 var 3,7 milljarðar króna samanborið við 1,5 milljarð árið 2015. Hagnaður ársins 2016 eftir tekjuskatt var 4,3 milljarðar króna.“

 

Lesa meira

Mánudagur - 27.2.2017 14:30

Stundum minna fréttir á gömul viðfangsefni á vettvangi stjórnmálanna. Í dag má lesa um skýrslu frá Ríkisendurskoðun um kostnað og skilvirkni kennaramenntunar. Þar segir meðal annars:

„Frá árinu 2009, þegar kennaranám var lengt úr þremur árum í fimm, hefur mikil fækkun verið á skráðum nemendum við kennaradeildir skólanna. Nú er svo komið að háskólarnir ná ekki að brautskrá nægilega marga kennara til að viðhalda eðlilegri nýliðun í stéttinni. Kennaradeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri eru einnig hvattar til leita leiða til að laða nýnema í kennaranám og til þess að auka skilvirkni í kennaranámi.“

 

Lesa meira

Sunnudagur - 26.2.2017 22:00

Í dag sótti ég tvenna afmælistónleika í Norðurljósasal Hörpu.

Píanóleikarinn Richard Simm efndi til einleikstónleika í tilefni af 70 ára afmæli sínu frá kl. 14.00 til 16.00. Þetta var glæsileg afmælishátíð. Í kynningu á afmælisbarninu sagði meðal annars í dagskrá tónleikanna:

 

Lesa meira

Laugardagur - 25.2.2017 15:00

Ofsagt er að það sé eitthvert sérstakt baráttumál Sjálfstæðismanna að áfengi sé selt í matvöruverslunum. Þessu er greinilega stundum kastað fram til að sverta Sjálfstæðismenn og flokk þeirra. Allir sem fylgjast með þjóðmálum vita að meirihluti fólks lætur sér fátt um þetta mál finnast eða er andvígur breytingum í þessa veru, sér enga nauðsyn á þeim. Einmitt þess vegna er einnig auðvelt að gera alþingi og störf þess tortryggileg í hvert sinn sem frumvarp um breytta söluhætti áfengis kemur á dagskrá 

 

Lesa meira

Föstudagur 24. 02. 17 - 24.2.2017 15:15

Á sínum tíma þótti ekki endilega eðlilegt að sjónvarpað yrði beint frá öllum fundum alþingis. Var meiri áhugi á því meðal þingmanna að tryggja að hlusta mætti á þá beint í útvarpi. Kannað var hvað það kostaði og óx mönnum kostnaðurinn í augum.

Nú er sérstök alþingisrás í sjónvarpi og á tölvum má hvenær sem er hlusta eða horfa á ræður auk þess sem texti þeirra er aðgengilegur á netinu innan skamms tíma frá því að þær eru fluttar.

Virðing alþingis hefur ekki aukist við þessa auknu miðlun og ætla má að sóknin eftir að fá orðið í „frjálsum tíma“ þingmanna sem ber fyrirsagnir eins og Störf þingsins eða Fundarstjórn forseta stafi að verulegu leyti af áhuga og þörf þingmanna fyrir að birtast í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þeir hafa að minnsta kosti ekki alltaf mikið til lands- eða þjóðmála að leggja, miklu frekar er um innbyrðis karp að ræða eins og á dögunum þegar fjöldi þingmanna tók til máls til þess eins að kvarta undan því að aðrir þingmenn hefðu ekki talað í umræðu daginn áður!

Margt bendir til þess að beinu útsendingarnar úr sjónvarpssal hafi ekki aðeins áhrif á hve margir vilja komast að í „frjálsu tímunum“ heldur einnig á hvernig menn haga máli sínu, meira að segja á forsetastóli alþingis.

Fimmtudaginn 23. febrúar tóku tveir þingmenn til máls undir liðnum Fundarstjórn forseta og báðu um að umræðum um næsta þingmál yrði hagað þannig að tekið yrði mið af fundartíma velferðarnefndar þingsins. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sat á forsetastóli. Um viðbrögð hans stendur þetta í þingtíðindum á vefsíðu alþingis:

„Til skýringar, svo alþjóð skilji, hafa þingmenn rætt undir liðnum um fundarstjórn forseta málefnalega gagnrýni á að það sé fundur í nefnd og slíkt og þar af leiðandi skuli ekki halda þingfund.“

Hafi þingsköpum verið breytt á þann veg að þingforseti eða þingmenn tali til alþjóðar er um nýmæli að ræða. Hafi þeim ekki verið breytt gerist forseti þingsins þarna sekur um brot á þingskapalögum með því að beina orðum sínum til alþjóðar.

 

 

Fimmtudagur 23. 02. 17 - 23.2.2017 10:30

Í gær ræddi ég á ÍNN við Bryndísi Hagan Torfadóttur sem starfað hefur fyrir SAS frá 1. apríl 1970 og þekkir því vel þróun flugmála af eigin raun. Hér má sjá viðtalið.

Breytingarnar í flugumsvifum hér á landi eru svo miklar að í raun er ógjörningur að átta sig á þeim öllum. Árið 2016 fóru 6.821.358 farþegar um Keflavíkurflugvöll sem er 40,4% aukning frá árinu 2015. Í ár spáir Ísavía að farþegarnir verði 8,75 milljónir.

Eðlilegt er að þessi stórauknu umsvif samhliða sprengingu í komu ferðamanna til landsins valdi uppnámi og menn viti ekki til fullnustu hvernig við eigi að bregðast. Minnst er vitneskjan um það líklega innan stjórnkerfisins. Hún er mest hjá þeim sem við greinina starfa. Þeir þurfa að taka sig saman og leggja fram skynsamlega stefnu á borð við það sem gerðist snemma á níunda áratugnum þegar útgerðamenn, undir forystu Kristjáns Ragnarssonar, unnu að því að knýja fram kvótakerfið við fiskveiðar.

Róbert Guðfinnsson, útgerðarmaður, hótelrekandi og athafnamaður á Siglufirði, hefur miðlað af útgerðarreynslu sinni við kynningu á æskilegri framtíðarþróun ferðamála. Hljóta sjónarmið hans hljómgrunn, eða er hann á undan samtíð sinni?

Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og fyrrverandi leiðtogi Danska þjóðarflokksins (DF), er sjötug í dag. Hún stofnaði flokkinn árið 1995 en hafði áður verið í Framfaraflokki Mogens Glistrups. Árið 1999 sagði Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Dana, að Kjærsgaard og flokkur hennar yrði aldrei stueren. Orðið er notað um hunda sem haldið utan við stássstofuna eða jafnvel heimilið. Raunin hefur orðið önnur.

Kjærsgaard og flokkur hennar hafa aldrei átt ráðherra en haft líf margra ríkisstjórna í hendi sér enda hefur hún notið meiri vinsælda danskra kjósenda en flestir samtímamenn hennar í dönskum stjórnmálum. Það er talið til marks um virðinguna sem hún nýtur að enginn gerir athugasemd við að hún býður til afmælisveislu í Kristjánsborgarhöllinni þar sem þingið er.

Poul Nyrup Rasmussen lét skammaryrðið falla vegna stefnu Piu Kjærsgaard í útlendingamálum en einmitt hún hefur verið lykillinn að sterkri stöðu DF í dönskum stjórnmálum. Vilja nú margir innan og utan Danmerkur þá Lilju kveðið hafa. Hún er sögð hrein og bein, hörð af sér í samningum en orð hennar standi eins og stafur á bók. Sem þingforseti leggi hún áherslu á að þingmenn séu trúverðugir í augum almennings og þingmenn sýni hver öðrum virðingu.

 

 

Miðvikudagur 22. 02. 17 - 22.2.2017 14:45

Í dag ræddi ég við Bryndísi Hagan Torfadóttur, framkvæmdastjóra fyrir SAS á Íslandi, í þætti mínum á ÍNN. Frumsýning kl. 20.00 í kvöld.

Hér var á dögunum minnst á niðurlægjandi skrif Smára McCarthys, þingmanns Pírata úr suðurkjödæmi, um alþingi. Eitt af því sem hann kvartaði undan var að hann gæti ekki sem þingmaður séð til þess að fé fengist til að gera við þakið á Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Eftir að birtur var kafli  úr skrifum mínum á Eyjunni upplýsti Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG úr suðurkjördæmi, þar að í fjárlagavinnu fyrir árið 2017 hefðu þingmenn Suðurkjördæmis raðað niður nokkrum brýnum úrlausnarefnum og beðið þrjá þingmenn í fjárlaganefnd að vinna þeim brautargengi, þar með framlagi til Garðyrkjuskólans og hefðu 70 milljón krónur fengist til brýnustu viðgerða á skólanum.

Segir svo í nefndaráliti 1. minnihluta fjárlaganefndar frá því í desember: „ Í fjórða lagi eru 70 millj. kr. til viðhalds og endurbóta á því húsnæði Landbúnaðarháskólans sem er á Reykjum í Ölfusi. Nefndin væntir þess að í kjölfar endurbótanna verði húsnæðið afhent Ríkiseignum sem innheimti leigu á móti reglulegu viðhaldi með sama hætti og almennt á við um annað húsnæði í eigu ríkisins."

Smári McCarthy er eins og áður sagði þingmaður suðurkjördæmis, megi marka orð Ara Trausta kom hann sem slíkur að því að raða „nokkrum brýnum úrlausnarefnum“ við gerð fjárlaga 2017, þar með viðgerð á Garðyrkjuskólanum sem varð að lögum. Skrif Smára til að rakka niður alþingi verða enn óskiljanlegri þegar þetta er upplýst. Veit hann ekkert hvað gerist á alþingi?

Björn Leví Gunnarsson sat fyrir Pírata í fjárlaganefnd í desember 2016. Lét hann undir höfuð leggjast að upplýsa þing- og flokksbróður sinn um örlög þessa sérstaka áhugamáls hans? Því verður varla trúað eftir að lesin er skammarræðan sem Björn Leví flutti yfir Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra þriðjudaginn 21. febrúar fyrir að hafa ekki sem fjármálaráðherra lagt skýrslu aflandsmál fyrir alþingi fyrir þingkosningar. Þar sagði Björn Leví meðal annars: „Þingmenn verða að krefjast agaðri vinnubragða Alþingis vegna og þjóðarinnar vegna.“

Krafan um öguð vinnubrögð á kannski ekki Björn Leví sjálfan. Í umræðum um aflandsskýrsluna barði Steingrímur J. Sigfússon fast í bjöllunni og hrópaði til Björns Levís: „mætti ég biðja hv. málshefjanda [Björn Leví] að … hætta að gjamma svona fram í alltaf“.

Ekki tók betra við þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Pírati, tók til máls um aflandsskýrsluna. Dylgjur og uppspuni einkenndi hennar mál.

 

 

 

 

Þriðjudagur 21. 02. 17 - 21.2.2017 12:00

Á Facebook ræðir hópur sem kallar sig Fjölmiðlanörda ýmis mál sem snerta alla þætti fjölmiðlunar eins og nafnið gefur til kynna. Fjalar Sigurðsson hefur ritstjóravald á síðunni og birti þar í gær þessa klausu:

„Umræða um erfiða umræðu í fjölmiðlum um forræðis- og umgengnismál er eiginlega dæmd til að fara út af sporinu. Ég tók þá ákvörðun að eyða út færslu sem hingað rataði um slíkt mál. Leyfi mér í máli af þessu tagi að vera ögn kaþólskari en venjulega. Þó ekki meira en páfinn. Það skal tekið fram að innleggið var svo sem ekki óeðlileg umfjöllun um afstöðu fjölmiðils í viðkvæmu viðtali - en umræðan í kjölfarið fór strax í verulega aðrar áttir.“

Hér vísar Fjalar vafalaust til „fréttar“ sem lesa mátti á visir.is, síðu 365 fjölmiðlafyrirtækisins, en hún hafði áður birst á Stöð 2 þar sem Ólafur William Hand, fjölmiðlafulltrúi Eimskips, rekur raunir sínar í forræðismáli og hallmælti gildandi lögum og framkvæmd þeirra hjá sýslumanni. Sambærileg frásögn birtist nýlega á vefsíðunni Nútíminn en eftir birtinguna birti ritstjórn hans yfirlýsingu þar sem sagði meðal annars:

„Nútíminn harmar að hafa birt fréttina án þess að kynna sér allar hliðar málsins og biður alla hlutaðeigandi afsökunar. Samkvæmt samkomulagi staðfestu af sýslumanni hefur faðirinn notið ríkrar umgengni. Engin gögn sýna fram á umgengnistálmanir.

Af gefnu tilefni er umgengni barnsins við föður sinn nú til meðferðar hjá þar til bærum yfirvöldum og eftir því sem Nútíminn kemst næst bendir ekkert til annars en að meðferð yfirvalda byggist skýrlega á forsendum barnsins. Gögn sýna að sem lið í meðferð yfirvalda hitti Ólafur á barn sitt í síðustu viku.“

Fátt er viðkvæmara en deilur af þessu tagi. Þær snúast um djúpar tilfinningar. Ákvörðun Fjalars Sigurðssonar sem birt er hér að ofan sýnir hve erfitt er að halda utan um umræður um slík mál á fjölmiðlavettvangi.

Þetta ættu þeir sem starfa við að miðla efni til fjölmiðla og svara gagnrýni vegna þess sem þar birtist best að vita. Sé vegið að opinberum sýslunarmönnum á að sjálfsögðu að gefa þeim færi á að skýra mál sitt svo að ekki sé talað um gagnaðila í forræðisdeilu. Þetta á að gera í einni og sömu frétt og gagnrýnin er birt. Annað er í raun til marks um óvönduð eða vísvitandi hlutdræg vinnubrögð.

Mánudagur 20. 02. 17 - 20.2.2017 13:45

Jónas Haraldsson lögfræðingur ritar grein í Morgunblaðið í dag, 20. febrúar, vegna fjölmiðlaumræðu um hættur af froskköfun í gjánni Silfru í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Vinsældir Silfru réðust af myndbandi sem fór á flug í netheimum, þar var undraheimurinn í köldu, tæru vatninu sýndur. Nú er köfun þarna stór, arðbær þáttur í ferðaþjónustu.

Jónas segir: „Hafa málin þá þróast þannig, að upphaflega forsendan fyrir leyfi til djúpköfunar er ekki lengur fyrir hendi nema að litlu leyti og hefur Silfra, sem nær alla leið niður að Þingvallavatni, nú breyst í stærstu útisundlaug sem finnst hér á Íslandi. Maður spyr sig: Hvað með hávaða- og sjónmengun eða sérstaklega vatnsmengunina, sem hlýtur að stafa af þessum 45 þúsund manns eða fleiri sem fara þarna í gjána á ári?“

Jónas segir einnig: „Á Þingvöllum á ekki að leyfa yfirhöfuð neina atvinnustarfsemi með tilheyrandi athafnarými, átroðningi og umhverfisspjöllum, eins og með Silfru. Breytir engu þótt erlendir ferðamenn hafi af því ánægju og ferðaþjónustan græði vel á atvinnustarfseminni. Menn verða að fara að átta sig á þeirri staðreynd, að Þingvellir eru ekki skemmtigarður heldur þjóðgarður og flestum Íslendingum helgur staður, þótt sumir vilji gera út á staðinn.“

Þessu er ég sammála. Á sínum tíma voru Þingvallanefndarmenn á báðum áttum um hvort almennt ætti að leyfa takmarkaða köfun í Silfru og rætt var um á hvers ábyrgð hún ætti að vera. Nú er þetta komið úr öllum böndum. Í þessum orðum felst ekki gagnrýni á þá sem standa að þessari þjónustu heldur virðing fyrir því hvernig á að haga starfsemi á Þingvöllum. 

Jónas Haraldsson segir: „Ýmsir möguleikar væru þá þarna fyrir ferðaiðnaðinn til að fénýta sér þjóðgarðinn á Þingvöllum með því að búa til ný viðskiptatækifæri og söluvænar ferðir á þennan stað. Hefðu vafalaust margir ferðamenn áhuga á að fá að geysast um á fjórhjólum eftir göngustígunum, á snjósleðum á veturna, æfa fjallaklifur í Almannagjá eða svifdrekaflug og hvað annað í þjóðgarðinum, sem gæti glatt ferðamanninn og gert för hans eftirminnilegri og skapað ferðaiðnaðinum tekjur.“

Nú er um hálf öld frá því að ákveðið var að banna bílaumferð um Almannagjá. Nokkrum leiðsögumönnum þótti það aðför að ferðaþjónustunni. Sama þætti vafalaust einhverjum tæki Þingvallanefnd ákvörðun um að takmarka aðgang að Silfru. Lög heimila nefndinni slíka ákvörðun.

 

Sunnudagur 19. 02. 17 - 19.2.2017 12:30

Þór Saari sat á þingi með Birgittu Jónsdóttur og Margréti Tryggvadóttur og stóð varla upp í þingsalnum án þess að hallmæla alþingi og starfsháttum þar. Síðar skrifaði hann marklitla bók um reynslu sína. Var þetta í raun allt mesta sorgarsaga.

Nú hefur annar samflokksmaður Birgittu Jónsdóttur, Smári McCarthy, sem kjörinn var á þing fyrir Pírata 29. október 2016, tekið til við að hallmæla nýjum vinnustað sínum, alþingi, á svipaðan hátt og Þór Saari gerði. Smári sagði meðal annars í grein í blaðinu Suðra fimmtudaginn 16. febrúar að á þeim vikum sem hann hefði á þingi hefði hann lært:

„Alþingi er svo til getulaust. [...] Ég lenti í því á dögunum að þurfa að greiða atkvæði um mál sem ég hafði heyrt um en ekki náð að lesa, og var það ekki fyrr en eftir atkvæðagreiðsluna sem ég fékk að vita að stóra atriðið sem stóð útaf í því hafði ekki verið lagfært. [...]

Fáir fatta að Alþingi ræður afar litlu. [...] Almenna reglan undanfarna áratugi hefur verið að taka öll völd af Alþingi, um leið og þau uppgötvast. Fyrir vikið er t.d. gagnslaust, eftir gildistöku nýrra laga um opinber fjármál, að tala við þingmenn um nauðsyn þess að fá nokkrar milljónir til að gera við götin í þakinu hjá Garðyrkjuskólanum. Fjárlaganefnd ræður ekki nákvæmum úthlutunum lengur, bara stórum sjóðum fyrir málefni. Ráðherrarnir ráða hvernig peningum er ráðstafað innan málaflokks.“

Þessi grein segir minna um alþingi og starfshætti þar en ranghugmyndir Smára um eðli þingstarfa þótt hann hafi boðið sig fram til þeirra. Sé litið til nágrannaþinga er áhrifamáttur alþingismanna síst minni en starfssystkina þar. Þingmenn „lenda ekki í“ að greiða atkvæði um mál sem þeir hafa ekki kynnt sér, geri þeir það hafa þeir einfaldlega ekki gefið sér tíma til vinna vinnuna sína.

Erfitt er að átta sig á hve langt þarf að leita til að dugað hefði að ræða við þingmenn um að fá nokkrar milljónir úr ríkissjóði, væntanlega strax ef marka má orð hans, til að gera við þakskemmdir á Garðyrkjuskólanum í Hveragerði, kjördæmi Smára. Hann hefur þarna hins vegar eignast baráttumál við afgreiðslu fjáraukalaga eða fjárlaga fyrir árið 2018.

 

Laugardagur 18. 02. 17 - 18.2.2017 17:15

Miðvikudaginn 15. febrúar ræddi ég við Gísla Ferdinandsson skósmið í þætti mínum á ÍNN. Gísli verður 90 ára í október og ber aldur sinn einstaklega vel. Hann rakti fyrir mér veikindasögu sína frá því að hann datt í hálku við Laugardalslaugina í janúar 2006. Sjálfur kallar hann þetta kraftaverkasögu – en sjón er sögu ríkari.

Í hádeginu fimmtudaginn 16. febrúar ávarpaði ég fund heiðursmanna SÁÁ í húsi samtakanna, Von, við Efstaleiti. Fundarsalinn þekki ég vel því að í 10 ár hef ég komið þangað þrisvar í viku yfir vetrarmánuðina um klukkan 08.00 að morgni til að stunda qi gong, kínversku líkamorkuæfingarnar. Ræddi ég þær og hugleiðslu á fundinum og svaraði síðan fyrirspurnum um það sem fundarmenn vildu heyra.

Var ég meðal annars spurður um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og frumvarpið um afnám á ríkiseinokun á smásölu áfengis. Um það mál sagði ég að það stæði ekki framförum í samfélaginu fyrir þrifum að áfengi væri selt í sérstökum verslunum ríkisins, tillaga ym breytingar á því væri hins vegar vís leið fyrir þingmenn til að komast í fjölmiðla.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, flutti ávarp á fundinum og kynnti meðal annars framkvæmdir við byggingu nýs hús yfir eftirmeðferðarmiðstöð SÁÁ í Vík á Kjalarnesi. Ætlunin er að starfsemi þar hefjist í haust. Er þetta mesta einstaka fjárfestingin í heilbrigðiskerfinu um þessar mundir. SÁÁ fagnar 40 ára afmæli 1. október 2017. Stór liður í þeirri hátið er að þetta mikla, nýja hús verður tekið í notkun.

Ýmsir kippa sér upp við að ætlunin sé að nýta fáein sjúkrarúm í tengslum við Klínikina í Ármúla og láta eins og þar sé um að ræða hættulegt stílbrot á ríkiseinokun á sjúkrahúsrekstri. Í uppnáminu vegna þessa er litið framhjá sjúkrahúsrekstri SÁÁ að Vogi og eftirmeðferðinni sem hefur verið í Vík og Staðarfelli í Dölum.

Frá og með næsta hausti verður öll eftirmeðferð í Vík. Framkvæmdir þar kosta alls um 1.200 milljónir króna. Sjúkrareksturinn SÁÁ var rekinn með 265 milljón króna halla árið 2016. Það er vegna þess að ríkið kaupir 1.530 innlagnir á Vog en þær voru alls 2.200. SÁÁ verður að brúa bilið með fjáröflun. Í Vík verða pláss fyrir 60 sjúklinga á hverjum tíma.

Í von við Efstaleiti er göngudeild og skrifstofur SÁÁ. Frá árinu 1996 hefur SÁÁ látið um þrjú þúsund milljónir, á verðlagi þessa árs, renna í sjúkrareksturnn sjálfan. Bilið hefur verið brúað með álfasölu, félagsgjöldum og öðrum fjáröflunarverkefnum á vegum samtakanna.

 

 

 


Föstudagur 17. 02. 17 - 17.2.2017 19:15

Í dag var fjölmenn útför Ólafar Nordal, alþingismanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, gerð frá Dómkirkjunni. Vegna fjölmennis var unnt að fylgjast með því sem fram fór í kirkjunni í Iðnó. Fyrir utan kirkju og suður Templarasund að Vonarstræti stóðu ungir sjálfstæðismenn heiðursvörð með fána þegar athöfninni lauk.

Séra Sveinn Valgeirsson jarðsöng, Eyþór Gunnarsson lék á píanó, Ari Bragi Kárason á trompett, Kári Þormar á orgel, Hallfríður Ólafsdóttir á flautu, Voces masculorum sungu, Sigríður Thorlacíus söng og Jóhann Sigurðsson las ljóðið Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson. Útfararstofa Íslands hafði umsjón með útförinni, boðið var til erfis í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi.

Ólöf Nordal var farsæll stjórnmálamaður sem ávann sér virðingu út fyrir bönd Sjálfstæðisflokksins. Henni voru í raun allir vegir færir í stjórnmálum. Þjóðin naut krafta hennar alltof stutt því að hún var aðeins 50 ára þegar krabbamein dró hana til dauða.

Ég tók tvisvar sinnum viðtal við Ólöfu í þætti mínum á ÍNN, annað má nálgast á netinu og sjá það hér.


Fimmtudagur 16. 02. 17 - 16.2.2017 10:00

 

Helgi Tómasson, prófessor í tölfræði, sagði í grein í Fréttablaðinu miðvikudaginn 15. febrúar:

„Svíinn Hans Rosling, sem sumir kölluðu meistara tölfræðinnar, er nýlátinn. Hann var læknir að mennt og áhugamaður um tölfræði. Hann varð frægur fyrir ábendingar um afbakanir fjölmiðla á talnagögnum og hafði þannig meiri áhrif en margir fræðimenn á sviðinu.

Í krassandi forsíðuefni þarf helst að vera fórnarlamb og mætti stundum ætla að meirihluti mannkyns sé í því hlutverki. Dæmi um þetta eru stöðugar vitnanir í hugtakið kynbundinn launamun þar sem gefið er í skyn að gervallt kvenkynið sé fórnarlamb mismununar af völdum karla.“

Hér skulu nefnd tvo dæmi úr þessari viku um túlkun á tölfræðilegum gögnum.

Þessi gleðilega frétt birtist í einum dálki á bls. 2 í Fréttablaðinu í dag:

„Hátt í sjötíu prósent eldri borgara hafa sjaldan eða aldrei fjárhagslegar áhyggjur. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun gerði en hún sýnir að íslenskir eldri borgarar eru almennt jákvæðir og líður vel.

Meirihluti eldri borgara, eða 76 prósent, stundar líkamsrækt á hverjum degi og 76 prósent telja að heilsufar sitt sé frekar gott eða jafnvel mjög gott miðað við aldur.

Þá vekur athygli að langstærstur hluti eldri borgara, hátt í 90 prósent, þarf enga aðstoð við daglegt líf svo sem innkaup, matreiðslu og þvotta. Þá segjast 92 prósent eldri borgara ekki vilja neina frekari aðstoð frá fjölskyldumeðlimum eða öðrum nákomnum. Í könnuninni voru þó nokkrir sem svöruðu því til að ástæða þess að þeir vilja ekki frekari aðstoð frá fjölskyldumeðlimum sé sú að allir séu uppteknir.“

Fréttin af könnuninni var dapurlegri þegar hún birtist á á ruv.is 13. febrúar 2017:

„Aldraðar konur hafa fjórðungi lægri tekjur en aldraðir karlar. Um þriðjungur eldri borgara hefur fjárhagsáhyggjur og næstum 90% búa í eigin húsnæði.

Langstærstur hluti aldraðra á Íslandi býr í eigin húsnæði, eða 89%. Þá búa fjórir af hverjum fimm 88 ára og eldri í eigin húsnæði. Þriðjungur aldraðra býr einn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun á högum eldri borgara sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir velferðarráðuneytið, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Landssamband eldri borgara. Fleiri hafa fjárhagsáhyggjur en áður. Um þriðjungur svarenda taldi sig stundum eða oft hafa fjárhagsáhyggjur. Árið 2012 höfðu 26% aldraðra sömu áhyggjur og 22% árið 2006.“

 

 

Miðvikudagur 15. 02. 17 - 15.2.2017 14:00

Í dag ræddi ég við Gísla Ferdinandsson skósmið í þætti mínum á ÍNN. Hann er elsti viðmælandi minn til þessa, verður 90 ára í október 2017. Frásögn hans er lifandi og skemmtileg, verður frumsýnd klukkan 20.00 í kvöld.

Enginn veit enn hvert verður næsta skref í darraðadansinum sem hófst á mánudaginn í Washington þegar Michael Flynn þjóðaröryggisráðgjafi sagði af sér vegna þess að hann laug að Mike Pence varaforseta um samskipti sín við sendiherra Rússa í Washington.

Í gær kom fram að Donald Trump hefði í nokkrar vikur vitað að Flynn væri ósannindamaður án þess að hrófla við honum. Föstudaginn 10. febrúar þóttist Trump ekkert vita þegar hann var spurður um frétt í Washington Post um samtöl Flynns við rússneska sendiherrann. Í gær lét blaðafulltrúi Trumps eins og dag hvern í nokkrar vikur hefðu Trump og hans menn velt fyrir sér stöðu Flynns en mánudaginn 13. febrúar hefði Trump loks ákveðið að rétt væri að biðja Flynn að segja af sér.

Allt ber þetta vott um mikinn vandræðagang og verður til þess að veikja enn traustið á stjórnarháttum Trumps. Stuðningsmenn hans eiga í vök að verjast í málsvörn sinni og andstæðingar hans færast allir í aukana.

Klukkan 13.18 þriðjudaginn 14. febrúar setti ég athugasemd inn á Facebook-síðuna Fjölmiðlanördar þar sem ég vakti máls á því að á vefsíðunni ruv.is mætti lesa frétt þar sem ranglega væri fullyrt að Flynn hefði verið rekinn úr starfi sínu sem þjóðaröryggisráðgjafi. Nokkru síðar afmáði ritstjóri ruv.is fréttina af síðunni og þar birtust tvær fréttir um málið. Fólst í því viðurkenning á að fyrsta fréttinn stæðist ekki gagnrýni.

Þetta gekk þó ekki sársaukalaust fyrir sig eins og sjá má hér. Hlýtur að vekja undrun hjá fleirum en mér hve gengið er langt í að bera blak af fréttastofu ríkisútvarpsins þegar réttilega er fundið að óvönduðum vinnubrögðum. Ekki er nóg með að beitt sé hártogunum og rangfærslum heldur er gripið til persónulegra árása. Allt er þetta líklega gert í von um að fælingarmátturinn dugi til að þagga niður í þeim sem leyfir sér að gera athugasemd við vinnubrögðin.

Ég kippi mér ekki upp við skítkast af þessu tagi. Mér er ljóst að svörin ráðast af málstaðnum, sé hann vondur eða vonlaus er gripið ómerkilegra andsvara.

Þriðjudagur 14. 02. 17 - 14.2.2017 15:45

Kellyanne Conway, ráðgjafi Donalds Trumps, er send í samtalsþætti þegar harðnar á dalnum hjá Trump. Nú er hún önnum kafin við að skýra afsögn Michaels Flynns þjóðaröryggisstjóra aðeins 24 dögum eftir að hann tók formlega við embætti. Skýringin er einföld: Flynn laug að Mike Pence varaforseta um efni samtala sinna við rússneska sendiherrann í Washington.

Fréttamenn kvarta undan Kellyanne Conway. Hún skjóti sér undan að svara spurningum þeirra með því að tala um eitthvað annað en um er spurt. Hún grípur ef til vill eitt orð í spurningunni á lofti og spinnur út frá því. Hafa sumir notað orðið postmodernismi til að lýsa aðferð hennar, þetta orð hefur í stjórnmálafræðinni verið íslenskað með orðinu eftirhyggja, hvað sem það nú þýðir.

Hér verður ekki reynt að skilgreina eftirhyggju. Á þetta orð er hins vegar minnst vegna þess að nú tala menn um post-truth, post-west, post-order þegar þeir lýsa þróun alþjóðamála. Hvernig á að íslenska þessi orð? Verðum við ekki að gera það á skiljanlegan hátt til að umræður um alþjóðamál á íslensku haldi í við það sem hæst ber annars staðar?

Ritstjórar orðabókanna sem kenndar eru við Oxford völdu post-truth sem orð ársins 2016. Orðið snýst í raun um lygar í opinberum umræðum, til dæmis um fjölda fólks sem tekur þátt í mótmælum eða útifundum. Deilur um þetta tóku á sig þá mynd hér í apríl 2016 að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákvað að hætta að svara spurningum fjölmiðla um fjölda þeirra sem koma saman í miðborg Reykjavíkur. Þeir sem skipulögðu mótmæli á Austurvelli gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sögðu rúmlega 20.000 manns hafa tekið þátt í þeim lögreglan taldi þá tæplega 10.000.

Post-west vísar til þess að vestræn ítök kunni að minnka séu lýðræðislegir, frjálslyndir stjórnarhættir á undanhaldi gagnvart lýðskrumi og óskum um „sterkan leiðtoga“. Mannréttindafrömuðir segja að of margir vestrænir stjórnmálaleiðtogar virðist hafa tapað trúnni á grunnstoðir mannréttinda og veiti þeim aðeins hálfvolgan stuðning.

Post-order vísar til þess að skipan heimsmála sé að taka á sig nýja mynd. Þetta birtist meðal annars í andstöðu við fjölþjóðlega fríverslunarsamninga eða aðild að Evrópusambandinu.

Er unnt að hanna gegnsæ íslensk orð sem lýsa þróun heimsmála á sama hátt og þessi þrjú orð post-truth, post-west og post-order?

 

Mánudagur 13. 02. 17 - 13.2.2017 13:45

Undarlegt er að það sé reiðarslag fyrir þá sem sinna jafnréttismálum á opinberum vettvangi að líklega séu kannanir sem sýna eiga launamun kynjanna reistar á svo veikum grunni að þær gefi ekki rétta mynd. Í stað þess að fagna upplýsingum sem hníga að því að þennan launamun sé aðeins að finna í brengluðum könnunum en ekki í raun er vegið að þeim sem benda á að vitlaust kunni að vera reiknað.

„Allar kannanir stéttarfélaga [um launamun kynjanna] sem ég hef séð síðustu árin eru algjörlega marklausar,“ segir Einar Steingrímsson, stærðfræðiprófessor við Strathclyde-háskóla í Skotlandi, í samtali við Morgunblaðið mánudaginn 13. febrúar. Hann tekur þó fram að hann haldi því alls ekki fram að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar. Í vönduðum könnunum Hagstofu Íslands og Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands hafi „óútskýrði launamunurinn“ verið lítill og þar séu slegnir miklir varnaglar. 

Helgi Tómasson, prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands, segir við Morgunblaðið að skýringuna á óútskýrðum launamun í rannsóknum á launum kynjanna, megi alltaf rekja til sömu villunnar. „Það er ekki verið að margendurtaka rannsóknir, það er verið að margendurtaka sömu vitleysuna,“ segir Helgi.

Á mbl.is mánudaginn 13. febrúar voru þessar alvarlegu athugasemdir bornar undir Kristínu Ástgeirsdóttur hjá Jafnréttisstofu. Hún heldur fast í „ótal“ kannanir sem sýni kynbundinn launamun. Það er kannanir sem Helgi telur að endurtaki aðeins „sömu vitleysuna“.

Lokarökin í málsvörn Kristínar eru þau að menn í ESB hafi „komið sér saman um ákveðna aðferðafræði þar sem þeir mæla tímakaup og þetta reiknaði Hagstofan út hér á landi. Útkoman var að launamunurinn hér væri um 17% og svipaður og í Evrópulöndunum. Er þetta bara eitthvert rugl?“ spyr Kristín með þjósti og síðan: „Vita þessir spekingar þeir Einar og Tómas meira en þessir hagfræðingar og tölfræðingar sem hafa komið sér saman um þessa aðferðafræði?“

Það skyldi þó aldrei vera að þeir vissu meira en Brusselmenn? Oftar en einu sinni hafa sérfróðir menn með réttu leyft sér að draga í efa að ESB hafi rétt fyrir sér í einu og öllu.

Orðið „sérhagsmunir“ er eitrað orð í stjórnmálaumræðum. Það skyldi þó ekki eiga við um þá sem vilja ekki hlusta á málefnalegar efasemdir um gildi kannanna á launamun kynjanna? Viðurkenni jafnréttisstýra að ekki sé unnt að finna launamun með könnunum fórnar hún embætti sínu.

Sunnudagur 12. 02. 17 - 12.2.2017 11:00

Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með útgáfustarfsemi Gunnars Smára Egilssonar, nú síðast á furðublaðinu Fréttatímanum, er nauðsynlegt að lesa og geyma þessa frétt sem birtist á visir.is laugardaginn 11. febrúar 2017:

„Árangurslaust fjárnám var gert hjá Morgundegi ehf. útgáfufélagi Fréttatímans hinn 31. janúar síðastliðinn. Daginn áður hófu forsvarsmenn blaðsins að safna fjárframlögum frá almenningi til að halda útgáfu blaðsins áfram. 
Morgundagur ehf. er félag sem sér um útgáfu Fréttatímans. Í stjórn félagsins sitja Gunnar Smári Egilsson útgefandi blaðsins og athafnamaðurinn Sigurður Gísli Pálmason sem hefur lagt fé til rekstrar þess. 
Gert var árangurslaust fjárnám hjá Morgundegi ehf. útgefanda Fréttatímans hinn 31. janúar síðastliðinn hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu en hjá sýslumanni var það flokkað undir alvarleikastiginu ógjaldfærni. 
Samkvæmt færslu um hið árangurslausa fjárnám sem fréttastofa hefur undir höndum var það lagt fram hinn 30. janúar en sama dag kom Gunnar Smári Egilsson útgefandi Fréttatímans og stjórnarmaður í Morgundegi ehf. í 
viðtal í útvarpsþættinum Harmageddon á Xinu 977 sem haldið er úti af 365, útgefanda Stöðvar 2. 
Í viðtalinu greindi hann frá því að hann hefði nú hafið fjársöfnun og óskaði eftir fjárframlögum frá almenningi undir merkjum Frjálsrar fjölmiðlunar á heimasíðunni frjalsfjolmidlun.is.
Árangurslaust fjárnám hefur þau réttaráhrif samkvæmt lögum að í þrjá mánuði á eftir geta kröfuhafar Morgundags ehf. farið fram á að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti. 
Gunnar Smári vildi ekki koma í viðtal þegar óskað var eftir því. Hann gaf skýringar á hinu árangurslausa fjárnámi sem hann dró síðar til baka og sakaði fréttamenn Stöðvar 2 um að láta annarleg sjónarmið stýra fréttaflutningi. 
Á fimmtudagskvöld höfðu tæplega 500 manns skráð sig í félagið Frjálsa fjölmiðlum og lagt til þess misháar upphæðir samkvæmt frétt á heimasíðu Fréttatímans.“

Af fréttinni má ráða að Gunnar Smári hafi hafið fjársöfnunina til að sannfæra lánardrottna sína um að þeir ættu ekki að krefjast gjaldþrotaskipta á Morgundegi ehf. Þá lagði hann til nýlega að ríkið greiddi eins konar listamannalaun til blaðamanna. Allt færir hann þetta í annan búning en þann að gjaldþrot vofi yfir félagi hans. Líkir sér meira að segja við útgefendur The Guardian í Bretlandi þegar hann réttir fram söfnunarbaukinn.

Laugardagur 11. 02. 17 - 11.2.2017 16:30

Hvarvetna velta menn fyrir sér stjórnarháttum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Erfitt er að geta sér til um nokkuð varðandi Trump. Daniel McCarthy, ritstjóri hjá ritinu American Conservative, segir í nýlegri grein að álitsgjafarnir sem sögðu óhugsandi að Trump yrði nokkru sinni forseti hamri nú á því að allt sé í hers höndum innan Hvíta hússins undir stjórn Trumps. Grein McCarthys ber fyrirsögnina: Donald Trump: Reglan að baki óreglunni. Óhefðbundinn Bandaríkjaforseti kann að vera skrefi á undan gagnrýnendum sínum.

Fyrstu skref Trumps sem forseta hafi verið betur skipulögð en kunni að virðast: hann hafi af trúmennsku framfylgt stefnu eða að minnsta kosti reist vörður sem séu bæði í anda íhaldsstefnu repúblíkana og þjóðernisstefnu hægri manna.

Að baki stefnunni um að loka Bandaríkjunum tímabundið fyrir múslimum frá sjö löndum búi tilraun til að skapa svigrúm á meðan unnið sé að þróun nýs skoðunarkerfis við landamæraeftirlit til frambúðar. Kjósendur Trumps sætti sig ekki við þau rök að kerfi sem hafi þótt við hæfi í tíð Baracks Obama eða George W. Bush hljóti að vera nógu gott. Kannanir sýni einnig að kjósendur Trumps telji hann á réttri leið í útlendingamálum hvað sem öllum mótmælum líði.

Þegar Daniel McCarthy víkur að utanríkismálum segir hann að hvað sem Trump kunni að hafa sagt um eða við erlenda þjóðarleiðtoga virðist utanríkisstefna hans rökrétt þótt hún kunni að vera áhættusöm. Hann sjái fyrir sér heim þar sem þjóðríki láti meira að sér kveða, þar sem bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu og Asíu festi meira fé sjálfir í eigin vörnum og treysti minna á Bandaríkin. Minni ógn stafi af Rússum en Ríki íslams. Hann leggi áherslu á valdapólitík frekar en boðskap um frjálslyndi og lýðræði.

Hann hafi til þessa vakið meira umrót með orðum sínum en gjörðum. Það sé varla unnt að breyta hugsun öflugustu þjóðar heims um sjálfa sig án þess að vekja undrun og ótta. Það sé þó minni bylting að árétta gildi þjóðríkisins en að láta það hverfa. Það taki á að horfast í augu við hráar staðreyndir sögunnar eftir að hafa látið sig dreyma um allsherjar lýðræði í áratugi. Menn eigi ekki að vanmeta Trump, honum sé síður en svo alls varnað.

Föstudagur 10. 02. 17 - 10.2.2017 19:15

Á visir.is birtist fimmtudaginn 9. febrúar frétt um að eigendur sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar glímdu við fjárhagserfiðleika og óvíst væri hvort stöðin lifði af árið 2017. Hringbraut var komið á fót til keppni við ÍNN þar sem ég hefur verið með þátt síðan árið 2010 þegar Ingvi Hrafn Jónsson, stofnandi og þáv. eigandi ÍNN, spurði mig hvort ég vildi liðsinna honum. Ég varð við ósk hans. Fyrst var ég með þætti á tveggja vikna fresti en nú um nokkurt skeið vikulega. Geri ég þetta ánægjunnar vegna enda gefst mér tækifæri til að hitta marga viðmælendur sem ég hefði aldrei annars kynnst.

Nýlega urðu eigendaskipti á ÍNN og eignaðist fjölmiðlafyrirtæki Björns Inga Hrafnssonar stöðina en Björn Ingi lætur víða að sér kveða í fjölmiðlun. Engin breyting verður á mínum högum á ÍNN þótt nýir eigendur komi til sögunnar. Ég hef sama frjálsræði og áður við val á viðmælendum og spyr þá um það sem vekur áhuga minn.

Fyrir nokkrum vikum birtist frétt í The Sunday Times um að rætt hefði verið um fund Donalds Trumps og Vladimírs Pútíns á Íslandi. Sagði utanríkisráðherra að af hálfu íslenskra yfirvalda stæði ekkert í vegi fyrir því. Síðan hefur Trump gefið fyrirmæli um lokun landamæra Bandaríkjanna fyrir ríkisborgurum sjö ríkja. Af því tilefni sendi utanríkisráðuneytið frá sér tilkynningu 31. janúar þar sem sagði meðal annars:

„Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, kom í morgun á framfæri mótmælum íslenskra stjórnvalda við tilskipun Bandaríkjaforseta um bann við komu flóttafólks og borgara sjö ríkja til Bandaríkjanna á fundi með Benjamin Ziff, aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, sem staddur er hér á landi.“

Í fréttum í dag segir að Melina Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, sé fædd í Slóveníu. Þess vegna hafi Vladimír Pútín samþykkt á fundi með gesti sínum Borut Pahor, forseta Slóveníu, sem er í heimsókn í Moskvu að Slóvenía væri góður staður til að hitta Trump.

Segir í fréttum að Pahor hafi boðið höfuðborg lands síns, Ljubljana, sem fundarstað forsetanna.

Bandarískur millidómstóll hefur nú fjallað um mál sem áfrýjað var til hans og komist að þeirri niðurstöðu að bann Trumps standist ekki. Fréttir berast um að Trump undirbúi nýtt en annars konar bann við komu útlendinga til Bandaríkjanna.

 

Fimmtudagur 09. 02. 17 - 9.2.2017 18:30

Samtal mitt við Egil Bjarnason blaðamann á ÍNN miðvikudaginn 8. febrúar er komið á netið og má sjá það hér. 

Í hádeginu í dag efndi Varðberg til fjölmenns hádegisfundar með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra í Norræna húsinu þar sem hann ræddi þjóðaröryggisráð og nýjar aðstæður í alþjóðamálum. Fundurinn var sendur út á metinu og má sjá hann hér.

Eiður Svanberg Guðnason var jarðsettur í dag en hann varð bráðkvaddur á heimili sínu mánudaginn 30. janúar. Fjölmenni var við athöfnina í Hallgrímskirkju, sr. Hjálmar Jónsson jarðsöng. Ég skrifaði minningargrein í Morgunblaðið og má lesa hana hér.


Miðvikudagur 08. 02. 17 - 8.2.2017 14:45

Í dag ræddi ég við Egil Bjarnason blaðamann í þætti mínum á ÍNN sem frumsýndur verður klukkan 20.00 í kvöld. Ég hafði samband við Egil eftir að ég las frásögn sem hann skrifaði með öðrum um hvarf Birnu Brjánsdóttur í The New York Times  á dögunum. Þótti mér þar vel að verki staðið. Nú í dag birtist síðan önnur frásögn eftir Egil í blaðinu og er hún ekki síðri – hana má lesa hér.

Það er ekki endilega einfalt að skrifa um Ísland fyrir erlenda lesendur og oftar en ekki verður maður undrandi á hvað blaðamönnum með litla eða enga vitneskju um Ísland dettur í hug að segja. Egill segist einmitt sjá það sem hlutverk sitt að gæta þess að rétt sé farið með staðreyndir þegar land og þjóð eiga í hlut. Að þetta sé gert í The New York Times eða af fréttastofunni Associated Press (AP) sem Egill er einnig tengdur skiptir mjög miklu máli. Þessir miðlar hafi mikið dagskrárvald meðal fjölmiðlamanna um heim allan.

Það er margt einkennilegt sem menn segja á vefsíðum sínum.

Nýlega benti ég að Jónas Kristjánssyni, fyrrv. ritstjóri, lygi því hreinlega að ég hefði verið dómsmálaráðherra árið 2002 þegar Kínaforseti kom hingað og gripið var til aðgerða gegn fylgismönnum falun gong sem mótmæltu honum. Lygar Jónasar voru liður í skrifum hans um Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Í gær fór ég hér á þessum stað orðum um gagnrýni Kára Stefánssonar á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra vegna þess að lögregla sendi lífssýni til rannsóknar erlendis.

Þetta verður ofsafengnum manni, Gunnari Waage, tilefni til að segja: „er Björn alls ekki lögfræðingur heldur einungis ómerkilegur rasisti“ og „ hann [Björn] sjálfur sé einfaldlega haldin (svo!) afbrigðilegum kenndum í garð flóttafólks“.

Stundum hvarflar að manni að leita réttar síns fyrir dómara til að láta höfunda ummæla af þessu tagi standa ábyrga þeirra.

Það er erfitt að átta sig á hvaða málstaður á skilið að eiga slíka formælendur. Víst er að hann þolir ekki málefnaleg orðaskipti eða hæfilega virðingu fyrir sjónarmiðum annarra. Ég fagna því að Jónas Kristjánsson og Gunnar Waage eru jafnan ósammála mér. Væri svo ekki, hefði ég verulegar áhyggjur.

.

 

Þriðjudagur 07. 02. 17 - 7.2.2017 17:30

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í Fréttablaðinu í morgun:

„Það er ljóst af ofansögðu að núverandi dómsmálaráðherra líður ekki fyrir tunguhaft þegar hún er beðin að tjá sig um málefni sem hún veit lítið sem ekkert um. Það er bæði gott og vont, gott vegna þess að það minnkar nauðsyn þess að þjóðin taki hana alvarlega þegar hún tjáir sig, vont vegna þess að það minnkar líkurnar á því að þjóðin geti tekið hana alvarlega þegar hún tjáir sig. Það er einnig athyglisvert að ráðuneytið skuli ekki hafa áhuga á því að afla samfélaginu annarrar tæknigetu en þeirrar sem þarf til þess að koma hælisleitendum úr landi á ruddalegan og jafnvel ofbeldisfullan hátt.“

Sé aðeins þessi kafli úr grein Kára lesinn hljóta menn að velta fyrir sér hvort Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi orðið mikið á í messunni. Tilefnið er þó ekki annað en að lögreglan nýtti sér sérþekkingu erlendis við rannsóknir á lífsýnum við að upplýsa mál. Telur Kári greinilega að hagsmunum sínum vegið vegna þess.

Rannsóknir vegna sakamála eru viðkvæmt nákvæmnisverk. Enginn má fá færi á að draga í efa hæfni og áreiðanleika rannsakenda. Lögreglan hefur stigið varlega og skipulega til jarðar í rannsókn sinni á þessu máli. 

Í fyrirtæki Kára búa menn yfir þekkingu til lífssýnarannsókna. Í réttarrannsóknum skiptir sérþekking og viðurkenndur áreiðanleiki vegna reynslu við slíkar rannsóknir miklu og jafnvel meiru en flest annað í augum saksóknara og dómara. Sem betur fer eru vandasöm mál á borð við það sem hér um ræðir sjaldgæf hér á landi. Af þeim sökum er bæði skynsamlegt og hagkvæmt að geta leitað eftir skjótri niðurstöðu sérfróðra og þaulreyndra aðila þótt þeir séu í öðrum löndum. 

Af tilvitnuðu orðunum hér að ofan má ráða að Kári lítur til tækifæris til að þróa „tæknigetu“ innan fyrirtækis síns og reiðist að önnur sjónarmið ráði hjá lögreglu og tekur ráðherrann til bæna. Með þessu er hranalega og ómaklega að ráðherranum vegið. Sama má segja um orðin sem falla um brottflutning hælisleitenda. Lögregla fer að alþjóðareglum við framkvæmd úrskurða útlendingastofnunar við brottvísun útlendinga sem eiga ekki rétt til að dveljast hér á landi. 

Grein Kára sýnir enn að umræður um alvarleg úrlausnarefni geta tekið ólíklega og einkennilega stefnu.

Mánudagur 06. 02. 17 - 6.2.2017 14:15

Sjómannaverkfallið er í algjörum hnút og ekki öðrum að kenna en aðilum deilunnar sem hefur mistekist að finna sameiginlega lausn. Forystumenn deiluaðila eru greinilega ráðalausir þar sem sjómannaforystan nýtur ekki trausts umbjóðanda sinna eins og niðurstaða tveggja atkvæðagreiðslna um samninga sem hún gerði í fyrra sýna.

Félagsmenn Sjómannasambands Íslands felldu 10. ágúst 2016 kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sem undirritaður var 24. júní 2016. Niðurstaðan var afgerandi en 66% félagsmanna höfnuðu samningum í atkvæðagreiðslu um hann. Á kjörskrá voru 1739 sjómenn og af þeim greiddu 670 eða 38,5% atkvæði. Já sögðu 223 um 33%, nei sögðu 445 um 66%.

Nýr samningur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Sjómannasambands Íslands (SSÍ), Verkalýðsfélags Vestfjarða (VV), Sjómannafélags Íslands (SÍ) og Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur (SVG) frá 11. nóvember 2016 var felldur 14. desember 2016. Samningur SFS og Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) frá 14. nóvember 2016 var felldur 16. desember 2016.

Alls sögðu 90% hjá Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur nei við samningnum og 86% sögðu nei hjá Sjómannafélagi Íslands. 76% sögðu nei hjá Sjómannasambandi Íslands. 69,7 prósent þeirra sem voru á kjörskrá hjá VM sögðu nei.

Reyndir verkalýsleiðtogar og samningamenn segja að vart sé unnt að lenda í verri stöðu en þeirri sem við blasir þegar þessar tölur eru skoðaðar. Tölurnar benda raunar til þess að þeir sem stóðu að samningunum af hálfu sjómanna hafi ekki fylgt þeim fram af nauðsynlegum þunga, varla eru þeir algjörlega sambandslausir við umbjóðendur sína.

Einfalda leiðin fyrir þá sem siglt hafa í strand á þennan hátt er að kalla á aðra sér til bjargar. Hjálparbeiðnin í sjómannadeilunni er á bakvið tjöldin hafi hún verið send. Út á við hafna deiluaðilar allri aðstoð annarra. Af hálfu ríkisstjórnarinnar er eðlilega ekki ljáð máls á neinni aðstoð. Reynslan kennir að allt sem boðið er af hálfu ríkisvaldsins sé einskis metið nema um sé að ræða boð á úrslitastundu og samninganefndir njóti trausts og trúverðugleika.

 

 

 

Sunnudagur 05. 02. 17 - 5.2.2017 14:15

Löngum hefur verið látið eins og í því hafi falist einber óvild í garð almennings eða óvirðing að á fyrsta þingdegi eftir jólahlé í janúar 2009 hafi frumvarp um aukið frjálsræði vegna sölu á áfengi verið á dagskrá alþingis. Að þetta hafi verið eitthvert pólitískt samsæri er að mínu mati fráleitt, ef til vill má flokka þetta undir athugunarleysi en í mínum huga er ástæðan næsta sjálfvirk uppfærsla á málum sem biðu afgreiðslu þingsins.

Listilega vel var að því staðið að blása allt öðru lífi í þessa dagskrá þingsins en höfundar hennar ætluðu. Þeir hafa kannski einhvern tíma reynt að skýra hvað fyrir þeim vakti en rödd þeirra heyrist aldrei í umræðum um málið sem lifa enn þegar rætt er um nýtt frumvarp á þingi um aukið frjálsræði við sölu áfengis og rýmkun á banni við auglýsingum.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var fyrsti flutningsmaður frumvarps um afnám ríkiseinokunar á sölu áfengis á síðasta kjörtímabili. Ég ræddi málið við hann í þætti á ÍNN og var hann sannfærður um stuðnings meirihluta þingmanna við það. Mér þótti hann of bjartsýnn, það yrði þyngra undir fæti en hann ætlaði. Frumvarpið náði ekki fram að ganga.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarps um breytingum á lögum um sölu áfengis sem kom fram fimmtudaginn 2. febrúar og hefur verið gífurlega mikið rætt síðan. Auk Teits Björns eru átta flutningsmenn úr fjórum flokkum: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Hildur Sverrisdóttir úr Sjálfstæðisflokki, Pawel Bartoszek úr Viðreisn, Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Viktor Orri Valgarðsson úr Pírötum og  Nichole Leigh Mosty úr Bjartri framtíð.

Þungamiðja frumvarpsins er að aflétta ríkiseinokuninni en sveitarstjórnir fá vald til að ákvarða hvernig sölu áfengis verði háttað í sínu umdæmi enda uppfylli verslanir lögfest skilyrði. Þá er gert ráð fyrir breyttum reglum varðandi áfengisauglýsingar.

Sæti ég á þingi yrði ég að gera upp huga minn að loknum ítarlegri umræðum en nú hafa orðið. Ég er hlynntur breytingum á auglýsingareglunum. Núgildandi reglur eru meingallaðar. Fyrirkomulagið á sölu áfengis truflar mig ekki. Mér finnst verslunarrekstur ríkisins í flugstöð Leifs Eiríkssonar stórundarlegur eins og svo margt annað sem snertir Isavia og mundi afnema þá einokun.

Í Hveragerði er vínbúðin við hliðina á Bónus. Drekka Hvergerðingar meira en aðrir? Hvernig væri að rannsaka það áður en lengra er haldið með fullyrðingum um aukinn drykkjuskap vegna slíks fyrirkomulags?

 

Laugardagur 04. 02. 17 - 4.2.2017 15:00

Það er undarlegt um hvað menn nenna að rífast þegar Donald Trump ber á góma. Nú hefur Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. ráðherra, sest við tölvuna til að deila á Óla Björn Kárason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að andmæla fullyrðingu þingmanns Pírata um að Trump sé „fasisti“ auk þess sem Óli Björn minnti á gildandi íslensk lög um að refsivert sé að tala af óvirðingu um erlenda þjóðhöfðingja. Rifjar Sighvatur upp gamlan dóm vegna ummæla um Adolf Hitler sem „rasista“ og spyr fullur hneykslunar: „Þykir Óla Birni og öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins það hafa verið réttur dómur?“

(Eftir að é skrifaði þetta hefur Óli Björn svarað Sighvati. Þar kemur fram að Óli Björn hafi aldrei sagt að orð Píratans væru refsiverð sjá hér.)

Málflutningur af því tagi sem Sighvatur kýs að stunda dæmir sig sjálfur. Óli Björn eða aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa hreinlega ekkert um þennan dóm yfir þeim sem gagnrýndi Hitler að segja. Hér á landi fella dómarar dóma en þingmenn setja lög. 

Sighvatur sat á þingi 1974–1983 og 1987–2001. Lyfti hann einhvern tíma litla fingri til að fá lögunum sem dæmt var eftir í Hitlers-málinu breytt? Það kemur ekki fram í árásargrein hans á Óla Björn vegna umræðna um Trump sem fasista. Óli Björn var kjörinn á þing 29. október 2016 en hafði áður setið þar nokkrum sinnum sem varaþingmaður.

Hér hefur oft verið sagt að taki menn til við að klína öðrum upp við nasista í rökræðum jafngildi það málefnalegri uppgjöf þess sem það gerir. Þetta á við um Sighvat Björgvinsson í þessari ómaklegu árás hans á Óla Björn Kárason vegna vísunar til laga sem gilda í landinu og giltu þau 23 ár sem Sighvatur sat á þingi án þess að hann gerði tilraun til að fá þeim breytt.

Spurning er hvort látið verði á það reyna fyrir dómstólum hvort Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, hafi gerst sek um refsiverða háttsemi með að kalla Trump „fasista“. Orð Sighvats um það efni skipta engu, aðeins dómari getur túlkað lög og komist að niðurstöðu um hvort þau hafi verið brotin.

Donald Trump stendur frammi fyrir dómsvaldinu í Bandaríkjunum. Dómarar hafa sagt ákvarðanir hans í útlendingamálum lögbrot. Andmæli forsetans kunna að vera hávær en þau breyta ekki niðurstöðu dómaranna. Bandaríkin eru réttarríki en ekki fasistaríki. Þótt kjósendur hafi veitt Trump umboð sem forseti hafa þeir ekki veitt honum alræðisvald. 

 

Föstudagur 03. 02. 17 - 3.2.2017 19:15

 

Í dag fór ég í Reykholt þar sem sr. Geir Waage, Bergur Þorgeirsson og ég tókum á móti Kristjáni Þór Júlíussyni, mennta- og menningarmálaráðherra, þingmönnunum Haraldi Benediktssyni og Teiti Birni Einarssyni, og Þórarni Sólmundarsyni úr ráðuneytinu. Við ræddum málefni Reykholts og Snorrastofu sem þar hefur starfað í 20 ár.

Var ánægjulegt að fá tækifæri til að kynna ráðherranum starfsemina í Reykholti auk þess sem við fórum um gamla Héraðsskólahúsið sem er eign ríkisins og hefur annars vegar verið notað að hluta undir aðstöðu fyrir fundi og fræðimenn og hins vegar fyrir varaeintök Landsbókasafnsins sem nýtir stærsta hluta hússins.

Reykholt er einstakur staður á marga lund en yfir honum svífur minningin um Snorra Sturluson, örlög hans og framlag til heimsmenningarinnar. Fornleifarannsóknir leiða í ljós hvernig Snorri bjó og hvar hann var höggvinn, þá er laugin þar sem hann baðaði sig öllum sýnileg og einnig má sjá hvernig hann stóð að því að nýta heitt vatn úr nálægum hver fyrir hús sín.

Í nýjasta hefti enska vikuritsins The Spectator (dags. 4. febrúar 2017) er ritdómur um bókina Norse Mythology – Norræn goðafræði – eftir Neil Gaiman. Joanne Harris ritdómari segir í upphafi: Norse myths are having a moment. Or should I say another moment; one long chain of moments, in fact, beginning in the primordial (upprunalegu) soup of the oral tradition of storytelling in Iceland and Scandinavia.

Síðar segir: Certainly, the amount of source material that has survived [um goðsagnirnar] is relatively small, most of it taken from the anonymous group of early skaldic poems known as the Poetic Edda, and the Prose Edda, compiled by Snorri Sturluson in about 1220. But what these myths may lack in volume, they make up for in impact. The Norse myths have influenced countless writers and artists across the centuries, from Tolkien to Wagner, Rackham [listmálari á 19. öld] to Alan Garner [enskur barnabókahöfundur], propelling the gods of the Vikings as far as Japanese manga (teiknisögur) and the Marvel (bandarískur útgefandi teiknisagna og kvikmynda) universe.

Þeir sem starfa í Reykholti og taka þar á móti gestum vita að hingað til lands koma margir í pílagrímaferð til að kynnast þeim stað þar sem Snorri bjó og starfaði. Að leggja rækt við þetta framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar hlýtur að eiga upphaf í Reykholti. 

Fimmtudagur 02. 02. 17 - 2.2.2017 10:30

 

Dagblöð austan hafs og vestan innleiða ný efnistök fyrir áskrifendur að vefútgáfum sínum. Þar dregur þaulreyndur blaðamaður daglega saman það sem hann telur bera hæst í fréttum dagsins og setur í samhengi. The New York Times hefur tekið til við að setja 20 mínútur af efni í hljóðskrá sem menn geta hlaðið niður í hlaðvarp og hlustað á hvenær sem þeim hentar, úti að hlaupa eða í bílnum.

Ráðherrar Viðreisnar fara illa af stað og fylgi flokksins minnkar. Ráðherrarnir auka ekki fylgið með yfirlýsingum um að menn eigi að hætta að nota peningaseðla í viðskiptum, með því að skipa Svanfríði Jónasdóttur formann í nefnd um búvörumál eða halda fast í vanreifaða hugmynd um jafnlaunavottorð.

Þá birtast fréttir um snarfækkun stjórnenda fyrirtækja innan Félags atvinnurekenda sem telja að halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Í fyrsta sinn um árabil segir meirihluti félagsmanna að ekki eigi að halda viðræðunum áfram. Einnig minnkar stuðningur við ESB-aðild Íslands verulega í þessum hópi. Aðeins tæplega 17% er því sammála að Ísland gangi í ESB en 56% eru því andvíg.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og flugvallarvina, þreytist ekki á að vekja máls á blekkingariðju Dags B. Eggertssonar borgarstjóra varðandi húsbyggingar. Á ruv.is hafi 12. janúar birst röng fyrirsögn (ekki í eina skiptið) þar sem stóð: „Borgin byggir 300 stúdentaíbúðir á næstu árum“.

Guðfinna Jóhanna segir réttilega að Byggingarfélag námsmanna reisi íbúðirnar. Borgin innheimtir gatnagerðargjald af íbúðunum. Ný lög gera ráð fyrir að sveitarfélög leggi fram 12% af stofnvirði almennrar íbúðar. Til þessa hefur borgin ekki innheimt byggingarréttargjald af lóðum fyrir námsmannaíbúður. Nú hefur borgin ákveðið að grípa til þessarar gjaldtöku og fella hana niður enda nemi hún 12% af stofnvirði íbúðar.

Blekking Dags B. er þaulhugsuð fyrir utan að fyrirsagnarsmiður á ruv.is bætti um betur og jók á blekkinguna.

Í Morgunblaðinu birtist í dag frétt um að fulltrúar meirihluta borgarstjórnar undir formennsku Hjálmars Sveinssonar í umhverfis- og skipulagsráði hefðu fellt tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að leita umsagnar Vegagerðarinnar, lögreglunnar, Samgöngustofu og samtaka sveitarfélaga áður en skýrsla starfshóps um lækkun umferðarhraða á götum borgarinnar vestan Kringlumýrarbrautar yrði tekin til afgreiðslu.

Hroki meirihlutans undir forystu Hjálmars Sveinssonar er í samræmi við annað sem frá honum kemur. Stefna hans um byggingar án bílastæða og götur án bíla er í ætt við ofríkisstefnur sem þola hvorki skoðun né umræður.

 

Miðvikudagur 01. 02. 17 - 1.2.2017 10:30

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata, lauk ræðu á alþingi þriðjudaginn 31. janúar á þessum orðum: „Notum rétt orð þegar þau eiga við: Donald Trump er fasisti.“ Þegar hlustað er á þingflokksformanninn rökstyðja þessa fúkyrðanotkun mætti halda að hún hefði lært af Jónasi Kristjánssyni, fyrrv. ritstjóra, sem nefndur var hér í gær vegna lygi í minn garð. Jónas hefur í áranna rás kallað íslenska stjórnmálamenn fasista og sýnt dæmalaust smekkleysi og dónaskap.

Píratar hafa látið eins og þeir séu upphafsmenn nýrra tíma í stjórnmálum og umræðum um þau. Þegar á reynir kemur hins vegar í ljós að þeir hafa ekkert nýtt fram að færa og eyðileggja eigin málstað með fúkyrðum eða órökstuddum ásökunum. Sýnist enginn munur á Ástu Guðrúnu og forvera hennar í formennsku þingflokksins, Birgittu Jónsdóttur, að þessu leyti.

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, er illa við íslensku krónuna en veit að enginn meirihluti er fyrir óskamynt hans, evrunni. Hann sér þó krók á móti bragði að taka upp rafeyri. Hann sagði á FB-síðu sinni 31. janúar:

„Jafnframt mun ég undirbúa löggjöf til þess að þrengja að svarta hagkerfinu þar sem bannað yrði að greiða laun út með reiðufé og allir þyrftu að borga hluti yfir ákveðnu verði í gegnum banka eða kreditkort þannig að viðskiptin yrðu rekjanleg.“

Erna Ýr Öldudóttir, viðskiptafræðingur og fv. formaður framkvæmdaráðs Pírata, er lítt hrifin og hugsar til fasisma og alræðis þegar hún segir á FB-síðu sinni 31. janúar:

„Þessi hugmynd er sú alversta sem ég hef nokkurntíman séð. 

1. Fær einhver laun í reiðufé? Til hvers að banna það þá? Má banna notkun reiðufjár?

2. Það er leiðinlegt að segja það en að þvinga almenning með lögum til að eiga í viðskiptum við einkafyrirtæki, eins og t.d. Borgun eða bankana, minnir á fasismann í gamla daga, þar sem að ríkisvaldið og fyrirtækin runnu saman í eitt.

3. Hvað með borgararéttindin friðhelgi einkalífsins og samningsfrelsi? Á að taka þau af okkur öllum, endanlega?

4. Munu eigendur bankanna og kortafyrirtækjanna þá græða óendanlega í krafti ríkisvaldsins, en hafa að auki allar upplýsingar um einkalíf fólks?

Ég er dauðhrædd við þessa hugmynd og krefst þess að fjármálaráðherra og ný ríkisstjórn leggi eitthvað á sig við að finna leiðir til að stemma stigu við skattsvikum, aðrar en alræði.“