Dagbók: september 2014

Þriðjudagur 30. 09. 14 - 30.9.2014 21:00

Hér hefur verið gerð að umtalsefni umgjörðin sem fréttastofa ríkisútvarpsins kaus að setja um Kristsdaginn í fréttatíma sínum laugardaginn 27. september. Í dag er ástæða til að vekja máls á umgjörðinni sem Fréttablaðið kýs að nota í dag þegar það segir frá samningi menntamálaráðuneytisins við Ingu Dóru Sigfúsdóttur prófessor og samningi sem gerður var við hana í byrjun árs 2009 um æskulýðsrannsóknir.

Segir blaðamaðurinn sveinn@frettabladid.is að einkahlutafélagið Rannsóknir og greining ehf. sé í eigu „fyrrverandi aðstoðarmanns Davíðs Oddssonar“, það er Ingu Dóru, og hafi fengið samtals um 50 milljónir frá ríkinu frá árinu 2006. Samningur, undirritaður í byrjun árs 2009, hafi verið gerður „fram hjá lögum um opinber innkaup“.

Vitnað er í Kristínu Halldórsdóttur, sviðsstjóra stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar, sem talar almennt um eftirlitsskyldu ríkisendurskoðunar með samningum ráðuneyta við einkaaðila og hafi birt um það 10 skýrslur, í ljósi þess telji stofnunin „fullt tilefni til að taka umræddan samning til skoðunar" segir hún.

Þá segir að rekja megi sögu félagsins „aftur til ársins 1997 þegar Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, ákvað að leggja niður Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála (RUM). Upp úr því varð til Námsmatsstofnun en rannsóknarhluti RUM var gefinn eftir til nýstofnaðs fyrirtækis, Rannsókna og greiningar ehf., samkvæmt ákvörðun Björns. Á þessum tíma, frá 1997-1998, var Inga Dóra Sigfúsdóttir, eigandi Rannsókna og greiningar ehf., í hálfu starfi fyrir menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, og í hálfu starfi hjá rannsóknardeild Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála. Einnig var hún aðstoðarmaður bæði Davíðs Oddssonar og Ólafs G. Einarssonar á kjörtímabilinu 1991-1995.“

Inga Dóra vann í menntamálaráðuneytinu þegar ég varð ráðherra þar árið 1995 og má kalla hana í starfi fyrir mig eins og aðra sem unnu að sérverkefnum þar á þeim tíma. Félagið sem um ræðir var stofnað árið 1999 eftir að Inga Dóra hætti í menntamálaráðuneytinu. Að Inga Dóra hafi verið aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar kemur mér á óvart, sé um að ræða aðstoðarmann í skilningi stjórnarráðslaganna.

Ástæða er til að velta fyrir sér hvaða máli skiptir að á árunum 1991 til 1998 hafi Inga Dóra Sigfúsdóttir unnið að verkefnum innan ráðuneyta í tíð þeirra manna sem að ofan eru nefndar þegar Fréttablaðið fjallar um samning um rannsóknir sem gerður var 2009?

 

Mánudagur 29. 09. 14 - 29.9.2014 19:10

Látinn er í Danmörku 92 ára að aldri Erik Ninn-Hansen. Hann sat 41 ár á danska þinginu fyrir Íhaldsflokkinn og var meðal áhrifamestu stjórnmálamanna Danmerkur.  Hans verður minnst í danskri stjórnmála- og réttarsögu vegna Tamíla-málsins. Það leiddi til falls ríkisstjórnar  Pouls Schlüters árið 1993 og valdatöku jafnaðarmanna undir formennsku Pouls Nyrups Rasmussens. Vegna málsins var danski Rigsretten – landsdómur – einnig kallaður saman í fyrsta sinn frá 1910.

Erik Ninn-Hansen var dómsmálaráðherra þegar flóttamenn frá Asíu, tamílar, máttu sæta því að umsóknir þeirra um dvalarleyfi í Danmöku vegna fjölskyldusameiningar voru saltaðar í dómsmálaráðuneytinu. Ninn-Hansen sagðist saklaus og með hreina samvisku vegna málsins.

Rigsretten komst að annarri niðurstöðu í júní 1995 og ráðherrann fyrrverandi var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann var settur út af sakramentinu og varð að skila Dannebrogsporðunni til konungshallarinnar.

Í minningarorðum í Jyllands-Posten segir að gamlir samstarfsmenn hans og flokksfélagar hafi snúið við honum baki. Hann einangraðist og missti heilsuna.

Hann var fyrst kjörinn á þing árið 1953 og þótti harður í horn að taka. Hans er meðal annars minnst fyrir framgöngu sína eftir að Grænlandsfarið Hans Hedtoft fórst árið 1959. Þá krafðist hann þess að Johs. Kjærbøl ráðherra yrði stefnt fyrir Rigsretten vegna þess að hann hefði haft að engu viðvaranir kunnáttumanna um hættuna í vetrarsiglingum við Grænland.  Vegna þessa máls barðist af hörku fyrir setningu laga um ráðherraábyrgð og voru þau samþykkt árið 1964.

Erik Ninn-Hansen vildi leggja stein í götu þess að handritin yrðu afhent Íslendingum og skrifaði meðal annars grein í Berlingske Tidende 12. nóvember 1964 þar sem hann hvatti til að efnt yrði um þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku til að kanna hug þjóðarinnar til afhendingar handritanna.

Sunnudagur 28. 09. 14 - 28.9.2014 21:00

Umræðurnar um svonefndan Kristsdag sýna enn á ný hve lítið umburðarlyndi margir netverjar hafa gagnvart skoðunum annarra. Þetta fólk gerir kröfu til þess að allir gangi í takt. Ekki má hreyfa á opinberum vettvangi sjónarmiðum sem það er ósammála án þess að upphefjist söngur í anda pólitísks rétttrúnaðar. Umgjörð fréttar ríkisútvarpsins um Kristsdaginn var á þennan veg. Þar var forseta Íslands og biskupnum yfir Íslandi stillt upp að vegg og krafist svara þeirra um skoðanir annars fólks sem féllu ekki að viðhorfi fréttamannsins eða fréttastofunnar.

Hin neikvæða afstaða í garð Kristsdagsins er í anda breytinganna á dagskrá ríkisútvarpsins varðandi morgunbæn og orð kvöldsins. Vegna mikillar gagnrýni leitaðist dagskrárstjórnin við að milda ákvörðunina svo að úr varð einskonar bastarður. Hún hefur hins vegar ekki séð að sér varðandi síðasta lag fyrir fréttir. Í því felst mikil skammsýni að afmá skilin milli rásar 1 og rásar 2 á þann veg sem gert hefur verið. Allt er það á kostnað hlustenda rásar 1 dyggustu stuðningsmanna þess að hér sé haldið úti ríkisútvarpi.

Fyrir mörgum árum kom það þeim sem sátu landsfund Sjálfstæðisflokksins í opna skjöldu þegar fréttastofa ríkisútvarpsins setti niðurstöðu fundarins í umgjörð sem gaf til kynna að eitt helsta málið á fundinum hefði verið samþykkt um að selja rás 2. Þetta var ekki stórmál á fundinum og þess vegna samþykkt. Miðað við þróun ríkisútvarpsins og aðför stjórnenda þess að helstu stuðningsmönnum þess er líklegt að stuðningur við að halda stöðinni úti á kostnað skattgreiðenda minnki í Sjálfstæðisflokknum og meðal annarra.

Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála er sagt frá samningi sem Huang Nubo, kínverski auðmaðurinn, gerði um kaup á landi í Lyngen skammt frá Tromsö í N-Noregi í maí sl. Af greininni má ráða að ekki hafi endanlega verið gengið frá kaupunum. Í grein í The New York Times sem sagt er frá á Evrópuvaktinni í dag kemur fram að um bráðabirgða-samning var að ræða um landið í Lyngen og enn er óljóst hvort Huang hafi gengið endanlega frá málinu. Í bandaríska blaðinu segir einnig að í Noregi telji menn engan vafa á að Huang sé útsendari kínverskra stjórnvalda og kommúnistaflokksins.

Laugardagur 27. 09. 14 - 27.9.2014 18:20

Í dag var verkefnið Bókabæirnir austanfjalls kynnt á velsóttum fundi í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands var meðal ræðumanna og einnig Richard Booth sem skipaði sjálfan sig konung yfir bókabænum sem hann stofnaði í Hay-On-Wye i Wales 1977. Þetta er bókabær á stærð við Hveragerði með 24 bókabúðir og 30 gististaði. Nú eru 14 bókabæir í heiminum í þremur heimsálfum.

Þetta er spennandi verkefni og verður forvitnilegt að sjá hvernig það þróast hér á landi. Í upphafi taka Hveragerði, Selfoss, Stokkseyri, Eyrarbakki og Þorlákshöfn þátt í samstarfi undir merki bókabæjanna austanfjalls. Í kynningarbæklingi segir: „Bókabæirnir austanfjalls munu breyta ímynd svæðisins og gera það eftirsóknarvert til búsetu og starfa."

Talið er að nú heimsæki um 500.000 ferðamenn á ári Hay-On-Way vegna frægðar bæjarins sem bókabæjar. Árið 1988 kom Hay Literary Festival til sögunnar

Á einni og sömu bókmenntahátíðinni í Hay hafa meðal annars verið rithöfundarnir: Martin Amis, Jung Chang, Louis de Bernières, Mark Haddon, Mario Vargas Llosa, Hilary Mantel, Ian McEwan, Michael Morpurgo, Ben Okri, Ian Rankin, Salman Rushdie, Owen Sheers, Jeanette Winterson; stjórnmálamennirnir: Peter Hain og  Boris Johnson og ræðumenn: Harry Belafonte, William Dalrymple, Stephen Fry, A.C. Grayling, Germaine Greer, Michael Ignatieff og  David Starkey.

Nú er efnt til bókmenntahátíða undir hatti skipuleggjendenna í Hay víða um lönd og má til dæmis fræðast um þetta allt á bloggsíðunni http://blog.hayfestival.org/ Þar má meðal annars sjá að Yrsa Sigurðardóttir var í annað sinn í Hay í lok maí á þessu ári. Hún segir í bloggi sínu:

„Hay is unlike any place, anywhere. The atmosphere is unique and the programming incredibly diverse and of a very high standard. There can't be anyone who is unable to find something to interest him or her.“

 

Föstudagur 26. 09. 14 - 26.9.2014 21:55

Hreinsanir halda áfram á 365 miðlum. Enn er yfirlýst markmið þeirra að auka sjálfstæði ritstjórnarinnar gagnvart eigendum miðlanna en Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fyrrv. forstjóra Baugs, er stjórnarformaður þeirra og megineigandi. Markmiðið er einnig að auka hlut kvenna við stjórn miðlanna.

Á ruv.is segir í dag að Breka Logasyni, fréttastjóra Stöðvar 2,  hafi verið sagt upp störfum í dag. Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri og útgáfustjóri 365 miðla, er sögð hafa boðið Breka stöðu almenns fréttamanns.

Uppsögn Breka tók þegar gildi og var ástæðan sögð skipulagsbreytingar innan 365 miðla en leggja eigi starf fréttastjóra fréttastofu Stöðvar 2 niður.  Ellý Ármanns, ristjóra Lífsins á Vísi, var einnig sagt upp störfum hjá 365. Hún lætur af störfum 1. október. Hún hefur starfað í 9 ár á Vísi, það er visir.is.

Umskipti hafa orðið í lykilstöðum á ritstjórn 365 miðla undanfarið. Leiðurum Fréttablaðsins hefur hrakað eftir að Ólafi Þ. Stephensen var vikið úr stöðu ritstjóra og Mikael Torfasyni úr stöðu aðalritstjóra.

Á sínum tíma ritaði Sigurjón Magnús Egilsson, nýskipaður fréttaritstjóri Fréttablaðsins, fjölmarga leiðara í blöð til stuðnings Baugsmönnum og tók upp hanskann fyrir þá á tíma Baugsmálsins. Þótt margt hafi breyst síðan hafa efnistök hans í leiðurum ekki breyst, vita eigendur 365 miðla því að hverju þeir ganga með ráðningu Sigurjóns Magnúsar. Kristín Þorsteinsdóttir skrifar ekki leiðara. Friðrikka Benónýsdóttir hefur hins vegar gert það þótt sagt sé að hún hafi ákveðið að segja skilið við 365 miðla.

Fanney Birna Jónsdóttir, ritstjóri viðskipta hjá 365 miðlum, er meðal leiðarahöfunda Fréttablaðsins. Mörgum blöskraði það sem hún skrifaði mánudaginn 15. september þar á meðal Agli Helgasyni álitsgjafa sem sagði:

„Hvernig tekst leiðarahöfundi Fréttablaðsins, sem er Fanney Birna Jónsdóttir, lögfræðimenntuð kona, að ná að tengja annars vegar allsendis ósannaðar ásakanir á hendur sérstökum saksóknara – bornar fram af manni sem á harma að hefna gagnvart embættinu og – jú, Geirfinns- og Guðmundarmál? […]

Þetta er vægast sagt ósmekklegt og eykur ekki tiltrúna á blaðinu þegar nýbúið er að gera stórfelldar breytingar á ritstjórninni – að því er virðist til að beygja hana frekar undir vald eigenda blaðsins.“

 

 

Fimmtudagur 25. 09. 14 - 25.9.2014 17:30

Á vefsíðunni dv.is kemur fram að blaðamennirnir sem hafa í tæpt ár barist fyrir rétti Tonys Omos frá Nígeríu til að fá hælisvist hér á landi eru í svo nánu sambandi við lögfræðinga í innanríkisráðuneytinu að þeir telja sig geta fullyrt að embættismenn ráðuneytisins „kannist ekki við“ að innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi fengið „lögfræðiráðgjöf innan ráðuneytisins um samskipti sín við Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu vegna rannsóknarinnar á lekamálinu“ eins og segir á vefsíðunni.

Upplýst hefur verið að annar blaðamannanna, Jón Bjarki Magnússon, fékk minnisblaðið sem er þungamiðja „lekamálsins“ í hendur 2. desember 2013 „eftir krókaleiðum“ og kom því til Katrínar Oddsdóttur lögmanns. Blaðamaðurinn hafði minnisblaðið fjóra sólarhringa undir höndum án þess að segja lesendum DV frá því.

 Nú segja blaðamennirnir: „Í ágúst og í byrjun september [2014] átti DV trúnaðarsamtöl við nokkra lögfræðinga sem starfa í [innanríkis]ráðuneytinu. Fæstir vildu tjá sig en tveir sögðust ekki vita til þess að nein lögfræðiráðgjöf hefði verið veitt.“ Vitna þeir síðan orðrétt í það sem þessir lögfræðingar eiga að hafa sagt við þá.

Í nýjustu útleggingunni á „lekamálinu“ beinist athygli blaðamannanna að andrúmsloftinu innan innanríkisráðuneytisins eftir að DV hóf herferðina á hendur ráðuneytinu vegna minnisblaðsins. Þeir segja: „Þannig má segja að komið hafi upp samskiptaörðugleikar í innanríkisráðuneytinu strax á fyrstu stigum lekamálsins.“

Enginn vafi er að fyrir blaðamönnunum hefur vakað að skapa úlfúð innan stjórnsýslunnar. Þeir telja ágreining innan hennar, tortryggni og úlfúð þjóna markmiði þeirra sem berjast fyrir málstað samtakanna No Borders og annarra sem vilja rétt hælisleitenda sem mestan.

Í tíð Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra var boðað að slakað yrði á kröfum við afgreiðslu hælisumsókna og við það jukust þær mikið. Er þetta í samræmi við reynslu Dana en innan danska Jafnaðarmannaflokksins vilja menn nú að boðaðar séu hertar reglur í Danmörku svo að hælisleitendur vaði ekki í neinni villu varðandi starfshætti innan danska stjórnkerfisins.

Stefnubreytingu danskra jafnaðarmanna er líkt við „kúvendingu“ í dönskum fjölmiðlum og er hún rakin til þess að kosningar eru í Danmörku á næsta ári. Vilja stjórnmálamenn utan Danska þjóðarflokksins ekki að hann einn nái að höfða sterkt til fólks í útlendingamálum með harðri stefnu sinni.

 

 

 

Miðvikudagur 24. 09. m14 - 24.9.2014 19:00

Í dag ræddi ég við Anítu Margréti Aradóttur í þætti mínum á ÍNN en í ágúst tók hún þátt í Mongol Derby, 1.000 km reiðtúr á sléttum Mongólíu. Samtal okkar má sjá klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun, fimmtudag.

Á mánudag vék ég hér að úrskurði Samkeppniseftirlitsins sem sektaði Mjólkursamsöluna um 370 m. kr. Að orðum mínum er vikið í húskarlahorni Fréttablaðsins við hlið leiðara þess í dag og sagt undanfarin ár hafi ég verið mjög virkur í stjórnmálum. Hafi setið í ríkisstjórn en ekki sé unnt að finna margt í ræðum mínum eða ritum frá þeim tíma sem bendi til þess að ég „hafi haft áhuga á að breyta landbúnaðarkerfinu“.

Þessi umgjörð blaðamannsins er dæmigerð fyrir skammsýni við skýringu á atburðum líðandi stundar. Niðurstaðan í málinu gegn Mjólkursamsölunni (MS) snýst ekki um landbúnaðarkerfið. Hún er um að MS hafi brotið samkeppnislög á grófan hátt. Hafi ég haft brennandi áhuga á að breyta landbúnaðarlöggjöfinni hefði það örugglega ekki breytt neinu um brotavilja ráðamanna MS. Þeir virtu ekki gildandi lög að mati Samkeppniseftirlitsins og MS verður þess vegna að greiða háa sekt sem velt verður yfir á bændur og neytendur.

Hinn 27. maí 2014 hlustaði ég á Daða Má Kristófersson flytja fróðlegan fyrirlestur um kúabúskap og mjólkurframleiðslu á fundi sem frambjóðendur D-listans í Rangárþingi eystra boðuðu í Gunnarshólma. Af orðum hans mátti ráða að mun meiri fastheldni á óbreytt kerfi sé innan landbúnaðarráðuneytisins en meðal bænda. Róttækar hugmyndir Daða Más féllu í góðan jarðveg hjá mér og mér sýndust bændur hafa  skilning á þeim. Skynsamleg rök hníga að breytingum og þeim þarf að halda fram utan þeirrar umgjarðar sem einkennir ofangreind skrif Fréttablaðsins og margra fleiri sem fjandskapast við bændur og láta eins og þeir vilji ekki ræða breytingar.

Merkilegt er að fylgjast með umræðunum um hleranir. Við framkvæmd þeirra ber vissulega að fara með gát en sakborningar leggjast gegn þeim vegna þess hve beitt vopn þær eru. Nú vilja þeir að vopninu sé beitt gegn sérstökum saksóknara sjálfum sér til málsbóta. Makmiðið er að grafa undan trausti í garð sérstaks saksóknara meðal almennings í von um að almenningsálitið móti afstöðu dómaranna.

 

 

 

Þriðjudagur 23. 09 14 - 23.9.2014 20:30

Eitt einkennilegasta dæmið um fortíðarþrá í íslenskum stjórnmálum er síendurtekinn flutningur tillagna á vegum vinstri grænna í því skyni að gera aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) tortryggilega.

Ögmund­ur Jónas­son, þingmaður Vinstri grænna, mælti í dag fyr­ir þings­álykt­un­ar­til­lögu um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild Íslands að Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO). Að til­lög­unni standa all­ir þing­menn VG og Birgitta Jóns­dótt­ir, þingmaður Pírata.

Í grein­ar­gerð með til­lög­unni er fram­lagn­ing henn­ar nú rök­studd út frá breyttu eðli NATO und­an­far­in ár. Þar seg­ir meðal ann­ars:

„Áform eru nú uppi meðal leiðtoga banda­lags­ins um 4.000 manna herlið á veg­um banda­lags­ins til að mæta óskil­greindri ógn frá ríkj­um utan banda­lags­ins. Hvorki sér fyr­ir end­ann á þess­ari út­rás banda­lags­ins, né átök­un­um sem þau standa í nú og í framtíðinni. Nauðsyn­legt er að staldra við og gefa lands­mönn­um færi á að svara þeirri spurn­ingu hvort þeir telji rétt að Ísland eigi aðild að slík­um hernaðaraðgerðum og ljóst að mik­il þörf er á op­inni og lýðræðis­legri umræðu um sam­flot Íslands í fyrr­nefnd­um hernaðaraðgerðum.“

Þá er bent á að í und­ir­bún­ingi sé að leggja fram sér­staka Þjóðarör­ygg­is­stefnu Íslands sem ná eigi þver­póli­tískri sam­stöðu um, en hins veg­ar sé óhugs­andi að samstaða ná­ist um stefnu sem fæli í sér áfram­hald­andi þátt­töku í hernaðaraðgerðum NATO:

„Í ljósi þess að ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur lýst yfir vilja til að ná þver­póli­tískri sam­stöðu um þjóðarör­ygg­is­stefnu Íslands er rétt að vísa þeim hluta til­lagna nefnd­ar­inn­ar til þjóðar­inn­ar sem snýr að veru Íslands í Atlants­hafs­banda­lag­inu beint til þjóðar­inn­ar og marka þess í stað stefnu um borg­ara­leg þjóðarör­ygg­is­mál sem ætla má að ná­ist breiðari samstaða um,“ seg­ir í til­kynn­ingu VG.

Ögmundur og félagar gefa til kynna í greinargerð tillögu sinnar að þeir líti fram á veginn með henni. Þetta er alrangt. Þeir takast á við drauga kalda stríðsins, þeir hafa aldrei losnað úr fjötrum þess og eru sama sinnis og Vladimír Pútín sem telur hrun Sovétríkjanna mesta harmleik 20. aldarinnar og NATO mestu ógn við heimsfriðinn.

 

Mánudagur 22. 09. 14 - 22.9.2014 21:30

Sam­keppnis­eft­ir­litið birti í dag niðurstöðu sína um 370 milljón króna sekt á Mjólk­ur­sam­söl­una (MS) fyr­ir mis­notk­un á markaðsráðandi stöðu. MS beitti smærri keppi­nauta sam­keppn­is­hamlandi mis­mun­un með því að selja þeim hrámjólk á 17% hærra verði en fyr­ir­tæki sem eru tengd MS greiddu. Mjólk­ur­búið Kú ehf. (Mjólk­ur­búið) kvartaði yfir þessari mismunun.

Í til­kynn­ingu frá Sam­keppnis­eftirtlt­inu seg­ir að í upp­hafi árs 2013 hafi rann­sókn haf­ist á ætluðum brot­um Mjólk­ur­sam­söl­unn­ar á banni 11. gr. sam­keppn­islaga við mis­notk­un á markaðsráðandi stöðu.

Til­drög rann­sókn­ar­inn­ar voru að Mjólk­ur­búið Kú ehf. (Mjólk­ur­búið) kvartaði yfir því að þurfa að greiða MS 17% hærra verð fyr­ir óunna mjólk til vinnslu, sk. hrámjólk, en keppi­naut­ar Mjólk­ur­bús­ins sem eru tengd­ir MS þyrftu að greiða.

Á grund­velli und­anþágu frá banni sam­keppn­islaga við sam­ráði hafa Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og MS með sér mikið sam­starf í fram­leiðslu og sölu á mjólkuraf­urðum og auk þess á KS 10% hlut í MS. Ekki leik­ur vafi á því að MS er í markaðsráðandi stöðu, segir Samkeppniseftirlitið.

Eftirlitið telur alþingi ekki hafa samþykkt að markaðsráðandi afurðastöðvar í mjólk­uriðnaði væru und­anþegn­ar banni sam­keppn­islaga við mis­notk­un á markaðsráðandi stöðu.

Er það niðurstaða Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins að MS hafi með al­var­leg­um hætti brotið gegn 11. gr. sam­keppn­islaga. Ákvæðið legg­ur m.a. bann við því að markaðsráðandi fyr­ir­tæki mis­muni viðskipta­vin­um með ólík­um skil­mál­um í sams kon­ar viðskipt­um og sam­keppn­is­staða þeirra þannig veikt.

Að þessi opinberi texti sem birtur er hér að ofan skuli saminn á árinu 2014 og enn skuli fyrirtæki og  stjórnmálaflokkar telja sér sæma að verja kerfi reist á þessum grunni er ekki til marks um annað en hve langan tíma tekur að færa viðskiptalífið í nútímanlegt horf. Að þetta sé síðan notað til að koma óorði á bændur er fráleitt. Er líklegt að þeir sem hafa búið þannig um hnútana hafi í raun verið með hag bænda í huga?

Sunnudagur 21. 09. 14 - 21.9.2014 21:00

Flugum með Icelandair til Íslands úr sól og blíðu í Glasgow í dag. Við vorum á undan áætlun til Keflavíkurflugvallar, lending tókst í annarri tilraun en horfið var frá hin fyrri vegna roksins og rigningarinnar.

Spádómar um að eftirleikurinn vegna atkvæðagreiðslunnar um sjálfstæði Skotlands yrði óvandaður virðist að rætast þegar fylgst er með deilunum milli leiðtoga stóru bresku stjórnmálaflokkanna. Um vandamálin má meðal annars lesa á Evrópuvaktinni.

Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, óttast að missi þingmenn kjörnir í Skotlandi áhrif á Englandi jafngildi það áhrifaleysi flokksins til frambúðar. Hin sérkennilega staða að aðeins einn íhaldsmaður er í 59 manna hópi þingmanna frá Skotlandi býr að baki stórpólitíska árgreiningsins eftir að Skotar höfnuðu sjálfstæði.

 

Laugardagur 20. o9. 14 - 20.9.2014 19:00

Viðtal mitt við Daða Kolbeinsson óbóleikara um sjálfstæðisatkvæðagreiðsluna í Skotlandi sem birtist á ÍNN miðvikudaginn 17. september er komið á netið og má sjá það hér.

Sjötta og lokagrein mín um skosku atkvæðagreiðsluna birtist í Morgunblaðinu í dag. Spá þeirra sem sögðu að í Westminster mundu menn taka að deila um hvernig færa ætti meiri völd til Skota hefur ræst. David Cameron, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, vill hraðferð við gerð lagafrumvarps sem kynnt verði í janúar. Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, vill fara sér hægar. Hann á þó mikilla hagsmuna í gæta í Skotlandi og þar líta menn á allan hægagang við gerð tillagna um aukna heimastjórn Skota sem svik.

Gordon Brown er þingmaður fyrir Skota og hann segir að tafarlaust verði að kynna tillögur um aukna heimastjórn. Greinilegur ágreiningur er í áherslum forystumanna Verkamannaflokksins. Íhaldsmenn telja sér í hag að ýta undir hann. Stjórnmálabaráttan hefur tekið á sig hefðbundinn svip í Bretlandi.

Í dag var Doors Open Day í Glasgow. Þá er almenningi frjálst að skoða ýmsar byggingar sem annars eru lokaðar. Við fórum á nokkra slíka staði. Til dæmis í höfuðstöðvar Clydeport sem eru við ána Clyde en höfnin í Glasgow má muna sinn fífil fegri. Hún var áður lífæð borgarinnar og fyrir kol og járngrýti auk þess miklar skipasmíðastöðvar voru við Clyde. Um allt þetta mátti fræðast í hinum gömlu höfuðstöðvum Clydeport sem nú hafa verið friðaðar og hafa að geyma minjar um glæsileika og mikið ríkidæmi.

Dómhúsið Glasgow sem hýsir High Court var einnig opið og var almenningi frjálst að ganga um nokkra dómsali en þeir eru fjölmargir í húsinu. Þar skammt frá er gamli fiskmarkaður borgarinnar sem kallast nú The Briggait og hýsir listasmiðjur. Kirkjunni St. Andrews in the Square hefur verið breytt í menningar- og veitingahús. Í stað kirkjubekkja innan dyra var  slegið upp borðum fyrir brúðkaupsveislu.

Gamla dómkirkjan The Cathedral á rætur allt aftur til 1197 og hún hefur verið miðstöð kristinnar tilbeiðslu í borginni allt frá dögum St. Kentigern sem talinn er hafa lagt grunn að Glasgow. Sagt er að hún sé glæsilegasta bygging í Skotlandi frá 13. öld.

Föstudagur 19. 09. 14 - 19.9.2014 18:50

Skotar ákváðu að verða áfram í Sameinaða konungdæminu í atkvæðagreiðslunni í gær. Ég spáði þessu í fimmtu grein minni um kosningarnar sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hinn þögli meirihluti vildi ekki breytingu. Bretland mun engu að síður breytast. Á morgun birtist lokagrein mín um kosningarnar í blaðinu.

Það hefur verið ánægjuleg reynsla að vera svona nálægt þessum sögulegu kosningum í Skotlandi og fá tækifæri til að rifja upp störf blaðamannsins. Gjörbylting hefur orðið í þessum störfum með innleiðingu byltingarinnar með upplýsingatækninni. Það er eins og að bera saman dag og nótt að safna efni og koma því frá sér nú á tímum miðað við það sem áður var.

Ég hef fylgst með sjónvarpsstöðinni BBC News og dáist að framsetningu hennar á þessum stórviðburði og samskiptum fréttamanna og stjórnmálamanna. Stjórnmálamenn gefa yfirlýsingar sínar án þess að vera síðan hundeltir af fréttamönnum með hljóðnemana á lofti. Þeir svara spurningum á blaðamannafundum eða koma í undirbúin viðtöl.

Reynslumiklir fréttamenn BBC tala síðan beint til áhorfenda og draga heildarmynd af því gerst hefur. Þá hefur Brian Cox leikari verið viðmælandi BBC fyrir hönd já-manna í Edinborg í allan dag. Hann er frá Dundee, einu af fjórum kjördæmum af 32 þar sem já-menn sigruðu í gær og hagar orðum sínum á þann veg að rói skoðanasystkini sín. Hann telur að Alex Salmond segi af sér sem forsætisráðherra Skotlands og leiðtogi þjóðernissinna til að leiða samningaviðræður við ráðamenn í Westminster í London um meiri heimastjórn Skota.

Hjá BBC hefur örugglega verið efnt til sérstaks fundar og jafnvel æfingar með öllum lykilfréttamönnum um hver umgjörð frásagna þeirra yrði, sérstaklega hefðu Skotar slitið tengslin við Sameinaða konungdæmið. Þeir yrðu að gæta þess að láta ekki eigin tilfinngar ná tökum á sér!

 

 

Fimmtudagur 18. 09. 14 - 18.9.2014 17:20

Nú er þáttur minn á ÍNN frá 10. september þar sem ég ræði við Þóru Halldórsdóttur um qi gong kominn á netið og má sjá hann hér. 

Í dag birtist fjórða grein mín um sjálfstæðiskosningarnar í Skotlandi í Morgunblaðinu. Í dag ráðast úrslitin um framtíð Skotlands.

Í bresku blöðunum í dag má sjá ægifagra mynd frá Íslandi þar sem norðurljós speglast á einstæðan hátt í jökullóni. Myndin er birt vegna þess að James Woodend sem tók hana var tilnefndur Astronomy Photographer of the Year fyrir myndina og er hún nú til sýnis ásamt öðrum myndum í keppninni í Royal Observatory í Greenwich í London.

Miðvikudagur 17. 09. 14 - 17.9.2014 16:50

Þriðja grein mín um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Skotlandi birtist í Morgunblaðinu í dag.  Í kvöld kl. 20.00 birtist viðtal mitt við Daða Kolbeinsson óbóleikara á ÍNN um skosku kosningarnar.  Hann er Skoti sem hefur búið á Íslandi i 41 ár. Hann hefur tvöfaldan ríkisborgararétt en má ekki kjósa þar sem hann er ekki búsettur í Skotlandi.

Þriðjudagur 16. 09. 14 - 16.9.2014 21:30

Flugum til Glasgow í morgun til að fylgjast með þjóðaratkvæðagreiðslunni um sjálfstæði Skotlands.

Önnur grein mín í tilefni af atkvæðagreiðslunni birtist í Morgunblaðinu í dag.

Mánudagur 15. 09. 14 - 15.9.2014 20:40

Í dag skrifaði ég fréttaskýringu í Morgunblaðið vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Skotlandi 18. september og má lesa hana hér.

Það skýrist betur með hverjum degi  hvað vakir fyrir eigendum 365 miðla með breytingum á yfirstjórn fjölmiðlaveldis síns. Markmiðið er að grafa undan trú manna á ákæruvaldinu og búa  í haginn fyrir þá sem sætt hafa ákæru sérstaks saksóknara. Þetta er sama aðferð og beitt var á tíma Baugsmálsins. Þá var málið rekið í fjölmiðlum á þeirri forsendu að Jón Ásgeir Jóhannesson sætti pólitískri ákæru, saksóknari væri ekki annað en handbendi stjórnmálamanna sem vildu eyðileggja viðskiptaveldi Jóns Ásgeirs.

Nú birtist ekki ásökun um pólitískar ofsóknir á hendur Jóni Ásgeiri í fréttum og leiðaraskrifum Fréttablaðsins. Þess í stað gerir blaðið beina árás á sérstakan saksóknara. Fanney Birna Jónsdóttir viðskiptaritstjóri á blaðinu skrifar leiðara Fréttablaðsins í dag og hefst hann á þessum orðum:

„Hluti af því að búa í réttarríki er að öllum borgurum landsins er tryggð réttlát málsmeðferð séu þeir sakaðir um refsinæma háttsemi. Menn skulu vera saklausir uns sekt er sönnuð, njóta réttlátrar málsmeðferðar á öllum stigum málsins og fá úrlausn sinna mála fyrir óhlutdrægum dómstól.“

Leiðarinn er reistur á viðtali blaðsins við fyrrverandi starfsmann sérstaks saksóknara sem dregur upp ófagra mynd af starfsemi saksóknarembættisins en sjálfur hefur maðurinn sætt kæru [ekki ákæru]. Leiðarahöfundur gefur til kynna að af hálfu embættisins hafi ekki verið gætt „fyllstu hlutlægni og réttsýni“ og segir: „Vonandi mun sagan ekki dæma rannsókn hrunmálanna með sama hætti og rannsóknina á mannshvörfum Guðmundar og Geirfinns en sporin hræða.“

Undir lok leiðarans segir:

„Nú kann sumum að finnast þetta vera allt í lagi; að tilgangurinn helgi meðalið. Eftir allt saman þá er embætti sérstaks saksóknara að rannsaka alvarleg brot í aðdraganda bankahrunsins, brot sem því miður höfðu neikvæð áhrif á flesta landsmenn. Það gengur hins vegar ekki upp. Rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar er heilagur og engin brot, sama hversu ógeðfelld, hræðileg eða miklar afleiðingar þau hafa, eiga að geta hliðrað til þeim stóra sannleik réttarríkisins að allir hafa sama rétt réttlátri málsmeðferð sama hvað þeir hafa á samviskunni. Um leið og það gildir ekki lengur þá höfum við yfirgefið réttarríkið og gengið í samfélag lögleysu.“

Þetta eru stór orð. Að baki þeim býr sami hugur og ríkti á Fréttablaðinu á tíma Baugsmálsins. Hér er ekki um blaðamennsku að ræða heldur vörn fyrir ákveðinn hóp manna í viðskiptalífinu sem sætt hefur rannsókn á grundvelli gildandi laga. Að líkja þessu í vörn fyrir réttarríkið er argasta öfugmæli.

Sunnudagur 14. 09. 14 - 14.9.2014 21:55

Í kosningum fyrir fjórum árum fengu sænskir jafnaðarmenn verstu útreið sem þeir höfðu nokkru sinni fengið nú bæta þeir fylgi sitt aðeins um 0,4 stig og er spáð 31,2% í þingkosningunum í dag. Versta útreið frá Moderatarnir, mið-hægriflokkurinn undir forystu Fredriks Reinfeldts forsætisráðherra. Flokkurinn tapar 6,8 prósentustigum og fellur í 23,1% megi marka tölur á þessu stigi talningar. Reinfeldt hefur sagt af sér sem forsætisráðherra og flokksleiðtogi. Sigurvegarar sænsku kosninganna eru Svíþjóðarlýðræðissinnar sem bæta við sig 4,8 stigum og fá 13%.

Í dag var kosið til landsþinga í Potsdam í Brandenburg og í Erfurt í Thüringen – bæði sambandslöndin voru áður í Austur-Þýskalandi. Jafnaðarmenn hafa haft stjórnarforystu í Brandenburg í aldarfjórðung og gera áfram að loknum kosningunum núna. Kristilegir demókratar hafa jafnlengi haft forystu í Thüringen en nokkur óvissa ríkir um hvað gerist nú því að jafnaðarmenn hafa tækifæri til að mynda meirihluta til vinstri í landinu í stað þess að starfa áfram með kristilegum.

Sigurvegari kosninganna í þýsku sambandslöndunum var flokkurinn sem stofnaður var á síðasta ári Alternative für Deutschland (AfD). Flokkurinn fékk þingmenn kjörna í Saxlandi fyrir tveimur vikum (tæp 10% atkvæða), í fyrsta sinn í landsþingskosningum. Nú fékk hann 12% í Brandenburg og 10% í Thüringen.

Sigurvegarar í Svíþjóð og þýsku sambandslöndunum eiga sameiginlegt að hafa horn í síðu Evrópusambandsins og þó sérstaklega stefnunnar innan sambandsins í málefnum innflytjenda og hælisleitenda en flestir þeirra sækja annaðhvort um hæli í Svíþjóð eða Þýskalandi. Vegna þessa hefur AfD-flokkurinn tekið til við að ræða meira um vandræði vegna hælisleitenda en evruna.

Ráðist var á sigurvegarana í Svíþjóð með slagorðum eins og þessum: Feminismi er betri en rasismi. Feminsta-flokkurinn í Svíþjóð komst hins vegar ekki yfir 4% þröskuldinn inn í sænska þingið.

Víst er að allt hefur þetta áhrif innan Evrópusambandsins. Þau birtast meðal í ákvörðuninni um að það stækki ekki frekar næstu fimm árin heldur einbeiti embættismannaveldið sér að tiltekt á heimavelli.

 

 

 

Laugardagur 13. 09. 14 - 13.9.2014 22:30

Hinn 15. júní 2014 skrifaði ég hér á síðuna:

Ástandið versnar í Úkraínu með meira mannfalli en áður vegna hernaðarátaka. Blóðug átök eru í Sýrlandi og Írak, nýtt ríki ofstækismanna kann að koma til sögunnar. Spennan eykst milli Kínverja og Víetnama vegna ágreinings um yfirráð á Suður-Kínahafi. Japanir og Filippseyingar telja Kínverja beita sig órétti. Athygli beinist að herjum landanna. Ríkisstjórn Nígeríu getur ekki tryggt öryggi borgara sinna eða bjargað um á annað hundrað skólastúlkum sem hryðjuverkamenn rændu. Stjórnendur Evrópuríkja vara við hættunni af því að óvinir evrópskra þjóðfélaga, þjálfaðir í stríðinu í Sýrlandi láti að sér kveða með ógnarverkum í evrópskum borgum. Í Bandaríkjunum er stjórnkerfið sífellt í viðbragðsstöðu af ótta við nýja hryðjuverkaárás.

Þetta er dapurleg mynd sem boðar okkur óvissa og jafnvel hættulega framtíð. Hún vekur jafnvel spurningar um hvernig þriðja heimsstyrjöldin verður skilgreind þegar fram líða stundir.

Í dag berast fréttir um að Frans páfi hafi heimsótt stærsta hermannagrafreit á Ítalíu, Redipuglia-grafreitinn í grennd við Slóveníu, og minnst aldarafmælis fyrri heimsstyrjaldarinnar. Í minningarræðu sagði hann að þriðja heimsstyrjöldin hefði ef til vill þegar hafist á brotakenndan hátt. Hann sagði:

„Jafnvel á líðandi stundu eftir önnur mistök sem leiddu til annars heimsstríðs má kannski núna tala um þriðja stríðið sem háð er brotakennt með glæpum, fjöldamorðum, eyðileggingu.“

Föstudagur 12. 09. 14 - 12.9.2014 22:30

Barack Obama Bandaríkjaforseti fór ekki að ráðum þeirra sem sögðu að hann ætti ekki að kalla alla bandaríska hermenn heim frá Írak. Hann vildi draga skil á milli sín og Íraksstríðsins til að ábyrgðin á því hvíldi ótvírætt á herðum George W. Bush, forvera hans.

Nú stendur Obama fyrir árásum á nýtt Íslamskt ríki undir forystu samnefndra hryðjuverkasamtaka sem hafa lagt undir sig land frá Sýrlandi til Íraks. Að kvöldi miðvikudags 10. september kynnti Obama bandarísku þjóðinni að loftárásir Bandaríkjahers gegn Íslamska ríkinu kynnu að standa lengi. Yfirlýsing forsetans leiðir til aðildar Bandaríkjamanna að flóknum, mannskæðum átökum í Mið-Austurlöndum þar sem þeir stilla sér að þessu sinni við hliðina á Írönum í innbyrðis átökum ólíkra trúarfylkinga múslíma, shíta (minnihlutahóps) og súnníta (meirihlutahóps). Að baki Íslamska ríkinu eru súnnítar.

François Hollande Frakklandsforseti er dyggasti stuðningsmaður Baracks Obama meðal Evrópumanna í átökunum við Íslamska ríkið. Í París rökstyðja menn afskipti Frakka með orðum eins og þessum: „Ekki er unnt að líða að menn komi sér upp skjóli fyrir íslamista í fimm tíma flugfjarlægð frá París.“

Nýlega mátti heyra viðtal í sjónvarpi við mann tengdan Bandaríkjaher. Hann var spurður hvað hann segði um yfirlýsingu Obama: „Engin [hermanna]stígvél verða send á landi“ gegn Íslamska ríkinu.

Hermaðurinn svaraði á þann veg að Bandaríkjamenn hefðu nú þegar 1.600 menn á þessum slóðum en ef til vill væru þeir í strigaskóm.

 

Fimmtudagur 11. 09. 14 - 11.9.2014 21:10

Sigmar Guðmundsson spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í Kastljósi kvöldsins hvort Hanna Birna Kristjánsdóttir yrði ekki að víkja sem innanríkisráðherra af því að Sigmundur Davíð sagði að hann hefði valið krókaleið til að átta sig á stöðu rannsóknar lögreglu innan ráðuneytis síns. Sigmundur Davíð sagði: „Ég get ekki ætl­ast til þess að all­ir ráðherr­ar geri hlut­ina eins og ég myndi gera þá.“  Þetta er að sjálfsögðu kórrétt svar sem afhjúpar hve spurningin var vitlaus.

Úr því að fréttastofa ríkisútvarpsins hefur svona mikinn áhuga á að upplýsa alla þætti rannsóknarinnar í innanríkisráðuneytinu er einkennilegt að engum þar á bæ detti í hug að velta fyrir sér umfangi rannsóknarinnar og hvers vegna hún var jafnvíðtæk og lýst hefur verið. Hvers vegna skyldi ákæran ekki brotin til mergjar með aðstoð lögspekinga?

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á alþingi miðvikudaginn 10. september sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, vegna lekamálsins að þar hafi verið gefið „slæmt fordæmi sem veikir stjórnkerfi okkar til frambúðar“ vegna þess að stjórnkerfinu hafi verið „umturnað“ með því að innanríkisráðherra segi sig frá ákveðnum málaflokkum vegna dómsmáls.

Þetta eru sérkennileg ummæli hjá stjórnmálamanni sem studdi breytingar Jóhönnu Sigurðardóttur á stjórnarráðslögununm sem höfðu meðal annars að markmiði að auðvelda slíka „umturnun“ innan stjórnarráðsins. Að breyta forsetaúrskurði um skiptingu starfa milli ráðherra er minna fordæmi en það sem var gefið af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á árinu 2009 þegar ákvæðum um sjálft ákæruvaldið var breytt í sakamálalögum af ástæðum sem lýst er á þennan hátt í frumvarpinu um breytinguna:

„Í maí sl. [2009] tilkynnti Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um þá ákvörðun sína að hann teldi rétt að hann viki sæti tímabundið í öllum málum er vörðuðu embætti sérstaks saksóknara og að settur yrði ríkissaksóknari til að gegna lögbundnu hlutverki ríkissaksóknara á meðan.[…] Þegar ríkissaksóknari telur sig vanhæfan til að fara með mál víkur hann sæti en þá er ávallt miðað við að hann víki sæti í tilteknum málum. Hér háttar svo til að ríkissaksóknari hefur tilkynnt ráðuneytinu að hann víki sæti í öllum málum er varða embætti sérstaks saksóknara og setja þurfi því ríkissaksóknara til að fara með þau. Verður slíkt ekki gert að óbreyttum lögum. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að til þess að sinna þessu hlutverki ríkissaksóknara gagnvart embætti sérstaks saksóknara verði skipaður sérstakur ríkissaksóknari.“

 

 

Miðvikudagur 10. 09. 14 - 10.9.2014 19:40

Í dag ræddi ég við Þóru Hallsdórsdóttur á ÍNN  um qi gong. Samtalið má sjá kl. 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Ritstjórn DV er í lamasessi. Hún ætti að upplýsa baksvið lekamálsins og hvaða hlutverki Jón Bjarki Magnússon blaðamaður hefur gegnt í því öllu. Hann stillti sér á sínum tíma upp sem ljóðalesari á baráttufundi No Borders-samtakanna í Reykjavík. Samtökin helga sig baráttu gegn stjórnvöldum í þágu hælisleitenda. Þegar vakið var máls á þessu hér á þessum stað lét Reynir Traustason lögfræðing sinn hóta mér málsókn. Þegar ný stjórn DV vildi að úttekt yrði gerð á ritstjórn blaðsins fór allt á annan endann. Hvers vegna? Þola rannsóknarblaðamenn ekki rannsókn annarra.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur hlaupið inn í tómarúmið sem myndaðist við fréttaflutning af lekamálinu eftir að uppnámið hófst á DV. Gerðist þetta strax að kvöldi 9. september eftir að innanríkisráðherra hafði birt svar sitt til umboðsmanns alþingis. Þá tók fréttastofa ríkisins til við spunafréttamennsku sem miðar að því að sanna að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi farið með rangt mál þegar hún segi „að Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hafi ekki getað haft nein efnisleg áhrif á rannsókn lekamálsins heldur hafi hún verið í höndum ríkissaksóknara“ svo að vitnað sé í ruv.is hinn 10. september.

Fréttastofan vitnar í Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara sem segir að embætti sitt  „sé almennt yfir rannsóknum“ en hvað lekamálið varði hafi  lögreglustjóranum verið „gefin fyrirmæli um rannsóknina“. Rannsókn á kæru hælisleitandans Tony Omos hafi farið „fram í samráði við ríkissaksóknara“. Framkvæmd rannsóknarinnar hafi síðan verið „í höndum lögreglu líkt og lög gera ráð fyrir“.  Þá vitnar fréttastofa í nafnlausa „lögspekinga“, eins og hún orðar það, spuna sínum til stuðnings. Í skjóli nafnleyndar veitast þessir spekingar að Hönnu Birnu.

Einkennilegt er að fréttastofan skuli í þessum spuna alveg líta framhjá 23 blaðsíðna bréfi umboðsmanns alþingis frá 25. ágúst til innanríkisráðherra en Hanna Birna svaraði því hinn 9. september. Í bréfi umboðsmanns kemur hvað eftir annað fram að innanríkisráðherra gat ekki gefið nein fyrirmæli um rannsóknina og þar er einnig (bls. 4) birt efni úr bréfi ríkissaksóknara til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 7. febrúar 2014 þar sem lögreglustjóranum er send „til veiðeigandi meðferðar“ kæra og sérstaklega tilgreint hvaða gagna lögregla skuli afla en áréttað að ekkert skuli gert nema „í samráði við ríkissaksóknara“.

Eitt helsta einkenni spunans í fréttum af þessu sérkennilega máli er að líta aldrei á það í heild heldur aðeins grípa einhverjar tætlur sem spunaliðarnir sjálfir slíta úr málinu og gera að aðalatriði þá og þá stundina.

Þriðjudagur 09. 09. 14 - 9.9.2014 20:00

Í tvo sólarhringa var ég án netsambands og sjónvarpslaus vegna bilunar á tengingum við Símann.  Í tölvubréfi sem ég fékk í morgun frá starfsfólki Símans var mér sagt að bilunin væri í skoðun hjá Mílu, síðdegis hafði greinilega tekist að gera við hana.

Tvennt hefur gerst í lekamálinu  á einum sólarhring sem óhjákvæmlega hefur áhrif á framvindu þess. Í dag svaraði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra  23 blaðsíðna bréfi umboðsmanns alþingis frá 25. ágúst um málið. Hún gerir í 6 blaðsíðna bréfi sínu „alvarlegar athugasemdir“ við ákvörðun umboðsmanns um að neita henni um frest til að svara bréfi hans frá 25. ágúst áður en það var birt almenningi. Hún segir einnig:

Hún áréttar að ákveðin grunnforsenda athugunar umboðsmanns sé röng þar sem Stefán Eiríksson lögreglustjóri stjórnaði ekki rannsókn lekamálsins þótt starfsmenn við embætti hans hafi unnið að henni. Þegar frá upphafi hafi legið ljóst fyrir að þeir störfuðu undir beinni yfirstjórn ríkissaksóknara sem tók ákvarðanir um rannsóknaraðgerðir.

Líklegt er að umboðsmaður alþingis hanni einhverja reglu og noti hana til að finna að framgöngu ráðherrans. Umboðsmaður hefur gert það áður.

Mánudaginn 8. september birti Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, gögn á vefsíðu sinni sem sýna að Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður DV, sem hóf opinberar umræður um væntanlegar barneignir Tonys Omos hælisleitanda hinn 18. nóvember 2013 til að tryggja honum landvist, lá í fjóra sólarhringa á „minnisblaðinu“ sem er undirrót lekamálsins án þessa að segja lesendum DV frá því.

Jón Bjarki fékk blaðið eftir krókaleiðum og framsendi það til Katrínar Oddsdóttur lögmanns hinn 2. desember 2013 sem kærði málið daginn eftir til ríkissaksóknara. Hinn 6. desember 2013 sagði Jón Bjarki  á vef DV að blaðið hefði „óformlegt minnisblað um hælisleitendurna Tony Omos og Evelyn Glory Joseph undir höndum.“ Í fréttinni kom fram að DV hefði fengið minnisblaðið frá „ónafngreindum heimildarmanni“.

Elliði segir vekja undrun ef rétt reynist að blaðamaður DV hafi myndað einhvers konar teymi eða bandalag með lögmönnum. Þá hafi fréttir DV borið með sér að blaðið hafi vitað um kærur á hendur ráðuneytinu áður en ráðuneytismenn vissu af þeim. Þetta beri með sér að um hafi verið að ræða baráttu DV og nokkurra lögmanna í þágu hælisleitenda.

Kemur nokkrum nokkuð á óvart lengur í þessu máli? Markmiðið hefur alla tíð verið að brjóta lögmæta ákvörðun yfirvalda í hælismáli á bak aftur. Í því skyni hefur myndast bandalag hinna ólíklegustu aðila gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

 

 

Mánudagur 08. 09. 14 - 8.9.2014 16:02

Engin nettenging allan daginn. Sérfræðingur Símans kom á vettvang án árangurs.

Sunnudagur 07. 09. 14 - 7.9.2014 16:01

Nettenging datt út klukkan 13.00 - ég fór tvisvar til Símans og náði í beini. Allt kom fyrir ekki.

Laugardagur 06. 09. 14 - 6.9.2014 21:30

Nú er samtal mitt við Brynjar Níelsson alþingismann á ÍNN miðvikudaginn 3. september komið á netið eins og sjá má hér. Við ræddum meðal annars um lekamálið og athugun Brynjars á kvörtun sem Víglundur Þorsteinsson sendi alþingi með upplýsingum sem sýna að eftir að Steingrímur J. Sigfússon varð fjármálaráðherra 1. febrúar 2009 og tók að fara í kringum neyðarlögin.

Í morgun tók ég þátt í umræðum í ríkisútvarpinu í þættinum Í vikulokin undir stjórn Einars Þorsteinssonar, auk mín voru Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Valgerður Jóhannsdóttir, aðjúnkt í fjölmiðlafræðum. Hér má hlusta á þáttinn en fyrri helmingur hans snýst um Úkraínu og hinn síðari um ýmis mál af innlendum vettvangi.

 


 

Föstudagur 05. 09. 14 - 5.9.2014 22:15

Í gær var því varpað fram hér að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefði kveðið einkennilega að orði þegar hann talaði aðeins um „framferði“ Rússa í Úkraínu. Í 113. greina ályktun leiðtogafundar NATO sem birt var í dag er harðorðari en þetta. Þar segir meðal annars:

„Við fordæmum harðlega stigmagnandi og ólöglega hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu og krefjumst þess að Rússar láti af henni og kalli her sinn til baka frá Úkraínu og frá landamærum Úkraínu. Þetta brot á fullveldi og landsyfirráðum Úkraínu stangast alvarlega á við alþjóðlög og er alvarleg ögrun við öryggi í Evrópu og á Atlantshafssvæðinu.“

Í The New York Times birtist í dag löng grein þar sem blaðamenn velta fyrir sér hvers vegna mismunandi stjórnmálamenn noti mismunandi orð til að lýsa því sem gerist í austurhluta Úkraínu. Hvorki Angela Merkel Þýskalandskanslari né Barack Obama Bandaríkjaforseti noti orðið invasion – innrás - , hún tali um að Rússar hafi aukið „innflæði bardagamanna og vopna“ og hafið „árás“ á Úkraínu. Obama leggi einnig á sig krók og noti orð eins og „áhlaup“ og „óskammfeilna árás“.

Í blaðinu er talið að sumir ráðamenn á Vesturlöndum óttist að nota orðið „innrás“ vegna þess að það gefi Úkraínumönnum tilefni til að auka þrýsting á aðstoð auk þess sem orðið minnki svigrúm Vladimírs Pútíns til að breyta um stefnu vilji hann það.

Blaðið vitnar einnig í Linus Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens, sem segir að árás sé gott orð en það sé greinilega um innrás að ræða í Úkraínu. „Um er að ræða ólöglega dvöl erlends herliðs á landi fullvalda ríkis. Hvað á að kalla þetta annað?“

Nýlega birtist frétt um að nýr sendiherra Rússa á Íslandi hefði farið í fyrstu opinberu för sína innanlands til heimabæjar Gunnars Braga, Sauðárkróks. Af fréttinni mátti ráða að sendiherranum hefði verið vel tekið. Það er líklega ekki víða á Vesturlöndum sem rússneskum sendiherrum er fagnað á þennan hátt um þessar mundir.

 

 

 

 

 

 

 

Fimmtudagur 04. 09. 14 - 4.9.2014 20:20

Leiðtogafundur NATO hófst í Wales í dag. Fundinn sitja tveir framsóknarmenn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, fyrir Íslands hönd. Á mbl.is segir Gunnar Bragi:

„Því miður hafa ör­ygg­is­horf­ur í Evr­ópu breyst mjög hratt á síðustu mánuðum vegna fram­ferðis Rússa og átak­anna í Úkraínu. Það er aug­ljóst að banda­lagið mun leggja meiri áherslu á sam­eig­in­leg­ar varn­ir og áfram­hald­andi sam­vinnu við ríki sem vilja standa vörð um alþjóðalög og lýðræði.“

Athyglisvert er að utanríkisráðherra talar um „framferði“ Rússa. Hvers vegna skyldi hann ekki nota orðið innrás? Kom eitthvað fram á fundinum í dag sem benti til þess að ekki ætti að tala um innrás rússnesku hermannanna í suð-austurhluta Úkraínu?

Ráðherrann segir að „öryggishorfur í Evrópu hafi breyst mjög hratt“. Þetta er ekki síður einkennilegt orðalag. Það hafa einfaldlega orðið algjör umskipti í öryggismálum Evrópu. Spurningin snýst ekki um neinar horfur heldur hvað gera skuli til að bregðast við skýrum og bráðum vanda.

Verði ályktun leiðtogafundar með svipuðu orðalagi og utanríkisráðherra Íslands notar eftir að hafa setið einn dag í golf-hótelinu fyrir utan Newport í Wales verður fundurinn ekki til að staðfesta trúrverðugleika NATO.

Þjóðaröryggisnefnd skilaði áliti sínu vorið 2014 og lagði áherslu á þrjá meginþætti: virka utanríkisstefnu, varnarstefnu Íslands og almannaöryggi. Á alþjóðavettvangi bæri að leggja lóð á vogarskál friðar. Samþætta ætti þjóðaröryggisstefnu og norðurslóðastefnu. Áfram yrði treyst á varnarsamninginn við Bandaríkin og aðild að NATO meðal annars með áherslu á loftrýmiseftirlit hér á landi.

Undir þetta allt skal tekið. Utanríkisráðherra sagðist sl. vor ætla að leggja fram tillögu um þjóðaröryggisstefnu fyrir alþingi sem kemur saman þriðjudaginn 9. september.  Áður en hann gerir það verður að endurskoða áhættumatið sem liggur að baki áliti þjóðaröryggisnefndar. Það er frá árinu 2009.

 

 

Miðvikudagur 03. 09. 14 - 3.9.2014 19:55

Í þætti mínum á ÍNN hinn 27. ágúst ræddi ég við Vilhjálm Árnason alþingismann og má sjá þáttinn hér.

Í dag ræddi ég við Brynjar Níelsson alþingismann og verður þátturinn sýndur klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Ólafur Hauksson ritar grein á Pressuna í dag þar sem hann lýsir vinnubrögðum Reynis Traustasonar, ritstjóra DV. Hér má nálgast greinina.

Í samtali mínu við Brynjar Níelsson kemur fram undrun yfir að yfirvöld skuli stjórnast af skrifum eins og þeim sem birtast undir ritstjórn Reynis.

Grein Ólafs fjallar öðrum þræði úr leka úr Arion-banka til Reynis. Allir vita nú hvernig Reynir bregst við gagnrýni. Arion-banki hlýtur að gera hreint fyrir sínum dyrum.


Þriðjudagur 02. 09. 14 - 2.9.2014 21:10

Rússneskir þingmenn eru mjög reiðir vegna þess að þeir telja NATO þrengja um of að þjóðinni. Ein af tillögunum sem hefur komið fram til sýna reiði þingsins er að samþykkt verði lög sem banni kennslu á erlendum tungumálum í rússneskum skólum í að minnsta kosti 10 ár! Ætli markmiðið sé að hindra að Rússar eigi samskipti við aðrar þjóðir?

Atli Þór Fanndal, frv. blaðamaður á DV, ræddi við framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu mánudaginn 1. september. Hann segir á mbl.is þriðjudaginn 2. september:

 „Það seg­ir sig al­gjör­lega sjálft að ég fer ekki til fjöl­miðlanefnd­ar vegna þess að ég haldi að ekk­ert mis­jafnt hafi verið í gangi. Ég tel það skipta höfuðmáli að rit­stjór­inn hafi séð ástæðu til að fela, eða til­kynna ekki sér­stak­lega, hvaðan hann fékk pen­inga.“

Vísar hann þar m.a. til 15 m.kr. láns sem Reynir Traustason, ritstjóri og einn af hluthöfum í DV ehf., fékk að láni hjá Gumundi Kristjánssyni útgerðarmanni. Atli Þór segir:

 „Ég hringdi í Elfu [Ýr Gylfadóttur framkvæmdastjóra] og við átt­um um það bil klukku­tíma fund þar sem við fór­um yfir gróf­ar lín­ur í mál­inu. Ég óskaði eft­ir því að nefnd­in myndi taka málið fyr­ir. Ég benti auk þess á það að í nefnd­inni sæti faðir Inga Freys Vil­hjálms­son­ar, frétta­stjóra á DV, og að það þætti mér ekki eðli­legt við úr­vinnslu þessa máls. Ég get að öðru leyti ekki farið mikið út í það í smá­atriðum hvað fór okk­ur Elfu á milli. Niðurstaðan er þó sú að í morg­un fékk ég bréf þar sem ég var beðinn um að skila inn skrif­legu er­indi og segja þá nefnd­inni hvort það er­indi væri op­in­bert eða af­hent í trúnaði. Ég fór ekki til nefnd­ar­inn­ar til að leyna neinu svo að það verður að sjálf­sögðu op­in­bert.

Ég treysti fjöl­miðlanefnd ekk­ert sér­stak­lega. Mér þykir hún ekki hafa unnið vinn­una sína und­an­far­in ár. Ég leita ein­göngu til nefnd­ar­inn­ar af því að ég lít á það sem borg­ara­lega skyldu mína. Að öðru leyti er ekk­ert sér­stakt traust falið í því að ég leiti til henn­ar.

Það velt­ur svo­lítið á því hversu þröngt falið viðskipta­boð er túlkað hvort nefnd­in geti beitt sér í mál­inu eða ekki. Ég tel það þó al­gjör­lega ljóst að nefnd­in get­ur og ber skylda til að beita sér í því að haldið sé utan um eign­ar­hald á fjöl­miðlum. Eign­ar­hald á fjöl­miðlum er ekki rétt skráð á Íslandi og það á sér­stak­lega við um DV. Ég hef enga ástæðu til að treysta nýj­um eig­end­um, sem komið hef­ur í ljós að eru í raun bún­ir að vera eig­end­ur mjög lengi, né gömlu eig­end­un­um.“

Framhaldsaðalfundur DV ehf. er föstudaginn 5. september. Atli Þór ætti að skila fjölmiðlanefnd greinargerð sinni fyrir þann tíma svo að hún liggi fyrir á aðalfundinum.

 

 


Mánudagur 01. 09. 14 - 1.9.2014 20:20

Miðað við heiftina í umræðunum um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins, hafa vafalaust ýmsir talið víst að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi í ágúst. Í ríkisútvarpinu var í kvöld upplýst að hið gagnstæða hefði gerst. Fylgi flokksins hefði þvert á móti aukist lítillega, það er um 0,5 stig í 28%.

Í umræðunum um lekamálið hefur markvisst verið unnið að því að draga fjöður yfir tilefnið sem að baki því býr. Til að rifja það upp má meðal annars benda á þessa frétt í ríkisútvarpinu frá 20. nóvember 2013: http://www.ruv.is/frett/haelisleitandi-grunadur-um-mansal. Hún hefst á þessum orðum:

„Lögreglan leitar enn hælisleitanda sem senda átti úr landi í gær. Útlendingastofnun synjaði manninum um hæli en hann hefur dvalist hér á landi í um tvö ár. Maðurinn er grunaður um aðild að mansali.

Lögmaður mannsins fullyrðir að umbjóðandi sinni, Tony Omos eigi von á barni með nígerískri konu hér á landi og því ætti ekki að stía þeim í sundur. Konan er ein af níu nígerískum konum sem hingað komu fyrir um einu og hálfu ári. Nokkrar þeirra voru vanfærar og 7 þeirra dvöldust í Kristínarhúsi, athvarfi fyrir fórnarlömb mansals og fæddust þar þrjú börn.“

Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af leiðtogafundi NATO nú í vikunni og má lesa hann hér.