22.11.2012

Aðalfundur Varðbergs 22. nóvember 2012. Skýrsla formanns


 

 

Þegar Varðberg var stofnað sem samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál  fimmtudaginn 9. desember 2010 runnu saman tvö félög: Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg. Þetta gerðist í framhald af ákvörðun NATO um að loka upplýsingaskrifstofu sinni hér á landi.

Samkvæmt lögum sem samþykkt voru á stofnfundinum ber að halda aðalfund félagsins á tveggja ára fresti og er þetta því fyrsti aðalfundur þess.

Tilgangur Varðbergs er:

·       Að beita sér fyrir umræðum og kynningu á alþjóðamálum, einkum þeim þáttum þeirra sem snúa að öryggis- og varnarmálum á norðurhveli jarðar.

·       Að efla skilning á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta.

·       Að vinna að kynningu á samstarfi og menningu þjóða, sérstaklega störfum og stefnu Atlantshafsbandalagsins.

·       Að hafa samstarf við hliðstæð félög erlendis, eftir nánari ákvörðun stjórnar samtakanna.

Tilgangi sínum hyggst Varðberg ná:

·       Með fundum, málstofum og ráðstefnum með innlendum og erlendum fyrirlestrum.

·       Með samvinnu við háskóla og menntaskóla, rannsóknastofnanir, félög og hugveitur innan lands og utan.

·       Með þátttöku í Atlantic Treaty Association og Young Atlantic Treaty Association.

·       Með útgáfustarfi.

       
Á aðalfundinum voru kosin í stjór:

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, formaður.

Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra og ráðherra.

Gísli Freyr Valdórsson, blaðamaður.

Kjartan Gunnarsson lögfræðingur.

Margrét Cela, doktorsnemi í alþjóðasamskiptum, formaður NEXUS, rannsóknarvettvangs fyrir öryggis- og varnarmál.

Tryggvi Hjaltason, öryggis- og greiningafræðingur.

Þuríður Jónsdóttir, lögfræðingur.

Stjórnin hefur haldið átta bókaða fundi á undanförnum tveimur árum auk þess sem samskipti hafa verið milli manna í tölvubréfum. Stjórn félagsins og samskipti við félagsmenn færðist í netheima eftir að NATO lokaði skrifstofu sinni og félagið glataði starfsaðstöðu sinni þar.

Í upphafi sendi stjórnin félagsmönnum bréf og óskaði eftir netföngum þeirra. Heimtur voru dræmar en tæplega fimm hundruð manns eru á póstlista félagsins af um 800 á gömlu félagaskrám SVS og Varðbergs. Með vefsíðu sem vistuð er hjá Nethönnun og póstlista hefur verið haldið uppi sambandi við félagsmenn og öll reikningsfærsla félagsins er á netinu í samvinnu við Landsbanka Íslands.

Í raun var óvíst að tækist að halda félagsstarfi uppi á þennan hátt. Fyrstu tvö árin hafa hins vegar sýnt að ástæðulaust er að ætla annað en félagið standi á góðum grunni og starfsemi þess eigi erindi.  Vegna netvæðingarinnar er mun ódýrara en áður að hafa samband við félagsmenn. Markmiðið hlýtur að vera að fjölga nöfnum á póstlista félagsins.

Varðberg hefur efnt til eða staðið að tíu fundum á undanförnum tveimur árum. Þar hafa talað prófessorar frá Bandaríkjunum, Danmörku og Noregi auk varaframkvæmdastjóra NATO, Finni og Svíi og Íslendingar, embættismenn, lögreglumenn, sérfræðingar í töluvöryggi og öryggismálum almennt.

Varðberg hefur staðið að fundum með Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Nexus, rannsóknarvettvangi á sviði öryggis- og varnarmála, Rannsóknarsetri um nýsköpun og hagvöxt (RNH), Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál (RSE), Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og English Speaking Union.

Allir fundirnir hafa verið hér á háskólasvæðinu, flestir hér í sal Þjóðminjasafnsins.  Þeir hafa allir nema einn verið hádegisfundir, það er milli 12 og 13.  Hefur stjórn félagsins ákveðið að því að nýta hina ágætu aðstöðu hér á þessum stað og halda að minnsta kosti þrjá fundi á vetri hér undir merkjum félagsins.  Hinn næsti í þeirri röð verður 31. janúar og er stefnt að því að kynna stöðu mála í almannavarna- og öryggismálum ríkisins. Fellur það að áhuga stjórnarinnar á að miðlað sé upplýsingum um borgaralegt öryggi Íslendinga og gæslu þess.

Næsti fundur félagsins verður þó fyrr því að þriðjudaginn 4. desember verður boðað til fundar í Odda, Háskóla Íslands, um viðbrögð norsku lögreglunnar og eftirleik voðaverkanna í Ósló og á Úteyju 22. júlí 2011. Hefur Varðberg átt samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra um þennan fund en von er á fulltrúa norskra lögregluyfirvalda til þátttöku í honum.

Hér mun ég ekki tíunda fundi félagsins frekar en yfirlit yfir þá má skoða með því að lesa skýrslu mína sem birt verður í heild á vefsíðu félagsins vardberg.is auk þess sem ég birti hana á minni eigin vefsíðu.

Samstarfið við Atlantic Treaty Association hefur verið í föstum skorðum. Margt bendir hins vegar til að ATA-samtökunum gangi erfiðleika að fóta sig eftir stækkun NATO. Þingi samtakanna var aflýst á þessu ári vegna stjórnmálaástandsins í Rúmeníu og verður þing haldið í Róm í febrúar.

Ég lýk máli mínu með að þakka samstarfsmönnum í stjórn fyrir góða samvinnu undanfarin tvö ár. Ég tel að okkur hafi tekist að vinna vel í samræmi við tilgang félagsins. Fjárhagsleg staða Varðbergs er góð.

 

 

1.     25. mars 2011 flutti  Laurence C. Smith, prófessor í landafræði við Kaliforníuháskóla í Los Angeles, erindi um The New North:  Our World in 2050  í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins, Var boðað til fyrirlestursins í samvinnu við rannsóknarmiðstöðina RSE.

 

2.     30. mars 2011 flutti Niklas Granholm, aðstoðar-rannsóknarforstjóri Rannsóknarstofnunar alvarna í Svíþjóð, erindi: A New Arctic – Strategic Issues in a Changing Region  - Nýtt Norðurskaut – öryggismál á breytingatímum- í Öskju, húsi Háskóla Íslands.  Var boðað til fyrirlestursins í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og  Nexus, rannsóknarvettvang á sviði öryggis- og varnarmála.

 

3.     1. júlí 2011 flutti Claudio Bisogneiro, varaframkvæmdastjóri NATO, erindi um NATO og áskoranir 21. aldarinnar í Öskju, Háskóla Íslands. Var boðað til fundarins í samvinnu við Alþjóðamálastofnun HÍ og Nexus.

 

4.     11. október 2011 flutti Henrik Lax, finnskur stjórnmálamaður og sérfræðingur um rússnesk stjórnmál,  fyrirlestur um Rússland og helstu áskoranir þess í öryggis-og varnarmálum í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns.  Var boðað til fundarins í samvinnu við Alþjóðamálastofnunar HÍ og English Speaking Union.

 

5.     26. janúar 2012 efndi Varðberg til fundar um Norðurslóðir og borgaralegt öryggi Ellisif Tinna Víðisdóttir lögfræðingur talaði um Norðurslóðir: Hlutverk NATO, hernaðarlegt og borgaralegt öryggi og Margrét Cela doktorsnemi fjallaði um Norðurslóðir: Hernaðarkapphlaup um náttúruauðlindir, hnattvæðing, eða friður og stöðugleiki? Fundurinn var haldinn í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns.

 

6.     8. mars 2012 efndi Varðberg til fundar um Skipulagða glæpastarfsemi – viðbrögð lögreglu. Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn ræddi spurninguna: Ráða íslensk lögregluyfirvöld við skipulagða brotastarfsemi? og  Jón F. Bjartmarz yfirlögregluþjónn  talaði um Skipulagða glæpastarfsemi og alþjóðlega lögreglusamvinnu. Fundurinn var í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns.

 

7.     26. apríl 2012 efndi Varðberg til fundar um Öryggi í rafrænum viðskiptum. Guðmundur Kr. Tómasson, framkvæmdastjóri greiðslukerfa hjá Seðlabanka Íslands ræddi um Rafræna greiðslumiðlun – greiðslu- & uppgjörskerfi og Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, nefndi erindi sitt: Að vera á undan skúnkunum. Fundurinn var í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns.

 

8.     10. september  2012 flutti Dr. Niels Erik Rosenfeldt, prófessor emerítus í sagnfræð Kaupmannahafnarháskóla, erindi um Leynistarfsemi kommúnista. Varðberg stóð að fundinum með Rannsóknarsetri um nýsköpun og hagvöxt (RNH) og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Fundurinn var haldinn í Odda.

 

9.     21. september 2012 flutti Øystein Sørensen, sagnfræðiprófessor við háskólann í Osló erindi um Alræðishugarfar fjöldamorðingans Breiviks. Varðberg stóð að fundinum með RNH. Hann var haldinn á Háskólatorgi HÍ.

 

10.  22. nóvember 2012 flutti Einar Benediktsson, fyrrv. sendiherra, erindi um Ný viðhorf í varnarmálum. Fundurinn var í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns.