7.12.2012 23:40

Föstudagur 07. 12. 12

Eitthvað óraunverulegt og því í anda Lohengrins var að sitja í Fljótshlíðinni og horfa á óperu Richards Wagners Lohengrin í beinni útsendingu frá La Scala í Mílanó í Arte. Tómas Tómasson baritónn syngur eitt aðalhlutverkið sem Friedrich von Telramund. Jonas Kaufman er Lohengrin. Anja Harteros átti að syngja hlutverk Elsu von Brabant en hún er með flensu og einnig Ann Petersen sem æfði hlutverkið til vara. Til að bjarga málum var kallað í Annette Dasch sem hefur sungið Elsu í Bayreuth síðan 2010, hún kom ekki til Mílanó fyrr en í gærkvöldi. Þýska söngkonan Evelyn Herlitzius  fer með hluverk Ortrud. Þjóðverjinn René Pape er Heinrich konungur. Daniel Barenboim stjórnar hljómsveitinni.

Að Tómas Tómasson skuli syngja eitt aðalhlutverka í þessari uppfærslu Scala staðfestir aðeins hve langt hann hefur náð í list sinni. Hann stóð þarna jafnfætis hinum fremstu.

Rætt var við Barenboim í hléi. Hann sagði að við flutning verksins yrðu menn að hafa  í huga sem Wilhelm Furtwängler hefði sagt að líta þyrfti á samhengið milli fyrsta tóns verksins og hins síðasta, það væri hin eina rétta strategíska sýn, ekki mætti gleyma sér í taktískum atriðum sem hvert og eitt væru hluti heildarmyndarinnar en ekki atriði fyrir sig. Sýningin er í þessum anda og áhorfendur rjúfa hana aldrei með því að klappa eftir arírur. Verkið flýtur áfram eins og svanur á lygnu fljóti.

Með frumsýningunni á Lohengrin hefst starfsár Scala-óperunnar 2012-2013. Á árinu verður minnst 200 ára afmælis Þjóðverjans Wagners annars vegar og Ítalans Giuseppe Verdis hins vegar. Hneykslast margir á að Wagner skuli vera á undan Verdi. Barenboim sagði að þetta tal væri tóm vitleysa. Afmælisárið væri 2013 og nú væri 2012, Verdi yrði minnst að verðleikum.

Girorgio Napolitano, forseti Ítalíu, var dreginn inn í deiluna um Wagner eða Verdi þegar látið var að því liggja að hann sækti ekki frumsýninguna til að mótmæla verkefnavalinu. Forsetinn sagði þetta rangt. Hann þyrfti að sinna skyldustörfum í Róm, sér væri misboðið með hinni ómaklegu gagnrýni á Scala. Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, sást meðal óperugesta og lét ekki trufla sig þótt flokkur Berlusconis hefði horfið frá stuðningi við ríkisstjórnina í gær. José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, komst ekki til Milanó vegna snjókomu í Brussel.

Hinn 15. janúar verður Falstaff eftir Verdi frumsýnd. Á árinu 2013 verða sjö óperur Verdis fluttar og sex eftir Wagner.

Fylgjast mátti með sýningunni í sjónvarpi og 600 kvikmyndahúsum um heim allan auk þess var skjám komið fyrir utan dyra víða í Mílanó. Undir klukkan 22.00 að íslenskum tíma varð tæknileg bilun í nokkrar mínútur. Þá rofnaði sendingin einnig þegar listamönnunum var fagnað í lokin.