4.9.2014 20:20

Fimmtudagur 04. 09. 14

Leiðtogafundur NATO hófst í Wales í dag. Fundinn sitja tveir framsóknarmenn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, fyrir Íslands hönd. Á mbl.is segir Gunnar Bragi:

„Því miður hafa ör­ygg­is­horf­ur í Evr­ópu breyst mjög hratt á síðustu mánuðum vegna fram­ferðis Rússa og átak­anna í Úkraínu. Það er aug­ljóst að banda­lagið mun leggja meiri áherslu á sam­eig­in­leg­ar varn­ir og áfram­hald­andi sam­vinnu við ríki sem vilja standa vörð um alþjóðalög og lýðræði.“

Athyglisvert er að utanríkisráðherra talar um „framferði“ Rússa. Hvers vegna skyldi hann ekki nota orðið innrás? Kom eitthvað fram á fundinum í dag sem benti til þess að ekki ætti að tala um innrás rússnesku hermannanna í suð-austurhluta Úkraínu?

Ráðherrann segir að „öryggishorfur í Evrópu hafi breyst mjög hratt“. Þetta er ekki síður einkennilegt orðalag. Það hafa einfaldlega orðið algjör umskipti í öryggismálum Evrópu. Spurningin snýst ekki um neinar horfur heldur hvað gera skuli til að bregðast við skýrum og bráðum vanda.

Verði ályktun leiðtogafundar með svipuðu orðalagi og utanríkisráðherra Íslands notar eftir að hafa setið einn dag í golf-hótelinu fyrir utan Newport í Wales verður fundurinn ekki til að staðfesta trúrverðugleika NATO.

Þjóðaröryggisnefnd skilaði áliti sínu vorið 2014 og lagði áherslu á þrjá meginþætti: virka utanríkisstefnu, varnarstefnu Íslands og almannaöryggi. Á alþjóðavettvangi bæri að leggja lóð á vogarskál friðar. Samþætta ætti þjóðaröryggisstefnu og norðurslóðastefnu. Áfram yrði treyst á varnarsamninginn við Bandaríkin og aðild að NATO meðal annars með áherslu á loftrýmiseftirlit hér á landi.

Undir þetta allt skal tekið. Utanríkisráðherra sagðist sl. vor ætla að leggja fram tillögu um þjóðaröryggisstefnu fyrir alþingi sem kemur saman þriðjudaginn 9. september.  Áður en hann gerir það verður að endurskoða áhættumatið sem liggur að baki áliti þjóðaröryggisnefndar. Það er frá árinu 2009.