30.11.2012 21:10

Föstudagur 30. 11. 12

Það snjóaði í Stokkhólmi í dag. Margt fólk var þó á ferli á verslunargötum.

Í Hallwylska Museet sem er í Hallwylska palatset (Hallwylska-höllinni) í miðborg Stokkhólms má nú sjá sýningu á kjólum sem frúrnar klæðast í sjónvarpsþáttunum Downton Abbey. Höllin var reist á árunum 1893 til 98 sem vetrarheimili fyrir Walther og Wilhelminu von Hallwyl. Hjónin gáfu sænska ríkinu húsið árið 1920 til að þar yrði safn og var það opnað árið 1938.

Í Nóbelsafninu við Stortorget, Gamla Stan, er nú sérstök sýning tileinkuð Hertu Müller (f. 1953) sem hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2009. Þar má sjá við hve mikið ofríki hún bjó í Rúmeníu á stjórnarárum Ceausescu-hjónanna. Hún hóf feril sinn sem rithöfundur til að brjótast undan því oki öllu og kommúnismanum.

Í Nóbelsafninu er margt til sýnis sem tengist Nóbelsverðlaunahöfum í áranna rás, þar á meðal viðtöl við þá sem hafa fengið þau hin síðari ár og myndskreyttar frásagnir af eldri verðlaunahöfum.

Ummæli þeirra eiga það sammerkt að enginn stefndi að uppgötvun eða afreki sem leiddi til Nóbelsverðlauna. Þeir hlutu þau fyrir eitthvað sem varð til vegna mikillar menntunar, þjálfunar, vinnu og þrautseigju. Að lokum réð oft tilviljun eða hugmynd sem vaknaði annars staðar en við skrifborðið eða rannsóknartækin að rambað var á eitthvað sem leiddi til verðlaunanna.