4.5.2010

Þriðjudagur, 04. 05. 10.

Augljóst er af fréttum úr borgarstjórn Reykjavíkur í dag, þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, kynnti ársreikning borgarinnar fyrir árið 2009, að ótrúlegum árangri hefur verið náð í rekstri borgarinnar undir forystu Hönnu Birnu. Borgarsjóður var rekinn hallalaus og veruleg umskipti urðu til hins betra í rekstri samstæðunnar, sem undir reikninginn fellur. Hvorki skattar né gjaldskrár fyrir grunnþjónustu hækkuðu á árinu í Reykjavík.

Rekstur borgarsjóðs var jákvæður um 3,2 milljarði króna árið 2009 (var 2,3 milljarðir árið 2008). Veruleg umskipti til hins betra urðu í rekstri samstæðunnar, borgarsjóðs og fyrirtækja á vegum borgarinna miðað við árið á undan. Rekstrarhalli á samstæðunn 2009 var um 1,7 milljarður króna. Hallinn var  hins vegar 71 milljarður árið 2008. Þarna varð því 70 milljarða króna viðsnúningur, hvorki meira né minna.

Hanna Birna sagði þessa góða niðurstöðu að þakka nýjum vinnubrögðum við fjármálastjórn hjá Reykjavíkurborg. Leiðarljós aðgerðaráætlunar til að ná tökum á fjármálum borgarinnar hefði verið að standa vörð um grunnþjónustu, störf og gjaldskrár. Við það hefði verið staðið en  Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður borgarráðs, leiddi starf aðgerðarhóps um fjárhagsmálefnin.

Hin góða fjármálastjórn hjá Reykjavíkurborg og samstaðan, sem um hana hefur náðst, er í hróplegri andstöðu við stjórn ríkisfjármála undir forystu þeirra Jóhönnu og Steingríms J.  Samanburðurinn sýnir best, hve miklu er kastað á glæ, að hafa svo duglitla leiðtoga á þjóðarskútunni - þeir ráða hvorki við verkefni sín né hafa burði til að laða fram samstarfsvilja af hálfu annarra. Ríkisstjórnina mynduðu þau líka af sameiginlegri heift í garð Sjálfstæðisflokkinn og eitrar heiftin enn allt starf á alþingi. Síðustu vikur hefur hún jafnframt beinst að Ólafi Ragnari Grímssyni, sem kallaði þessi ósköp í mynd ríkisstjórnar yfir þjóðina með því að fara á svig við þingræðisregluna.