Dagbók: desember 1998

Fimmtudagur 31.12.1998 - 31.12.1998 0:00

Ríkisráðsfundur var haldinn að Bessastöðum klukkan 10.30 eins og venja er á síðasta degi ársins. Þar eru formlega staðfestar ýmsar afgreiðslur, flestar eru þess eðlis, að þær hafa verið afgreiddar utan ríkisráðs og eru því endurstaðfestar. Voru afgreiðslur óvenjulega margar núna, þar sem ekki hafði verið efnt til ríkisráðfundar, frá því að Geir H. Haarde tók við embætti fjármálráðherra. Klukkan 14.00 var hátíðleg athöfn í Bláfjallasal höfuðstöðva RÚV við Efstaleiti, þar sem rithöfundarnir Pétur Gunnarsson og Sjón fengu viðurkenningu úr Rithöfundasjóði útvarpsins.

Þriðjudagur 29.12.1998 - 29.12.1998 0:00

Klukkan 14.00 fór ég í bæjarskrifstofur Garðabæjar við Garðatorg og ritaði undir samning með bæjarstjóra og formanni þjóðminjaráðs um að komið skuli á fót Hönnunarsafni. Verður það í Garðabæ, ef áform um það rætast. Klukkan 15.30 fórum við Rut í Norræna húsið, þar sem Ólafur Ólafsson landlæknir hlaut viðurkenningu úr sjóði Ásu Wright. Þaðan fórum við síðan beint í Ársal Hótel Sögu, þar sem Frjáls verslun veitti Herði Sigurgestssyni, forstjóra Eimskips, viðurkenningu sem maður íslensks viðskiptalífs á árinu 1998. Um kvöldið var ég síðan á Hótel Loftleiðum, þar sem sundkappinn ungi, Örn Arnarson var kjörinn íþróttamaður ársins.

Laugardagur 19.12.1998 - 19.12.1998 0:00

Klukkan 11.00 hittum við fjármálaráðherra fulltrúa kvikmyndagerðarmanna í Ráðherrabústaðnum og rituðum þar undir samkomulag um að efla íslenska kvikmyndagerð með auknum opinberum fjárveitingum á næstu fjóru árum. Ég óska öllum lesendum þessa pistils gleðilegra jóla!

Föstudagur 18.12.1998 - 18.12.1998 0:00

Klukkan 16.00 fór ég í Gunnarshús, þar sem fyrstu styrkir úr Bókasafnsjóði höfunda voru veittir við hátíðlega athöfn. Birgir Ísl. Gunnarsson seðlabankastjóri og fyrrverandi menntamálaráðherra er formaður stjórnarinnar. Þessi sjóður hefur víðara starfssvið en forveri hans og betur er að honum búið að mörgu leyti, nú fengu til dæmis höfundar myndverka í fyrsta sinn greiðslur fyrir afnot verka sinna í bókasöfnum og einnig þýðendur. Við þessa athöfn skýrði ég frá því, að ríkisstjórnin hefði samþykkt tillögu mína um nýjan sjóð, Launasjóð fræðarithöfunda, sem verður starfræktur undir handarjaðri Rannsóknarráðs Íslands. Örugglega á að vera unnt að veita styrki úr þeim sjóði árið 2000, ef til vill einnig árið 1999, ef fjármunir fást.

Fimmtudagur 17.12.1998 - 17.12.1998 0:00

Klukkan 15.00 ritaði ég undir samkomulag við fulltrúa bíliðngreina og skólameistara Borgarholtsskóla um starfsemi Fræðslumiðstöðvar bílgreina, sem hefur verið tilraunaverkefni í Borgarholtsskóla. Með samkomulaginu er samstarfið skilgreint á nýjan leik í ljósi reynslunnar. Um kvöldið fór ég á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Áskirkju, þar sem fyrri Brandenborgarkonsertarnir þrír efti Bach voru fluttir. Hinir þrír eru fluttir síðdegis sunnudaginn 20. desember. Þar var Rut meðal einleikara, en hún hefur í 25 ár verið í forystu fyrir starfi kammersveitarinnar. Í vikunni kom einnig út hljómdiskur Rutar, þar sem hún flytur einleiksverk fyrir fiðlu eftir íslensk tónskáld.

Miðvikudagur 16.12.1998 - 16.12.1998 0:00

Klukkan 13.30 var ég við Safnahúsið við Hverfisgötu, þegar þaðan voru flutt síðustu skjöl þjóðskjalasafnsins. Húsið er nú að fullu komið til ráðstöfunar fyrir stjórn þess og auk þess hefur menntamálaráðuneytið það ekki lengur undir sinni forsjá heldur er það þjóðmenningarhús, sem lýtur sérstakri stjórn á vegum forsætisráðuneytis.

Mánudagur 16.11.1998 - 16.12.1998 0:00

Þennan dag var haldið upp á dag íslenskrar tungu í þriðja sinn á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar. Fyrir hádegi fór ég í Austurbæjarskólann, minn gamla barnaskóla, þar sem nemendur og kennarar höfðu skipulagt skemmtilega dagskrá, sem Vilborg Dagbjartsdóttir, kennari og skáld, kynnti en hún var hin fyrsta til að hljóta verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 1996. Síðdegis bauð síðan menntamálaráðuneytið til hátíðar í Hafnarborg, menningarmiðstöð Hafnfirðinga. Þar flutti ég ræðu, Þórarinn Eldjárn rithöfundur hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Félag íslenskra leikskólakennara og Blaðamannafélag Íslands hlutu viðurkenningu fyrir gott framlag til íslenskrar tungu. Verðlaunahafi og handhafar viðurkenningarinnar fluttu ræður, skólanemar, sigurvegarar í upplestrarkeppni grunnskólanema, lásu ljóð, Signý Sæmundsdóttir söng en Anna Guðný Guðmundsdóttir lék með henni á píanó. Þorgeir Ólafsson, formaður framkvæmdastjórnar dagsins, stjórnaði athöfninni. Virðist mér að þessi dagur hafi fest rætur og eigi eftir að dafna þegar fram líða stundir.

Þriðjudagur 15.12.1998 - 15.12.1998 0:00

Rannsókna- og vísindamálaráðherra Austurríkis bauð starfsbræðrum sínum frá EFTA-ríkjunum til fundar um 5. rammaáætlun ESB um rannsóknir og vísindi og önnur sameiginleg málefni. Hefur verið nokkur áhersla lögð á það af hálfu EFTA-ríkjanna að geta átt slíka pólitíska fundi með ráðherra þess ríkis, sem fer með formennsku í ráði ESB hverju sinni. Síðdegis tók ég flugvél frá Vínarborg, henni seinkaði dálítið en þrátt fyrir stuttan tíma á milli flugvéla á Kaupmannahafnarflugvelli náði ég vélinni heim um kvöldið. Reynslan er farin að kenna farþegum með Flugleiðum að best er að hraða sér sem mest þeir mega til véla sinna, því að eigi stjórnendur þeirra þess kost loka þeir dyrum vélanna á auglýstum áætlunartíma og opna þær ekki svo glatt aftur, þótt vitað sé um síðbúna farþega í fingri flugstöðvarinnar við lokaða vélina.

Mánudagur 14.12.1998 - 14.12.1998 0:00

Um hádegisbilið hélt ég af stað til Vínarborgar og flaug um Kaupamannahöfn, var lent í Vín um klukkan 22.00

Laugardagur 12.12.1998 - 12.12.1998 0:00

Fyrir hádegi voru þingfundir um fjárlögin. Klukkan 17.00 fórum við á tónleika Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna í Neskirkju, þar sem Amal og næturgestirnir voru fluttir.

Föstudagur 11.12.1998 - 11.12.1998 0:00

Klukkan 12.00 var ég í Ölduselsskóla í Breiðholti og tók þar við nýju starfrænu kennsluforriti í ensku, sem Námsgagnastofnun stendur að með öðrum. Er þetta einstakt forrit og hlýtur að auðvelda mörgum að læra ensku. Eftir hádegið var 2. umræða um fjárlögin. Klukkan 20. 00 fórum við á tónleika Mótettukórsins og Gunnars Guðbjörnssonar í Hallgrímskirkju.

Fimmtudagur 10.12.1998 - 10.12.1998 0:00

Síðdegis voru umræður um bandorm ríkisstjórnarinnar á Alþingi. Ég fór klukkan 17.00 í Fjárvang og opnaði þar nýtt gallerí en Pétur Gautur listmálari er fyrstur til að sýna málverk sín þar. Um níuleytið um kvöldið kom frumvarp mitt til jöfnunar á námskostnaði framhaldsskólanema til fyrstu umræðu á alþingi. Eykur það réttindi nokkur hundruð framhaldsskólanemenda og kostar ríkissjóð allt að 25 m. kr. í framkvæmd.

Miðvikudagur 9.12.1998 - 9.12.1998 0:00

Ríkisstjórnin kom saman og ákvað að leggja fram frumvarp til að bregðast við kvótadómi hæstaréttar. Síðdegis var málið síðan rætt í þingflokkum ríkisstjórnarinnar og samþykkt að leggja það fram á þingi.