1.2.2008 21:22

Föstudagur, 01. 02. 08.

Nú eru nær því 13 ár síðan ég hóf að halda þessari síðu úti. Eitt af því, sem ég hef lært á þessum árum, er, að leggja helst ekki út af skoðanakönnunum en láta þær frekar fram hjá mér fara. Enn hefur gildi þessarar vinnureglu sannast, þegar Fréttablaðið birtir skoðankönnun í gær, sem segir fylgi Sjálfstæðisflokksins dala og Samfylkinguna vera að ná honum, en í RÚV birtist Gallup-könnun í dag, sem sýnir fylgi Sjálfstæðisflokksins vaxa í 41% miðað við síðustu Gallup-könnun og hefur ekkert sérstakt um Samfylkingu að segja.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, stillt upp við vegg vegna niðurstöðu Fréttablaðsins. Staksteinahöfundur telur hana höfund stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks við Samfylkingar og spyr, hvernig Þorgerður Katrín ætli að bregðast við verði Samfylking stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Gallup auðveldar Þorgerði Katrínu svarið.

Framsóknarflokkurinn kemur að þessu sinni verst út úr flokkakönnuninni hjá Gallup. Augljóst er, að meirihlutaskiptin í borgarstjórn koma illa við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Er það enn og aftur til staðfestingar á því, hve misráðið var hjá Birni Inga Hrafnssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, að hverfa frá samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í október sl.

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, skrifar grein í Morgunblaðið í dag og telur mig hafa farið ómaklegum orðum um flokk sinn hér á síðunni, þegar ég lýsti skoðun minni á fatavanda framsóknarmanna. Í greininni er þessi gullvæga setning: „Fyrr hélt ég að fiskar gengju á land en ég sæi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason skipa sér í þennan flokk með umræðu um fatamál Framsóknarflokksins.“

Eftir að hafa setið með framsóknarmönnum í ríkisstjórn í 12 ár og unnið að framgangi margra góðra mála, vil ég síður en svo gera á hlut þeirra. Svik Björns Inga við sjálfstæðismenn voru hins vegar á þann veg, að þau eru ekki hafin yfir gagnrýni. Í fatamálinu hafa framsóknarmenn  verið sér sjálfum sér verstir - sjálfskaparvítin eru alltaf verst. Ég er viss um, að Bjarni Harðarson samsinnir því.

Þegar Alfreð Þorsteinsson, framsóknarmaður, leiddi Orkuveitu Reykjavíkur (OR), dró úr notkun heita vatnsins vegna hlýnunar. Þá var gjaldskráin hækkuð til að bæta OR tapið. Nú er vatnsskortur vegna kulda - skyldi gjaldskráin lækka?