5.2.2008 17:33

Þriðjudagur, 05. 02. 08.

Í dag 5. febrúar er rétt ár liðið frá því, að læknar greindu mig með samfallið hægra lunga og ég var lagður inn á deild 12 E á Landspítalanum. Sjúkrasöguna má lesa hér á síðunni. Af heilsu minni er það að frétta, að ég reyndist sannspár, þegar ég taldi mig verða betri eftir en áður, enda er ég viss um, að samfallið átti sér nokkurn aðdraganda. Mér hefur ekki orðið misdægurt, frá því að ég var útskrifaður.

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar ljúflega um framgöngu mína í Silfri Egils í 24 stundir í dag og færi ég henni þakkir fyrir. Hún segir, að blíða mín í garð RÚV hafi ekki enst út sunnudaginn og hafi ég breyst að nýju í „vígamann“, þegar á daginn leið. Vísar hún þar til athugasemdar minnar hér á síðunni við það, hvernig orð mín voru afflutt á vefsíðunni ruv.is. Reynsla mín er, að spuni af þessu tagi verður ekki stöðvaður nema sótt sé gegn honum af þunga, annars teygir hann sig um allt, og hann hafði náð inn á mbl.is úr hljóðvarpinu, áður en varði. mbl.is sýndi þann manndóm að leiðrétta rangfærsluna. Ég hef ekki orðið var við neina leiðréttingu á ruv.is .

Hin ranga útlegging á ruv.is varð ekki til þess eins, að ég gripi til vopna minna, því að hún hefur valdið hræðslukasti hjá bréfritara á vefsíðu Ögmundar Jónassonar, sem segir:

„Er ríkisstjórnin að verða galin? Heyrði ég það rétt að dómsmálaráherrann vilji gera björgunarsveitirnar að einhverjum baksveitum fyrir lögreglu til að berja niður óeirðir? Það var gott að heyra í talsmanni Landsbjargar sem vísaði þessu út í hafsauga og sagði að sveitirnar væru til að bjarga og hjálpa fólki en ekki til að berja á því. Hvers vegna er ríkisstjórnin farin að óttast óeirðir? Er það vegna þess að hún er farin að trúa því að gerð verði uppreisn gegn kjaramisréttinu í landinu sem fer vaxandi af hennar völdum? Er þá ekki verkefnið að draga úr misréttinu í stað þess að berja á þeim sem vilja réttlátt samfélag? Hvað segir Samfylkingin? Alltaf þegir hún þegar talið berst að félagslegu misrétti.“

Spyrja má: Var tilgangur spunans á ruv.is að valda slíku uppnámi? Ekkert í þeim orðum, sem ég lét falla í vinsamlegu spjalli okkar Egils Helgasonar gaf tilefni til þess. Ég vona, að Kolbrún Bergþórsdóttir fyrirgefi, að ég skyldi bregðast hart við til að kveða niður ósannindi, sem kveikja hræðslu hjá fólki, af því að það heldur að ríkisstjórnin sé að verða „galin“.