12.2.2017 11:00

Sunnudagur 12. 02. 17

Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með útgáfustarfsemi Gunnars Smára Egilssonar, nú síðast á furðublaðinu Fréttatímanum, er nauðsynlegt að lesa og geyma þessa frétt sem birtist á visir.is laugardaginn 11. febrúar 2017:

„Árangurslaust fjárnám var gert hjá Morgundegi ehf. útgáfufélagi Fréttatímans hinn 31. janúar síðastliðinn. Daginn áður hófu forsvarsmenn blaðsins að safna fjárframlögum frá almenningi til að halda útgáfu blaðsins áfram. 
Morgundagur ehf. er félag sem sér um útgáfu Fréttatímans. Í stjórn félagsins sitja Gunnar Smári Egilsson útgefandi blaðsins og athafnamaðurinn Sigurður Gísli Pálmason sem hefur lagt fé til rekstrar þess. 
Gert var árangurslaust fjárnám hjá Morgundegi ehf. útgefanda Fréttatímans hinn 31. janúar síðastliðinn hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu en hjá sýslumanni var það flokkað undir alvarleikastiginu ógjaldfærni. 
Samkvæmt færslu um hið árangurslausa fjárnám sem fréttastofa hefur undir höndum var það lagt fram hinn 30. janúar en sama dag kom Gunnar Smári Egilsson útgefandi Fréttatímans og stjórnarmaður í Morgundegi ehf. í 
viðtal í útvarpsþættinum Harmageddon á Xinu 977 sem haldið er úti af 365, útgefanda Stöðvar 2. 
Í viðtalinu greindi hann frá því að hann hefði nú hafið fjársöfnun og óskaði eftir fjárframlögum frá almenningi undir merkjum Frjálsrar fjölmiðlunar á heimasíðunni frjalsfjolmidlun.is.
Árangurslaust fjárnám hefur þau réttaráhrif samkvæmt lögum að í þrjá mánuði á eftir geta kröfuhafar Morgundags ehf. farið fram á að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti. 
Gunnar Smári vildi ekki koma í viðtal þegar óskað var eftir því. Hann gaf skýringar á hinu árangurslausa fjárnámi sem hann dró síðar til baka og sakaði fréttamenn Stöðvar 2 um að láta annarleg sjónarmið stýra fréttaflutningi. 
Á fimmtudagskvöld höfðu tæplega 500 manns skráð sig í félagið Frjálsa fjölmiðlum og lagt til þess misháar upphæðir samkvæmt frétt á heimasíðu Fréttatímans.“

Af fréttinni má ráða að Gunnar Smári hafi hafið fjársöfnunina til að sannfæra lánardrottna sína um að þeir ættu ekki að krefjast gjaldþrotaskipta á Morgundegi ehf. Þá lagði hann til nýlega að ríkið greiddi eins konar listamannalaun til blaðamanna. Allt færir hann þetta í annan búning en þann að gjaldþrot vofi yfir félagi hans. Líkir sér meira að segja við útgefendur The Guardian í Bretlandi þegar hann réttir fram söfnunarbaukinn.