9.9.2014 20:00

Þriðjudagur 09. 09. 14

Í tvo sólarhringa var ég án netsambands og sjónvarpslaus vegna bilunar á tengingum við Símann.  Í tölvubréfi sem ég fékk í morgun frá starfsfólki Símans var mér sagt að bilunin væri í skoðun hjá Mílu, síðdegis hafði greinilega tekist að gera við hana.

Tvennt hefur gerst í lekamálinu  á einum sólarhring sem óhjákvæmlega hefur áhrif á framvindu þess. Í dag svaraði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra  23 blaðsíðna bréfi umboðsmanns alþingis frá 25. ágúst um málið. Hún gerir í 6 blaðsíðna bréfi sínu „alvarlegar athugasemdir“ við ákvörðun umboðsmanns um að neita henni um frest til að svara bréfi hans frá 25. ágúst áður en það var birt almenningi. Hún segir einnig:

Hún áréttar að ákveðin grunnforsenda athugunar umboðsmanns sé röng þar sem Stefán Eiríksson lögreglustjóri stjórnaði ekki rannsókn lekamálsins þótt starfsmenn við embætti hans hafi unnið að henni. Þegar frá upphafi hafi legið ljóst fyrir að þeir störfuðu undir beinni yfirstjórn ríkissaksóknara sem tók ákvarðanir um rannsóknaraðgerðir.

Líklegt er að umboðsmaður alþingis hanni einhverja reglu og noti hana til að finna að framgöngu ráðherrans. Umboðsmaður hefur gert það áður.

Mánudaginn 8. september birti Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, gögn á vefsíðu sinni sem sýna að Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður DV, sem hóf opinberar umræður um væntanlegar barneignir Tonys Omos hælisleitanda hinn 18. nóvember 2013 til að tryggja honum landvist, lá í fjóra sólarhringa á „minnisblaðinu“ sem er undirrót lekamálsins án þessa að segja lesendum DV frá því.

Jón Bjarki fékk blaðið eftir krókaleiðum og framsendi það til Katrínar Oddsdóttur lögmanns hinn 2. desember 2013 sem kærði málið daginn eftir til ríkissaksóknara. Hinn 6. desember 2013 sagði Jón Bjarki  á vef DV að blaðið hefði „óformlegt minnisblað um hælisleitendurna Tony Omos og Evelyn Glory Joseph undir höndum.“ Í fréttinni kom fram að DV hefði fengið minnisblaðið frá „ónafngreindum heimildarmanni“.

Elliði segir vekja undrun ef rétt reynist að blaðamaður DV hafi myndað einhvers konar teymi eða bandalag með lögmönnum. Þá hafi fréttir DV borið með sér að blaðið hafi vitað um kærur á hendur ráðuneytinu áður en ráðuneytismenn vissu af þeim. Þetta beri með sér að um hafi verið að ræða baráttu DV og nokkurra lögmanna í þágu hælisleitenda.

Kemur nokkrum nokkuð á óvart lengur í þessu máli? Markmiðið hefur alla tíð verið að brjóta lögmæta ákvörðun yfirvalda í hælismáli á bak aftur. Í því skyni hefur myndast bandalag hinna ólíklegustu aðila gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.