Dagbók: september 2002

Mánudagur 30.9.2002 - 30.9.2002 0:00

Klukkan 14.00 var ég í klukkustund á Hrafnaþingi hjá Ingva Hrafni Jónssyni á útvarpi Sögu. Klukkan 16.00 fór ég á ársfund Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í Slökkvistöðinni.

Laugardagur 28.9.2002 - 28.9.2002 0:00

Fórum akandi frá Akureyri um hádegisbil og komum til Reykjavíkur rúmlega 17.00.

Föstudagur 27.9.2002 - 27.9.2002 0:00

Við Rut fórum kl. 20.00 á frumsýningu á Hamlet hjá Leikfélagi Akureyrar og skemmtum okkur vel,

Miðvikudagur 25.9.2002 - 25.9.2002 0:00

Flaug kl. 11.00 norður á Akureyri, þar sem 17. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga hófst klukkan 13.00

Sunnudagur 22.9.2002 - 22.9.2002 0:00

Klukkan 10.00 fór ég að fjársafninu, sem staðið hafði um nóttina í girðingu fyrir neðan Kvoslæk og tók þátt í að reka féð í hólfið við Fljótshlíðarrétt og síðan í réttina. Var ég þar og aðstoðaði eftir mætti við að draga fé í dilka fram yfir 12.00. Höfðu menn á orði, að eitthvað af fé hefði greinilega sloppið frá okkur gangnamönnunum í þokunni.

Laugardagur 21.9.2002 - 21.9.2002 0:00

Klukkan 07.30 sóttu nágrannar mínir í Fljótshlíðinni mig að Kvoslæk og við ókum að Reynifelli, eyðibýli fyrir vestan Þríhyrningin, þar sem hestar biðu okkar. Þaðan héldum við í göngur og fór ég í áttina að Austurdal og smalaði þaðan í hlíðunum fyrir austan Eystri-Rangá í sæmilegri birtu en þegar dró nær Þríhyrningi fórum við inn í niðaþoku og rákum í henni austur fyrir Þríhyrning þar til við komum til byggða fyrir ofan Lambalæk um klukkan 18.00. Var ég kominn heim að Kvoslæk um klukkan 19.00.

Föstudagur 20.9.2002 - 20.9.2002 0:00

Klukkan 11.00 var ég með viðtalstíma eins og venjulega á föstudögum, þegar ég er í Reykjavík. Viðtölin hef ég í skrifstofu minni á vegum alþingis og er auðveldast að panta tíma með því að hringja í Rakel í síma 563 0500. Klukkan 16.00 var ég í umræðuþætti á útvarpi Sögu hjá Hallgrími Thorsteinssyni og ræddi fréttir líðandi viku við Katrínu Júlíusdóttur og Pál Kr. Pálsson.

Fimmtudagur 19.9.2002 - 19.9.2002 0:00

Klukkan 14.00 hófst borgarstjórnarfundur og stóð hann fram undir klukkan 18.00 - bókun okkar sjálfstæðismanna í borgarráði varð kveikja að umræðum um háa húsaleigu og lóðaskort. Þá ræddum við um framtíð Vatnsmýrarinnar og ráðagerðir R-listans um skipulagsslys á Norðlingaholti.

Miðvikudagur 18.9.2002 - 18.9.2002 0:00

Klukkan 16.00 hittist borgarstjórnarflokksfundur sjálfstæðismanna eins og venjulega á miðvikudögum til að bera saman bækur sínar, fara yfir mál á vettvangi nefnda borgarinnar og leggja á ráðin um afstöðu og stefnumörkun.

Þriðjudagur 17.9.2002 - 17.9.2002 0:00

Eins og venjulega var fundur í borgarráði klukkan 12.00 og stóð hann að venju um tvær klukkustundir. Á fundinum lögðum við sjálfstæðismenn fram bókun vegna glannalegra ummæla Páls Péturssonar félagsmálaráðherra um leigumarkaðinn.

Mánudagur 16.9.2002 - 16.9.2002 0:00

Klukkan 11.00 til 12.00 var ég í viðtalsþætti Arnþrúðar Karlsdóttur´í útvarpi Sögu.

Föstudagur 13.9.2002 - 13.9.2002 0:00

Um hádegisbilið var farið í siglingu um höfnina í Höfn í niðaþoku, fórum í land í Austurfjöru og ókum að Horni og skoðuðum hið einstæða bæjarstæði þar, er ógleymanlegt að þokunni létti í kringum bæinn, svo að við sáum Vestrahorn gnæfa yfir hann. Fórum síðan að Hólmi í Laxárdal og fræddi Bjarni Einarsson fornleifafræðingur okkur um blótshúsið þar. Lauk farskólanum síðan í kirkjunni í Bjarnarnesi. Á leiðinni í Fljótshlíðina áttum við Rut stutta viðdvöl í Kvískerjum, því að okkur langaði að hitta bræðurna þar og áttum við ógleymanlega stund með þeim Halfdáni, Helga og Sigurði.

Fimmtudagur 12.9.2002 - 12.9.2002 0:00

Um hádegisbilið hélt farskólinn í ferðalag í Skaftafell undir góðri leiðsögn. Við snæddum hádegisverð í Smyrlabjörgum, stöðvuðum við Hala, fengum leiðsögn um þjóðgarðinn í Skaftafelli og skoðuðum kirkjuna að Hofi. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður í boði bæjarstjórnar Hornafjarðar og þar kom það í minn hlut að afhenda Lýði Pálssyni, forstöðumanni Byggðasafns Árnessýslu, safnaverðlaunin árið 2002.

Miðvikudagur 11.9.2002 - 11.9.2002 0:00

Um kl. 08.30 héldum við úr Fljótshlíðinni austur á Höfn í Hornafirði og komum þangað um hádegisbilið en klukkan 14.00 hófst þar Farskóli safnmanna og var ég þátttakandi í pallborðsumræðum alþingismanna síðdegis. Um kvöldið var eftirminnilegur humarnáttverður.

Þriðjudagur 10.9.2002 - 10.9.2002 0:00

Klukkan 09.00 sat ég stjórnarfund Orkuveitu Reykjavíkur, Klukkan 12.00 sat ég fund borgarráðs. Klukkan 14.30 sat ég fund stjórnkerfisnefndar borgarinnar. Síðan ókum við Rut austur í Fljótshlíð og gistum þar að Kvoslæk, þar sem segja má, að við höfum eignast annað heimili.

Mánudagur 9.9.2002 - 9.9.2002 0:00

Klukkan 10.30 sótti ég fyrsta stjórnarfund minn í Aflvaka, en það er félag á vegum Reykjavíkurborgar. Í ljós kom á fundinum, að ekki er auðvelt að átta sig á hlutverki Aflvaka, þrátt fyrir samþykktir félagsins

Fimmtudagur 5.9.2002 - 5.9.2002 0:00

Klukkan 14.00 hófst borgarstjórnarfundur og stóð til kl. 19.30 með 30 mínútna matarhléi. Við sjálfstæðismenn lögðum fram tillögu okkar um stórlækkun fasteignaskatts á eldri borgara og öryrkja og var hún felld eins og tillaga um lækkun holræsagjalds. Ég var undrandi á því hvernig R-listinn brást við, því að rökin voru þau hjá borgarstjóra, að það mætti ekki mismuna í þágu þessa hóps, þá var sagt að borgarsjóður þyldi ekki tekjutapið og loks að gamla fólkið ætti að selja fasteignir sínar eða skuldsetja til að auka lífeyri sinn.

Miðvikudagur 4.9.2002 - 4.9.2002 0:00

Klukkan 14.30 héldum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins blaðamannafund í Ráðhúsinu og kynntum stefnumál, sem við ætlum að flytja í borgarstjórn á haustmánuðum. Fréttamenn spurðu mig einnig um umtalið um að Ingibjörg Sólrún ætti að bjóða sig fram til þings í tilefni að skoðanakönnun á vegum Kreml.is, sem sýndi, að undir leiðsögn ISG mundi Samfylkingin bæta við sig 8% fylgi. Klukkan 16.00 var síðan reglulegur fundur í borgarstjórnarflokknum.

Sunnudagur 1.9.2002 - 1.9.2002 0:00

Flogið heim frá Stokkhólmi kl. 14.10 lent kl. 15.30 að íslenskum tíma í fyrsta haustrokinu og rigningu.