Dagbók: mars 1996

Sunnudagur 10.3.1996 - 10.3.1996 0:00

Klukkan 10.30 að morgni sunnudags 10. mars fór ég biskupsmessu í Jósepskirkju í Hafnarfirði. Þar voru níu kaþólskir biskupar samankomnir.

Laugardagur 9.3.1996 - 9.3.1996 0:00

Klukkan 9.30 að morgni laugardagsins 9. mars var ég við upphaf aðalfundar Bandalags íslenskra skáta og flutti þar ávarp. Þaðan fór ég beint til fundar við blaðamenn fréttablaða á landsbyggðinni, sem voru í endurmenntun í Tæknigarði hjá Sigrúnu Stefánsdóttur hjá Endurmenntunarstofnun HÍ. Ræddum við um skólamál í um það bil klukkustund. Klukkan 14 hófust menningardagar BÍSN með hátíðlegri athöfn í Kennaraháskóla Íslands. Um kvöldið var síðan árshátíð Heimdallar í Þjóðleikhúskjallaranum, þar sem við Rut vorum heiðursgestir. Birti ég ávarp mitt þar annars staðar á heimasíðunni.

Föstudagur 8.3.1996 - 8.3.1996 0:00

Í hádegi föstudaginn 8. mars kom í minn hlut að opna Framadaga í Þjóðarbókhlöðunni með rektor Háskóla Íslands. Það er Aisec, félag viðskiptafræðinema við HÍ, sem stendur fyrir þessum dögum til að efla tengsl nemenda og fyrirtækja. Voru um 40 fyrirtæki með kynningar í Þjóðarbókhlöðunni og er framtakið enn til marks um dugnað nemenda. Síðdegis föstudaginn fór ég síðan í Borgarnes til að ræða um flutning grunnskólans við fulltrúa sveitarfélaganna.

Fimmtudagur 7.3.1996 - 7.3.1996 0:00

Síðdegis á fimmtudag sótti ég aðalfund Eimskips, þar sem greint var frá frábærum árangri á síðasta ári. Að kvöldi fimmtudags var ánægjuleg frumsýning Herranætur MR á rússnesku leikriti, Sjálfsmorðingjanum.

Mánudagur 4.3.1996 - 4.3.1996 0:00

Mánudag, þriðjudag og miðvikudag var ég í Kaupmannahöfn. Mánudag og fram að hádegi á þriðjudag sat ég fund Norðurlandaráðs um Evrópusamstarfið. Eftir hádegi á þriðjudag var fundur norrænna menntamálaráðherra og fyrir hádegi á miðvikudag norrænna menningarmálaráðherra. Á mánudagskvöld voru afhent bókmennta- og tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs. Á þriðjudagskvöldið sá ég Amlóða-sögu, frumlegt leikrit eftir Svein Einarsson með íslenskum leikurum, sem sýnt var í Café Teatern í Kaupmannahöfn.