13.9.2002 0:00

Föstudagur 13.9.2002

Um hádegisbilið var farið í siglingu um höfnina í Höfn í niðaþoku, fórum í land í Austurfjöru og ókum að Horni og skoðuðum hið einstæða bæjarstæði þar, er ógleymanlegt að þokunni létti í kringum bæinn, svo að við sáum Vestrahorn gnæfa yfir hann. Fórum síðan að Hólmi í Laxárdal og fræddi Bjarni Einarsson fornleifafræðingur okkur um blótshúsið þar. Lauk farskólanum síðan í kirkjunni í Bjarnarnesi. Á leiðinni í Fljótshlíðina áttum við Rut stutta viðdvöl í Kvískerjum, því að okkur langaði að hitta bræðurna þar og áttum við ógleymanlega stund með þeim Halfdáni, Helga og Sigurði.