Dagbók: ágúst 2014

Sunnudagur 31. 08. 14 - 31.8.2014 19:15

Þegar Reynir Traustason var blaðamaður á Fréttablaðinu í ársbyrjun 2003 tók hann að sér að birta brot úr fundargerðum stjórnar Baugs sem áttu að sanna þá kenningu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forkólfs Baugs, að Davíð Oddsson, þáv. forsætisráðherra, hefði snemma árs 2002 ætlað að splundra viðskiptaveldi Jóns Ásgeirs og síðan sigað lögreglunni á Jón Ásgeir.  Tilgangur birtingarinnar var tvíþættur: (1) að sanna að Jón Ásgeir væri saklaus en ofsóttur af lögreglu vegna óvildar forsætisráðherra og (2) að leggja Samfylkingunni lið í baráttu hennar gegn Davíð Oddssyni vegna þingkosninga nokkrum vikum eftir birtingu fundargerðarbrotanna.

Ýmsum þótti forvitnilegt að vita hvernig rannsóknarblaðamaðurinn og fréttahaukurinn Reynir Traustson hefði komist yfir þessar fundargerðir eða hver hefði lekið þeim í hann. Reynir var þögull sem gröfin og sagðist standa vörð um heimildarmenn sína í þessu máli sem öðrum.

Síðar fengust svör við öllum spurningum um þetta: Í ljós kom að Jón Ásgeir átti Fréttablaðið en kaus að halda því leyndu. Rannsóknarblaðamaðurinn var ekki annað en handlangari fyrir eiganda blaðsins og lagði sig fram um að rétta hlut hans á kostnað forsætisráðherra.

Nú situr Reynir Traustason undir ámæli fyrir hvernig hann aflaði fjár sem eigandi og ritstjóri DV til að halda blaðinu úti þrátt fyrir stöðugan taprekstur árum saman. Hann segir á Facebook-síðu sinni 31. ágúst:

„Á undanförnum árum hef ég lagt undir allt sem ég gat til að halda DV á floti […] er rétt að taka fram að blaðamenn DV hafa ekki haft hugmynd um persónuleg fjármál mín. Ég hef reyndar talið æskilegt að svo væri ekki.“

Eitt er að blaðamenn DV vissu ekki fyrir hverja þeir unnu frekar en blaðamenn Fréttablaðsins í tæpt ár þegar eignarhaldi Jóns Ásgeirs var haldið leyndu. Annað er að í ljós hefur komið að Reynir hélt fjármálasviptingum sínum einnig leyndum fyrir öðrum eigendum DV ehf.

Þegar einn stjórnarmanna í DV ehf. óskar með yfirlýsingu 31. ágúst á Eyjunni eftir óháðri úttekt á fjárreiðum og rekstri félagsins stígur Jón Trausti Reynisson, sonur ritstjórans og framkvæmdastjóri DV ehf., fram með athugasemd á Eyjunni og segir stjórnarmanninn „grípa til þess ráðs að gera fyrirtækið og starfsmenn þess tortryggilega til að rétta eigin hlut í umræðunni“.

Ljúki þessum dapurlega farsa á þann veg að þeir feðgar stjórni DV ehf. áfram er lágmarkskrafa að þeir upplýsi hver fjármagni þá á framhaldsaðalfundinum föstudaginn 5. september 2014.

Laugardagur 30. 08. 14 - 30.8.2014 20:30

Þegar DV er í lamasessi vegna hjaðningavíga í eigendahópi blaðsins og frétta af ótrúlegri framgöngu Reynis Traustasonar ritstjóra tekur fréttastofa ríkisútvarpsins að sér að halda lífi í lekamálinu. Í kvöldfréttum sjónvarps var sagt að einhverjir ónafngreindir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu fyllst efasemdum um framtíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í ráðherrastóli og á þingi vegna frásagna í bréfi umboðsmanns alþingis af samtali hans við Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um tvo fundi lögreglustjórans með Hönnu Birnu þar sem lögreglurannsókn vegna lekamálsins bar á góma.

Bréf umboðsmanns er 23 bls. að lengd og er þetta þriðja bréf hans til innanríkisráðherra eftir að umboðsmaður ákvað að eigin frumkvæði að kanna samskipti þeirra Hönnu Birnu og Stefáns Eiríkssonar. Umboðsmaður hóf athugun sína eftir að samskiptin voru komin í hámæli vegna leka um þau úr stjórnkerfinu. Ekki kemur fram að umboðsmaður sé að kanna þann leka heldur hvort farið hafi verið að reglum, lögbundnum og óskráðum, í samskiptum ráðherrans og lögreglustjórans í máli sem var hvorki formlega til úrlausnar í innanríkisráðuneytinu né á forræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Af hinu langa bréfi umboðsmanns má ráða að hann leggur lykkju á leið sína til að rökstyðja aðkomu sína að málinu. Fyrir hefur komið að umboðsmaður smíðar reglu sem öðrum var áður ókunn til að koma með aðfinnslur við ráðherra. Hér sýnist hann ætla að teygja sig langt vaki fyrir honum að skrifa skýrslu til alþingis um þetta mál og hlut Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í því. Stjórnarandstaðan býst greinilega við að hún fái þar efnivið til að magna andstöðu við Hönnu Birnu. Píratar hafa frestað eða fallið frá áformum um vantraust á Hönnu Birnu og Ögmundur Jónasson, formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar, ætlar ekki að setja málið á dagskrá nefndarinnar fyrr en að fenginni niðurstöðu umboðsmanns. Spurning er hvort þingmennirnir hafi á bakvið tjöldin fengið ábendingu frá umboðsmanni um að bíða.

Í hinu langa bréfi umboðsmanns kemur fram að ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins hafði samband við ríkissaksóknara til að forvitnast um gang rannsóknarinnar. Ríkissaksóknari sagði ráðuneytisstjóranum að honum kæmi þetta ekkert við og skyldi ekki spyrja sig neins. Segir umboðsmaður að hann sjái ekki ástæðu til að fjalla frekar um þessi samskipti. Spurning vaknar hvers vegna Stefán Eiríksson sagði ekki hið sama við Hönnu Birnu. – Hún spurði hvort honum þætti óþægilegt að hún forvitnaðist um gang málsins eða léti í ljós álit sitt á því. Lögreglustjórinn hefði getað sagt já, hún ætti ekki að ræða málið við sig. Hann gerði það ekki enda leit hann réttilega þannig á að málið væri ekki á sínu forræði heldur ríkissaksóknara.

 

 

Föstudagur 29. 08. 14 - 29.8.2014 18:30

Ástandið í Úkraínu versnar þegar Rússar færa sig stöðugt meira upp á skaftið. Að láta eins og Kremlverjar eigi einhvern rétt til íhlutunar í austurhluta Úkraínu er fráleitt. Margir undrast langlundargeð Angelu Merkel Þýskalandskanslara í garð Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Hún hefur hringt þrisvar í hann í þessum mánuði 15. 22. og 27. ágúst. Hún segist oft ræða við Pútín í síma og vill gera sem minnst úr þessum samtölum en frá símhringingum Merkel er sagt á vefsíðu rússneska forsetaembættisins.

Þau Pútín og Merkel þekkjast vel. Þau eiga auðvelt með að skiptast á skoðunum, hann talar góða þýsku enda gegndi hann stöðu KGB-foringja í Austur-Þýskalandi og Merkel lærði rússnesku þegar hún gekk í skóla í DDR, þýska alþýðulýðveldinu. Blaðamaður Le Monde segir hins vegar að ekki sé kært með þeim. Pútín viti að Merkel sé illa við hunda og einmitt þess vegna hafi hann gjarnan stóra hunda sína við hlið sér þegar þau hittist. Það þjóni þeim eina tilgangi að koma henni úr jafnvægi.

Merkel undrast ekki háttalag Pútíns og hefur sagt:

„Hann endurtekur alltaf setningu sem ég er algjörlega ósammála en lýsir sannfæringu hans […]: að hrun Sovétríkjanna hafi verið mesti harmleikur 20. aldarinnar. […] Þessi setning höfðar alls ekki til okkar.“

Blaðamaður Le Monde veltir fyrir sér hvort Merkel óttist að Pútín vilji endurreisa Sovétríkin, Hún hafi að sjálfsögðu aldrei gefið það til kynna. Þegar hún heimsótti Lettland hinn 18. ágúst flutti hún ræðu og áréttaði að ákvæðið í „5. grein sáttmála NATO um gagnkvæma aðstoð“ kæmi til árásar á eitt aðildarríki NATO væri „ekki aðeins orð á blaði heldur [lýsti] raunverulegum ásetningi“.

Fimmtudagur 28. 08. 14 - 28.8.2014 22:15

Nú er upplýst að frá 16. ágúst hefur mikil gliðnun orðið neðanjarðar út frá Bárðarbungu. Segir á vefsíðunni ruv.is í dag að GPS mælar norðvestan við bunguna séu nú um 40 sentimetrum frá þeim stað sem þeir voru áður. Sprungan, eða kvikugangurinn, hafi teygt sig í austur og síðan í norður frá Bárðarbungu í átt að Öskju og sé nú orðin yfir 40 kílómetrar að lengd. Kvikumagnið er um 400 milljón rúmmetrar, sem jafngildir því að allt vatnsmagn Þjórsár eða Ölfusár á einum sólarhring hafi bæst við á hverjum degi. 

Veðurstofa Íslands segir að sigdældir suðaustan Bárðarbungu liggi í stefnu suðsuðaustur út frá suðausturhorni Bungunnar. Þær eru um 4,5 km á lengd og um 1 km á breidd. Þær eru um 15-20 m djúpar og markaðar hringsprungum. Lauslega áætlað hafa 30-40 milljónir rúmmetrar íss bráðnað á þessum stað.

Þannig er staðan eftir að jarðhræringarnar hefur borið hæst í fréttum í 12 daga. Um tíma var hættustigið rautt eða „litakóðinn“ eins og það er svo einkennilega orðað í sumum fjölmiðlum. Á því stigi urðu fréttir af gosinu heimsfréttir. Margir óttuðust að truflun yrði á flugi eins og þegar Eyjafjallajökull gaus.

Enginn getur sagt hvort þessari umbrotahrinu sé lokið. Hún sannar aðeins kenninguna um að Ísland er lifandi. Tími án umbrota er í raun aðeins biðtími þar til þau hefjast einhvers staðar að nýju.

Miðvikudagur 27. 08. 14 - 27.8.2014 21:25

Hér má sjá þátt minn á ÍNN frá því í síðustu viku þar sem ég ræði við Þorkel Helgason stærðfræðing í tilefni 40. starfsárs Sumartónleikanna í Skálholti og 40 ára afmælis Kammersveitar Reykjavíkur.

Í dag ræddi ég við Vilhjálm Árnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins úr Suðurkjördæmi, í þættinum á  ÍNN. Vilhjálmur lýsti reynslu sinni af löggæslu við Alþingishúsið og Stjórnarráðshúsið í janúar 2009, við ræddum breytingar á skipan lögregluumdæma, lekamálið og síðast en ekki síst tillögu Vilhjálms um að loka verslunum ÁTVR og leyfa sölu áfengis í smásöluverslunum. Vilhjálmur segir 30 þingmenn þegar hafa lýst stuðningi við málið, þar að auki hafi nokkrir verið hálfvolgir, þeir hafi nú snúist til fylgis við það.

Næst er unnt að sjá samtal okkar Vilhjálms kl. 22.00 síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Þriðjudagur 26. 08. 14 - 26.8.2014 21:10

Fjögurra atburða má minnast í dag:

1.      Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisáðherra verður einnig dómsmálaráðherra. Fyrsta skrefið til endurreisnar dómsmálaráðuneytisins.

2.      Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra stígur fram á fjölmiðlavöllinn og svarar spurningum um lekamálið af miklu öryggi í Stöð 2 og Kastljósi. Umboðsmaður alþingis birtir langa útskrift á samtali sínu við Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóra í Reykjavík. Stefán taldi sér bera að skýra frá trúnaðarsamtölum við innanríkisráðherra. Frásögnin birt án þess að gefa Hönnu Birnu tækifæri til andmæla. Í samtölum við fréttamenn leiðréttir hún ranghugmyndir sem vaknað hafa í huga þeirra við lestur bréfs umboðsmanns.

3.      Ólafur Þ. Stephensen segir af sér sem ritstjóri Fréttablaðsins. Hann segir í yfirlýsingu að atburðir undanfarinna daga  á fréttastofu 365 hafi meðal annars orðið til þess að hann geti ekki litið öðruvísi á en að ætlunin sé að þrengja að sjálfstæði hans sem ritstjóra sem kveðið sé á um í siðareglum félagsins.

4.      Hans Humes, stjórnandi bandarísks vogunarsjóðs, flutti erindi og svaraði fyrirspurnum á fundi Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál (RSE) í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins um viðhorf vogunarsjóða sem kröfuhafa gagnvart þrotabúum banka og opinberum aðilum. Hann lýsti mikilli undrun yfir að hér hefðu liðið sex ár án þess að uppgjöri við kröfuhafa lyki. Enginn hefði hag af slíku ástandi aðrir en þeir sem tækju tímakaup fyrir vinnu sína.

 

 

Mánudagur 24. 08. 14 - 25.8.2014 21:10

Þeir sem fylgst hafa með fjölmiðlastarfsemi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar vita að þar er ekki allt sem sýnist. Hann átti Fréttablaðið til dæmis með leynd í tæpt ár á meðan það þjónaði viðskiptahagsmunum hans. Notaði hann það meðal annars í pólitískum tilgangi í því skyni að koma Samfylkingunni til valda í þingkosningunum vorið 2003. Þau áform runnu út í sandinn. Nú ríkir nokkur hula yfir raunverulegu eignarhaldi á 365 miðlum en Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, er ráðandi hluthafi, ef marka má fréttir.

Innan fjölmiðlafyrirtækja ríkir almennt mikil leyndarhyggja þegar kemur að þeim sjálfum. Öðru hverju er þó unnt að skyggnast á bakvið tjöldin, einkum við mannaskipti. Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrv. blaðafulltrúi Baugs, var nýlega ráðin útgáfustjóri 365 og létti undir með nýráðnum forstjóra sem á að leiða fyrirtækið inn í síma- og fjarskiptarekstur.

Í dag var efnt til nokkurra mínútna fundar með starfsmönnum til að tilkynna þeim að Mikael Torfason hefði látið af störfum sem aðalritstjóri, aðalmaður í útgáfu- og fjölmiðlastarfsemi 365, og Kristín tekið af honum – að minnsta kosti tímabundið enda væri ætlunin að auka hlut kvenna í ritstjórnarstörfum. Tvíræðar fréttir bárust um örlög Ólafs Þ. Stephensens ritstjóra. Einhverjir þóttust vita að hann hefði viljað hætta en ekki fengið það – uppsögn hans hefði verið hafnað! Á vefsíðu 365 miðla visir.is segir fremur stuttaralega: „Ekki liggur fyrir hvert hlutverk Ólafs Stephensen, ritstjóra fréttastofunnar, verður í kjölfar breytinganna.“

Þá var upplýst að Sigurjón Magnús Egilsson yrði fréttastjóri hjá 365 miðlum. Leiðir hans og Jóns Ásgeirs hafa áður legið saman eins og lesa má í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Sinnti Sigurjón Magnús ýmsum viðkvæmum verkefnum fyrir Baugsmenn á uppgangstíma þeirra og gekk rösklega fram í vörn þeirra í fjölmiðlum þegar Baugsmálið bar hæst.

Fjölmiðlasaga Jóns Ásgeirs er ekki á enda runnin og skrautlegar sviptingar halda áfram. Á sínum tíma glímdu þeir Sigurjón Magnús og Reynir Traustason um ráðin yfir DV. Enn berjast huldumenn um þann miðil og Sigurður G. Guðjónsson hrl. kemur þar enn við sögu.

 

 

Sunnudagur 24. 08. 14 - 24.8.2014 21:40

Á vefsíðu Le Monde birtist í dag frásögn af því að hættuástandi hefði verið aflýst. Á vefsíðunni taka lesendur til máls og segja meðal annars að það sé gott að unnt sé að bera fram nafn jökulsins. Einn þeirra segir: „Bardar c'est simple et pour le reste pensez à Berlusconi : Bunga bunga !“  - Bardar það er einfalt og síðan er ekki annað en hugsa um Berlusconi: Bunga bunga!

Við vitum að atburðarásinni sem hófst undir Bárðarbungu er ekki lokið og sérfræðingar minna okkur á að í iðrum jarðar kann órói að vera mikill og varað lengi áður en einhver merki sjást á yfirborðinu. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir:

„Kvikan er þungur vökvi og það er eðli hennar að streyma til hliðar, frekar en upp, svo framalega sem opin sprunga er fyrir hendi.  Mestar líkur eru því á gosi nú, þegar gangurinn skríður í gegnum jarðskorpuna undir söndunum norðan Dyngjujökuls og sunnan Öskju.  Ef hann gýs ekki þar, þá tekur við norðar mikið hálendi Dyngjufjalla, Kollóttudyngju og Ódáðahrauns og ólíklegt að hann komi upp á yfirborð þar.“

Fréttir í erlendum fjölmiðlum af því sem gerist hér gefa réttilega til kynna að hér viti menn ekki hvað kunni að gerast. Á hinn bóginn vekur gosið í Eyjafjallajökli svo magnaðan óhug hjá mörgum að brýnna er nú en nokkru sinni fyrr að vanda alla upplýsingamiðlun.     

Laugardagur 23. 08. 14 - 23.8.2014 21:10

Vegna þess hve gosið í Eyjafjallajökli og áhrif þess eru enn ofarlega í huga margra um heim allan beinist meiri athygli en ella að fréttum um hugsanlegt nýtt eldgos hér á landi. Þetta má mæla á ýmsan hátt. Að frétt um rautt hættustig í lofti yfir Bárðarbungu sé mest lesin á vefsíðu BBC News segir sína sögu.

Spurning vaknar hvort kallað hafi verið: „Úlfur!  Úlfur!“ án tilefnis. Sérfræðingum ber ekki saman um hvort í raun hafi orðið nokkurt gos. Þegar fréttamaður í 18.00-fréttum ríkisútvarpsins fór í veðurstofuna hóf hann spurningu til sérfræðingsins á þennan veg: „Segðu okkur nú cirka about hvað er að gerast?“

Í Eyjafjallajökulsgosinu höfðu menn ekki gert ráð fyrir að aska yrði jafnmikill skaðvaldur og hún reyndist. Nú gefa menn út stífar viðvaranir vegna hættu af ösku í háloftununm. Jafnvægi virðist skorta.

Óhjákvæmilegt er að yfirvöld búi þannig um hnúta að allar opinberar yfirlýsingar séu gefnar að vel yfirlögðu ráði en ekki í beinum útsendingum þar sem menn eru spurðir um eitthvað sem þeir telja „cirka about“. Mikið er í húfi og margir draga ályktanir af þeim yfirlýsingum sem koma frá opinberum aðilum – þeir geta ekki hver og einn sungið með eigin nefi.

 

 

Föstudagur 22. 08. 14 - 22.8.2014 17:00

Hætta er á að víðar geti soðið upp úr um helgina en við Bárðarbungu.

Fréttir frá Gaza-ströndinni í dag herma að Hamas, hryðjuverkasamtökin sem ráða þar lögum og lofum, hafi látið taka 18 Palestínumenn af lífi fyrir að starfa í þágu Ísraela.

Sjö menn voru skotnir á helsta torgi Gaza-borgar. Fréttarstofur vitna til sjónarvotta og vefsíðu Hamas. Bíða „sömu örlög annarra bráðlega,“ segir á síðunni og einnig: „Óhjákvæmilegt er að grípa til þessara ráða við núverandi aðstæður.“

Höfuð hinna dauðadæmdu voru hulin og hendur þeirra bundnar fyrir aftan bak. Svartklæddir hettumenn gengu inn á torgið og skutu fórnarlömbin fyrir augunum á þeim sem voru á leið úr mosku eftir föstudagsbænir.

Fyrr um daginn voru 11 Palestínumenn, sakaðir um samvinnu við Ísraela, aflífaðir í yfirgefinni lögreglustöð á Gaza að sögn Hamas.

Vaxandi óánægja og spenna ríkir á Gaza vegna hættunnar sem Hamas hefur kallað yfir íbúa þar með árásum á Ísrael. Flugher Ísraels hefur sprengt fólk og mannvirki í loft á Gaza, síðast þrjá háttsetta Hamasliða í gær og eru aftökurnar í dag settar í samband við fall þeirra.

Á sama tíma og fréttir um þetta berast frá Gaza eykst spenna í austurhluta Úkraínu þegar Rússar senda bílalest sem sögð er hlaðin hjálpargögnum yfir landamæri Úkraínu í óþökk stjórnvalda í Kænugarði.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, segir að hervæðing Rússa við landamæri Úkraínu með landher og flugher sé á „hættulegu stigi“ og mikið magn hergagna sé flutt frá Rússlandi til aðskilnaðarsinna. Sakar hann Rússa um „svívirðilegt brot“ á alþjóðaskuldbindingum.

 

 

Fimmtudagur 21. 08. 14 - 21.8.2014 18:50

Á Vestfjarðavefsíðunni bb.is er skýrt frá því fimmtudaginn 21. ágúst að skrímslafræðingar hafi útskrifast frá Skrímslasetrinu á Bíldudal um síðustu helgi. Í fréttinni segir:

„Keppt var í spurningakeppni um Skrímslabikarinn, þar sem strákar og stelpur öttu kappi um það hvor hópurinn hefði meiri þekkingu á skrímslum í Arnarfirði. Stelpurnar unnu bikarinn að þessu sinni en næsta sumar verður keppt um hann á ný. Spurningakeppnin fór fram fyrir utan Skrímslasetrið í steikjandi sólskini, en veðrið hefur verið einstaklega gott á Bíldudal í sumar.

Skrímslasetrið heldur utan um arfleifð í sögu landsins sem snýr að skrímslum í sjó og státar af verulega vandaðri sýningu. Á hverju ári bætist við sýninguna og í vor kom líkan af Hafmanninum í fullri stærð. Skrímslasetrið verður opið til 1. september.“

Þetta setur á Bíldudal er enn eitt dæmið um framtak einstaklinga víða um land til að auðga mannlífið. Þegar ég las fréttina rifjaðist upp fyrir mér að Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir mig og nokkra aðra í „skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“. Gunnar Helgi er líklega eini skrímslafræðingurinn í Háskóla Íslands,  hann er þó ekki útskrifaður frá Skrímslasetrinu á Bíldudal sem helgar sig skrímslum í sjó.

Þegar augljóst var að íslenskir bankar stóðu ekki undir sjálfum sér og urðu gjaldþrota var sagt að nægt hefði að telja byggingarkrana til að átta sig á að ekki væri allt með felldu í íslensku fjármála- og efnahagslífi.

Um þessar mundir má sjá 11 byggingarkrana á svæðinu frá Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík niður að Vitastíg. Á þessum bletti borgarinnar rísa meðal annars háhýsi. Spurning er hvað þeir segja sem mæla hitann í efnahagslífi þjóða eftir byggingarkrönum.

Miðvikudagur 20. 08. 14 - 20.8.2014 18:50

Í dag ræddi ég við Þorkel Helgason stærðfræðing í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um tónlistarmál í tilefni af 40 ára afmæli Kammersveitar Reykjavíkur og 40. starfsárs Sumartónleikanna í Skálholti. Þáttinn má sjá klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Þetta er fyrsti þáttur minn eftir sumarleyfi en ég verð nú með viðtöl vikulega á miðvikudögum kl. 20.00 á ÍNN. Tala ég um allt milli himins og jarðar við viðmælendur mína.

Meira jafnvægi var í umræðum um það sem er að gerast í iðrum jarðar við Bárðarbungu í dag en verið hefur undanfarna daga. Jarðfræðingar geta ekki lagt mat á annað en hvort meiri eða minni líkur séu á eldgosi. Þeir telja líkurnar greinilega meiri en minni sé miðað við hættustig og brottvísun fólks af stórum landsvæðum.

Hvar og hvernig kvikan brýtur sér leið veit enginn. Hæglega getur ástand af því tagi sem ríkt hefur undanfarna daga staðið mjög lengi líklega frekar með hléum en samfellt. Í erindi sem Ari Trausti Guðmundsson flutti í Rótarý-klúbbi Reykjavíkur í dag minnti hann okkur á að 16 ára aðdragandi hefði verið á gosinu í Eyjafjallajökli.

Breska flugfélagið British Airways hefur ákveðið að búa til nýja rás í sjónvarpskerfi véla sinna í langflugi. Á rásinni verða sýndar myndir af gæludýrum og ber hún enska heitið: Paws and Relax TV (Loppu og slökunarsjónvarp). Richard D‘Cruze forstjóri segir að margar vísindarannsóknir sýni að unnt sé að hægja á hjartslætti og minnka álag (stress) með því að horfa á gæludýramyndir. Með sýningu myndanna sé ekki aðeins unnt að stytta mönnum ferðina með að dreifa huga þeirra heldur einnig minnka kvíða þeirra sem eru flughræddir.

Útdráttur

Þriðjudagur 19. 08. 14 - 19.8.2014 18:40

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hefur tilkynnt að aðeins sé unnt að tryggja samfellu og koma í veg fyrir uppbrot á hinni metnaðarfullu vetrardagskrá rásar 1 sem á að kynna hinn 28. ágúst með því að sameina morgunbæn og orð kvöldsins sem nú eiga að heita orð dagsins í einn dagskrárlið sem fluttur verður klukkan 06.25 á morgnana. Í tilkynningu útvarpsstjóra í dag segir:

„Í þættinum verður flutt stutt hugvekja og bæn. Sameinaðir falla dagskrárliðirnir betur að nýju dagskrárskipulagi rásarinnar, en þeir verða á dagskrá kl. 6.25 rétt á undan nýjum öflugum morgunþætti, Morgunvaktinni sem hefst kl. 6.30.“

Af viðbrögðum í netheimum að dæma er augljóst að megn óánægja er með þessa ráðstöfun útvarpsstjóra og dagskrárstjóra rásar 1. Þeir hafa aðeins hlustað með öðru eyranu á það sem fram hefur komið undanfarna sólarhringa en í tilkynningunni segir:

„Starfsfólk Ríkisútvarpsins hefur lagt við hlustir og tekur mark á þessum ábendingum enda er það sameiginlegt verkefni okkar að þjóna hlustendum eins vel og kostur er. Starfsfólkið hefur því skoðað með hvaða hætti megi bregðast við þeim röddum sem vilja halda í þessa liði með einhverjum hætti um leið og haldið er áfram að gera dagskrá rásarinnar markvissari eins og áður kom fram.“

Það eru í sjálfu sér engin rök að dagskrá rásar 1 verði ómarkvissari þótt fáein orð kvöldsins séu hengd aftan við fréttir klukkan 22.00. Afstaða starfsfólksins ber enn með sér að sjónarmið þess eigi að vega meira í þessu tilliti en eingdregin tilmæli hlustenda.

Næsta óþekkt er, í seinni tíð að minnsta kosti, að útvarpshlustendur sýni efni á rás 1 þann áhuga sem birtist í viðbrögðunum við boðaðri aðför að örstuttum útvarpsþáttum. Miðað við minnkandi áhuga almennt á dagskrá rásar 1  er næsta furðulegt að ekki sé orðið við óskum þess fjölda sem nú óskar eftir að nokkurra mínútna örþáttur verði ekki skorinn úr dagskránni. Sýnir þetta að dagskráin er gerð fyrir starfsfólkið en ekki hlustendur.

Allt er þetta þeim mun einkennilegra vegna þess að árið 2007 varð Páll Magnússon, forveri Magnúsar Geirs, við óskum hlustenda og hætti við að drepa orð kvöldsins. Er engu líkara en þessi þáttur þar sem flutt er guðsorð að kvöldi dags sé fleinn í holdi þeirra sem sýsla með dagskrá rásar 1. Opinbera skýringin á nauðsyn brottfalls þáttarins er einstaklega ósannfærandi og mætti helst ætla að starfsfólkinu og útvarpsstjóra sé ekki að skapi að lýsa því í raun sem að baki býr.

 

Mánudagur 18. 08. 14 - 18.8.2014 20:00

Stóryrt viðbrögð Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, vegna ákvörðunar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um að segja sig frá verkefnum vegna lekamálsins svonefnda vekja undrun. Flokksformaðurinn sagði á Facebook síðu sinni laugardaginn 16. ágúst:

„Í beiðninni um að víkja sem ráðherra dómsmála felst síðbúin viðurkenning Hönnu Birnu á því að henni var ávallt ófært að sitja sem yfirmaður lögreglumála á sama tíma og beinn undirmaður hennar var að rannsaka hana og hennar persónulegu aðstoðarmenn. Hún neitaði að víkja sæti á meðan á lögreglurannsókn stóð og gekk svo langt að ræða rannsóknina á henni og pólitískum aðstoðarmönnum hennar við lögreglustjórann.

Það er misbeiting opinbers valds af verstu sort og brýtur skýrt gegn hæfisreglum stjórnsýslulaga.“

Í hinum tilvitnuðu orðum gætir þess misskilnings að Hanna Birna hafi afsalað sér stjórn lögreglumála, hún nefndi dómsmál og málefni ákæruvaldsins. Hún situr áfram sem yfirmaður lögreglumála. Að leiðtogi stjórnarandstöðunnar sýni aðgæsluleysi í gagnrýni sinni á þann hátt sem Árni Páll gerir í ummælum sínum um þennan þátt málsins er með ólíkindum.  

Að fullyrða að Hanna Birna hafi misbeitt valdi sínu með því að ræða við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu er innistæðulaus staðhæfing þar til Árni Páll Árnason færir haldbær rök fyrir henni. Telur hann að saksóknari hefði ákveðið að ákæra í máli sem reist er á lögreglurannsókn ef fyrir liggur að rannsóknin sé þeim annmarka háð að innanríkisráðherra hafi misbeitt valdi sínu vegna rannsóknarinnar?

Hvernig braut Hanna Birna gegn hæfisreglum stjórnsýslulaga? Af hverju spyr enginn fjölmiðill formann Samfylkingarinnar hvað hann hafi fyrir sér?

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Árni Páll Árnason gengur fram fyrir skjöldu með innistæðulausar yfirlýsingar í alvörumáli. Fyrir fyrir átta árum fullyrtu þeir Árni Páll og Jón Baldvin Hannibalsson að símar þeirra hefðu verið hleraðir þegar þeir störfuðu í utanríkisráðuneytinu – þar hefðu innlendir aðilar verið að verki. Sérstökum saksóknara var falið að rannsaka málið og komst hann að þeirri niðurstöðu að ekkert lægi fyrir sem sannaði þessar ásakanir.

 

Sunnudagur 17. 08. 14 - 17.8.2014 14:15

Ástæða er til að fagna hugmyndum sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður flokksins, ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, hafa hreyft um að skipta innanríkisráðuneytinu og stofna sérstakt dómsmálaráðuneyti að nýju.

Að mínu mati og annarra sem þekkja til starfa dómsmálaráðuneytisins var mjög óskynsamlegt að stíga það skref sem Jóhanna Sigurðardóttir og stjórnarmeirihluti hennar gerði þegar dómsmálaráðuneytið var aflagt. Fyrir því voru engin efnisleg rök.

Aðförin að stjórnarráðinu og dómsmálaráðuneytinu sérstaklega einkenndist af pólitískri skemmdarfýsn í ætt við tilraunina til að kollvarpa stjórnarskrá lýðveldisins. Látið var eins og haustið 2008 hefðu þeir atburðir gerst hér með gjaldþroti banka að réttlætanlegt væri að vega að ýmsum grunnstoðum stjórnkerfisins.

Umboðsmaður alþingis hefur að eigin frumkvæði hafið könnun á ýmsum stjórnsýsluþáttum sem snerta lekamálið svonefnda. Eitt er að velta fyrir sér framkvæmd stjórnsýslulaga, bókun funda, skráningu fundargerða og setningu siðareglna. Vissulega er ástæða til að brýna fyrir mönnum nauðsyn þess að ýmis grunnatriði á þessu sviði séu virt í stjórnsýslunni. Spurning er hvort umboðsmaður hafi skoðun á aðför Jóhönnu og félaga að stjórnarráðinu sjálfu og dómsmálaráðuneytinu sérstaklega.

Ég skrifaði pistil hér á síðuna um síðustu atburði í lekamálinu og má lesa hann hér. Ég sendi hann einnig út á póstlista minn sem ég hef ekki notað mánuðum saman. Auðvelt er að skrá sig á póstlistann hér á síðunni og einnig að afskrá sig. Líklegt er að ég færi skrif mín meira hér á þessa síðu. Evrópuvaktin kom til sögunnar vegna ESB-umsóknarinnar. Nú er umsóknin efnislega dauð, aðeins á eftir að kasta rekunum. Er furðulegt hve lengi það vefst fyrir utanríkisráðherra hvenær og hvernig hann ætlar að gera það.

Laugardagur 16. 08. 14 - 16.8.2014 19:30


Tvo föstudaga í röð hafa kvikmyndir reistar á ævi Sir Winstons Churchills verið sýndar í dönsku sjónvarpsstöðinni DR2 sú fyrri heitir The Gathering Storm frá 2002 og hin síðari Into the Storm frá 2009. Þær eru framleiddar af BBC-HBO.

Fyrri myndin segir frá Churchill á fjórða áratugnum þegar hann er utan ríkisstjórnar og berst fyrir andstöðu við Hitler og gegn afvopnunarstefnu bresku ríkisstjórnarinnar. Henni lýkur 3. september 1939 þegar hann verður flotamálaráðherra.

Síðari myndin segir frá Churchill frá því að hann verður forsætisráðherra 10. maí 1940 þar til hann tapar í þingkosningunum sumarið 1945.

Albert Finney leikur Churchill í fyrri myndinni en Brendan Gleeson í þeirri seinni. Báðir hafa þeir fengið verðlaun fyrir leik sinn. Vanessa Redgrave leikur Clementine. eiginkonu Churchills, í fyrri myndinni en Janet McTeer í þeirri seinni. Allt eru þetta snilldarleikarar.

Þetta eru einstaklega vel gerðar myndir og fengur að því að sjá þær hvora á eftir annarri með fáeinum dögum á milli. Efnistökin eru fagmannleg og forvitnilegt að bera saman túlkun hinna miklu leikara.

Mér er ekki ljóst hvort myndirnar hafi verið sýndar í sjónvarpi hér á landi. Sé svo ekki er full ástæða til að hvetja til sýninga á þeim.

 

 


Föstudagur 15. 08. 14 - 15.8.2014 21:10

Hinn 15. ágúst er frídagur í Frakklandi, minnst er himnafarar Maríu guðsmóður. Frakkar taka sér almennt ekki frí af trúarlegum ástæðum enda hefur þjóðlífið verið afhelgað, dregin hafa verið skil á milli trúarbragða og hins opinbera. Að himnafarar Maríu sé minnst á þennan hátt í Frakklandi má rekja til Lúðvíks XIII. sem helgaði Frakkland Maríu til að hann eignaðist erfingja, ríkisarfa sem síðar varð Lúðvík XIV.

Í dag var Már Guðmundsson endurskipaður seðlabankastjóri. Ég skrifaði um það á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.

Í dag birti ríkissaksóknari Gísla Frey Valdórssyni, aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, ákæru í „lekamálinu“. Hann Birna leysti hann tafarlaust frá störfum og sagði sig frá málefnum dómstóla og saksóknara á meðan málið væri rekið. Gísli Freyr áréttaði sakleysi sitt. Spurning er hvort hælbítar Hönnu Birnu snúi sér nú að öðru.

Ásakanir í garð Hönnu Birnu hafa verið hryggjarstykkið í blaðamennsku DV frá því að Jón Bjarki Magnússon birti viðtalið við hælisleitandann Tony Omos hinn 18. nóvember 2013 til að leggja grunn að því að hann fengi að dveljast í landinu sem faðir að ófæddu barni.

Í dag birtu blaðamenn á DV yfirlýsingu vegna ágreinings meðal eigenda blaðsins. Þar segir meðal annars:

„Af samtölum við stjórnarmenn DV ehf. má ráða að fráfarandi stjórnarformaður, Þorsteinn Guðnason, hafi meðal annars fundið að því að félagið greiði málskostnað og bætur vegna málaferla á hendur einstaka blaðamanni. Ef breyting yrði þar á yrði vegið að grunngildum ritstjórnarlegs frelsis og jafnframt farið gegn nýsettum fjölmiðlalögum.“

Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hefur stefnt blaðamönnum á DV vegna ásakana þeirra gegn henni í „lekamálinu“ og í dag segir Gísli Freyr Valdórsson í yfirlýsingu:

„Samkvæmt rannsóknargögnum virðist grunur lögreglu byggja á framburði blaðamanns DV, sem sagði í skýrslutöku hjá lögreglu að honum hefði borist það til eyrna að aðstoðarmaður ráðherra hefði sent frá sér trúnaðargögn úr tölvupósti (vinnupósti) ráðuneytisins. Þetta er rangt enda hefur ekkert komið fram við rannsókn málsins sem styður þessa fullyrðingu blaðamannsins.“

Skiljanlegt er að blaðamennirnir hafi áhyggjur ef eigendur DV ætla ekki að greiða „málkostnað og bætur vegna málaferla á hendur einstaka blaðamanni“.

Fimmtudagur 14. 08. 12 - 14.8.2014 18:50

Hér hefur þeirri skoðun áður verið hreyft að ríkisútvarpið hafi þróast í þá átt að verða miðill á skjön við meginstrauma í samfélaginu. Nýjar stoðir að baki þeirri skoðun birtust í dagblöðum í morgun þar sem sagt var frá ákvörðun Þrastar Helgasonar, dagskrárstjóra rásar 1, að fella morgunbæn, morgunandakt og kristileg orð kvöldsins af dagskrá rásarinnar. Rökin eru að hann sé á móti stuttum „uppbrotum“ í dagskránni og fáir hafi hlustað á þetta efni, sjá hér um þetta á Evrópuvaktinni.

Þegar gengið var til „þjóðaratkvæðagreiðslu“ um efnisatriði í nýrri stjórnarskrá kom það mörgum í opna skjöldu að skýr meirihluti vildi að ákvæði um þjóðkirkju yrðu áfram í stjórnarskránni.  Tilraun til að „afhelga“ hana mistókst hrapallega.

Ákvörðun hins nýja dagskrárstjóra um að fella þessa fárra mínútna þætti af rás 1 er í andstöðu við viljann sem birtist þegar gengið var til atkvæða um þjóðkirkjuna. Dagskrárstjórinn nýtur hins vegar stuðnings hjá talsmönnum Vantrúar, félags trúleysingja, sem hafa um langt árabil barist gegn kristni og kirkju. Sindri Guðjónsson, formaður Vantrúar, segir í dag á visir.is:

„Við fögnum þessu og okkur finnst þetta mjög gott mál. Þjóðskipulag á að vera veraldlegt og það er ekki hlutverk ríkisins að vera með útvarpsstöð sem sér um trúarþarfir fólks og bænahald. Það er alls ekki eðlilegt og það er mjög jákvætt að þetta hætti. Menn geta beðið eins og þeim sýnist á eigin vegum, en ekki á kostnað almennings, skattgreiðenda og annarra sem kunna að vera annarra skoðanna.“

Áhugi stjórnenda ríkisútvarpsins á að skipa sér á skjön við meginstrauma samfélagsins er einkennilegur en á meðal annars rætur að rekja til þess að þeir vita sem er að ríkisútvarpið nýtur lögbundinna tekna.

 

Miðvikudagur 13. 08. 14 - 13.8.2014 20:10

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, hefur dvalist hér í dag og af því tilefni skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina sem lesa má hér. Ég lét þess ógetið þar að í þau fimm ár sem hann hefur verið framkvæmdastjóri NATO var hér á landi ríkisstjórn með þátttöku flokks, vinstri-grænna, sem er í andstöðu við aðild Íslands að NATO.

Rannsóknarefni er hvaða áhrif þetta hafði á stefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Á blaðamannafundi í Reykjavík lét NATO-framkvæmdastjórinn þess sérstaklega getið að Svíar og Finnar hefðu tekið þátt í flughersæfingu hér á landi í febrúar sl.

Leiksýning var sett á svið vegna þeirrar þátttöku þegar hún var kynnt á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna sem Steingrímur J. Sigfússon, þáv. formaður VG, sat í fjarveru Össurar Skarphéðinssonar. Fundurinn var í Helsinki haustið 2012 og þá létu menn eins og um norræna æfingu væri að ræða og forðuðust að minnast á NATO.

Hér má sjá video-blogg sem Anders Fogh Rasmussen sendi frá Reykjavík.

Þriðjudagur 12. 08. 14 - 12.8.2014 19:00

Breska ríkisstjórnin hefur tapað máli fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg. Við það verða þær raddir háværari í Bretlandi að Bretar segi sig undan lögsögu dómstólsins. Málið snerist um rétt fanga til að taka þátt í kosningum til ESB-þingsins á árinu 2009. Í dag sögðu fimm dómarar af sjö að brotin hefðu verið mannréttindi á föngunum með því að banna þeim að greiða atkvæði í kosningunum.  Tíu fangar stóðu að málshöfðuninni, dómararnir neituðu þeim um bætur vegna mannréttindabrotanna og einnig um greiðslu málskostnaðar.

David Cameron forsætisráðherra sagði árið 2010 að hann yrði „líkamlega veikur“ við það eitt að leiða hugann að því að heimila yrði þeim sem situr í fangelsi að ganga að kjörborðinu.

Bretar hafa áður tapað slíkum málum í Strassborg, árið 2005 og árið 2010. Breskir þingmenn hafa staðfastlega neitað að breyta lögum til þess eins að fara að niðurstöðum dómaranna. Eftir að dómurinn var birtur í dag áréttaði talsmaður breska dómsmálaráðuneytisins þá skoðun að breska þingið en ekki dómstóll í Strassborg setti lög í Bretlandi. Málið væri til skoðunar hjá þingnefnd og yrði metið að athugun hennar lokinni.

Theresa May, innanríkisráðherra Breta, hefur viðrað þá skoðun að Íhaldsflokkurinn setji á stefnuskrá sína fyrir kosningar 2015 að Bretar segi sig frá mannréttindasáttmála Evrópu en dómstóllinn í Strassborg dæmir á grundvelli hans.

Mannréttindasáttmálinn var lögfestur hér á landi fyrir tveimur áratugum. Dómarar í Strassborg hafa verið gagnrýndir fyrir að túlka mannréttindasáttmálann of rúmt og sækjast eftir lagasetningarvaldi með niðurstöðum sínum. Þegar ég tók undir þá gagnrýni í ræðu varð dálítið fjaðrafok í fjölmiðlum hér og meðal lögfræðinga. Hér má lesa ræðuna.

 


Mánudagur 11. 08. 14 - 11.8.2014 21:40

Danir gerðu tilraun með að senda F-16 herþotur til tveggja daga eftirlitsflugs á Grænlandi á sama tíma og króprins Danmerkur dvaldist þar með fjölskyldu sinni á dögunum. Danski herinn vildi í fyrsta sinn kanna hvort þoturnar dygðu við hinar erfiðu aðstæður á Grænlandi. Tilraunin leiddi í ljós að þoturnar er ekki unnt að nota á Grænlandi.

Upphaflega hugmyndin var að setja auka-eftirlitsbúnað í vélarnar svo að þær nýttust betur til að fylgjast með því gerðist á jörðu niðri og á hafi úti. Fallið var frá því þar sem ekki reyndist rými fyrir tækin í vélunum.

Á milli Kangerlussuaq (Syðri-Straumfjarðar) og Thule eru 1.313 kílómetrar og urðu flugmennirnir að gæta þess vel að eldsneyti vélanna dygði til að þær kæmust á milli flugvallanna. Þetta leiddi einnig til þess að ekki var talið skynsamlegt að þyngja vélarnar með nýjum tækjum.

Í frétt útvarpsins á Grænlandi segir að það hafi komið dönsku herstjórninni á óvart hve erfitt var að nýta vélarnar og þess vegna sé líklegt að F-16 vélarnar verði aldrei tíðir gestir á Grænlandi.

Danski herinn hefur notað Bombardier Challenger 604 þotur til eftirlits á Grænlandi og mun væntanlega gera áfram. Þá treystir danski herinn einnig á samstarf við þá sem stunda flug frá Akureyri til Norðaustur-Grænlands.

Enginn vafi er á að reynslan af F-16 þotunum mun auka mikilvægi Keflavíkurflugvallar í augum dönsku herstjórnarinnar þegar hún hugar að öryggi Grænlands.

Sunnudagur 10. 08. 14 - 10.8.2014 20:50

Lesendur The New York Times geta leitað upplýsinga á ritstjórn blaðsins um hvenær eitthvert orð birtist í fyrsta sinn í blaðinu og annað í þá veru. Í þessum dálki blaðsins var nýlega sagt frá hvenær orðið Internet birtist þar fyrst en það var 5. nóvember 1988. Var það í frétt um tölvuvírus en án netsisns hefði vírusinn ekki getað ferðast á milli tölva.

Robert T. Morris, 23 ára nemandi Cornell-háskóla, bjó til vírus sem gerði rúmlega 6.000 tölvur víðsvegar um Bandaríkin óvirkar og var atvikinu lýst sem „verstu tölvuvírus-áras í sögu landsins [Bandaríkjanna]“. Sagt var að tölvurnar hefðu allar verið tengdar „an international group of computer communications networks, the Internet“ – alþjóðlegum hópi tölvusamskiptaneta, Internetinu.

Robert T. Morris játaði á sig brotið og var fundinn sekur árið 1989 eins og sagt var frá Morgunblaðinu 18. mars 1990. Þar segir að „tölvuormurinn“ sem Morris hannaði hafi „lamað“ 6.000 UNIX tölvur í eigu Bandaríkjahers og háskóla en hann hafi farið með „undraverðum hraða um gagnanet út um allt landið“ eins og það er orðað. Morris hafi ekki gert þetta af ásetningi heldur hefði hann „búið hann [tölvuorminn] til af gamni sínu“ segir í Morgunblaðinu og einnig að þess sé beðið með nokkurri eftirvæntingu hvaða refsingu Morris hljóti því að dómurinn muni hafa „mikið fordæmisgildi í tölvuglæpamálum þeim, sem á eftir kunna að fylgja“.

Refsing hans var ákveðin þriggja ára skilorðsbundið fangelsi, 400 stunda samfélagsþjónusta og 10.050 dollara sekt. Hann hafði tekið út refsingu sína árið 1994.

Árið 1995 segir Morgunblaðið að nýju frá „tölvuormi“ Morris og þá er forritið sem hann smíðaði sér til skemmtunar orðið hluti af tölvusögunni og fram kemur að það hafi kostað milljarða að endurvirkja tölvurnar sem ormurinn eyðilagði.

Nú er talað um „Morris worm“ til að lýsa fyrirbærinu frá 1988. Morris hefur látið að sér kveða við forritun og stofnun tölvufyrirtækja auk þess að starfa sem prófessor við MIT-háskólann.

Allra þessara upplýsinga hefur verið aflað á rúmlega klukkustund á netinu.

 

Laugardagur 09. 08. 14 - 9.8.2014 17:20

Dr. Piotr Marek Jaworski hagfræðikennari við Napier-háskóla í Edinborg, höfuðstað Skotlands, segir við norsku vefsíðuna ABC-nyheter í dag að kjósi Skotar sjálfstæði hinn 18. september nk. eigi þeir að taka upp norska krónu. Hún falli best að atvinnugreinum í Skotlandi.

Alls búa 5,3 milljónir manna í Skotlandi (5,1 m í Noregi). Af fiskeldi á Bretlandseyjum er 83% stundað í Skotlandi, 87% af sjávarafla í Bretlandi veiðist í Skotlandi og skoska stjórnin segist hafa ráð yfir 98,8% af olíuauðlindum Breta.

Fyrsta sjónvarpseingvígið fyrir atkvæðagreiðsluna hinn 18. september var háð nú í vikunn. Þar fór Alex Salmond, leiðtogi skoskra þjóðernissinna, halloka fyrir Alistair Darling, talsmanni sambands við England. Salmond gat ekki kynnt trúverðuga stefnu um gjaldmiðil Skota neiti Bretar þeim að nota sterlingspundið áfram verði sjálfstæði samþykkt.

Skotar munu eiga mikið undir tekjum af olíu að fengnu sjálfstæði. Sambærilegar tekjur ráða úrslitum í þjóðarbúskap Norðmanna. Englendingar tapa olíutekjum við sjálfstæði Skotlands og hagkerfi þeirra tekur á sig nýja mynd.

Jaworski segir að hagsveiflan í Englandi mundi laga sig að því sem gerist innan ESB en hagsveiflan í Skotlandi líkjast þeirri norsku. ABC-nyheter minna á að þeirri skoðun hafi verið hreyft á Íslandi eftir hrunið árið 2008 að taka ætti upp norska krónu eins og Jawroski vilji að Skotar geri verði þeir sjálfstæðir. Jawroski segir að við klofning Tékkóslóvakíu í Tékkland og Slóvakíu hafi stjórnmálamenn viljað halda tékknesku krónunni sem sameiginlegri mynt en frá því hafi verið horfið eftir að ríkin höfðu verið sjálfstæð í þrjá mánuði vegna þess hve hagkerfin reyndust ólík þegar á reyndi.

Eins og kunnugt er reyndist umræðan um upptöku norskrar krónu ekki langlíf hér á landi. Nú hefur þeirri furðulegu tillögu verið hreyft að Ísland verði fylki í Noregi og látið er eins og Íslendingar hafi einhvern tíma búið í slíku fylki. Það er alrangt. Ísland var sambandsland Noregs með samning við norska kónginn, „ein heild út af fyrir sig, jafnsnjallt Noregi í öllum greinum“ eins og það var orðað í áliti á þjóðfundinum 1851.

 

Föstudagur 08. 08. 14 - 8.8.2014 15:45

Vangaveltur eru um hvers vegna Ísland hafi ekki verið sett á bannlista Moskvumanna þegar þeir ákváðu að stöðva innflutning á matvælum frá ESB-ríkjum, Noregi, Ástralíu og Kanada. Sendiráð Rússa á Íslandi segir það eitt að rússneska ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um þennan lista. Það kann þó ekki að vera að Sergei Lavrov utanríkisráðherra hafi verið hugsað til móður sinnar og tengsla hennar við íslenskar viðskiptasendinefndir á tíma Sovétríkjanna þegar hann lagði lokahönd á listann?

Sergei Lavrov er fæddur í mars árið 1950. Faðir hans var Armeni frá Tiblísi en móðir hans rússnesk frá Georgíu. Hún vann í utanríkisviðskiptaráðuneyti Rússa og var árum saman í hópi helstu viðmælenda íslenskra viðskiptanefnda sem sömdu um sölu á íslenskum afurðum til Sovétríkjanna og kaup á olíu þaðan.

Hún kom hingað til lands og hefur áreiðanlega fært syni sínum gjafir eftir heimsóknir sínar hingað og frætt hann um land og þjóð og hve miklu skipti fyrir hann og aðra að eiga aðgang að góðum fiski frá Íslandi.

Frú Lavrova þótti einstaklega glæsileg og raunar tignarleg þegar hún birtist á fundum. Fannst Íslendingum að í henni ættu þeir hauk í horni.

Sergei Lavrov hefur verið utanríkisráðherra Rússlands frá árinu 2004. Þeir sem segja frá ævi Lavrovs nefna að hann hafi ætlað að leggja fyrir sig kjarnorkuvísindi en móðir hans hafi hvatt hann til að hefja nám í alþjóðastjórnmálum sem leiddi óhjákvæmilega til starfa í sovésku utanríkisþjónustunni að loknu námi árið 1972. Haft er á orði að móðir utanríkisráðherrans hafi setið í embætti sem gaf mikið í aðra hönd og hann hafi því alist upp við allsnægtir á sovéskan mælikvarða.

Fimmtudagur 07. 08. 14 - 7.8.2014 19:40

Mál þróast oft á hinn einkennilegasta hátt þeim mun lengur og meira sem þau eru rædd. Nú er „lekamálið“ tekið að snúast um hvort ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi gengist undir siðareglur sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setti sér á árinu 2011, fyrst ríkisstjórna á Íslandi. Reglurnar gilda aðeins fyrir viðkomandi ríkisstjórn og líkjast þannig stjórnarsáttmála hennar enda segir í stjórnarráðslögunum: „Forsætisráðherra staðfestir siðareglur fyrir ráðherra ríkisstjórnar sinnar í kjölfar samráðs á ráðherrafundi.

Samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið í stjórnsýslunni starfaði í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur undir formennsku Jóns Ólafssonar prófessors og hann var í dag kominn í kvöldfréttir ríkisútvarpsins til að skýra frá því að hann hefði vakið athygli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á mikilvægi nefndarinnar án þess að fá viðbrögð frá ráðherranum.

Umboðsmaður alþingis gegnir hlutverki eftirlitsmanns á grundvelli regluverksins þar sem ekki þótti ástæða til að setja á laggirnar sérstaka úrskurðar- eða eftirlitsnefnd sem hluta af því. Við athugun á „lekamálinu“ og útgáfu álits vegna þess verður umboðsmaður að styðjast við reglur nema hann kjósi að smíða þær á staðnum sem er ósanngjarnt og óheppilegt; fellur alls ekki að reglum um góða stjórnsýsluhætti. Umboðsmanni finnst nauðsynlegt að átta sig á hvort siðareglur gildi um núverandi ríkisstjórn og spyr þess vegna forsætisráðherra að því.

Af orðalagi stjórnarráðslaganna og bréfi umboðsmanns til forsætisráðherra má ráða að ekki hvílir nein lagaskylda til að setja ráðherrum siðareglur og þeir eru ekki bundnir af reglum fyrri ríkisstjórnar nema um það sé tekin formleg ákvörðun að höfðu samráði forsætisráðherra við einstaka ráðherra, slík ákvörðun hefur ekki verið tekin af núverandi forsætisráðherra.

Stjórnarráð Íslands hafði starfað í tæp 110 ár áður en siðareglur um ráðherra komu til sögunnar. Þær voru settar um svipað leyti og mesta aðför var gerð að stjórnarráðinu í sögu þess með því meðal annars að leggja niður sérstakt dómsmálaráðuneyti. Hér skal fullyrt að eyðileggingin sem fylgdi aðför ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að stjórnarráðinu skiptir meira máli vilji menn skoða stjórnsýslulega veikleika tengda „lekamálinu“ en að siðareglur hafi ekki verið staðfestar af forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar sem settist að völdum vorið 2013.

Miðvikudagur 06. 08. 14 - 6.8.2014 22:15

Fréttir frá Úkraínu benda til þess að Rússar kunni að senda her inn í austurhluta landsins undir því yfirskyni að þeir vilja draga úr neyð fólks eða segist bregðast við óskum Rússavina. Spurning er til hvaða ráða Vesturlönd grípa, líklegt er að þau geri ekki neitt. Ég fjallaði um þetta í pistli á Evrópuvaktinni í dag eins og lesa má hér.

Umboðsmaður alþingis hefur sent frekari spurningar til innanríkisráðherra vegna funda hennar með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu eftir að ríkissaksóknari fól lögreglunni að rannsaka leka á skjali um hælisleitanda. Umboðsmaður ritaði einnig forsætisráðherra og spurði hvort ríkisstjórnin hefði sett sér siðareglur.

Umboðsmaður fiskar eftir hvort reglur séu virtar um skráningu funda og gagna. Hann sat í rannsóknarnefnd alþingis vegna bankahrunsins en nefndin lagði áherslu á skráningu og ritun minnisblaða. Rær umboðsmaður nú á þau mið að nýju vegna „lekamálsins“ og nýtir sér það til að ýta undir aga á þessu sviði innan stjórnarráðsins.

Ritun minnisblaða og skráning fundargerða er góð regla í opinberri stjórnsýslu. Þá vill umboðsmaður fá af­rit af þeim gagna- og rann­sókn­ar­beiðnum lög­reglu sem beint var til inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins eft­ir að rannsóknin í þágu ríkissaksóknara hófst í fe­brú­ar sl. Jafn­framt er óskað eft­ir að upp­lýst verði hvenær ein­stök­um beiðnum var svarað af hálfu ráðuneyt­is­ins og umbeðin gögn lát­in í té. Má skilja þessa ósk á þann veg að umboðsmaður vilji vita hve víðtæk rannsókn lögreglu var og hvort ráðuneytið hafi orðið við öllum tilmælum um afhendingu gagna.

Þriðjudagur 05. 08. 14 - 5.8.2014 19:10

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi í Bítinu á Bylgjunni í morgun um „lekamálið“ svonefnda og sagði sé vitnað í visir.is:

„Svo út af þessari umfjöllun DV, sem mér finnst einhver sú einkennilegasta sem ég hef nokkurn tímann séð í fjölmiðli og búin er að standa hérna yfir í marga, marga mánuði, þá fara allir bara einhvern veginn yfirum [og hefja lögreglurannsókn í innanríkisráðuneytin].“


Hann sagði umfjöllun DV um málið einkennast af pólitískum áróðri. „Maður sér það bara þegar maður les þennan texta. Svo dettur mönnum í hug að verðlauna þetta. Ég velti fyrir mér stöðu fjölmiðlana, mér finnst hún miklu áhugaverðari en staða ráðuneytisins í þessu máli.“

Undir þessi orð Brynjars skal tekið. Blaðamennirnir Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson hafa haldið á þessu máli undir ritstjórn Reynis Traustasonar á þann veg að fyllsta ástæða er til að skoða þátt þeirra sérstaklega þegar litið er á framvindu þess síðan 20. nóvember 2013 en þá stóðu samtökin No Borders fyrir mótmælaaðgerð við innanríkisráðuneytið til stuðnings Tony Omos.

Hinn 18. nóvember 2013 birti Jón Bjarki viðtal í DV við Evelyn Glory Joseph, hælisleitanda frá Nígeríu sem átti von á barni í janúar 2014 og sagði hælisleitandann, Nígeríumanninn Tony Omos föður þess. Hann fór þá huldu höfði til að komast hjá brottvísun. Með viðtalinu var ætlunin að styrkja rétt hans til dvalar í landinu með því að upplýsa um faðerni hins ófædda barns.

Í framhaldi af viðtali Jóns Bjarka og vegna mótmælanna við innanríkisráðuneytið var tekið saman skjal í innanríkisráðuneytinu um stöðu Tonys Omos. Honum var vísað úr landi en No Borders samtökin sem berjast í þágu hælisleitenda gerðu minnisblaðið að höfuðatriði gagnrýnni sinnar á ráðuneytið strax í nóvember. Enginn sem kynnir sér skrif blaðamanna DV og það sem segir á Facebook-síðu No Borders getur ályktað annað en þar sé mikill samhljómur á milli. Var öllum efasemdum um að Osmos væri barnsfaðir Evelyn Glory Joseph mótmælt af miklum þunga.

Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað hvort DV hafi staðið að kæru á hendur innanríkisráðuneytinu til ríkissaksóknara eða lögreglu vegna málsins.

 

Mánudagur 04. 08. 14 - 4.8.2014 21:50

Í kvöld var sýnd heimildarmynd í ríkissjónvarpinu um MH 370, flugvélina frá Malasíu sem hvarf eftir 40 mínútna flug frá Kuala Lumpur til Peking hinn 8. mars 2014. Enn veit enginn hvað gerðist eða hvar flugvélin fórst.

Myndin sýnir hve mögnuð tæknin er sem fylgist með öllu sem gerist á jarðarkringlunni þótt hún dugi ekki í þessu tilviki til að hafa upp á flugvélarflakinu í Indlandshafi á hjara veraldar. Líklegt er að vélinni hafi einmitt verið flogið þangað til að fela öll sönnungargögn um hvað gerðist.

Sjónvarpið ætti oftar að sýna heimildarmyndir um atburði líðandi stundir af þessum gæðaflokki. Danska sjónvarpið kann til dæmis að gera mynd um söngvakeppni Evrópu og eftirleik hennar en uppnám varð í Danmörku í dag þegar birt var uppgjör vegna keppninnar, Eurovision, sem sýndi 58 milljóna d. kr. halla (1,2 milljarðar ísl. kr). Einn hefur þegar verið rekinn vegna málsins og fleiri kunna að sigla í kjölfarið.

Endurgerð skipasmíðastöðvar B&W, keppnisstaðarins, fór langt fram úr áætlun, kostaði 91,3 m. d.kr. í stað 18,4 m. d.kr eins áætlað hafði verið. Upphaflega var talið að það mundi kosta 35 m. d. kr. að halda söngvakeppnina í Kaupmannahöfn en raunkostnaður var 112 m. d. kr. – það er 77 m. d. kr. umfram áætlun. Kostnaður var þrefaldur miðað við það sem ætlað var.

 

 

Sunnudagur 03. 08. 14 - 3.8.2014 21:10

Í dag skrifaði ég um „lekamálið“ á Evrópuvaktina eins og lesa má hér. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ræddi málið við Sigurjón Magnús Egilsson í þætti hans á Bylgjunni. Nokkrar umræður urðu á Facebook í framhaldi af viðtalinu. Þar sagði Reynir Ingibjartsson á þræði hjá Eiði Guðnasyni: „Málið væri ekki á borði Ríkissaksóknara ef DV og Reynir Traustason hefðu ekki tekið málið upp.“ Af þessu tilefni spyr ég: Ber að skilja þetta þannig að DV hafi sent kæru til ríkissaksóknara?

Orð Reynis er ekki unnt að skilja á annan hátt en þann að DV, ritstjóri eða blaðamenn, hafi staðið að kæru til ríkissaksóknara. Sé málum þannig háttað er um nýjan flöt á afskiptum DV að ræða. Þetta skýrir hvers vegna blaðið hefur lagt svo ríka áherslu á að knýja fram ákæru í málinu. Heiftin í garð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur stafar af því að blaðið vill að kæran beri árangur í höndum ríkissaksóknara.

Svo virtist úr Fljótshlíðinni í dag sem sandrok væri á ströndinni við Landeyjahöfn. Þar eru nú fleiri bílar en nokkru sinni vegna þjóðhátíðarinnar í Eyjum. Vonandi hefur sandurinn ekki valdið neinu tjóni á þeim.

Laugardagur 02. 08. 14 - 2.8.2014 19:50

Í stað þess að bíða eftir niðurstöðu ríkissaksóknara í „lekamálinu“ kallaði fréttastofa ríkisútvarpsins á Valtý Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknara, í viðtal í hádegisfréttir og hann sagði í lok þess:

 „Sem komið er eru það alveg hreint síðustu forvöð [fyrir innanríkisráðherra] að víkja sæti tímabundið, að mínu mati.“

Það hentaði greinilega ekki markmiði fréttastofunnar að óska eftir skýringu á hinum tilvitnuðu orðum. Vill Valtýr að ráðherrann víki á meðan ríkissaksóknari kemst að niðurstöðu um hvað gera skuli í málinu? Ríkissaksóknari hefur fengið gögn þess í hendur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Um sjálfstæði ákæruvaldsins sagði Valtýr: „[A]ð mínu mati er alveg nóg að rannsakandinn hafi það á tilfinningunni að það sé verið að horfa yfir öxlina á honum og stýra rannsókninni og gagnrýna seinagang“. Áhugi innanríkisráðherra á skjótri niðurstöðu í máli er smáræði miðað við annan þrýsting sem kann að myndast vegna umræðna og ástands í þjóðfélaginu.

Hanna Birna hefur hrundið í framkvæmd nýjum lögum um sýslumenn og lögreglustjóra. Hún vinnur að löggjöf sem snertir ákæruvaldið. Þar hefur reynst snúið að ná sátt um niðurstöðu. Þá hefur hún látið semja frumvarp um millidómstig. Fréttir herma að innan hæstaréttar séu einhverjir ósáttir yfir að hafa ekki verið valdir til að smíða frumvarpið. Fréttir herma einnig að innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu séu einhverjir löglærðir yfirmenn reiðir eftir að Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð lögreglustjóri.

Við úrlausn slíkra mála reynir á þolrif innanríkisráðherra og við þetta allt bætist síðan sakamálarannsókn sem beinist að innanríkisráðuneytinu. Hanna Birna hefur enn og aftur tekið af skarið um að hún ætli ekki að víkja úr embætti sínu, hún njóti trausts til setu í því. Traustið sækir hún til meirihluta á alþingi í krafti þingræðisreglunnar.

Almenn, opinber umræða um „lekamálið“ hefur verið mikil. Umboðsmaður alþingis hefur fengið svör innanríkisráðherra. Telji ríkissaksóknari sig eða lögreglu hafa orðið fyrir þrýstingi í málinu hlýtur afstaða til þess að birtast í ákvörðun saksóknarans. Eftir að „lekamálinu“ var breytt í sakamál verður að ljúka því á grundvelli laga um slík mál.

Að segja að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hafi lagt stein í götu þess að „lekamálið“ sé leitt til lykta stenst einfaldlega ekki.

Föstudagur 01. 08. 14 - 1.8.2014 21:10

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra svaraði í dag spurningum sem umboðsmaður alþingis lagði fyrir hana vegna undirróðursskrifa í DV undir ritstjórn Reynis Traustasonar sem hefur lagt sig fram um að draga upp hina verstu mynd af ráðherranum. Að ráðherrann hafi reynt að bregða fæti fyrir rannsókn sem sneri að innanríkisráðuneytinu á ekki við rök að styðjast. Á hinn bóginn hefur hún rætt á fjórum fundum við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu síðan í febrúar þegar rannsóknin hófst að fyrirmælum ríkissaksóknara auk þess sem hún hefur rætt við hann í síma. Lögregla hefur lokið rannsókninni en ríkissaksóknari hefur ekki enn skýrt frá niðurstöðu sinni.

Að ímynda sér að innanríkisráðherra hafi beitt valdi sínu til að hafa áhrif á þessa rannsókn er fráleitt. Í bréfi sínu segir Hanna Birna:

„Ástæða er til að taka fram að í ráðuneytinu er að finna mikið af trúnaðargögnum um einkamálefni fjölda fólks, sem koma umræddri rannsókn á máli hælisleitandans ekkert við. Það er mikilvægt fyrir mig og ráðuneytið að gætt sé almennra trúnaðarskyldna og almannahagsmuna þegar yfir stendur rannsókn lögreglu á tilteknu máli og lögregla krefst aðgangs að upplýsingum innan ráðuneytisins án þess að vita fyrirfram hvort í þeim kunni að vera eitthvað sem skiptir máli fyrir rannsókn hennar.

Ég sem og allir starfsmenn ráðuneytisins höfum þrátt fyrir þetta lagt okkur fram um að verða við öllum óskum lögreglu um gögn og upplýsingar, þó að ljóst sé að þessar óskir hafi í ákveðnum tilvikum verið mjög víðtækar. Þannig hefur engri rannsóknarbeiðni lögreglunnar verið hafnað og hefur henni meðal annars verið heimilað að skoða farsímanotkun einstakra starfsmanna, sem og tölvupóst, borðsímanotkun og aðgangskort allra starfsmanna og var ég þar ekki undanskilin. Þá hefur lögreglunni verið heimilaður aðgangur að málaskrá ráðuneytisins, sem inniheldur þúsundir einstaklingsmála.“

Af þessum orðum má ráða að rannsókn lögreglu hefur verið víðtækari en áður hefur fram komið. Spurning er hvort umboðsmaður leggur mat á hvort nauðsynlegt hafi verið að ganga jafn langt við gagnaöflun og þarna er lýst.

Bréf innanríkisráðherra sýnir að aðdróttanir í DV um að Hanna Birna Kristjánsdóttir eða embættismenn ráðuneytis hennar hafi ætlað að hindra framgang lögreglurannsóknarinnar eiga ekki við nein rök að styðjast.  Ráðherranum var hins vegar annt um rannsókninni lyki sem fyrst og raskaði ekki öðrum málum innan ráðuneytsins.