28.9.2014 21:00

Sunnudagur 28. 09. 14

Umræðurnar um svonefndan Kristsdag sýna enn á ný hve lítið umburðarlyndi margir netverjar hafa gagnvart skoðunum annarra. Þetta fólk gerir kröfu til þess að allir gangi í takt. Ekki má hreyfa á opinberum vettvangi sjónarmiðum sem það er ósammála án þess að upphefjist söngur í anda pólitísks rétttrúnaðar. Umgjörð fréttar ríkisútvarpsins um Kristsdaginn var á þennan veg. Þar var forseta Íslands og biskupnum yfir Íslandi stillt upp að vegg og krafist svara þeirra um skoðanir annars fólks sem féllu ekki að viðhorfi fréttamannsins eða fréttastofunnar.

Hin neikvæða afstaða í garð Kristsdagsins er í anda breytinganna á dagskrá ríkisútvarpsins varðandi morgunbæn og orð kvöldsins. Vegna mikillar gagnrýni leitaðist dagskrárstjórnin við að milda ákvörðunina svo að úr varð einskonar bastarður. Hún hefur hins vegar ekki séð að sér varðandi síðasta lag fyrir fréttir. Í því felst mikil skammsýni að afmá skilin milli rásar 1 og rásar 2 á þann veg sem gert hefur verið. Allt er það á kostnað hlustenda rásar 1 dyggustu stuðningsmanna þess að hér sé haldið úti ríkisútvarpi.

Fyrir mörgum árum kom það þeim sem sátu landsfund Sjálfstæðisflokksins í opna skjöldu þegar fréttastofa ríkisútvarpsins setti niðurstöðu fundarins í umgjörð sem gaf til kynna að eitt helsta málið á fundinum hefði verið samþykkt um að selja rás 2. Þetta var ekki stórmál á fundinum og þess vegna samþykkt. Miðað við þróun ríkisútvarpsins og aðför stjórnenda þess að helstu stuðningsmönnum þess er líklegt að stuðningur við að halda stöðinni úti á kostnað skattgreiðenda minnki í Sjálfstæðisflokknum og meðal annarra.

Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála er sagt frá samningi sem Huang Nubo, kínverski auðmaðurinn, gerði um kaup á landi í Lyngen skammt frá Tromsö í N-Noregi í maí sl. Af greininni má ráða að ekki hafi endanlega verið gengið frá kaupunum. Í grein í The New York Times sem sagt er frá á Evrópuvaktinni í dag kemur fram að um bráðabirgða-samning var að ræða um landið í Lyngen og enn er óljóst hvort Huang hafi gengið endanlega frá málinu. Í bandaríska blaðinu segir einnig að í Noregi telji menn engan vafa á að Huang sé útsendari kínverskra stjórnvalda og kommúnistaflokksins.