30.5.2010

Hvaða raðir ætlar ríkisstjórnin að þétta?


Þegar rætt er um úrslit kosninganna, grípa forráðamenn Samfylkingarinnar og spunaliðar þeirra til þeirrar tuggu, að þau séu áfall fyrir „fjórflokkinn“. Eitthvert pólitískt fyrirbrigði, sem aldrei hefur boðið fram á Íslandi en verður til, þegar vinstrisinnar lenda í kosningavanda og vilja ekki horfast í augu við hann, eins og nú er, eða þegar þeir ganga til þess verks að kljúfa einhvern flokkanna vinstra megin við miðju og stofna til nýs framboðs. Hin síðasta, sem það gerði, var engin önnur en Jóhanna Sigurðardóttir, þegar hún stofnaði Þjóðvaka fyrir þingkosningar árið 1995, af því að hún átti ekki samleið með Jóni Baldvini Hannibalssyni, þáverandi formanni Alþýðuflokksins.

Þau ár, sem ég sat á þingi (1991 til 2009), leit ég aldrei á mig í neinum „fjórflokki“. Ég var  og er í Sjálfstæðisflokknum og berst undir merkjum hans, hvort sem honum vegnar vel eða illa. Ég tel flokkinn standa á öflugasta íslenska stjórnmálagrunninum og fylgja bestu stjórnmálastefnunni. Mig undrar, hafi einhverjum dottið í hug að setja samasemmerki á milli mín og Jóhönnu Sigurðardóttur eða Steingríms J. Sigfússonar eða mín og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur eða Svavars Gestssonar. Ég veit ekki heldur til þess, að þau vilji berjast undir sama flokksfána og ég.

Þegar Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, eða aðrir fræðimenn fella einhverja dóma, sem fela í sér fordæmingu á „fjórflokknum“, tek ég það ekki til mín. Ég lít á þessa orðnotkun úr munni spunaliða Samfylkingarinnar og annarra skrímslafræðinga á hennar vegum, sem tilraun til að draga aðra með henni í fallinu. Þess vegna kemur ekki á óvart, að orðið sé mikið notað núna.

Ég heyri einnig í sjónvarpsumræðum nú að sveitarstjórnakosningum loknum, að Bjarni Benediktsson tekur þennan „fjórflokka“ stimpil ekki til sín. Létti mér við að heyra það. Ég tel jafnfráleitt að nota hugtakið „fjórflokkur“ og tala um „stjórnmálastéttina“. Hvaða fólk er það? Að stjórnmálamenn skuli nota þetta orð um sjálfa sig, virðist stundum fela í sér eitthvert snobb niður á við, sem er aldrei neinum til sóma.

Aftur að úrslitum kosninganna. Þau staðfesta þá skoðun, að ríkisstjórnin eigi að segja af sér. Hún hefur ekkert lengur fram að færa. Var hún í raun lögð til hvílu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars. Að henni lokinni tók Jóhanna að tala um, að nú væri ekkert annað eftir en „þétta raðirnar“, þá myndi þetta allt blessast hjá stjórnarliðum. Nú situr hún í Silfri Egils sunnudaginn 30. maí og segir úrslit sveitarstjórnakosninganna sýna, að nú sé tími til þess kominn fyrir stjórnarflokkana að „þétta raðirnar“!

Fyrir þremur mánuðum var helsta baráttumáli ríkisstjórnarinnar, Icesave-samningunum, hafnað með rassskelli. Þá skyldu raðirnar þéttar til að snúast til varnar og til að styrkja ríkisstjórnina. Nú er fylgi Samfylkingar og vinstri grænna komið inn að beini, þótt raðirnar hafi verið þéttar. Hvað á þá að gera að mati Jóhönnu? Jú, þétta raðirnar.

Sagan geymir sögur um hershöfðingja, sem hafa þétt svo raðir liðsmanna sinna eftir mannfall, þar til enginn varð eftir, til þess að skipa þessar raðir. Þegar sagan hefur verið skráð, eru sagnfræðingar almennt þeirrar skoðunar, að skynsamlegra hefði verið að skipta um hershöfðingja en láta hann komast upp með að senda menn sína út í opinn dauðann. Þessi þáttaskil eru örugglega komin í sögu Jóhönnu Sigurðardóttur.

Fyrir Samfylkinguna er skynsamlegra að víkja Jóhönnu til hliðar en hlýða fyrirmælum hennar um að þétta raðirnar. Jóhanna vinnur engar orrustur framar með þeirri aðferð, jafnvel þótt hún tali um stjórnlagaþing, þjóðaratkvæðagreiðslur og persónukjör, svo að ekki sé minnst á fækkun ráðuneyta eða breytingar innan stjórnsýslunnar.

Vandi Samfylkingarinnar er sá, að raðir hennar eru orðnar svo veikar, að margir innan flokksins óttast, að fylkingin þoli ekki formannskjör. Verði til þess blásið er eins líklegt, að þá birtist einhver óvinur „fjórflokksins“ og telji best að kljúfa Samfylkinguna.

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar og leiðtogi hennar í borgarstjórn Reykjavíkur, hlaut hörmulega útreið í kosningunum og „rosalegan skell“ eins og hann viðurkenndi í Silfri Egils, þar sem talað var um, að nú blasti við „tálgað grunnfylgi“ Samfylkingarinnar í Reykjavík, það er 19% fylgi. Með frekari þéttingu raðanna minnkar fylgið enn meira.

Forystuskipti eru ekki aðeins óhjákvæmileg í Samfylkingunni. Þau eru einnig rituð á vegginn hjá vinstri-grænum (VG). Í sjónvarpsumræðum setur Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, gjarnan á langa tölu um allt, sem hann hafi að gera sem fjármálaráðherra og lætur eins og enginn annar geti unnið það starf. Þetta gerir hann í von um að draga athygli frá því, að hann gegnir formennsku í flokki, sem er klofinn ofan í rót.

Er undarlegt, hve Steingrími J. er hlíft við að benda á, að flokkur hans vill stöðva allt, sem aðrir telja þjóðinni til heilla í atvinnumálum. Þegar að er gáð, virðist stundum aðeins um einskonar pólitíska skemmdarfýsn á líðandi stundu að ræða. Hvernig fellur saman sú stefna VG að setja skorður við fjárfestingu útlendinga í orkuvirkjum og mæla með aðildarumsókn að Evrópusambandinu (ESB)?

Ræða Steingríms J. um eigið ágæti og hinn mikla skaða, njóti þjóðin hans ekki í ríkisstjórn, er orðin svo slípuð, að auðheyrt er, að hann hefur flutt hana oft yfir flokksfólki sínu. Nú er spurning, hvort það lætur enn glepjast eða áttar sig á því, að undir forystu Steingríms J. verður ekki gengið lengra flokknum til farsældar. Hverjum dettur til dæmis í hug, að Bretar og Hollendingar vilji leita lausna á Icesave-deilunni í þriðja sinn undir forystu Stengríms J.?

Athyglisvert er, að úrslit sveitarstjórnakosninganna hafa leitt til þess, að Steingrímur J. er hættur að flytja óvildar- eða hatursrolluna um Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er annað hvort til marks um, að hann áttar sig á því, að hún dugar VG ekki til fylgisaukningar, eða hitt, að hann vill koma sér í mjúkinn hjá Sjálfstæðisflokknum. Ráði hið seinna orðræðu Steingríms J., ættu Jóhanna og Össur að hlekkja sig við ráðherrastólana, vilji þau halda þeim.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson voru kjörnir til formennsku í flokkum sínum á síðasta ári. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa flutt formannskeflið í hendur nýrrar kynslóðar. Samfylking og VG eiga það eftir. Úrslit kosninganna 29. maí hljóta að knýja á um umræður um pólitíska framtíð þeirra Jóhönnu og Steingríms J..

Þetta eru að mínu mati megindrættir hinnar stóru pólitísku myndar, sem við blasir að sveirarstjórnakosningum loknum. Spennandi verður síðan að sjá, hvernig Jóni Gnarr og félögum tekst að vinna úr sigri sínum í Reykjavík, þar sem þeir hlutu rúmu 1% meira fylgi en sjálfstæðismenn. Þær fréttir voru fluttar af Jóni Gnarr fyrir hádegi 30. maí, að hann gerði kröfu um borgarstjórastólinn. Í Silfri Egils sagði hann, að sér þætti „rosa spennandi að vera borgarstjóri“ en í því sambandi væri hann tilbúinn að „skoða alla möguleika“. Hann myndi ræða þá við meðframbjóðendur sína og „pólitíska ráðgjafa“ síðar þennan sama dag. Virtust ráðgjafarnir vera einhverjir kunnáttumenn um stjórn- og borgarmál, sem hann nafngreindi ekki. Væntanlega í anda gegnsæis?

Málflutningur Hönnu Birnu Kristjánsdóttur hefur borið af, þegar forystumenn framboðanna í Reykjavík hittast í sjónvarpssal. Ég er sammála því mati hennar, að nú skuli tekin upp ný vinnubrögð í borgarstjórn Reykjavíkur. Það auðveldar Hönnu Birnu að ná því markmiði, að Ólafur F. Magnússon situr ekki lengur í borgarstjórn Reykjavíkur. Þá felur það einnig í sér sögulega breytingu á vettvangi borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hverfur úr borgarstjórn.