Dagbók: desember 2000

Sunnudagur 31.12.2000 - 31.12.2000 0:00

Klukkan 10.30 var ríkisráðsfundur að Bessastöðum. Klukkan 14.00 fórum við Rut í útvarpshúsið, þar sem rithöfundarnir Þorvaldur Þorsteinsson og Ingibjörg Haraldsdóttir fengu verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Um klukkan 15.00 var ég þátttakandi í umræðum í Silfri Egils.

Fimmtudagur 28.12.2000 - 28.12.2000 0:00

Klukkan 14.00 ritaði ég undir samning við Skýrr um nýtt upplýsingakerfi fyrir framhaldsskólana. Klukkan 16.00 fórum við Rut í Sunnusal Hótels Sögu, þar sem Talnakönnun og Frjáls verslun tilefndu Olgeir Kristjónsson mann ársins í viðskiptalífinu og kom það í minn hlut að afhenda honum viðurkenningarskjalið. Síðan fórum við í Norræna húsið, þar sem Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur hafði fengið Ásu Wright verðlaunin. Um kvöldið var ég síðan að Hótel Loftleiðum, þar sem Vala Flosadóttir var tilnefnd íþróttamaður ársins.

Þriðjudagur 26.12.2000 - 26.12.2000 0:00

Fórum í Þjóðleikhúsið kl. 20.00 og sáum Antigónu eftir Sófókles í nútímalegri uppfærslu Kjartans Ragnarssonar. Er ég sammála þeim, sem veita sýningunni góða dóma.

Laugardagur 23.12.2000 - 23.12.2000 0:00

Í hádeginu á Þorláksmessu hélt ég þeim sið að borða skötu í Þjóðleikhúskjallaranum með Árna Johnsen og frændum hans úr Vestmannaeyjum.

Miðvikudagur 20.12.2000 - 20.12.2000 0:00

Fór í Hallgrímskirkju kl. 20.30 og hlustaði á þrjá kóra kvenna syngja undir stjórn Margétar Pálmadóttur fyrir fullu húsi.

Sunnudagur 17.12.2000 - 17.12.2000 0:00

Klukkan 15.00 fór ég í Ráðhúsið í beina útsendingu á kaffispjalli við Kristján Þorvaldsson, þar sem við fórum yfir víðan völl, en sérstakt fréttaefni þótti það, sem ég sagði um kjaradeiluna við framhaldsskólakennara. Ég fór rakleiðis úr Ráðhúsinu í Langholtskirkju, þar sem jólatónleikar Kammersveitar Reykjavíkur hófust kl. 16.00.

Laugardagur 16.12.2000 - 16.12.2000 0:00

Fór klukkan 9.30 með Jóhönnu Maríu aðstoðarmanni mínum akandi í Snæfellsbæ, þar sem verið var að opna nýtt og glæsilegt íþróttahús í Ólafsvík. Var kominn heim aftur rétt fyrir kl. 19.00. Færðin var góð þótt Þröstur bílstjóri þyrfti að sýna aðgát vegna hálku og snjóblindu á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Föstudagur 15.12.2000 - 15.12.2000 0:00

Ríkisstjórnin hittist eins og venjulega kl. 9.30 en klukkan 10.30 voru atkvæðagreiðslur í alþingi. Það lá í loftinu að ríkisstjórnin þyrfti að hittast aftur vegna þess að beðið var forúrskurðar Samkeppnisráðs vegna samruna Landsbanka og Útvegsbanka. Var fundurinn klukkan 14.00 og þá kom í ljós, að ráðið hafnaði samrunanum. Alþingi kom saman til fundar klukkan 16.00 og ræddi þennan úrskurð í klukkustund.

Fimmtudagur 14.12.2000 - 14.12.2000 0:00

Við upphaf fundar þingfundar kl. 10.30 hófu þingmenn vinstri/grænna máls á því, að ég hefði beitt óeðlilegum aðferðum , þegar ég samþykkti tilmæli útvarpsstjóra um hækkun afnotagjalds. Ég hafnaði þessari skoðun með vísan til ákvæða í lögum um Ríkisútvarpið. Klukkan 11.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem Rannskóknarráð Íslands og Össur kynntu stóran styrk til Össurar frá ESB.

Miðvikudagur 13.12.2000 - 13.12.2000 0:00

Flaug heim með beinu flugi frá París, það var ekki unnt að leggja af stað þaðan fyrr en klukkstund eftir að við settumst í vélina vegna þrengsla á evrópska flugstjórnarsvæðinu.

Þriðjudagur 12.12.2000 - 12.12.2000 0:00

Sat fundinn um menningarmál frá morgni til kvölds en hitti einnig Matsuura forstjóra UNESCO á einkafundi og flutti stutta ræðu.

Mánudagur 11.12.2000 - 11.12.2000 0:00

Sat ráðstefnu um menningarmál á vegum UNESCO, en í hádeginu baup franski menningarmálaráðherrann fundarmönnum til málsverðar í Quai de Orsay-safninu. Að loknum fundum fór ég í Marais-hverfið, þar sem Erró var að opna sýninguna Erró émail sur acier í Galerie Montenay Giroux (monenaygiroux@claranet.fr) og hitti ég Erró þar og nokkurn hóp gesta. Er sýningin opin til 20. janúar 2001. Sunnudagur 10. desember 2000 Fór snemma dags í 13. hverfi og tók þar þátt í qigong utandyra með hópi fólks, sem hittist reglulega, en gekk síðan um Latínuhverfið, að Notre Dame, til Pompidou-safnsins, um Les Halles og að Lord Byron-götu skammt við Sigurbogann og hitti íslenskar fjölskyldur sem héldu litlu-jólin með börnum sínum. Tók þessi ganga mig rúmar fimm klukkustundir.

Laugardagur 9.12.2000 - 9.12.2000 0:00

Flaug til Parísar um Kaupmannahöfn á menningarmálaráðherrafund á vegum UNECSO.

Fimmtudagur 7.12.2000 - 7.12.2000 0:00

Var í umræðum á alþingi um fjögur frumvörp. Á meðan umræður fóru fram utan dagskrár á þingi skrapp ég í ráðuneytið og skrifaði undir samning við bílgreinamenn um umsýslu með sveinsprófum. Fór á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands klukkan 19.30

Miðvikudagur 6.12.2000 - 6.12.2000 0:00

Þingflokkur sjálfstæðismanna kemur alltaf saman klukkan 16.00 á miðvikudögum og í dag lögðum við síðustu hönd á fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2001. Er það óvenjulega snemma og hefur afgreiðsla fjárlagafrumvarpsins gengið snurðulaust og eftir áætlun í þinginu.

Þriðjudagur 5.12.2000 - 5.12.2000 0:00

Klukkan 08.45 var ég í Melaskóla og opnaði nýja heimasíðu Námsgagnastofnunar. Klukkan 12.00 var ég í nýju geymsluhúsi Þjóðminjasafns í Vesturvör í Kópavogi og opnaði nýja heimasíðu safnsins. Klukkan 17.00 vorum við Rut í Kringlunni, þar sem afhjúpuð var mynd eftir Erró.

Mánudagur 4.12.2000 - 4.12.2000 0:00

Klukkan 09.00 var samráðsfundur ráðherra með fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga í Borgartúni 6 undir forystu félagsmálaráðherra. Klukkan 11.00 hófst þingfundur og atkvæðagreiðsla um fjárlagafrumvarp 2001 eftir aðra umræðu.

Sunnudagur 3.12.2000 - 3.12.2000 0:00

Klukkan 17.00 var ég í Laugardalshöll og afhenti verðlaun í hönnunarkeppni 8. 9. 10 bekkjar grunnskólanema.

Föstudagur 1.12.2000 - 1.12.2000 0:00

Klukkan 13.00 tók ég þátt í fullveldishátíð stúdenta við Háskóla Íslands og var þátttakandi í tveimur pallborðsumræðum, annars vegar um menntamál og hins vegar um menningarmál. Síðdegis fór ég í JL-húsið við Hringbraut, þar sem Myndlistarskólinn í Reykjavík, Alliance Française og Reykjavíkurakademían höfðu opið hús. Þá fórum við Rut í Gerðarsafn þar sem Búnaðarbankinn var að opna þriðju myndlistarsýninguna í tilefni af 70 ára afmæli sínu, Fullveldi, með listaverkum ungs fólks.