2.12.2012 23:55

Sunnudagur 02. 12. 12.

Wagner-félagið sýndi í Norræna húsinu mynd sem breski leikarinn og þáttargerðarmaðurinn Stephen Fry hefur gert um aðdáun sína á Richard Wagner og ferð á sumarhátíðina í Bayreuth. Fry er gyðingur og varð að gera upp við misnotkun Adolfs Hitlers og nasista á Wagner áður en hann settist í hinn einstaka sal á Grænu hæðinni í Bayreuth og naut verka Wagners.

Myndin er vel gerð eins og aðrar heimildarmyndir Frys. Mat hans er að list Wagners eigi ekki að gjalda þess að Hitler hreyfst af henni og því síður að ýmsir úr fjölskyldu Wagners hrifust af nasisma. Athyglisvert að breskir makar afkomenda Wagners  gengu lengst í aðdáun á Hitler og boðun þjóðernisstefnu.

Athygli mín var vakin á því af öryggissérfræðingum í Stokkhólmi að á Íslandi gilti enn regla við öryggisskoðun vegna flugferða sem ekki gilti annars staðar í Evrópu, að menn þyrftu að fara úr skónum. Á Arlandaflugvelli er þess ekki krafist og ekki heldur að maður taki af sér beltið. Hvað veldur þessum mun? Maður sem flaug um London frá Toronto sagðist hafa orðið að fara úr skónum á Heathrow-flugvelli. Hvers vegna þar en ekki á Arlanda?