11.9.2014 21:10

Fimmtudagur 11. 09. 14

Sigmar Guðmundsson spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í Kastljósi kvöldsins hvort Hanna Birna Kristjánsdóttir yrði ekki að víkja sem innanríkisráðherra af því að Sigmundur Davíð sagði að hann hefði valið krókaleið til að átta sig á stöðu rannsóknar lögreglu innan ráðuneytis síns. Sigmundur Davíð sagði: „Ég get ekki ætl­ast til þess að all­ir ráðherr­ar geri hlut­ina eins og ég myndi gera þá.“  Þetta er að sjálfsögðu kórrétt svar sem afhjúpar hve spurningin var vitlaus.

Úr því að fréttastofa ríkisútvarpsins hefur svona mikinn áhuga á að upplýsa alla þætti rannsóknarinnar í innanríkisráðuneytinu er einkennilegt að engum þar á bæ detti í hug að velta fyrir sér umfangi rannsóknarinnar og hvers vegna hún var jafnvíðtæk og lýst hefur verið. Hvers vegna skyldi ákæran ekki brotin til mergjar með aðstoð lögspekinga?

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á alþingi miðvikudaginn 10. september sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, vegna lekamálsins að þar hafi verið gefið „slæmt fordæmi sem veikir stjórnkerfi okkar til frambúðar“ vegna þess að stjórnkerfinu hafi verið „umturnað“ með því að innanríkisráðherra segi sig frá ákveðnum málaflokkum vegna dómsmáls.

Þetta eru sérkennileg ummæli hjá stjórnmálamanni sem studdi breytingar Jóhönnu Sigurðardóttur á stjórnarráðslögununm sem höfðu meðal annars að markmiði að auðvelda slíka „umturnun“ innan stjórnarráðsins. Að breyta forsetaúrskurði um skiptingu starfa milli ráðherra er minna fordæmi en það sem var gefið af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á árinu 2009 þegar ákvæðum um sjálft ákæruvaldið var breytt í sakamálalögum af ástæðum sem lýst er á þennan hátt í frumvarpinu um breytinguna:

„Í maí sl. [2009] tilkynnti Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um þá ákvörðun sína að hann teldi rétt að hann viki sæti tímabundið í öllum málum er vörðuðu embætti sérstaks saksóknara og að settur yrði ríkissaksóknari til að gegna lögbundnu hlutverki ríkissaksóknara á meðan.[…] Þegar ríkissaksóknari telur sig vanhæfan til að fara með mál víkur hann sæti en þá er ávallt miðað við að hann víki sæti í tilteknum málum. Hér háttar svo til að ríkissaksóknari hefur tilkynnt ráðuneytinu að hann víki sæti í öllum málum er varða embætti sérstaks saksóknara og setja þurfi því ríkissaksóknara til að fara með þau. Verður slíkt ekki gert að óbreyttum lögum. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að til þess að sinna þessu hlutverki ríkissaksóknara gagnvart embætti sérstaks saksóknara verði skipaður sérstakur ríkissaksóknari.“