19.11.2012 22:55

Mánudagur 19. 11. 12

Enn einu sinni skiptast Ísraelar og Hamas-hryðjuverkamenn á eldflaugaárásum. Eldlaugum sem Hamas hefur fengið frá Íran er skotið frá Gaza inn í Ísrael, því lengra sem þær draga þeim mun þyngri vopnum beita Ísraelar. Þá hefur her Ísraels verið settur í viðbragðsstöðu og varalið virkjað. Innrás á Gaza-svæðið er hótað.

Átökin nú eru við allt aðrar aðstæður en áður. Nýir stjórnarherrar eru í Egyptalandi. Í Kairó leita menn samkomulags um vopnahlé. Í Reykjavík efna ráðherrar til mótmæla við bandaríska sendiráðið og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flytur ræðu um að ástæða sé til að mótmæla þar af því að Bandaríkjamenn leggi Ísraelum lið.

Fyrir norðan Ísrael í Sýrlandi hefur forseti landsins beitt hervaldi gegn borgurum eigin lands og ástandið er miklu verra en á Gaza-svæðinu . Sýrlenskir borgarar eru ekki óhultir gagnvart eigin yfirvöldum. Hvað eftir annað hefur verið reynt að ná samkomulagi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um róttækar alþjóðlegar ráðstafanir til að stöðva hina grimmu ráðamenn í Damaskus. Rússar og Kínverjar beita neitunarvaldi í ráðinu til að hindra framgang mála sem þeir telja að þrengi um of af Sýrlandsforseta. Hefur nokkur íslenskur ráðherra séð ástæðu til að taka til máls fyrir utan sendiráð Rússlands eða Kína í Reykjavík til að mótmæla stuðningi stjórnvalda þessara ríkja við Sýrlandsforseta?

Óvildin í garð Ísraels fer á einkennilegan hátt út fyrir skynsamleg mörk hjá þeim innan Samfylkingarinnar og meðal vinstri grænna sem keppa um fylgi þeirra hópa hér á landi sem berjast fyrir rétti Palestínumanna. Að mótmæla við sendiráð Bandaríkjanna til að láta í ljós óvild í garð Ísraela er einskonar kjækur. Vildi Bandaríkjastjórn koma í veg fyrir pólitískan þrýsting á Ísraela á alþjóðavettvangi hefði hún beitt neitunarvaldi gegn þátttöku aðalritara Sameinuðu þjóðanna í vopnahlésfundum í Kairó.

Eðlilegt er að skoða andstöðu Ögmundar innanríkisráðherra við forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu í ljósi þátttöku hans í mótmælaaðgerðum við bandaríska sendiráðið.