Dagbókin

Sunnudagur 10.3.1996

Klukkan 10.30 að morgni sunnudags 10. mars fór ég biskupsmessu í Jósepskirkju í Hafnarfirði. Þar voru níu kaþólskir biskupar samankomnir.

Senda grein

 

Laugardagur 9.3.1996

Klukkan 9.30 að morgni laugardagsins 9. mars var ég við upphaf aðalfundar Bandalags íslenskra skáta og flutti þar ávarp. Þaðan fór ég beint til fundar við blaðamenn fréttablaða á landsbyggðinni, sem voru í endurmenntun í Tæknigarði hjá Sigrúnu Stefánsdóttur hjá Endurmenntunarstofnun HÍ. Ræddum við um skólamál í um það bil klukkustund. Klukkan 14 hófust menningardagar BÍSN með hátíðlegri athöfn í Kennaraháskóla Íslands. Um kvöldið var síðan árshátíð Heimdallar í Þjóðleikhúskjallaranum, þar sem við Rut vorum heiðursgestir. Birti ég ávarp mitt þar annars staðar á heimasíðunni.

Senda grein

 

Föstudagur 8.3.1996

Í hádegi föstudaginn 8. mars kom í minn hlut að opna Framadaga í Þjóðarbókhlöðunni með rektor Háskóla Íslands. Það er Aisec, félag viðskiptafræðinema við HÍ, sem stendur fyrir þessum dögum til að efla tengsl nemenda og fyrirtækja. Voru um 40 fyrirtæki með kynningar í Þjóðarbókhlöðunni og er framtakið enn til marks um dugnað nemenda. Síðdegis föstudaginn fór ég síðan í Borgarnes til að ræða um flutning grunnskólans við fulltrúa sveitarfélaganna.

Senda grein

 

Fimmtudagur 7.3.1996

Síðdegis á fimmtudag sótti ég aðalfund Eimskips, þar sem greint var frá frábærum árangri á síðasta ári. Að kvöldi fimmtudags var ánægjuleg frumsýning Herranætur MR á rússnesku leikriti, Sjálfsmorðingjanum.

Senda grein

 

Mánudagur 4.3.1996

Mánudag, þriðjudag og miðvikudag var ég í Kaupmannahöfn. Mánudag og fram að hádegi á þriðjudag sat ég fund Norðurlandaráðs um Evrópusamstarfið. Eftir hádegi á þriðjudag var fundur norrænna menntamálaráðherra og fyrir hádegi á miðvikudag norrænna menningarmálaráðherra. Á mánudagskvöld voru afhent bókmennta- og tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs. Á þriðjudagskvöldið sá ég Amlóða-sögu, frumlegt leikrit eftir Svein Einarsson með íslenskum leikurum, sem sýnt var í Café Teatern í Kaupmannahöfn.

Senda grein

 

Dagbókin