7.2.2008 21:08

Fimmtudagur, 07. 02. 08.

Fór síðdegis með embættismönnum í heimsókn til Valtýs Sigurðssonar, nýs ríkissaksóknara, og samstarfsfólks hans að Hverfisgötu 6.

Þegar OR/REI málið bar sem hæst í byrjum október gagnrýndi ég stjórnsýsluna í málinu. Í dag var kynnt skýrsla stýrihóps undir formennsku Svandísar Svavarsdóttur um málið og þar er staðfest, að gagnrýni á stjórnsýsluna var svo sannarlega að rökum reist.

Í frásögn af skýrslunni segir á mbl.is:

„Þá leggur stýrihópurinn til, að stjórn Orkuveitunnar skoði sérstaklega umboð stjórnarmanna, hvert sé valdsvið stjórnenda, embættismanna og umboð og jafnframt hvert hlutverk kjörinna fulltrúa sé og með hvaða hætti sé hægt að sinna því og halda því til haga gagnvart kjósendum. Aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum verði jafnframt bættur, bæði fulltrúa minnihluta og meirihluta.“

Allt kemur þetta heim og saman við gagnrýni mína á stjórnarhætti innan Orkuveitu Reykjavíkur. Verður fróðlegt að fylgjast með því, hvernig núverandi stjórn OR og stjórnendur OR taka þessum ábendingum.