23.9.2014 20:30

Þriðjudagur 23. 09 14

Eitt einkennilegasta dæmið um fortíðarþrá í íslenskum stjórnmálum er síendurtekinn flutningur tillagna á vegum vinstri grænna í því skyni að gera aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) tortryggilega.

Ögmund­ur Jónas­son, þingmaður Vinstri grænna, mælti í dag fyr­ir þings­álykt­un­ar­til­lögu um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild Íslands að Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO). Að til­lög­unni standa all­ir þing­menn VG og Birgitta Jóns­dótt­ir, þingmaður Pírata.

Í grein­ar­gerð með til­lög­unni er fram­lagn­ing henn­ar nú rök­studd út frá breyttu eðli NATO und­an­far­in ár. Þar seg­ir meðal ann­ars:

„Áform eru nú uppi meðal leiðtoga banda­lags­ins um 4.000 manna herlið á veg­um banda­lags­ins til að mæta óskil­greindri ógn frá ríkj­um utan banda­lags­ins. Hvorki sér fyr­ir end­ann á þess­ari út­rás banda­lags­ins, né átök­un­um sem þau standa í nú og í framtíðinni. Nauðsyn­legt er að staldra við og gefa lands­mönn­um færi á að svara þeirri spurn­ingu hvort þeir telji rétt að Ísland eigi aðild að slík­um hernaðaraðgerðum og ljóst að mik­il þörf er á op­inni og lýðræðis­legri umræðu um sam­flot Íslands í fyrr­nefnd­um hernaðaraðgerðum.“

Þá er bent á að í und­ir­bún­ingi sé að leggja fram sér­staka Þjóðarör­ygg­is­stefnu Íslands sem ná eigi þver­póli­tískri sam­stöðu um, en hins veg­ar sé óhugs­andi að samstaða ná­ist um stefnu sem fæli í sér áfram­hald­andi þátt­töku í hernaðaraðgerðum NATO:

„Í ljósi þess að ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur lýst yfir vilja til að ná þver­póli­tískri sam­stöðu um þjóðarör­ygg­is­stefnu Íslands er rétt að vísa þeim hluta til­lagna nefnd­ar­inn­ar til þjóðar­inn­ar sem snýr að veru Íslands í Atlants­hafs­banda­lag­inu beint til þjóðar­inn­ar og marka þess í stað stefnu um borg­ara­leg þjóðarör­ygg­is­mál sem ætla má að ná­ist breiðari samstaða um,“ seg­ir í til­kynn­ingu VG.

Ögmundur og félagar gefa til kynna í greinargerð tillögu sinnar að þeir líti fram á veginn með henni. Þetta er alrangt. Þeir takast á við drauga kalda stríðsins, þeir hafa aldrei losnað úr fjötrum þess og eru sama sinnis og Vladimír Pútín sem telur hrun Sovétríkjanna mesta harmleik 20. aldarinnar og NATO mestu ógn við heimsfriðinn.