8.2.2017 14:45

Miðvikudagur 08. 02. 17

Í dag ræddi ég við Egil Bjarnason blaðamann í þætti mínum á ÍNN sem frumsýndur verður klukkan 20.00 í kvöld. Ég hafði samband við Egil eftir að ég las frásögn sem hann skrifaði með öðrum um hvarf Birnu Brjánsdóttur í The New York Times  á dögunum. Þótti mér þar vel að verki staðið. Nú í dag birtist síðan önnur frásögn eftir Egil í blaðinu og er hún ekki síðri – hana má lesa hér.

Það er ekki endilega einfalt að skrifa um Ísland fyrir erlenda lesendur og oftar en ekki verður maður undrandi á hvað blaðamönnum með litla eða enga vitneskju um Ísland dettur í hug að segja. Egill segist einmitt sjá það sem hlutverk sitt að gæta þess að rétt sé farið með staðreyndir þegar land og þjóð eiga í hlut. Að þetta sé gert í The New York Times eða af fréttastofunni Associated Press (AP) sem Egill er einnig tengdur skiptir mjög miklu máli. Þessir miðlar hafi mikið dagskrárvald meðal fjölmiðlamanna um heim allan.

Það er margt einkennilegt sem menn segja á vefsíðum sínum.

Nýlega benti ég að Jónas Kristjánssyni, fyrrv. ritstjóri, lygi því hreinlega að ég hefði verið dómsmálaráðherra árið 2002 þegar Kínaforseti kom hingað og gripið var til aðgerða gegn fylgismönnum falun gong sem mótmæltu honum. Lygar Jónasar voru liður í skrifum hans um Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Í gær fór ég hér á þessum stað orðum um gagnrýni Kára Stefánssonar á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra vegna þess að lögregla sendi lífssýni til rannsóknar erlendis.

Þetta verður ofsafengnum manni, Gunnari Waage, tilefni til að segja: „er Björn alls ekki lögfræðingur heldur einungis ómerkilegur rasisti“ og „ hann [Björn] sjálfur sé einfaldlega haldin (svo!) afbrigðilegum kenndum í garð flóttafólks“.

Stundum hvarflar að manni að leita réttar síns fyrir dómara til að láta höfunda ummæla af þessu tagi standa ábyrga þeirra.

Það er erfitt að átta sig á hvaða málstaður á skilið að eiga slíka formælendur. Víst er að hann þolir ekki málefnaleg orðaskipti eða hæfilega virðingu fyrir sjónarmiðum annarra. Ég fagna því að Jónas Kristjánsson og Gunnar Waage eru jafnan ósammála mér. Væri svo ekki, hefði ég verulegar áhyggjur.

.