Dagbók: október 1998

Laugardagur 31.10.1998 - 31.10.1998 0:00

Flugum eftir hádegi til Hólmavíkur og tókum þar þátt í 50 ára afmælishátíð grunnskólans var ég meðal þeirra, sem ávarpaði hina mörgu, sem sóttu hátíðina, síðan skoðuðum við skemmtilega sýningu um skólasöguna og á myndum nemenda og Finns Magnússonar, sem kenndi lengi við skólann. Um kvöldið fórum við í Þjóðleikhúsið og sáum Óskastjörnuna eftir Birgi Sigurðsson.

Föstudagur 30.10.1998 - 30.10.1998 0:00

Eftir hádegi var efnt til blaðamannafundar í ráðuneytinu um heimasíðu þess og nýtt efni á henni. Síðdegis fór ég í Háskóla Íslands og tók þar þátt í fjarfundi, þar sem Fræðslunet Austurlands var stofnað.

Fimmtudagur 29.10.1998 - 29.10.1998 0:00

Fyrir hádegi ávarpaði ég fund skólameistara og svaraði spurningum þeirra um þau málefni, sem ber hæst í samskiptum ráðuneytisins og framhaldsskólanna um þessar mundir. Um kvöldið fór ég á fund hjá Orator, félagi laganema, í Lögbergi, en þangað komum við fjórir lögfræðingar og gerðum grein fyrir því, hvernig námið í lagadeildinni hefði nýst okkur í ólíkum störfum.

Miðvikudagur 28.10.1998 - 28.10.1998 0:00

Um kvöldið fórum við Rut í Borgarleikhúsið, þar sem Íslenski dansflokkurinn efndi til sýningar á nýjum verkum eftir íslenska danshöfunda og var keppt um það, hvaða verk væri best.

Mánudagur 26.10.1998 - 26.10.1998 0:00

Eftir hádegi komu aðstandendur þáttarins Kristalla frá Stöð 2 í ráðuneytið og tóku upp viðtal um stuðning við íslenska kvikmyndagerð, var það greinilega tilgangur stjórnanda þáttarins að knýja fram svar um stóraukinn stuðning, ég hélt því hins vegar fram, að æskilegt væri að allir aðilar málsins kæmust að sátt um málið og hvaða markmið ríkisvaldið vildi setja sér í stuðningi við þessa atvinnu- og listgrein. Um kvöldið fór ég með Gunnari Eyjólfssyni, leikara og formanni skólanefndar Leiklistarskóla Íslands, á frumsýningu nemenda í skólanum á leikritinu Ivanov eftir A. Tsjekhov.

Sunnudagur 25.10.1998 - 25.10.1998 0:00

Fór klukkan 16.00 á handboltaleik Íslands og Sviss í Laugardalshöll, þar sem okkar menn unnu góðan sigur.

Laugardagur 24.10.1998 - 24.10.1998 0:00

Fór klukkan 15.30 í 30 ára afmælishóf Fimleikasambands Íslands i Laugardalshöll, flutti sambandinu afmæliskveðjuog horfði á fimleikasýningu fram til klukkan 19.00.

Föstudagur 23.10.1998 - 23.10.1998 0:00

Flaug norður til Akureyrar eftir hádegi, átti fund með stjórn nemendafélags Háskólans á Akureyri og tók fyrstu skóflustungu að nýbyggingu við háskólann að Sólborgu. Kom aftur til baka klukkan 21.00.

Fimmtudagur 22.10.1998 - 22.10.1998 0:00

Fyrsta umræða um leiklistarfrumvarpið á Alþingi, málið afgreitt til menntamálanefndar þingsins.

Miðvikudagur 21.10.1998 - 21.10.1998 0:00

Stjórnarráðinu var lokað til klukkan 13.00 vegna jarðarfarar Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar frá Hallgrímskirkju klukkan 11. Að jarðarförinni lokinni var hádegsiverður að Bessastöðum fyrir norræna þjóðhöfðingja, ríkisstjórn og fleiri. Klukkan 20 opnaði ég sýningu í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, en hann hefði orðið níræður þennan dag.

Mánudagur 19.10.1998 - 19.10.1998 0:00

Hér á landi dvöldust tveir fulltrúar frá bandaríska Mellon-sjóðnum, sem hefur veitt góðan styrk til að gera svonefnt Sagna-net, sem er samstarfsverkefni Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og bókasafnsins í Cornell-háskóla í Bandaríkjunum. Komu þeir hingað til að kynna sér framvindu verksins og luku miklu lofsorði á það, en unnið er að því að setja sagnaarf okkar Íslendinga með stafrænum hætti inn á netið.

Laugardagur 17.10.1998 - 17.10.1998 0:00

Klukkan 9.30 fór ég á málþing Félags íslenskra leikskólakennara um menntamál og flutti þar ræðu. Um hádegisbilið fórum við Rut til Keflavíkurflugvallar og tókum þar þátt í athöfn, þegar kista Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur kom til landsins, þaðan fórum við að Bessastöðum og rituðum nöfn okkar í minningarbók. Klukkan 16.sótti ég málþing umboðsmanns barna um einelti og flutti þar ræðu. Loks komst ég á tónleika klukkan 17.00 á vegum menningarmálanefndar Garðabæjar í Kirkjuhvoli, Garðabæ, þar sem þau Rannveig Fríða Bragadóttir mezzo-sópran og Gerrit Schuil pínaóleikari fluttu verk eftir Schumann, Brahms, Debussy og Jón Ásgeirsson, sem var sérstaklega hylltur vegna 70 ára afmælis síns.

Föstudagur 16.10.1998 - 16.10.1998 0:00

Klukkan 9 fór ég í Valhöll þar sem var að hejast ráðstefna á vegum Sambands ungra sjálfstæðismanna og bandarískrar stofnunar CSEI um internetið og alþjóðaumhverfið. Kom það í minn hlut að setja ráðstefnuna með ávarpi. Klukkan 17.00 fór ég í nýtt Goethe-Zentrum, sem opnað var við Lindargötu í Reykjavík. Var þar margt manna til að fagna því að menningartengsl Íslands og Þýskalands væru efld með þessari miðstöð.

Fimmtudagur 15.10.1998 - 15.10.1998 0:00

Þetta var dagur dagbókarinnar og skráði ég þá eftirfarandi hjá mér: Að venju fór ég á fætur undir 6.30 og hélt í Sundhöll Reykjavíkur, þar sem ég synti mína daglegu 500 metra, fór í nuddpottinn og síðan upp á sólpallinn til að þurrka mér. Það var varið að kólna í lofti en veðrið var stillt og bjart. Rétt sást rofa í dagsbirtuna. Átti minn daglega fund með foringjanum, Benedikt Antonssyni, og fleiri slógust í hópinn. Var kominn heim um 7.30 og las dagblöðin og bjó mig undir vinnudaginn. Um klukkan níu var ég kominn í menntamálaráðuneytið. Notaði tímann til klukkan 9.30 til að afgreiða ýmis skrifleg erindi og líta á tölvupóstinn. Einnig ræddi ég við Ásdísi Höllu Bragadóttur aðstoðarmann um þrjár ræður, sem ég þarf að flytja á morgun og laugardag. Klukkan 9.30 kom lögfræðingur með skjólstæðinga sína til viðtals við mig vegna starfsmannahalds við eina stofnun, sem undir ráðuneytið heyrir. Fékk um klukkutíma milli 10 og 11 til að ræða við nokkra í síma, svara tölvupósti og sinna skriflegum erindum. Meðal annars lagði ég á ráðinn með ráðuneytisstjóra og einum skrifstofustjóranna um dagsetningar fyrir norræna ráðherrafundi á næsta ári, en þá kemur í hlut Íslands að hafa forystu í norrænu samstarfi. Klukkan 11 var fundur með embættismönnum úr ráðuneytinu til að fjalla um samninga við þá aðila, sem standa að Fræðslumiðstöð bílgreina. Hún hefur verið rekin sem tilraunaverkefni í tvö ár og er vilji aðila að halda samstarfinu áfram en í breyttu formi. Hefur gengið erfiðlega að finna þetta form fram til þessa, en nú hef ég trú á, að lausn sé í sjónmáli. Klukkan 11.30 hitti ég sérfróða menn vegna viðræðna ráðuneytisins við Microsoft-fyrirtækið um íslenskun á tölvuhugbúnaði þess. Í júlí tókust tengsl milli ráðuneytisins og Microsoft. Höfum við lagt áherslu á að þróa þau áfram, þótt ekki sé enn tímabært að skýra frá því, sem áunnist hefur. Í hádeginu gekk ég niður í Alþingishús og fékk mér að borða þar og ræddi við nokkra flokksbræður um ýmis mál. Við fögnuðum meðal annars góðum árangri í fótboltanum kvöldið áður gegn Rússum. Var heldur kalt að sitja í norðangolunni á vellinum í tvo tíma. Klukkan 13.30 kom Kenneth East, fyrrverandi sendiherra Breta á Íslandi, til mín í ráðuneytið. Hann dvelst hér á landi í tvær vikur um þessar mundir. Dóttir hans Helen var fenginn til þess að fara í grunnskóla og framhaldsskóla og halda námskeið fyrir enskukennara í því skyni að kenna þeim það, sem á ensku nefnist “story telling" og við mundum kalla frásagnarlist, það er að segja sögu. Þau búa bæði heima hjá okkur og hefur verið mikið hjá þeim að gera. Meðal annars vaknaði sú hugmynd, að skemmtilegt yrði og fróðlegt að eiga sjónvarpsviðtal við Kenneth, eina sendiherrann, sem hefur verið vísað úr landi, en það gerðist í febrúar 1976 vegna deilunnar við Breta um 200 mílurnar. Við Kenneth kynntumst einmitt á þeim árum og höfum ræktað vináttu með okkur síðan. Varð að ráði, að kannaður yrði áhugi hjá Sigurði Valgeirssyni dagskrárstjóra sjónvarpsins á samtali, sem ég tæki við Kenneth. Bar þá svo vel í veiði, að einmitt í dag, 15. október, sama dag og 200 mílurnar komu til sögunnar 1975, var verið að taka upp svonefnd mánudagsviðtöl í sjónvarpinu og gátum við komist að í þeim umbúnaði. Fórum við inn í sjónvarp í tæka tíð til að geta hafið upptöku klukkan 14.00. Gekk það eftir og ræddum við saman í nákvæmlega 25 mínútur án þess að þurfa að stoppa, þótt það hafi að vísu runnið upp fyrir mér, að líklega hefði ég átt að vera búinn að æfa mig meira í því að leggja fyrir hann spurningar á ensku - verður laglegt fyrir mig að falla á enskuprófi í viðtali við þennan góðvin minn! Við sjáum hvað setur. Ég vona, að einhverjum þyki viðtalið forvitnilegt, það á minnsta kosti eftir að vera söguleg heimild fyrir þá, sem rifja upp þorskastríðin. Hitt var einnig ágæt tilbreyting að fá einu sinni að sitja í stól spyrjandans í sjónvarpinu en þurfa ekki sjálfur að sæta yfirheyrslu. Klukkan 16.15 hafði ég boðað alla helstu forystumenn í íslensku leiklistarlífi til fundar í menntamálaráðuneytinu í því skyni að ræða um frumvarp til leiklistarlaga áður en ég legði það fram í annað sinn á Alþingi. Í fyrra hlaut það ekki afgreiðslu, meðal annars vegna athugasemda frá þessum hópi. Í sumar hefur orðalagi og nokkrum ákvæðum verið breytt til að koma til móts við þau sjónarmið, sem kynnt voru á síðasta þingi. Fundinn í dag sóttu allir, sem til hans voru boðaðir. Umræður voru miklar og skýrðist betur fyrir mér, hverjar eru áhyggjur gagnrýnendanna. Stóð fundurinn í tæpar tvær klukkustundir, þannig að þegar ég kom heim voru réttir tólf tímar liðnir síðan ég hélt af stað í sund í morgun. Rut kona mín kom heim skömmu síðar. Hún er um þessar mundir að æfa fyrir upptökur, sem verða um helgina. Bjarni Benedikt sonur okkar kom nokkru síðar, en hann var að taka upp fyrir sjónvarpið, þátturinn heitir Kolkrabbinn, en þar er hann með stutt innslag einu sinni í viku og hefur verið að kynna íslenska arkitekta. Eftir kvöldmat sáum við einmitt annað framlag hans í þáttinn á þessum vetri, áður en þau mæðgin héldu á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ég ákvað að halda mig heima meðal annars til að taka þátt í þessu skemmtilega framtaki að skrifa dagbók, sem ég geri almennt ekki, fyrir utan það, sem ég færi inn á heimasíðu mína á netinu einu sinni í viku og hef gert undanfarin ár, raunar allan tímann, sem ég hef gegnt störfum menntamálaráðherra. Líklega á það eftir að vera gagnleg heimild, að minnsta kosti fyrir mig, þegar fram líða stundir. Þar skrifa ég einskonar dagbók, sem er opin öllum, sem vilja heimsækja síðuna mína http://www.centrum.is/bb Ég hef tekið eftir því, að í ritstjórnardálkum Morgunblaðsins, leiðara og Víkverja, í þessari viku hefur þessi síða mín verið nefnd til marks um nýjar leiðir fyrir stjórnmálamenn til að hafa samband við umbjóðendur sína. Nefni ég þetta hér, því að einmitt í dag var smákafli um þetta í Víkverja. Get ég fullyrt, að notkun mín á netinu hefur leitt til þess, að ég hef getað sinnt mun fleiri erindum og fyrirspurnum en ég gat nokkru sinni látið mér til hugar koma, þegar ég tók upp á því af einstakri forvitni og nýjungagirni haustið 1994 að láta setja þetta samskiptakerfi inn á heimatölvuna mína. Þá hvöttu hinir ungu menn, sem að því stóðu að tengja mig, til þess að ég setti einnig upp heimasíðu, sem ég vissi ekki einu sinni hvað var, og hef ég síðan haldið henni úti með ómetanlegri tæknilegri aðstoð margra. Heimasíðan hefur einnig gefið mér tækifæri til að koma skoðunum mínum á framfæri og færa ýmislegt til geymslu, sem annars hefði lent í glatkistunni. Eins og einn önnum kafinn stjórnmálamaður sagði við mig á dögunum: áreitið er svo mikið, að ég er farinn að gleyma miklu meiru en áður, hlutirnir renna saman og erfitt er að rifja þá upp í réttri röð. Undir þetta get ég tekið en raunar held ég, að það geti létt á þessum geymslustöðvum heilans að hafa það fyrir reglu að punkta sumt af því hjá sér, sem maður vill ekki að fari forgörðum. Dagur dagbókarinnar ætti að verða til þess fallinn að benda mönnum á þessa leið auk þess sem hann getur gefið góða mynd af lífi íslensku þjóðarinnar á þessum drottins degi árið 1998.

Þriðjudagur 13.10.1998 - 13.10.1998 0:00

Rúmlega klukkan 9 var tilkynnt, að ríkisstjórnarfundi þennan sama morgun kl. 9.30 hefði verið aflýst. Þegar ég ók fram hjá Stjórnarráðshúsinu sá ég, að þar hafði verið komið fyrir sjónvarpsútsendingarbíl. Barst sú fregn, að klukkan 10 myndi Davíð Oddsson forsætisráðherra flytja ávarp vegna andláts Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur. Fylgdist með því á skrifstofu minni og þótti Davíð takast vel og var varð við sömu skoðun hjá öðrum. Forsetafrúin ávann sér virðingu og vinsældir meðal þjóðarinnar á þeim skamma tíma, sem hún sat á Bessastöðum.

Mánudagur 12.10.1998 - 12.10.1998 0:00

Skrifaði undir samning við Reykjavíkurborg og framkvæmdanefnd vegna menningarborgar Evrópu árið 2000 um fjárstuðning við menningarborgarverkefnið.

Föstudagur 9.10.1998 - 9.10.1998 0:00

Fórum í Borgarleikhúsið og sáum frumsýningu á leikritin Ofnaljós eftir breska höfundinn David Hare.

Fimmtudagur 8.10.1998 - 8.10.1998 0:00

Fundur í fulltrúaráði Listahátíðar í Reykjavík. Formennska flyst frá Reykjavíkurborg til ríkisins.

Fimmtudagur 1.10.1998 - 1.10.1998 0:00

Alþingi kom saman í 123. sinn Athöfnin hófst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni kl. 13.30, þar sem séra Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur á Ólafsfirði, predikaði. Að guðsþjónustu lokinni gekk þingheimur til Alþingishússins þar sem þingsetning fór fram. Forsætisráðherra Davíð Oddsson setti þingið í fjarveru Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Ræða séra Sigríðar vakti sérstaka athygli og var það mál þingmanna, að hún hefði í senn verið góð og vel flutt.