1.2.2017 10:30

Miðvikudagur 01. 02. 17

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata, lauk ræðu á alþingi þriðjudaginn 31. janúar á þessum orðum: „Notum rétt orð þegar þau eiga við: Donald Trump er fasisti.“ Þegar hlustað er á þingflokksformanninn rökstyðja þessa fúkyrðanotkun mætti halda að hún hefði lært af Jónasi Kristjánssyni, fyrrv. ritstjóra, sem nefndur var hér í gær vegna lygi í minn garð. Jónas hefur í áranna rás kallað íslenska stjórnmálamenn fasista og sýnt dæmalaust smekkleysi og dónaskap.

Píratar hafa látið eins og þeir séu upphafsmenn nýrra tíma í stjórnmálum og umræðum um þau. Þegar á reynir kemur hins vegar í ljós að þeir hafa ekkert nýtt fram að færa og eyðileggja eigin málstað með fúkyrðum eða órökstuddum ásökunum. Sýnist enginn munur á Ástu Guðrúnu og forvera hennar í formennsku þingflokksins, Birgittu Jónsdóttur, að þessu leyti.

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, er illa við íslensku krónuna en veit að enginn meirihluti er fyrir óskamynt hans, evrunni. Hann sér þó krók á móti bragði að taka upp rafeyri. Hann sagði á FB-síðu sinni 31. janúar:

„Jafnframt mun ég undirbúa löggjöf til þess að þrengja að svarta hagkerfinu þar sem bannað yrði að greiða laun út með reiðufé og allir þyrftu að borga hluti yfir ákveðnu verði í gegnum banka eða kreditkort þannig að viðskiptin yrðu rekjanleg.“

Erna Ýr Öldudóttir, viðskiptafræðingur og fv. formaður framkvæmdaráðs Pírata, er lítt hrifin og hugsar til fasisma og alræðis þegar hún segir á FB-síðu sinni 31. janúar:

„Þessi hugmynd er sú alversta sem ég hef nokkurntíman séð. 

1. Fær einhver laun í reiðufé? Til hvers að banna það þá? Má banna notkun reiðufjár?

2. Það er leiðinlegt að segja það en að þvinga almenning með lögum til að eiga í viðskiptum við einkafyrirtæki, eins og t.d. Borgun eða bankana, minnir á fasismann í gamla daga, þar sem að ríkisvaldið og fyrirtækin runnu saman í eitt.

3. Hvað með borgararéttindin friðhelgi einkalífsins og samningsfrelsi? Á að taka þau af okkur öllum, endanlega?

4. Munu eigendur bankanna og kortafyrirtækjanna þá græða óendanlega í krafti ríkisvaldsins, en hafa að auki allar upplýsingar um einkalíf fólks?

Ég er dauðhrædd við þessa hugmynd og krefst þess að fjármálaráðherra og ný ríkisstjórn leggi eitthvað á sig við að finna leiðir til að stemma stigu við skattsvikum, aðrar en alræði.“