17.8.2015 20:45

Mánudagur 17. 08. 15

Af umræðum hér á landi um viðskiptabannið á Rússa mætti ætla að menn teldu að í því fælist að bannað sé að selja matvæli til Rússlands. Málum er ekki þannig háttað heldur hafa Pútín og félagar ákveðið að setja matvæli frá ríkjunum sem standa að viðskiptabanninu á heimatilbúinn bannlista til að koma höggi á matvælaframleiðendur í þessum löndum.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki skuldbundið sig til að banna útflutning á matvælum til Rússa – það er Pútín sem vill ekki sjá makríl eða önnur matvæli frá Íslandi. Það er því hann sem hefur rofið 70 ára viðskiptatengsl Íslendinga og Rússa. Hann sættir sig ekki við að því sé mótmælt að hann braut alþjóðalög með innlimun Krímskaga í Rússland.

Þegar listinn yfir bannaðgerðir í nafni EES-ríkjanna gagnvart Rússlandi er lesinn er erfitt að sjá að nokkuð af þeim snerti Íslendinga eða íslensk fyrirtæki beint. Að Pútín mundi svara aðgerðum sem snerta þátttöku í starfi G8 ríkjahópsins, ferðafrelsi nokkurra tuga Rússa, fjármálasamskipti við sérgreind rússnesk fyrirtæki, sölu vopna og hátæknibúnaðar með því að skrúfa fyrir fiskinnflutning frá Íslandi er harla langsótt svo að ekki sé meira sagt.

Á tíma Sovétríkjanna gilti bann við sölu hátæknibúnaðar frá Vesturlöndum til þeirra. Árið 1987 lentu norsku Kongsberg-vopnasmiðjurnar til dæmis í miklum vandræðum þegar Bandaríkjamenn ákváðu að refsa þeim fyrir að selja hátæknibúnað til japanska fyrirtækisins Toshiba sem sagt var að hefði síðan selt hann til Sovétríkjanna sem búnað til að gera kafbáta hljóðlátari. Gro Harlem Brundtland, þáv. forsætisráðherra Noregs, ritaði Ronald Reagan Bandaríkjaforseta afsökunarbréf og baðst vægðar fyrir ríkisfyrirtækið Kongsberg,

Enginn hefur haldbæra skýringu á hvers vegna Pútín grípur til þess óheillaráðs að banna innflutning á matvælum frá Vesturlöndum og kallar yfir sig reiði heimafyrir. Bent er á að hann vilji ef til vill ýta undir þá tilfinningu meðal Rússa að þeir séu umkringdir óvinum og efla þannig stuðning við sjálfan sig, hetjuna sem allir óttist. Ekki er þó allt sem sýnist í Kremleins sjá má hér.