4.8.2014 21:50

Mánudagur 04. 08. 14

Í kvöld var sýnd heimildarmynd í ríkissjónvarpinu um MH 370, flugvélina frá Malasíu sem hvarf eftir 40 mínútna flug frá Kuala Lumpur til Peking hinn 8. mars 2014. Enn veit enginn hvað gerðist eða hvar flugvélin fórst.

Myndin sýnir hve mögnuð tæknin er sem fylgist með öllu sem gerist á jarðarkringlunni þótt hún dugi ekki í þessu tilviki til að hafa upp á flugvélarflakinu í Indlandshafi á hjara veraldar. Líklegt er að vélinni hafi einmitt verið flogið þangað til að fela öll sönnungargögn um hvað gerðist.

Sjónvarpið ætti oftar að sýna heimildarmyndir um atburði líðandi stundir af þessum gæðaflokki. Danska sjónvarpið kann til dæmis að gera mynd um söngvakeppni Evrópu og eftirleik hennar en uppnám varð í Danmörku í dag þegar birt var uppgjör vegna keppninnar, Eurovision, sem sýndi 58 milljóna d. kr. halla (1,2 milljarðar ísl. kr). Einn hefur þegar verið rekinn vegna málsins og fleiri kunna að sigla í kjölfarið.

Endurgerð skipasmíðastöðvar B&W, keppnisstaðarins, fór langt fram úr áætlun, kostaði 91,3 m. d.kr. í stað 18,4 m. d.kr eins áætlað hafði verið. Upphaflega var talið að það mundi kosta 35 m. d. kr. að halda söngvakeppnina í Kaupmannahöfn en raunkostnaður var 112 m. d. kr. – það er 77 m. d. kr. umfram áætlun. Kostnaður var þrefaldur miðað við það sem ætlað var.