17.2.2008 22:06

Sunnudagur, 17. 02. 08.

Almennir kjarasamniingar voru undirritaðir í dag eftir kjaraviðræður, sem báru með sér, að vilji beggja stóð til þess að ná skynsamlegri niðustöðu með tilliti til allra efnahagslegra aðstæðna.

Á föstudag og í dag gengu fulltrúar samningsaðila á fund ríkisstjórnarinnar. Framlag hennar til að stuðla að friði á vinnumarkaði er birt í sérstakri yfirlýsingu og byggist á því að hækka persónuafslátt umfram það sem gert er ráð fyrir í nýlegum lögum, hækka barnabætur, hækka viðmiðunarfjárhæðir vegna vaxtabóta og hækka húsaleigubætur. Tekjuskattur fyrirtækja lækkar úr 18% í 15%. Einnig er um að ræða aðgerðir í húsnæðismálum svo sem niðurfelling stimpilgjalda við kaup á fyrstu íbúð og aðgerðir á sviði starfsmenntamála og  gert er ráð fyrir nýjum áfallatryggingasjóði, eða endurhæfingarsjóði. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru taldar auka útgjöld ríkissjóðs um 20 milljarða króna næstu fjögur ár.

Við, sem kynntumst störfum Vilhjálms Egilssonar á alþingi og hve lipurlega hann hélt á stjórn efnahags- og viðskiptanefndar þingsins undrumst ekki, að honum hafi tekist að leiða þessa samninga farsællega og spennulaust til lykta sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Með þessu er ég siður en svo að gera lítið úr hlut annarra, enda takast samningar ekki nema með vilja allra.

Miðað við framgang þessara viðræðna ætti að hætta að kenna húsakynni Ásmundar Stefánssonar, sáttasemjara ríkisins, við karp.

Gekk í dag upp á Primrose hæð hér í London og horfði yfir borgina í kaldri og bjartri sólarbirtunni. Var fjöldi fólks að viðra sig og hundana sína á þessari góðu útsýnishæð rétt við Regent Park og dýragarðinn.

Ritaði í dag pistil um evruurmræðurnar, brottflutning Pólverja frá Bretalndi og norskan hafnsögumann, sem sóttur var af TF-Líf undan Meðallalandsgbugt.