18.2.2008 22:41

Mánudagur, 18. 02. 08.

Var í hádeginu í Northwood, í útjaðri London, þar sem eru höfuðstöðvar flotastjórnar NATO og breska flotans. Með í för voru meðal annars Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, og Ásgrímur Ásgrímsson, yfirmaður vaktstöðvar siglinga.

Pim Bedet, aðmíráll í hollenska flotanum, og varaflotastjóri NATO, hafði orð fyrir gestgjöfum, sem kynntu okkur starfsemina undir merkjum NATO. Eftirlit á vegum NATO með siglingum á heimshöfunum er að stóraukast og kom fram mikill áhugi á samstarfi við landhelgisgæsluna. Ég gerði grein fyrir þeim breytingum, sem eru að verða undan Íslands ströndum vegna tíðari ferða olíu- og gasflutningaskipa og skemmtiferðaskipa.

Breski flotinn hefur tekið forystu við þróun samhæfðs eftirlits- og greiningarkerfis í Bretlandi vegna skipaumferðar og einnig þar er áhugi á tvíhliða samstarfi við landhelgisgæsluna.

Þegar hugað er að öryggiskerfi vegna flugferða annars vegar og skipaferða hins vegar, er um ótrúlega mikinn mun að ræða, þar sem kröfurnar vegna skipa eru mun minni en flugvéla. Alþjóðaflugmálastofnunin hefur verið mjög kröfuhörð á sínu sviði en svo virðist sem Alþjóðasiglingamálastofnunin fylgi málum ekki eftir á jafnmarkvissan hátt.