15.9.2014 20:40

Mánudagur 15. 09. 14

Í dag skrifaði ég fréttaskýringu í Morgunblaðið vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Skotlandi 18. september og má lesa hana hér.

Það skýrist betur með hverjum degi  hvað vakir fyrir eigendum 365 miðla með breytingum á yfirstjórn fjölmiðlaveldis síns. Markmiðið er að grafa undan trú manna á ákæruvaldinu og búa  í haginn fyrir þá sem sætt hafa ákæru sérstaks saksóknara. Þetta er sama aðferð og beitt var á tíma Baugsmálsins. Þá var málið rekið í fjölmiðlum á þeirri forsendu að Jón Ásgeir Jóhannesson sætti pólitískri ákæru, saksóknari væri ekki annað en handbendi stjórnmálamanna sem vildu eyðileggja viðskiptaveldi Jóns Ásgeirs.

Nú birtist ekki ásökun um pólitískar ofsóknir á hendur Jóni Ásgeiri í fréttum og leiðaraskrifum Fréttablaðsins. Þess í stað gerir blaðið beina árás á sérstakan saksóknara. Fanney Birna Jónsdóttir viðskiptaritstjóri á blaðinu skrifar leiðara Fréttablaðsins í dag og hefst hann á þessum orðum:

„Hluti af því að búa í réttarríki er að öllum borgurum landsins er tryggð réttlát málsmeðferð séu þeir sakaðir um refsinæma háttsemi. Menn skulu vera saklausir uns sekt er sönnuð, njóta réttlátrar málsmeðferðar á öllum stigum málsins og fá úrlausn sinna mála fyrir óhlutdrægum dómstól.“

Leiðarinn er reistur á viðtali blaðsins við fyrrverandi starfsmann sérstaks saksóknara sem dregur upp ófagra mynd af starfsemi saksóknarembættisins en sjálfur hefur maðurinn sætt kæru [ekki ákæru]. Leiðarahöfundur gefur til kynna að af hálfu embættisins hafi ekki verið gætt „fyllstu hlutlægni og réttsýni“ og segir: „Vonandi mun sagan ekki dæma rannsókn hrunmálanna með sama hætti og rannsóknina á mannshvörfum Guðmundar og Geirfinns en sporin hræða.“

Undir lok leiðarans segir:

„Nú kann sumum að finnast þetta vera allt í lagi; að tilgangurinn helgi meðalið. Eftir allt saman þá er embætti sérstaks saksóknara að rannsaka alvarleg brot í aðdraganda bankahrunsins, brot sem því miður höfðu neikvæð áhrif á flesta landsmenn. Það gengur hins vegar ekki upp. Rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar er heilagur og engin brot, sama hversu ógeðfelld, hræðileg eða miklar afleiðingar þau hafa, eiga að geta hliðrað til þeim stóra sannleik réttarríkisins að allir hafa sama rétt réttlátri málsmeðferð sama hvað þeir hafa á samviskunni. Um leið og það gildir ekki lengur þá höfum við yfirgefið réttarríkið og gengið í samfélag lögleysu.“

Þetta eru stór orð. Að baki þeim býr sami hugur og ríkti á Fréttablaðinu á tíma Baugsmálsins. Hér er ekki um blaðamennsku að ræða heldur vörn fyrir ákveðinn hóp manna í viðskiptalífinu sem sætt hefur rannsókn á grundvelli gildandi laga. Að líkja þessu í vörn fyrir réttarríkið er argasta öfugmæli.