5.9.2014 22:15

Föstudagur 05. 09. 14

Í gær var því varpað fram hér að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefði kveðið einkennilega að orði þegar hann talaði aðeins um „framferði“ Rússa í Úkraínu. Í 113. greina ályktun leiðtogafundar NATO sem birt var í dag er harðorðari en þetta. Þar segir meðal annars:

„Við fordæmum harðlega stigmagnandi og ólöglega hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu og krefjumst þess að Rússar láti af henni og kalli her sinn til baka frá Úkraínu og frá landamærum Úkraínu. Þetta brot á fullveldi og landsyfirráðum Úkraínu stangast alvarlega á við alþjóðlög og er alvarleg ögrun við öryggi í Evrópu og á Atlantshafssvæðinu.“

Í The New York Times birtist í dag löng grein þar sem blaðamenn velta fyrir sér hvers vegna mismunandi stjórnmálamenn noti mismunandi orð til að lýsa því sem gerist í austurhluta Úkraínu. Hvorki Angela Merkel Þýskalandskanslari né Barack Obama Bandaríkjaforseti noti orðið invasion – innrás - , hún tali um að Rússar hafi aukið „innflæði bardagamanna og vopna“ og hafið „árás“ á Úkraínu. Obama leggi einnig á sig krók og noti orð eins og „áhlaup“ og „óskammfeilna árás“.

Í blaðinu er talið að sumir ráðamenn á Vesturlöndum óttist að nota orðið „innrás“ vegna þess að það gefi Úkraínumönnum tilefni til að auka þrýsting á aðstoð auk þess sem orðið minnki svigrúm Vladimírs Pútíns til að breyta um stefnu vilji hann það.

Blaðið vitnar einnig í Linus Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens, sem segir að árás sé gott orð en það sé greinilega um innrás að ræða í Úkraínu. „Um er að ræða ólöglega dvöl erlends herliðs á landi fullvalda ríkis. Hvað á að kalla þetta annað?“

Nýlega birtist frétt um að nýr sendiherra Rússa á Íslandi hefði farið í fyrstu opinberu för sína innanlands til heimabæjar Gunnars Braga, Sauðárkróks. Af fréttinni mátti ráða að sendiherranum hefði verið vel tekið. Það er líklega ekki víða á Vesturlöndum sem rússneskum sendiherrum er fagnað á þennan hátt um þessar mundir.