31.12.2008 5:04

Miðvikudagur, 31.12. 08.

Hjá mér er ekki fastur liður á gamlársdag að horfa á Kryddsíldina umræðuþátt Stöðvar 2 með forystumönnum stjórnmálaflokkanna. Heiti þáttarins þykir mér best, með því er haldið í þýðingarvillu í Morgunblaðinu á sínum tíma. Þar var heiti á umræðuþætti í danska útvarpinu, sjónvarpi eða hljóðvarpi, Krydsild, íslenskað sem kryddsíld, þegar þær Margrét Danadrottning og Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, voru þar saman - ef ég man rétt.

Með danska orðinu krydsild er því lýst, þegar skotið er úr tveimur gagnstæðum áttum, og segja má, að það hafi gerst á hótel Borg í dag, þegar Kryddsíldin var í loftinu, því að þá var bæði „skothríð“ innan dyra undir stjórn Sigmundar Ernis Rúnarssonar og utan undir stjórn einhverra annarra, sem segjast að vísu hafa verið stjórnlausir, en tókst að stöðva útsendinguna og eyðileggja auk þess tæki Stöðvar 2 og valda milljónaskemmdum að sögn Sigmundar Ernis.

Lögregla varð að beita piparúða til að rýma hótel Borg. Þá var sjúkralið kallað á vettvang til að hlú að þeim, sem urðu fyrir úðanum eða meiddust vegna mótmælanna.

Allt hefur þetta síðan dregið skrýtinn dilk á eftir sér eins og sjá má hér og á síðu Egils Helgasonar, sem á sínum tíma stjórnaði Kryddsíldinni, en finnst ekki mikið til hennar koma.

Má segja, að árið endi með dálitlum fjölmiðlastæl, þótt vissulega hefði hann mátt vera friðsamlegri og vingjarnlegri. Hvað er áunnið með því að trufla útsendingu umræðuþáttar? Er ekki ávallt verið að hvetja til þess, að rætt sé saman og leitast við að skýra málin?

Lögregla lýsir atburðum þannig:

„Þrír karlar voru handteknir við Hótel Borg en þar söfnuðust saman liðlega 200 mótmælendur um tvöleytið í dag. Fólkið ætlaði að brjóta sér leið inn á hótelið en þar stóð yfir bein útsending Stöðvar 2 á þættinum Kryddsíld en gestir þáttarins voru forystumenn stjórnmálaflokkanna. Kom til átaka en mótmælendur virtu að vettugi margítrekuð fyrirmæli lögreglu. Hópur fólks ruddist inn í portið sem þarna er og síðan inn um hliðardyr hótelsins. Litlum sprengjum var kastað inni og myndaðist þar talsverður reykur en mótmælendum tókst ekki að komast inn í útsendingarsalinn. Að minnsta kosti einn starfsmaður Stöðvar 2 slasaðist í átökunum og þá voru unnar skemmdir á búnaði sjónvarpsmannanna. Lögreglan beitti varnarúða en margir mótmælendanna létu mjög ófriðlega. Þeir létu sér ekki segjast og hófu ennfremur grjótkast og fóru lögreglumenn ekki varhluta af því. Einn lögreglumaður var fluttur á slysadeild en sá fékk grjót í andlitið og reyndist vera kinnbeinsbrotinn.

Hinir handteknu, sem allir neituðu að hlýða fyrirmælum lögreglu, eru á þrítugs- og sextugsaldri og einn er undir tvítugu. Þeir voru færðir á lögreglustöð og verða yfirheyrðir þar.“