10.8.2014 20:50

Sunnudagur 10. 08. 14

Lesendur The New York Times geta leitað upplýsinga á ritstjórn blaðsins um hvenær eitthvert orð birtist í fyrsta sinn í blaðinu og annað í þá veru. Í þessum dálki blaðsins var nýlega sagt frá hvenær orðið Internet birtist þar fyrst en það var 5. nóvember 1988. Var það í frétt um tölvuvírus en án netsisns hefði vírusinn ekki getað ferðast á milli tölva.

Robert T. Morris, 23 ára nemandi Cornell-háskóla, bjó til vírus sem gerði rúmlega 6.000 tölvur víðsvegar um Bandaríkin óvirkar og var atvikinu lýst sem „verstu tölvuvírus-áras í sögu landsins [Bandaríkjanna]“. Sagt var að tölvurnar hefðu allar verið tengdar „an international group of computer communications networks, the Internet“ – alþjóðlegum hópi tölvusamskiptaneta, Internetinu.

Robert T. Morris játaði á sig brotið og var fundinn sekur árið 1989 eins og sagt var frá Morgunblaðinu 18. mars 1990. Þar segir að „tölvuormurinn“ sem Morris hannaði hafi „lamað“ 6.000 UNIX tölvur í eigu Bandaríkjahers og háskóla en hann hafi farið með „undraverðum hraða um gagnanet út um allt landið“ eins og það er orðað. Morris hafi ekki gert þetta af ásetningi heldur hefði hann „búið hann [tölvuorminn] til af gamni sínu“ segir í Morgunblaðinu og einnig að þess sé beðið með nokkurri eftirvæntingu hvaða refsingu Morris hljóti því að dómurinn muni hafa „mikið fordæmisgildi í tölvuglæpamálum þeim, sem á eftir kunna að fylgja“.

Refsing hans var ákveðin þriggja ára skilorðsbundið fangelsi, 400 stunda samfélagsþjónusta og 10.050 dollara sekt. Hann hafði tekið út refsingu sína árið 1994.

Árið 1995 segir Morgunblaðið að nýju frá „tölvuormi“ Morris og þá er forritið sem hann smíðaði sér til skemmtunar orðið hluti af tölvusögunni og fram kemur að það hafi kostað milljarða að endurvirkja tölvurnar sem ormurinn eyðilagði.

Nú er talað um „Morris worm“ til að lýsa fyrirbærinu frá 1988. Morris hefur látið að sér kveða við forritun og stofnun tölvufyrirtækja auk þess að starfa sem prófessor við MIT-háskólann.

Allra þessara upplýsinga hefur verið aflað á rúmlega klukkustund á netinu.