25.9.2014 17:30

Fimmtudagur 25. 09. 14

Á vefsíðunni dv.is kemur fram að blaðamennirnir sem hafa í tæpt ár barist fyrir rétti Tonys Omos frá Nígeríu til að fá hælisvist hér á landi eru í svo nánu sambandi við lögfræðinga í innanríkisráðuneytinu að þeir telja sig geta fullyrt að embættismenn ráðuneytisins „kannist ekki við“ að innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi fengið „lögfræðiráðgjöf innan ráðuneytisins um samskipti sín við Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu vegna rannsóknarinnar á lekamálinu“ eins og segir á vefsíðunni.

Upplýst hefur verið að annar blaðamannanna, Jón Bjarki Magnússon, fékk minnisblaðið sem er þungamiðja „lekamálsins“ í hendur 2. desember 2013 „eftir krókaleiðum“ og kom því til Katrínar Oddsdóttur lögmanns. Blaðamaðurinn hafði minnisblaðið fjóra sólarhringa undir höndum án þess að segja lesendum DV frá því.

 Nú segja blaðamennirnir: „Í ágúst og í byrjun september [2014] átti DV trúnaðarsamtöl við nokkra lögfræðinga sem starfa í [innanríkis]ráðuneytinu. Fæstir vildu tjá sig en tveir sögðust ekki vita til þess að nein lögfræðiráðgjöf hefði verið veitt.“ Vitna þeir síðan orðrétt í það sem þessir lögfræðingar eiga að hafa sagt við þá.

Í nýjustu útleggingunni á „lekamálinu“ beinist athygli blaðamannanna að andrúmsloftinu innan innanríkisráðuneytisins eftir að DV hóf herferðina á hendur ráðuneytinu vegna minnisblaðsins. Þeir segja: „Þannig má segja að komið hafi upp samskiptaörðugleikar í innanríkisráðuneytinu strax á fyrstu stigum lekamálsins.“

Enginn vafi er að fyrir blaðamönnunum hefur vakað að skapa úlfúð innan stjórnsýslunnar. Þeir telja ágreining innan hennar, tortryggni og úlfúð þjóna markmiði þeirra sem berjast fyrir málstað samtakanna No Borders og annarra sem vilja rétt hælisleitenda sem mestan.

Í tíð Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra var boðað að slakað yrði á kröfum við afgreiðslu hælisumsókna og við það jukust þær mikið. Er þetta í samræmi við reynslu Dana en innan danska Jafnaðarmannaflokksins vilja menn nú að boðaðar séu hertar reglur í Danmörku svo að hælisleitendur vaði ekki í neinni villu varðandi starfshætti innan danska stjórnkerfisins.

Stefnubreytingu danskra jafnaðarmanna er líkt við „kúvendingu“ í dönskum fjölmiðlum og er hún rakin til þess að kosningar eru í Danmörku á næsta ári. Vilja stjórnmálamenn utan Danska þjóðarflokksins ekki að hann einn nái að höfða sterkt til fólks í útlendingamálum með harðri stefnu sinni.